Hæstiréttur íslands
Mál nr. 151/2008
Lykilorð
- Kauphöll
- Tilkynning
- Áminning
- Févíti
|
|
Fimmtudaginn 20. nóvember 2008. |
|
Nr. 151/2008. |
Kauphöll Íslands hf. (Gunnar Jónsson hrl.) gegn Atorku Group hf. (Kristín Edwald hrl.) |
Kauphöll. Tilkynning. Áminning. Févíti.
A krafðist þess að ógilt yrði með dómi ákvörðun K um að áminna félagið opinberlega og beita það févíti, og að K yrði gert að birta dóm þess efnis á fréttavef sínum að viðlögðum dagsektum. Hafði K áminnt félagið fyrir brot á reglum K um birtingu á 6 mánaða uppgjöri félagsins sem K taldi ekki taka nægjanlega mið af samstæðuuppgjöri A heldur fyrst og fremst uppgjöri móðurfélagsins. Í málinu byggði A meðal annars á því að félagið hefði farið að öllum tilmælum K um úrbætur á tilkynningunni sem að endingu hefði uppfyllt reglur K. Talið var að þrátt fyrir að fyrirsögn tilkynningar A hefði eingöngu snúið að afkomu móðurfélagsins hefði afkoma samstæðunnar mátt vera ljós af lestri tilkynningarinnar. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, þar sem meðal annars kom fram að óskýrleika orðalags reglna K yrði að túlka A í hag, var fallist á kröfu félagsins um ógildingu ákvörðunar K og K gert að birta dóminn á fréttavef sínum að viðlögðum dagsektum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. mars 2008 og krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málsatvikum og málsástæðum aðila er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Það er hvorki hlutverk áfrýjanda að gera athugasemdir við reikningsskil félaga sem skráð eru í Kauphöllinni né framsetningu eða efni árshlutauppgjörs þeirra. Þrátt fyrir að fyrirsögn tilkynningar stefnda sem birt var 26. september 2006 hafi eingöngu snúið að afkomu móðurfélagsins mátti afkoma samstæðunnar vera ljós af lestri tilkynningarinnar. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.
Eftir atvikum verður hvor aðili látinn bera sinn kostnað af málinu í héraði. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði fellur niður.
Áfrýjandi, Kauphöll Íslands hf., greiði stefnda, Atorku Group hf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 21. nóvember sl., var höfðað 2. febrúar sl., af Atorku Group hf., Hlíðasmára 1, Kópavogi, gegn Kauphöll Íslands hf., Laugavegi 182, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að ógilt verði með dómi ákvörðun stefnda 2. október 2006 um að áminna stefnanda opinberlega og beita hann févíti. Ef fallist er á kröfu um ógildingu er þess krafist að stefndi skuli birta dóminn í heild sinni á fréttavef sínum að viðlögðum 50.000 króna dagsektum er renni til stefnanda og falli á að liðnum 15 dögum frá aðfararhæfi dómsins. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins.
Af hálfu stefnda er krafist sýknu af kröfum stefnanda. Einnig er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Yfirlit málavaxta og ágreiningsefna
Í áminningu stefnda til stefnanda 2. október 2006 segir að stefnandi hafi sent stefnda fréttatilkynningu 30. ágúst 2006 vegna birtingar á sex mánaða uppgjöri félagsins. Þar er einnig rakið að í fyrirsögn tilkynningarinnar segi að hagnaður stefnanda eftir skatta á fyrri helming ársins hafi verið tæplega 4,9 milljarðar króna. Við lestur uppgjörsins komi í ljós að hagnaður samstæðunnar hafi verið 187 milljónir króna. Lykiltölur sem fram komi í fréttatilkynningunni hafi aðeins verið móðurfélagsins en engar lykiltölur um samstæðuna. Þar sem fyrirsögn fréttatilkynningarinnar og meginmál hennar hafi fjallað um uppgjör móðurfélagsins en ekki samstæðuna hafi stefndi haft samband við stefnanda daginn eftir og óskað eftir leiðréttingu á fréttatilkynningunni.
Fundur var haldinn með starfsmönnum málsaðila 13. september þar sem rætt var um hvað koma skyldi fram í fréttatilkynningu stefnanda vegna sex mánaða uppgjörsins. Eftir það sendi stefnandi stefnda nokkrar fréttatilkynningar og heldur stefnandi því fram að farið hefði verið að tilmælum stefnda í þeim. Af hálfu stefnda er því hins vegar haldið fram að fréttatilkynningar stefnanda hafi allar verið ófullnægjandi.
Fréttatilkynning stefnanda var birt 26. sama mánaðar, en í tölvupósti starfsmanns stefnda þann dag til stefnanda segir að stefndi telji tilkynninguna enn ófullnægjandi þar sem enn sé fjallað um móðurfélagið í fyrirsögn hennar og áður en fjallað sé um samstæðuna. Í tölvupóstinum var óskað staðfestingar á því að fréttatilkynningin skyldi birtast og vakin athygli á því að þótt hún yrði birt fælist engin viðurkenning í því af hálfu stefnda að málinu væri lokið. Í framhaldi af því var staðfest af hálfu stefnanda með tölvupósti sama dag að fréttatilkynningin skyldi birt.
Í málinu er deilt um það hvort réttmætt hafi verið af hálfu stefnda að veita stefnanda áminningu eins og gert var vegna fréttatilkynningarinnar og beita hann févíti.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Af hálfu stefnanda er málsatvikum lýst þannig að stefnandi hafi sent stefnda fréttatilkynningu 30. ágúst 2006 vegna birtingar á sex mánaða uppgjöri stefnanda, ásamt árshlutauppgjöri móðurfélagsins og samstæðunnar. Fyrirsögn fréttatilkynningarinnar hafi verið: „Hagnaður Atorku Group eftir skatta á fyrri helmingi ársins var tæplega 4,9 milljarðar króna.“ Stefndi hafi gert athugasemdir við innihald og fyrirsögn fréttatilkynningarinnar og óskað eftir því við stefnanda í bréfi 4. september s.á. að tilkynningunni yrði breytt og tekið mið af samstæðureikningi stefnanda. Í bréfinu segi meðal annars að „umfjöllun í fréttatilkynningunni miðaðist aðeins við uppgjör móðurfélagsins“. Þessi staðhæfing stefnda sé röng. Í fréttatilkynningunni kæmu fram ýmsar upplýsingar um samstæðuna. Þar hafi til dæmis verið fjallað um helstu atvik í rekstri þeirra dótturfélaga sem falli undir megin starfsþætti samstæðunnar og rekstrarafkomu í einstökum starfsþáttum. Stefnandi hafi engu að síður ákveðið að hafa góðan samstarfsvilja að leiðarljósi og óskað eftir fundi við stefnda til að unnt væri að finna lausn á málinu og birta fréttatilkynningu vegna 6 mánaða uppgjörsins hið fyrsta. Fundurinn hafi verið haldinn 13. september og niðurstaða hans orðið sú að stefnandi gerði tillögu að nýrri fréttatilkynningu.
Stefnandi hafi sent stefnda nýjar fréttatilkynningar 14., 19. og 21. september s.á. Í þeim hafi verið reynt eftir fremsta megni að veita eins ítarlegar og gagnlegar upplýsingar og unnt var, ásamt því að hafa tilmæli stefnda til hliðsjónar. Stefndi hafi engu að síður talið þær ófullnægjandi og til þess fallnar að villa um fyrir fjárfestum.
Stefnandi hafi sent stefnda nýja fréttatilkynningu 25. september s.á. sem birt var á fréttavef stefnda 26. sama mánaðar. Uppsetning og efni hennar sé það sama og í óbirtri fréttatilkynningu frá 21. september. Í þessari fréttatilkynningu hafi verði tekið tillit til allra ábendinga stefnda. Fyrirsögn hennar sé: „Hagnaður Atorku Group, móðurfélags, eftir skatta á fyrri helmingi ársins 2006 var tæplega 4,9 milljarðar króna.“ Eins og fyrirsögnin beri með sér sé augljóslega verið að tala um hagnað móðurfélagsins, en ekki samstæðunnar. Í tilkynningunni sé fjallað ítarlega um bæði móðurfélags- og samstæðureikning stefnanda og gerður skýr greinarmunur á þeim.
Síðustu fréttatilkynningunni hafi fylgt bréf þar sem sjónarmið stefnanda væru útskýrð auk þess sem lýst hafi verið yfir samstarfsvilja af hálfu stefnanda um að málið fengi farsælan endi og þess vænst að því yrði lokið af hálfu stefnda. Sérstaklega hafi verið farið fram á að ef stefndi hefði einhverjar athugasemdir við breytingar, sem stefnandi hefði gert á fréttatilkynningunni og fyrirsögn hennar, yrði gerð ítarleg grein fyrir þeim svo og þeim lögum og reglum sem þær styddust við.
Stefndi hafi síðan ákveðið fyrirvaralaust 2. október 2006 að áminna stefnanda opinberlega og beita hann févíti að fjárhæð 2.500.000 króna. Þessi ákvörðun stefnda sé ekki til komin vegna reikningsskila stefnanda, enda hefðu hvorki verið gerðar athugasemdir við þau né þær aðferðir sem stefnandi beitti. Ákvörðun stefnda sé eingöngu reist á athugasemdum við fréttatilkynningu varðandi 6 mánaða uppgjör stefnanda og texta í fyrirsögn. Í ákvörðuninni sé því ranglega haldið fram að meginefni fréttatilkynningarinnar frá 26. september sé móðurfélagið en fyrirsögn hennar upplýsi hver hagnaður móðurfélagsins hafi verið á síðastliðnum 6 mánuðum. Í tilkynningunni sé fjallað jöfnum höndum um lykiltölur og árshlutareikninga móðurfélagsins og samstæðunnar. Þá sé einnig gerð grein fyrir þeim reikningsskilaaðferðum sem stefnandi hafi beitt, bæði við gerð móðurfélags- og samstæðureikningsins. Ákvörðun stefnda um að áminna stefnanda og beita hann févíti hafi verið birt samdægurs á fréttavef stefnda.
Ákvörðun stefnda hafi verið fyrirvaralaus, enda hafi forráðamenn stefnanda fengið að vita um hana með boðsendu bréfi u.þ.b. einum til tveimur tímum áður en hún var birt opinberlega. Stefnandi hafi því hvorki getað brugðist við henni né fengið tækifæri til andmæla. Þá hafi stefndi enn fremur hafnað beiðni stefnanda 2. október s.á. um að birta fréttatilkynningu á fréttavef stefnda um sjónarmið stefnanda vegna ákvörðunar stefnda þótt þau ættu beint erindi við fjárfesta. Lögmaður stefnanda hafi ítrekað þá beiðni með bréfi 3. október s.á., en henni hafi verið hafnað með bréfi lögmanns stefnda 7. sama mánaðar.
Í kjölfar ákvörðunar stefnda 2. október hafi stefnandi óskað sérstaklega eftir því við stjórn stefnda í bréfi 7. s.m. að ákvörðunin yrði dregin til baka og að fundin yrði ásættanleg lausn á málinu, enda um mikið hagsmunamál að ræða fyrir stefnanda. Þeirri beiðni hafi verið hafnað í bréfi stefnda 11. s.m. Stefnandi sé algerlega ósammála afstöðu stefnda í þessu máli, bæði hvað varði hina opinberu áminningu og févíti, og því hafi honum verið nauðugur sá kostur að höfða mál þetta til að fá viðunandi úrlausn á þessu ágreiningsefni.
Stefnandi byggi í fyrsta lagi á því að stefnda hafi borið að haga ákvarðanatöku sinni í samræmi við málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda hafi stefnda verið fengið vald á grundvelli laga nr. 34/1998 um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða. Stefndi hafi hlutverki að gegna, sem telja verði opinbers réttar eðlis, þótt starfsemi stefnda ráðist að miklu leyti af einkaréttarlegum reglum. Kauphöll teljist vera lögbært yfirvald í skilningi Evrópuréttar, sbr. 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 434/1999 um opinbera skráningu verðbréfa í kauphöll. Í greinargerð með frumvarpi til kauphallarlaga segi að kauphallir hafi m.a. skyldu til þess að hafa eftirlit með því að útgefendur fari að þeim lögum og reglum sem um kauphallir gildi. Þær fari því með ákveðið stjórnsýsluhlutverk. Framkvæmdastjóri stefnda hafi tekið ákvörðun um að áminna stefnanda opinberlega og beita félagið févíti. Á honum hafi því hvílt skylda til að fara að reglum stjórnsýslulaga þar sem hlutverk og starfsemi stefnda ráðist bæði af reglum einkaréttar og opinbers réttar.
Ákvörðun stefnda hafi verið fyrirvaralaus og harkaleg. Stefnandi hafi enga vitneskju haft um þessi áform stefnda og honum hafi heldur ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um efni ákvörðunarinnar. Þar sem stefndi hafi ekki gætt að þessu við meðferð málsins hafi ákvörðun hans brotið harkalega gegn þeim öryggis- og verklagsreglum sem honum hafi borið að fylgja sem eftirlitsaðila á verðbréfamarkaði. Stefndi hafi farið strangar í sakirnar en nauðsyn hafi borið til og ekki tekið tillit til hagsmuna stefnanda við ákvarðanatöku sína. Öll málsmeðferðin hafi því gengið í berhögg við meðalhófsreglu 12. gr. laga nr. 37/1993 og þann andmælarétt sem stefnanda sé tryggður í 13. gr. laganna.
Hin umdeilda ákvörðun stefnda sé mjög íþyngjandi og af þeirri ástæðu einni leiði framangreindir vankantar á málsmeðferð stefnda ótvírætt til þess að ógilda beri ákvörðunina. Auk þess hafi málsmeðferð stefnda brotið gegn óskráðri reglu stjórnsýsluréttarins um misbeitingu valds þar sem hin skyndilega ákvörðun hafi verið tekin með það að leiðarljósi að komast hjá flóknari og tímafrekari málsmeðferð. Stefnda hafi borið að leggja málið í réttan farveg og gæta að meginreglum stjórnsýslulaga. Þar sem stefndi hafi misbeitt valdi sínu við val á leið til úrlausnar málsins beri að ógilda ákvörðunina.
Í öðru lagi byggi stefnandi á því að fréttatilkynningin 25. september uppfyllti í alla staði reglur stefnda fyrir útgefendur verðbréfa í Kauphöll Íslands hf. frá 1. janúar 2006. Í tilkynningunni sé fjallað skýrlega og að jöfnu um móðurfélags- og samstæðureikning stefnanda. Fréttatilkynningin og fyrirsögn hennar hafi tekið miklum breytingum frá 30. ágúst til 26. september. Stefnandi hafi sent stefnda fjölmargar tillögur að tilkynningunni og að lokum hafi hún verið þannig úr garði gerð að lögð var jöfn áhersla á móðurfélags- og samstæðureikninginn. Þess konar framsetning sé í góðu samræmi við ákvæði framangreindra reglna. Í ákvæði 2.1.6 sé fjallað um form og innhald tilkynninga, en þar segi meðal annars að útgefandi skuli í allri upplýsingagjöf sinni gæta þess að gefin sé skýr mynd af því sem fjallað sé um hverju sinni og að leitast skuli við að hafa orðalag í tilkynningum skýrt og ótvírætt þannig að fjárfestum sé strax ljóst hvað fjallað sé um í henni. Fréttatilkynning stefnanda 26. september sé í góðu samræmi við þetta, enda komi skýrlega fram í fyrirsögn hennar að hagnaður móðurfélagsins, en ekki samstæðunnar, hafi verið tæplega 4,9 milljarðar króna. Í tilkynningunni sé einnig greint skýrlega á milli lykiltalna í móðurfélags- og samstæðureikningi stefnanda. Fréttatilkynningin sé jafnframt í samræmi við 8. gr. reglugerðar nr. 433/1999, enda gefi hún, líkt og ákvæðið geri ráð fyrir, skýra mynd af því sem fjallað er um. Hinum almenna fjárfesti sé því vissulega ljóst um hvað sé fjallað þar sem skýrt komi fram að hagnaðurinn stafi frá móðurfélaginu, en ekki samstæðunni.
Í ákvörðun stefnda sé vísað til framangreindra reglna fyrir útgefendur verðbréfa. Stefnandi sé talinn brjóta í bága við ákvæði 2.3.7. Þetta ákvæði eigi við um fréttatilkynningu félags vegna ársuppgjörs, en ekki árshlutauppgjörs. Reglur um hið síðargreinda sé að finna í ákvæði 2.3.8 reglnanna. Heimfærsla stefnda til ákvæða í reglunum sé því röng. Fréttatilkynning stefnanda og fyrirsögn hennar uppfylli öll þau skilyrði sem fram komi í báðum þessum ákvæðum og breyti því í raun engu þótt um árshlutauppgjör hafi verið að ræða en ekki ársuppgjör. Ákvæði 2.3.7 geri jafnframt ráð fyrir því að félög hafi verulegan sveigjanleika þegar tölur eru valdar í fréttatilkynningu, en þar segi að skipta megi út ákveðnum lykiltölum eða kennitölum fyrir aðrar sem gefi gleggri mynd.
Sú ákvörðun stefnanda að haga fyrirsögn fréttatilkynningarinnar þannig að leggja áherslu á hagnað móðurfélagsins, hafi verið tekin í því skyni að hinn almenni fjárfestir gæti betur áttað sig á rekstri félagsins. Árshlutareikningur móðurfélagsins gefi mun betri og gleggri mynd af rekstri félagsins en öll samstæðan. Þær lykiltölur sem fjárfestar horfi til í reikningum geti verið afar mismunandi eftir eðli reksturs. Stefnandi sé fjárfestingarfélag með umbreytingar og vöxt á fyrirtækjum að leiðarljósi og dótturfélögin rekin sjálfstætt. Markmiðið með fjárfestingum félagsins sé að selja þær aftur og innleysa hagnað. Þessi afstaða stefnanda sé í samræmi við niðurstöður í áliti frá Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands sem unnið hafi verið fyrir stefnanda í október 2006. Þar segi að starfsemi fjárfestingafélaga einkennist af því að það sé ekki hagnaðurinn sem dótturfélagið (þ.e. fjárfestingarverkefnið) skapi sem móðurfélagið (þ.e. fjárfestingafélagið) einblíni á, heldur sé það fjárhagslegi ávinningurinn, þ.e. hagnaðurinn sem fáist þegar dótturfélagið er selt. Fjárfestingarfélög fjárfesti í hlutafé, en ekki hagnaði eða eignum dótturfélaga. Því gefi árs- eða árshlutareikningur móðurfélags í fjárfestingarstarfsemi gleggri mynd en samstæðureikningsskil, þótt vissulega sé mikil kostur að skila inn báðum reikningunum, líkt og stefnandi hafi gert. Stefnandi hafi einmitt haft þessi sjónarmið til hliðsjónar þegar hann útbjó hina umdeildu fréttatilkynningu, enda sé hún til þess fallin að gefa hluthöfum og öðrum sem gleggsta mynd af rekstri félagsins. Í álitinu komi einnig fram að bandaríska reikningsskilaráðið (FASB) hafi gefið út túlkun, FIN 46(R), þar sem fram komi að skráð fjárfestingafélög séu undanþegin samstæðureikningsskilum. Reikningsskilaráð Kanada hafi einnig tekið sömu afstöðu, en í kjölfar FIN 46(R) hafi reikningsskilastöðlunum Accounting Guideline AcG-15, sem tóku gildi á árinu 2004, verið breytt þannig að nú þurfi fjárfestingafélög þar í landi ekki að gera samstæðureikningsskil.
Sams konar reglur væru ekki í gildi um hérlend fjárfestingafélög. Stefnandi hafi heldur ekki hagað reikningsskilum sínum og aðferðum við birtingu fréttatilkynninga með þeim hætti að gera ekki samstæðureikningsskil. Þvert á móti hafi reikningsskil stefnanda verið þannig að bæði var gerður móðurfélags- og samstæðureikningur, eins og gert sé ráð fyrir í lögum nr. 3/2006 um ársreikninga. Í fréttatilkynningunni hafi einnig verið ítarleg umfjöllun um árshlutareikning móðurfélagsins annars vegar og samstæðunnar hins vegar. Þetta sé í samræmi við hérlenda réttarframkvæmd þar sem hvergi sé kveðið á um í lögum, reglugerðum, settum reglum eða öðrum réttarheimildum að fjárfestingafélög megi ekki birta móðurfélags- og samstæðureikning í senn. Slík reikningsskil megi öllu heldur telja til fyrirmyndar, enda sé kveðið á um það í lögum nr. 3/2006 um ársreikninga að félög, sem eru skráð í kauphöll, sé skylt eftir 1. janúar 2007 að gera móðurfélagsreikninga samkvæmt IFRS. Með þessari háttsemi sinni hafi stefnandi því aðeins verið að sjá til þess að reikningsskil hans væru sem gleggst og gæfu fjárfestum réttar upplýsingar um félagið.
Í áminningu stefnda sé einnig vísað til 7. gr. reglugerðar nr. 433/1999 til stuðnings niðurstöðu stefnda. Þar segi að „fréttatilkynning Atorku vegna uppgjörsins átti að endurspegla uppgjör samstæðunnar þar sem Atorka er samstæða, sbr. 2. mgr. 7. gr.“ Stefndi túlki því umrætt ákvæði þannig að þeir útgefendur sem beri að gera samstæðuuppgjör skuli miða fréttatilkynningu vegna uppgjörs við samstæðuuppgjörið og að uppgjör móðurfélagsins megi fylgja með sem ítarefni og sé því nokkurs konar viðbótarupplýsingar. Í ákvæðinu komi hins vegar ekki fram að fréttatilkynningin eigi að „endurspegla“ uppgjör samstæðunnar. Þar segi eingöngu að sé félagið hluti af samstæðu skuli birta samstæðureikninga. Stefnandi hafi uppfyllt þetta skilyrði ákvæðisins og birt samstæðureikning. Í 8. gr. reglugerðarinnar sé aftur á móti fjallað um fréttatilkynningu vegna birtingar ársreiknings. Þar sé því aftur um ranga heimfærslu til viðkomandi reglna að ræða af hálfu stefnda, sem sé mjög bagalegt í jafn íþyngjandi ákvörðun og þeirri sem hér um ræði. Þótt 8. gr. fjalli um fréttatilkynningu vegna birtingar ársreiknings, en ekki árshlutareiknings, megi hafa ákvæðið til hliðsjónar við gerð fréttatilkynningar, ásamt 9. gr. sömu reglugerðar þar sem fjallað sé um hálfsársuppgjör skráðra félaga. Í 8. gr. sé heldur ekkert kveðið á um að fréttatilkynningin skuli endurspegla samstæðuuppgjör félagsins. Ákvæði 7. gr. reglugerðarinnar verði að skilja eins og það sé ritað, en ekki eins og henti stefnda hverju sinni. Þar að auki sé staðhæfing stefnda röng um að stefnandi hafi hagað fréttatilkynningu sinni með þeim hætti að veita nær eingöngu upplýsingar um niðurstöðu reikningsskila móðurfélagsins. Jafnítarlegar upplýsingar séu um bæði móðurfélags- og samstæðureikning félagsins og hafi stefnandi hvorki brotið gegn 2. mgr. 7. gr. né 8. gr. reglugerðar nr. 433/1999. Upplýsingar um móðurfélagsreikning stefnanda mega ekki vera viðbótarupplýsingar í fréttatilkynningum þar sem þær gefi mun betri og gleggri mynd af rekstri félagsins heldur en öll samstæðan, enda væri slíkt í ósamræmi við 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar, þar sem segi að félag skuli leitast við að láta reikningsskil sín ávallt uppfylla ströngustu kröfur sem almennt væru gerðar til félaga í þeirri grein sem það starfi.
Stefndi hafi engar athugasemdir gert við fréttatilkynningu stefnanda vegna þriggja mánaða uppgjörs félagsins sem birt hafi verið á fréttasíðu stefnda 30. maí 2006. Þar segi í fyrirsögn: „Hagnaður Atorku Group, móðurfélags, eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi 2006 var rúmlega 4 milljarðar króna.“ Í textanum komi fram að vísað sé í hagnað móðurfélagsins, en ekki samstæðunnar. Sú skyndilega ákvörðun stefnda að áminna stefnanda vegna fréttatilkynningar um sex mánaða uppgjör félagsins, sem gerð hafi verið með sams konar hætti og tilkynning vegna þriggja mánaða uppgjörsins, sé því óskiljanleg og í engu samræmi við þær aðferðir og vinnureglur sem stefndi eigi að hafa að leiðarljósi sem eftirlitsaðili á verðbréfamarkaði.
Heimildir til arðgreiðslna úr sjóðum stefnanda taki mið af reikningum móðurfélagsins, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Upplýsingar um fjármuni í frjálsum sjóðum félagsins hafi því beina þýðingu fyrir mat á arðgreiðslum frá félaginu í framtíðinni og þar með verðmat þess. Vegna þessa sé óeðlilegt að birta aðeins samstæðureikninga stefnanda eða haga fréttatilkynningu frá félaginu þannig að þar sé eingöngu að finna upplýsingar um samstæðuna.
Krafa stefnanda sé enn fremur reist á því að forstjóri stefnda hafi tekið ákvörðun um að beita stefnanda viðurlögum. Heimildarákvæði til að taka slíkar ákvarðanir sé í 7.3 gr. reglna stefnda fyrir útgefendur verðbréfa frá 1. janúar 2006. Í ljósi ófrávíkjanlegra reglna um valdsvið félagsstjórnar og framkvæmdastjóra í hlutafélögum, en stefndi sé hlutafélag að lögum, leiki vafi á því hvort sú tilhögun, að fela forstjóra að taka ákvarðanir í eftirlitsmálum og beita viðurlögum, sé trúverðug og standist ákvæði laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Samkvæmt 2. mgr. 68. gr. laganna annast framkvæmdastjóri (forstjóri) daglegan rekstur félagsins og skuli í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem félagsstjórn hafi gefið. Hinn daglegi rekstur taki ekki til ráðstafana sem séu óvenjulegar eða mikils háttar en til þeirra þurfi sérstaka heimild frá félagsstjórn. Ákvarðanir á sviði eftirlits, sem lúti að viðurlögum eins og opinberri áminningu eða févíti, teljist mikilvægar ákvarðanir og falli því utan valdsviðs framkvæmdastjóra samkvæmt lögum um hlutafélög. Stjórn stefnda hafi því lögum samkvæmt borið að taka ákvörðun í málefnum stefnanda og óheimilt hafi verið að framselja ákvörðunarvaldið til forstjóra félagsins.
Samkvæmt öllu framangreindu sé ljóst að reikningsskil stefnanda og fréttatilkynning vegna sex mánaða uppgjörs félagsins, ásamt fyrirsögn hennar, sé í samræmi við gildandi lög, góða reikningsskilavenju og reglur stefnda um gerð og birtingu fréttatilkynninga. Stefnandi vísi til framangreindra lagaákvæða og annarra réttarheimilda, sem málatilbúnaður hans styðjist við, og til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr., til stuðnings málskostnaðarkröfu sinni.
Málsástæður og lagarök stefnda
Af hálfu stefnda er vísað til þess að stefnandi hafi sent frá sér fréttatilkynningu 30. ágúst 2006 og sé hún undirrót máls þessa. Stefnandi sé fjárfestingafélag sem eigi fjölda dótturfélaga. Stefnandi og dótturfélögin séu samstæða samkvæmt 4. mgr. 2. gr. laga um hlutafélög og 7. tl. 2. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga. Við lestur uppgjöra, sem fylgt hafi fréttatilkynningunni, komi í ljós að hagnaður samstæðunnar hafi verið 187 milljónir króna. Lykiltölur sem fram komi í fréttatilkynningunni hafi aðeins verið lykiltölur móðurfélagsins. Engar lykiltölur hafi verið um samstæðuna og rekstrarniðurstöðu hennar ekki getið.
Fyrirsögn fréttatilkynningarinnar og umfjöllun í meginmáli fjalli um uppgjör móðurfélagsins, ekki samstæðunnar. Af fyrirsögninni mætti þó ætla að hún tæki til samstæðunnar, eins og rétt hefði verið. Vegna þessa hafi starfsmenn stefnda óskað eftir leiðréttingu þegar daginn eftir í símtölum við stefnanda. Leiðrétting hafi ekki borist og hafi stefndi því haft samband að nýju við stefnanda 4. september s.á. Af stefnanda hálfu hafi ekki verið talið tilefni til leiðréttingar. Að því svari fengnu hafi stefndi ritað stefnanda bréf sama dag en stefnandi haldi því fram að röng staðhæfing sé í bréfinu þar sem fréttatilkynningin innihaldi ýmiss konar upplýsingar um samstæðuna. Hið rétta sé að þar sé nokkur umfjöllun um helstu dótturfélög stefnanda, en hins vegar ekki nokkur umfjöllun um samstæðureikning, aðeins vísan til meðfylgjandi árshlutareikninga. Því síður hafi lykiltölur samstæðunnar verið settar fram í tilkynningunni, svo sem gera skuli. Stefnanda hafi frá fyrsta samtali verið gerð grein fyrir því að efni tilkynningar skyldi miðast við samstæðuuppgjör og áhersla lögð á það.
Þáverandi framkvæmdastjóri stefnanda hafi farið fram á fund með forsvarsmönnum stefnda 7. september s.á. og hafi fundur verið haldinn 13. s.m. Þar hafi enn verið ítrekuð sjónarmið stefnda þess efnis að fréttatilkynning skyldi taka til samstæðunnar. Fundinum hafi lokið á þann veg að stefnandi myndi senda inn nýja fréttatilkynningu án tafar þar sem farið yrði að forskrift stefnda. Tilkynning hafi borist daginn eftir. Í stað þess að hún færi að forskrift stefnda hafi hún verið lítt breytt frá fyrri tilkynningu, en skeytt inn því sem kallað var „Lykiltölur, samstæðureikningur“. Fyrirsögn hafi verið óbreytt og megináherslan enn sem fyrr á móðurfélagið, þvert á það sem stefndi hefði margítrekað lagt áherslu á.
Stefndi hafi ítrekað haft samband við stefnanda 14. og 15. september í því skyni að fá frá honum leiðrétta tilkynningu, án árangurs. Enn hafi verið rætt við stefnanda 17. og 18. s.m. og hafi komið alveg skýrt fram í þeim samtölum að stefndi mæti tilkynningu ófullnægjandi og krefðist leiðréttingar. Stefnandi hafi loks gert grein fyrir því að leiðréttingar væri að vænta 19. september. Eftir lokun markaða þann dag hafi loks borist ný útgáfa fréttatilkynningarinnar. Fyrirsögn hafi þá verið breytt með því að skeytt hafi verið þar inn í að hagnaðurinn tilheyrði móðurfélagi, auk þess sem bætt hafi verið nokkru við umfjöllun um samstæðuuppgjör. Stefndi hafi enn talið, og af sömu ástæðu og fyrr, að tilkynningin væri ófullnægjandi, enda þungamiðjan móðurfélagsuppgjörið og ekki vikið að samstæðu í fyrirsögn.
Stefndi hafi gert stefnanda grein fyrir því að hann teldi tilkynninguna ófullnægjandi með tölvuskeyti 20. september s.á. og beðið um staðfestingu á því að birta skyldi hana engu að síður. Í tölvuskeyti stefnanda komi fram að honum hafi verið ljóst hverjar tillögur stefnda væru en hann kysi að fara ekki eftir þeim. Í svari stefnanda til stefnda 21. s.m. hafi stefnandi staðfest að hann vildi að fréttatilkynningin yrði birt, auk þess sem farið væri fram á bréf þar sem tilgreint yrði „í smáatriðum hvað þið teljið ófullnægjandi í leiðréttu tilkynningunni“. Því hafi verið hafnað um klukkustund síðar af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi hafi stefndi talið að stefnanda væri alveg ljóst hvað stefndi teldi vanta upp á tilkynninguna, en hann væri því einfaldlega ósammála. Hins vegar fari ekki saman við eftirlitshlutverk stefnda að taka að sér að skrifa fréttatilkynningar einstakra útgefenda eða gefa þeim nákvæma forskrift. Vísað hafi verið til þess sem fram hefði komið í fyrri samskiptum aðila og í tilgreind ákvæði reglna stefnda. Í tölvupóstsamskiptum hafi stefnandi lýst því yfir að hann liti svo á að gerði stefndi ekki skriflega grein fyrir sjónarmiðum sínum teldi hann málið niður fallið. Stefndi hafi svarað því þannig að ekki yrði liti svo á af hans hálfu.
Enn á ný hafi borist tilkynning frá stefnanda eftir lokun markaða 21. september og í tölvuskeyti stefnanda til stefnda þann dag komi fram að umfjöllun um samstæðu sé orðin ítarlegri og að vonast sé til að það verði til þess að leysa málið. Yrði svo ekki hafi verið óskað upplýsinga um „nákvæmlega hvað vantar og nákvæmlega hvað er að“. Stefndi hafi svarað skeytinu morguninn eftir á þann veg að leiðréttingin væri ekki fullnægjandi og málinu því ekki lokið. Þar hafi verið sagt: „Megináherslan og þungamiðjan í tilkynningunni á að vera á samstæðuna, ekki móðurfélagið.“ Það hafi enn verið ítrekun þess sem fram komi í fyrstu athugasemd, en stefnandi ekki viljað verða við. Stefnandi haldi því fram að tilmæli stefnda hafi verið höfð til hliðsjónar við tilkynninguna en það sé rangt. Stefnanda hafi verið ljóst hverjar athugasemdir stefnda voru en hann hafi tekið ákvörðun um að fara ekki eftir þeim.
Síðasta fréttatilkynning stefnanda hafi borist 25. september. Í tölvuskeyti, sem henni hafi fylgt, hafi verið óskað birtingar. Stefndi hafi svaraði tölvuskeytinu og enn hafi komið fram að tilkynningin væri talin ófullnægjandi af sömu ástæðum. Þá hafi verið beðið um staðfestingu þess að tilkynningin skyldi birtast og tekið fram að í birtingu fælist ekki nokkur viðurkenning á málalokum. Tilkynningin hafi birst á vef stefnda 26. september. Í stefnu segi að í fréttatilkynningunni hafi „verið tekið tillit til allra ábendinga stefnda“, en það sé ekki rétt. Þetta komi fram í því sem þegar hafi verið rakið, auk þess sem starfsmenn málsaðila hafi margoft talað saman á þeim tíma.
Þrátt fyrir framangreint reisi stefnandi málatilbúnað sinn á því að stefndi hafi fyrirvaralaust beitt sig viðurlögum. Málavextir beri glöggt með sér að það sé fjarri sanni. Nær lagi væri að halda því fram að stefndi hefði ekki gengið nógu hratt fram og gefið stefnanda of rúmt svigrúm og mörg tækifæri til þess að bæta úr ágöllum á tilkynningu sinni.
Málatilbúnaður stefnanda sé á því byggður að stefndi hafi í ákvarðanatöku sinni verið bundinn af málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga og m.a. vísað til þess að stefnda sé fengið hlutverk sem lögbæru yfirvaldi í skilningi Evrópuréttarins. Stefndi sé hlutafélag í eigu einkaaðila. Stjórnsýslulögin eigi því eftir efni sínu ekki við um starfsemi stefnda. Með kauphallarlögunum nr. 34/1998 og reglugerð, sem sett hafi verið með stoð í þeim, væri stefnda fengin ákveðin verkefni sem tengdust skráningu félaga á markað og aðild að kauphöll. Eftir 1. mgr. 13. gr. laganna beri stefnda að rökstyðja ákvörðun um synjun aðildar að kauphöll eða ákvörðun um að fella verðbréfaflokka endanlega af skrá. Þá sé stefnda einnig fengið eftirlitshlutverk með upplýsingagjöf útgefenda í reglugerð nr. 433/1999. Samt sem áður væru ákvarðanir stefnda varðandi skráningu og eftirlit hvorki skilgreindar sem stjórnsýsluákvarðanir í lögum né kveðið á um að stjórnsýslureglur giltu um slíkar ákvarðanir.
Eftirlit stefnda með upplýsingagjöf stefnanda sé ekki á grundvelli heimildar hans sem lögbærs yfirvalds, heldur samnings við stefnanda um skráningu hlutabréfa hans á markað. Með samningnum hafi stefnandi selt sig undir eftirlitsvald stefnda, sbr. 1. og 3. gr. hans. Í 5. gr. samningsins séu viðurlög við vanefndum útgefanda tilgreind. Sömu viðurlög væru tilgreind í gr. 7.3 í reglum stefnda. Á grundvelli þessa samnings, reglna sem stefndi setji um starfsemi sína með heimild í 3. tl. 11. gr. kauphallarlaganna og eftirlitshlutverks sem stefnda sé fengið samkvæmt 4. tl. 11. gr. sömu laga, hafi stefndi beitt stefnanda viðurlögum. Málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga taki því ekki til samskipta stefnda við stefnanda í aðdraganda þessa máls.
Málsmeðferð stefnda hafi þó í einu og öllu og umfram skyldu fullnægt þeim kröfum sem gerðar væru til stjórnsýslumáls. Stefnandi hafi hins vegar ekki orðið við margítrekuðum tilmælum stefnda um úrbætur á fréttatilkynningu sinni, eins og málavextir beri glöggt með sér. Frá fyrstu samskiptum hafi legið fyrir hvers efnis stefndi teldi að úrbætur ættu að vera, þ.e. að áherslan skyldi lögð á samstæðu stefnanda. Stefnandi hafi kosið að fara ekki að athugasemdunum og þegar fullreynt hafi verið um úrbætur hafi stefnda verið það ráð eitt tækt að beita viðurlögum. Stefnanda hafi ekki getað dulist að þannig hlyti að fara þegar hann neitaði að verða við beiðni um úrbætur.
Í ljósi aðdraganda ákvörðunarinnar sé fráleitt að tala um brot á meðalhófi eða að andmælaréttur hafi verið brotinn, en málavextir og framlögð skjöl beri með sér hvernig samskiptum aðila var háttað í aðdraganda hinnar umþrættu ákvörðunar. Viðurlögin sjálf eigi sér stoð í og væru í samræmi við samning aðila og reglur stefnda. Þá hafi févíti verið ákveðið sem svaraði þreföldu árgjaldi stefnanda hjá stefnda, en hefði mátt vera allt að tíföldu árgjaldinu. Ekki hafi verið um mistök að ræða hjá stefnanda heldur hafi hann vísvitandi farið á svig við margítrekaða beiðni stefnda um úrbætur.
Enn fjarlægara sé að ákvörðun stefnda hafi verið valdníðsla eða misbeiting valds. Ákvörðunin hafi alls ekki verið tekin til þess að komast hjá „flóknari og tímafrekari“ málsmeðferð, eins og stefnandi haldi fram. Ákvörðunin hafi verið tekin að vel íhuguðu máli eftir vandaðan undirbúning og stefnanda hafi margítrekað verið gefinn kostur á að leiðrétta fréttatilkynninguna. Helst mætti finna að því hversu langan tíma málið tók, enda grafalvarlegt að markaðnum séu veittar upplýsingar sem eftirlitsaðili telji ófullnægjandi.
Stefnandi byggi efnislega á því að tilkynning hans 26. september sé fullnægjandi en um það sé hinn raunverulegi ágreiningur aðila. Þá haldi stefnandi því fram að í tilkynningunni sé lögð jöfn áhersla á samstæðureikninginn og móðurfélagsreikninginn. Engu að síður sé löngu máli varið í það í stefnu að réttlæta að fyrirsögn taki einungis til móðurfélagsreikningsins. Þegar af þeirri ástæðu sé augljóst að ekki sé jöfn áhersla á móðurfélagsreikninginn og samstæðureikninginn. Hefði jöfn áhersla verið lögð á reikningana tvo hefði einnig verið í fyrirsögn að hagnaður samstæðunnar hefði verið 186 milljónir króna, ekki einungis hver hagnaður móðurfélagsins hafi verið. Stefnandi hafi ekki fengist til þess að ganga lengra í leiðréttingu á fyrirsögninni.
Stefnandi haldi því fram í stefnu, og áður í samskiptum við stefnda, að móðurfélagsreikningur gæfi betri mynd af stöðu félagsins en samstæðureikningur. Um það vísi hann til reikningsskilastaðla, sem ekki hafi verið skylt að fara eftir þegar uppgjörið var gert. Hann vísi og til þess að bandaríska reikningsskilaráðið undanþiggi skráð fjárfestingafélög samstæðureikningsskilum, án þess að leggja fram gögn þeirri staðhæfingu til staðfestu, hvað þá að leitast við að sýna fram á hvaða þýðingu það gæti haft fyrir niðurstöðu þessa máls. Loks vitni stefnandi til skýrslu sem hann hafi látið Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands vinna fyrir sig. Niðurstaða skýrslunnar sé hins vegar á þann veg að hún geti ekki skipt nokkru máli við úrlausn málsins. Skýrsla sem annar aðili dómsmáls láti vinna fyrir sig án atbeina dómstóls og án þess að gagnaðila gefist kostur á að láta til sín taka eigi yfirleitt ekki erindi í málið.
Þessi málatilbúnaður stefnanda geti ekki varðað nokkru um niðurstöðu málsins. Óumdeilt sé að stefnandi sé samstæða í skilningi 2. gr. laga um hlutafélög og laga um ársreikninga. Samkvæmt 67. gr. síðarnefndu laganna beri stefnda að semja samstæðureikning, en undanþágur þar eigi ekki við um stefnanda. Þessi grein sé efnisleg innleiðing IFRS, reglu IAS 27.4, um samstæðureikninga. Á þeim tíma sem hér skipti máli hafi hins vegar ekki verið lagaskylda að semja móðurfélagsreikning.
Í reglugerð nr. 433/1999 sé kveðið á um að birta skuli samstæðureikning í 2. mgr. 7. gr. og samstæðumilliuppgjör í 3. mgr. 9. gr. Í gr. 2.3.5 í reglum stefnda sé kveðið á um að birta skuli uppgjör og tekið fram að fréttatilkynning skuli vera svo ítarleg, að ekki felist í uppgjörinu „...viðbótarupplýsingar sem gætu haft veruleg áhrif á verðmyndun...“ Samskonar regla sé í 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 433/1999. Í gr. 2.3.7 í reglum stefnda, sem taki til ársuppgjöra, og 2.3.8, sem taki til milliuppgjöra, sé nánari tilgreining á því hvað skuli felast í fréttatilkynningunni. Greinarnar séu sama efnis að teknu tilliti til þess munar sem sé á ársreikningi og milliuppgjöri. Þetta sé vandlega rakið í ákvörðun stefnda. Því breyti engu að stefnandi sé í ákvörðuninni sagður brotlegur við gr. 2.3.7 í reglunum, ekki 2.3.8, svo sem vera ætti þar sem um milliuppgjör sé að ræða. Að því er hér skipti máli væru greinarnar algerlega sama efnis. Stefnandi reyni að gera sér mat úr því að heimfærsla til ákvæðis 2.3.7 í reglunum hafi verið röng, en noti síðan efnisatriði úr sama ákvæði málstað sínum til stuðnings.
Þar sem stefnanda sé skylt að gera og birta samstæðuuppgjör, ekki móðurfélagsuppgjör, hljóti fréttatilkynningin að eiga að miðast við uppgjörið sem skylt sé að vinna, ekki hitt sem unnið væri umfram skyldu. Í því felist kjarni ágreinings aðila. Ársreikningaskrá deili þessari skoðun með stefnda, eins og fram komi í bréfi til stefnda 12. september 2006.
Rétt sé hins vegar hjá stefnanda að til fyrirmyndar sé að vinna sem allra mestar upplýsingar um félagið. En upplýsingar sem væru umfram það sem af lögum leiði hljóti að teljast til fyllingar þeim upplýsingum sem skylt sé að vinna og birta. Þær geti ekki verið þungamiðja upplýsingagjafarinnar, eins og verið hafi hjá stefnanda í fréttatilkynningum hans.
Stefnandi haldi því fram að það sé túlkun stefnda, sem ekki eigi sér stoð í orðalagi, að ákvæði 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 433/1999 feli í sér skyldu til þess að miða birtingu við samstæðu. Stefnandi gangi meira að segja svo langt að halda því fram að um ranga heimfærslu til ákvæðis sé að ræða. Stefndi telji þetta misskilning hjá stefnanda svo sem við blasi af gr. 2.3.5 í reglum stefnda og 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 433/1999 sem sé efnislega eins og gr. 2.3.5 í reglum stefnda. Fréttatilkynningar vegna ársreikninga og milliuppgjöra þurfi að vera samkynja, eigi þær að vera tækar til upplýsingar. Augljóst sé að ekki gangi að tilkynning vegna ársuppgjörs taki til samstæðu en milliuppgjör aðeins til móðurfélags, svo sem ætla mætti af málatilbúnaði stefnanda að hann álíti. Fjárfestar verði að fá upplýsingar sem þeir geti borið saman, annars sé upplýsingagjöf einskis virði.
Stefnandi sé eini útgefandi hlutabréfa hjá stefnda sem hafi þennan hátt á birtingu. Aðrir útgefendur sambærilegir stefnanda virtust ekki telja sér heimilt að haga birtingu á þann veg sem stefnandi telji sér heimilt. Þetta skipti sérstaklega miklu máli í ljósi þess hlutverks stefnda að gera fjárfestum kleift að bera saman kosti. Séu birtar upplýsingar ekki sambærilegar frá einu félagi til annars fari það hlutverk fyrir lítið. Aðrir útgefendur virtust ekki deila þeirri skoðun með stefnanda að fréttatilkynning um móðurfélag gefi gleggsta mynd. Stefndi hafi fengið upplýsingar frá Kauphöllinni í Stokkhólmi, þess efnis að félögum beri að birta samstæðutölur, jafnvel fjárfestingarfélögum.
Í stefnu haldi stefnandi því fram að fréttatilkynning vegna þriggja mánaða uppgjörs hafi verið sams konar og fréttatilkynning vegna sex mánaða uppgjörs. Það sé ekki rétt. Í þriggja mánaða uppgjörinu komi fram í fyrirsögn að hagnaður, sem vísað var til, væri móðurfélagsins. Þar hafi einnig strax í upphafi tilkynningar verið vísað til þess að tvö uppgjör væru unnin og fylgdu með fréttatilkynningunni, auk þess sem umfjöllun hafi verið um lykiltölur úr báðum reikningum fremst í tilkynningunni. Ekkert af þessu eigi við um fréttatilkynninguna 30. ágúst. Verulegur munur hafi því verið á þessu tvennu, en fyrri tilkynningin væri mun nær því að vera fullnægjandi en sú sem væri undirrót þessa máls. Annað mál sé að við nánari athugun sé ljóst að fyrirsögn í fréttatilkynningu vegna þriggja mánaða uppgjörsins sé ekki fullnægjandi. Stefnandi geti þó ekki byggt rétt á því að stefnda hafi yfirsést fyrri brot stefnanda á reglum.
Gríðarlegur munur sé á móðurfélagsuppgjöri og samstæðuuppgjöri stefnanda. Samstæðuuppgjörið sé það uppgjör sem skylt sé að vinna. Niðurstaða þess væri byggð á rekstrarniðurstöðu, þ.e. á rauntölum. Niðurstaða móðurfélags væri aftur á móti byggð á mati stjórnar á verðmæti eignasafns, yrði það selt. Augljóslega sé sú niðurstaða hvergi nærri eins vís og rekstrarniðurstaða samstæðu. Þetta sé ástæða þess að reglur og kröfur væru eins og þær eru, með áherslu á samstæðuna. Fréttatilkynningu beri að gera þannig úr garði að ekki þurfi að kafa í reikningana sjálfa eftir upplýsingum, sbr. gr. 2.3.5 í reglum stefnda og 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 433/1999. Það sé í raun vonlaust með móðurfélagsreikning. Matið á eignunum sé grundvallaratriðið í honum og fyrir því verði ekki gerð viðhlítandi grein í fréttatilkynningu. Reyndar sé furðu lítil grein gerð fyrir því hvernig matsniðurstöður væru fengnar í uppgjörinu sjálfu. Verðmat hljóti að ráðast að verulegu leyti af rekstri dótturfélaganna, sem koma eigi fram í samstæðuuppgjöri. Verðmat verði því aðeins framkvæmt án rekstrarniðurstaðna að um sé að ræða hrakvirði og til standi að leggja rekstur niður. Í móðurfélagsuppgjörinu komi fram að uppgjörið ætti að lesa með hliðsjón af samstæðuuppgjörinu en stefnandi hafi ekki talið ástæðu til þess að taka það fram í fréttatilkynningum sínum.
Stefnandi noti sem rök fyrir kröfum sínum að möguleikar til arðgreiðslna samkvæmt 99. gr. hlutafélagalaga verði takmarkaðir. Það sé ekki rétt. Megi yfir höfuð nota „sjóði“, sem til verði við endurmat á eignum til greiðslu arðs, þá breyti innihald fréttatilkynninga til stefnda engu þar um. Hins vegar mætti ætla að slík takmörkun á heimild til arðgreiðslna væri í samræmi við tilgang tilvitnaðs ákvæðis. Með því sé ætlunin að sporna við því að félög, sem ekki eigi sjóði, greiði arð. Mat stjórnenda á verðmæti eignasafns skapi enga sjóði sem hægt sé að ganga í. Það gangi þvert á tilgang ákvæðisins að heimila arðgreiðslu vegna slíkrar bókfærðrar verðmætisaukningar.
Stefnandi byggi málatilbúnað sinn loks á því að ákvörðun stefnda hafi verið tekin af forstjóra stefnda, en hefði átt að falla undir verksvið stjórnar eftir ákvæðum hlutafélagalaga. Það sé byggt á því að viðurlagaákvörðun hljóti alltaf að teljast mikilsverð og ekki hluti daglegs rekstrar. Stefndi sé ósammála þessu. Stefnda sé með lögum og reglugerðum falið eftirlit með upplýsingagjöf skráðra félaga. Félögin semji sig undir slíkt eftirlit með beinum samningi við stefnda. Eftirlitið sé því meginþáttur í daglegum rekstri stefnda. Því verði illa sinnt á annan hátt en þann að þeir sem með daglegt eftirlit fari, framkvæmdastjóri og starfsmenn stefnda, beiti þvingunarúrræðum sem reglurnar mæli fyrir um. Eðli starfseminnar sé slík að beiting þeirra væri hluti venjulegs rekstrar stefnda, þótt ekki komi oft til þess.
Auk þess hafi stjórn stefnda tekið ákvörðun um að fela forstjóra að taka ákvarðanir í eftirlitsmálum. Þær taki hann í samvinnu við starfsmenn á grundvelli vandaðs undirbúnings, m.a. á þann veg að ákvarðanir væru teknar af nefnd sem skipuð er starfsmönnum stefnda og skýringa sé ávallt leitað hjá útgefanda. Þessi ákvörðun stjórnar sé í fullu samræmi við það að eftirlitið sé hluti venjubundins rekstrar stefnda og feli á engan hátt í sér framsal á valdi sem eigi eftir hlutafélagalögum að vera í höndum stjórnarinnar. Til grundvallar þessari skipan liggi yfirveguð ákvörðun stjórnar og í ljósi eðlis rekstrar stefnda hljóti að þurfa mikið til að dómstóll endurskoði þetta mat stjórnar á því hvað falli undir verksvið framkvæmdastjóra. Þess utan hafi stjórn stefnda staðfest í reynd ákvörðunina, að mótteknum athugasemdum frá stefnanda og beiðni um endurskoðun. Einstakir stjórnarmenn hafi fengið greinargóðar upplýsingar um málið og gefist kostur á að spyrja út í það áður en því hafi verið lokið með bókun.
Krafa stefnanda um að stefnda verði gert að birta dóm í heild sinni á fréttavef sínum að viðlögðum dagsektum eigi sér enga lagastoð. Því sé sérstaklega krafist sýknu af henni.
Málskostnaðarkrafa sé gerð með stoð í 129. til 131. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Niðurstaða
Með bréfi stefnda 2. október 2006 var stefnandi áminntur opinberlega og beittur févíti að fjárhæð 2.500.000 krónur fyrir brot á reglum stefnda. Stefnandi hafði með tilkynningu sinni 30. ágúst sama ár birt upplýsingar um 6 mánaða uppgjör sitt, sem að mati stefnda gaf tilefni til athugasemda. Með bréfi stefnda 4. september 2006 var stefnanda formlega gerð grein fyrir athugasemdum stefnda. Fram kom að umfjöllun í fréttatilkynningu miðaðist aðeins við uppgjör móðurfélagsins þegar miða ætti við samstæðuuppgjör, enda gerði stefnandi samstæðuuppgjör. Vísaði stefndi til þess að samkvæmt ákvæði 2.3.7 í reglum Kauphallarinnar fyrir útgefendur verðbréfa skyldi „fréttatilkynningin vera útdráttur úr ársreikningi“. Í niðurlagi bréfs stefnanda kemur fram að óskað sé skýringa á því „af hverju fréttatilkynningin frá 30. ágúst sl. hafði ekki að geyma umfjöllun um samstæðuna eins og reglur Kauphallarinnar gera ráð fyrir“. Óskað var eftir skýringum stefnanda fyrir 11. september 2006. Í framhaldi af bréfi stefnda hófust óformleg samskipti á milli aðila máls þessa er, ásamt bréfi stefnda, leiddu til þess að nýjar leiðréttar tilkynningar voru sendar af hálfu stefnanda 14., 19. og 21. september. Leiðrétt tilkynning var síðan birt frá stefnanda 26. september. Stefndi taldi sig hafa gert stefnanda fullnægjandi grein fyrir því að hann teldi tilkynninguna enn ófullnægjandi og að í birtingu fælist ekki viðurkenning á því að málinu væri lokið af hálfu stefnda.
Fyrrnefnt bréf stefnda 2. október 2006, þar sem stefnandi er áminntur og beittur févíti, ber ekki með sér með skýrum hætti hvort áminningin og févítið beinist að upphaflegri tilkynningu stefnanda 30. ágúst 2006, að leiðréttum óbirtum tilkynningum eða að lokaútgáfu tilkynningarinnar, sem var birt 26. september. Hins vegar ber bréfið með sér að stefndi hafi ekki talið lokaútgáfu tilkynningarinnar fullnægjandi og að „Sú framsetning félagsins að láta upplýsingar um uppgjör móðurfélagsins í fyrirsögn og gera það að meginefni tilkynningarinnar er til þess fallin að villa um fyrir fjárfestum í ljósi skyldu félagsins að miða tilkynninguna við samstæðuuppgjör.“
Samkvæmt þessu telur dómurinn að niðurstaða í máli þessu velti ekki á því hvort tilkynning stefnanda frá 30. ágúst hafi verið ófullnægjandi og til þess fallin að gefa villandi mynd af afkomu félagsins miðað við samstæðuuppgjör þess. Við mat á viðurlögum sem stefndi beitti stefnanda, í formi opinberrar áminningar og févítis, verður að horfa til efnis og framsetningar leiðréttrar lokaútgáfu tilkynningar stefnda sem var birt 26. september 2006. Rétt er að hafa sérstaklega í huga að ekki er um það að ræða að stefndi hafi haft uppi neinar athugasemdir við framsetningu árshlutauppgjörs stefnanda eða innihald þeirra áður en til áminningar og févítis kom og varða viðurlögin því ekki á neinn hátt framsetningu eða innihald árshlutauppgjörsins.
Ákvörðun stefnda, í framangreindu bréfi 2. október 2006, var byggð á heimild í ákvæði 7.3 í reglum fyrir útgefendur verðbréfa í Kauphöll Íslands, þar sem fram kemur að stefndi geti ákveðið að birta opinbera yfirlýsingu varðandi umrætt mál og ef sakir eru miklar enn fremur ákveðið að beita viðurlögum í formi févítis. Með beitingu févítis til viðbótar við opinbera birtingu taldi stefndi því að sakir stefnanda væru miklar að því er varðaði brot á ákvæðum 2.1.6 og 2.3.7 í reglum Kauphallarinnar fyrir útgefendur verðbréfa.
Að mati dómsins eru reglur Kauphallar fyrir útgefendur verðbréfa ekki það skýrar og afdráttarlausar að þær segi fyrir um hvað nákvæmlega verði að vera í fyrirsögn hverju sinni og virðast reglurnar jafnframt veita útgefendum ákveðið svigrúm varðandi innihald tilkynninga svo lengi sem þær upplýsingar sem að lágmarki þurfa að koma fram séu skýrlega hluti af tilkynningum útgefenda.
Ákvæði 2.1.6 í framangreindum reglum kveður meðal annars á um að í fyrirsögn tilkynningar skuli koma fram „efni tilkynningarinnar“ og að leitast skuli við að láta þær upplýsingar sem mestu máli skipta koma fram í upphafi. Stefndi taldi að sú framsetning stefnanda „að láta upplýsingar um uppgjör móðurfélagsins í fyrirsögn og gera það að meginefni tilkynningarinnar“ hafi verið til þess fallin að villa um fyrir fjárfestum í ljósi skyldu stefnanda að miða tilkynninguna við samstæðuuppgjör.
Ákvæði 2.3.7 í sömu reglum, sem stefndi vísar til í bréfi sínu, fjallar um fréttatilkynningu vegna ársuppgjörs, sem hér á ekki við þar sem um árshlutauppgjör var að ræða. Ákvæði 2.3.8 varðar hins vegar fréttatilkynningu árshlutauppgjörs og á því við um tilkynningu stefnanda, en ákvæði þessi eru ekki algerlega samhljóða. Sá munur sem felst í ákvæðum 2.3.7 og 2.3.8 að því er varðar innihald tilkynningar er einkum sá að samkvæmt ákvæði 2.3.7, sem vísað var til og varðar ársuppgjör, skal fréttatilkynningin „vera útdráttur úr ársreikningi“, sem var það orðalag er stefndi notaði í framangreindu bréfi til stefnanda 4. september 2006. Orðalag ákvæðisins gefur þannig til kynna að tilkynningin eigi að vera meira miðuð við ársreikninginn sjálfan og þar með samstæðureikninginn þegar slíkur samstæðureikningur er gerður eins og skylda er fyrir stefnanda að gera. Dómurinn leggur ekki mat á hvort tilvísun stefnda til þessa ákvæðis fremur en ákvæðis 2.3.8 skýrist af þessu orðalagi ákvæðis 2.3.7 enda skiptir það í raun ekki máli fyrir niðurstöðu þessa máls. Orðalagsmunur á þessum ákvæðum felur ekki í sér að mismunandi kröfur séu gerðar til tilkynninga eftir því hvort um árshlutauppgjör eða ársuppgjör er að ræða að því marki sem hér skiptir máli. Orðalagið um útdrátt úr ársreikningi vísar til atriða eins og skýrslu stjórnar, áritunar endurskoðanda og annarra upplýsinga sem ársreikningar hafa að geyma en árshlutareikningar ekki endilega. Innihald ákvæða 2.3.7 og 2.3.8 um það sem fram þarf að koma um rekstur að öðru leyti er hins vegar samhljóða að því marki er hér skiptir máli.
Ákvæði 2.1.6, 2.3.7 og 2.3.8 í reglum Kauphallarinnar fyrir útgefendur verðbréfa verður að skoða í ljósi ákvæða reglugerðar nr. 433/1999, um upplýsingaskyldu útgefenda, kauphallaraðila og eigenda verðbréfa, sem skráð eru í kauphöll. Samkvæmt reglugerðinni er ekki vafi á því að stefnandi, sem hluti af samstæðu, skal gera samstæðuuppgjör og senda stefnda slíkt uppgjör, sbr. 9. gr. reglugerðarinnar. Í 8. gr. reglugerðarinnar er fjallað um birtingu ársreiknings og kemur fram að í fréttatilkynningu skulu vera svo ítarlegar upplýsingar að ársreikningurinn feli ekki í sér, að mati félagsins, viðbótarupplýsingar sem gætu haft veruleg áhrif á verðmyndun skráðra verðbréfa viðkomandi félags. Þar sem 8. gr. fjallar aðeins um ársreikning er í samræmi við það aðeins kveðið á um í grein 2.3.7 í reglum Kauphallarinnar fyrir útgefendur verðbréfa að „fréttatilkynningin skuli vera útdráttur úr ársreikningi“ en sama orðalag ekki notað í ákvæði 2.3.8. Sú túlkun stefnda sem fram kom í bréfi hans 4. september 2006 að tilkynningin ætti að vera útdráttur úr ársreikningi er því ekki byggð á ákvæði 2.3.8, sem er það ákvæði sem á við um tilkynningu stefnanda.
Til þess að meta hvort stefndi hafi, í tilkynningu sinni 26. september 2006, fullnægt ákvæði 2.3.8 verður því að skoða hvaða upplýsingar komu fram í tilkynningunni. Við þá skoðun verður einnig að hafa í huga að í framangreindu bréfi stefnda frá 4. september var þess krafist að stefndi tæki inn í fréttatilkynninguna „umfjöllun um samstæðureikninginn“. Ljóst er að lykiltölur úr samstæðureikningi komu fram í framangreindri tilkynningu og var lykiltölurnar að finna framarlega í henni þó svo að þær væru ekki fremstar. Einnig var að finna samanburðartölur úr samstæðureikningi fjögurra ársfjórðunga næst á undan eins og kveðið er á um í ákvæði 2.3.8. Í tilkynningunni er einnig getið sérstaklega að greiningu á mismunandi afkomu móðurfélagsins annars vegar og samstæðunnar hins vegar sé að finna í skýringu 2.1 í báðum árshlutareikningum. Þá er til þess að líta að tilkynningin var í samræmi við tilkynningu stefnanda um árshlutauppgjör fyrsta ársfjórðungs, sem hafði verið birt athugasemdalaust af hálfu stefnda. Mikil breyting á birtingarformi uppgjörs hefði hugsanlega verið til þess fallin að gefa villandi mynd af muninum á afkomu stefnanda á fyrsta og öðrum ársfjórðungi.
Dómurinn telur að líta verði svo á að í tilkynningu stefnanda hafi verið lögð mikil áhersla á afkomu móðurfélagsins. Hins vegar er ekki hægt að fallast á það með stefnda að stefnandi hafi hagað tilkynningu sinni með þeim hætti að „veita nær eingöngu upplýsingar um niðurstöðu reikningsskila móðurfélagsins“, eins og fram kemur í bréfi stefnda 2. október 2006.
Eins og að framan greinir telur dómurinn að reglur Kauphallar fyrir útgefendur verðbréfa séu ekki svo skýrar og afdráttarlausar sem æskilegt væri að því leyti er hér skiptir máli. Þannig virðast þær veita útgefendum ákveðið svigrúm varðandi innihald tilkynninga svo lengi sem þær upplýsingar sem að lágmarki þurfa að koma fram samkvæmt ákvæðum 2.3.7 og 2.3.8 koma skýrlega fram. Upplýstum lesanda tilkynningar stefnanda 26. september 2006 mátti vera afkoma samstæðunnar ljós og verður hér að hafa í huga að ekki hafa verið gerðar neinar athugasemdir við reikningsskil stefnanda.
Að því er varðar fyrirsögn tilkynningarinnar frá 26. september 2006 þá er orðalag ákvæðis 2.1.6, að í fyrirsögn skuli koma fram efni tilkynningar, til þess fallið að gefa útgefendum ákveðið svigrúm, enda hefur sú verið raunin í tilkynningum útgefenda í Kauphöll Íslands að þeir reyna að draga fram jákvæða þætti í uppgjörum sínum í fyrirsögn. Fyrirsögn stefnanda í þessari tilkynningu ber með sér að um sé að ræða tilkynningu um afkomu félagsins á fyrri helmingi ársins 2006. Með vísan til þess og þar sem orðalag fyrirsagnarinnar ber með sér að hagnaðartalan eigi einungis við um móðurfélagið verður að telja að óskýrleiki orðalags ákvæðis 2.1.6 um hvað raunverulega megi hafa í fyrirsögn slíkrar tilkynningar verði að túlkast stefnanda í hag.
Með vísan til alls framanritaðs kemst dómurinn að þeirri niðurstöðu að opinber áminning stefnda og beiting févítis verði ekki réttilega byggð á því að stefnandi hafi brotið reglur með umræddri fréttatilkynningu. Ber þegar af þeirri ástæðu að fella umrædda ákvörðun stefnda úr gildi.
Stefnandi krefst þess að stefndi skuli birta dóminn í heild sinni á fréttavef stefnda að viðlögðum 50.000 króna dagsektum er renni til stefnanda og falli á að liðnum 15 dögum frá aðfararhæfi dómsins. Samkvæmt 3. tl. gr. 7.3 í reglum fyrir útgefendur verðbréfa í Kauphöll Íslands hf. getur stefndi ákveðið að birta opinberlega yfirlýsingu varðandi tiltekið mál þegar um brot á reglum er að ræða. Áminningin er stefndi veitti stefnanda 2. október 2006 var birt á fréttavef stefnda samkvæmt þessari reglu. Þar sem áminningin hefur verið felld úr gildi með dóminum þykir rétt að líta svo á að stefnda beri að birta dóminn með sama hætti og áminninguna eins og stefnandi krefst að viðlögðum 50.000 króna dagsektum er renni til stefnanda en heimild til að verða við kröfu stefnanda og ákveða dagsektir er í 4. mgr. 114. gr. laga um meðferð einkamála.
Rétt þykir með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála að stefndi greiði stefnanda málskostnað sem þykir hæfilea ákveðinn 600.000 krónur.
Dóminn kváðu upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari og meðdómsmennirnir Árni Harðarson lögmaður og Knútur Þórhallsson, löggiltur endurskoðandi.
Dómsorð:
Felld er úr gildi ákvörðun stefnda, Kauphallar Íslands hf., 2. október 2006 um að áminna stefnanda, Atorku Group hf., opinberlega og beita hann févíti. Ber stefnda að birta dóminn í heild sinni á fréttavef sínum að viðlögðum 50.000 króna dagsektum er renni til stefnanda og falli á að liðnum 15 dögum frá aðfararhæfi dómsins.
Stefndi greiði stefnanda 600.000 krónur í málskostnað.