Hæstiréttur íslands

Mál nr. 638/2011


Lykilorð

  • Eignarréttur


 

 

Fimmtudaginn 7. júní 2012.

Nr. 638/2011.

 

Ragnhildur Jóna Jónsdóttir

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

Aðalsteini Eiríkssyni

Jóni Eiríkssyni

Hildi Eiríksdóttur

Ágústu Eiríksdóttur

Jónínu Eiríksdóttur

Magnúsi Eiríkssyni

Guðmundi Eiríkssyni

Ásmundi Eiríkssyni

Aldísi Eiríksdóttur

Ingveldi Eiríksdóttur

Sigríði Pétursdóttur

Jóni Ágústi Péturssyni

Ólafi Péturssyni

Kristínu Pétursdóttur

Steinunni Jónsdóttur

Ágústu Oddsdóttur

Ólöfu Oddsdóttur

Valborgu Oddsdóttur

Ólafi Oddssyni

Lilju Oddsdóttur

(Kristján Þorbergsson hrl.)

Andrési Frey Gíslasyni

Ágústu Gísladóttur

Gísla Erni Gíslasyni

Lilju Sigurðardóttur

Halldóri Gíslasyni

Jóni Gíslasyni

Guðmundi Gíslasyni

Hirti Gíslasyni og

Sigríði Kristínu Gísladóttur

(Magnús Björn Brynjólfsson hrl.)

 

Eignaréttur.

Mál var höfðað til viðurkenningar á eignarrétti barna og annarra lögerfingja J og Á að jörðinni M en J hafði verið þinglýstur eigandi hennar. Eftir lát J hafði Á afsalað fóstursyni þeirra hjóna, S, jörðinni M. Var S skráður eigandi að helmingi hennar í þinglýsingabókum. Í héraðsdómi var talið að Á hefði ekki verið til þess bær að ráðstafa jörðinni til S þar sem skiptum var þá ekki lokið á búi hennar og J og hún hafði ekki leyfi til setu í óskiptu búi. Þá var talið að S hefði með áritun á yfirlýsingu erfingja J og Á verið fullkunnugt um hver eignarréttarleg staða jarðarinnar M yrði við lok skipta á búi þeirra. Kröfu R um frávísun málsins frá héraðsdómi á þeim grundvelli að það ætti að reka eftir reglum þinglýsingalaga eða lögum um skipti á dánarbúum o.fl. var hafnað í Hæstarétti. Í málinu væri deilt um eignarheimild að jörð milli nafngreindra aðila og bæri af þeim sökum að leysa úr því eftir reglum um almenna meðferð einkamála. Var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um viðurkenningu á eignarrétti nafngreindra lögerfingja J og Á að 80% af jörðinni M í nánar tilgreindum hlutföllum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómason og Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. desember 2011 og krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi. Til vara krefst áfrýjandi sýknu af kröfu stefndu. Að því frágengnu krefst hún þess að stefndu eigi jörðina Garður-Minni í Ísafjarðarbæ, fasteignanúmer 140971, aðeins að hluta. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu Aðalsteinn Eiríksson, Jón Eiríksson, Hildur Eiríksdóttir, Ágústa Eiríksdóttir, Jónína Eiríksdóttir, Magnús Eiríksson, Guðmundur Eiríksson, Ásmundur Eiríksson, Aldís Eiríksdóttir, Ingveldur Eiríksdóttir, Sigríður Pétursdóttir, Jón Ágúst Pétursson, Ólafur Pétursson, Kristín Pétursdóttir, Steinunn Jónsdóttir, Ágústa Oddsdóttir, Ólöf Oddsdóttir, Valborg Oddsdóttir, Ólafur Oddsson og Lilja Oddsdóttir krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndu Andrés Freyr Gíslason, Ágústa Gísladóttir, Gísli Örn Gíslason, Lilja Sigurðardóttir, Halldór Gíslason, Jón Gíslason, Guðmundur Gíslason, Hjörtur Gíslason og Sigríður Kristín Gísladóttir hafa ekki uppi kröfur í málinu.

Áfrýjandi fékk leyfi til setu í óskiptu búi eftir maka sinn, Skúla Sigurðsson, 24. júní 2009. Með vísan til II. kafla erfðalaga nr. 8/1962 er fyrirsvar dánarbús í höndum þess sem situr í óskiptu búi. Samkvæmt því á áfrýjandi ein aðild að máli þessu sóknar megin fyrir Hæstarétti.

Málinu var upphaflega skotið til Hæstaréttar 14. janúar 2011. Með dómi Hæstaréttar 3. nóvember 2011 í máli nr. 33/2011 var því vísað frá réttinum þar sem stefndu var ekki öllum gefinn kostur á að svara til sakar hér fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hefur áfrýjandi bætt úr þeim annmarka með áfrýjunarstefnu í máli þessu.

Til stuðnings kröfu um frávísun málsins frá héraðsdómi hefur áfrýjandi meðal annars vísað til þess að það eigi að reka eftir reglum þinglýsingalaga nr. 39/1978 eða lögum nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Málið var höfðað til viðurkenningar á eignarrétti barna og annarra lögerfingja Jóns Guðmundar Ólafssonar og Ágústu Guðmundsdóttur að jörðinni Garður-Minni á hendur áfrýjanda „persónulega og fyrir hönd dánarbús Skúla Sigurðssonar“, en Skúli var  skráður eigandi að helmingi jarðarinnar samkvæmt þinglýsingabókum. Í málinu er deilt um eignarheimild að jörðinni milli nafngreindra aðila og ber af þeim sökum að leysa úr því eftir reglum um almenna meðferð einkamála.

Steinunn Jónsdóttir fékk leyfi til setu í óskiptu búi eftir maka sinn, Guðmund Jónsson, 29. ágúst 1984. Samkvæmt framansögðu var hún bær til þess að eiga aðild að málinu fyrir hönd dánarbús hans. Þá var engin þörf á að stefna Jóni Skúlasyni í málinu, svo sem áfrýjandi heldur fram. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna úrskurðar héraðsdóms 21. apríl 2010 verður staðfest sú niðurstaða að hafna kröfu hennar um frávísun málsins frá héraðsdómi.

Frá því að hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp hefur skiptum lokið á dánarbúum Kristínar Jónsdóttur og Jónínu Jónsdóttur og hafa börn þeirra tekið við aðild að málinu. Þá hefur Elín Jónsdóttir fallið frá og börn hennar tekið við aðild að málinu í hennar stað.

Eins og áður greinir hafa stefndu Andrés Freyr Gíslason, Ágústa Gísladóttir, Gísli Örn Gíslason, Lilja Sigurðardóttir, Halldór Gíslason, Jón Gíslason, Guðmundur Gíslason, Hjörtur Gíslason og Sigríður Kristín Gísladóttir lýst því yfir að þau hafi ekki uppi neinar kröfur á hendur áfrýjanda í málinu. Samkvæmt því verður ekki skorið úr eignarrétti að þeim hluta af jörðinni Garður-Minni sem þau gerðu tilkall til í héraðsstefnu. Það stendur því hins vegar ekki í vegi að dæmt verði um eignarrétt að jörðinni að öðru leyti.

Að öllu þessu gættu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaða hans staðfest eins og nánar greinir í dómsorði.

 Samkvæmt 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 verður áfrýjandi dæmd til að greiða þeim stefndu, sem tekið hafa til varna fyrir Hæstarétti, málskostnað hér fyrir dómi svo sem í dómsorði segir. 

Dómsorð:

Viðurkenndur er eignarréttur stefndu Aðalsteins Eiríkssonar, Jóns Eiríkssonar, Hildar Eiríksdóttur, Ágústu Eiríksdóttur, Jónínu Eiríksdóttur, Magnúsar Eiríkssonar, Guðmundar Eiríkssonar, Ásmundar Eiríkssonar, Aldísar Eiríksdóttur, Ingveldar Eiríksdóttur, Sigríðar Pétursdóttur, Jóns Ágústs Péturssonar, Ólafs Péturssonar, Kristínar Pétursdóttur, Steinunnar Jónsdóttur, Ágústu Oddsdóttur, Ólafar Oddsdóttur, Valborgar Oddsdóttur, Ólafs Oddssonar og Lilju Oddsdóttur að 80% jarðarinnar Garður-Minni í Ísafjarðarbæ, fasteignanúmer 140971, í eftirgreindum hlutföllum: Aðalsteinn Eiríksson 2%, Jón Eiríksson 2%, Hildur Eiríksdóttir 2%, Ágústa Eiríksdóttir 2%, Jónína Eiríksdóttir 2%, Magnús Eiríksson 2%, Guðmundur Eiríksson 2%, Ásmundur Eiríksson 2%, Aldís Eiríksdóttir 2%, Ingveldur Eiríksdóttir 2%, Sigríður Pétursdóttir 5%, Jón Ágúst Pétursson 5%, Ólafur Pétursson 5%, Kristín Pétursdóttir 5%, Steinunn Jónsdóttir 20%, Ágústa Oddsdóttir 4%, Ólöf Oddsdóttir 4%, Valborg Oddsdóttir 4%, Ólafur Oddsson 4% og Lilja Oddsdóttir 4%.

Áfrýjandi, Ragnhildur Jóna Jónsdóttir, greiði ofangreindum stefndu alls 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 15. október 2010.

Stefnendur eru dánarbú Kristínar Jónsdóttur, kt. 051017-3239, dánarbú Jónínu Jónsdóttur, kt. 110620-4629, Steinunn Jónsdóttir, Grundarstíg 8, Flateyri, Elín Jónsdóttir, Fellsmúla 8, Reykjavík, Andrés Freyr Gíslason, Kópavogsbraut 87, Kópavogi, Ágústa Gísladóttir, Geitlandi 2, Reykjavík, Gísli Örn Gíslason, Hálsi 2, Mosfellsbæ, Lilja Sigurðardóttir, Eyrarholti 2, Hafnarfirði, Halldór Gíslason, Uppsölum, Egilsstöðum, Jón Gíslason, Baulubrekku, Mosfellsbæ, Guðmundur Gíslason, Sléttuvegi 7, Reykjavík, Hjörtur Gíslason, Danmörku, og Sigríður Kristín Gísladóttir, Brekkuflöt 6, Akranesi.

Stefndu eru Ragnhildur Jóna Jónsdóttir, Gemlufalli í Dýrafirði, Ísafjarðarbæ, persónulega og fyrir hönd dánarbús Skúla Sigurðssonar, kt. 080932-3169.

Kröfur stefnenda í málinu eru að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur stefnenda að jörðinni Garði Minni (Minni-Garður) í Ísafjarðarbæ, fasteignanúmer 140971, í eftirfarandi sameignarhlutföllum: Dánarbú Kristínar Jónsdóttur 20%, dánarbú Jónínu Jónsdóttur 20%, Steinunn Jónsdóttir 20%, Elín Jónsdóttir 20%, Andrés Freyr Gíslason 2,2222%, Ágústa Gísladóttir 2,2222%, Gísli Örn Gíslason 2,2222%, Lilja Sigurðardóttir 2,2222%, Halldór Gíslason 2,2222%, Jón Gíslason 2,2222%, Guðmundur Gíslason 2,2222%, Hjörtur Gíslason 2,2222% og Sigríður Kristín Gísladóttir 2,2222%. Þá krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefndu að skaðlausu.

Kröfur stefndu eru „... að synjað verði fyrir viðurkenningu á að stefnendur eigi jörðina Garð Minni (Minni-Garð) í Ísafjarðarbæ, fastanr. 140971.“ Þá krefjast stefndu málskostnaðar.

I.

Jörðinni Minni-Garði (Garði Minni) í Dýrafirði var afsalað til Jóns Ólafssonar 12. janúar 1917. Fjórum árum síðar fluttist Jón ásamt eiginkonu sinni, Ágústu Guðmundsdóttur, að Gemlufalli í sömu sveit. Minni-Garður var áfram í eigu Jóns eftir að hjónin fluttust að Gemlufalli og nytjaður þaðan.

Jón Ólafsson andaðist 26. febrúar 1963. Ágústa Guðmundsdóttir lést tíu árum síðar. Fóstursonur þeirra hjóna, Skúli Sigurðsson, tók við búi eftir Jón og hélt ásamt eiginkonu sinni, stefndu Ragnhildi Jónu, heimili með Ágústu þar til hún lést hinn 20. mars 1973.

Hinn 3. október 1970 rituðu Ágústa Guðmundsdóttir og Skúli Sigurðsson undir svohljóðandi skjal, sem þinglýst var 20. júní 1989 (þinglýsingarnúmer 547/1989):

Ég undirrituð, Ágústa Guðmundsdóttir Gemlufalli Vestur-Ísafjarðarsýslu, ekkja Jóns Ólafssonar fyrrum bónda á Gemlufalli, afsala hér með fóstursyni mínum Skúla Sigurðssyni, bónda á Gemlufalli, eignarhluti mína í landi og húsum á jörðunum Gemlufalli og Minna-Garði Vestur-Ísafjarðarsýslu.

Eignir þessar afhendast í núverandi ástandi, sem viðtakandi þekkir.

Segi ég Skúla Sigurðsson hér með réttan eiganda að framangreindum eignum, frá deginum í dag að telja.

 

Í desember 1990 rituðu lögerfingjar Ágústu Guðmundsdóttur og Jóns Ólafssonar undir svohljóðandi yfirlýsingu:

Við undirritaðar, erfingjar hjónanna Ágústu Guðmundsdóttur f. 3. ágúst 1890 og Jóns Guðmundar Ólafssonar f. 29. mars 1891, búenda á Gemlufalli, Mýrahreppi í Dýrafirði, gefum hér með eftirfarandi þrjár yfirlýsingar og staðfestum þær í einu lagi með undirskrif okkar:

Í fyrsta lagi:  Við gefum Skúla Sigurðssyni, til heimilis að Gemlufalli, Mýrahreppi, Dýrafirði, okkar eignarhluta í jörðinni Gemlufall.

Í öðru lagi:  Við staðfestum að aðrar eignir Jóns og Ágústu í búinu á Gemlufalli en þær sem um getur í fyrstu yfirlýsingunni, eignir, sem hingað til hafa verið í höndum Skúla Sigurðssonar, Gemlufalli, Mýrahreppi, Dýrafirði, skulu teljast sem arfur til hans eftir þau Jón og Ágústu.

Í þriðja lagi:  Við gefum Skúla Sigurðssyni á Gemlufalli lífstíðar rétt til að nýta slægjur af því ræktaða landi, sem nú er til staðar á eignarjörð Jóns og Ágústu, Minna-Garði í Mýrahreppi, Dýrafirði, og skal afgjald vera það eitt að greiða opinber gjöld af jörðinni eins og hún er í dag.

 

Yfirlýsingu þessa ritaði Skúli Sigurðsson undir sem „samþykkur ofangreindu“ á Ísafirði 22. janúar 1993. Er undirskrift Skúla staðfest af Ástu Valdimarsdóttur, þáverandi fulltrúa sýslumannsins á Ísafirði.

Samkvæmt bréfi sýslumannsins á Ísafirði 15. september 2010 verður ekki séð „... að embættið hafi með formlegum hætti gefið út leyfi til einkaskipta eða að Ágústa hafi á sínum tíma fengið leyfi til að sitja í óskiptu búi, en skiptum dánarbúsins lauk með áritun sýslumanns á erfðafjárskýrslu ...“ Upplýst er með bréfi þessu og framlagðri skiptayfirlýsingu, sem staðfest er af fyrrnefndri Ástu Valdimars­dóttur fulltrúa, og undirrituð af neðangreindum fimm konum, að einkaskiptum á dánarbúi Ágústu Guðmundsdóttur og Jóns Ólafssonar lauk 2. apríl 1993. Í skiptayfirlýsingunni segir svo:

Við skiptin komu jarðirnar Minni Garður og Gemlufall í hlut eftirfarandi erfingja í jöfnum hlutföllum:

Sigríður Kristín Jónsdóttir

Ingibjörg Jónsdóttir

Elín Jónsdóttir

Jónína Jónsdóttir

F.h. dánarbús Guðmundar Jónssonar, Steinunn Jónsdóttir

Með yfirlýsingu er gerð var í desember 1990 gáfu erfingjarnir Skúla Sigurðssyni jörðina Gemlufall í Dýrafirði.

Skúli Sigurðsson andaðist 18. febrúar 2009. Hinn 24. júní sama ár veitti sýslumaðurinn á Ísafirði stefndu Ragnhildi leyfi til setu í óskiptu búi eftir hann. Fimm dögum síðar var búsetuleyfinu þinglýst á Minni-Garð.

Með bréfi til sýslumannsins á Ísafirði 2. júní 2009 var þess krafist af hálfu stefndu að leiðrétt yrðu þau meintu þinglýsingarmistök að afmá eignarheimild Skúla Sigurðssonar af jörðinni Minni-Garði við þinglýsingu skiptayfirlýsingarinnar frá 1993. Í tilefni af þessu erindi ákvað sýslumaður, sbr. bréf hans 11. júní 2009, að „... leiðrétta þá óútskýrðu útstrikun afsals sem útgefið var þann 3. október 1970 að Gemlufalli, þinglýst þann 19. júní 1989, merkt, litra 418-F-000547/1989, útgefandi Ágústa Guðmundsdóttir en viðtakandi Skúli Sigurðsson.“ Í bréfi sýslumanns færir hann fram eftirfarandi rök fyrir þeirri gjörð sinni: „Ekki verður séð að heimild hafi verið til þessa, fyrrgreind einkaskiptayfirlýsing dags. 2. apríl 1993 veitir ekki þessa heimild og undirrituð hefur ekki fundið nein þinglýst skjöl, hvorki á jörðinni Gemlufalli né Minni-Garði sem staðfesta það að Skúli Sigurðsson hafi afsalað sér eignarrétti á eignarhluta hans í Minni-Garði, skv. fyrrgreindu afsali dags. 3. október 1970.“

Stefnendur óskuðu eftir því bréflega við stefndu Ragnhildi Jónu 16. september 2009 að hún léði atbeina sinn að því „... að skráning eignarheimilda erfingjanna að Litla Garði (Minni-Garði) verði færð til þess horfs sem hún var í fyrir greinda breytingu.“ Er hér vísað til þeirrar leiðréttingar sýslumanns sem hann framkvæmdi 11. júní 2009. Þessari beiðni stefnenda hafnaði stefnda Ragnhildur Jóna með bréfi 19. nóvember 2009. Í bréfinu kom einnig fram sú skoðun stefndu að leiðrétting sýslumanns næði of skammt og að það bæri „... að innfæra fyrri eignarheimild að nýju.“

Að lokum skal þess getið, til skýringar á aðild málsins, að Ingibjörg Jónsdóttir, dóttir Jóns Ólafssonar og Ágústu Guðmundsdóttur, lést 18. nóvember 2006. Í skiptayfirlýsingu frá 5. mars 2008 segir að við skipti á dánarbúi hennar hafi „... eign búsins 212-5899 Minni-Garður jörð, ræktað land ...“ komið í hlut erfingja hennar þannig að Lilja Sigurðardóttir og Guðmundur, Jón, Halldór, Ágústa, Sigríður Kristín, Gísli Örn, Andrés Freyr og Hjörtur Gíslabörn hafi hvert um sig fengið 11,11% eignarhlut í jörðinni.

II.

Stefnendur byggja kröfur sínar í fyrsta lagi á því að þeir séu réttir og lögmætir eigendur hinna umkröfðu eignarréttinda fyrir erfð og lögmætar skiptaráðstafanir. Halda stefnendur því fram að ráðstöfun Ágústu Guðmundsdóttur með gjafaafsalinu 3. október 1970 hafi verið henni óheimil þar sem hana hafi brostið ráðstöfunarhæfi yfir eignum dánarbús Jóns Ólafssonar. Athugasemd á þinglýsingarvottorðum fyrir Minni-Garð þess efnis að Ágústa sitji í óskiptu búi eftir Jón eigi sér enga stoð, en leyfi til slíkrar búsetu hafi aldrei verið gefið út af þar til bæru yfirvaldi. Enn fremur hefði þinglýsing gjafaafsalsins með réttu aldrei átt að eiga sér stað þar sem þinglýstri ráðstöfunarbærni Ágústu til handa hefði aldrei verið til að dreifa. Þannig hafi skort skilyrði bæði hvað varðaði form og efni og innfærsla athugasemdarinnar verið tilhæfulaus og löglaus, samhliða því sem ólögleg þinglýsing hafi verið færð í þinglýsingabók 20. júní 1989.

Í öðru lagi vísa stefnendur til þess að gjafþeginn Skúli Sigurðsson hafi með áritun sinni á yfirlýsingu erfingja Jóns Ólafssonar og Ágústu Guðmundsdóttur, dagsetta í desember 1990, fallist á að gjafagerningurinn frá 1970 gengi til baka hvað Minni-Garð varðaði. Sú áritun Skúla sé dagsett 27. (sic) janúar 1993 og vottuð af Ástu Valdimarsdóttur, starfsmanni sýslumanns­embættisins á Ísafirði, sem farið hafi með skiptin á búum Jóns og Ágústu. Sami starfsmaður hafi annast þinglýsingar og í samræmi við efni skiptanna hafi hann afmáð eignarhald Skúla og Jóns af titilblaði Minni-Garðs í þinglýsingabókinni með yfirstrikun þegar niðurstöðu skiptanna var þinglýst, en nokkru áður hefði fyrrnefndu yfirlýsingunni verið þinglýst.

Samkvæmt framansögðu segja stefnendur engin efni hafa verið til þess að sýslumaður gerði þær breytingar á þinglýsingu á eignarhaldi á Minni-Garði sem hann hafi tilkynnt með bréfi 11. júní 2009. Aldrei hafi verið efni til að þinglýsa eignarhaldi Skúla Sigurðssonar á Minni-Garði 20. júní 1989, og þar hafi formskilyrði einnig brostið. Þetta hafi verið leiðrétt með þinglýsingu 5. apríl 1993 og staðið rétt í þinglýsingabókinni fram að áðurnefndri breytingu sýslumanns 11. júní 2009. Þá hafi sá ljóður verið á framgöngu sýslumanns í málinu á árinu 2009 að hann hafi hvorki gefið stefnendum kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en hann gerði breytinguna, né heldur hafi hann, í bréfi sem hann ritaði þeim að breytingunni gerðri, vakið athygli þeirra á þeim skamma málskotsfresti sem þinglýsingalög greini.

Þá mótmæla stefnendur því alfarið að stefndu geti nokkurn rétt byggt í málinu á réttarreglum um hefð. Til þess bresti öll skilyrði. Benda stefnendur á að aðkoma Skúla Sigurðssonar að jörðinni hafi verið í skjóli Jóns Ólafssonar. Enn fremur benda þeir á að samningsbundin afnot geti aldrei orðið grundvöllur eignarréttar fyrir hefð.

III.

Stefndu benda á að hvorki sýslumaður né erfingjar Jóns Skúlasonar hafi hlutast til um skipti á búi hans að honum látnum. Þá séu engin gögn fyrirliggjandi um að Ágústa Guðmundsdóttir hafi fengið útgefið formlegt búsetuleyfi. Þannig hafi Ágústa, sem eftirlifandi maki, setið með óformbundnu leyfi í óskiptu búi ásamt börnum þeirra Jóns. Sú skipan hafi verið með fullri vitund og vilja erfingja og hafi Ágústa farið með óskoruð umráð allra eigna búsins.

Hinn 3. október 1970 hafi Ágústa Guðmundsdóttir afsalað til Skúla Sigurðssonar eignarhluta í landi og húsum á jörðinni Gemlufalli og Minni-Garði. Afsal þetta hafi ekki verið gjafagerningur. Stefndu ætli að Ágústa hafi haft óskoraða heimild til að afsala eignum þessum. Skjalið sé því fullgild eignarheimild. Stefnendum hafi verið þetta ljóst, eða í það minnsta átt að vera þetta ljóst. Fyrir hafi Skúli átt hlut í jörðunum, svo sem veðbókargögn beri með sér. Afsal þetta, sem ekki hafi verið hnekkt, hafi verið lagt fram á manntalsþingi Mýrahrepps 1973/1974, en fyrst verið fært í veðmálaskrá í júní 1989 að því er séð verði. Þessi síðbúna skráning hafi ekki valdið tjóni og sé afsakanleg. Kveða stefndu því ranglega haldið fram í stefnu að Jón Ólafsson hafi verið þinglýstur eigandi að Minni-Garði eftir 1989.

Stefndu segja svo virðast sem börn Jóns Ólafssonar og Ágústu Guðmundsdóttur hafi skipt búi eftir þau árið 1993. Ekki sé staðfest með skattframtölum eða öðrum gögnum að í búi þeirra hafi verið eignir. Stefnendur hafi hins vegar lagt fram skiptayfirlýsingu frá 1993 þar sem þau tilgreini sem eign arfláta jarðirnar Gemlufall og Minni-Garð. Skjalið geymi yfirlýsingu þar sem erfingjar afsali Gemlufalli til Skúla Sigurðssonar. Áritun Skúla á skjal þetta geymir að sögn stefndu ekki ráðstöfun á sakarefni. Fyrir mistök hafi sýslumaður tekið við skiptayfirlýsingunni og þinglýst Minni-Garði sem eign barna Jóns og Ágústu. Með þeim hætti hafi eignarheimild Skúla verið afmáð. Að beiðni lögmanns stefndu hafi sýslumaður leiðrétt þessi mistök að nokkru leyti og áskilji stefndu sér rétt til þess síðar að fá „eignarheimild“ stefnenda afmáða.

Til stuðnings kröfum sínum vísa stefndu einnig til þess að stefndu hafi fyrir hefð unnið eignarhald á Minni-Garði. Stefnda Ragnhildur Jóna, sem gifst hafi Skúla Sigurðssyni 1957, og fjölskylda hennar hafi haft óskoruð umráð jarðarinnar í ríflega 50 ár og ekkert hafi fellt niður hefðartíma. Þau séu ráðvendilega að umráðum jarðarinnar komin og hafi farið með hana sem sína eign, nytjað hana og greitt af henni skatta og skyldur. Skúli hafi haft á hendi allan búrekstur frá 1960 og hann borið óskiptan kostnað, greitt opinber gjöld, auk þess að eiga húsakost, bústofn og ræktun. Fjölskyldan hafi í alla staði komið fram sem ábyrgir eigendur, án allra athugasemda stefnenda, sem sýnt hafi af sér þesslegt tómlæti að allur réttur þeirra sé niður fallinn. Jörðin hafi samkvæmt matsvottorðum Fasteignaskrár Íslands verið skráð 100% eign Skúla Sigurðssonar. Þá njóti stefndu þinglýstrar eignarheimildar að hluta. Samkvæmt framansögðu sé öllum skilyrðum hefðarlaga nr. 46/1905 svarað.

IV.

Jörðinni Minni-Garði (Garði Minni) var afsalað til Jóns Ólafssonar 12. janúar 1917. Jón lést 26. febrúar 1963. Eiginkona hans, Ágústa Guðmundsdóttir, lést 20. mars 1973. Rúmum tveimur árum áður, eða hinn 3. október 1970, hafði Ágústa ritað undir skjal þar sem hún afsalaði fóstursyni sínum, Skúla Sigurðssyni „... eignarhluti mína í landi og húsum á jörðunum Gemlufalli og Minna-Garði Vestur-Ísafjarðarsýslu.“ Var afsalinu þinglýst á Minni-Garð 20. júní 1989.

Samkvæmt bréfi sýslumannsins á Ísafirði 15. september 2010 verður ekki séð „... að embættið hafi með formlegum hætti gefið út leyfi til einkaskipta eða að Ágústa hafi á sínum tíma fengið leyfi til að sitja í óskiptu búi, en skiptum dánarbúsins lauk með áritun sýslumanns á erfðafjárskýrslu ...“ Þá er upplýst með bréfi þessu og framlagðri skiptayfirlýsingu að einkaskiptum á dánar- og félagsbúi Ágústu Guðmunds­dóttur og Jóns Ólafssonar lauk 2. apríl 1993.

Af þinglýsingabók sýslumannsins á Ísafirði og afsalsbréfinu frá 12. janúar 1917  er ljóst að öll jörðin Minni-Garður var eign Jóns Ólafssonar við andlát hans. Ágústa Guðmundsdóttir var því ekki til þess bær, sbr. það sem upplýst er í bréfi sýslumannsins á Ísafirði frá 15. september sl., að ráðstafa jörðinni eftir andlát hans, svo sem hún freistaði að gera með áðurnefndu afsali sínu til Skúla Sigurðssonar 3. október 1970. Sú málsástæða stefndu að Ágústa hafi setið með óformbundnu leyfi í óskiptu búi ásamt börnum þeirra Jóns hefur hvorki verið studd efnislegum rökum né vísun til réttarheimilda. Er hún því haldlaus með öllu.

Svo sem áður var rakið lauk einkaskiptum á dánar- og félagsbúi Ágústu Guðmundsdóttur og Jóns Ólafssonar 2. apríl 1993. Við skiptin kom Minni-Garður í hlut erfingja hjónanna, þeirra Sigríðar Kristínar Jónsdóttur, Ingibjargar Jónsdóttur, Elínar Jónsdóttur, Jónínu Jónsdóttur og dánarbús Guðmundar Jónssonar, í jöfnum hlutföllum, sbr. framlagða skiptayfirlýsingu, staðfesta af Ástu Valdimars­dóttur, fulltrúa sýslumannsins á Ísafirði.

Í skiptayfirlýsingunni frá 1993, sem reifuð er í I. kafla dómsins, er meðal annars vísað til yfirlýsingar frá í desember 1990. Efni þeirrar yfirlýsingar er einnig reifað í tilvitnuðum kafla. Ber skjalið með sér að Skúli Sigurðsson hafi 22. janúar 1993 áritað það um samþykki sitt. Er undirskrift Skúla staðfest af fyrrnefndum fulltrúa sýslumanns. Í þriðja lið yfirlýsingarinnar gefa lögerfingjar Ágústu Guðmundsdóttur og Jóns Ólafssonar „... Skúla Sigurðssyni á Gemlufalli lífstíðar rétt til að nýta slægjur af því ræktaða landi, sem nú er til staðar á eignarjörð Jóns og Ágústu, Minna-Garði í Mýrahreppi, Dýrafirði, og skal afgjald vera það eitt að greiða opinber gjöld af jörðinni eins og hún er í dag.“ Samkvæmt þessu verður að telja ljóst að Skúla hafi í upphafi árs 1993 verið fullkunnugt um hver eignarréttarleg staða Minni-Garðs yrði við lok skiptanna, svo sem henni er lýst hér að framan, og hann verið þeirri niðurstöðu samþykkur. Getur skráning jarðarinnar hjá Fasteignaskrá Íslands engu breitt um þessa niðurstöðu. Að þessum atriðum virtum þykja stefndu engan rétt geta byggt í málinu á réttarreglum um hefð.

Samkvæmt öllu framansögðu þykir stefnendum hafa tekist að færa sönnur á eignarrétt sinn að jörðinni Minni-Garði. Verður því fallist á viðurkenningarkröfu þeirra í málinu.

Að ágreiningi málsaðila og atvikum öllum virtum, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Viðurkenndur er eignarréttur stefnenda, dánarbús Kristínar Jónsdóttur, dánarbús Jónínu Jónsdóttur, Steinunnar Jónsdóttur, Elínar Jónsdóttur, Andrésar Freys Gíslasonar, Ágústu Gísladóttur, Gísla Arnar Gíslasonar, Lilju Sigurðardóttur, Halldórs Gíslasonar, Jóns Gíslasonar, Guðmundar Gíslasonar, Hjartar Gíslasonar og Sigríðar Kristínar Gísladóttur, að jörðinni Garði Minni (Minni-Garði) í Ísafjarðarbæ, fasteignanúmer 140971, í eftirfarandi sameignarhlutföllum: Dánarbú Kristínar Jónsdóttur 20%, dánarbú Jónínu Jónsdóttur 20%, Steinunn Jónsdóttir 20%, Elín Jónsdóttir 20%, Andrés Freyr Gíslason 2,2222%, Ágústa Gísladóttir 2,2222%, Gísli Örn Gíslason 2,2222%, Lilja Sigurðardóttir 2,2222%, Halldór Gíslason 2,2222%, Jón Gíslason 2,2222%, Guðmundur Gíslason 2,2222%, Hjörtur Gíslason 2,2222% og Sigríður Kristín Gísladóttir 2,2222%.

Málskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 21. apríl 2010.

Mál þetta var höfðað 21. nóvember 2009 og tekið til úrskurðar 18. mars sl.

Stefnendur eru dánarbú Kristínar Jónsdóttur, kt. 051017-3239, Jónína Jónsdóttir, Hlíðarhúsum 7, Reykjavík, Steinunn Jónsdóttir, Grundarstíg 8, Flateyri, Elín Jónsdóttir, Fellsmúla 8, Reykjavík, Andrés Freyr Gíslason, Kópavogsbraut 87, Kópavogi, Ágústa Gísladóttir, Geitlandi 2, Reykjavík, Gísli Örn Gíslason, Hálsi 2, Mosfellsbæ, Lilja Sigurðardóttir, Eyrarholti 2, Hafnarfirði, Halldór Gíslason, Uppsölum, Egilsstöðum, Jón Gíslason, Baulubrekku, Mosfellsbæ, Guðmundur Gíslason, Sléttuvegi 7, Reykjavík, Hjörtur Gíslason, Danmörku, og Sigríður Kristín Gísladóttir, Brekkuflöt 6, Akranesi.

Stefndu eru Ragnhildur Jóna Jónsdóttir, Gemlufalli í Dýrafirði, Ísafjarðarbæ, persónulega og fyrir hönd dánarbús Skúla Sigurðssonar, kt. 080932-3169.

Kröfur stefnenda í málinu eru að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur stefnenda að jörðinni Garður Minni í Ísafjarðarbæ, fasteignanúmer 140971, í   ákveðnum sameignarhlutföllum, sem tilgreind eru í stefnu. Þá krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefndu.

Kröfur stefndu eru aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi. Til vara krefjast stefndu „... að synjað verði fyrir viðurkenningu á að stefnendur eigi jörðina Garð-Minni í Ísafjarðarbæ, fastanr. 140971.“ Í báðum tilvikum krefjast stefndu málskostnaðar.

Að undangengnum munnlegum málflutningi 18. mars sl. var tekin til úrskurðar krafa stefndu um að máli þessu verði vísað frá dómi. Stefnendur gera þær kröfur í þessum þætti málsins að frávísunarkröfu stefndu verði hrundið og stefnendum úrskurðaður málskostnaður vegna kröfunnar.

I.

Frávísunarkrafa stefndu er í fyrsta lagi byggð á ákvæði 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Við „einkaskipti“ hafi legið fyrir að Ágústa Guðmundsdóttir hafði afsalað eignum búsins til fóstursonar og hafi þeirri eignarheimild verið þinglýst. Erfingjum hafi því undir skiptum verið nauðsynlegt að reka mál samkvæmt ákvæðum skiptalaga til að fá afsali rift eða það fellt úr gildi til þess að fá Garð Minni tekinn undir skipti. Búskiptum eftir Jón Ólafsson og Ágústu Guðmundsdóttur sé lokið og því nauðsynlegt að afla heimildar til endurupptöku.

Í öðru lagi reisa stefndu frávísunarkröfuna á því að rökbundna nauðsyn beri til samaðildar Jóns Skúlasonar að málinu. Jón sé eigandi allrar ræktunar á jörðinni, girðinga og jarðarbóta. Þar sem stefnendur hafi ekki stefnt Jóni í málinu ásamt stefndu beri skv. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að vísa því frá dómi.

Að lokum byggja stefndu á því að verulegir ágallar séu á málatilbúnaði stefnenda og málið vanreifað. Einkaskiptagögn liggi ekki frammi og engin grein gerð fyrir eignarhaldi Jóns Ólafssonar og Ágústu Guðmundsdóttur að Garði Minni. Af þeim sökum sé stefndu ókleift, eða í það minnsta illmögulegt, að hafa uppi varnir við hæfi. Málatilbúnaður stefnenda fari því í bága við ákvæði 80. gr. laga nr. 91/1991.

II.

Við munnlegan málflutning um frávísunarkröfu stefndu mótmæltu stefnendur kröfunni og öllum þeim röksemdum sem hún byggir á.

Stefnendur hafna því að 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eigi við í málinu. Benda stefndu á að í tengslum við skiptalok í dánarbúum Jóns Ólafssonar og Ágústu Guðmundsdóttur hafi verið gert samkomulag þess efnis að Skúli Sigurðsson skyldi einn verða eigandi jarðarinnar Gemlufalls og eiga slægjurétt til lífstíðar á Garði Minni, en að lögerfingjar Jóns og Ágústu ættu þá jörð. Skúli hafi áritað yfirlýsingu erfingjanna þessa efnis um samþykki 22. janúar 1993. Við skiptin hafi Garður Minni allur komið í hlut erfingja hjónanna, sbr. skiptayfirlýsingu þeirra frá árinu 1993.

Stefnendur vísa til þess að slægjuréttur Skúla Sigurðssonar hafi verið samningsbundin réttindi hans, sbr. yfirlýsingu frá því í desember 1990. Þau réttindi hafi ekki verið yfirfærð til Jóns Skúlasonar. Þá eigi Jón engin þau önnur þinglýstu réttindi sem geri aðild hans að málinu nauðsynlega. Stefnendur hafi því enga ástæðu haft til að stefna Jóni Skúlasyni til varnar í málinu.

Að lokum vísa stefnendur því alfarið á bug að verulegir ágallar séu á málatilbúnaði þeirra. Málatilbúnaður stefnenda sé þvert á móti skýr og málið nægjanlega reifað af þeirra hálfu.

III.

Samkvæmt framansögðu byggja stefnendur kröfur sínar í málinu á því að þau séu eigendur jarðarinnar Garðs Minni í Dýrafirði fyrir erfð og lögmætar skiptaráðstafanir, sbr. framlagða skiptayfirlýsingu frá árinu 1993. Kröfu sína um „... að synjað verði fyrir viðurkenningu á að stefnendur eigi jörðina Garð-Minni ...“ byggja stefndu aðallega á því að eiginmaður stefndu Ragnhildar Jónu hafi móttekið afsal fyrir jörðinni úr hendi Ágústu Guðmundsdóttur og að því afsali hafi ekki verið hnekkt. Er það því úrlausnarefni í málinu að kveða upp úr um gildi þessara tveggja eignarheimilda að Garði Minni.

Dómurinn fær ekki séð nauðsyn þess að reka mál um framangreindan ágreining samkvæmt ákvæðum laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., enda skiptum á dánarbúum Jóns Ólafssonar og Ágústu Guðmundsdóttur lokið, sbr. áðurnefnda skiptayfirlýsingu erfingjanna frá 1993 þar sem sérstaklega var tekið á því hvernig fara ætti með ætlaðan eignarrétt búanna að umræddri jörð. Verður því ekki fallist á frávísunarkröfu stefndu á grundvelli 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefndu hafa ekki sýnt fram á nein þau réttindi Jóns Skúlasonar sem gera nauðsynlega aðild hans að máli þessu, en dómur um hvernig eignarhaldi á jörðinni Garði Minni er háttað getur engin áhrif haft á þau ætluðu réttindi Jóns Skúlasonar sem stefndu hafa vísað til í málatilbúnaði sínum.

Samkvæmt ofansögðu og málsútlistun stefnenda í stefnu er grundvöllur málsóknar þeirra skýr. Úrlausn þess hvort stefnendum hafi nægjanlega tekist að færa sönnur fyrir eignarhaldi sínu á Garði Minni tilheyrir efnishlið málsins. Að þessum atriðum virtum verður ekki fallist á það með stefndu að málið sé vanreifað af hálfu stefnenda.

Samkvæmt framangreindu verður frávísunarkröfu stefndu hrundið. Rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar vegna frávísunarkröfunnar bíði efnisdóms í málinu.

Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppkvaðningu úrskurðarins var gætt 1. mgr. 115. gr., sbr. 2. mgr. 100. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu stefndu, Ragnhildar Jónu Jónsdóttur og dánarbús Skúla Sigurðssonar, um að máli þessu verði vísað frá dómi, er hrundið.

Málskostnaður úrskurðast ekki.