Hæstiréttur íslands

Mál nr. 301/2005


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Vopnalagabrot
  • Hylming
  • Þinghald
  • Reynslulausn
  • Sératkvæði


Þriðjudaginn 20

 

Þriðjudaginn 20. desember 2005.

Nr. 301/2005.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Gísla Einari Einarssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Ávana- og fíkniefni. Vopnalagabrot. Hylming. Þinghald. Reynslulausn. Sératkvæði.

G voru gefin að sök fjögur brot, sem talin voru upp í ákæru, og hafði hann játað brotin í fyrsta, öðrum og fjórða lið. Í þriðja lið ákæru var hann sakaður um hylmingu með því að hafa tekið við haglabyssu af nafngreindum manni, „þrátt fyrir að honum væri ljóst að um þýfi væri að ræða“, eins og sagði í ákæru. G reisti kröfu sína um sýknu af þessum lið ákæru á þeirri forsendu að hann hafi hvorki við meðferð málsins fyrir dómi né við rannsókn þess hjá lögreglu játað þessar sakargiftir. G mætti við þingfestingu málsins. Var óumdeilt að fyrir þinghaldið hafi hann verið búinn að fá í hendur skriflegt fyrirkall ásamt afriti af ákæru málsins. Í þingbók var bókað að ákærði játaði „að hafa framið þau brot sem hann var ákærður fyrir, kveður atvikalýsingu í ákæru rétta og gerir ekki athugasemdir við gögn málsins.“ Að því búnu var farið með málið sem játningarmál samkvæmt 125. gr. laga um meðferð opinberra mála. Talið var með vísan til framangreinds að búast mætti við að G hefði lesið ákæruna áður en hann mætti fyrir dóminn. Ekkert væri fram komið í málinu sem benti til að ákærði væri tornæmur eða andlega vanheill, en ákæruefnin væru hvorki flókin né mörg. Voru ekki efni til að ætla að G hafi ekki gert sér grein fyrir því í þinghaldinu að á því væri byggt af hálfu héraðsdómara, að hann hefði játað öll brot sín samkvæmt ákærunni. Var kröfu hans um sýknu af þriðja tölulið ákæru því hafnað. Var G dæmdur til að sæta fangelsi í átta mánuði en sex mánaða skilorðsdómur var dæmdur með.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 22. júní 2005 að ósk ákærða í samræmi við yfirlýsingu hans um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms, þyngingar á refsingu ákærða og staðfestingar á upptöku.

Ákærði krefst sýknu af þriðja tölulið ákæru, en að öðru leyti mildunar á refsingu.

          Í málinu eru ákærða gefin að sök fjögur brot, sem talin eru upp í ákæru í jafnmörgum liðum. Ákærði hefur játað brotin í fyrstu tveimur liðunum og fjórða lið,  tvö fíkniefnalagabrot og eitt vopnalagabrot. Í þriðja lið ákæru er hann sakaður um hylmingu með því að hafa tekið við á tímabilinu frá 11. desember 2004 til 3. febrúar 2005 haglabyssu af gerðinni Zabala af ótilgreindum manni, „þrátt fyrir að ákærða væri ljóst að um þýfi væri að ræða og með því haldið byssunni ólöglega frá eigandanum, en byssunni hafði verið stolið í innbroti í íbúðarhúsnæði að Urriðakvísl 14 í Reykjavík laugardaginn 11. desember 2004.“ Um er að ræða sömu byssu og getur um í fjórða lið ákæru.

          Ákærði reisir kröfu sína um sýknu af þriðja lið ákæru á þeirri forsendu að hann hafi hvorki við meðferð málsins fyrir dómi né við rannsókn þess hjá lögreglu játað þessar sakargiftir. Við lögregluyfirheyrslu 14. mars 2005 viðurkenndi ákærði að hafa keypt haglabyssuna, sem fannst við húsleit hjá honum 3. febrúar 2005, tveimur til fjórum mánuðum áður af manni, sem hann vildi ekki greina frá hver væri. Ástæðu þess sagði hann vera þá að hann óttaðist hefndaraðgerðir. Kvaðst hann hafa greitt 25.000 krónur fyrir byssuna. Hann neitaði því hins vegar að hafa gert sér grein fyrir að byssan væri stolin. Nánar aðspurður um þetta sagði hann: „Ég spáði bara ekkert í það.“ Ákærði mætti við þingfestingu málsins. Er óumdeilt að fyrir þinghaldið hafi hann verið búinn að fá í hendur skriflegt fyrirkall um að mæta við þingfestinguna og að því hafi fylgt afrit af ákæru málsins. Í þinghaldinu var fært í þingbókina að sækjandi hafi gert grein fyrir ákæru. Næst var bókað að ákærði hafi hvorki óskað eftir að halda uppi vörnum né að sér yrði skipaður verjandi. Í kjölfarið er fært til bókar: „Ákærði játar að hafa framið þau brot sem hann er ákærður fyrir, kveður atvikalýsingu í ákæru rétta og gerir ekki athugasemdir við gögn málsins.“ Að svo búnu var bókað að farið yrði með málið sem játningarmál samkvæmt 125. gr laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og hefðu ákærði og fulltrúi ákæruvaldsins ekkert við það að athuga. Áður en málið var tekið til dóms var skráð í þingbók að fulltrúi ákæruvalds hafi gert sömu kröfur og fram komi í ákæru og tjáð sig um atriði varðandi ákvörðun refsingar. Á sama hátt er skráð að ákærði hafi tjáð sig um ákvörðun viðurlaga og málsbætur.

Ákærði hafði sem fyrr segir fengið birt fyrirkall í hendur ásamt ákæru fyrir þinghaldið og mátti því búast við að hann hefði lesið ákæruna áður en hann mætti fyrir dóminn. Hann hafði verið ítarlega spurður um sakarefnið við rannsókn málsins. Er ekkert komið fram í málinu sem bendir til að ákærði sé tornæmur eða andlega vanheill. Ákæruefnin í máli þessu eru hvorki flókin né mörg. Er komið fram að í þinghaldinu hafi verið fært til bókar að ákærandi hafi gert grein fyrir ákæru, ákærði hafi játað brot sín og kveðið atvikalýsingu í ákæru rétta svo og tjáð sig um viðurlög og málsbætur. Í ljósi þessa eru ekki efni til að ætla að ákærði hafi ekki gert sér grein fyrir því í þinghaldinu að á því væri byggt af hálfu héraðsdómara að hann hefði játað öll brot sín samkvæmt ákærunni. Verður kröfu hans um sýknu af þessum ákærulið því hafnað.

Í héraðsdómi er sakaferill ákærða rétt rakinn að öðru leyti en því að þess er ekki getið að með dómi 18. október 2001 var dæmd með 12 mánaða skilorðsbundin fangelsisrefsing hans samkvæmt dómi 24. september 1998 og með dómi 6. júní 2003 var dæmd með 13 mánaða skilorðsbundin fangelsisrefsing samkvæmt áðurnefndum dómi 18. október 2001. Ákærði hlaut reynslulausn 13. ágúst 2004 í eitt ár á eftirstöðvum 180 daga refsingar. Með brotum þeim sem hér er fjallað um hefur hann rofið skilorð reynslulausnarinnar og ber að taka hana upp og dæma með í máli þessu, sbr. 1. mgr. 42. gr., 60. gr. og 1. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þegar litið er brota ákærða í máli þessu, sakaferils hans og þess að ákærði hefur áður verið dæmdur fyrir rán, þjófnað og vopnalagabrot, er refsing hans ákveðin fangelsi í átta mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna eru staðfest.

Samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað leiddi engan sakarkostnað af málinu í héraði og ekki annan fyrir Hæstarétti en málsvarnarlaun verjanda hans.

Ákærði verður dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Gísli Einar Einarsson, sæti fangelsi í átta mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 149.400 krónur.

 

                                                                                              


Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

          Í 3. tl. ákæru er ákærða gefin að sök hylming með því að hafa „á óþekktum stað á tímabilinu frá 11. desember 2004 til 3. febrúar 2005 tekið við Zabala haglabyssu af ótilgreindum manni, þrátt fyrir að ákærða væri ljóst að um þýfi væri að ræða og með því haldið byssunni ólöglega frá eigandanum, ...“ Við rannsókn lögreglu hafði ákærði neitað þessum sakargiftum. Kvaðst hann þá hafa keypt byssuna af manni sem hann ekki vildi nafngreina af ótta við hefndaraðgerðir. Hafi hann ekki vitað að byssan væri stolin.

          Þegar málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur 2. júní 2005 var gerð svofelld bókun: „Sækjandi gerir grein fyrir ákæru. Ákærði óskar ekki eftir að halda uppi vörnum í málinu og óskar ekki eftir að sér verði skipaður verjandi. Ákærði játar að hafa framið þau brot sem hann er ákærður fyrir, kveður atvikalýsingu í ákæru rétta og gerir ekki athugasemdir við gögn málsins.“ Í framhaldi af þessu ákvað héraðsdómari að fara með málið sem játningarmál samkvæmt heimild í 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

          Fyrir Hæstarétti hefur ákærði byggt á því að hann hafi ekki gert sér grein fyrir að hann væri að játa hylmingarbrotið í 3. tl. ákærunnar þegar framangreind bókun var gerð eftir honum. Segir hann að hver ákæruliður fyrir sig hafi ekki verið borinn undir hann heldur þeir allir saman.

          Skilyrði þess að farið sé með mál eftir 125. gr. laga nr. 19/1991 eru að ákærði hafi skýlaust játað alla þá háttsemi sem honum er gefin að sök og að dómari telji ekki ástæðu til að draga í efa að játning sé sannleikanum samkvæm. Í þessu felst að dómara ber að prófa játningu ákærða eftir því sem atvik máls gefa tilefni til hverju sinni. Er með þessum hætti leitast við að fyrirbyggja hættu á að ákærðum manni sé í játningarmálum gerð refsing fyrir brot sem hann hefur ekki framið.

          Samkvæmt framansögðu liggur ekki fyrir að sakargiftir í umræddum 3. tl. ákærunnar hafi verið bornar sérstaklega undir ákærða í héraðsdómi. Bókunin bendir til þess að ákæran hafi verið kynnt fyrir honum í heild og hann síðan játað öll brotin í einu lagi. Ákærði hafði játað brotin í 1.-2. og 4. tl. ákærunnar við lögreglurannsókn málsins. Hann hafði hins vegar, svo sem fyrr greinir, neitað sök að því er 3. tl. varðar. Þar að auki eru í verknaðarlýsingu þessa liðar ákærunnar óvissuþættir að því er varðar staðsetningu brotsins, tímasetningu þess og tilgreiningu á þeim manni sem á að hafa afhent ákærða byssuna. Við þessar aðstæður var brýnt að dómari vekti athygli ákærða á að hann væri nú að játa brot sem hann áður hefði neitað og prófaði síðan sérstaklega þá efnisþætti brotsins sem óvissir voru í ákærunni með því að beina spurningum til hans um þá. Bar að skrá um þessi atriði í þingbók, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 19/1991.

          Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið hefur ekki verið sýnt fram á að uppfyllt hafi verið skilyrði þess að fara mætti með mál þetta eftir 125. gr. laga nr. 19/1991. Er því að mínum dómi óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.     

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglu­stjóranum í Reykjavík 19. apríl sl. á hendur Gísla Einari Einarssyni, kt. 101079-5469, Hraunbæ 107, Reykjavík, fyrir eftirtalin brot framin fimmtudaginn 3. febrúar 2005, nema að annað komi fram:

1.

Fíkniefnalagabrot, með því að hafa í bifreiðinni JO-988 við Hraunbæ 107 í Reykjavík haft í vörslum sínum 1,02 g af amfetamíni, sem lögregla fann við leit á ákærða.

2.

Fíkniefnalagabrot, með því að hafa á ofangreindu heimili sínu haft í vörslum sínum 7,20 g af marihuana, sem lögregla fann við leit.

             Eru ofangreind brot talin varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

3.

Hylmingu, með því að hafa á óþekktum stað á tímabilinu frá 11. desember 2004 til 3. febrúar 2005 tekið við Zabala haglabyssu af ótilgreindum manni, þrátt fyrir að ákærða væri ljóst að um þýfi væri að ræða og með því haldið byssunni ólöglega frá eigand­anum, en byssunni hafði verið stolið í innbroti í íbúðarhúsnæði að Urriðakvísl 14 í Reykjavík laugardaginn 11. desember 2004.

Er þetta talið varða við 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

4. 

Vopnalagabrot, með því að hafa eigi geymt fyrrgreinda haglabyssu og 19 haglaskot í læstum aðskildum hirslum en ákærði vísaði lögreglu á vopnið og skotfærin í fataskáp á ofangreindu heimili sínu.

Er þetta talið varða við 23. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr., vopnalaga nr. 16/1998 og 1. og 2. mgr. 33. gr., sbr. 59. gr., reglugerðar um skotvopn, skotfæri o. fl. nr. 787/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og að 1,02 g af amfetamíni og 7,20 g af marihuana, sem lagt var hald á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

Af hálfu ákærða er krafist vægustu refsingar er lög leyfa.

Ákærði hefur skýlaust játað brot sín.

Farið var með mál þetta samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. 

Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur í október 1979.  Hann hefur í tvígang gengist undir sáttir vegna umferðarlagabrota og einu sinni verið dæmdur fyrir slíkt brot. Honum var veitt skilorðsbundin ákærufrestun á árinu 1997 vegna brota gegn 244. gr. laga nr. 19/1940. Þá var hann dæmdur í 2ja mánaða skilorðbundið varðhald 4. júní 1998 vegna brota gegn 1. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Með dómi héraðsdóms 24. september sama ár var ákærði dæmdur í 15 mánaða fangelsi, þar af 12 mánuði skilorðsbundið fyrir brot gegn 252. gr. laga nr. 19/1940. Dómurinn frá 4. júní var þá dæmdur með. Ákærða var dæmdur í 13 mánaða skilorðsbundið fangelsi 18. október 2001 vegna brota gegn 1. mgr. 155. gr. laga nr. 19/1940. Hann gekkst undir viðurlagaákvörðun í héraðsdómi 31. janúar 2001 vegna húsbrots, eignaspjalla og brota á vopnalögum. Hann var dæmdur í 18 mánaða fangelsi 6. júní 2003 fyrir húsbrot og líkamsmeiðingar. Loks gekkst hann undir sátt hjá lögreglustjóra 24. nóvember 2003 vegna brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Með hliðsjón af brotum ákærða í þessu máli og 77. gr. laga nr. 19/1940 er refsing hans ákveðin fangelsi í 7 mánuði.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru upptæk gerð til ríkissjóðs 1,02 g af amfetamíni og 7,20 g af marihuana, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði allan sakarkostnað.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Gísli Einar Einarsson, sæti fangelsi í 7 mánuði.

Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 1,02 g af amfetamíni og 7,20 g af marihuana, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði allan sakarkostnað.