Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-122

A (Haukur Freyr Axelsson lögmaður)
gegn
Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Guðjón Ármannsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Líkamstjón
  • Vátryggingarsamningur
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 13. nóvember 2023 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 20. október sama ár í máli nr. 338/2022: Sjóvá-Almennar tryggingar hf. gegn A. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort líkamstjón sem leyfisbeiðandi varð fyrir þegar hárgreiðslustóll sem hún hafði sest í brotnaði með þeim afleiðingum að hún féll í gólfið verði rakið til saknæmrar háttsemi þannig að hún eigi rétt á bótum frá gagnaðila eða hvort um óhappatilvik hafi verið að ræða.

4. Með héraðsdómi var bótaskylda úr frjálsri ábyrgðartryggingu hárgreiðslustofunnar hjá gagnaðila viðurkennd en með dómi Landsréttar var gagnaðili sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda. Landsréttur lagði til grundvallar að slysið yrði rakið til þess að málmfesting á armi undir stólnum hefði brotnað en ekki lægi fyrir hvers vegna. Landsréttur féllst ekki á að hárgreiðslustofan hefði vanrækt eftirlit eða viðhald hárgreiðslustólsins með saknæmum hætti. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að miða yrði við að gagnaðili hefði ekki kynnt vátryggingartaka kröfuna án ástæðulauss dráttar, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga en þegar það var gert, rúmum fjórum mánuðum síðar, hafði viðgerð á stólnum farið fram. Hvað sem því liði væri ekki ágreiningur um aðdraganda slyssins og væru atvik nægilega upplýst til að unnt væri að slá því föstu að slysið yrði ekki rakið til saknæmrar háttsemi vátryggingartaka. Hefði það því ekki þýðingu þótt ekki hefði verið leitast við að rannsaka sérstaklega ástæðu þess að málmfestingin brotnaði. Féllst Landsréttur ekki á að líkamstjón leyfisbeiðanda yrði rakið til atvika sem vátryggingartaki bæri sakarábyrgð á heldur til óhappatilviks.

5. Leyfisbeiðandi byggir í fyrsta lagi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Ekki sé rétt að atvik séu nægilega upplýst til að slá megi því föstu að slysið verði ekki rakið til saknæmrar háttsemi vátryggingartaka. Með niðurstöðu Landsréttar sé leyfisbeiðandi látin bera halla af því að ekkert liggi fyrir um hvers vegna málmfestingin brotnaði. Gagnaðili verði að bera hallann af sönnunarskorti um þetta atriði en ekki leyfisbeiðandi sem gert hafi allt sem í hennar valdi stóð til að upplýsa slysið. Leyfisbeiðandi byggir í öðru lagi á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem aldrei hafi áður reynt á hvaða áhrif það hafi á sönnunarstöðu aðila þegar tryggingafélag fylgi ekki fyrirmælum 2. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 með þeim afleiðingum að sönnunargögn fari forgörðum.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi meðal annars um skýringu á skyldum vátryggingafélags samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.