Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-178
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skattalög
- Bókhaldsbrot
- Virðisaukaskattur
- Staðgreiðsla opinberra gjalda
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 18. desember 2024 leitar Daníel Sigurðsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 28. nóvember sama ár í máli nr. 738/2023: Ákæruvaldið gegn Daníel Sigurðssyni. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum í rekstri nánar tiltekins samlagsfélags rekstrarárin 2015 til 2018. Þótti sannað að leyfisbeiðandi hefði sýnt af sér stórkostlegt hirðuleysi sem framkvæmdastjóri og stjórnarformaður félagsins. Refsing hans var ákveðin fangelsi í níu mánuði en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár og honum gert að greiða sekt til ríkissjóðs en sæta ella fangelsi í 240 daga.
4. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið varði verulega hagsmuni hans og að mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar í því. Það hafi fordæmisgildi um mörk og heildarmat þess hvenær starfsmaður félags teljist daglegur stjórnandi og einnig um skörun ábyrgðar hans og fagaðila sem selji þjónustu sem feli meðal annars í sér að annast bókhald og skattskil. Þá telur leyfisbeiðandi ástæðu til að ætla að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur enda hafi ákæra ekki verið svo skýr að leyfisbeiðandi gæti tekið afstöðu til sakargifta. Tölulegar forsendur í ákæru standist ekki með hliðsjón af málsgögnum og verulega óskýrt sé hvaðan fjárhæðir í henni séu fengnar.
5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.