Hæstiréttur íslands

Mál nr. 190/2002


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Sjómaður
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002.

Nr. 190/2002.

Guðjón Guðmundsson

(Ástráður Haraldsson hrl.)

gegn

Loðnuvinnslunni hf.

(Hákon Árnason hrl.)

 

Vinnuslys. Sjómenn. Líkamstjón. Skaðabætur.

G varð fyrir slysi um borð í fiskiskipinu Hoffelli í janúar 1999 er skipið var statt undan Snæfellsnesi og áhöfnin vann að undirbúningi síldveiða með flotvörpu. G hafði ásamt fjórum öðrum skipverjum það verkefni að koma trollpokanum útbyrðis í skuti skipsins í því skyni að skola úr honum fiskúrgang. Gerðu þeir það með handafli og þurfti að koma pokanum yfir skutrennuhlið. Meðan á þessu stóð reið alda inn á þilfarið og þeyttist G við það á járnstiga og hlaut meiðsl af. G taldi L bera ábyrgð á tjóni sínu vegna vanbúnaðar, sem verið hafi á skipinu. Meðal annars hafi svokölluð pokabyssa ekki verið um borð til að koma trollpokanum útbyrðis og því hafi þurft að koma pokanum út með handafli sem stofni skipverjum í óþarfa hættu. Þegar slysið varð voru 5 til 6 vindstig af norðvestri og bar skipstjórinn á Hoffelli fyrir dómi að veður hafi ekki verið slæmt. Talið var að aðstæður hafi ekki verið þannig að varhugavert hafi verið með tilliti til veðurs að senda menn til starfa við skutrennuna. Var fallist á með L að slysið hafi orðið vegna öldu, sem kom G að óvörum, en yrði hvorki rakið til þess að óforsvaranleg vinnubrögð hafi verið viðhöfð eða að öryggisreglna hafi ekki verið gætt í umrætt sinn. Var L sýknaður af kröfum G.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. apríl 2002. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 10.617.318 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 12. janúar 1999 til 19. september 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Áfrýjandi hefur stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

I.

Áfrýjandi varð fyrir slysi um borð í fiskiskipinu Hoffelli SU 80 um klukkan 14.15 þann 12. janúar 1999. Var skipið þá statt undan Snæfellsnesi og vann áhöfnin að undirbúningi síldveiða með flotvörpu. Áfrýjandi hafði ásamt fjórum öðrum skipverjum það verkefni að koma trollpokanum útbyrðis í skuti skipsins í því skyni að skola úr honum fiskúrgang. Gerðu þeir það með handafli og þurfti að koma pokanum yfir skutrennuhlið, sem ráða má að hafi verið næstum jafn hátt og borðstokkurinn til hliðar við það. Meðan á þessu stóð reið alda inn á þilfarið þar sem mennirnir stóðu og kveðst áfrýjandi hafa gegnblotnað við það. Sneri hann frá til að komast í var, en augnabliki síðar skall önnur alda á baki hans. Þeyttist áfrýjandi við það á járnstiga og hneig síðan niður. Hlaut hann af þessu meiðsl, svo sem nánar er lýst í héraðsdómi.

Áfrýjandi telur stefnda bera ábyrgð á tjóni hans vegna vanbúnaðar, sem verið hafi á skipinu. Nefnir hann þar í fyrsta lagi að svokölluð pokabyssa hafi ekki verið um borð til að koma trollpokanum útbyrðis, en slíkt heyri til venjulegs og hefðbundins búnaðar á fiskiskipum. Ekki þurfi nema einn mann til að stjórna henni, en sú aðferð að láta marga menn koma pokanum út með handafli sé forneskjuleg og stofni þeim í óþarfa hættu þar eð þeir þurfi að standa við skutrennuna við þetta verk, sem sé varhugaverður staður vegna hættu af sjógangi. Í annan stað bendir áfrýjandi á að skutrennuhliðið hafi verið óhreyfanlegt, en það hafi haft í för með sér mun meiri fyrirhöfn við að koma trollpokanum út en á öðrum skipum, þar sem fella megi hliðið niður. Loks er á því byggt að búnaður og þá einkum flottrollstromla hafi þrengt að vinnusvæðinu þannig að flóttaleið hafi verið ógreiðfær ef menn hafi þurft að forða sér undan öldum, sem gátu skollið á þeim þarna.

Stefndi mótmælir því að slysið verði rakið til sakar hans eða starfsmanna hans eða saknæms vanbúnaðar skipsins. Verði ekki öðru um kennt en gáleysi áfrýjanda sjálfs eða að slysið hafi orðið fyrir óhapp, sem enginn beri ábyrgð á. Bendir hann á að hvorki hafi verið lögskylt að hafa pokabyssu til að koma veiðarfærum útbyrðis né gerðar athugasemdir af þessu tilefni við skoðun starfsmanna opinberra stofnana á skipinu. Séu heldur engar kröfur gerðar að þessu leyti í reglum nr. 414/1995 um vinnuöryggi á fiskiskipum 15 metrar og lengri. Hafi hvorki verið ólögmætt né saknæmt að hafa ekki slíkt tæki um borð og sú aðferð, sem viðhöfð var á skipinu, sé þekkt og viðurkennd til sjós. Telur hann áfrýjanda ekki hafa sýnt fram á venju í þessum efnum, sem leitt geti til þess að bótaábyrgð hafi stofnast á þeim grundvelli. Þá mótmælir stefndi að hann hafi viðurkennt bótaskyldu með því að koma pokabyssu fyrir í skipinu eftir slysið. Það hafi heldur ekki verið gert fyrr en allnokkru síðar þegar skipið var lengt og því gjörbreytt að öðru leyti. Breytingin hafi jafnframt leitt til þess að vinnusvæðið við skutrennuna rýmkaðist við það að tæki voru færð úr stað.

II.

Þegar slysið varð voru 5 til 6 vindstig af norðvestri. Í skýrslu sinni fyrir dómi taldi Helgi Kristinsson, skipstjóri á Hoffelli, að veður hafi ekki verið slæmt og áfrýjandi lýsti því svo að ekki hafi verið neitt aðgæsluveður. Taldi hann enga hættu hafa verið á ferðum og komu áðurnefndar öldur honum algerlega á óvart. Voru aðstæður samkvæmt því ekki þannig að varhugavert hafi verið með tilliti til veðurs að senda menn til starfa við skutrennuna.

Í framburði áfrýjanda og skipstjórans kom fram að svæðið við skutrennuna var notað til að vinna ýmis verk í tengslum við að koma veiðarfærum út og draga þau inn. Gat hinn síðarnefndi þess jafnframt að með því að nota pokabyssu hefði aðeins einn maður þurft að fara þangað þegar veiðarfærum var komið út, en við önnur verk hefði hún engu breytt og skipverjar þá átt erindi inn á þetta svæði. Aðspurður taldi skipstjórinn jafnframt að við venjulegar aðstæður væri umrætt vinnusvæði ekki talið vera sérstakt hættusvæði. Þá væri heldur ekki unnt með öryggisbúnaði að koma með öllu í veg fyrir að skipverjar yrðu fyrir öldum, sem gengju inn á þilfarið.

Áfrýjandi heldur fram að pokabyssa sé almennt notuð á skuttogurum og hefur sú staðhæfing fengið stuðning í framburði skipstjórans og Ingþórs Eide Guðjónssonar, sem var háseti á Hoffelli þegar áfrýjandi slasaðist. Stefndi heldur á hinn bóginn fram að sú aðferð, sem viðhöfð var, sé þekkt á ýmsum öðrum fiskiskipum, en um þetta nýtur ekki við frekari gagna í málinu. Telur stefndi jafnframt að umrætt tæki hafi fyrst og fremst verið ætlað til verksparnaðar, en þjóni ekki því hlutverki að vera öryggistæki til að koma í veg fyrir slys af þeim toga, sem hér um ræðir. Verður fallist á með stefnda að slysið hafi orðið vegna öldu, sem kom áfrýjanda að óvörum, en verði hvorki rakið til þess að óforsvaranleg vinnubrögð hafi verið viðhöfð eða að öryggisreglna hafi ekki verið gætt í umrætt sinn. Í framburði áfrýjanda fyrir dómi kom jafnframt skýrt fram að þrengslum á vinnusvæðinu varð ekki kennt um það að hann komst ekki í tæka tíð í var undan seinni öldunni eftir að sú fyrri lenti á honum. Samkvæmt öllu framanröktu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2001.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 15. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Guðjóni Guðmundssyni, kt. 110550-3089, Brekkuhvarfi 11, Kópavogi, með stefnu birtri 23. janúar 2001 á hendur Loðnuvinnslunni hf., kt. 610994-2109, Skólavegi 59, Fáskrúðsfirði, og Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, til réttargæzlu.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða stefnanda kr. 10.617.318, með vöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 frá 12. janúar 1999 til 19. september 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafizt, að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 19. september 2001. Loks er krafizt málskostnaðar að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda, Loðnuvinnslunnar hf., eru þær aðallega, að fyrirtækið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins, en til vara, að sök verði skipt í málinu, stefnukröfur lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.

Af hálfu réttargæslustefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., eru ekki gerðar sjálfstæðar dómkröfur, enda engar kröfur gerðar á hendur félaginu.

II.

Málavextir:

Þriðjudaginn 12. janúar 1999 varð stefnandi fyrir slysi við vinnu um borð í Hoffelli SU-80, sem stefndi gerir út. Skipið var að síldveiðum utan Ólafsvíkur. Vindátt var NV 5-6 vindstig. Við stjórn skipsins var Helgi Kristjánsson, skipstjóri. Er slysið varð, var verið að vinna að hreinsun á veiðitrolli skipsins. Þetta var gert með því að hífa trollið útbyrðis og ofan í sjó úr veiðarfærarennu skipsins. Trollið var hreinsað með því að lyfta trollpokanum með handafli upp yfir lunninguna, sem er í fullri hæð fyrir aftan rennuna. Fimm menn úr áhöfninni voru að vinna við að koma pokanum út og fóru afturá skipið í þeim tilgangi. Stefnandi stóð bakborðsmegin ásamt einum manni, en stjórnborðsmegin voru þrír skipverjar. Þegar þeir voru að bera sig að því að lyfta pokanum upp, kom sjór inn yfir skut skipsins. Stefnandi, sem stóð bakborðsmegin, fékk sjó inn á sig, en náði þó að standa fylluna af sér. Sneri hann sér svo við, gekk innar og var að jafna sig, þegar ný fylla gekk yfir. Við það kastaðist hann á járnstiga, sem liggur upp á efra dekkið. Fékk hann stigann á milli fótanna og skall svo niður á dekkið. Hann fékk þegar mikinn bakverk og doða sem leiddi niður í fætur. Bjuggu skipverjar um stefnanda, og var skipinu þegar siglt til Ólafsvíkur og honum komið með þyrluflugi á Sjúkrahús Reykjavíkur, þar sem gert var að sárum hans.

Við slysið hlaut stefnandi alvarlegan hryggáverka, sem leiddi til þess að gera þurfti staurliðsaðgerð (spengingu) á milli II., III. og IV. mjóhryggjarliða. Einnig hlaut hann tognun á hægri öxl og mar á ytri kynfærum. Varanlegar afleiðingar slyssins eru verkir og skert hreyfing í hrygg og óþægindi frá öxlinni. Hefur stefnanda verið ráðið frá því að reyna fyrir sér á sjó að nýju, og hefur hann starfað sem bílstjóri á sendibílastöð. Stefnandi hafði alls 4 sinnum áður meiðst í slysum á sjó, þar af tvisvar á baki og einu sinni á hægri öxl, en náð sér að fullu.

Þann 22. september 2000 voru stefnanda greiddar bætur vegna slyssins úr slysatryggingu sjómanna, alls kr. 1.124.589.

Af hálfu stefnanda var Halldór Baldursson bæklunarskurðlæknir fenginn til að meta heilsufarslegar afleiðingar slyssins fyrir stefnanda. Samkvæmt matsgerð læknisins, dags. 13. ágúst 2000, er stefnanda metinn 20% varanlegur miski, 25% varanleg örorka, þjáningatími með rúmlegu í 23 daga og þjáningatími án rúmlegu í 331 dag. Tímabundin örorka taldist vera 100% í 13 mánuði og 8 daga. Miðar stefnandi skaðabótakröfu sína við matsgerð Halldórs og meðaltekjur sínar á tveimur af síðustu þremur árum fyrir slysið. Byggir hann kröfur sínar á því, að saknæmur vanbúnaður skipsins hafi valdið slysinu. Beri stefndi því skaðabótaábyrgð á því samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar. Af hálfu stefnda er öllum kröfum og málsástæðum stefnanda mótmælt.

III.

Málsástæður stefnanda:

Stefnandi byggir á því, að stefndi beri ótvíræða bótaábyrgð á slysi stefnanda og grundvallist sú ábyrgð á reglum skaðabótaréttar um ábyrgð vinnuveitanda á vanbúnaði á vinnustað.

Hinn saknæmi vanbúnaður, sem um hafi verið að ræða, hafi beinlínis orðið til þess, að hættuástand skapaðist á vinnustaðnum, fyrst og fremst með því að nota ekki pokabyssu til að koma trollpokanum á haf út. Ljóst sé, að við notkun pokabyssu hefði verið um töluvert minni áhættu að ræða fyrir áhafnarmeðlimi, þar sem þeir hefðu í fyrsta lagi ekki þurft að vera á neðra dekki, þar sem sjógangur sé mun meiri og hættulegri en annars staðar um borð, og í öðru lagi hefðu þeir ekki þurft að lyfta trollpokanum með handafli og því ekki þurft að dvelja jafn lengi aftur í skut skipsins, þar sem aðstæður til þess að verjast öldugangi hafi verið afleitar. Niðurstaða rannsóknarnefndar sjóslysa staðfesti, að aðstaða stefnanda um borð í skipinu hafi verið afleit, sbr. dskj. nr. 20. Þá felist það sömuleiðis í niðurstöðu rannsóknarnefndar sjóslysa, að stefndi hefði auðveldlega getað komið í veg fyrir slysið með því að búa skipið hefðbundinni pokabyssu, sbr. dskj. nr. 6. Hafi vinnustaðurinn því verið vanbúinn að þessu leyti. Stefndi hafi nú í raun viðurkennt vanbúnað þennan með því að koma fyrir greindri pokabyssu, þannig að nú þurfi áhafnarmeðlimir ekki að leggja sig í þá hættu, sem leitt hafi til slyss stefnanda. Þar að auki verði að telja þrönga aðkomu að neðra dekki og erfiðar flóttaleiðir þaðan hafa aukið enn á hættu áhafnarmeðlima, sbr. dskj. nr. 15, eins og í raun sé staðfest í niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar. Þrátt fyrir þessa augljósu hættu hafi stefndi ekkert aðhafzt til þess að sporna gegn þessari áhættu, heldur þvert á móti hafi hann látið undir höfuð leggjast að búa skip sitt nauðsynlegum búnaði, sem þó hafi hvorki verið kostnaðarsamt né vandasamt að koma fyrir.

Stefnandi styður málssókn sína við reglur skaðabótaréttar um ábyrgð vinnuveitanda á vanbúnaði á vinnustað. Krafa um málskostnað er studd við 130. gr. l. nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er studd við l. nr. 50/1988, en stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur.

Við slysið kveðst stefnandi hafa hlotið rof í liðboga hryggjarliðs auk samfallsbrots milli tveggja hryggjarliða, sbr. dskj. nr. 11. Hann hafi verið meðhöndlaður með því, að skrúfur voru settar í tvo hryggjarliði, og liðbil voru tengd með staurlið. Hann hafi tekið meðferð vel og verið sendur heim þann 18. janúar 1999. Þann 28. janúar s.á. hafi hann verið lagður inn á ný vegna bráðasýkingar á aðgerðarsvæðinu. Í kjölfar slyssins hafi hann haft verki í hægri öxl og verið meðhöndlaður vegna þeirra, sem og bakáverkanna, hjá sjúkraþjálfara. Þrátt fyrir sjúkraþjálfun hafi hann mikla þreytuverki í mjóbakinu við minniháttar álag.

Í dag hafi stefnandi enga möguleika á að stunda fyrri atvinnu, enda beinlínis hættulegt fyrir hann að stunda hásetastörf, sbr. dskj. nr. 11. Ljóst sé, að geta stefnanda til að afla atvinnutekna í framtíðinni hafi skerzt verulega vegna slyssins. Byggir stefnandi á örorkumati Halldórs Baldurssonar læknis. Við útreikning á kröfu stefnanda í samræmi við niðurstöðu örorkumats sé tekið meðaltal af árstekjum stefnanda árin 1996 og 1997, kr. 3.524.536, sbr. dskj. nr. 17-18, en ekki sé tekið mið af árunum 1998 og 1999, þar sem þau teljist ekki raunhæf viðmið skv. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993, þar sem stefnandi hafi tekið sér launalaust leyfi við að byggja hús fyrir sig og fjölskyldu sína á þessum tíma. Þá séu árslaun stefnanda framreiknuð miðað við lánskjaravísitölu og 6% lífeyrissjóðsframlagi atvinnurekanda bætt við, sbr. 7. og 15. gr. laga nr. 50/1993. Stefnandi hafi verið 48 ára gamall, þegar slysið varð, þannig að lækkun vegna aldurs samkvæmt 9. gr. laga nr. 50/1993 sé 26%. Lánskjaravísitala á tjónsdegi hafi verið 3627 og 3990 stig í desember 2000, þegar krafan var reiknuð. Krafa stefnanda vegna tímabundinnar örorku miði við kr. 293.711 í laun á mánuði, en tímakaup kr. 1.694 (293711/173,33). Launagreiðslur á tímabilinu, samtals að fjárhæð kr. 1.101.540, dragist frá, sbr. dskj. nr. 24. Þá dragist einnig frá kröfu stefnanda greiðsla vega slysatryggingar sjómanna, að fjárhæð kr. 1.124.589, sbr. dskj. nr. 21. Krafa stefnanda sundurliðist með eftirfarandi hætti:

Varanlegur miski, 20% x 4.000.000 x 3990/3282

kr. 972.578

Varanleg örorka, 25%

 

3.524.536 x 3990/3627 + 6 % x 10 x 25 % - 26 %

kr. 7.603.350

Þjáningarbætur, rúmliggjandi 23 dagar

 

1300 x 3990/3282 = 1580 x 23

kr. 36.340

Þjáningarbætur í 331 dag

 

700 x 3990/3282 = 920 x 331

kr. 304.520

Tímabundin örorka, 13 mánuðir og 8 dagar

 

13 x 293.711

kr. 3.818.243

8 dagar x 8 dagvinnustundir x 1694

kr. 108.416

Frádráttur vegna launagreiðslna

kr. -1.101.540

Frádráttur vegna slysatryggingar sjómanna

kr. -1.124.589

Samtals

kr. 10.617.318

 

Réttargæzlustefnda hafi verið ritað bréf þann 10. júní 1999, sbr. dskj. nr. 12, og félagið innt eftir afstöðu til bótaskyldu vegna slyss stefnanda. Hinn 31. ágúst 1999 hafi réttargæzlustefndi hafnað bótaábyrgð, sbr. dskj. nr. 13. Stefnandi hafi ekki unað afstöðu réttargæzlustefnda, og hafi félaginu því verið ritað nýtt bréf þann 17. janúar 2000, sbr. dskj. nr. 14, ásamt afriti af vottorði Halldórs Jónssonar, læknis.

Hinn 5. apríl 2000 hafi stefnandi óskað eftir niðurstöðu rannsóknar Rannsóknarnefndar sjóslysa á slysi stefnanda, sem rannsakað hafi tildrög þess, sbr. 230. gr. laga nr. 34/1985, sbr. dskj. nr. 19. Niðurstaða Rannsóknarnefndar sjóslysa hafi borizt stefnanda með bréfi dags. 28. nóvember 2000, sbr. dskj. nr. 20. Við rannsókn nefndarinnar hafi komið fram, að ekki hefði verið fyrir hendi "hefðbundin byssa" aftur á til þess að hífa veiðarfærið út, heldur hafi því verið komið út með handafli. Þá hafi nefndin komizt að þeirri niðurstöðu, að aðstaða skipverja til þess að leita skjóls væri afleit, ef alda kæmi að skutnum, þegar þeir settu veiðarfæri útbyrðis.

Málsástæður stefnda:

Stefndi kveður, að um skaðabótaábyrgð á slysi stefnanda fari eftir sakarreglu 1. mgr. 171. gr. sigll. nr. 34/1985 og almennum skaðabótareglum, en fyrir bótaábyrgð samkvæmt 172. gr. sigll. hafi stefndi keypt slysatryggingu hjá réttargæzlustefnda.

Sýknukrafa stefnda er byggð á því, að slys stefnanda verði hvorki rakið til sakar stefnda eða starfsmanna hans, né til bilunar eða saknæms vanbúnaðar skipsins, heldur verði það rakið til óhappatilviljunar og eigin gáleysis stefnanda sjálfs. Verði hann því að bera allt tjón sitt sjálfur.

Fram kemur í skýrslu stefnanda hjá lögreglu (dskj. 5), að fyrri fyllan hafi komið honum alveg að óvörum. Telji stefndi þetta hafa átt sinn þátt í því, hvernig fór, en stefnanda, sem þaulvönum sjómanni, hafi átt að vera ljóst, að ólag hafi getað gengið inn á skipið, hvenær sem var. Samkvæmt þessu hafi stefnandi ekki viðhaft þá aðgát, sem krefjast verði af vönum sjómanni, og hafi hann því komið illa undan fyrri fyllunni. Ekki sé unnt að sjá af lögregluskýrslum, að félagar hans hafi átt í nokkrum vandræðum með að varast fyllur þær, er gengu yfir skipið.

Þá bendi stefndi á, að í skýrslum stefnanda og vitna hjá lögreglu (dskj. nr. 5-9) komi fram, að stefnandi hafi snúið sér undan og fært sig innar eftir fyrri fylluna. Jafnframt að hann hafi verið aðeins að jafna sig (dskj. nr. 5). Stefndi telji, að með þessu hafi stefnandi sýnt af sér óvarkárni, þar sem hann hafi gert sig varnarlausan og ófæran til þess að standa af sér seinni fylluna, er hún gekk yfir nokkru síðar. Bæði virðist hann hafa slakað aðeins á eftir fyrri fylluna og jafnframt snúið sér undan, þannig að hann hafi verið ófær um að sjá þá síðari koma og verjast henni. Stefnandi sé þaulvanur sjómaður og hafi átt að vera ljóst, að von hafi getað verið á nýrri fyllu, hvenær sem var, enda sjaldan ein báran stök. Þetta augnabliks kæruleysi stefnanda telji stefndi hafa ráðið úrslitum um, hvernig fór. Stefndi veki athygli á því, að stefnandi hafi verið vanastur þessu verki af þeim mönnum, sem að því unnu (dskj. nr. 9). Stefnandi hefði átt að vera á varðbergi og leita skjóls þegar í stað. Fram komi í skýrslu Kjartans Jóhannssonar, sem var með stefnanda bakborðsmegin, að hann hafi verið kominn í skjól, þegar seinni fyllan reið yfir (dskj. nr. 8).

Þá bendi stefndi á, að veður hafi verið þokkalegt, er óhappið varð, um 5-6 vindstig og lítill netabátur að veiðum (dskj. nr. 9). Sjór hafi aldrei áður gengið inn á skipið í líkingu við það, sem var í umrætt sinn (dskj. nr. 5 og 9). Verði því að telja, að það hafi verið óhappatilviljun, að sjór gekk yfir skipið með þessum hætti í umrætt sinn. Um það verði engum kennt. Ákvörðun um hreinsun veiðarfæra hafi því verið eðlileg í alla staði miðað við aðstæður.

Stefnandi haldi því fram, að hættuástand hafi skapazt um borð í skipinu við það, að ekki hafi verið notuð svokölluð pokabyssa til þess að koma trollpokanum í sjóinn. Stefndi viti ekki til þess, að lögskylt sé að hafa búnað sem þennan um borð í skipinu, og athugasemdir þess efnis hafi ekki verið gerðar af opinberum aðilum við skoðun á skipinu. Fallast megi á það með stefnanda, að slíkur búnaður geti verið til þess fallinn að auka öryggi skipverja enn frekar, en það breyti því ekki, að opinberir aðilar hafi ekki talið ástæðu til þess að gera kröfu um slíkan búnað. Ekki hafi stefnandi heldur sýnt fram á venjur í þeim efnum, sem réttlæti, að lögð sé bótaábyrgð á stefnda á þessum grundvelli. Á stefnda verði einungis lögð sú skylda að uppfylla þær lágmarkskröfur um öryggi, sem almennt sé talið eðlilegt að gera. Bótaskylda verði ekki byggð á því, að bezti hugsanlegi búnaður, sem völ sé á, hafi ekki verið til staðar. Það verði að vera um saknæman vanbúnað að ræða til þess að bótaskylda geti stofnazt. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á, að nokkur kvöð hafi hvílt á stefnda að hafa pokabyssu um borð, og séu því fullyrðingar hans um saknæman vanbúnað órökstuddar og ósannaðar. Sú aðferð, sem viðhöfð hafi verið um borð í Hoffelli, sé þekkt og viðurkennd til sjós á Íslandi.

Stefnandi hafi vísað í álit Rannsóknarnefndar sjóslysa (dskj. nr. 20) til stuðnings staðhæfingum sínum. Í álitsorði nefndarinnar sé hvergi að því vikið, að í því felist vanbúnaður að nota ekki pokabyssu við umrætt verk. Þess sé hins vegar getið í álitinu, að slík byssa hafi ekki verið fyrir hendi, heldur sé þetta gert með handafli, án þess að nokkur afstaða sé tekin til þess, að slíkt teljist vanbúnaður. Í álitskafla nefndarinnar komi hins vegar fram, að hún telji, að aðstaða skipverja til þess að leita skjóls, ef alda komi að skutnum, þegar unnið sé við að koma veiðarfæri útbyrðis, sé afleit. Sé álitsorðið ekki rökstutt nánar, og þess sé hvergi getið, til hvers sé vísað með þessum orðum. Enginn samanburður sé gerður við það, hvernig aðstaða þessi sé almennt um borð í skipum, eða gerð tilraun til þess að lýsa því, við hvað sé átt eða hvernig aðstaðan gæti verið betri. Ekkert verði ráðið af álitinu að öðru leyti um þetta atriði. Þá sé heldur engin bein afstaða tekin til þess, hvað valdið hafi slysinu. Telji stefndi áliti nefndarinnar stórlega ábótavant og að ekki verði á því byggt að neinu leyti. Stefndi telji ósannað, að aðstaða skipverja um borð í Hoffelli SU-80 til að leita skjóls hafi verið önnur og verri en gengur og gerist á skipum í íslenska flotanum.

Fullyrðingum um, að viðurkenning bótaskyldu felist í því að láta koma fyrir pokabyssu í kjölfar slyssins sé vísað á bug. Þetta sé einfaldlega liður í því að lágmarka eins og frekast sé unnt þá áhættuþætti, sem til staðar séu í ljósi reynslunnar. Sé þetta gert umfram skyldu og felist ekki í því nokkur viðurkenning á saknæmum vanbúnaði.

Verði ekki á sýknukröfu fallizt, sé varakrafan byggð á því, að skipta beri sökinni í málinu og stórlækka stefnukröfur. Um eigin sök stefnanda vísist til þess, sem sagt sé að framan.

Dráttarvextir eigi ekki rétt á sér fyrr en frá dómsuppsögudegi, eins og málið sé vaxið.

Tímabundnu tjóni sé mótmælt sem of háu og ósönnuðu.

IV.

Forsendur og niðurstaða:

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dóminum og enn fremur vitnin, Helgi Kristjánsson, fyrrum skipstjóri á Háfellinu, og Ingþór Eide Guðmundsson, fyrrum sjómaður á Háfellinu.

Stefnandi byggir á því, að vanbúnaður á vinnustað hafi verið saknæmur, þar sem annars vegar hafi ekki verið notuð pokabyssa til að koma trollpokanum á haf út, og hins vegar að þröng aðkoma hafi verið að neðra dekki og erfiðar flóttaleiðir.

Myndir af vinnuaðstöðu skipverja sýna að lítið pláss hefur verið til að athafna sig, en vinnurýmið hefur verið tæpir 5 m2 samkvæmt framburði stefnanda og skipstjórans.

Stefnandi skýrði svo frá, að þegar slysið varð, hefði veður ekki verið svokallað aðgæzluveður, og miðað við reynslu hefði hann ekki talið hættu vera á ferðum. Fyrri fyllan hefði ekki verið stór, og hann hefði verið algerlega óviðbúinn síðari fyllunni, sem kom bara einhverju broti seinna. Hann hafi verið á leiðinni í var, en hafi ekki talið ástæðu til að flýta sér, heldur farið rólega og fært sig fram eftir skipinu. Ingþór Eide, sem var að vinna með stefnanda, þegar slysið varð, skýrði svo frá, að fyrst hafi komið ein gusa á þá og stefnandi hefði snúið sér undan. Það hefði komið svona fylla í hálsmálið, en síðan hafi komið önnur strax í framhaldinu, beint í bakið á honum og kýlt hann á stigann, þar sem hann hneig niður. Hinir skipsfélagar þeirra hafi verið komnir í skjól.

Af framburði þeirra, sem skýrslu gáfu fyrir dóminum þykir upplýst, að almennt sé notuð pokabyssa við að koma trolli út á sambærilegum skipum og Háfellinu, en Helgi Kristjánsson kvað þó ekki óþekkt, að það væri gert með handafli, en það væri ekki algengt. Hann taldi jafnframt, að aðstaðan hefði ekki verið óverjandi, þótt hún hefði ekki verið eins og bezt verði á kosið. Hann taldi ekki, að notkun pokabyssu gæti komið í veg fyrir slys af þessu tagi, þótt líkurnar yrðu e.t.v. minni, þar sem einungis þyrfti einn mann við að koma króknum fyrir, og það væri fljótlegra en handaflið. Sama sjónarmið kom fram í framburði stefnanda, og hann skýrði svo frá, að pokabyssan komi ekki í veg fyrir, að önnur störf sjómannsins verði unnin við svipaðar kringumstæður og voru, þegar slysið varð.

Í niðurstöðu rannsóknarnefndar sjóslysa eftir rannsókn slyssins segir svo:

“Við rannsókn kom fram:

að ekki var fyrir hendi hefðbundin “byssa” aftur á til þess að hífa veiðarfærið út heldur var því komið út með handafli.

Nefndarálit:

Nefndin telur að aðstaða skipverja til þess að leita skjóls, ef alda kemur að skutnum, þegar unnið er við að koma veiðarfæri útbyrðis, sé afleit.”

Í framangreindum framburði aðila, sem og af niðurstöðu rannsóknarnefndar sjóslysa, kemur ekkert fram, sem styður þær fullyrðingar stefnanda, að vanbúnaður vegna skorts á pokabyssu, hafi verið saknæmur. Þá kemur fram, að pokabyssa geti e.t.v. dregið úr líkum á því að slík atvik gerist, þegar verið er að setja út troll, en jafnframt kemur fram, að hluti af annarri vinnu sjómannsins fer fram við viðlíka aðstæður. Er ekki fallizt á, að það hafi verið saknæm vanræksla af hálfu stefnda að hafa ekki komið upp pokabyssubúnaði. Stefnandi er vanur sjómaður og hafði unnið um borð í skipinu í um 4 mánuði, þegar slysið varð og þekkti vel til verka og allar kringumstæður. Slysið varð við venjulega vinnu sjómanna um borð í skipinu, þegar alda skall skyndilega á stefnanda, honum að óvörum, og í kjölfarið kom önnur alda, sem þeytti honum á járnstiga, með þeim afleiðingum, að hann hlaut af varanlega örorku. Þótt flóttaleiðir hafi verið erfiðar, er ekki fallizt á, að um saknæma aðstöðu hafi verið að ræða. Slysið var óhappatilvik, sem engum verður kennt um og ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda vegna þess. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Loðnuvinnslan hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Guðjóns Hafsteins Guðmundssonar.

Málskostnaður fellur niður.