Hæstiréttur íslands

Mál nr. 78/2001


Lykilorð

  • Tannlæknir
  • Matsgerð


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001.

Nr. 78/2001.

Soffía Garðarsdóttir

(Valgeir Kristinsson hrl.)

gegn

Jónasi Ragnarssyni

(Ólafur Axelsson hrl.)

 

Tannlæknar. Matsgerð.

S, sem gekkst undir rótfyllingaraðgerð hjá tannlækninum J í apríl 1991, krafði J um bætur á grundvelli mistaka hans er valdið hefðu sýkingu við tannrætur, sem leitt hafi til höfuðverkja S í mörg ár. Í ljósi fyrirliggjandi gagna var ekki talið fram komið, að J hefði sýnt af sér saknæm mistök við rótfyllingaraðgerðina, þannig að bótaskylda yrði á hann lögð vegna þeirra höfuðverkja S, sem kröfur hennar voru raktar til.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. mars 2001 og krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.613.473 krónur með vöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. maí 1992 til 17. apríl 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð matsgerð Halldórs Fannar tannlæknis og Sverris Bergmann læknis, sérfræðings í heila- og taugasjúkdómum, sem voru dómkvaddir sem matsmenn 11. maí 2001 að beiðni áfrýjanda. Var fyrir þá lagt að leggja mat á það, hvort stefnda hefðu orðið á mistök við rótfyllingaraðgerð á tönn áfrýjanda 9. apríl 1991, hverjar hafi verið orsakir sýkingar við tannrót áfrýjanda eftir aðgerðina og hvort um orsakasamband hafi verið að ræða milli hennar og höfuðverkja áfrýjanda.

Hinir dómkvöddu matsmenn svöruðu fyrstu spurningunni neitandi. Aðgerð stefnda á umræddri tönn áfrýjanda hafi verið gerð á réttum forsendum, undirbúningur verið eðlilegur og aðgerðin sjálf gerð með hefðbundnum og viðurkenndum hætti. Þótt til yfirfyllingar eigi ekki að koma geti hún orðið „í erfiðum tilvikum eða þá af slysni sem er annað en mistök.“ Hjá ungum einstaklingum séu rótargangar ekki lokaðir og því meiri hætta á yfirfyllingu en ella.

Í matsgerð segir og, að tannlæknar fylgi þeirri meginreglu að taka röntgenmyndir eftir rótfyllingu, komi fram sérstakar kvartanir, er tengjast viðkomandi tönn, en ella ekki. Slík vinnubrögð verði að teljast eðlileg. Í tilviki áfrýjanda hafi aldrei komið fram kvartanir við stefnda, er gæfu honum tilefni til myndatöku af rótfyllingunni.

Sem svar við spurningu um orsakir sýkingar við tannrót áfrýjanda segja matsmenn, að þrátt fyrir ábendingar, tilgátur og fullyrðingar í gögnum málsins um að sýkingarvefur hafi verið fjarlægður frá gómlægri rót umræddrar tannar, sé þetta ekki staðfest. Skuggi, sem komið hafi fram á röntgenmynd við rótina fyrir aðgerðina, bendi hins vegar til beineyðingar. Eftir aðgerðina sé þessi skuggi horfinn og líti rótarendinn eðlilega út. Aldrei hafi verið merki um sýkingu í kinnbeinsholu (sinus maxillaris) að því er metið verði. Réttasta svarið við ofangreindri spurningu þyki þeim því vera, að yfirfyllingin hafi valdið beineyðingu, sem hafi síðan vökvast af slímhimnu á þessum stað. Myndast hafi þannig hæggerð krónísk sýking fremur vægra sýkla, en þá verði til svonefnd „granuloma“, sem sé afmarkaður, staðbundinn örvefsmyndaður og oft að hluta til örvefshulstraður bólguhnútur. Þetta sé að líkindum sá vefur, er þrýsti að taugarótum og fjarlægður hafi verið við aðgerð á hinni gómlægu tannrót.

Varðandi orsakasamband milli rótfyllingaraðgerðarinnar og höfuðverkja áfrýjanda segja matsmenn, að þeir séu sammála um að það sé fyrir hendi. Hið tímanlega samhengi sé ekki umdeilt og komi ekki fram að áfrýjandi hafi fyrir tannrótarfyllinguna 1991 eða eftir lagfæringu 1998 þjáðst af svipuðum höfuðverk. Telja matsmenn að um hafi verið að ræða ertingu á taugaenda með afleiddum verk.  Um sé að ræða taugaverk, en ekki hefðbundið mígreni. Taugaertingin geti verið tilkomin vegna viðvarandi sýkingar, en hún geti einnig stafað af örvefsmyndun, jafnvel eftir upphaflega sýkingu eða vegna lítilla hnúta á taugaendum eftir röskun þeirra. Slík röskun sé óhjákvæmileg við aðgerðir af þessu tagi sem og við flestar aðrar aðgerðir. Skýringar séu á afleiddum verk, þannig að hann komi fram annars staðar en þar sem hann eigi upptök sín. Sá eiginleiki hafi einnig í för með sér að verkurinn framkallist ekki augljóslega við álag á taugaendana. Vegna þessa hafi áfrýjandi aldrei kvartað við stefnda um verk í tönninni eða tannrótinni, hvorki stöðugan eða við beitingu tannanna eins og við tyggingu.

II.

Eins og fram kemur í héraðsdómi reisir áfrýjandi kröfur sínar um bætur á því, að stefnda hafi orðið á saknæm mistök við rótfyllingaraðgerðina 9. apríl 1991. Hafi þessi mistök valdið sýkingu við tannrætur, sem hafi leitt til höfuðverkja áfrýjanda í mörg ár og sé beint orsakasamband milli rótfyllingaraðgerðarinnar og þjáninga áfrýjanda.

Fyrir héraðsdómi lá matsgerð Geirs Atla Zoëga tannlæknis 25. maí 1999, en hann var dómkvaddur að beiðni áfrýjanda til að meta tímabundna örorku hennar í tilefni umræddrar rótfyllingar, svo og að semja lýsingu á þjáningum og óþægindum, sem gæti orðið grundvöllur miskabótakröfu. Í matsgerðinni kemur fram, að rótfyllingarefni það, sem stefndi notaði, hafi lengi verið notað og þoli vefir líkamans það vel. Taldi matsmaðurinn ekki líklegt að það sem slíkt hefði valdið þeim óþægindum, sem áfrýjandi upplifði. Hins vegar væri þekkt, þegar rót er yfirfyllt á þann hátt, sem hér gerðist, að rótfylling sé þá óþétt við rótarenda og því aukin hætta á sýkingu við slíkar rætur. Þegar tennur hafi sýkingu við rótarenda verði tönn yfirleitt aum viðkomu, en þó séu mörg dæmi þess að slíkar sýkingar séu nær alveg einkennalausar. Með tilliti til frásagnar áfrýjanda um hvenær verkirnir hófust og með hvaða hætti þeim lauk, séu miklar líkur til þess að umrædd rótfylling komi þar við sögu, þó að einkennin hafi á flestan hátt verið óvenjuleg.

Í niðurstöðu héraðsdóms, sem skipaður var tveimur sérfróðum meðdómendum,  er ítarlega fjallað um umrædda rótfyllingaraðgerð. Segir þar meðal annars, að mikil nákvæmnisvinna sé að staðsetja rótfyllingarefni þannig að það nái að enda rótargangs, en þó ekki út fyrir hann. Algengt sé við slíkar aðgerðir að rótfyllingarefni ýtist út úr rótarenda, en sjaldgæft að það nái svo langt út, eins og í þessu tilviki. Nákvæmni við ísetningu rótfyllingarefnis sé þó ekki talin hafa svo mikla þýðingu við aðgerð af þessu tagi, að talið verði að um mistök af hálfu stefnda hafi verið að ræða. Er það álit héraðsdóms, að stefnda hafi ekki orðið á mistök við undirbúning aðgerðarinnar, framkvæmd eða eftirmeðferð. Jafnvel þótt hann hefði orðið var við yfirfyllingu hefði ekki verið ástæða til sérstakra aðgerða þar sem áfrýjandi hafði engin einkenni frá umræddri tönn og leitaði ekki til stefnda vegna þess. Gögn málsins, röntgenmyndir og mat tannlækna, sem framkvæmdu skurðaðgerðir, bæru ekki með sér að rótfyllingin hefði verið óþétt við rótarenda, en það væri skoðun dómsins að við slíkar aðstæður væri jafnvel hættara við sýkingu en þegar efnið gengi út úr rótarenda.

Áður eru raktar helstu niðurstöður matsmanna, sem dómkvaddir voru eftir uppsögu héraðsdóms. Það var ótvíræð niðurstaða þeirra, þótt þeir teldu orsakasamband milli aðgerðarinnar og höfuðverkja áfrýjanda, að stefnda hefðu ekki orðið á mistök við umrædda aðgerð og er það í samræmi við niðurstöðu héraðsdóms.

Að framansögðu virtu verður ekki talið fram komið, að stefndi hafi sýnt af sér saknæm mistök við rótfyllingaraðgerðina, þannig að bótaskylda verði á hann lögð vegna þeirra höfuðverkja áfrýjanda, sem kröfur hennar eru raktar til. Verður héraðsdómur því staðfestur.

Rétt þykir eftir atvikum að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. desember 2000.

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi 15. nóvember sl., var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með birtingu stefnu 17. apríl 2000. Málið var þingfest 25. apríl 2000. 

Stefnandi er Soffía Garðarsdóttir, kt. 200776-5509, Lyngmóum 12, Garðabæ.

Stefndi er Jónas Ragnarsson, kt. 210744-2159, Háaleitisbraut 1, Reykjavík .

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð 1.613.473 krónur, með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af 231.895 krónum frá 1. maí 1992 til 1. maí 1993, af 463.790 krónum frá þeim degi til 1. maí 1994, af 695.685 krónum frá þeim degi til 1. maí 1995, af 927.580 krónum frá frá þeim degi til 1. maí 1996, af 1.159.475 krónum frá þeim degi til 1. maí 1997, af 1.391.370 krónum frá þeim degi til 1. maí 1998, af 1.780.737 krónum frá þeim degi til stefnubirtingardags og með dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá þeim degi til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar, ásamt 24,5% virðisaukaskatti, samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur stefnda eru þær, aðallega að hann verði sýknaður og stefnanda gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar og hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

II

Óumdeild málsatvik og helstu ágreiningsefni

   Stefnandi sótti tannlæknaþjónustu til stefnda frá barnsaldri. Stefndi hóf viðgerð á jaxli hægra megin í efri góm stefnanda, eða tönn 16, 1. mars 1991, en þá var hún tæpra 15 ára. Óumdeilt er að tönnin var mikið skemmd og að rótfylla þurfti hana. Stefnandi kom aftur til stefnda 8. og 26. mars og 4. apríl 1991 og voru rótargangar hreinsaðir, tilsniðnir og undirbúnir fyrir rótfyllingu. Tönnin var loks rótfyllt 9. apríl með þeim hætti að komið var fyrir rótfyllingarefni "gutta-percha stiftum" í öllum þremur rótum tannarinnar og þétt með þéttingarefni (Sealer). Ofan við rótfyllingarefnið í gómlægum (palatal) rótargangi var skrúfað málmstifti til að festa stóra fyllingu sem setja þurfti á tönnina þar sem mikið af henni hafði verið fjarlægt. Efnið gutta-percha er mjúkt og við rótfyllinguna gerðist það að hluti af efninu þrýstist út úr rótarendanum á palatal rótargangi.

Stefnandi heldur því fram að um haustið eða veturinn 1991 hafi hún byrjað að fá höfuðverkjaköst hægra megin í höfuðið og helst í kringum eða ofan við hægra auga. Í vottorði læknis við Heilsugæsluna í Garðabæ frá 2. desember 1998 kemur fram, að stefnandi hafi fyrst leitað til heilsugæslunnar vegna höfuðverks í janúar 1992. Hafi hún þá kvartað undan höfuðverk alla daga og hafi greining verið spennuhöfðaverkur. Móðir stefnanda hafi hringt 27. mars 1992 vegna höfuðverkja stefnanda. Þá hafi stefnandi verið búin að fara í tölusneiðmyndatöku af höfði en ekkert óeðlilegt fundist og verið til rannsókna hjá taugalækni, sem gefið hafi henni lyf vegna gruns um mígreni. Fram kom að stefnandi hafi ekki tekið þessi lyf og bar hún í skýrslu fyrir dómi að hún hafi ekki þolað lyfin. Stefnandi hafi komið 2. apríl 1992 vegna höfuðverkja sem hún hafi sagst hafa haft í tvö ár. Talið hafi verið að um spennuhöfuðverk væri að ræða.

Samkvæmt fyrrnefndu vottorði kom stefnandi alls sjö sinnum til viðbótar á Heilsugæsluna í Garðabæ fram til 27. ágúst 1997 og var höfuðverkur meðal ástæðna komu í öll skiptin. Höfuðverkjaköstin höfðu varað mislengi þegar stefnandi kom eða allt upp í tvær vikur samfellt. Í sumum tilvikum var höfuðverkurinn í tengslum við önnur veikindi. Eitt sinn var stefnanda vísað til taugalæknis en í öðru tilviki til gefin gigtarlyf af heilsugæslulækni.

Lagt hefur verið fram vottorð frá Kvennaskólanum í Reykjavík, dagsett 23. september 1998. Samkvæmt vottorðinu var stefnandi nemandi við skólann frá hausti 1992 og fram á vor 1996 og var oft frá vegna veikinda. Mæting hennar var á bilinu 71 til 79% þessa fjóra vetur. Hún lauk stúdentsprófi frá skólanum.

Stefnandi lýsti heilsu sinni á tímabilinu frá hausti 1991 og fram á árið 1998 þannig að hún hafi fengið 2-3 höfuðverkjaköst í viku, að jafnaði 1-2 daga í senn, og oft verið svo þjáð að hún hafi orðið að leggjast í rúmið. Höfuðverkjaköstin hafi farið versnandi ár frá ári. Þegar hún hafi ekki verið með höfuðverk hafi hún lifað í ótta við að nýtt kast hæfist og gerði að engu fyrirætlanir hennar. Hún hafi reynt að taka lyf þegar henni hafi fundist að köst væru að koma og eins þegar köstin voru byrjuð en án árangurs. Hún hafi þolað mígrenilyf illa og fengið hjartsláttartruflanir af þeim. Hún hafi þó þolað minni skammta af lyfinu. Stefnandi fullyrti að hún hafi aldrei þjáðst af höfuðverk fyrr en haustið 1991 og hafi höfuðverkurinn ávallt verið hægra megin í höfðinu.

Hún hafi leitað til ýmissa sérfræðinga en engin ástæða fundist fyrir höfuðverkjaköstunum. Þegar hún hafi verið með höfuðverk hafi hún alls ekki getað sótt skóla og hafi það komið niður á námsárangri hennar. Hún hafi oft verið frá vinnu á sumrin vegna höfuðverkjakasta en vinnuveitendur séð í gegnum fingur við hana.

Stefnandi leitaði til Gunnars Benediktssonar tannlæknis vegna tannviðgerða 8. júní 1998 og framkvæmdi hann almenna tannskoðun. Næst þegar stefnandi kom til Gunnars 24. júní í viðbótarskoðun tók hann röntgenmyndir af tönnum stefnanda. Í vottorði hans frá 1. september segir m.a.:

"Á grundvelli rtg.-myndar þessarar, auk frásagnar sjúkl. af óþægindum hægra megin í höfði og reglubundnum "migrene"-köstum, var honum samstundis vísað til sérfræðings í rótfyllingum til meðferðar eða framhaldstilvísunar til háls- nef- og eyrnalæknis, þar sem tilvik þetta er á mörkum þessara sviða læknisfræðinnar. Sjúkl. hefur ekki komið á stofu undirritaðs síðan, en bað um gögn símleiðis 27. ágúst 1998."

Gunnar vísaði stefnanda til Ægis Rafns Ingólfssonar tannlæknis, sem er sérfræðingur í tannholsfræði. Í málinu liggur fyrir vottorð frá Ægi, dagsett 12. september 1998 og segir þar orðrétt:

"Soffíu var vísað til mín vegna 16 (jaxl hægra megin í efri góm). Að sögn Soffíu hafði þessi jaxl verið rótfylltur þegar hún var 16 ára. Rótfyllingarefnið var út úr rótarganginum á einni rótinni og var merki um sýkingu þar á röntgenmynd. 7/7/98 gerði ég skurðaðgerð á þessari rót. Mikill sýkingarvefur var á aðgerðarsvæðinu. Náði hann inn í kinnbeinsholu. Að sögn Soffíu batnaði mjög höfuðverkur sem hún hafði verið með lengi eftir þessa aðgerð og sýklalyfjagjöf sem henni fylgdi."

Ægir bar vitni fyrir dómi að fram hafi komið nokkuð afmarkaður skuggi á röntgenmynd sem hafi getað verið örvefur eða sýkingarvefur. Hann hafi talið að um sýkingarvef væri að ræða. Rótfyllingarefnið hafi staðið 3-5 mm út úr palatal rót tannarinnar. Hann kvaðst í umræddri aðgerð hafa farið inn á rótina gómmegin. Hafi hann fjarlægt rótarendann og skafið út sýkingarvef við rótarendann. Ekki þurfti að setja fyllingu í rótarendann til þéttingar þar sem rótfyllingin, sem fyrir var, var þétt. Um hafi verið að ræða króníska sýkingu um 1-2 mm frá rótarenda sem hafi virst afmörkuð. Hann hafi opnað inn í sínus en þar hafi engin merki verið um króníska sýkingu. Himna hafi verið heilbrigð. Stefnandi hafi komið aftur 14. ágúst og þá sagst vera betri af höfuðverk. Enn hafi hún komið 18. ágúst og þá fundist allt komið í sama farveg. Hann hafi þá vísað henni til Jóns Viðars Arnórssonar tannlæknis.

Jón Viðar Arnórsson tannlæknir, sem er sérfræðingur í munn- og kjálkaskurðlækningum, kom fyrir dóminn og bar að fyrrgreindur Ægir hefði hringt og sagst hafa gert aðgerð á palatal rót en fundist eitthvað torkennilegt við það svæði og jafnvel kinnholur. Stefnandi hafi síðan komið til hans með röntgenmynd og hafi hann skoðað hana en ekki fundið neitt "klínískt" að henni og hvorki hafi verið roði né eymsli við tönn. Hafi hún lýst höfuðverkjum sem mígreniverkjum og að ekki hafi tekist að tengja einkenni við ástand hennar eða umhverfi. Röntgenmynd hafi ekki bent til þess að eitthvað væri að. Hafi hann sent hana til nef- háls- og eyrnalæknis en ekkert fundist athugavert við kinnholur.

Að því loknu hafi hann farið inn á rótina kinnmegin frá og hafi það í raun verið könnunaraðgerð. Aðgerðin hafi verið gerð í ljósi sjúkrasögu stefnanda og vegna þess að stefnanda skánaði eftir fyrri aðgerðina. Ekkert hafi fundist athugavert við kinnræturnar annað en smávægileg yfirfylling á annarri rótinni en þær hafi þó verið styttar. Ræturnar hafi verið mjög nálægt kinnkjálkaholi. Hann hafi farið inn á kinnkjálkaholuna en ekki komið auga á neitt sérstakt sem gæti valdið klínískum einkennum. Um mjög óverulegan bólguvef hafi verið að ræða. Vitnið kvað aðeins hafa liðið um hálfan mánuð milli aðgerðar Ægis Rafns og hans og taldi hann að fyrri aðgerðin hefði frekar getað leitt til bata.

Stefnandi hefur fullyrt að eftir síðari aðgerðina hafi hún ekki fengið höfuðverkjakast og tengir það aðgerðum þeirra Ægis Rafns og Jóns Viðars.

Í málinu liggur fyrir álitsgerð Ríkharðs Pálssonar tannlæknis, dagsett 27. nóvember 1998, sem hann vann fyrir tryggingarfélag stefnda, Sjóvá-Almennar tryggingar hf.

Stefnandi fékk Geir Atla Zoëga tannlækni, dómkvaddan sem matsmann í Héraðsdómi Reykjavíkur 16. apríl 1999 til að meta "læknisfræðilega tímabundna örorku á ofangreindu tímabili, jafnframt verði matsmanni falið að semja lýsingu á þjáningum og óþægindum Soffíu sem gæti orðið grundvöllur miskakröfu í væntanlegu bótamáli." Matsgerð hans, dagsett 25. maí 1999, liggur fyrir í málinu. Í matsgerð kemur ekki fram að matsmaður hafi haldið matsfund. Við aðalmeðferð málsins lýsti lögmaður stefnanda því yfir að lögfræðingi tryggingarfélags stefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf. hafi verið gefinn kostur á að mæta á matsfund en hann hafi ekki séð ástæðu til þess. Því hafi lögmaður stefnanda talið nægjalegt að matsmaður hitti stefnanda. Lögmaður stefnda gerði ekki athugasemdir við þessa yfirlýsingu eða form matsgerðarinnar og verður hún lögð til grundvallar í málinu.

Í málinu deila aðilar um hvort stefnda hafi orðið á mistök sem virt verði honum til sakar í tengslum við fyrrnefnda rótfyllingaraðgerð, um orsakir sýkingar við tannrót viðgerðrar tannar og hvort orsakatengsl hafi verið milli rótfyllingaraðgerðarinnar og höfuðverkjakasta sem hrjáðu stefnanda um árabil. Þá deila aðilar um hvort krafa um þjáningarbætur eigi undir skaðabótalög nr. 50/1993, eða eldri rétt, um fjárhæð bóta o.fl.

III

Málsástæður og lagarök stefnanda

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að mál þetta sé sprottið af rótfyllingu á jaxli, hægra megin í efri gómi stefnanda, sem stefndi hafi framkvæmt 9. apríl 1991. Ekki hafi tekist betur til en að rótfyllingarefnið hafi farið út úr rótarganginum og valdið sýkingu sem leitt hafi til þess að stefnandi hafi búið við þrálátan og erfiðan höfuðverk næstu árin. Ekki hafi tekist að finna skýringu á höfuðverknum þrátt fyrir margvíslegar læknisrannsóknir sem stefnandi hafi gengist undir. Eftir tvær aðgerðir á tannrótinni sumarið 1998 hafi stefnandi losnað við höfuðverki og verið laus við þá síðan.

Stefnandi kveðst hafa lifað við verulegan sársauka, þjáningar og óþægindi á framangreindu tímabili og að jafnaði verið rúmliggjandi tvo daga í viku vegna þessa. Á köflum hafi hún verið með höfuðverkjaköst sem staðið hafi yfir í allt að tvær vikur samfellt. Stefnandi hafi leitað til lækna vegna þjáninganna en þrátt fyrir margar rannsóknir hafi ekki tekist að finna ástæðuna fyrr en Gunnar Benediktsson tannlæknir hafi veitt því athygli að við rótfyllinguna sem stefndi framkvæmdi hafi rótfyllingarefnið farið það mikið út úr rótarganginum að það gæti hafa leitt til sýkingar og verkja hjá stefnanda. Í framhaldi af því hafi stefnandi gengist undir fyrrgreindar tvær aðgerðir á tannrótinni.

Stefnandi telur stefnda hafa orðið á saknæm mistök við rótfyllingaraðgerðina en þau hafi falist í því að hann hafi ýtt rótfyllingarefninu svo kröftuglega upp í rótarganginn að efnið hafi þrýst út um rótarendann, a.m.k. 2-3 cm upp í tannholið. Samkvæmt fyrirliggjandi áliti tannlækna sé meiri hætta á sýkingu við rótarenda þegar rótfyllingarefni fer svo langt út úr rótarendanum þar sem þá þétti efnið ekki eins vel. Þá er því haldið fram að fyllingarefnið hafi þrýst á bein og þannig getað valdið bólgum og sýkingu. Mistök stefnda við rótfyllinguna hafi þannig valdið sýkingu við tannræturnar en sú sýking hafi valdið stefnanda höfuðkvölum í mörg ár.

Stefnandi telur beint orsakasamband vera á milli rótfyllingaraðgerðar stefnda og þjáninga stefnanda. Það orsakasamband sé augljóst með hliðsjón af því að stefnandi hafi mátt þola mikla höfuðverki frá því skömmu eftir rótfyllingaraðgerðina en hafi algerlega losnað við höfuðkvalir eftir að hún gekk undir tvær aðgerðir og sýking við umrædda tönn var hreinsuð út.

Um verki stefnanda og líklegar orsakir þeirra er af hálfu stefnanda vísað til matsgerðar Geirs Atla Zoëga, samanber það sem rakið er í málsatvikalýsingu. 

Af hálfu stefnanda er sérstaklega tekið fram að í framlögðu vottorði Heilsugæslunnar í Garðabæ gæti ónákvæmni um hversu lengi stefnandi hafi þjáðst af höfuðverkjum og um hvar í höfðinu verkirnir hafi komið fram. Stefnandi fullyrðir að hún hafi ekki þjáðst af höfuðverkjum fyrr en eftir umrædda rótfyllingaraðgerð vorið 1991 og verkirnir hafi ávallt verið hægra megin í höfðinu. Stefnandi kveðst hins vegar hafa þjáðst af öðrum sjúkdómi ótengdum þessum sem barn.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að stefnandi hafi liðið þjáningar sem raktar verði til læknisaðgerðar og eigi stefndi að bæta fyrir þær á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi telur lögin eiga við þar sem afleiðingar aðgerðarinnar hafi verið viðvarandi og staðið yfir fram yfir gildistöku laganna.

Fjárkrafa stefnanda sé reiknuð samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga. Miðað sé við að þjáningarnar hafi staðið í 7 ár. Á hverju ári hafi stefnandi verið rúmliggjandi 2 daga í viku eða 104 daga x kr. 1.300 = kr. 135.200 og aðrir 104 dagar pr. kr. 700 eða kr. 72.800 eða samtals kr. 208.000 á ári. Krafa stefnanda um þjáningarbætur í 7 ár nemi því 1.456.000 krónum. Samkvæmt 15. gr. skaðabótalaga skuli upphæðir hækka sem svarar breytingu á lánskjaravísitölu frá gildistöku laganna 1. júlí 1993 sem var 3273 stig, lánskjaravísitala í febrúar 2000 hafi verið 3649 stig og bótakrafan nemi því samtals 1.623.264 krónum eða 231.895 krónum árlega. Útgjöld stefnanda samkvæmt framlögðum gögnum nemi 52.473 krónum.

Því er haldið fram að stefnandi hafi vegna höfuðverkjanna þurft að greiða fyrir lyf. Reikningum hafi hins vegar ekki verið haldið til haga en lyfjakostnaður vegna þessa sé varlega áætlaður 15.000 krónur á ári eða samtals 105.000 krónur. Stefnukrafan sé þannig reiknuð 1.780.737 krónur.

Verði ekki fallist á að skaðabótalög nr. 50/1993 taki til þjáningabótakröfu stefnanda er til vara byggt á almennum skaðabótareglum um bætur fyrir miska og þjáningar sem giltu fyrir gildistöku skaðabótalaganna. Við mat á þeim sársauka, þjáningum og óþægindum sem rekja megi til aðgerðarinnar sem stefndi framkvæmdi á stefnanda verði bætur metnar eigi lægri en kr. 231.895 á ári í 7 ár. Útlagður kostnaður og annar kostnaður er áður nefndur og gerð er krafa um greiðslu hans.

Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Vísað er til þess að þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyld sé nauðsynlegt að krefjast virðisaukaskatts úr hendi stefnda.

IV

Málsástæður og lagarök stefnda

Aðalkrafa stefnda um sýknu er byggð á því að við umrædda aðgerð hafi engin saknæm mistök átt sér stað og því sé bótaskylda ekki til staðar.

Um hafi verið að ræða rótfyllingu á tönn 16. Við hana hafi verið notuð efni sem séu viðurkennd og almennt notuð við slíkar aðgerðir, þ.e. gutta-percha stifti og þéttingarsement. Við aðgerðina muni stiftið hafa gengið upp fyrir rótarendann. Yfirfylling eins og hér hafi átt sér stað sé hugsanlegur fylgifiskur rótfyllingar og almennt skaðlaus. Geti slíkt átt sér stað í 5-10% tilvika, þegar um sé að ræða rótfyllingu á jaxlasvæði. Verði yfirfylling sé ekkert frekar við því að gera.

Af hálfu stefnda er því sérstaklega mótmælt að umrædd sýking verði rakin til yfirfyllingarinnar þar sem stifturinn liggi yfirleitt "nautralt" og skaðlaus í beinvefi. Þá er lögð áhersla á að sýking hafi verið til staðar á umræddu svæði og hafi hún verið orsök þess að nauðsynlegt var að rótfylla tönnina.

Þá er því mótmælt að höfuðverkjaköstin verði rakin til rótfyllingarinnar. Í vottorði frá Heilsugæslunni í Garðabæ, dagsettu 2. desember 1998, komi fram að stefnandi hafi fengið höfuðverkjaköst frá barnsaldri. Jafnframt að á því tímabili sem stefnandi krefjist þjáningarbóta fyrir hafi hún margoft gengið til stefnda án þess að minnast á höfuðverkjaköst eða að umrædd tönn væri aum. Ekkert af framlögðum gögnum í málinu styðji þá fullyrðingu stefnanda að yfirfylling við rótfyllingu teljist saknæm. Þvert á móti. Um þessa fullyrðingu hafi stefnandi alla sönnunarbyrði.

Teljist orsakasamband milli aðgerðar stefnda og höfuðverkja stefnanda sannað er á því byggt að fylgikvilli rótfyllinga hafi orðið virkur. Í því tilviki er byggt á því að eingöngu hafi verið um að ræða óhappatilvik en ekki saknæm mistök. Sama eigi við um sýkinguna ef talið verði sannað að hún stafi frá yfirfyllingunni. Vísa má m.a. til þessara dóma um þetta atriði: Hrd. 1990/853 og Hrd. 1995/1509.

Hvað varðar fjárkröfur í málinu er því mótmælt að stefnandi geti byggt á skaðabótalögum nr. 50/1993. Lögin hafi tekið gildi 1. júlí 1993 og taki eingöngu til tjóna sem orðið hafi eftir gildistöku laganna, sbr. 28. grein þeirra. Krafa stefnanda um þjáningarbætur á grundvelli skaðabótalaga styðjist því ekki við gild lagarök.

Auk þess er umfangi þjáninganna mótmælt eins og þeim sé lýst, þar sem þær byggi eingöngu á lýsingu stefnanda sjálfrar og virðist ágiskun ein auk þess sem stefnandi teljist ekki hafa verið "veik" í skilningi skaðabótalaga. Stefnandi hafi einnig alla sönnunarbyrði um þetta.

Varakrafa stefnda byggir á því að ef dómurinn telur bótaskyldu vera fyrir hendi beri stefnanda eingöngu bætur sem taki mið af almennu skaðabótareglunni og þeirri dómvenju sem rekja megi til hennar og ráðið hafi fyrir gildistöku skaðabótalaga. Í því tilviki sé bótakrafa stefnanda of há og í engu samræmi við dómvenju þess tíma. Þá er vöxtum eldri en fjögurra ára frá stefnubirtingu mótmælt sem fyrndum.

VI
Niðurstaða

Við úrlausn þessa máls reynir fyrst á það hvort stefndi hafi við viðgerð á umræddri tönn stefnanda orðið á mistök sem virða verði honum til sakar.

Í matsbeiðni lögmanns stefnanda er ekki óskað eftir því að matsmaður gefi álit um hvort stefnda hafi orðið á mistök við rótfyllingaraðgerðina, ekki er spurt um orsakir sýkingar við tannrót eða um orsakasamband milli rótfyllingaraðgerðar og höfuðverkja stefnanda. Líður málatilbúnaður stefnanda nokkuð fyrir þetta.

 Í framlagðri matsgerð Geirs Atla Zoëga tannlæknis frá 15. október er m.a. að finna svohljóðandi umfjöllun um mögulegt samband rótfyllingaraðgerðarinnar og höfuðverkja stefnanda.

"Röntgenmyndir sem teknar voru fyrir fyrri aðgerðina sem Ægir Rafn Ingólfsson gerði sést (sic) að rótfyllingarefnið (gutta percha) nær langt út úr rótargangi "palatal" rótar tannar 16 og einnig sést beineyðing víð rótarenda "palatal" rótar tannar 16. Rótarfyllingarefnið gutta percha hefur langa reynslu sem rótfyllingarefni og hefur verið vel þolað af vefjum líkamans. Ekki er líklegt að rótfyllingarefnið sem slíkt hafi valdið þeim óþægindum sem Soffía upplifði. Aftur á móti er þekkt að þegar rót er yfirfyllt á þann hátt sem gert var við "palatal" rót tannar 16 er algengt að rótfylling sé þá óþétt við rótarenda og því aukin hætta á sýkingu við slíkar rætur. Þegar tennur hafa sýkingu við rótarenda verður tönn yfirleitt aum viðkomu. Þó eru mörg dæmi um það að slíkar sýkingar séu nær alveg einkennalausar. Oftast er auðvelt fyrir fólk að staðsetja hvar sýkt tönn er þegar um tönn með sýkingu við rótarenda er að ræða, þó er aldrei hægt að útiloka að slíkir verkir séu dreifðir og leiði jafnvel um það svæði sem er þjónað af sömu taugagrein. Með tilliti til frásagnar Soffíu um hvenær verkirnir hófust og með hvaða hætti þeim lauk eru miklar líkur á að rótfyllingin í tönn 16 komi þar við sögu, eða öllu heldur sýking við rótarenda hennar, þó einkennin hafi á flestan hátt verið óvenjuleg eins og fyrr segir."

Stefndi bar fyrir dómi að umrædd tönn stefnanda hafi verið mjög skemmd og því hafi hann neyðst til þess að framkvæma rótfyllingaraðgerð. Þessari fullyrðingu hefur ekki verið mótmælt og óumdeilt er að stefndi hafi valið rétta tegund aðgerðar við viðgerð á tönninni.

Dómurinn telur að leggja verði til grundvallar gögn frá Ægi Rafni Ingólfssyni og Jóni Viðari Arnórssyni og framburði þeirra fyrir dómi um að sýking hafi verið við rótarenda tannar 16 hægra megin í efra gómi stefnanda þegar þeir framkvæmdu aðgerðir á tönninni í júlí 1998. Í vottorði Ægis Rafns frá 19. september 1998 kemur fram að mikill sýkingarvefur hafi verið á aðgerðarsvæðinu og að hann hafi náð inn í kinnbeinsholu. Samkvæmt framburði hans fyrir dómi var sýkingarvefurinn þó afmarkaður og himna inn í kinnbeinsholu heil. Þá bar Jón Viðar fyrir dómi að um mjög óverulega bólgu hafi verið að ræða við ræturnar tvær kinnarmegin. Með hliðsjón af framburðum þeirra og því að aðgerðirnar voru ekki gerðar vegna þess að stefnandi fyndi fyrir óþægindum frá tönninni verður að ætla að ekki hafi verið um alvarlega eða útbreidda sýkingu að ræða við tannræturnar.

Stefndi bar einnig fyrir dómi að stefnandi hafi komið til hans í fjögur skipti vegna viðgerða á umræddri tönn og lýsti því hvernig staðið var að hreinsun tannarinnar áður en hún var rótfyllt. Bar hann m.a. að þurrka hafi þurft vökva sem borist hafi í tönnina eftir að skemmdir höfðu verið fjarlægðar. Lýsing stefnda á undirbúningi aðgerðarinnar samræmist því sem lesa má út úr röntgenmyndum og fjölda þeirra skipta sem stefnandi kom til hans til undirbúnings rótfyllingunni.

Við rótfyllingaraðgerð sem þessa er mikil áhersla lögð á að sótthreinsa og þurrka rótarganga áður en rótfyllingarefni er komið fyrir. Erfitt getur verið að hreinsa aðgerðarsvæðið algerlega af sýklum og á það ekki síst við um þá tækni sem notast var við á árinu 1991. Fyrir kemur að sýking nái sér upp eftir slíka aðgerð og leiðir hún í flestum tilvikum til þess að tönn verður að endingu aum viðkomu og sjúklingur fær verki sem leiða til þess að hreinsa þarf tönnina betur og endurtaka aðgerðina. Á röntgenmynd sést enn fremur að gangar eru vel tilsniðnir og vel útvíkkaðir. Jafnframt er rótfyllingin þétt og fyllir vel alla rótarganga tannarinnar. Til þess kom ekki í umræddu tilviki og er útilokað að álykta að stefnda hafi orðið á mistök við sótthreinsun og þurrkun rótarganganna eða annan undirbúning aðgerðarinnar. Lýsingar þeirra Ægis Rafns Ingólfssonar og Jóns Viðars Arnórssonar á framkvæmd skurðaðgerðanna sem þeir framkvæmdu þykja staðfesta þetta mat.

Í málinu hafa verið lagðar fram nokkrar röntgenmyndir. Fyrsta myndin var tekin 24. júní 1998 af Gunnar Benediktssyni tannlækni í viðbótarskoðun við almenna tannskoðun. Næsta mynd var tekin af Ægi Rafni Ingólfssyni tannlækni 26. júní 1998. Þá liggja fyrir tvær myndir teknar af Jóni Viðari Arnórssyni tannlækni, önnur tekin þegar stefnandi kom fyrst til hans en hin 7. júlí 1998. Loks mynd tekin af Gunnari Benediktssyni 20. október 1999. Tvær fyrst nefndu myndirnar voru teknar af tönninni áður en Ægir Rafn Ingólfsson nam burtu rótarenda tannarinnar gómmegin, ásamt fyllingarefni og bólguvef. Þessar tvær myndir sýna að rótfyllingarefni hefur verið þrýst upp úr rótargangi tannrótar tannar 16 gómmegin. Rótfyllingarefnið er nálarlaga en erfitt er að sjá hversu langt það gengur út úr rótarendanum. Mat Ægis Rafns Ingólfssonar var að rótfyllingin sem fjarlægð var hafi verið 3-5 mm. Af fyrstu röntgenmyndinni að dæma virðist sem útskotið liggi í rótinni sem næst er röntgenmyndinni þar sem henni er komið fyrir í munni, gómmegin. Útskotið beinist enn fremur að filmunni og vel er þekkt að slíkt er fallið til að magna stærð á útskotinu þar sem það sem á röntgenmyndina kemur er "skuggi" þess sem röntgenþétt er í röntgengeislanum. Halli röntgenmyndarinnar vegna halla gómsins er enn fremur þáttur sem getur aukið lengd útskotsins á röntgenmyndinni. Á röntgenmyndum sést að tönnin er mjög mikið viðgerð og að málmstifti hefur verið skrúfað ofan við rótfyllingarefnið, væntanlega til að festa viðgerðarefni tannarinnar.

Stefndi bar fyrir dómi að hann hafi sent Ríkarði Pálssyni röntgenmynd af tönnum stefnanda sem hann hafi tekið eftir rótfyllingaraðgerðina. Hann hafi fengið myndina til baka en hún finnist ekki á tannlæknastofu hans. Hann bar við að hann hefði ekki orðið var við yfirfyllingu rótfyllingarefnisins í tönninni eftir aðgerðina.

Ekkert verður fullyrt um það í máli þessu hvort nauðsynlegt hafi verið að bora svo langt ofan í tannrótina að rótarendinn opnaðist eða hvort um ónákvæm vinnubrögð hafi verið að ræða. Verður það ekki virt stefnda til sakar að tannrótin hafi opnast við undirbúning rótfyllingarinnar.

Við rótfyllingaraðgerð, eins og þá sem um er fjallað í málinu, er mikil nákvæmnisvinna að staðsetja rótfyllingarstifti þannig í rótargangi að það nái að enda rótargangsins en þó ekki út fyrir. Algengt er við slíkar aðgerðir að rótfyllingarefni ýtist út úr rótarenda. Telja verður sjaldgæft að rótfyllingarefni nái svo langt út úr tannrót eins og í þessu tilviki. Nákvæmni við ísetningu rótfyllingarefnis er þó ekki talin hafa svo mikla þýðingu við aðgerð af þessu tagi að um mistök af hálfu stefnda teljist vera að ræða.

Eins og fram kemur í álitsgerð Ríkharðs Pálssonar tannlæknis er fyllingarefnið sem notað var mjög hlutlaust efni og ertandi áhrif þess á vefi nánast óþekkt. Jafnframt má fallast á það sem kemur fram í matsgerð Geirs Atla Zoëga að gutta percha hafi langa reynslu sem rótfyllingarefni og að vefir líkamans þoli það mjög vel. Matsmaður telur ekki líklegt að rótfyllingarefnið hafi valdið þeim óþægindum sem stefnandi upplifði. Dómurinn tekur undir þetta álit matsmanns og telur ekkert fram komið sem bendi til þess að erting frá rótfyllingarefni hafi valdið sýkingu við rótarenda umræddrar tannar.

Hins vegar kveður matsmaður þekkt að þegar rót sé yfirfyllt á þann hátt sem gert hafi verið við umrædda rót gómmegin sé algengt að rótfylling sé þá óþétt við rótarenda og því aukin hætta á sýkingu við slíkar rætur. Þegar tennur hafi sýkingu við rótarenda verði tönn yfirleitt aum viðkomu en þó séu dæmi til um að slíkar sýkingar séu nær alveg einkennalausar. Fram lagðar röntgenmyndir og mat þeirra tannlækna sem framkvæmdu skurðaðgerðir á tönninni benda til þess að rótfyllingin í umræddri tönn hafi í raun verið þétt og telur dómurinn því ekki sannað að rótfyllingin hafi verið óþétt.

Dómurinn telur að jafnvel geti verið hættara við sýkingu við rótarenda þegar rótfyllingarefni nær ekki alveg að rótarenda en þegar rótfyllingarefni stendur út úr. Þá telur dómurinn að ekkert verði fullyrt um að hætta á sýkingu aukist eftir því sem fyllingarefni stendur lengra út úr tannrót.

Með hliðsjón af framansögðu er ekki hægt að draga þá ályktun að sýkingarhætta hafi aukist við það að rótfyllingarefnið gekk svo langt út úr tannrót sem raun bar vitni.

Stefndi hefur borið að hann hafi ekki orðið var við það eftir aðgerðina að rótfyllingarefnið hefði gengið svo langt út úr rótarganginum. Þá hefur hann borið að engin sérstök eftirmeðferð hafi farið fram. Telja verður að þótt stefndi hefði orðið var við yfirfyllinguna hefði ekki verið ástæða til sérstakra aðgerða að því tilefni, sérstaklega þar sem upplýst er að stefnandi hafði engin einkenni frá tönninni eftir aðgerðina og leitaði ekki aftur til stefnda vegna hennar. Ekki verður því talið að stefnda hafi orðið á saknæm mistök við undirbúning aðgerðarinnar, framkvæmd hennar eða eftirmeðferð.

Með hliðsjón af framangreindu er ekki þörf á að taka afstöðu til þess hvort orsakasamband hafi verið milli aðgerðarinnar og höfuðverkja þeirra sem stefnandi var haldin um árabil.

Dóminum þykir þó rétt að taka fram að þegar litið er til sjúkrasögu stefnanda eins og hún kemur fram í vottorði frá Heilsugæslunni í Garðabæ og lýsingu stefnanda sjálfrar fyrir dómi, m.a. á því hvernig höfuðverkjaköstin hættu eftir aðgerðir á tönninni í júlí 1998, þykir ekki loku fyrir það skotið að einhver tengsl séu milli sýkingar við tannrót umræddrar tannar og höfuðverkjakastanna. Þær heilsufarsupplýsingar um stefnanda sem liggja fyrir í málinu eru hins vegar ekki svo nákvæmar eða niðurstaða matsmanns svo afgerandi að sönnun þyki fram komin um að sýkinguna megi rekja til rótfyllingaraðgerðar þeirrar sem stefndi framkvæmdi á tönninni vorið 1991. Jafnvel þótt svo væri telur dómurinn að líta verði svo á að um óvenjulegan fylgikvilla hafi verið að ræða sem stefnda yrði, með hliðsjón af framangreindu, ekki talinn bera ábyrgð á.

Þegar af þeirri ástæðu að stefnandi hefur samkvæmt framansögðu ekki sýnt fram á saknæm mistök stefnda í tengslum við rótfyllingaraðgerð sem hann framkvæmdi á jaxli í efri gómi stefnanda vorið 1991 ber að sýkna hann af kröfu stefnanda um þjáningabætur og annað meint tjón.

Með hliðsjón af atvikum öllum þykir rétt að hvor málsaðila greiði sinn kostnað af málinu.

Af hálfu stefnanda flutti má­lið Valgeir Kristinsson hrl. en Ólafur Axelsson hrl. af hálfu stefnda.

Dóminn skipa Sigurður Tó­mas Magnús­son héraðs­dómari og tannlæknarnir Guðmundur Á. Björnsson, sérfræðingur í munn- og kjálkaskurðlækningum, og Gunnar Torfason, tannholssérfræðingur.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Jónas Ragnarsson, á að vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Soffíu Garðarsdóttur, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.