Hæstiréttur íslands

Mál nr. 165/2002


Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Aðilaskipti


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. október 2002.

Nr. 165 /2002.

Bónusvideó ehf.

(Haraldur Blöndal hrl.)

gegn

Sigrúnu Steinarsdóttur

(Ástráður Haraldsson hrl.)

 

Ráðningarsamningur. Aðilaskipti.

Í málinu reyndi á ábyrgð B samkvæmt þágildandi lögum nr. 77/1993 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum vegna kaupa hans á félaginu Videolandi og rekstri þess. Með vísan til forsendna héraðsdóms var staðfest niðurstaða hans um að réttindi og skyldur fyrri eiganda félagsins hafi færst yfir á B við eigendaskiptin, sbr. 1. mgr. 2. og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 77/1993. Að því virtu hvernig B hafði hagað málatilbúnaði sínum gat síðbúin varakrafa hans um lækkun krafna S ekki komið til álita við úrlausn málsins. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms var hann staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 25. janúar 2002. Málið var ekki þingfest 13. mars sama árs eins og til stóð, og var því áfrýjað að nýju 9. apríl 2002. Krefst áfrýjandi aðallega sýknu af kröfu stefndu, en til vara að hún verði lækkuð og áfrýjanda einungis gert að greiða almenna vexti af hinni dæmdu fjárhæð frá þingfestingu málsins í héraði til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í málinu reynir á ábyrgð áfrýjanda samkvæmt þágildandi lögum nr. 77/1993 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum vegna kaupa hans á félaginu Videolandi og rekstri þess. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að réttindi og skyldur fyrri eiganda félagsins hafi færst yfir á áfrýjanda við eigendaskiptin, sbr. 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 77/1993.

Til stuðnings varakröfu sinni hefur áfrýjandi byggt á því fyrir Hæstarétti að rangir útreikningar liggi að baki kröfufjárhæð stefndu, en þar sé gert ráð fyrir hærri mánaðarlaunum að meðaltali á uppsagnarfresti en fái staðist. Þá beri að draga frá laun, sem stefnda hafi fengið greidd frá öðrum á sama tímabili. Loks krefst hann þess að dráttarvextir verði ekki dæmdir og að upphafstími almennra vaxta miðist við síðara tímamark en það, sem stefnda miðar dráttarvaxtakröfu sína við. Þessara krafna og málsástæðna fyrir þeim var í engu getið í greinargerð þáverandi lögmanns áfrýjanda í héraði og í héraðsdómi kemur fram að kröfu stefndu hafi ekki verið tölulega andmælt. Að því virtu hvernig áfrýjandi hefur hagað málatilbúnaði sínum geta þessar síðbúnu kröfur hans ekki komið til álita við úrlausn málsins. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi skal greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Bónusvideó ehf., greiði stefndu, Sigrúnu Steinarsdóttur, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 26. október 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var 15. október s.l., hefur Sigrún Steinarsdóttir, Drekagili 28, Akureyri, höfðað hér fyrir dómi gegn Bónusvideói ehf., Lágmúla 7, Reykjavík, en til vara á hendur Fransís h.f., Stórhöfða 15, Reykjavík.

Krefst stefnandi þess að aðalstefnda, Bónusvideó ehf., verði dæmt til að greiða henni kr. 531.453 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 10. september 2000 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar.  Til vara gerir stefnandi sömu kröfur á hendur varastefnda, Fransís h.f.

Bæði aðalstefnda og varastefnda krefjast sýknu, en til vara lækkunar á kröfum stefnanda.  Þá krefjast bæði hin stefndu málskostnaðar. 

Auk ágreinings um aðild snýst mál þetta um kaup og leigu á atvinnurekstri og rétt launþega við eigandaskipti atvinnurekstrar.

Málsatvik eru þau að stefnandi hóf afgreiðslustörf hjá myndbandaleigunni Videólandi, Geislagötu 10, Akureyri, óskráðu einkafirma Magnúsar Jóns Aðalsteinssonar, 1. ágúst 1997.  Með kaupsamningi dagsettum 18. ágúst 2000 seldi Magnús Jón Aðalsteinsson varastefnda Fransís h.f., m.a. eins og segir í samningnum „rekstrarfjármuni, lager, vörumerki, síma og viðskiptavild Videólands“.  Í samningnum er hinu selda nánar lýst, en ágreiningur er með aðilum um hvort reksturinn sem slíkur hafi verið seldur eða aðeins nánar upptalin tæki og búnaður.

Með samningi dagsettum 1. september 2000, leigði varastefnda Fransís h.f. Magnúsi Jóni Aðalsteinssyni hið selda og virðist Magnús hafa haldið áfram rekstrinum undir nafninu Videóland og engar breytingar því orðið gagnvart stefnanda eða öðru starfsfólki þar til 7. eða 8. september sama ár, að starfsfólki var tilkynnt, að sögn stefnanda, að reksturinn hefði verið seldur aðalstefnda, Bónusvideói ehf.

Aðalstefnda Bónusvideó ehf. réði starfsfólk fyrri eiganda eigi til áframhaldandi starfa, en hélt hins vegar áfram sams konar rekstri og verið hafði og réði verktaka til að annast hann.  Stefnandi fékk greidd laun til 9. september 2000, en með bréfi dagsettu þann dag sagði Magnús Jón Aðalsteinsson henni upp starfi og barst bréf þetta stefnanda 12. sama mánaðar. 

Hefur stefnandi höfðað mál þetta til greiðslu launa í uppsagnarfresti ásamt orlofi og desemberuppbót. 

Stefnandi byggir kröfu sína á hendur aðalstefnda á því að með sölu á rekstri Videólands til varastefnda 18. ágúst 2000 hafi allar skyldur Videólands við stefnanda færst yfir á varastefnda, en með sölu varastefnda á rekstri myndbandaleigunnar til aðalstefnda 8. september 2000 hafi síðan allar skyldur varastefnda færst yfir á aðalstefnda, þ.m.t. launagreiðslur frá 9. september 2000. 

Kveðst stefnandi vísa til 2. gr. laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtæki nr. 77, 1993, þar sem segi að nýr eigandi takist á hendur réttindi og skyldur fyrri eiganda samkvæmt ráðningarsamningi og skuli virða launakjör starfsmanna og starfskilyrði frá og með þeim degi sem aðilaskipti hafi átt sér stað þar til samningi hafi verið sagt upp eða hann renni úr gildi.  Þá segi í 3. gr. sömu laga að aðilaskipti geti ein sér ekki verið ástæða fyrir uppsögn starfsmanna af hálfu atvinnurekanda hvorki fyrir né eftir aðilaskiptin. 

Með því að aðalstefnda veitti stefnanda ekki vinnu við rekstur myndbandaleigunnar þegar það keypti reksturinn af varastefnda hafi aðalstefnda vanefnt ráðningarsamninginn við stefnanda. 

Aðalstefnda hafi borið sem nýjum eiganda að yfirtaka ráðningasamning við stefnanda skv. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 77, 1993 á sömu kjörum og stefnandi hafi verið á fyrir aðilaskiptin

Kröfu sína á hendur varastefnda kveðst stefnandi byggja á því að ef aðalstefnda teljist ekki hafa tekist á hendur skyldur varastefnda á ráðningarsamningum starfsmanna við kaup á rekstri myndbandaleigunnar þá hafi varastefnda tekist skyldur Magnúsar Jóns Aðalsteinssonar á hendur enda hafi það sýnt sig að varastefnda hafi aldrei verið í vafa um  það og hafi greitt stefnanda og öðrum starfsmönnum m.a. laun til þess dags sem hann seldi reksturinn til aðalstefnda.

Bæði aðalstefnda og varastefnda byggja sýknukröfur sínar á því að félögin hafi ekki tekið við eða keypt rekstur einkafirma Magnúsar Jóns Aðalsteinssonar, Videólands, heldur einungis keypt tæki, tól, áhöld og lager og eigi því ákvæði laga nr. 77, 1993 hvorki við um viðskipti þau er aðalstefnda átti við varastefnda né viðskipti varastefnda og Magnúsar Jóns Aðalsteinssonar.  Í þessu sambandi vísar varastefnda til kaupsamnings síns við Magnús Jón Aðalsteinsson og telur að þar komi skýrt fram að ekki hafi verið um kaup á rekstri að ræða. 

Bæði aðalstefnda og varastefnda byggja varakröfu sína á því að þeim hafi verið skylt að halda eftir hluta af launum stefnanda vegna ákvæða skattalaga og standa skil á þeim hluta til ríkissjóðs og beri að lækka kröfuna sem því nemur.

Kaupsamningur varastefnda, Fransís h.f. og Magnúsar Jóns Aðalsteinssonar liggur frammi í málinu.  Í  1. gr. kaupsamningsins segir:  „Hið selda er hér eftir nefnt Videóland.“  Þá segir í hinni sömu grein, að hið selda sé nákvæmlega sundurliðað og því lýst í 2. gr.samningsins.  Í 2. gr. samningsins segir m.a.: „Hið selda er Videóland, myndbandaleiga með öllum þeim rekstrarfjármunum sem því fylgja.“  Þá er í greininni nánari upptalning á lager, tækjum og tólum fyrirtækisins.

Víðar í gögnum málsins kemur fram að um var að ræða sölu á fyrirtækinu Videólandi. 

Að framangreindu athuguðu þykir því enginn vafi leika á því að varastefnda hafi keypt rekstur Videólands ásamt tækjum og búnaði af Magnúsi Jóni Aðalsteinssyni með framangreindum samningi.

Svo sem að framan er rakið leigði varastefnda Magnúsi Jóni Aðalsteinssyni reksturinn þar til samningur þess við aðalstefnda komst á. Ágreiningslaust er að stefnandi fékk að fullu uppgert fram til þess tíma. 

Í málinu liggur ekki fyrir samningur aðalstefnda og varastefnda, en ljóst er að aðalstefndi hélt áfram samskonar rekstri á sama stað og verið hafði og fyrri rekstur féll niður frá sama tíma.  Verður því við það miðað að reksturinn hafi færst til aðalstefnda með kaupsamningi hans við varastefnda, enda hefur aðalstefndi ekki sýnt fram á annað.  Tók aðalstefndi því yfir öll réttindi og skyldur gagnvart stefnanda, sbr. 2. gr. laga nr. 77, 1993.  Breytir þar í engu þótt aðalstefnda hafi breytt rekstrartilhögun m.a. með því að ráða verktaka í stað starfsfólks. 

Óumdeilt er að stefnanda var sagt upp störfum er kaup aðalstefnda fóru fram og verður að miða við að uppsögnin hafi þá farið fram.   Hefur því eigi verið mótmælt að stefnanda beri þriggja mánaða uppsagnarfrestur frá næstu mánaðarmótum þar á eftir og hefur kröfu stefnanda eigi verið tölulega andmælt.  Varakrafa aðalstefnda þykir ekki eiga neina réttarstoð og verður henni því hafnað. 

Niðurstaða dómsins er þá sú að dæma beri aðalstefnda til greiðslu hinnar umstefndu fjárhæðar ásamt dráttarvöxtum eins og krafist er til 1. júlí 2001, en skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá þ.d. til greiðsludags. 

Að fenginni þessari niðurstöðu þykir eigi ástæða til að fjalla frekar um kröfur á hendur varastefnda. 

Rétt er að dæma aðalstefnda til að greiða stefnanda kr. 200.000 í málskostnað, en málskostnaður gagnvart varastefnda falli niður.

Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.

D Ó M S O R Ð :

Aðalstefnda, Bónusvidó ehf. greiði stefnanda, Sigrúnu Steinarsdóttur, kr. 531.453 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25, 1987 frá 10. september 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt III. kafla laga nr. 38, 2001 frá þ.d. til greiðsludags og kr. 200.000 í málskostnað.

Málskostnaður í máli stefnanda gagnvart varastefnda, Fransís h.f., fellur niður.