Hæstiréttur íslands

Mál nr. 494/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Yfirmat


                                     

Miðvikudaginn 5. ágúst 2015.

Nr. 494/2015.

A

(Leifur Runólfsson hdl.)

gegn

Sveitarfélaginu Árborg

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns. Yfirmat.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina beiðni S um að dómkvaddir yrðu yfirmatsmenn til að svara nánar tilgreindum spurningum. Var talið að af hluta spurninganna yrði ekki annað ráðið en að þar væri óskað eftir mati á sömu atriðum og áður hefðu verið metin með undirmatsgerð og óskað væri yfirmats á. Væru þær því tilgangslausar til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Var kröfu S um að dómkvaddir yrðu matsmenn til að svara þeim spurningum því hafnað. Að því virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var hann staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. júlí 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júlí 2015, þar sem tekin var til greina beiðni varnaraðila um að dómkvaddir yrðu yfirmatsmenn til að svara nánar tilgreindum spurningum. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að framangreindri beiðni varnaraðila verði hafnað en til vara að „dómkvaðning nái einungis til sömu matsatriða og kveðið var á um í undirmati. Þannig að hafnað verði spurningum 5 til 8 í matsbeiðni“.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili hefur krafist þess að dómkvaddir verði yfirmatsmenn til að endurmeta nánar tilgreind atriði sem hann setur fram í matsbeiðni sinni undir töluliðum 1 til 4 auk þess sem hann krefst þess að matsmenn leggi mat á önnur atriði er fram koma í spurningum undir töluliðum 5 til 8.

Samkvæmt 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 getur dómari meinað aðila um sönnunarfærslu ef hann telur bersýnilegt að atriði sem aðili vill sanna skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar. Sé ekki svo ástatt sem greinir í ákvæði þessu er ekki girt fyrir að til viðbótar eldri matsgerð sé aflað nýrrar matsgerðar sem taki til annarra atriða en sú fyrri. Af þeim spurningum sem settar voru fram í matsbeiðni varnaraðila undir töluliðum 5 til 8 verður ekki annað ráðið en að þar sé óskað eftir mati á sömu atriðum og áður hafa verið metin með undirmatsgerð og óskað er yfirmats á. Eru spurningar þessar því tilgangslausar til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Verður því hafnað kröfu varnaraðila um að dómkvaddir verði menn til að svara þeim spurningum. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

       Tekin er til greina krafa varnaraðila, Sveitarfélagsins Árborgar, um dómkvaðningu yfirmatsmanna til að endurmeta þau atriði sem fram koma undir töluliðum 1 til 4 í matsbeiðni.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júlí 2015.

                Mál þetta er höfðað með stefnu útgefinni 28. apríl sl. og var tekið til úrskurðar 21. júlí sl., vegna beiðni stefnanda um að aflað verði yfirmatsgerðar og matsgerðar.

                Stefnandi er Félagsmálanefnd Sveitarfélagsins Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi.

                Stefnda er A, [...], [...].

                Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði svipt forsjá dóttur sinnar, B, kt. [...], til frambúðar.

                Dómkröfur stefndu eru þær að hún verði sýknuð af kröfum stefnanda og jafnframt verði stefnanda gert að greiða henni málskostnað eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Málavextir:                         

                Með stefnu sem þingfest var 29. apríl sl. höfðaði stefnandi mál þetta á hendur stefndu. Krefst stefnandi þess að stefnda verði svipt forsjá fimm ára dóttur sinnar til frambúðar. Fyrir liggur að allt frá því að stefnda gekk með dóttur sína, sem stefnda eignaðist er hún var 17 ára gömul, hafa barnaverndaryfirvöld haft afskipti af málefnum stefndu og og barnsföður hennar. Telpan hefur verið í umsjá fósturforeldra á vegum stefnanda frá 1. mars 2014, fyrst með samþykki stefndu en síðar skv. úrskurði stefnanda. Áður hafði telpan búið hjá föður sínum um tveggja ára skeið en komið til stefndu í umgengi.

                Meðal gagna sem stefnandi lagði fram við þingfestingu var forsjárhæfnismat C sálfræðings frá 17. mars sl. varðandi stefndu. Var það niðurstaða sálfræðingsins að þrátt fyrir bætta líðan og félagslega stöðu stefndu væri stefnda ekki fær um að veita dóttur sinni þann stöðugleika og þroskavænlegu skilyrði sem hún hefði þörf fyrir. Enn fremur lagði stefnandi fram sálfræðilega matsgerð D, frá 28. nóvember 2011, sem unnin var að beiðni Barnaverndar [...].

                Hinn 13. maí sl. var, að kröfu stefndu, E sálfræðingur dómkvödd til að meta forsjárhæfni stefndu og svara nánar tilgreindum spurningum þar að lútandi. Í matsgerð sinni, sem dagsett er 29. júní sl., kemst E að þeirri niðurstöðu að stefnda sé hæf til að fara með forsjá dóttur sinnar en þó með þeim fyrirvara að hún fái umhyggjusaman, góðan og þéttan stuðning eins lengi og talið er koma að gagni. Það þjóni best hagsmunum dóttur stefndu að flytjast sem fyrst til hennar.

                Í þinghaldi 15. júlí sl. lagði stefnandi fram matsbeiðni um dómkvaðningu matsmanna. Er beiðnin tvíþætt. Annars vegar er þess farið á leit, með vísan til ákvæða barnalaga nr. 80/2002 sbr. IX. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, að dómkvaddir verði tveir sérfróðir og óvilhallir yfirmatsmenn til þess að endurmeta:

  1. Hæfni matsþola til þess að fara með forsjá dóttur sinnar, B, kt. [...], og skilning matsþola á þörfum barnsins. Telji matsmenn að forsjárhæfni matsþola sé skert þá er þess óskað að skoðað verði hvort hægt sé að veita einhver stuðningsúrræði.
  2. Er stöðugleiki til staðar hjá matsþola.
  3. Hver tengsl barnsins séu við matsþola.
  4. Hvaða áhrif það gæti haft á barnið ef það flytti á nýjan leik til matsþola: a)skammtímaáhrif, b)langtímaáhrif.

Þá er þess jafnframt óskað að matsmenn leggi mat á eftirfarandi:

  1. Hvort ætla megi að daglegri umönnun og uppeldi eða samskiptum matsþola og barns verði alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska fari barnið á ný í umsjá matsþola sbr. a-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
  2. Hvort ætla megi að matþoli ráði við að veita barni þann stuðning og aðhald sem það þarf, sérstaklega m.t.t. til þroskafrávika sem barnið býr við sbr. b-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
  3. Hvort líkamlegri og/eða andlegri heilsu barns eða þroska sé hætta búin fari það á ný í umsjá matþola s.s. vegna geðrænna veikinda eða annarra atriða sbr. d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
  4. Að auki er þess óskað að matsmenn tiltaki í matsgerð annað það sem þeir telja máli skipta vegna skipan forsjár B.

                Stefnandi vísar til þess að í málinu liggi fyrir þrjár matsgerðir um forsjárhæfni stefndu og séu niðurstöður þess ólíkar. Sé því þörf á yfirmati og svörum við frekari spurningum um forsjárhæfnina.

                Stefnda mótmælir matsbeiðninni á þeim grunni að öflun umbeðins mats muni fresta meðferð málsins sem sæti flýtimeðferð. Þá telur stefnda að spurningar nr. 5-8 séu óþarfar þar sem þær felist í spurningum nr. 1-4. Stefnda gerir enn fremur athugsemd við að í sömu matsbeiðni sé beðið um yfirmat og svör við öðrum spurningum, þ.e. undirmats.

Niðurstaða:

                Mál þetta er rekið á grundvelli X. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í 53. gr. laganna er kveðið á um að um meðferð mála fyrir dómi skv. ákvæðum kaflans gildi lög um meðferð einkamála nr. 91/1991, með þeim frávikum sem greinir í barnaverndarlögum. Í samræmi við það hefur mál þetta sætt flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laga um meðferð einkamála, sbr. 53. gr. b barnaverndarlaga.

                Því hefur margsinnis verið slegið föstu í dómaframkvæmd að aðilar eigi, samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga um meðferð einkamála, rétt á því að afla þeirra sönnunargagna sem þeir telja málstað sínum til framdráttar. Almennt sé það hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að takmarka þann rétt. Af þeim sökum ber dómara jafnan að verða við beiðni málsaðila um að dómkveðja matsmann eða matsmenn nema skilyrði 2. málsliðar 1. mgr. 61. gr. laganna séu ekki fyrir hendi, leitað sé mats um atriði sem dómari telur bersýnilegt að ekki skipti máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. laganna, matsbeiðnin lúti að atriðum sem dómara ber að leggja sjálfur mat á en ekki sérfróðir matsmenn, sbr. 2. mgr. 60. gr. og 1. málslið 1. mgr. 61. gr. laganna.       

                Eins og rakið hefur verið liggja í máli þessu fyrir þrjár matsgerðir sálfræðinga um forsjárhæfni stefndu, þar af tvær gerðar á þessu ári. C og E komast að andstæðri niðurstöðu um hæfni stefndu í matsgerðum sínum. Með hliðsjón af því verður að telja að það þjóni hagsmunum dóttur stefndu best að aflað verði matsgerða yfirmatsmanna til að leggja mat á þær spurningar sem lagðar voru fyrir E í því skyni að málið verði eins vel upplýst og kostur er áður en dómur verður á það lagður. Getur niðurstaða yfirmatsmanna því bersýnilega skipt máli um niðurstöðu máls þessa. Þótt fyrir liggi að það muni óhjákvæmilega valda töfum á meðferð málsins er ekki unnt að fallast á það með stefndu að sú staðreynd að málið sætir flýtimeðferð, lögum samkvæmt, standi því í vegi að umbeðins mats verði aflað. Þá er ekkert því til fyrirstöðu að yfirmatsmenn svari í sömu matsgerð frekari spurningum stefnanda er tengjast forsjárhæfni stefndu.

                Í ljósi alls framangreinds verður ekki séð að skilyrði séu fyrir því að meina stefnanda að fá dómkvadda yfirmatsmenn til þess að endurmeta þau atriði sem metin voru í matsgerð E og til að leggja mat á önnur atriði er tengjast forsjárhæfni stefndu. Ber því að fallast á dómkvaðningu yfirmatsmanna til að svara þeim spurningum sem greinir í matsbeiðni.

                Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

                                               Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

                Umbeðin dómkvaðning skal fara fram.