Hæstiréttur íslands
Mál nr. 867/2016
Lykilorð
- Stjórnarskrá
- Afturvirkni
- Eignarréttur
- Veðsetning
- Lífeyrissjóður
- Ógilding samnings
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. desember 2016. Hann krefst þess að ógilt verði samþykki hans og undirritun á veðskuldabréf nr. 661873 um að veita stefnda veð í fasteigninni að Dunhaga 18 í Reykjavík, fastanúmer 202-8182, og að stefnda verði gert að aflýsa veðskuldabréfinu af fasteigninni að Grandavegi 45 í Reykjavík, fastanúmer 202-4983. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi gekkst áfrýjandi í ábyrgð fyrir láni, sem tengdasonur hans, Halldór Jónsson, tók 10. nóvember 1999, með því að veita veð í fasteigninni að Dunhaga 18 í Reykjavík. Áritaði áfrýjandi fyrrgreint veðskuldabréf um samþykki sitt sem þinglýstur eigandi hinnar veðsettu eignar. Í tengslum við lánsumsókn útgefanda veðskuldabréfsins undirritaði áfrýjandi jafnframt yfirlýsingu um veðheimild á stöðluðu formi. Þar sagði meðal annars að hann gerði sér „fyllilega grein fyrir þeim skuldbindingum sem felast í því að veita heimild til að veðsetja fasteign mína. Það sem felst meðal annars í þessari yfirlýsingu er að undirritaður veðeigandi er meðvitaður um að hann gæti þurft að greiða þessa skuld eins og hann væri lántakandi sjálfur.“ Skilmálum lánsins var breytt 5. febrúar 2004, 12. maí 2006 og 4. febrúar 2008, þar sem fram kom í öllum tilvikum að það væri í vanskilum, og undirritaði áfrýjandi skilmálabreytingarnar sem eigandi hinnar þinglýstu eignar án athugasemda.
Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt endurrit fjárnámsgerðar 22. febrúar 1999, en samkvæmt því var gert fjárnám hjá áðurnefndum lántaka í bifreið hans fyrir skuld að höfuðstól 104.050 krónur. Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að fjárnámið hafi leitt til þess að lántakinn hafi farið á vanskilaskrá. Þegar af þeirri ástæðu getur þetta engu breytt um úrslit málsins.
Samkvæmt framansögðu, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Benedikt Andrésson, greiði stefnda, Gildi - lífeyrissjóði, 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2016.
I
Mál þetta, sem var dómtekið 26. september 2016, er höfðað 29. janúar 2016 af Benedikt Andréssyni, Fróðengi 3 í Reykjavík, gegn Gildi lífeyrissjóði, Guðrúnartúni 1 í Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að ógilt verði með dómi samþykki hans og undirritun á veðskuldabréf nr. 661873, um að veita stefnda veð í fasteigninni Dunhaga 18 í Reykjavík fnr. 202-8182, og að stefnda verði gert að aflýsa veðskuldabréfinu af fasteigninni Grandavegi 45 í Reykjavík, fnr. 202-4983 sem það hvílir á í dag. Stefnandi krefst enn fremur málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda auk málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
II
Málavextir eru þeir helstir að Halldór Jónsson, tengdasonur stefnanda, gaf 10. nóvember 1999 út skuldabréf þar sem hann viðurkenndi að skulda forvera stefnda, Lífeyrissjóðnum Framsýn, tvær milljónir króna. Lánið var til 30 ára og átti að endurgreiða það með 360 afborgunum. Lánið var verðtryggt og bar breytilega vexti í samræmi við hæstu gildandi vexti af hliðstæðum lánum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum.
Til tryggingar á greiðslu höfuðstóls, verðbóta, vaxta og dráttarvaxta, sem og alls kostnaðar, var fasteignin að Dunhaga 18 í Reykjavík veðsett. Stefnandi undirritaði skuldabréfið sem þinglýstur eigandi. Stefnandi undirritaði einnig 2. nóvember 1999 yfirlýsingu vegna lánveitingarinnar. Þar lýsti hann því yfir að hann gerði sér „fyllilega grein fyrir þeim skuldbindingum sem“ fælust í veðsetningunni og að hann væri „meðvitaður um að hann gæti þurft að greiða skuldina eins og hann væri lántakandi sjálfur“.
Hinn 5. febrúar 2004, 12. maí 2006 og 4. febrúar 2008 voru gerðar breytingar á skilmálum skuldabréfsins á þann veg að vanskilum var bætt við uppreiknaðan höfuðstól og lánstíminn lengdur. Stefnandi undirritaði skilmálabreytingarnar sem þinglýstur eigandi hinnar veðsettu fasteignar.
Í málinu liggja fyrir innheimtubréf og áminningar frá árunum 2009 og 2010 til lántaka og stefnanda um vanskil af skuldabréfinu og tilkynningar um að innheimtubréf hefðu verið send skuldara. Þá liggur fyrir greiðsluáskorun, dags. 5. maí 2010, til stefnanda þar sem tilkynnt var að stefnda hefði verið falið að innheimta hjá honum vangreiddar afborganir og eftirstöðvar skuldabréfsins auk vaxta og kostnaðar, samtals 255.577 krónur. Með bréfinu var skorað á stefnanda að greiða skuldina innan 15 daga, en að þeim tíma liðnum yrði krafist nauðungarsölu á hinni veðsettu fasteign.
Lántakanum var veitt heimild til þess að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar samkvæmt X. kafla a í lögum nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009, með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2010. Umsjónarmaður með greiðsluaðlögun mælti með því að greiðsluaðlögun kæmist á. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2010 var staðfestur nauðasamningur þess efnis að lántaki greiddi 140.000 krónur á mánuði í fjögur ár inn á samningskröfur, en að þeim tíma liðnum myndu eftirstöðvar falla niður. Skuld samkvæmt framangreindu skuldabréfi nam 19,38% af samningsskuldum og var því gert ráð fyrir að 27.129 krónur kæmu mánaðarlega í hlut stefnda á næstu fjórum árum. Fyrstu greiðsluna átti að inna af hendi 5. september 2010. Greiðslur lántaka samkvæmt nauðasamningnum áttu hvorki að bera vexti né að vera verðtryggðar á tímabilinu. Ágreiningslaust er að lántaki innti af hendi þær greiðslur til stefnda sem nauðasamningur um greiðsluaðlögun kvað á um.
Hinn 3. maí 2011 ritaði stefndi stefnanda bréf þar sem fram kom að óvissa hefði ríkt um áhrif nauðasamninga á veðtryggingar í eign þriðja manns vegna ákvæðis 3. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn. Í bréfinu segir að leyst hafi verið úr þessari óvissu með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 274/2010. Af honum réð stefndi að veðkrafa héldi gildi sínu þó að lántaki fengi skuldina gefna eftir. Með hliðsjón af þessu óskaði stefnandi eftir því að eiga fund með stefnanda og lántaka um stöðu lánsins og mögulegt framhald þess. Auk þess var stefnanda kynnt efni verklagsreglna stefnda frá 13. apríl 2011 er lutu að lánsveði þegar lántaki fengi staðfestan nauðasamning til greiðsluaðlögunar eða samning til greiðsluaðlögunar. Stefnandi kveður lántaka hafa átt í samskiptum við stefnda í tilefni af þessu bréfi þar sem hann á að hafa lýst þeirri afstöðu að bindandi greiðsluaðlögunarsamningur hefði komist á með staðfestingu hans fyrir dómi.
Hinn 6. janúar 2015 samþykkti stefndi beiðni um að flytja veð samkvæmt framangreindu skuldabréfi yfir á Grandaveg 45 í Reykjavík. Stefndi ritaði lántaka og stefnanda innheimtubréf 1. júlí 2015 í tilefni af vanskilum allt frá 5. febrúar 2015. Krafan var samtals að fjárhæð 142.273 krónur, en þar af nam greiðsla höfuðstóls 56.076 krónum. Innheimtu stefnda gagnvart lántaka var mótmælt með bréfi lögmanns hans 13. júlí 2015 og mun öllum innheimtuaðgerðum gegn lántaka hafa verið hætt í kjölfarið.
Stefnanda var send greiðsluáskorun, dags. 2. nóvember 2015, vegna framangreindra vanskila. Nam krafa um greiðslu höfuðstóls 102.338 krónum, en að teknu tilliti til samnings- og dráttarvaxta, sem og annars kostnaðar, nam krafan samtals 236.210 krónum. Í greiðsluáskoruninni var skorað á stefnanda að greiða skuldina eða semja um greiðslu hennar innan 15 daga, en að þeim tíma liðnum yrði krafist nauðungarsölu á hinni veðsettu fasteign. Í kjölfarið mun lögmaður stefnanda hafa boðað að mál yrði höfðað um veðrétt stefnda og innheimtu sjóðsins á hendur stefnanda.
III
1. Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir aðallega á því að með því að skuld lántaka var felld niður samkvæmt úrskurði héraðsdóms um staðfestingu nauðasamnings til greiðsluaðlögunar hafi allar kröfur gegn stefnanda einnig fallið niður, enda enginn fyrirvari gerður um annað í úrlausn héraðsdóms. Þessu til stuðnings vísar stefnandi einkum til 3. mgr. 9. gr. laga nr. 33/2009, um ábyrgðarmenn, en þar komi skýrt fram að nauðasamningur eða önnur eftirgjöf, þ.m.t. nauðasamningur til greiðsluaðlögunar og samningur um greiðsluaðlögun, þar sem kveðið er á um lækkun kröfu á hendur lántaka eða aðalskuldara, skuli hafa sömu áhrif til lækkunar á kröfu á hendur ábyrgðarmanni.
Stefnandi vísar til þess að þar sem héraðsdómur hafi úrskurðað um nauðasamninginn eftir að lög um ábyrgðarmenn tóku gildi sé hvorki um afturvirka löggjöf að ræða né feli hún í sér skerðingu á eignarrétti stefnda, en engin andmæli hafi komið fram við meðferð málsins fyrir dómi. Hafi stefndi mátt vita strax er frumvarp til nauðasamninga var lagt fram hver áhrif nauðasamningsins yrðu á ábyrgðarskuldbindingu stefnanda enda höfðu lögin þá þegar tekið gildi. Stefnandi telur að staðan í þessu máli sé að þessu leyti ólík þeirri sem hafi verið til staðar í hæstaréttarmálinu nr. 274/2010.
Í því sambandi er á það bent að stefndi er lífeyrissjóður og einn stærsti fjárfestir á Íslandi með fjölda sérfræðinga í þjónustu sinni. Þar sem engar athugasemdir hafi komið fram af hálfu stefnda og hvorki stefndi né annar kröfuhafi hafi kært úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar eigi res judicata áhrif úrskurðarins að valda því að framangreind veðsetning sé fallin niður.
Stefnandi byggir einnig á því að fella beri niður ábyrgðarskuldbindingu hans gagnvart stefnda þar sem stefndi hafi á engum tímapunkti tilkynnt stefnanda að lántaki hefði óskað eftir nauðasamningi til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um ábyrgðarmenn beri lánveitanda að tilkynna ábyrgðarmanni m.a. um vanefndir lántaka og þegar bú lántaka hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Í skýringum við 7. gr. frumvarpsins sem varð að lögunum komi fram að meginsjónarmiðið sé það að lánveitanda beri að tilkynna ábyrgðarmanni um öll þau atvik sem áhrif geti haft á forsendur ábyrgðar, ábyrgðarmanni í óhag. Engum geti dulist að þegar lántaki leiti eftir nauðasamningi til greiðsluaðlögunar sé það í allflestum tilvikum ábyrgðaraðila í óhag, sérstaklega þegar nauðasamningur kveði á um niðurfellingu eftirstöðva skuldar lántakans. Stefnandi hafi ekki átt kost á því að láta málið til sín taka þó að stefnda hafi mátt vera ljóst að stefnandi hefði af því mikla hagsmuni, a.m.k. ef stefndi hafði á því stigi fyrirætlanir um að krefja stefnanda síðar um greiðslu ábyrgðarinnar.
Stefnandi byggir einnig á því að ábyrgðin sé niður fallin vegna verulegrar vanrækslu stefnda á tilkynningarskyldu skv. 1. mgr. 7. gr. laga um ábyrgðarmenn, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Telur stefnandi að sú háttsemi stefnda að þegja þunnu hljóði yfir fyrirhuguðum nauðasamningi lántaka allt til 3. maí 2011, rúmlega ári eftir að lántakinn hafði fengið heimild til þess að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar, verði að teljast veruleg vanræksla af hálfu stefnda er leiði til niðurfellingar ábyrgðar. Telur hann að það hefði verið sérlega mikilvægt að tryggja aðkomu stefnanda að málinu ef hugur stefnda stóð til þess að honum yrði gert að greiða skuldina að fullu í kjölfar niðurfellingar hennar gagnvart lántaka.
Stefnandi telur enn fremur að það sé verulega ósanngjarnt í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936, að krefjast efnda á samningi um veðsetningu fasteignar stefnanda. Því beri að ógilda þann hluta skuldabréfsins. Þessu til stuðnings er á því byggt að nauðsynlegt hafi verið að meta greiðslugetu lántakans í ljósi þess að veð frá þriðja aðila var sett til tryggingar á endurgreiðslu skuldarinnar. Þó að stefndi hafi ekki verið aðili að samkomulagi um notkun ábyrgða að skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 (upphaflega frá 1998) þá hafi samkomulagið aðeins falið í sér staðfestingu á góðum viðskiptaháttum og viðskiptavenju við veitingu peningalána gegn ábyrgð þriðja aðila. Vísar stefnandi til dóms Hæstaréttar Íslands frá 18. september 2003 í málinu nr. 3/2003 þessu til stuðnings.
Stefnandi dregur þá ályktun af þeim gögnum sem lágu að baki lánveitingu forvera stefnda að hann hafi látið sér í léttu rúmi liggja hvort lántakinn gæti endurgreitt lánið. Er það enda í samræmi við lánareglur forvera stefnda eins og þær voru á lántökudegi.
Að öllu ofansögðu telur stefnandi ljóst að ógilda beri veðsetningu fasteignarinnar í tengslum við útgáfu tengdasonar stefnanda á skuldabréfi nr. 661873. Kröfu sína um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
2. Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að lánveiting samkvæmt veðskuldabréfi nr. 661873, útgefnu 10. nóvember 1999, sé í einu og öllu lögmæt, þ.m.t. veðsetning fasteignar stefnanda, og að stefndi hafi á engan hátt vanrækt skyldur sínar sem lánveitandi gagnvart lántaka eða stefnanda sem veðsala.
Stefndi leggur áherslu á að hann, eins og forveri hans, Lífeyrissjóðurinn Framsýn, starfi sem lífeyrissjóður á grundvelli ákvæða laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Í samræmi við ákvæði laganna hafi Lífeyrissjóðurinn Framsýn sett sér samþykktir sem staðfestar hafi verið af hlutaðeigandi ráðherra. Starfsemi lífeyrissjóðanna lúti ströngu eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Fjárfestingastefnu þeirra sé markaður rammi í þessum sömu lögum. Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 36. gr. laganna sé þeim heimilað að ávaxta fé sitt til hagsbóta fyrir sjóðfélaga sína með kaupum á skuldabréfum tryggðum með veði í fasteign að hámarki 75% af metnu markaðsvirði, nema þegar um sérhæft atvinnuhúsnæði er að ræða, en þá skal hámarkið vera 35%. Í samræmi við framangreint og ákvæði gr. 8.1.4 í samþykktum Lífeyrissjóðsins Framsýnar, hafi stjórn sjóðsins sett reglur um lánveitingar til sjóðfélaga sinna.
Stefndi bendir á að samkvæmt þágildandi lánareglum sjóðsins hafi sjóðfélagar átt rétt á láni að uppfylltum nánar greindum skilyrðum. Aðeins hafi verið lánað gegn fasteignaveði í íbúðarhúsnæði og veðsetningarhlutfall hafi aldrei mátt verða hærra en 60% af fasteignamati eignar eða sölumati löggilts fasteignasala. Væri þess óskað af hálfu lífeyrissjóðsins var skylt að leggja fram greiðslumat. Sérstaklega hafi verið tekið fram að þegar um lánsveð væri að ræða skyldi lögð fram skrifleg yfirlýsing eiganda viðkomandi eignar um að hann gerði sér grein fyrir þeim skuldbindingum sem hann væri að takast á hendur.
Stefndi kveður stefnanda hafa undirritað slíka yfirlýsingu 2. nóvember 1999. Stefndi heldur því þess vegna fram að stefnandi hafi verið vel upplýstur um þýðingu veðsetningarinnar og þá áhættu sem í henni fólst. Telur stefndi að sú skylda hafi hvílt á stefnanda að kynna sér sérstaklega þá áhættu sem hafi verið samfara því að heimila veðsetninguna og afla upplýsinga um lántaka og lánareglur lífeyrissjóðsins að öðru leyti. Stefnanda hafi verið eða mátti vera fullkunnugt um áhættu, reglur og verklag tengt lánveitingum Lífeyrissjóðsins Framsýnar. Þá tekur stefndi fram að staða lántaka hafi verið könnuð sérstaklega í vanskilaskrá og að ekkert hafi bent til þess að ástæða væri til þess að draga greiðslugetu hans í efa.
Stefndi bendir einnig á að lántaki og stefnandi hafi verið bundnir fjölskylduböndum. Við lánveitingar stefnda og fleiri lífeyrissjóða hafi tíðkast í marga áratugi að vandamenn heimili veðsetningu fasteignar sinnar til að sjóðfélagar geti fengið lífeyrisjóðslán. Tengsl stefnanda og lántaka hafi enn fremur haft þau áhrif að rétt og skylt sé að leggja á stefnanda að afla upplýsinga um lántaka. Aðgangur sjóðfélaga að sjóðfélagalánum stefnda sé og hafi verið stór og mikilvægur hluti af félagslegum rétti sjóðfélaga og hafi Lífeyrissjóðurinn Framsýn og stefndi kappkostað að mismuna ekki sjóðfélögum í þeim efnum. Lánveiting til sjóðfélaga, sem byggi á skýrum og málefnalegum lánareglum, hafi í gegnum tíðina gefið foreldrum og öðrum aðilum, sem nákomnir væru ungum sjóðfélögum, tækifæri til þess að liðsinna við íbúðarkaup o.fl. með veitingu veðleyfis í stað beinna fjárframlaga. Hlutverk og tilgangur sjóðfélagalána hafi því almennt verið annað en lánveitinga bankastofnana sem veitt séu í viðskiptalegum tilgangi.
Stefndi tekur fram að hann eða Lífeyrissjóðurinn Framsýn hafi aldrei haldið því fram gagnvart stefnanda eða lántaka að lántaki hafi verið greiðslumetinn eða látið slíkt í veðri vaka. Hafi það verið ákvörðunarástæða fyrir veitingu veðtryggingar að greiðslugeta lántaka yrði metin hafi stefnda hvorki verið kunnugt um þá forsendu né mátt vera kunnugt um hana. Ekkert liggi fyrir um að stefnandi hafi ekki haft eða hafi ekki bolmagn til þess að greiða af kröfunni. Lánareglur hafi verið kynntar lántaka, auk þess sem þær hafi verið aðgengilegar öllum á hverjum tíma. Hafi greiðslumat verið ákvörðunarástæða stefnanda kveður stefndi að hann hafi haft sérstakt tilefni til þess að vekja máls á því við undirritun yfirlýsingarinnar um veðheimild eða í eftirfarandi samskiptum við fulltrúa Lífeyrissjóðsins Framsýnar eða stefnda. Það hafi aldrei verið gert. Engar athugasemdir hafi heldur komið fram af hálfu stefnanda þegar skilmálum lánsins var breytt. Það verði ekki túlkað á annan veg en sem eftirfarandi samþykki. Það hafi ekki verið fyrr en undir lok árs 2014 sem lögmaður stefnanda ámálgar fyrstu andmæli gagnvart stefnda. Telur stefndi að stefnandi hafi með þessu sýnt af sér tómlæti með tilheyrandi brottfalli réttar, verði yfirhöfuð talið að réttur hafi verið til staðar.
Stefndi mótmælir því að hann hafi með einhverjum hætti vanrækt skyldur sínar eða að það verði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig veðtryggingu í fasteign stefnanda. Tilvísun stefnanda til 36. gr. laga nr. 7/1936 er mótmælt. Skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins sé ekki til staðar í þessu máli, en fyrir því beri stefnandi sönnunarbyrði. Lánveiting Lífeyrissjóðsins Framsýnar hafi verið í fullu samræmi við lánareglur og í samræmi við þær venjur sem tíðkast hafi um sjóðfélagalán Lífeyrissjóðsins Framsýnar, stefnda og annarra lífeyrissjóða. Frá upphafi hafi legið fyrir að greiðslugeta lántaka yrði ekki metin af hálfu lífeyrissjóðsins. Lögum samkvæmt hafi ekki hvílt skylda á forvera stefnanda að framkvæma slíkt greiðslumat. Þá hafi hann ekki skuldbundið sig til þess með öðrum hætti að meta greiðslugetu lántaka, að öðru leyti en því að í lánareglum var áskilnaður um að lántaki legði fram greiðslumat ef þess væri óskað af hálfu Lífeyrissjóðsins Framsýnar.
Stefndi mótmælir tilvísun til samkomulags tiltekinna fjármálafyrirtækja um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, enda hafi stefndi, líkt og aðrir lífeyrissjóðir, hvorki verið aðili að því samkomulagi, né hafi hann skuldbundið sig til þess að fylgja því. Slíku samkomulagi verður ekki einhliða beitt gagnvart stefnda, gegn meginreglum samninga-, kröfu- og veðréttar um skuldbindingargildi samninga/loforða, til ógildingar veðtryggingarinnar að hluta eða öllu leyti. Ekkert fordæmi Hæstaréttar liggi til grundvallar slíkri niðurstöðu. Meginreglu samninga- og kröfuréttar um samningsfrelsi verði heldur ekki settar slíkar skorður, þar sem aðilar að veðskuldabréfinu eru allir sjálfstæðir, fjárráða og hæfir til þess að takast á hendur framangreinda fjárskuldbindingu. Stefndi mótmælir því að dómur Hæstaréttar í málinu nr. 3/2003 hafi fordæmisgildi gegn málatilbúnaði hans. Aðstæður í því máli voru með allt öðrum hætti, þar sem veðsali í því máli var þroskaheftur og af þeim sökum ekki talinn geta gert sér grein fyrir þýðingu þeirrar skuldbindingar sem hann gekkst undir.
Stefndi tekur fram að greiðslumat geti aldrei falið í sér tryggingu fyrir því að skuldari muni ávallt efna skyldur sínar. Við lántökuna hafi engar vísbendingar verið fyrir hendi sem hafi gefið til kynna að ástæða væri til þess að greiðslumeta lántaka. Ekki hafi borið á vanskilum fyrr en tveimur árum frá lántöku, en þær hafi síðar leitt til skilmálabreytingar. Aðstæður lántaka virðast einnig hafa breyst til hins verra í kjölfar bankahruns. Telur stefndi að greiðsluhæfi lántaka hafi því miður skerst í kjölfar lántöku, en á því geti stefnandi hvorki borið ábyrgð né áhættu.
Í tilefni af tilvísun stefnanda til laga nr. 32/2009 bendir stefndi á að samkvæmt 12. gr., sbr. 4. gr., laganna verði reglum um greiðslumat samkvæmt lögunum ekki beitt um ábyrgðir sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku laganna 4. apríl 2009.
Stefndi byggir á því að nauðasamningur lántaka til greiðsluaðlögunar, sem staðfestur hafi verið af Héraðsdómi Reykjavíkur, hafi ekki áhrif á veðkröfu stefnda á hendur stefnanda. Veðréttur stefnda standi eftir sem áður óhaggaður. Stefndi vísar af þessu tilefni til meginreglu veðréttar um sjálfstætt gildi veðkröfu. Enn fremur vísar stefndi til 4. mgr. 60. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., þar sem kveðið er á um að nauðasamningur haggi ekki rétti lánardrottins til þess að ganga að tryggingu sem þriðji maður kann að hafa sett fyrir efndum skuldbindingar til fullnustu á henni allri eða til að krefja ábyrgðarmenn um fulla greiðslu. Stefndi vísar í þessu sambandi til fordæmis Hæstaréttar, sbr. dóm réttarins í málinu nr. 274/2010. Þar hafi m.a. verið staðfest að kröfuréttur á hendur ábyrgðarmanni njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar og að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar haggi ekki slíkum rétti kröfuhafa, sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku ákvæða laga nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn. Af dóminum leiði að víkja beri til hliðar ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2009, enda ákvæðið ósamsamrýmanlegt greindu stjórnarskrárákvæði. Stefndi telur að stöðu aðila þessa máls sem hér sé til úrlausnar verði algjörlega jafnað við stöðu aðila í hæstaréttarmáli nr. 274/2010. Stefndi mótmælir málsástæðum stefnanda um annað sem og um ætluð res judicata áhrif úrskurðar héraðsdóms um nauðasamning lántaka til greiðsluaðlögunar gagnvart máli þessu.
Stefndi vísar og til þess að hann hafi upplýst stefnanda um tilvist nauðasamnings lántaka með bréfi, dags. 3. maí 2011. Nauðasamningsferlið hafi verið auglýst í Lögbirtingablaði lögum samkvæmt, sem stefnandi hafi getað kynnt sér. Að auki hafi stefnandi sent vanskilatilkynningar frá lánastofnun þeirri er annaðist innheimtu lánsins í samræmi við reglur þar um, auk þess sem stefnanda hafi verið send innheimtubréf, áminningarbréf og greiðsluáskorun frá lögmanni stefnda í aðdraganda nauðasamningsferlisins. Því verði að telja að stefnandi hafi vitað eða mátt vita um aðstæður lántaka löngu áður en að honum hafi borist tilvitnað bréf stefnda, sbr. einnig tengsl stefnanda og lántaka. Því mótmælir stefndi því að hann hafi með einhverjum hætti vanrækt skyldur sínar samkvæmt 7. gr. laga nr. 32/2009 eða að stefndi hafi gerst sekur um einhverja þá vanrækslu í skilningi ákvæðisins sem leiða eigi til niðurfellingar ábyrgðar stefnanda.
Auk þess að vísa til framangreindra lagafyrirmæla til stuðnings sýknukröfu styður stefndi málskostnaðarkröfu sína við 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þá vísar stefndi til laga nr. 50/1988 um kröfu sína um virðisaukaskatt.
IV
Í máli þessu krefst stefnandi að samþykki hans frá 10. nóvember 1999, fyrir því að fasteign sem hann átti stæði til tryggingar á greiðslu samkvæmt skuldabréfi sem tengdasonur hans gaf út, verði fellt úr gildi og að skuldabréfið verði afmáð af fasteign sem hann á í dag.
Samkvæmt nauðasamningnum, sem staðfestur var með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2010, áttu eftirstöðvar samningskrafna að falla niður eftir að síðasta greiðsla lántaka samkvæmt samningnum var innt af hendi 5. ágúst 2014. Telur stefnandi að með því hafi allar kröfur á hendur honum einnig fallið niður og af þeim sökum beri að fallast á ógildingu veðsetningarinnar og skyldu stefnda til að afmá veðskuldabréfið af fasteigninni.
Framangreindur nauðasamningur komst á samkvæmt reglum X. kafla a í lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. , sbr. lög nr. 24/2009, en lög nr. 101/2010 höfðu þá ekki tekið gildi. Samkvæmt 63. gr. h í lögunum, eins og þau hljóðuðu á þessum tíma, hafði greiðsluaðlögun sömu áhrif og réttarsátt milli skuldara og lánardrottna hans um þær samningskröfur sem þeir höfðu lýst og komu fram í skrá samkvæmt 3. mgr. 63. gr. e, að því leyti sem skuldari mótmælti þeim ekki. Er það sama regla og gildir um nauðasamninga almennt, sbr. 3. mgr. 60. gr. laga nr. 21/1991. Þá sagði í 3. mgr. 63. gr. a í lögunum að almennar reglur laganna um nauðasamninga giltu um nauðasamninga til greiðsluaðlögunar eftir því sem við gæti átt. Í 4. mgr. 60. gr. laga nr. 21/1991 var á þessum tíma kveðið á um að nauðasamningur haggaði ekki rétti lánardrottins skuldarans til þess að ganga að tryggingu sem þriðji maður kynni að hafa sett fyrir efndum skuldbindingar til fullnustu á henni allri eða til að krefja ábyrgðarmann um fulla greiðslu. Þessi regla er nú í 5. mgr. sömu greinar, sbr. lög nr. 95/2010. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 24/2009, sem eins og áður segir lögfestu ákvæði um nauðasamninga til greiðsluaðlögunar, kemur skýrt fram að greiðsluaðlögun haggaði ekki rétti lánardrottins til að ganga að veði sem þriðji maður hefur sett til tryggingar á efndum eða til að krefja ábyrgðarmann um fullu greiðslu. Um það er vísað til fyrrgreindrar 4. mgr. 60. gr. laga nr. 21/1991.
Lög nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, tóku gildi 4. apríl 2009. Þau taka meðal annars til einstaklinga sem gengist hafa í ábyrgð með því að veðsetja tilgreinda fasteign sína til tryggingar efndum lántaka, enda sé ábyrgðin ekki í þágu atvinnurekstrar ábyrgðarmanns eða í þágu fjárhagslegs ávinnings hans, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Í 3. mgr. 9. gr. laganna hefur frá öndverðu verið mælt fyrir um að þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 60. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. skuli nauðasamningur eða önnur eftirgjöf, þ.m.t. nauðasamningur til greiðsluaðlögunar, sem kveður á um lækkun kröfu á hendur lántaka, hafa sömu áhrif til lækkunar kröfu á hendur ábyrgðarmanni. Samkvæmt gildistökuákvæði 12. gr. laga nr. 32/2009 átti fyrrgreind regla 3. mgr. 9. gr. við um ábyrgðir sem stofnað hafði verið til fyrir gildistöku laganna.
Í dómi Hæstaréttar Íslands frá 16. september 2010 í málinu nr. 462/2010 var vikið að gildi fyrrgreindrar 3. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2009 gagnvart veðrétti lánveitanda sem stofnað hafði verið til fyrir gildistöku laganna. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að þinglýsingarstjóra hefði verið óheimilt að afmá úr þinglýsingabók veðskuldabréf sem hvíldi á fasteign varnaraðila. Sú ákvörðun var reist á 1. mgr. 38. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 þar sem sú skylda er lögð á þinglýsingarstjóra að afmá þinglýsingu úr fasteignabók þegar réttaráhrif hennar eru fallin brott eða rétti er bersýnilega lokið. Taldi þinglýsingarstjóri bersýnilegt að veðið hvíldi ekki lengur á fasteigninni í ljósi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2009, en samkvæmt nauðasamningi til greiðsluaðlögunar, sem héraðsdómur hafði staðfest 30. október 2009, eftir gildistöku laga nr. 32/2009, áttu allar eftirstöðvar skuldar lántaka við sóknaraðila að falla niður. Í rökstuðningi Hæstaréttar var vísað til þess að veðréttur sóknaraðila, sem til hafði verið stofnað áður en lög nr. 32/2009 tóku gildi, nyti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Því væri ekki unnt að fallast á að skilyrði 1. mgr. 38. gr. þinglýsingalaga væru fyrir hendi. Var með þessu ljóslega vikið frá því sem fyrir var mælt í gildistökuákvæði 12. gr. laga nr. 32/2009. Í dómi Hæstaréttar Íslands frá 24. nóvember 2010 í málinu nr. 274/2010 var síðan komist afdráttarlaust að þeirri niðurstöðu að afturvirk áhrif 3. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2009 brytu í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttar. Það mál laut málið að ábyrgðarkröfu sem stofnað hafði verið til fyrir gildistöku laganna og var fyrirmælum 3. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2009 ekki beitt um ábyrgðina.
Veðréttur stefnda samkvæmt veðskuldabréfinu 10. nóvember 1999 var stofnaður fyrir gildistöku laga nr. 32/2009. Samkvæmt framangreindum fordæmum Hæstaréttar Íslands verður 3. mgr. 9. gr. þeirra laga ekki beitt um þennan rétt stefnda. Hvorki í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2010 né í frumvarpi til greiðsluaðlögunar var vikið að afdrifum ábyrgða þriðja aðila fyrir efndum samningsskulda. Í ljósi þess sem rakið hefur verið fór um það atriði eftir 4. mgr. 60. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nú 5. mgr. sömu greinar, en ekki 3. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2009. Nauðasamningur til greiðsluaðlögunar lántaka haggaði því ekki ábyrgð stefnanda á grundvelli veðréttar sem stefndi átti í fasteign hans. Breytir engu í því sambandi þó að stefndi hafi ekki hreyft andmælum við að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar kæmist á.
Stefnandi byggir einnig á því að stefndi hafi vanrækt að láta hann vita af því þegar lántaki óskaði eftir nauðasamningi til greiðsluaðlögunar, eins og honum hafi borið að gera samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Í því ákvæði segir að lánveitandi skuli senda ábyrgðarmanni skriflega tilkynningu, meðal annars um vanefndir lántaka, um andlát hans eða að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Í 2. mgr. 7. gr. laganna er síðan mælt fyrir um að ábyrgðarmaður skuli vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningarskyldu samkvæmt 1. mgr. Sé vanræksla hans veruleg skal ábyrgðin falla niður.
Bú lántaka var ekki tekið til gjaldþrotaskipta. Samþykki fyrir því að skuldari leiti nauðasamnings til greiðsluaðlögunar verður að mati dómsins ekki jafnað til þess að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Ekki er því beinlínis unnt að leiða af fyrirmælum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 að stefnda hafi borið að tilkynna stefnanda um beiðni lántaka um að slíkur samningur kæmist á. Fyrirmæli laga nr. 21/1991 veita einstaklingi, sem gengist hefur í ábyrgð á efndum skuldbindinga þess sem æskir nauðasamnings, ekki beina aðild að nauðasamningsumleitunum nema hann sé jafnframt lánardrottinn skuldarans. Tilkynni lánveitandi ábyrgðarmanni ekki um beiðni skuldara í þá veru getur það, í ljósi þess sem hér hefur verið rakið, ekki talist veruleg vanræksla samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Gögn málsins bera með sér að stefndi hafi tilkynnt stefnanda um vanefndir lántaka bæði áður en nauðasamningurinn komst á og eftir að gildistíma hans lauk. Af þessum sökum er ekki unnt að fallast á að ábyrgð stefnanda sé fallin niður á grundvelli framangreinds ákvæðis í lögum nr. 32/2009.
Röksemdir stefnanda fyrir því að ógilda beri samþykki hans fyrir veðsetningu fasteignar sinnar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 eru fyrst og fremst reistar á því að stefnda hafi borið að meta greiðslugetu lántaka áður en lánið var veitt. Ágreiningslaust er að það var ekki gert, en stefndi telur að honum og forvera hans hafi verið það óskylt.
Á þeim tíma sem stefnandi samþykkti veðsetningu fasteignar sinnar höfðu lög nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, ekki tekið gildi. Samband íslenskra viðskiptabanka fyrir hönd viðskiptabanka, Samband íslenskra sparisjóða fyrir hönd sparisjóða, Kreditkort hf., Greiðslumiðlun hf., Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra og félagsmálaráðherra af hálfu stjórnvalda, gerðu aftur móti með sér samkomulag 27. janúar 1998 þar sem settar voru reglur sem áttu meðal annars að miða að því að vernda ábyrgðarmenn „í þeim tilvikum er sjálfskuldarábyrgð er sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu“. Fram kemur í samkomulaginu að það taki meðal annars til þess þegar einstaklingur gefur leyfi til þess að veðsetja fasteign sína til tryggingar skuldum annars einstaklings.
Í samkomulaginu var meðal annars kveðið á um að fjármálafyrirtæki skyldu meta greiðslugetu greiðanda óskaði ábyrgðarmaður eftir því áður en hann gekkst í ábyrgð. Þó bæri fjármálafyrirtæki að greiðslumeta greiðanda þegar óskað væri ábyrgðar til tryggingar skuldbindingu sem næmi meira en einni milljón króna. Þá skyldi tryggt að ábyrgðarmaður gæti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengist í ábyrgðina að því tilskildu að greiðandi samþykkti það. Jafnframt skyldi fjármálafyrirtæki upplýsa ábyrgðarmann ef niðurstaða greiðslumats benti til þess að greiðandi gæti ekki efnt skuldbindingar sínar. Enn fremur var í samkomulaginu kveðið á um að fjármálafyrirtækjum bæri að gefa út upplýsingabæklinga um sjálfskuldarábyrgðir og dreifa með skjölum sem afhent væru ábyrgðarmönnum til undirritunar.
Nýtt samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga tók gildi 1. nóvember 2001 og leysti það fyrra samkomulag af hólmi. Að þessu samkomulagi stóðu Samtök banka og verðbréfafyrirtækja fyrir hönd aðildarfélaga sinna, Samband íslenskra sparisjóða fyrir hönd sparisjóða og Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra af hálfu stjórnvalda. Í samkomulaginu segir að önnur fjármálafyrirtæki eða samtök fjármálafyrirtækja geti einnig gerst aðilar að samkomulaginu. Nýju reglurnar hertu enn frekar á skyldu fjármálafyrirtækja til að meta greiðslugetu greiðanda. Þá voru settar skýrari reglur um forsendur greiðslumats.
Forveri stefnda var lífeyrissjóður, en um starfsemi þeirra gilda lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Eins og segir í 2. mgr. 1. gr. laganna er með lífeyrissjóði átt við félag eða stofnun sem veitir viðtöku iðgjaldi til greiðslu lífeyris vegna elli til æviloka, örorku eða andláts samkvæmt nánari ákvæðum í einstökum köflum laganna. Lánastarfsemi er því ekki meginhlutverk lífeyrissjóða. Það er þó hluti af skyldum stjórna lífeyrissjóða að móta fjárfestingastefnu og ávaxta fé sjóðsins með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu, sbr. 36. gr. laga nr. 129/1997. Er lífeyrissjóðum meðal annars heimilt að ávaxta fé sitt með skuldabréfum tryggðum með veði í fasteign að hámarki 75% af metnu markaðsvirði, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 36. gr. laganna.
Lífeyrissjóðir áttu ekki aðild að fyrrgreindu samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 27. janúar 1998 eða síðara samkomulagi um sama efni. Stefnda var því ekki á þeim grunni skylt að meta greiðslugetu lántaka þegar lífeyrissjóðurinn fjárfesti í skuldabréfi því sem hér um ræðir. Hvorki samþykktir forvera stefnda né lánareglur kváðu heldur ekki á um þá skyldu, einungis að stefndi gæti farið fram á greiðslumat á lántaka. Þá hefur stefnandi ekki fært sönnur á að sú venja hafi verið við lýði á þessum tíma að lánveitendur, sem ekki höfðu skuldbundið sig til þess sérstaklega, könnuðu almennt greiðslugetu lántaka áður þeir veittu lán með veði í fasteign þriðja manns.
Stefnda bar þó á grundvelli almennra reglna að koma heiðarlega fram gagnvart viðsemjendum sínum. Þessi regla leiðir þó ekki afdráttarlaust til þess að stefnda hafi borið að greiðslumeta lántaka í þágu hagsmuna þess sem hugðist veðsetja fasteign sína til tryggingar á endurgreiðslu lánsins. Hafi það ekki verið gert getur það aftur á móti haft þýðingu við heildarmat á því hvort það sé ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera veðsetninguna fyrir sig, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Sem endranær verður við úrlausn á því hvort efni sé til að beita því ákvæði að líta til efnis samnings, annarra atvika við samningsgerð, stöðu aðila við hana og atvika sem síðar komu til, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936, og meta þessa þætti andspænis grundvallarreglunni um skuldbindingargildi loforða.
Þegar litið er til efnis samnings aðila og atvika við samningsgerð ber að taka tillit til þess að ekkert er fram komið um að stefnandi hafi notið lánsfjárins. Ekki var þó óalgengt á þessum tíma að foreldrar og aðrir nákomnir aðstoðuðu lántaka við að fá lán með því að ábyrgjast endurgreiðslu þess ef til vanefnda kæmi. Ekki verður betur séð en að efni samnings aðila hafi verið með sama sniði og algengt var um lánveitingar af þessu tagi. Skuldabréfið kvað með nokkuð skýrum hætti á um skuldbindingu veðsala. Þá undirritaði stefnandi sérstaka yfirlýsingu þess efnis að hann gerði sér grein fyrir skuldbindingu sinni og að hann gæti þurft að greiða skuld lántaka. Ekkert er fram komið um að stefnandi hafi verið ófær um að átta sig á þýðingu þessarar skuldbindingar sinnar og þeirri áhættu sem hann tók með henni.
Hér hefur verið vikið að þeim reglum sem giltu um lánveitingar forvera stefnda sem og þágildandi reglum um ábyrgðir þriðja aðila. Gat stefnandi með engu móti dregið þá ályktun af þessum reglum að forveri stefnda myndi leggja mat á greiðslugetu lántakans áður en lánið yrði veitt. Mátti stefnandi því gera sér grein fyrir því að það hvíldi á honum að afla upplýsinga um lántaka að því marki sem hann taldi nauðsynlegt til að meta eigin áhættu.
Ekki hafa verið lagðar fram upplýsingar um stöðu lántakans þegar skuldabréfið var gefið út og forveri stefnda samþykkti lánveitinguna. Af lánsumsókn mátti draga þá ályktun að lántakinn hafi verið í vinnu. Stefndi hefur fullyrt að hann hafi ekki verið á vanskilaskrá þegar lánið var veitt og að ekki hafi farið að bera á vanskilum fyrr en tveimur árum síðar. Stefnandi hefur ekki hnekkt þessum staðhæfingum. Hefur hann raunar ekki leitt neinar líkur að því að í nóvember 1999, þegar skuldabréfið var gefið út, hafi átt að liggja fyrir einhverjar upplýsingar sem gefið hafi tilefni til efasemda um getu lántakans til þess að standa í skilum með lánið. Nægir í því sambandi ekki að vísa til þess að hann hafi þurft að veðsetja eign þriðja manns til tryggingar á skuldbindingu sinni. Er ekki á það fallist að það atriði hafi fellt sérstaka skyldu á forvera stefnda að greiðslumeta lántakann.
Í ljósi alls þess sem hér hefur verið rakið, og að virtri grundvallarreglunni um skuldbindingargildi loforða, telur dómurinn ekki efni til þess að fallast á að ósanngjarnt sé af hálfu stefnda að bera fyrir sig það loforð það sem stefnandi gaf í nóvember 1999. Megnar ójöfn staða aðila með tilliti þekkingar á löggerningum af þessu tagi ekki að breyta þessari niðurstöðu. Hið sama gildir um atvik sem síðar komu til og tengjast væntingum ábyrgðarmanna um brottfall skuldbindinga á grunni löggjafar sem eins og áður segir fól í sér afturvirka takmörkun á eignarrétti lánveitanda sem braut í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar.
Samkvæmt framansögðu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, eru þó efni til þess að láta hvorn aðila bera sinn kostnað af rekstri málsins fyrir dómi.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Gildi lífeyrissjóður, er sýkn af kröfum stefnanda, Benedikts Andréssonar.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.