Hæstiréttur íslands
Mál nr. 251/2005
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
|
|
Fimmtudaginn 17. nóvember 2005. |
|
Nr. 251/2005. |
Ragnheiður Þ. Sigurðardóttir(Hákon Árnason hrl.) gegn íslenska ríkinu (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) |
Skaðabætur. Líkamstjón.
R krafðist skaðabóta úr hendi Í vegna slyss sem hún varð fyrir við Fjölbrautarskólann í Breiðholti, þegar hún var eftir kvöldskóla á leið frá skólabyggingunni eftir göngustíg, sem lá út á bifreiðastæði. Ekki var fallist á með Í að lýsing R á slysstaðnum í héraðsdómsstefnu fæli í sér skuldbindandi yfirlýsingu af hennar hálfu, en sú lýsing var í nokkru frábrugðin lýsingu R á slysstaðnum fyrir Hæstarétti. Var talið sannað, meðal annars með framburði starfsmanna skólans sem komu að eftir slysið, að R hafi fallið á þeim stað neðst á gangstígnum þar sem svell hafði haft tilhneigingu til að myndast. Fyrir lá að sandur eða salt var ekki borið á stéttina þar sem svellið myndaðist, nema á morgnana, þrátt fyrir að starfsemi væri rekin í skólanum fram á kvöld. Var það metið starfsmönnum skólans til gáleysis, að hafa ekki gert frekari ráðstafanir til að koma í veg fyrir hættu á að fólk slasaðist á þessum tiltekna stað við skólann. Í var talið bera óskipta skaðabótaábyrgð á því tjóni sem R varð fyrir umrætt sinn. Þá var hafnað kröfu R um þjáningarbætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga eftir þann dag er heilsufar hennar var orðið stöðugt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. júní 2005. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.216.617 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.196.322 krónum frá 11. janúar 2000 til 24. ágúst sama ár, en af 2.216.617 krónum frá þeim degi til 20. desember 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður látinn falla niður.
I.
Í máli þessu krefst áfrýjandi skaðabóta úr hendi stefnda vegna slyss sem hún varð fyrir að kvöldi 11. janúar 2000 við Fjölbrautarskólann í Breiðholti, þegar hún var á leið frá skólabyggingunni eftir göngustíg sem liggur út á bifreiðastæði framan við skólann. Hafði hún sótt kvöldnámskeið fyrir læknaritara í skólanum um kvöldið. Liggur fyrir að þetta voru fyrstu kennslustundirnar á námskeiðinu og að áfrýjandi var ókunnug aðstæðum við skólann, meðal annars á göngustígnum þar sem hún slasaðist.
Göngustígurinn þar sem áfrýjandi féll er um 10 metra langur og liggur aflíðandi niður á við frá stétt við skólahúsið og að gangstétt meðfram bifreiðastæðinu. Í göngustígnum var hitalögn sem þó náði ekki alla leið niður að gangbrautinni við bílastæðið. Starfsmenn skólans hafa staðfest að svellbunki hafi myndast þar sem hitalögninni sleppir ofan við gangstéttina. Má ráða af gögnum málsins, að sá staður hafi verið sérstaklega varhugaverður í frosti, þar sem bráðið vatnið af upphituðum stígnum hafi runnið niður og frosið þar. Kom meðal annars fram í vætti húsvarðar við skólann fyrir dómi, að hann hefði af þessum sökum aldrei verið „ánægður með“ stíginn.
Í stefnu til héraðsdóms er tekið fram að áfrýjandi hafi fallið í hálku á miðjum göngustígnum. Í skýrslu sinni fyrir dómi taldi áfrýjandi einnig að hún hefði runnið um það bil á miðri stéttinni og rekið fótinn í „einhvers konar klakabunka“. Við málflutning fyrir Hæstarétti byggði áfrýjandi aðallega á því að slysið hafi orðið neðst á stígnum þar sem svellið myndaðist. Af hálfu stefnda er talið að hún sé bundin við þá lýsingu atvika sem fram kemur í stefnu, að slysið hafi orðið á miðjum stígnum.
Í skýrslu lögreglu sem kvödd var á slysstaðinn kemur fram, að mikil hálka hafi verið á þeim stað á gangstéttinni þar sem áfrýjandi rann. Aðstoðarskólastjóri við skólann, sem kallaður var til eftir að slysið hafði orðið, hefur lýst atvikum í tveimur bréfum sem fyrir liggja í málinu auk þess sem hann kom fyrir dóm og gaf þar skýrslu. Hann taldi að áfrýjandi hefði fallið á hálkublettinum sem myndaðist á mótum stéttanna. Í bréfi sem hann sendi lögmanni áfrýjanda 2. febrúar 2004 segir meðal annars: „Fjölbrautarskólinn í Breiðholti er geysilega fjölmennur vinnustaður. Í dagskóla eru 1300 nemendur og um 800 eru í kvöldskólanum, þar að auki starfa 120 starfsmenn við skólann. ... Algengt var að svell myndaðist á þeim stað þar sem Ragnheiður datt. Svellið myndaðist vegna þess að hitamottur náðu ekki saman á þessum tiltekna stað. Þetta svell var ekki mikið að umfangi. ... Mig minnir að þarna hafi verið svell í nokkra daga. Mig minnir að við hefðum látið salta og sandbera gangstíga við skólann að deginum til, en ekki er ólíklegt að sandur og salt hafi fokið eða hreinsast af svellbunkanum þegar líða tók á daginn. Gangstígar voru aldrei saltaðir eða sandbornir á kvöldin. Við áðurnefndan hliðarinngang er ljósastaur. Hitaleiðslur voru teknar upp að hluta til sumarið eftir og lagðar upp á nýtt. Eftir þetta hefur ekki myndast svell á þessum tiltekna stað.“
Starfsmaður við skólann sem kom að áfrýjanda, meðan beðið var eftir aðstoð við hana, kom fyrir dóm og taldi að áfrýjandi hefði legið neðst á gagnstígnum eða jafnvel á gangstéttinni sjálfri og á þá sýnilega við gangstéttina meðfram bílastæðinu neðan við gangstíginn.
Ekki verður fallist á með stefnda, að fyrrgreind lýsing áfrýjanda á slysstaðnum feli í sér skuldbindandi yfirlýsingu af hennar hálfu sem valdi því að ekki verði við það miðað í málinu að slysið hafi orðið á þeim stað neðst á stígnum, þar sem svell hafði tilhneigingu til að myndast. Áfrýjandi byggir málsókn sína á því, að hún hafi slasast á gangstíg við skólann vegna óforsvaranlegs umbúnaðar þar. Hún var ekki staðkunnug sjálf og var ekki við því að búast að hún hafi sérstaklega verið með hugann við að staðsetja fallið nákvæmlega á stígnum. Þar að auki lýsti hún svelli á þeim stað sem hún féll, en húsvörður við skólann bar fyrir dómi, að hitaleiðslan í gangstígnum hafi virkað prýðilega og svell aðeins myndast þar sem henni sleppti. Með vísan til framangreindra sönnunargagna er sannað að áfrýjandi hafi fallið á þeim stað neðst á gangstígnum þar sem svellið myndast.
Svo sem að framan greinir töldu starfsmenn Fjölbrautarskólans í Breiðholti að gangandi fólki hafi verið sérstök hætta búin á þeim stað sem áfrýjandi slasaðist. Jafnframt liggur fyrir að sandur eða salt var ekki borið á stéttina þar sem svellið myndaðist nema á morgnana, þrátt fyrir að starfsemi væri rekin í skólanum fram á kvöld og ávallt hætta á að sandur eða salt entist ekki nema um takmarkaðan tíma í senn til að hindra hálku á staðnum, eins og fram kom hjá aðstoðarskólastjóranum í fyrrnefndu bréfi hans 2. febrúar 2004. Þá er jafnan hætt við að nýfallinn snjór kunni að leggjast yfir svellið, þannig að ókunnugum reynist erfitt að varast þá sérstöku hættu sem þarna myndast. Með vísan til alls þessa er með öllu ófullnægjandi af hálfu starfsmanna skólans að hafa ekki gert frekari ráðstafanir en að framan greinir til að koma í veg fyrir hættu á því að fólk slasaðist á þessum stað við skólann. Er það metið starfsmönnunum til gáleysis. Stefndi ber því skaðabótaábyrgð á tjóni því sem áfrýjandi varð fyrir umrætt sinn.
Af hálfu stefnda er til vara á því byggt, að áfrýjandi hafi ekki, hvað sem öðru líði, farið af nægilegri varúð um göngustíginn og eigi að minnsta kosti að hluta sjálf sök á slysinu. Beri af þessari ástæðu að lækka bótakröfu hennar. Stefndi ber sönnunarbyrði fyrir staðhæfingum sínum um þetta. Ekkert er komið fram í málinu þessu til stuðnings og er óskipt bótaábyrgð því lögð á stefnda.
II.
Bótakrafa áfrýjanda er sundurliðuð í hinum áfrýjaða dómi. Áfrýjandi hefur fyrir Hæstarétti, í samræmi við mótmæli stefnda, lækkað kröfu sína um bætur vegna varanlegar örorku í 1.019.895 krónur.
Stefndi hefur mótmælt fjárhæð kröfu áfrýjanda um þjáningabætur á þeirri forsendu að þrír af þeim sjö dögum, sem áfrýjandi krefst bóta fyrir meðan hún var rúmliggjandi, stafi af rúmlegu eftir þann dag er heilsufar áfrýjanda telst hafa verið orðið stöðugt, sbr. 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum. Ákvæði þetta gerir ekki ráð fyrir greiðslu slíkra bóta eftir þetta tímamark og er því fallist á þessi mótmæli. Lækkar krafa áfrýjanda um 5.480 krónur af þessari ástæðu.
Þá hefur stefndi talið að útlagður kostnaður áfrýjanda vegna læknisvottorða og örorkumats, samtals 121.700 krónur, teljist til málskostnaðar samkvæmt g. lið 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti féllst áfrýjandi á þetta. Lækkar höfuðstóll dómkröfu áfrýjanda sem þessu nemur.
Samkvæmt þessu verður stefndi dæmdur til greiða áfrýjanda 2.089.437 krónur (2.216.617 krónur að frádregnum 5.480 og 121.700 krónum).
Loks hefur stefndi mótmælt kröfu áfrýjanda um upphafstíma dráttarvaxta. Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á, að hún hafi gert kröfu á hendur stefnda með ákveðinni fjárhæð fyrr en við birtingu stefnu í málinu 22. september 2004. Með vísan til 9. gr. laga nr. 38/2001 verða dráttarvextir dæmdir frá þingfestingu málsins 28. september 2004. Fram að þeim tíma dæmast vextir samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga.
Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Við ákvörðun hans hefur verið tekið tillit til þess kostnaðar sem áfrýjandi hefur haft af málinu og fyrr var getið.
Dómsorð:
Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, Ragnheiði Þ. Sigurðardóttur, 2.089.437 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 11. janúar 2000 til 28. september 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda 700.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2005.
I
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 11. apríl sl., var höfðað fyrir dómþinginu af Ragnheiði Þ. Sigurðardóttur, á hendur íslenska ríkinu með stefnu áritaðri um birtingu hinn 22. september 2004.
Endanlegar dómkröfur stefnanda voru þær, að stefndi yrði dæmdur til þess að greiða stefnanda 2.381.424 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 1.196.322 krónum frá 11. janúar 2000 til 20. desember 2001, en frá þeim degi til greiðsludags með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Þá krafðist stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, að skaðlausu, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda voru þær aðallega, að hann yrði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur yrðu lækkaðar verulega. Þá krafðist stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.
II
Málavextir voru þeir, að hinn 11. janúar 2000 féll stefnandi í hálku á göngustíg, sem liggur frá bílastæði við Fjölbrautarskólann í Breiðholti að gangstétt við skólann. Stígurinn er u.þ.b. tíu metra langur og aflíðandi. Stefnandi ökklabrotnaði á vinstra fæti við fallið. Stefnandi var að hefja læknaritaranám við kvöldskólann og er slysið varð var hún að koma frá fyrsta skóladegi sínum.
Daginn fyrir slysið og slysdaginn var snjór úti og frost. Í lögregluskýrslu kemur fram að mikil hálka hafi verið á gangstígnum, þar sem stefnandi féll. Var stefnandi flutt á slysamóttöku Landspítalans í Fossvogi.
Göngustígur þessi var upphitaður svo og gagnstétt við skólann, en hins vegar var gagnstéttin fyrir neðan stíginn við bílaplanið óhituð. Gat því myndast svell við hitaskilin þar, að sögn húsvarðar sem og annarra starfsmanna skólans, sem gáfu skýrslu við aðalmeðferð málsins. Daginn eftir slysið var grindverki slegið upp við slysstað og göngustígnum lokað.
Samkvæmt framlögðu vottorði veðurstofu var hiti yfir frostmarki daginn áður, eða hinn 10. janúar fram til klukkan 18.00, en gengið hafi á með skúrum klukkustundirnar á undan. Hiti hafi verið kominn undir frostmark kl. 21.000, að kvöldi þess dags og haldist svo daginn eftir. Aðfaranótt umrædds dags og fram til klukkan 18 hafi gengið á með éljum. Við veðurathugun kl. 9.00 um morguninn er skráð að snjódýpt sé 6 sentimetrar og að snjólag sé 7, sem tákni að jörð hafi verið alþakin jafnfallinni lausamjöll. Klukkan 18.00 hafi vindur verið norðan 3,1 m/sek. léttskýjað, hiti -1,8 °C og úrkomumagn 0,1 mm. Klukkan 21 var norðan 5,7 m/sek. léttskýjað og hiti -1,2°C. Mesta vindhviða er skráð 13,4 m/sek. klukkan 18 og 14,9 m/sek. klukkan 21. Samkvæmt því var vindur fremur hægur þó hann gæti orðið allhvass í mestu vindhviðunum á þeim tíma er slysið varð.
Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi. Kvaðst hún hafa verið að koma úr sínum fyrsta tíma og þá séð þessa gönguleið, sem hafi verið stysta leið að bíl hennar. Kvaðst hún hafa runnið á miðri séttinni og rekið fótinn í klakabunka sem verið hafi á séttinni og dottið, en á stígnum hafi verið ójafnt svell. Kvaðst hún hafa verið í vetrargönguskóm. Hún kvaðst ekki hafa vitað af þessari hálku, en hún hefði aldrei áður farið þessa leið. Hún kvaðst ekki hafa orðið vör við sand eða salt á stéttinni, þar sem hún lá.
Magnús Sigurðsson, eiginmaður stefnanda, gaf og skýrslu fyrir dóminum. Kvaðst hann hafa komið þar að er stefnandi lá eftir fallið. Kvað hann snjó og klaka hafa verið á gangstígnum og hafi hann hvorki séð sand né salt á vettvangi. Er hann hafi komið aftur 48 klukkustundum síðar og tekið myndir af vettvangi hafi stéttin verið alhvít af nýfallinni mjöll, en hálkuklumpar undir og myndast svellbunkar vegna þess að vatn renni og frjósi til langs tíma.
Rúrik Sumarliðason, húsvörður í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, er slysið varð, gaf og skýrslu við aðalmeðferð málsins. Hann kvað vinnutíma sinna hafa verið frá sjö á morgnana til klukkan fimm á daginn. Kvað hann starf sitt sem húsvörður m.a. hafa verið fólgið í því að sjá til þess að moka snjó af gangstéttum við skólann sem og að bera sand á. Hitaleiðsla hafi verið í gangstétt og umræddum göngustíg, en gangstéttin við bílastæðið hafi ekki verið með hitaleiðslum. Hitaleiðslan hafi virkað prýðilega, en þar sem mættust hituð stétt og óhituð gat myndast svellbunki. Var þar sandborið á morgnana. Eftir slysið hafi verið sett grindverk til þess að stígurinn yrði ekki notaður sem aðkoma að skólanum. Nú sé hins vegar kominn hiti í stéttina fyrir neðan þannig að ekki myndist hitaskil.
Stefán Benediktsson, aðstoðarskólameistari við Fjölbrautaskólann í Breiðholti, kvaðst hafa komið þar að sem stefnandi lá neðst á stígnum. Umræddan dag hafi snjóað, verið frost og gengið á með éljum. Hitaleiðslur hafi verið í umræddum göngustíg en ekki í gangstétt fyrir neðan. Vatn hafi runnið frá gangstígnum og myndað svellbunka neðst í stígnum, þar sem stefnandi lá eftir fallið. Alltaf hafi verið sandborið og saltað ef þörf var á og m.a. umræddan dag. Sumarið eftir slysið hafi verið bætt í hitaleiðslu á hliðarstígnum þegar sett var hitaleiðsla í gangstéttina fyrir neðan.
Helga Helgadóttir, kennari og hjúkrunarfræðingur við Fjölbrautaskólann í Breiðholti, gaf og skýrslu fyrir dóminum, Kom hún að stefnanda eftir að hún datt og hlúði að henni. Kvað hún stefnanda hafa legið neðst á gangstígnum sem liggur frá skólanum, á móts við gangstéttina. Hún kvað snjóföl hafa verið á stígnum sjálfum að hluta til, en yfirleitt hafi verið snjór til hliðanna.
Björn Árnason, nemandi við kvöldskóla Fjölbrautaskólans í Breiðholti á þeim tíma er umrætt slys varð, gaf og skýrslu við aðalmeðferð málsins. Hann kvaðst hafa komið í skólann um kvöldið og gengið þennan hliðarstíg, sem verið hafi mjög háll. Hann kvaðst hafa komið að stefnanda þar sem hún lá fyrir neðan miðjan göngustíginn eftir fallið.
Í læknisvottorði Gunnars Brynjólfs Gunnarssonar bæklunarskurðlæknis segir að við fallið hafi stefnandi hlotið mjög slæmt brot í fjærhluta sköflungs og sperrileggs sem fest hafi verið saman með nokkuð stórri aðgerð með plötum og skrúfum. Þá segir að ljóst sé að stefnandi hafi slæman áverka á liðbrjóski í ökklaliðum og veruleg hætta sé á slitgigt í lið. Viðbúið sé að ástandið sé varanlegt og komi til með að há stefnanda um alla framtíð, því geti fylgt verulega skert gönguþol jafnvel vinnuþol á tímabilum.
Þegar slysið varð var stefnandi í dagvinnu á röntgendeild Landspítalans og hafði unnið þar frá árinu 1995. Stefnandi var að fullu frá vinnu frá slysdegi þar til 23. júlí 2000 er hún mætti aftur til vinnu sinnar. Eftir að hafa starfað þar einungis í hálfan mánuð varð stefnandi að hætta störfum á nýjan leik vegna verkja í ökkla og fæti, þar sem starfinu fylgdi talsverð ganga og stöður. Varð stefnandi því frá vinnu aftur frá 4. ágúst 2000 til 24. s.m. Að sögn stefnanda varð hún jafnframt að hætta námi eftir slysið.
Að beiðni stefnanda mat Jónas Hallgrímsson læknir afleiðingar slyssins með tilliti til skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt matsgerð hans, dagsettri 7. júní 2004, mat hann varanlegan miska stefnanda 15% og varanlega fjárhagslega örorku hennar 7%. Þá hafi stefnanda orðið fyrir 100% tímabundnu atvinnutjóni frá slysdegi til 23. júlí 2000 og aftur frá 4. ágúst 2000 til 24. ágúst 2000. Þá hafi þjáningatímabil stefnanda verið frá slysdegi til 24. ágúst 2000. Stöðugleikapunktur sé 24. ágúst 2000. Auk þess lá stefnandi á Landspítala í þrjá daga árið 2001, eða frá 2.- 4. apríl, þegar plötur og skrúfur voru fjarlægðar.
Með bréfi, dagsettu 20. nóvember 2001, fór stefnandi fram á skaðabætur úr hendi stefnda vegna slyssins. Hinn 4. janúar 2002 hafnaði stefndi bótakröfu stefnanda.
III
Stefnandi byggir kröfu sína almennu sakarreglunni. Sú athafnaskylda hafi hvílt á starfsmönnum Fjölbrautaskólans í Breiðholti að gera allar mögulegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að tjón gæti hlotist af hálku á aðgönguleið við skólann. Þeirri athafnaskyldu hafi ekki verið sinnt af hálfu starfsmanna skólans. Stefndi beri fulla bótaábyrgð á skaðaverkum starfsmanna skólans á grundvelli reglna skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð. Lögð sé sérstök athafnaskylda á eigendur/rekstraraðila mannvirkja að haga aðbúnaði húsnæðis þannig að tjón hljótist ekki af. Þessi skylda sé enn ríkari þegar um opinberar byggingar sé að ræða, þar sem almenningi sé boðin þjónusta. Beri rekstraraðila viðkomandi byggingar að sjá til þess eftir föngum að aðgengi að byggingunni svo sem gangstéttir og gangstígar á lóð og tröppur að henni séu vegfarendum ekki hættulegar, þ. á m. vegna hálkumyndunar og beri honum að gera viðhlítandi ráðstafanir, t.d. með því að salt- eða sandbera. Hafi rekstraraðili hins vegar vanrækt að gera það sem í valdi hans stóð til að eyða hálkunni sé hann bótaskyldur ef vegfarandi verði fyrir því að slasast vegna vanbúnaðar.
Stefnandi kveður starfsmenn Fjölbrautaskólans hafa látið undir höfuð leggjast að viðhafa eðlilegar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir tjón vegna hálkumyndunar á gangstígnum. Starfsmenn hafi vitað mæta vel að stígurinn hafi verið varhugaverður í ákveðnu veðurfari. Svellbunkar hafi myndast á stígnum á slysdegi og næstu daga á undan. Þetta hafi starfsmenn skólans vitað eða mátt vita. Vegna þessara aðstæðna bar starfsmönnum skólans að eyða hálkunni en á því hafi orðið misbrestur, eins og slys stefnanda sýni. Hafi þetta verið mikið aðgæsluleysi af hálfu starfsmanna skólans ekki síst þegar litið sé til þess að mikill fjöldi nemenda hafi átt leið um skólann kvöldið sem slysið varð.
Veðurskilyrði á slysdegi hafi verið slæm og til þess fallin að skapa hættu ef ekki væri brugðist við með viðeigandi hætti. Frost hafi verið á slysstað í sólarhring fyrir slysið og snjóað af og til allan slysdaginn. Enn fremur hafi verið nokkur vindur sem gert hafi aðkomu að skólanum erfiðari en ella. Við þessar aðstæður hvíli sérstök skylda á stefnda að gera viðeigandi varúðarráðstafanir til þess að koma í veg fyrir slysahættu. Orsök slyssins verði að öllu leyti rakin til vanrækslu starfsmanna Fjölbrautaskólans í Breiðholti við að sandbera eða salta gangstéttina eða að sjá til þess með öðrum hætti að nemendum skólans stafaði ekki hætta af henni. Við stefnanda sé hins vegar ekki að sakast en hún hafi mátt treysta því að gangstéttin, þar sem hún datt væri hálkulaus.
Stefnandi hefur sundurliðað endanlega kröfugerð sína með eftirgreindum hætti:
1. Þjáningabætur. Gerð er krafa um greiðslu þjáningabóta fyrir tímabilið frá 12. janúar 2000 til 24. ágúst 2000 og fyrir tímabilið frá 2. apríl til 4. apríl 2001. samtals 227 daga, en þar af hafi stefnandi verið rúmliggjandi samtals 7 daga. Krafa vegna þjáningabóta sé því eftirfarandi: 223 dagar x 700 kr. x 235,6/167,7 = 219.303 krónur og 7 dagar x 1.300 kr. x 235,6 x 167,7 = 12.785 krónur. Samtals 232.088 krónur.
2. Miskabætur.
Gerð er krafa um greiðslu 15% miskabóta í samræmi við niðurstöður matsgerðar. Uppreiknuð grunnfjárhæð vegna miskabóta sé 5.619.559 krónur (4.000.000 kr. x 235,6/167,7), sbr. 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, sbr. 15. gr. Samtals nemi þessi kröfuliður því 5.619.559 krónum x 15% = 8.42.934 krónum.
3. Örorkubætur.
Stefnanda hafi verið metin 7% fjárhagsleg örorka. Stefnandi var nýorðin 42 ára þegar stöðugleikapunkti var náð. Með vísan til tekjuviðmiðs 3. mgr. 7. gr. sé gerð krafa um greiðslu 1.184.702 króna í örorkubætur ( 1.678.500 kr. x 7% x 10,083)
4. Sjúkrakostnaður.
Gerð er krafa um greiðslu kostnaðar við öflun matsgerðar og vottorða vegna undirbúning dómsmáls, samtals 121.700 krónur.
Fjárhæð kröfunnar sundurliðist því nánar svo:
1. Þjáningabætur kr. 232.088
2. Miskabætur kr. 842.934
3. Örorkubætur kr. 1.184.702
4. Sjúkrakostnaður kr. 121.700
Samtals kr. 2.381.424
Auk þess er gerð krafa um 4,5% vexti frá tjónsdegi í samræmi við 16. gr. skaðabótalaga og dráttarvexti frá þingfestingu málsins. Þá er gerð krafa um höfuðstólsfærslu vaxta árlega, í fyrsta sinn 11. janúar 2001.
Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna skaðabótaréttarins sem og skaðabótalaga nr. 50/1993.
Kröfu um vexti byggir stefnandi á 16. gr. skaðabótalaga.
Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Stefndi byggir kröfu sína á því, að slys stefnanda verði ekki rakið til saknæmrar vanrækslu starfsmanna Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Slys stefnanda verði ekki rakið til annars en óhappatilviljunar og vangæslu stefnanda sjálfrar.
Er slysið hafi átt sér stað hafi hitaleiðslur verið í stéttum sem lágu að aðalinngangi skólans þar á meðal umræddum göngustíg, en ekki í stéttum með fram bifreiðastæðum. Algengt hafi verið, vegna leka frá snjóbræðslunni, að smásvell myndaðist neðst í göngustígnum þar sem óhituð stéttin og hitaði göngustígurinn mættust. Þá hafi göngustígar við skólann verið salt- og sandbornir að deginum til en ekki á kvöldin. Staðhæfingum stefnanda, um að slysið verði rakið til saknæmrar vanrækslu starfsmanna Fjölbrautaskólans í Breiðholti, vísar stefndi á bug. Aðalumferðarleiðin frá inngangi skólans út á bílastæðið sé um gangstéttina við hlið aðaldyranna en ekki um hinn umdeilda göngustíg og var sú leið greiðfær. Fyrir liggi að göngustígar við skólann hafi verið salt- og sandbornir á daginn og mun svo einnig hafa verið slysdaginn. Staðhæfingar stefnanda um svellbunka á miðjum göngustígnum og að skort hafi á lýsingu við hann fái heldur ekki staðist, en ljósastaur sé við göngustíginn. Hitaleiðslur hafi verið í stéttum sem liggi að aðalinngangi skólans þar á meðal umræddum göngustíg gagnstætt því sem stefnandi haldi fram. Sú aðstaða geti ekki leyst stefnanda undan aðgát þar sem hálka geti leynst á gangstéttum með snjóbræðslukerfi meðan það sé að hreinsa yfirborðið.
Ekki fái staðist, þegar litið sé til hins óstöðuga veðurfars sem ríki hér á landi, að sú krafa sé gerð að lögum að ekki sé að finna neina hálku á öllum aðgönguleiðum að opinberum byggingum eins og skólum, eins og stefnandi haldi fram. Fái ekki staðist að stefnandi hafi mátt treysta því að gangstígurinn, frekar en aðrar umferðarleiðir í borginni, væru hálkulaus. Eins og veðurfari hafi verið háttað hafi stefnandi mátt búast við því að hált gæti verið og borið að gæta sérstakrar varúðar með tilliti til þessa. Telur stefndi að slys stefnanda verði aðeins rakið til eigin vanrækslu hennar sjálfrar eða óhappatilviljunar.
Varakröfu sína byggir stefndi á því, að vangæsla stefnanda sjálfrar eigi að leiða til þess að henni verði gert að bera tjón sitt að mestum hluta sjálf verði ekki á það fallist að eigin sök hennar leiði til sýknu af öllum kröfum hennar í málinu.
Kröfu stefnanda um þjáningabætur í sjö daga vegna rúmlegu, að fjárhæð 12.785 krónur, er mótmælt sem of hárri, en þrír af þeim sjö dögum hafi komið til eftir að heilsufar stefnanda hafi verið orðið stöðugt og beri því að lækka þennan kröfulið í 7.305 krónur.
Kröfu stefnanda, vegna varanlegrar örorku, að fjárhæð 1.184.702 krónur, er mótmælt sem of hárri. Lágmarks launaviðmið, samkvæmt 7. gr. skaðabótalaga, hafi í ágúst 2000, við upphaf varanlegrar örorku, sbr. 1. mgr. 7. gr., verið 1.445.000 krónur, en ekki 1.678.500 krónur, eins og stefnandi miði við í útreikningi sínum. Beri því að lækka þennan kröfulið í 1.019.895 krónur.
Kröfu stefnanda um að dráttarvextir reiknist frá 20. desember 2001, er mótmælt. Fyrst með stefnu í máli þessu hafi verið sett fram skaðabótakrafa af hálfu stefnanda. Samkvæmt því sé því mótmælt að dráttarvextir miðist við fyrri tíma en þingfestingu málsins. Þá er því mótmælt að útlagður kostnaður stefnanda, að fjárhæð 121.700 krónur geti borið vexti frá fyrri tíma en þingfestingu málsins.
V
Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um skaðabætur vegna líkamstjóns eftir fall í hálku við Fjölbrautaskólann í Breiðholti 11. janúar 2000. Kveðst stefnandi hafa runnið í svellbunka á miðjum göngustíg við skólann, sem liggur frá bílastæði upp að gangstétt við skólann.
Við aðalmeðferð málsins fór dómari á vettvang ásamt lögmönnum og stefnanda málsins.
Fjölbrautaskólinn í Breiðholti er við Austurberg. Fyrir framan skólann er bílastæði og gangstétt með fram því. Með fram skólanum sjálfum að framanverðu liggur gangstétt. Fyrir framan gangstéttina að hluta er hár skjólveggur. Aðkoma að aðalinngangi skólans er við hægri enda skjólveggjarins. Við vinstri enda skjólveggjarins er hliðaraðkoma að gangstétt við aðalinnganginn og er þar aðstaða fyrir reiðhjól. Aðkoma að henni frá gangstétt við bifreiðastæði er í smáhalla um stuttan aflíðandi gangstíg og stendur ljósastaur við gangstíginn. Er slysið átti sér stað voru hitaleiðslur í stéttum sem lágu að aðalinngangi skólans, þar á meðal umræddum göngustíg, en ekki í stétt með fram bifreiðastæðum.
Samkvæmt framburði aðstoðarskólameistara og annarra þeirra sem gáfu skýrslu við aðalmeðferð málsins, var algengt að smásvell myndaðist neðst í umræddum göngustíg, þar sem óhitaða stéttin og hitaði göngustígurinn mættust. Samkvæmt framburði aðstoðarskólameistara og húsvarðar við skólann, voru göngustígar við skólann salt- og sandbornir að deginum til, en ekki á kvöldin.
Samkvæmt stundatöflu stefnanda átti hún að mæta í sinn fyrsta tíma í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti hinn 11. janúar 2000, kl. 18.00-19.20. Samkvæmt lögregluskýrslu var lögregla kvödd að skólanum kl. 19.28 vegna slyssins. Í skýrslunni er haft eftir stefnanda að hún hafi á göngu sinni runnið skyndilega í hálkunni og fallið til jarðar. Er tekið fram í skýrslunni að mikil hálka hafi verið er umrætt atvik átti sér stað.
Í máli þessu verður að leggja til grundvallar að gangstéttir skólans, m.a. umræddur göngustígur, hafi verið salt- og sandborinn slysdaginn, enda ekki sýnt fram á annað. Þá liggur fyrir að gönguleiðir að skólanum voru að hluta til með hitalögn. Þegar það er virt og litið er til þess hvernig veður var umræddan dag verður ekki vanrækslu starfsmanna skólans um kennt að stefnandi féll í hálku. Þá verður ekki séð að skortur á lýsingu hafi átt þátt í slysinu, en ljósastaur var við stíginn. Er ekkert það fram komið í málinu sem bendir til að sérstök hætta hafi stafað af margnefndum göngustíg, ef vegfarendur gættu eðlilegrar varkárni við þær veðuraðstæður sem voru slysdaginn. Gat stefnandi ekki búist við því, eins og veðurfar var og hafði verið, að gönguleiðir hennar væru algerlega hálkulausar. Er það mat dómara að aðstæður við skólann hafi ekki verið þannig, að bótaábyrgð verði lögð á stefnda vegna slyssins, en slysið verði rakið til óhappatilviks, sem stefndi ber ekki ábyrgð á. Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Rétt þykir, þrátt fyrir þessa niðurstöðu, að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Ragnheiðar Þ. Sigurðardóttur, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.