Hæstiréttur íslands

Mál nr. 437/2003


Lykilorð

  • Ölvunarakstur
  • Umferðarlög
  • Svipting ökuréttar
  • Ítrekun


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. mars 2004.

Nr. 437/2003.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Alexander Birni Gíslasyni

(Björgvin Jónsson hrl.)

 

Ölvunarakstur. Umferðalög. Svipting ökuréttar. Ítrekun.

A var ákærður fyrir umferðalagabrot með því að hafa tvívegis ekið bifreiðum undir áhrifum áfengis. Framburður A og vitna sem honum voru tengd var óstöðugur og skýringar á breyttum framburði þóttu ekki fullnægjandi. Með hliðsjón af gögnum málsins þótti ekki varhugavert að telja brot A sönnuð og var refsing hans ákveðin fangelsi í 45 daga. Þá var hann sviptur ökurétti ævilangt.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

         Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 5. nóvember 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærða, sem verði þyngd.

         Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing hans verði milduð og bundin skilorði, auk þess sem ökuréttarsvipting verði tímabundin.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar segir í dómsorði.

                                                         Dómsorð:

         Héraðsdómur skal vera óraskaður.

         Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 125.000 krónur

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2003.

            Mál þetta, sem dómtekið var 6. maí sl., er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 2. desember 2002 á hendur Alexander Birni Gíslasyni, kt.[…][…] Reykjavík, fyrir umferðalagabrot með því að hafa undir áhrifum áfengis ekið bifreiðum um götur í Reykjavík á árinu 2002 svo sem hér er rakið:

I

            Bifreiðinni […] að kvöldi þriðjudagsins 27. ágúst (vínandamagn í blóði 1,39‰) frá […][…].

 

II

            Bifreiðinni […] að kvöldi sunnudagsins 3. nóvember (vínandamagn í blóði 2,03‰) um Sæbraut og svo óvarlega að hann ók aftan á bifreiðina […] sem ekið var um Sæbraut skammt sunnan Langholtsvegar.

 

            Þetta er talið varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr., 45. gr, og brotið í lið II að auki við 1. mgr. 4. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 2. gr. laga nr. 23/1998.

Verjandi ákærða gerir þær kröfur að ákærði verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins en til vara krefst hann þess að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa og að dómur verði skilorðsbundinn.  Loks krefst hann þess að sakar­kostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin hæfileg málsvarnarlaun að mati dómsins.

 

Ákæruliður I

                Að kvöldi fimmtudagsins 27. ágúst 2002, kl. 22:25, var lögreglan kvödd að […] í Reykjavík. Tilkynnt hafði verið um aðila sem væri að berja húsið að utan. Samkvæmt frumskýrslu stóð ákærði fyrir aftan bifreiðina […], sem var lagt fyrir aftan innkeyrslu að húsinu, og var að rífast við tilkynnandann Ö, þegar lögregla kom á vettvang. Í framsæti bifreiðar farþegamegin sat P, sambýlismaður ákærða. Megn áfengislykt var frá vitum ákærða. Í skýrslunni segir að ákærði hafi verið inntur eftir því hvort að […] væri hans bifreið og hefði hann játað því. Vélarhlíf bifreiðarinnar hafi verið volg viðkomu og hurðir ólæstar. Þá hafi hann verið spurður að því hvort hann hefði komið akandi að […]. Hafi þá komið hik á ákærða en síðan hefði hann snúið sér við þar sem hann stóð fyrir aftan bifreiðina og gengið hröðum skrefum að fremri farþegahurðinni og opnað hana. Hefði hann sagt eitthvað við P sem lögreglan gat ekki greint. Ákveðið hafi verið að handtaka ákærða vegna gruns um ölvun við akstur. Við öryggisleit hafi fundist kveikjuláslykill að […] í buxnavasa ákærða. Vildi hann ekki ræða það hvort hann hefði ekið bifreiðinni eða ekki og kvað P hafa ekið bifreiðinni. Hafi þá verið ákveðið að handtaka P einnig. Voru þeir fluttir á lögreglustöðina á Hverfisgötu og kvað áhöfn á lögreglubifreiðinni sem flutti P að hann hefði sagt þeim að ákærði hefði ekið bifreiðinni að […].

                Á lögreglustöðinni við Hverfisgötu hafi ákærði blásið í S-D2 öndunarprófs­mæli og hafi niðurstaða prófsins verið nokkuð yfir mörkunum. Hafi ákærði verið mjög æstur, bæði sparkað í vegg og slegið  í borð, og hafi hann því verið færður í handjárn og bensla á fætur til þess að tryggja öryggi allra á vettvangi. Þannig hafi hann verið fluttur á slysadeild Landspítalans í Fossvogi til töku blóðsýnis. Að blóðsýnatöku lokinni hafi hann verið fluttur aftur á aðalstöð en þá hafi hann verið rólegur og því leystur úr fjötrum. Þá hafi hann gefið þvagsýni, kl. 00:13. Voru ákærði og P frjálsir ferða sinna kl. 00:20.

                Í frumskýrslu lögreglu kemur jafnframt fram lýsing á ástandi ákærða en þar segir að ölvunareinkenni hafi verið áberandi.

Samkvæmt niðurstöðu alkóhólrannsóknar, dagsettri 4. september, mældist alkóhól í blóði ákærða 1.39‰ að teknu tilliti til vikmarka en alkóhól í þvagi ákærða mældist 1.51‰ að teknu tilliti til vikmarka.

 

Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði, Alexander Björn Gíslason, hafa komið frá […], þar sem hann bjó á þeim tíma sem um ræðir, og að […], þar sem fyrrverandi eiginkona hans búi. Hann kvað P hafa ekið bifreiðinni. Spurður hvort hann hafi skýringu á því hvers vegna P hafi setið í framsæti farþegamegin þegar lögregluna bar að garði, kvað vitnið lögregluna hafa komið að á ofsahraða með blikkandi ljós en við það hafi P orðið hræddur enda hefði hann ekki góða reynslu af Útlendingaeftirlitinu og fleiri aðilum. Spurður um ástæðu þess að bíllyklarnir hefðu verið í vasa hans, kvaðst hann hafa tekið lyklana úr kveikjulásnum og sagt við P að hann ætlaði að segjast hafa ekið bílnum. Síðan hefði hann stungið lyklunum á sig. Hann kvaðst hafa rætt við lögregluna á staðnum og þá sagst hafa ekið bílnum. Borinn var undir ákærða framburður hans hjá lögreglu þar sem hann játaði að hafa ekið ölvaður og lýsti jafnframt þeirri leið sem hann ók að […]. Staðfesti hann þennan framburð. Hins vegar kvað hann ástæðuna hafa verið þá að þeir hafi óttast að afskipti lögreglu af P gætu haft áhrif á Útlendingaeftirlitið, en mál sambýlismanns hans P, sem væri frá Búlgaríu, hafi verið þar til meðferðar og komið hefðu upp vandkvæði, hefði mál hans þar verið dregið á langinn. Hann hefði fengið upplýsingar hjá Alþjóðahúsi um það hvaða gögn hann þyrfti að leggja fram til þess að hann gæti gengið í staðfesta samvist hér á landi og hefði hann aflað þeirra gagna. Þegar komið hefði verið fram í nóvember hafi þeir þó ekkert verið farnir að heyra frá Útlendingaeftirlitinu og því verið sannfærðir um að það ætti ekki að heimila P að dveljast hér á landi. Hafi þeir þess vegna ekki viljað taka neina áhættu með því að blanda honum inn í lögreglumál og hafi ákærði því tekið á sig sökina. Aðspurður kvað hann P hafa komið til landsins 21. ágúst sl. Hafi þeir þekkst frá síðasta sumri en hann hefði búið í Búlgaríu um tíma. Spurður um ástæðu þess að hann hafi farið til fyrrverandi eiginkonu sinnar kvaðst hann hafa viljað ræða lögskilnað við hana en hún hefði ekki gengið frá þeim málum eins og hún hefði lofað. Hefði hún ekki mætt hjá sýslumanni og ritað undir eitthvað skjal. Aðspurður kvað ákærði hana ekki hafa átt von á sér. Hefði hann hringt dyrabjöllunni og staðið á tröppunum hjá henni ásamt P og rætt við hana. Hann hafi ekki verið með neina ókurteisi en hún hafi orðið mjög æst. Fólk sem var innandyra hefði eflaust hringt á lögregluna. Þegar þeir hafi gengið frá húsinu hafi P gengið örlítið á undan. Þegar hann hafi séð lögregluna koma aðvífandi, en hann sá ljósin nokkru áður, hafi P verið nánast kominn út af lóðinni en ákærði hafi verið á leið niður tröppurnar. Bíllinn hafi verið einhverja tíu metra fyrir neðan húsið. Þegar ákærði hafi verið kominn út af lóðinni og lögreglan komin hafi hann séð P ganga að bílnum. Nánar spurður hvort að P hafi verið kominn inn í bílinn þegar lögreglan kom kvað ákærði svo vera. Þá hafi hann jafnframt tekið lyklana úr kveikjulásnum eftir að lögreglan kom á staðinn.

            Í varðstjóraskýrslu dagsettri 27. ágúst 2002, sem liggur fyrir í málinu, viðurkenndi ákærði að hafa ekið bifreiðinni […] heiman frá sér að […] […] eftir að hafa neytt áfengis um kvöldið.  Þá liggur fyrir í málinu lögregluskýrsla dagsett 4. nóvember 2002, sem rituð er af Benedikt Lund, rannsóknar­lögreglumanni. Viðurkenndi ákærði þar að hann hefði sjálfur verið ökumaður í umrætt sinn. Lýsti hann því að hann hefði fundið lítillega til áfengisáhrifa en hefði þó verið skýr þegar hann ók bifreiðinni. Þá lýsti hann leiðinni sem hann ók frá […][…]  svo og tilgangi fararinnar.

                Vitnið, Sveinbjörn Sigurður Hilmarsson, lögreglumaður, kvaðst hafa gert frumskýrslu dagsetta 27. ágúst 2002. Lýsti hann aðdraganda að handtöku ákærða á sama veg og þar kemur fram. Kvað hann ákærða hafa staðið fyrir aftan bifreiðina en annan mann hafa setið í framsæti farþegamegin. Hafi ákærði gengið að hurðinni þeim megin og rætt eitthvað við manninn. Aðspurður kvað hann það ekki geta verið að ákærði hefði tekið lykla úr kveikjulás bifreiðarinnar án þess að hann hefði séð það. Hann hafi haft hann í sjónmáli allan tímann. Teldi hann ólíklegt að farþeginn hefði rétt honum lyklana enda hefði ákærði rétt stungið höfðinu í hurðargáttina. Hafi þetta aðeins tekið örfáar sekúndur. Spurður um orðaskipti ákærða og farþegans, kvaðst hann ekki hafa greint þau enda hafi verið um eitthvað hvísl að ræða. Vitnið minnti að ákærði hefði neitað því að hafa ekið bifreiðinni og hafi komið mikið fát á hann er hann var inntur eftir þessu. Vélarhlíf bifreiðarinnar hafi verið heit viðkomu og lyklar bifreiðarinnar í vasa ákærða. Spurður um samskipti við P kvað hann þau hafa verið mjög lítil enda hefði annar lögreglubíll flutt hann á lögreglustöð. Aðspurður taldi vitnið að hvorki ljós lögreglubifreiðarinnar né sírena hefðu verið á þegar þeir óku upp að húsinu.

                Vitnið, A, kvaðst vera fyrrverandi eiginkona ákærða. Aðspurð kvaðst hún muna vel eftir þessu mál því það hefði haft tveggja eða þriggja daga aðdraganda. Ákærði hefði hringt í hana þar sem hún hafði ekki undirritað lögskilnaðarpappíra og sagt að hún ætti að mæta til sýslumanns til þess. Hún hefði hringt til sýslumannsins og þá hefði komið í ljós að ákærði hafði einungis pantað tíma fyrir sjálfan sig, en mánaðarbið verið eftir tíma fyrir hana. Kvöldið sem hér um ræðir hafi vitnið verið heima ásamt syni sínum og fyrrverandi sambýlismanni að horfa á sjónvarpið. Hafi dyrabjöllunni verið hringt og þar hafi ákærði staðið ásamt einhverjum útlendingi. Hafi hún ekki opnað hurðina enda séð í hvernig gír hann var og því hringt á lögregluna. Þá hafi ákærði farið að lemja á gluggann og hafi hún þá opnað. Hann hafi æst sig verulega yfir því að hún hefði ekki mætt til sýslumanns. Hefði hann haft í hótunum við hana og son hennar. Hann hafi síðan farið niður tröppurnar ásamt manninum og hafi ákærði dregið hann út úr garðinum. Útlendingurinn hafi á ensku beðið hana um að hjálpa sér. Lögreglan hafi síðan rennt að og hafi hún rætt við lögreglumennina en síðan farið inn. Aðspurð kvaðst vitnið hafa séð bíl ákærða við hús nr. 51 og hafi hann og maðurinn verið við bílinn þegar lögregluna bar að garði. Hins vegar hafi hún ekki fylgst með þeim ganga að bílnum. Aðspurð kvað hún lögreglubílinn hafa komið með blikkandi ljós.

                Vitnið, P, kvaðst vera sambýlismaður ákærða, væru þeir í staðfestri samvist. Aðspurður hver hefði ekið bifreiðinni að […] hinn 27. ágúst 2002 kvaðst vitnið hafa ekið því ákærði hefði verið undir áhrifum áfengis. Hafi ákærði ætlað að hitta A fyrrverandi eiginkonu hans. Spurður að því hvort hann hefði sagt eitthvað við Aá staðnum kvaðst hann hafa sagt eitthvað varðandi skilnaðarpappírana.  Aðspurður kvaðst hann hafa lagt bílnum fyrir framan hús hennar en bíllyklarnir hafi þá verið í kveikjulásnum. Kvað hann þá hafa verið stadda fyrir utan húsið þegar þeir hafi séð lögreglubílana koma. Hafi ákærði þá sagt við vitnið að best væri að hann segði lögreglunni að hann hefði ekið bílnum vegna þess að vitnið átti í vanda við Útlendingaeftirlitið. Hafi þeir vitað að lögreglan væri á leiðinni þangað því A hefði sagt þeim að hún hefði hringt í hana. Bifreið þeirra hafi ekki verið langt undan og hafi þeir báðir sest inn í bifreiðina en í því hafi lögreglan komið. Nánar spurður að því hvers vegna vitnið hafi setið í farþegasæti en ekki í ökumannssæti þegar lögreglan kom kvaðst hann hafa sest þar því ákærði hefði lagt það til. Spurður hvernig bíllyklarnir hefðu komist í vasa ákærða, kvað vitnið ákærða hafa tekið þá úr kveikjulásnum og sett þá í vasa sinn. Aðspurður kvað vitnið ákærða hafa farið aftur út úr bílnum þegar þeir sáu lögregluna koma. Nánar spurður hvort að ákærði hafi komið aftur til þess að ræða við vitnið þar sem hann sat í farþegasætinu kvað vitnið svo ekki vera. Kvaðst vitnið aðspurður hafa sagt við lögregluna í lögreglubifreiðinni að ákærði hefði ekið að […] enda hafi það verið samkomulag hans við ákærða að skýra svo frá. Kvað hann hið rétta vera að hann hefði ekið bifreiðinni þangað en ekki ákærði. 

Borin eru undir vitnið tölvupóstsendingar hans til lögfræðings Alþjóðahúss og staðfesti hann að um væri að ræða tölvupóstsamskipti þeirra vegna fyrirspurnar hans um dvalarleyfi og staðfestar samvistir.

Í varðstjóraskýrslu, dagsettri 27. ágúst 2002, sem liggur fyrir í málinu, kemur fram að í viðræðum við varðstjórann hafi P sagt að það hefði verið ákærði sem ók bifreiðinni umrætt sinn.

Vitnið, Ófeigur Óskar Sigurpálsson, varðstjóri hjá lögreglunni í Reykjavík, kvaðst hafa tekið varðstjóraskýrslu af ákærða hinn 27. ágúst 2002. Hafi ákærði verið nokkuð æstur í fyrstu. Hafi ákærði sagst hafa ekið bifreiðinni umrætt sinn. Borin var undir vitnið fyrrgreind skýrsla og staðfesti hann efni hennar og undirritun sína. 

Vitnið, Benedikt Lund, rannsóknarlögreglumaður, kvaðst ekki muna eftir skýrslu­tökunni frá 4. nóvember 2002 í smáatriðum, en hins vegar myndi hann að ákærði hefði játað greiðlega. Hann hefði tekið tvær skýrslur af ákærða þennan dag, hann hefði verið tekinn vegna ölvunaraksturs kvöldið áður. Hafi hann vantað lyf vegna sjúkdóms síns og hefði vitnið ekið honum heim. Aðspurður kvað hann ástand hans þó alls ekki hafa verið þannig að hann hefði verið ófær um að gefa skýrslu.

Vitnið, Ómar Smári Ármannsson, lögreglumaður, kvaðst hafa vottað undir­skrift ákærða á tvær skýrslur sem Benedikt Lund hefði tekið. Kvaðst hann ekki hafa verið viðstaddur yfirheyrsluna sjálfa en hafa verið viðstaddur þegar skýrslan var lesin yfir og ákærði staðfesti efni hennar rétt. Hefði ákærði verið yfirvegaður og rólegur.

 

Niðurstaða ákæruliðar I.

                Fyrir liggur að bifreiðinni […] var ekið frá […][…] það kvöld sem hér um ræðir. Hins vegar er uppi ágreiningur um það hvort að ákærði hafi ekið bifreiðinni eða vitnið P sem jafnframt var í bifreiðinni. Þeir voru báðir handteknir. Samkvæmt niðurstöðu alkahólrannsóknar liggur fyrir að ákærði var undir áhrifum áfengis. Ekkert í málinu bendir til að grunur hafi verið um áfengisneyslu P og var hann ekki færður í blóðtöku. Í frumskýrslu lögreglu er skýrt frá því að hik hafi komið á ákærða er hann var spurður hvort hann hafi ekið bifreiðinni, hafi hann fyrst sagt að P hafi ekið bifreiðinni en síðan breytt framburði sínum á þann veg að hann hefði sjálfur ekið. Þegar tekin var lögregluskýrsla af honum 4. nóvember sama ár játaði hann að hafa ekið bifreiðinni í umrætt sinn og lýsti ásigkomulagi sínu og akstursleið nákvæmlega. Hér fyrir dómi hefur hann hins vegar borið að P afi í raun ekið bifreiðinni en hann hafi tekið á sig sök af ástæðum sem raktar hafa verið. P bar fyrir lögreglu á sama veg og ákærði en breytti síðan framburði sínum hér fyrir dómi til samræmis við framburð ákærða.             

                Í frumskýrslu er því lýst að lögreglan hafi verið kvödd að […] vegna óláta ákærða. Hefur fyrrverandi eiginkona ákærða, vitnið A, borið að ákærði hafi verið æstur þegar hún vildi ekki opna fyrir honum og hafi hún þá hringt á lögregluna áður en hún ræddi við ákærða fyrir utan húsið. Þegar lögreglan kom á vettvang stóð ákærði fyrir aftan bifreið sína og átti í orðaskaki við A en                                                                                                                                                                                                                                                                                                                            P sat í framsæti farþegamegin. Vaknaði þá grunur um að ákærði hefði ekið bifreiðinni ölvaður og gekkst hann við þeim sökum við yfirheyrslu eins og fyrr greinir. Þá fannst bíllykillinn í buxnavasa ákærða en ákærði og P bera báðir fyrir dóminum að lykillinn hafi verið skilinn eftir í kveikjulásnum þegar þeir fóru inn í húsið, en ákærði hafi tekið hann og sett í vasa sinn þegar lögreglan kom.

                Lögreglumaðurinn Sveinbjörn Sigurður bar að hann hafi fylgst vel með ákærða eftir að á staðinn var komið og hefði hann ekki séð hann taka bíllykilinn úr kveikjulásnum né P rétta honum hann. Kvað hann það ekki geta staðist að ákærði hefði tekið lyklana úr kveikjulásnum án þess að hann sæi það.

Ljóst er af málsgögnum að P var nýkominn til landsins þegar þetta var. Ætla verður að hann hafi verið ódrukkinn. Í ljósi þessa þykir sú skýring að þeir hafi óttast afskipti lögreglu vegna umsóknar P um dvalarleyfi vera langsótt, og ekkert í gögnum málsins styður þá fullyrðingu að samskipti þeirra við Útlendinga­eftirlitið hafi verið slík að öryggisleysi gagnvart því réttlæti meintar rangar skýrslur hjá lögreglu. Tölvuskeyti milli þeirra og Alþjóðahúss varðandi vígsluskjöl eiga sér stað í lok september. Sú skýring að P hafi almennt óttast lögreglu þykir ekki tæk, enda vandséð hvað hann hafði að óttast sem bifreiðastjóri ef hann var ódrukkinn. Ákærði og vitnið P þykja því ekki hafa gefið fullnægjandi skýringu á breyttum framburði sínum um að ákærði hafi ekið bifreiðinni í umrætt sinn. Í ljósi framburðar þeirra hjá lögreglu, þess að skýring þeirra á breyttum framburði þykir ekki fullnægjandi, þess að ákærði var með bíllyklana og vitnið P sat farþegamegin í bifreiðinni, þá þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi verið ökumaður í umrætt sinn. Er hann því, þrátt fyrir neitun, fundinn sekur um ölvunarakstur svo sem í ákæru greinir og er brotið réttilega fært til refsiákvæðis.

 

Ákæruliður II.

Sunnudaginn 3. nóvember 2002, kl. 20:27, var óskað lögregluaðstoðar við Kleppsveg 150 vegna umferðaróhapps. Þegar lögreglan kom á vettvang voru ökutækin kyrrstæð fyrir utan verslun að Kleppsvegi 150. Samkvæmt frumskýrslu stóðu þrír karlmenn við bifreiðina […] allir sýnilega undir áhrifum áfengis en ákærði þó mest. Ökumaður bifreiðarinnar […], S kvað ákærða hafa verið ökumann bifreiðarinnar […] er óhappið vildi til. Þessu hafi ákærði neitað og sagt að hann vissi ekki hver hefði verið ökumaður í umrætt sinn. Þá kvaðst vitnið P, sem á staðnum var, ekki vita hver hefði verið ökumaður er óhappið vildi til. Farþegi í bifreiðinni, vitnið B sagði strax að ákærði hefði ekið.

Óskað hafi verið eftir frekari lögregluaðstoð og voru ákærði, B og P handteknir og fluttir að lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Hafi ákærði verið nær óviðræðuhæfur sökum ölvunar.

Samkvæmt skýrslunni lýsti S óhappinu þannig að hún hefði ekið suður Sæbraut frá Langholtsvegi eftir vinstri akrein. Hún kvaðst hafa séð ökutæki nálgast mjög hratt fyrir aftan ökutæki hennar. Hafi þeirri bifreið verið beygt til hægri áleiðis inn á hægri akreinina en við það hafi vinstra framhorn bifreiðarinnar hafnað á hægra afturhorni bifreiðar hennar. Hafi hún þá fylgt bifreiðinni eftir en henni hafi verið ekið að Kleppsvegi 150 þar sem ökumaðurinn hafi stöðvað. Hafi hún rætt við ökumanninn, sem reyndist vera ákærði, og uppgötvað að hann væri undir áhrifum áfengis svo og hinir mennirnir sem með honum hafi verið.

Farið var með ákærða á slysadeild Landspítalans Fossvogi þar sem læknir tók úr honum blóðsýni og var hann vistaður í biðklefa. Ástandi ákærða var lýst þannig að sjáöldur hans væru mjög útvíkkuð, jafnvægi óstöðugt, framburður ruglingslegur og málfar óskýrt.

Blóðsýni voru einnig tekin hjá vitnunum P og B. Samkvæmt niðurstöðu alkóhólrannsóknar mældist alkóhól í blóði ákærða 2.03‰ að teknu tilliti til vikmarka, í blóði P mældist ‹0.1‰ að teknu tilliti til vikmarka og í blóði B 0.64‰ að teknu tilliti til vikmarka.

 

                Við aðalmeðferð málsins bar ákærði, Alexander Björn Gíslason, að hann hefði ekki ekið bifreiðinni. Borinn var undir ákærða framburður hans hjá lögreglu þar sem hann játaði. Kvaðst ákærði hafa verið farþegi í bifreiðinni og hafi borið á þennan veg af sömu ástæðum og hann lýsti áður varðandi fyrri ákæruliðinn. Lýsti hann atvikum svo að grárri bifreið hefði verið beygt út á vinstri akrein frá Langholtsvegi inn á Sæbrautina. P, sem hefði ekið bifreiðinni, hefði þá sveigt frá til þess að forða árekstri og hefði farið einhvern veginn utan í bifreiðina. Hann kvaðst ekki muna nákvæmlega eftir atvikum enda hefði hann verið mjög ölvaður. Hins vegar myndi hann vel að hann hefði ekki ekið. Aðspurður kvaðst hann ekki muna mikið eftir því að hafa rætt við ökumann hinnar bifreiðarinnar. Spurður hvort að bifreiðin hafi verið stöðvuð strax eftir óhappið, kvað ákærði svo ekki hafa verið, bifreiðinni hefði verið ekið inn í hliðargötu og hafi konan, sem ók hinni bifreiðinni, elt þá og síðan stöðvað á sama stað. Taldi ákærði, þrátt fyrir þetta, ekki líklegt að hún hefði séð hver ók bifreiðinni, enda hafi hún ekki verið komin þegar þeir hafi stigið út úr bifreiðinni. Hafi hann þá séð hana koma fyrir hornið frá Sæbrautinni.

                Ákærði greindi dóminum frá því að hann væri smitaður af HIV og væri ein­staklings­bundið hvernig sjúkdómurinn færi með fólk. Í hans tilviki hafi hann fundið fyrir miklum verkjum og þreytu. Hafi hann þurft að taka lyf sem hefðu deyfandi verkun. Aðspurður hvort að hann hefði tekið lyfin á þessum tíma sem hér um ræðir kvað ákærði svo ekki hafa verið. Hann hefði verið drukkinn og því ekki tekið lyfin. Hins vegar hefði það þau áhrif að líðan hans yrði mjög slæm næsta dag og þyrfti hann þá lyfin. Spurður um líðan sína í skýrslutöku að morgni 4. nóvember sl. kvað ákærði sig hafa verið þjáðan af verkjum og hefði hann sagt lögreglumanninum frá því, sem hefði brugðist vel við því og ekið honum heim. Hins vegar myndi hann hafa borið eins við skýrslutökuna þó hann hefði verið verkjalaus.

                Í skýrslu lögreglu, dagsettri 4. nóvember 2002, sagði ákærði að hann rámaði lítillega í að hafa verið að aka. Kvaðst hann ekki muna eftir neinum smáatriðum í akstrinum enda hefði hann drukkið Vodkaflösku og eina Campari. Þá hefði hann tekið inn sterk lyf sem sljóvguðu hann enn frekar. Ákærða var kynntur framburður S, ökumanns bifreiðarinnar […] og kvaðst hann ekki draga hennar framburð í efa enda myndi hann ekkert eftir akstrinum.

Vitnið, P kvaðst, er hann kom fyrir dóminn, hafa ekið bifreiðinni í umrætt sinn. Ákærði hafi setið í framsætinu við hlið hans. Aðspurður kvaðst vitnið ekki hafa drukkið mikið. Hann hafi aðeins skálað við ákærða og B. Hafi hann ekið af stað frá Kleppsvegi og beygt til hægri Sæbrautina. Ökumaður hinnar bifreiðarinnar hafi líka ekið inn á Sæbrautina. Eftir áreksturinn hafi þeir ekið aðeins áfram og stöðvað við videóleiguna á Kleppsvegi. Ökumaður bifreiðarinnar, sem var kona, hafi komið strax á eftir, kannski mínútu síðar, hafi hún eingöngu rætt við ákærða. Hafi þeir verið komnir út úr bifreiðinni þegar hún kom akandi. Aðspurður kvað vitnið ákærða hafa sagt honum að bera eins og í fyrra málinu ef lögreglan myndi hafa afskipti af þeim. Vitnið kvaðst ekki muna eftir því sem hann sagði við lögregluna á staðnum. Á lögreglustöðinni hafi hann sagt að ákærði hefði ekið. Borið var undir hann hvort að það væri rétt, sem kæmi fram í skýrslu lögreglunnar dagsettri 3. nóvember, að hann hefði óskað eftir því að Guðmundur Ragnarsson (í skýrslu ranglega sagður Gunnarsson) yrði tilnefndur verjandi hans og kvað hann það vera rétt. Hins vegar hefði hann ekki verið viðstaddur skýrslutöku og hefði sér ekki verið kynntur réttur til þess að svara ekki spurningum lögreglunnar.

Í frumskýrslu lögreglu frá 3. nóvember 2002 er haft eftir P að hann hafi setið við hlið ákærða í hægra framsæti er óhappið vildi til. Hafi ákærði ekið bifreiðinni. Hann neitaði við skýrslutöku að hafa sjálfur ekið bifreiðinni. Var hann færður í blóðtöku og var síðan frjáls ferða sinna.

Vitnið, Benedikt Lund, rannsóknarlögreglumaður, kvaðst ekki muna eftir skýrslutökunni frá 4. nóvember 2002 í smáatriðum, en hins vegar myndi hann að ákærði hefði játað greiðlega. Hann hefði tekið tvær skýrslur af ákærða þennan dag, hann hefði verið tekinn vegna ölvunaraksturs kvöldið áður. Hafi hann vantað lyf vegna sjúkdóms síns og hefði vitnið ekið honum heim. Aðspurður kvað hann ástand hans þó alls ekki hafa verið þannig að hann hefði verið ófær um að gefa skýrslu.

Vitnið, Ómar Smári Ármannsson, lögreglumaður, kvaðst hafa vottað undir­skrift ákærða á tvær skýrslur sem Benedikt Lund hefði tekið. Kvaðst hann ekki hafa verið viðstaddur yfirheyrsluna sjálfa en hafa verið viðstaddur þegar skýrslan var lesin yfir og ákærði staðfesti efni hennar rétt. Hefði ákærði verið yfirvegaður og rólegur.

Vitnið, Eiríkur Pétursson, rannsóknarlögreglumaður, kvaðst hafa komið að máli sem ákærði átti hlut að. Hafi verið um árekstur að ræða og hefði kona hringt í lögregluna og tilkynnt óhappið.  Þegar á vettvang var komið hefðu þrír menn staðið fyrir utan aðra bifreiðina. Hefði í fyrstu verið óljóst hver hefði ekið bifreiðinni og voru mennirnir því handteknir. Blóðprufur hafi verið teknar úr þeim öllum. Ákærði hefði síðar játað að hann hefði ekið.

Vitnið, B, kvaðst kannast við að hafa lent í árekstri á Sæbrautinni hinn 3. nóvember 2002. Hann kvaðst hins vegar hafa verið mjög ölvaður og ekki muna atvik nákvæmlega. Þá kvaðst hann ekki muna eftir neinum samtölum við umferðarljósin, og kvað hann þá félaga ekki hafa stoppað á neinum umferðarljósum. Hann kvaðst hafa setið aftur í en P hefði ekið bifreiðinni. Hafi P ekki verið undir áhrifum áfengis eins og ákærði og hann sjálfur. Um óhappið sagði vitnið þá hafa ekið á hægra afturhorn hinnar bifreiðarinnar og reynt að sveigja frá. Hefði stelpa ekið þeirri bifreið sem þeir óku á. Kvað hann þá hafa stöðvað á bílaplani og hefðu þeir verið komnir út úr bifreiðinni þegar hún kom akandi. Nánar spurður kvaðst hann sjálfur að minnsta kosti hafa verið kominn út, en hann hafi lítið spáð í hina þótt hann haldi að þeir hafi verið komnir út líka. Aðspurður kvaðst vitnið hafa sagt lögreglunni á vettvangi að ákærði hefði ekið bílnum, því ákærði hefði beðið hann um það á bílaplaninu. Vitnið kvaðst hafa rætt við stelpuna og rifist eitthvað við ákærða sem hafi verið í slæmu standi. Spurður hvort að ástand ákærða hafi verið þannig að hann hefði ekki getað ekið, taldi hann svo ekki vera. Ákærði hafi ætlað að gera tjónaskýrslu og talað eitthvað við stelpuna. Aðspurður kvað hann líklegt að það skýrði hvers vegna hún telji ákærða hafa verið ökumann bifreiðarinnar.

Í frumskýrslu lögreglu dagsettri 3. nóvember 2002, er haft eftir B að hann hafi setið í aftursæti bifreiðinnar […] er óhappið vildi til. Hann hafi verið nýkominn í ökutækið er þetta gerðist. Ákærði og D hefðu komið á heimili hans skömmu áður og hafi hann farið með þeim út að aka. Hefði ákærði ekið bifreiðinni nokkuð greitt suður Sæbraut.

Vitnið, S, kvaðst hafa verið aðili að árekstri þeim sem átti sér stað 3. nóvember 2002. Kvaðst hún hafa ekið Sæbrautina og verið að skipta um akrein þegar ekið var aftan á hana. Hafi bílarnir ekið í sömu átt eftir Sæbrautinni og hún hafi verið á hægri akrein og skipt yfir á vinstri akrein og þá hafi verið ekið aftan á hana. Síðan hafi ökumaðurinn bara ekið áfram en þá hafi hún ekið á eftir honum og náð honum á rauðum ljósunum við Holtagarða. Hefði hún spurt ökumanninn hvort hann ætlaði ekki að stoppa en bílarnir hafi þá verið hlið við hlið. Hafi hún verið vinstra megin á götunni. Þá hafi hún séð hvar farþegar í bílnum sátu. Einn mjög dökkhærður maður hafi setið við hlið ökumannsins en aftur í hafi setið mjög grannur rauðhærður maður. Aðspurð kvaðst hún hafa tekið eftir því að ökumaðurinn var drukkinn um leið og hann fór að tala við hana þarna á ljósunum. Hann hafi síðan stöðvað bifreiðina rétt hjá bakaríi Jóa Fel og hún hefði komið að bara rétt á eftir. Taldi vitnið að hún hefði verið komin þangað innan einnar mínútu. Hafi bifreiðarnar stöðvað hlið við hlið. Þrír menn hafi komið út úr bifreiðinni, ökumaðurinn líka. Aðspurð kvaðst hún hafa séð þá stíga út og hefði ákærði komið út ökumannsmegin. Hún kvað ökumanninn hafa talað íslensku, hún hefði rætt við hann á staðnum og líka rétt áður á ljósunum. Lýsti hún ökumanninum þannig að hann væri skolhærður og að hún myndi örugglega þekkja hann aftur. Staðfesti hún það að hann sæti í dómsalnum. Nánar spurð kvaðst vitnið vera alveg viss um að ákærði hefði ekið bifreiðinni en ekki dökkhærði maðurinn, hann hefði setið í framsæti við hlið ökumannsins.

Í frumskýrslu lögreglu er haft eftir vitninu um óhappið að hún hafi ekið suður Sæbraut frá Langholtsvegi eftir vinstri akrein. Hafi hún séð hvar ökutæki nálgaðist mjög hratt fyrir aftan ökutæki hennar á vinstri akreininni. Þegar ökutækið hafi verið komið nálægt afturhluta ökutækis hennar hafi því verið beygt til hægri áleiðis inn á hægri akreinina. Hafi þá ekki viljað betur til en að vinstra framhorn ökutækisins hafi hafnað á hægra afturhorni hennar ökutækis.

 

Niðurstaða ákæruliðar II.

            Ákærði breytti framburði sínum varðandi þennan ákærulið fyrir dómi frá því sem hann hafði játað hjá lögreglu og bar að vitnið P hefði ekið bifreiðinni þegar óhappið varð en ekki hann sjálfur. Gaf hann sömu skýringu á hinum breytta framburði og áður hefur verið rakið í tengslum við ákærulið I.  Hafa P og vitnið B, sem voru í bílnum með ákærða, borið fyrir dóminum að P hafi ekið bifreiðinni, en hjá lögreglu sögðu þeir ákærða hafa ekið. Vitnið S, sem var ökumaður þeirrar bifreiðar sem ekið var á, bar mjög ákveðið bæði á vettvangi og fyrir dómi að ákærði hafi ekið bifreiðinni. Lýsti hún því fyrir dóminum að hún hefði ekið samsíða bifreið ákærða og staðnæmst á umferðarljósum og rætt við hann. Kvaðst hún þá strax hafa veitt því eftirtekt að hann var mjög ölvaður. Hafi hún verið á vinstri akrein og því séð greinilega að hann ók bifreiðinni. Þá lýsti hún farþegunum í bifreiðinni nákvæmlega og því hvar þeir sátu í bifreiðinni. Kvaðst hún aðeins hafa verið örskammt á eftir bifreið ákærða þegar ekið var af stað í átt að bílaplaninu við Kleppsveg þar sem bílarnir staðnæmdust og hafi því ekki farið fram hjá henni þegar ákærði steig út úr bifreiðinni úr ökumannssæti. Vitni þetta var mjög greinargott og trúverðugt. Vitnin P og B hafa breytt framburði sínum. Meta verður vætti þeirra í ljósi tengsla þeirra við ákærða, en P er í staðfestri sambúð með ákærða og vitnið B býr nú hjá ákærða og P. Framburður B var frekar óskýr og mundi hann atvik ekki glögglega, þá kvaðst hann fyrir dóminum hafa verið mjög ölvaður í umrætt sinn, en sá framburður er ekki í samræmi við niðurstöðu blóðrannsóknar, gerir þetta framburð hans ótrúverðugri. Ber vitnum saman um að ákærði hafi verið mjög ölvaður og samræmist það niðurstöðum alkahól­rannsóknar.

            Ákærði viðurkenndi umferðaróhappið hjá lögreglu og vefengdi ekki lýsingu vitnisins S á því þótt hann myndi það illa þá. Enginn uppdráttur var gerður af vettvangi og er ýmislegt óljóst um áreksturinn en ljóst þykir að ákærði hafi ekið óvarlega.

            Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið, og sérstaklega vættis S og óstöðugs framburðar ákærða, P og B, þykir ekki varhugavert að telja sannað að ákærði hafi gerst sekur um ölvunarakstur í umrætt sinn og er brotið réttilega fært til refsiákvæða í ákæru.

           

Refsiákvörðun.

                Ákærði er fæddur 2. september 1963. Hann á að baki nokkuð langan sakarferil sem er nær samfelldur frá árinu 1980 til ársins 1991. Hlaut hann á því tímabili þrettán refsidóma og gekkst undir þrjár sáttir fyrir auðgunarbrot og umferðarlagabrot, meðal annars ölvunarakstur. Eftir þetta hlaut ákærði dóm á árinu 1991 fyrir umferðarlaga­brot. Þá gekkst hann undir sátt á árinu 1996 fyrir ölvunarakstur og á árinu 1998 fyrir umferðar­lagabrot. Síðast hlaut hann þriggja mánaða fangelsisdóm á árinu 1999 fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og ölvunarakstur. Þá var hann sviptur ökurétti í þrjú ár frá 23. ágúst 1999 talið. Ákærða var veitt reynslulausn í eitt ár á þrjátíu daga eftirstöðvum refsingarinnar í október 2000. Hefur hann staðist skil­yrði reynslulausnarinnar.

                Ákærði er nú sakfelldur fyrir ítrekaðan ölvunarakstur í tvö skipti. Er refsing hans hæfilega áveðin fangelsi í 45 daga. Þá er ákærði sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.

Ákærði skal greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Þrastar Þórssonar héraðsdómslögmanns, sem ákvarðast 80.000 krónur.

Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Sturlu Þórðarsyni fulltrúa lögreglu­stjórans í Reykjavík.

Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð

                Ákærði, Alexander Björn Gíslason, sæti fangelsi í 45 daga.

                Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.

                Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Þrastar Þórssonar héraðsdómslögmanns, 80.000 krónur.