Hæstiréttur íslands

Mál nr. 254/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæra
  • Frávísun frá Hæstarétti


 

Fimmtudaginn 9. apríl 2015

Nr. 254/2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Jón Bjarni Kristjánsson hdl.)

 

Kærumál. Kæra. Frávísun frá Hæstarétti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta afplánun á 220 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar, sem honum hafði verið veitt reynslulausn á. Málinu var vísað frá Hæstarétti þar sem kæran uppfyllti ekki áskilnað 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. apríl 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. apríl 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta afplánun á 220 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar samkvæmt dómum Héraðsdóms Reykjavíkur [...] 2014, [...] 2012 og [...] 2011, sem honum var veitt reynslulausn á til tveggja ára frá 12. febrúar 2015. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal í skriflegri kæru til héraðsdómara greint frá því hvaða úrskurður sé kærður, kröfu um breytingu á honum og ástæður sem kæran er reist á. Í kæru varnaraðila var ekki gerð grein fyrir þeim ástæðum sem hún var reist á. Varð ekki bætt úr þeim ágalla með síðar tilkomnum tölvupóstum til héraðsdóms og Hæstaréttar. Kæran fullnægir því ekki skilyrðum fyrrgreinds lagaákvæðis og verður málinu samkvæmt því vísað frá Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 1. apríl 2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði   X, kt. [...], [...] verði á grundvelli 2. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsinga gert að sæta afplánun á 220 daga eftirstöðvar refsingar samkvæmt dómum  Héraðsdóms Reykjavíkur  frá [...] 2014, [...] 2012 og [...] 2011, sem honum var veitt með ákvörðun Fangelsismálastofnunnar um reynslulausn 12. febrúar 2015.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að kærða hafi verið veitt reynslulausn þann 12. feb. sl.  til 12. feb. 2017, en eftirstöðvar refsingar sé nú 220 dagar, sem hann eigi eftir óafplánað. Kærði sé nú undir sterkum grun um tvö þjófnaðarbrot auk umferðarlagabrota.

Mál lögreglu nr. 007-2015-[...]. Þjófnaður.   Kærði hafi verið handtekinn  í gær 31. mars grunaður um innbrot að [...] í Reykjavík, en tilkynnt hafi verið um innbrot að [...] þann 29. mars sl. þar sem  brotin hafi verið upp hurð og stolnir lyklar af tveimur bifreiðum, bensínkorti úr bifreiðinni [...], borvél og tveimur vínkössum. Bensínkortið var notað í gær og kvaðst aðili sem það notaði kortið hafa fengið það hjá kærða, X. Kærði hafi hinsvegar neitað sök við skýrslutöku.

Mál lögreglu nr. 007-2015-[...]. Þjófnaður að [...] í Reykjavík 27. mars en  þar hafi verið brotist inn í bílasöluna, þar sem gluggi hafi verið spenntur upp og lyklum stolið af fimm ökutækjum, en  tvær bifreiðar hafi verið teknar heimildarlaust, [...] og [...]. Meðkærði sem hafi verið á bifreiðinni [...] hafi verið stoppaður í gær, kvaðst hafa fengið bifreiðina hjá kærða X og kvað  hann kærða X hafa brotist inn og stolið bifreiðinni. Kærði hafi játað innbrotið og þjófnaðinn.

Kærði sé einnig undir sterkum grun um að fíkniefnaakstur og vopnalagabrot, sbr. mál lögreglu nr. 007-2015-[...], og [...].

Að mati lögreglu hafi kærði nú rofið gróflega almennt skilyrði reynslulausnar sinnar enda liggi fyrir sterkur grunur  um að kærði hafi gerst sekur um brot sem geti varðað  allt að 6 ára fangelsi, sbr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Kærða hafi verið veitt reynslulausn 12. febrúar sl. á  eftirstöðvum refsingar 220 dögum í tvö ár til 12. febrúar 2017. Kærði hafi nú afplánað helming af refsingunni  skv. dómum Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...] 2014, [...] 2012 og [...] 2011. Eftirstöðvar samanlagðar refsingar séu nú 220 dagar.

X sé undir sterkum grun um brot gegn 244. og 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til 2. mgr. 65. gr. um fullnustu refsingar, sé þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún sé sett fram.

Niðurstaða:

Kærði fékk með ákvörðun Fangelsismálastofnunar ríkisins 10. desember 2014 reynslulausn á 220 daga eftirstöðvum refsingar sem hann hafði hlotið með þremur refsidómum. Reynslulausnin var veitt frá 12. febrúar 2015 og var reynslutíminn tvö ár. Í ákvörðuninni eru tilgreind skilyrði reynslulausnarinnar, en þau voru að hann gerðist ekki sekur um nýtt brot á reynslutímanum. Þá kom þar einnig fram að hann væri „háður umsjón og eftirliti Fangelsismálastofnunar ríkisins“.

Kærði hefur játað innbrot í húsnæði bifreiðasölu að [...] í Reykjavík, að hafa tekið þaðan lykla af fimm ökutækjum og í félagi við annan mann tekið tvær bifreiðar heimildarlaust. Játning kærða samrýmist öðru því sem fram hefur komið við rannsókn málsins. Fallist er á að sterkur grunur leiki á því að hann hafi með þessu framið brot gegn 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað getur allt að sex ára fangelsi. Kærði er jafnframt grunaður um aðild að öðru þjófnaðarbroti, auk fíkniefnaaksturs og vopnalagabrots, eins og rakið er í greinargerð sóknaraðila.

Samkvæmt 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga getur dómstóll úrskurðað að maður, sem hlotið hefur reynslulausn, skuli afplána eftirstöðvar refsingar ef hann á reynslutíma rýfur gróflega almennt skilyrði reynslulausnar, enda liggi fyrir sterkur grunur um að hann hafi framið nýtt brot sem varðað getur sex ára fangelsi eða að brotið varði við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Á það verður að fallast að með framangreindu þjófnaðarbroti að [...], sem sterkur grunur leikur á að hann hafi framið, hafi kærði rofið gróflega bæði sérstakt skilyrði sem honum var sett með ákvörðun um reynslulausn og almenn skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005. Því eru skilyrði til að verða við kröfu sóknaraðila. Ekki eru skilyrði til að fallast á að kærði afpláni eftirstöðvarnar á viðeigandi sjúkrastofnun, sbr. 65. gr. almennra hegningarlaga. Verður krafa sóknaraðila því tekin til greina eins og í úrskurðarorði greinir.

Ásmundur Helgason, héraðsdómari kvað upp þennan dóm.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...], [...] skal afplána 220 daga eftirstöðvar refsingar samkvæmt dómum Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...] 2014, [...] 2012 og [...] 2011, sem honum var veitt með ákvörðun Fangelsismálastofnunnar um reynslulausn 12. febrúar 2015.