Hæstiréttur íslands
Mál nr. 184/2014
Lykilorð
- Ærumeiðingar
|
|
Fimmtudaginn 11. desember
2014. |
|
Nr. 184/2014. |
Hilmar
Leifsson (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) gegn Reyni
Traustasyni og Jóni
Trausta Reynissyni og til
vara DV ehf. (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) |
Ærumeiðingar.
H höfðaði mál aðallega á hendur ritstjórunum R
og J en til vara útgáfufélaginu D ehf. vegna ætlaðra ærumeiðandi ummæla sem
birt voru á vefsíðu blaðsins D. Ummælin sem málið varðaði voru í grein þar sem
meðal annars kom fram að D hefði kannað laun nokkurra manna sem opinberlega
hefðu verið kenndir við eða kenndu sig sjálfir við samtök sem lögregla teldi að
legðu stund á skipulagða glæpastarfsemi, þar á meðal Hells Angels og
stuðningsklúbba slíkra samtaka. H hefði verið liðsmaður í Hells Angels eða
Fáfni eins og samtökin hefðu heitið þá, en hann væri hættur í þeim. Í greininni
voru tilgreindar tekjur H árið 2011 miðað við álagningaskrá ríkisskattstjóra.
Þá voru viðhöfð ummæli, sem sagt var að höfð væru eftir syni H, um að H væri
hátt settur í stærstu glæpasamtökum heims og gæti látið vinna tilteknum manni
mein. Talið var sýnt að H hefði verið liðsmaður í Fáfni sem lögregla hefði
ítrekað tengt opinberlega við skipulagða brotastarfsemi. Því færi fjarri að
skilja mætti greinina á þann veg að átt hafi verið við að tekjur H væru ábati
af brotastarfsemi, svo sem H hélt fram í málinu. Ummælin sem höfð voru eftir
syni H ættu sér stoð í dómi á hendur honum. Ummælin voru því talin réttmæt í
því samhengi sem þau voru sett fram þegar greinin væri virt í heild sinni. R, J
og D ehf. voru því sýknaðir af kröfum H.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. mars 2014. Hann krefst þess að ómerkt verði ummæli, sem nánar greinir hér á eftir og birt voru á vefmiðlinum dv.is 5. ágúst 2012, svo og að stefndu Reyni Traustasyni og Jóni Trausta Reynissyni verði gerð refsing fyrir þau. Einnig krefst áfrýjandi þess að þessum stefndu verði óskipt gert að greiða sér 1.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. ágúst 2012 til 5. mars 2013 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, svo og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara beinir áfrýjandi sömu kröfum að stefnda DV ehf.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Málið á rætur að rekja til þess að grein var birt á vefmiðlinum dv.is 5.
ágúst 2012 og var höfundur hennar ekki nafngreindur, en áfrýjandi kveður
stefndu Reyni og Jón Trausta hafa verið ritstjóra þess miðils á þeim tíma og
beri þeir því ábyrgð á greininni. Fyrirsögn hennar var „Sagður hátt settur í
„stærstu glæpasamtökum heims“ með 19 þúsund á mánuði“, en fyrir neðan fyrirsögnina
stóð „Hilmar Leifsson hætti í Fáfni vegna áreitisins sem fylgdi því að vera í
samtökunum“. Neðan við þann texta var ljósmynd af áfrýjanda og sagði
eftirfarandi undir henni: „Hilmar Leifsson: Sonur hans sagði hann vera hátt
settan í „stærstu glæpasamtökum heims“. Hann er með rétt rúmlega 19 þúsund
krónur á mánuði í laun samkvæmt álagningarseðli“. Áfrýjandi telur fyrstgreindu orðin
í fyrirsögninni fela í sér meiðyrði í sinn garð og snúa dómkröfur hans meðal
annars að þeim, en því sama gegni um tiltekin önnur ummæli, sem birtust í
greininni. Að því leyti, sem hér skiptir máli, var meginmál hennar eftirfarandi
og eru hér auðkennd með hallandi letri þau ummæli í henni, sem dómkröfur áfrýjanda
taka til: „Liðsmenn félaga sem íslensk
lögregluyfirvöld hafa sett á athugunarlista yfir samtök sem stunda skipulagða
glæpastarfsemi eru ekki með há laun miðað við álagningarskrá
ríkisskattstjóra. DV kannaði laun
nokkurra einstaklinga sem opinberlega hafa verið kenndir við eða kenna sig
sjálfa við samtök sem sögð eru tengjast skipulagðri glæpastarfsemi. Meðal
annars kannaði DV tekjur liðsmanna Hells Angels, Outlaws, liðsmanna
stuðningsklúbba þessara félaga auk þekktra ofbeldismanna. Í ljós kom að
aðeins einn einstaklingur af sautján er með launatekjur sem nema meiru en 400
þúsund krónum á mánuði
Hilmar Þór
Leifsson er fyrrverandi meðlimur Hells Angels eða Fáfnis eins og samtökin
hétu þá. Á þeim tíma sem Hilmar var meðlimur var Fáfnir í formlegu
inngönguferli inn í samtök Vítisengla. Hilmar er sagður hafa hætt í samtökunum
vegna þess áreitis sem þeim fylgir. Hilmar er samkvæmt ríkisskattstjóra með lág
laun, eða aðeins 19.010 krónur á mánuði. Skúli Þór Hilmarsson, sonur Hilmars er
samkvæmt álagningaseðlum skattstjóra föðurbetrungur
Árið 2010 var Skúli
dæmdur í fangelsi fyrir að kýla annan mann
Segir í dómnum að
Skúli hefði
hótað fórnarlambi sínu og meðal annars sagt við hann að faðir sinn væri hátt settur í „stærstu glæpasamtökum heims“ og að
lítið mál væri að láta menn á hans vegum vinna barnshafandi konu fórnarlambsins
mein. Launatölurnar byggja á útreikningum á útsvarsstofni einstaklinganna
miðað við upplýsingar sem fram koma í álagningarskrá ríkisskattstjóra. Áskrifendur geta lesið allt um laun nokkra
þekktra manna í undirheimum með því að smella á „Meira“.“
II
Samkvæmt gögnum málsins birtist 2. febrúar 2002 á vefmiðlinum mbl.is frétt
um að nítján félagar í samtökum danskra Vítisengla hafi komið til landsins með
flugvél og hafi ellefu þeirra verið meinuð landganga. Haft var eftir
ríkislögreglustjóra að lögregla liti svo á að Vítisenglar væru skipulagður
glæpahópur. Lögreglu hafi skömmu áður borist upplýsingar frá lögreglu í
Danmörku um að Vítisenglar hygðust ná fótfestu hér á landi í gegnum
vélhjólaklúbbinn Fáfni. Vitað væri að Vítisenglar hafi áður heimsótt félaga í
Fáfni, sem hafi verið undir stöðugu eftirliti lögreglu undanfarið. Hafi
lögregla fylgst grannt með þeim átta, sem var hleypt inn í landið, og
upplýsingar borist um að Vítisenglar hafi óskað eftir samstarfi við fleiri hópa
vélhjólamanna hér á landi, en aðrir en Fáfnir hafi rekið þá af höndum sér. Haft
var eftir nafngreindum talsmanni Fáfnis að vítisenglarnir, sem hingað komu,
tilheyrðu dönskum vinaklúbbi Fáfnis. Það væri opinbert markmið Fáfnis að gerast
meðlimir í Vítisenglum og búið væri að sækja um inngöngu. Heimsókn dönsku
vítisenglanna hafi ekki verið formlegur liður í innlimun Fáfnis í samtökin
ytra, en vissulega væru öll samskipti þáttur í því.
Á vefmiðlinum visir.is birtist 11. apríl 2008 frétt undir fyrirsögninni:
„Fáfnismenn formlega teknir inn í Hells Angels fjölskylduna.“ Sagði þar að
vélhjólaklúbburinn Fáfnir hafi fengið nafnbótina „áhangendur“ hjá alþjóðlegu
samtökunum Hells Angels. Nafngreindur félagsmaður í Fáfni hafi staðfest það og
sagt þetta vera „fyrsta skref af þremur“, en klúbburinn væri kominn „inn í
fjölskylduna.“ Næsta skrefið í ferlinu væri að fá nafnbótina „tilvonandi“ og að
síðustu yrðu menn fullgildir meðlimir í Hells Angels. Þegar að því kæmi yrði
heitið Fáfnir lagt niður og væntanlega tekið upp nafnið „Hells Angels Iceland“.
Á sama vefmiðli birtist 1. júlí 2008 frétt með fyrirsögninni: „Fáfnir í
formlegum tengslum við alþjóðleg glæpasamtök.“ Þar var vitnað til nýrrar
skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um að Fáfnir hafi komist í þessi
tengsl með því að gerast stuðningsklúbbur Hells Angels vélhjólasamtakanna. Hafi
samtökin um langt skeið haft áhuga á að ná fótfestu á Íslandi og væri sá áhugi
gagnkvæmur, því forvígismenn Fáfnis hafi á síðustu árum sótt fast að fá aðild
að Hells Angels. Stór vélhjólagengi á borð við þau samtök hafi haldið uppi
skipulagðri glæpastarfsemi og væru alþjóðlegt vandamál, en þau leitist við að
auka umsvif sín og stækka áhrifasvæði sitt. Mörg slík samtök tengist fjárkúgun,
ofbeldi, fíkniefnaviðskiptum, vopnasmygli, skipulagningu vændis og mansali. Með
því að Fáfnir hafi gerst stuðningsklúbbur Hells Angels hafi hópur manna, sem
ítrekað hafi komist í kast við lögin hér á landi, stofnað til formlegra tengsla
við skipulögð alþjóðleg glæpasamtök.
Í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá febrúar 2009 var meðal
annars fjallað um vélhjólagengi og vísað til þess að Fáfnir hafi hlotið
viðurkenningu sem stuðningsklúbbur Hells Angels hér á landi. Með því hafi hópur
manna á Íslandi stofnað til formlegra tengsla við alþjóðleg glæpasamtök og lægi
fyrir að félagsmenn í Fáfni stefndu að fullri aðild að þeim, en alls staðar,
þar sem Hells Angels hafi náð að skjóta rótum, hafi aukin skipulögð
glæpastarfsemi fylgt í kjölfarið.
Í frétt, sem birtist á vefmiðlinum visir.is 4. mars 2009, kom fram að
vélhjólaklúbburinn Fáfnir myndi innan skamms „opna nýtt klúbbhús í
Hafnarfirði“, en hann hafi á árinu 2008 misst leiguhúsnæði, sem hann hafi haft
til afnota við Frakkastíg í Reykjavík.
Á vefmiðlinum visir.is birtist 1. september 2009 frétt undir fyrirsögninni
„Sviku sig inn í Vítisenglana“. Þar sagði meðal annars að vélhjólaklúbburinn
Fáfnir hafi „verið lagður niður og hefur hlotið formlega stöðu sem
stuðningsklúbbur Vítisengla. Hann hefur nú tekið upp nafn Vítisenglanna, eða
Hells Angels.“ Hermt var að „tugmilljónasvik nokkurra ungra manna út úr
Íbúðalánasjóði og tveimur hlutafélögum fyrr í sumar hafi verið lokaprófið sem
samtökin alþjóðlegu lögðu fyrir Fáfnisliða áður en þeim var veitt aðild.“ Það
væri „alþekkt að Vítisenglar láti umsækjendur sanna sig með því að fremja
afbrot af þessu tagi ... Fáfnisliðar sóttu nýverið fund Vítisengla í Englandi
og sneru aftur þaðan sem aðilar að samtökunum. Í tilkynningu frá
ríkislögreglustjóra er fullyrt að Fáfnir muni að óbreyttu geta sótt um fulla
aðild að Vítisenglunum á seinni hluta næsta árs.“
Í Fréttablaðinu 12. september 2009 var greint frá því að Fáfnir hafi hlotið
„stöðuhækkun í Hells Angels samtökunum og kallast nú Hells Angels Prospect.“ Af
því tilefni hafi ríkislögreglustjóri gefið út „yfirlýsingu um ógnirnar sem að
þjóðfélaginu steðjuðu vegna þessa“ og lagt til að „klúbbar af þessu tagi yrðu
hreinlega bannaðir með lögum.“
Á vefmiðlinum dv.is birtist 4. mars 2011 frétt undir fyrirsögninni „Hells
Angels MC Iceland: Við erum orðnir fullgildir meðlimir“. Þetta var haft eftir
nafngreindum forsvarsmanni vélhjólaklúbbsins og sagt að í upphafi árs 2008
„stofnaði MC Iceland (sem áður hét Fáfnir) til formlegra tengsla við Hells
Angels með því að gerast stuðningsklúbbur samtakanna, sem skilgreind eru sem
alþjóðleg glæpasamtök ... Árið 2009 lagði klúbburinn á Íslandi formlega niður
nafnið Fáfnir og tók upp opinbera nafnið MC Prospect of Hells Angels Iceland.“
III
Í aðilaskýrslu, sem áfrýjandi gaf við aðalmeðferð málsins í héraði, kvaðst
hann hafa verið félagsmaður í Fáfni, en hætt „þegar þeir fóru í þetta
inngönguferli.“ Hann kvað það hafa gerst „2007 einhvern tímann þá minnir mig að
hafi verið“, en hann hafi ekki haft áhuga á að vera í samtökunum lengur og
„alls ekki að tengjast Hells Angels.“ Síðar í skýrslunni kvað hann þetta hafa
gerst „á því tímabili
þegar þeir gerast áhangendur.“ Við skýrslugjöfina voru
lagðar spurningar fyrir áfrýjanda varðandi húsakynni vélhjólaklúbbsins við
Gjáhellu í Hafnarfirði og lýsti hann þeim nokkuð, en þangað kvaðst hann síðast
hafa komið „í kringum 2007.“
Fyrir Hæstarétti hafa stefndu lagt fram ýmis ný gögn, sem þeir telja sýna
að áfrýjandi hafi á árinu 2012 enn verið félagsmaður í Fáfni eða samtökum, sem
komið hafi í hans stað. Meðal annars fengu stefndu tekna skýrslu fyrir dómi 16.
júní 2014 af vitni, sem kvaðst hafa gengið úr Fáfni á árinu 2012 og sagði
áfrýjanda þá enn hafa verið í samtökunum.
IV
Við úrlausn málsins verður að virða greinina, sem dómkröfur áfrýjanda snúa
að, sem eina heild og láta ekki við það sitja að horfa einangrað á þau ummæli,
sem hann telur fela í sér meiðyrði í sinn garð.
Í fyrirsögn greinarinnar, sem beinlínis var tengd nafni áfrýjanda með orðum
sem komu í framhaldi af henni, var hermt að hann væri sagður hátt settur í
stærstu glæpasamtökum heims og hefði 19.000 krónur í mánaðarlaun. Í greininni
kom fram að áfrýjandi væri „samkvæmt ríkisskattstjóra“ með lág laun eða 19.010
krónur á mánuði, svo og að í refsidómi á hendur syni hans segði að sá, sem brot
í því máli beindist að, hafi borið að sonur áfrýjanda hafi sagt við sig að
faðir sinn væri hátt settur í stærstu glæpasamtökum heims og væri lítið mál að
láta menn á hans vegum vinna barnshafandi konu fórnarlambsins mein. Áfrýjandi
hefur ekki andmælt því sérstaklega að ályktun í greininni um fjárhæð tekna hans
á árinu 2011 hafi verið rétt ef miðað var við álagningarskrá. Því fer fjarri að
skilja megi umfjöllun í greininni um tekjur hans á þann veg að þar hafi verið
átt við ábata af brotastarfsemi, svo sem hann heldur fram í málinu. Af
framlögðu endurriti af dómi á hendur syni áfrýjanda er jafnframt ljóst að ummæli
úr dóminum, sem tekin voru upp í greininni, voru höfð rétt eftir. Eru því ekki
efni til að verða við kröfum áfrýjanda að því leyti, sem þær varða ummælin sem
hér hefur verið fjallað um.
Í upphafi meginmáls greinarinnar sagði að liðsmenn félaga, sem lögregla
hafi sett á lista yfir samtök sem stundi skipulagða glæpastarfsemi, væru ekki
með há laun samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra, en vefmiðillinn hafi
kannað laun nokkurra einstaklinga, sem opinberlega hafi verið kenndir við slík
samtök eða kenndu sig við þau sjálfir, meðal annars liðsmanna Hells Angels og
stuðningsklúbbs þeirra samtaka. Þótt áfrýjandi hafi ekki sérstaklega verið
nafngreindur í þessu samhengi var í framhaldi af því rætt um að hann hafi verið
meðlimur í Hells Angels eða Fáfni, eins og samtökin hafi heitið þá, og tiltekið
hverjar mánaðarlegar tekjur hans hafi verið á árinu 2011 miðað við álagningu
opinberra gjalda. Mátti áfrýjandi því líta svo á að hann væri meðal þeirra, sem
framangreindum ummælum var beint að.
Af því, sem áður hefur verið rakið, er sýnt að vélhjólaklúbburinn Fáfnir
hafði að mati lögreglu allt frá árinu 2002 verið í tengslum við samtökin Hells
Angels og var að auki á þeim tíma viðurkennt af hendi vélhjólaklúbbsins að hann
hafi sótt um inngöngu í þau. Í apríl 2008 staðfesti forráðamaður klúbbsins opinberlega
að hann hafi fengið inngöngu „í Hells Angels fjölskylduna“ og í september 2009
voru fluttar af því fréttir að heiti hans hafi verið breytt því til samræmis. Í
fyrrnefndum skýrslum ríkislögreglustjóra frá júní 2008 og febrúar 2009 var lagt
til grundvallar að samtökin Hells Angels legðu stund á skipulagða
brotastarfsemi. Að þessu virtu mátti að ósekju ræða í greininni um
vélhjólaklúbbinn Fáfni, hvort sem er undir því nafni eða öðru heiti sem hann
kann síðar að hafa tekið upp, sem samtök, sem stundi skipulagða glæpastarfsemi
eða tengist henni. Áfrýjandi lýsti því sem áður segir fyrir dómi að hann hafi
verið félagsmaður í vélhjólaklúbbnum Fáfni. Ekki getur ráðið úrslitum hvenær
hann gekk nákvæmlega úr samtökunum, enda sagði í greininni að tekjukönnunin,
sem hún sneri að, tæki meðal annars til „liðsmanna Hells Angels“ og „liðsmanna
stuðningsklúbba“ þeirra samtaka, sem vélhjólaklúbburinn Fáfnir gat greinilega
talist til. Að auki getur eftir gögnum málsins vart staðist að áfrýjandi hafi í
raun gengið úr klúbbnum og síðast komið í húsakynni hans á árinu 2007, svo sem
hann bar fyrir dómi, enda lýsti hann í skýrslu sinni staðháttum í húsnæði við
Gjáhellu í Hafnarfirði, sem klúbburinn tók ekki í notkun fyrr en í mars 2009. Til
þess verður og að líta að í greininni sagði að áfrýjandi væri „fyrrverandi
meðlimur Hells Angels eða Fáfnis eins og samtökin hétu þá“, en hann hefði hætt í
þeim. Ummælin, sem hér um ræðir, voru þannig réttmæt í því samhengi sem þau
voru sett fram.
Áfrýjandi hefur ekki fært haldbær rök fyrir því að lokaorð greinarinnar,
sem fólu í sér ábendingu um að áskrifendur að DV gætu nálgast á tiltekinn hátt
upplýsingar um laun nokkurra þekktra manna í undirheimum, geti talist meiðyrði
í sinn garð.
Samkvæmt öllu framangreindu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins
og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Hilmar Leifsson, greiði stefndu, Reyni
Traustasyni, Jóni Trausta Reynissyni og DV ehf., hverjum fyrir sig 350.000
krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. desember 2013.
I.
Mál þetta var höfðað 11. desember
2012 og dómtekið 25. nóvember 2013 að loknum munnlegum málflutningi.
Stefnandi
er Hilmar Leifsson, til heimilis að Andarhvarfi 2, Kópavogi, en stefndu eru
Reynir Traustason, til heimilis að Aðaltúni 20, Mosfellsbæ og Jón Trausti
Reynisson, til heimilis að Vesturgötu 79, Reykjavík., en til vara á hendur DV
ehf., Tryggvagötu 19, Reykjavík.
Stefnandi
krefst þess að eftirfarandi ummæli í stafliðum A til G, sem birt voru á
vefsvæðinu dv.is, þann 5. ágúst 2012, verði dæmd dauð og ómerk á grundvelli
235. gr. og 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr.
241. gr. sömu laga:
„A.
Sagður hátt settur í „stærstu glæpasamtökum heims“ með 19 þúsund á mánuði.
B.
Liðsmenn félaga sem íslensk lögregluyfirvöld hafa sett á athugunarlista yfir
samtök sem stunda skipulagða glæpastarfsemi eru ekki með há laun miðað við
álagningarskrá.
C.
DV kannaði laun nokkurra einstakling sem opinberlega hafa verið kenndir við eða
kenna sig sjálfir við samtök sem sögð eru tengjast skipulagðri glæpastarfssemi.
D.
Meðal annars kannaði DV tekjur liðsmanna Hells Angels, Outlaws, liðsmanna
stuðningsklúbba þessara félaga auk þekktra ofbeldismanna.
E.
Hilmar Þór Leifsson er fyrrverandi meðlimur Hells Angels
F
..að faðir sinn væri háttsettur í „stærstu glæpasamtökum heims“ og að lítið mál
væri að láta menn á hans vegum vinna barnshafandi konu fórnarlamsins mein.
G.
Áskrifendur geta lesið allt um laun nokkra þekktra mann í undirheimum með því
að smella á „Meira“.
Til
vara er byggt á því að ofangreind ummæli varði við 234. gr., sbr. 2. mgr. 236.
gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 á þeim grundvelli verði ummælin dæmd
dauð og ómerk, sbr. 1. mgr. 241. gr. sömu laga.
2.
Þess er krafist að stefndu verði dæmdir til refsingar fyrir ofangreindar
ærumeiðandi aðdróttanir sem tilgreindar eru í stafliðum A til og með G í
kröfulið 1 í stefnu, og birtar voru á vefsvæðinu dv.is, 5. ágúst 2012, en
stefndu bera refsiábyrgð á ummælunum að lögum sbr. c. lið 1. mgr. 51. gr. laga
nr. 38/2011, sbr., 235. gr., sbr. 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr.
19/1940. Til vara er byggt á því að hin tilvitnuðu ummæli séu ærumeiðandi
móðganir og varði við 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. mgr.
236. gr. sömu laga.
3.
Þess er krafist að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda
miskabætur að fjárhæð krónur 1.000.000,-, með vöxtum skv. 1. ml. 4. gr. laga
nr. 38/2001, frá 5. águst 2012 til 5. mars 2013, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags,
sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga.
4.
Þess er krafist að forsendur og dómsorð verði birt í DV eigi síðar en 7 dögum
eftir að dómur gengur í málinu, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð krónur
50.000,-, fyrir hvern dag sem líður án þess að birting dómsins fari fram.
5.
Þess er krafist að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað
samkvæmt síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti. Krafist er 25,5%
virðisaukaskatts ofan á dæmdan málskostnað, en stefndi er ekki
virðisaukaskattskyldur.
6.
Sú krafa er gerð að ábyrgð varastefnda DV ehf., kt.
590310-0420, Tryggvagötu 11, Reykjavík, á
greiðslu skaðabóta aðalstefndu til stefnanda, verði viðurkennd.“
Stefndu
krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að skaðlausu,
aðallega skv. 131. gr. laga nr. 91/1991, en til vara samkvæmt 130. gr. Þá er
þess krafist að málskostnaður verði ákvarðaður í samræmi við 2. mgr. 27. gr.
sömu laga.
II.
Málavextir eru þeir að hinn 5. ágúst
2012, birtist á vefsvæðinu dv.is umfjöllun um stefnanda með fyrirsögninni Sagður hátt settur í „stærstu glæpasamtökum
heims“ með 19 þúsund á mánuði. Á vefsvæðinu voru einnig eftirfarandi ummæli
látin falla, sem einnig er krafist ómerkingar á: Liðsmenn félaga sem íslensk lögregluyfirvöld hafa sett á athugunarlista
yfir samtök sem stunda skipulagða glæpastarfsemi eru ekki með há laun miðað við
álagningarskrá.[
] DV kannaði laun nokkurra einstakling sem opinberlega hafa
verið kenndir við eða kenna sig sjálfir við samtök sem sögð eru tengjast
skipulagðri glæpastarfssemi. Meðal
annars kannaði DV tekjur liðsmanna Hells Angels, Outlaws, liðsmanna
stuðningsklúbba þessara félaga auk þekktra ofbeldismanna. [
] Hilmar Þór Leifsson er fyrrverandi meðlimur
Hells Angels
[
] ..að
faðir sinn væri háttsettur í „stærstu glæpasamtökum heims“ og að lítið mál væri
að láta menn á hans vegum vinna barnshafandi konu fórnarlamsins mein. [
] Áskrifendur geta lesið allt um laun nokkra
þekktra mann í undirheimum með því að smella á „Meira“.
Kom eftirfarandi umfjöllun fram um
stefnanda í greininni: „Á þeim tíma
sem Hilmar var meðlimur var Fáfnir í formlegu inngönguferli fyrir Vítisengla.
Hilmar er sagður hafa hætt í samtökunum vegna áreitisins sem þeim fylgir.
Hilmar er samkvæmt ríkisskattstjóra með lág laun, eða aðeins 19.010 krónur á
mánuði.“
Fram
kom í umfjölluninni eins og áður segir að stefnandi væri fyrrverandi meðlimur
Hells Angels eða Fáfnis eins og samtökin hafi áður heitið. Á þeim tíma sem
stefnandi hefði verið meðlimur hafi Fáfnir verið í formlegu inngönguferli inn í
samtök Vítisengla. Stefnandi hafi hætt í samtökunum vegna þess áreitis sem þeim
hefði fylgt. Þá var í vefritinu að finna eftirfarandi umfjöllun um son
stefnanda: „Árið 2010 var Skúli dæmdur í fangelsi fyrir að kýla annan mann
„margsinnis með krepptum hnefa í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut opið
beinbrot á nefi, bólgu og mar umhverfis hægra auga og mar við vinsta auga.“
Segir í dómnum að Skúli hafi talið að fórnarlambið væri í tygjum við kærustu
sína. Fyrir dómnum kom einnig fram að Skúli hefði hótað fórnarlambi sínu og
meðal annars sagt við hann að faðir sinn væri háttsettur í „stærstu
glæpasamtökum heims“ og að lítið mál væri að láta menn á hans vegum vinna
barnshafandi konu fórnarlambsins mein.“
Með
bréfi, dags. 10. september 2012, var athygli stefndu vakin á því að tilgreind
ummæli sem væri að finna í fréttinni væru ærumeiðandi aðdróttanir í skilningi
235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var þess farið á leit að upplýst
yrði hver bæri ábyrgð á fréttinni að lögum. Ekkert svar barst við bréfinu frá
stefndu.
Stefnandi
gaf skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Tók hann fram að hann hefði
verið meðlimur í Fáfni en hefði hætt í þeim samtökum árið 2007, þegar hugmyndir
voru uppi um að tengjast Hells Angels. Tók stefnandi fram að hann hefði aldrei verið
meðlimur í Hells Angels.
III.
1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að
stefndu hafi vegið með alvarlegum hætti að æru stefnanda með ummælum og
umfjöllun um hann á vefsvæðinu dv.is, þann 5. ágúst 2012. Í umfjöllun DV í
heild, einstökum ummælum, fyrirsögnum, millifyrirsögnum, framsetningu efnis og
myndbirtingu felist ærumeiðandi aðdróttanir í garð stefnanda. Í umfjöllun DV sé
því ítrekað haldið fram að stefnandi sé meðlimur í skipulögðum glæpasamtökum og
hafi framfleytt sér með háttsemi sem varði við lög, sbr. 175. gr. a almennra
hegningarlaga nr. 19/1940.
Umrædd ummæli verði ekki skilin með öðrum hætti en að
stefnandi sé eða hafi verið liðsmaður Hells Angels, og að laun hans fyrir störf
í undirheimunum nemi 19.000 krónum á mánuði. Í fréttinni sé enn fremur fullyrt
að stefnandi sé háttsettur í stærstu glæpasamtökum heims og látið að því liggja
að hann víli ekki fyrir sér að senda menn til þess að vinna barnshafandi konum
mein.
Ummælin verði ekki skilin á annan veg en að stefnandi
sé glæpamaður og félagi í glæpasamtökum og að hann framfleyti sér með glæpum.
Með greindum ásökunum sé stefnanda gefin að sök refsiverð háttsemi sem margra
ára fangelsi liggi við, sbr. 175. gr. almennra hegningarlaga og samkvæmt 217.
eða 218. gr. sömu laga.
Verði ekki fallist á það að með hinum umstefndu
ummælum stefnandi ásakaður um háttsemi sem varði við 175. gr. a almennra
hegningarlaga nr. 19/1940, sé engu að síður byggt á því að um refsiverðar
ærumeiðandi aðdróttanir sé að ræða enda sé stefnandi berum orðum sakaður um að
vera glæpamaður og meðlimur í skipulögðum glæpasamtökum sem og að framfleyta
sér á glæpum.
Öll hin umstefndu ummæli séu ærumeiðandi aðdróttanir
og feli í sér brot gegn 235. gr. og 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr.
19/1940. Því beri að ómerkja ummælin með vísan til 1. mgr. 241. gr. sömu laga.
Ummælin séu ósönn, óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin
að sverta stefnanda, en stefnandi hafi aldrei verið liðsmaður í Hells Angels
eða öðrum glæpasamtökum. Ummælin séu því uppspuni frá rótum. Hagsmunir
stefnanda af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk séu því miklir. Verði ekki
fallist á að ummælin varði 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 byggir
stefnandi á því til vara, að ummælin varði við 234., sbr. 2. mgr. 236. gr. sömu
laga og að á þeim grundvelli verði þau dæmd dauð og ómerk.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir til
refsingar, fyrir ærumeiðandi aðdróttanir í garð stefnanda, sbr. 235. gr.
almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk þess sem þau hafi verið birt og borin
út opinberlega, sbr. 2. mgr. 236. gr. sömu laga. Til vara byggir stefnandi á
því að um ærumeiðandi móðganir hafi verið að ræða í skilningi 234. gr. laga nr.
19/1940, sbr. 2. mgr. 236. gr. sömu laga.
Kröfu um miskabætur byggir stefnandi á 26. gr.
skaðabótalaga nr. 50/1993 og kröfu um birtingu dóms á 59. gr. laga nr. 38/2011,
um fjölmiðla.
Krafa stefnanda um viðurkenningu á ábyrgð á DV ehf. á
greiðslu skaðabóta sem stefndu kann að vera gert að greiða stefnanda er byggð á
2. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011. Ábyrgðin sé lögboðin og taki með hliðsjón af
kröfugerð stefnanda í málinu til skaðabóta vegna miska og málskostnaðar.
Kröfu
sína um vexti og dráttarvexti byggir stefnandi á IV. kafla laga nr. 38/2001,
sbr. 1. málsl. 4. gr., sbr. 8. gr. laganna, þar sem segi að skaðabótakröfur
beri vexti frá þeim degi sem hið bótaskylda atvik átti sér stað. Hin umdeilda
birting hafi átt sér stað 3. ágúst 2012. Krafa um dráttarvexti er byggð á 1.
mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. sömu laga, en þar komi fram að
skaðabótakröfur beri dráttarvexti þegar liðinn er mánuður frá þeim degi þegar
kröfuhafi lagði fram upplýsingar til að meta tjón og fjárhæð bóta. Í því
tilviki sem hér um ræði sé miðað við kröfubréf stefnanda til stefndu, dags. 19.
október 2012, og sé því krafist dráttarvaxta frá 19. nóvember 2012 til
greiðsludags.
2. Helstu málsástæður og lagarök stefndu
Stefndu taka fram að
ummælin Sagður háttsettur í stærstu
glæpasamtökum heims með 19.000 krónur á mánuði séu höfð eftir syni
stefnanda og að hann verði þess vegna að beina ómerkingarkröfu sinni að honum.
Stefndu hafi ekki fullyrt neitt í þeim efnum.
Ummælin Liðsmenn félaga sem íslensk lögregluyfirvöld
hafa sett á athugunarlista yfir samtök sem stunda skipulagða glæpastarfsemi eru
ekki með há laun miðað við álagningarskrá séu sönn og ekki meiðandi og því
síður utan marka tjáningarfrelsisins.
Ummælin DV
kannaði laun nokkurra einstakling sem opinberlega hafa verið kenndir við eða
kenna sig sjálfir við samtök sem sögð eru tengjast skipulagðri glæpastarfssemi
sé ekki hægt að ómerkja þar sem um sögulegar staðreyndir sé að ræða.
Ummælin Meðal
annars kannaði DV tekjur liðsmanna Hells Angels, Outlaws, liðsmanna
stuðningsklúbba þessara félaga auk þekktra ofbeldismanna verði ekki ómerkt
enda hafi DV einfaldalega kannað laun þessara aðila.
Ummælin Hilmar
Þór Leifsson er fyrrverandi meðlimur Hells Angels
hafi verið slitin úr
samhengi, en setning hafi í heild sinni verið svohljóðandi: „Hilmar Þór
Leifsson er fyrrverandi meðlimur Hells Angels, eða Fáfnis eins og samtökin hétu
þá.“ Síðan komi fram að aðeins sé verið að tengja stefnanda við Hells Angels í
gegnum Fáfni sem hafi verið í inngönguferli meðan stefnandi hafi verið í
félaginu, en síðan hafi hann gengið úr því. Allt sé þetta satt.
Að því er varðar ummælin
að faðir hans væri háttsettur í „stærstu glæpasamtökum heims“ og að
lítið mál væri að láta menn á hans vegum vinna barnshafandi konu fórnarlamsins
mein taka stefndu fram að ummælin séu tekin úr dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.
Að lokum telja stefndu að ummælin Áskrifendur geta lesið allt um laun nokkra
þekktra manna í undirheimum með því að smella á „Meira“ séu sönn og ekki
verði séð að hvaða leyti þau beinist sérstaklega að stefnanda.
Stefndu
telja að ekkert í umræddri blaðagrein eigi að valda stefnanda miska a.m.k. sé
þar ekkert sem gæti leitt til réttar um miskabætur. Þótt réttur til að leita
til dómstóla sé stjórnarskrárbundinn megi ekki misnota hann með því að snúa út
úr blaðagreinum og krefjast síðan refsingar og miskabóta á grundvelli þess
útúrsnúnings.
Með
vísan til framangreinds telja stefndu enga ástæðu til þess að fallast á
refsikröfur. Þá sé í stefnu ekki minnst á það sem raunverulega standi í
greininni og sé refsikrafan því með öllu vanreifuð.
Engin
skilyrði séu til að beita 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, enda
skorti öll huglæg skilyrði til þess. Að því er varði 235. gr., sömu laga hafi
engu verið dróttað að stefnanda. Allt sem sagt er sé rétt og réttlætanlegt.
Ekki felist ærumeiðing í skilningi 234. gr. almennra hegningarlaga í neinum
þessara ummæla. Í öllum tilvikum beri að fella niður refsingu á grundvelli 239.
gr. almennra hegningarlaga, enda hátterni stefnanda með þeim hætti.
Stefndu
telja með vísan til framangreinds að ekki séu nein skilyrði til að fallast á
kröfu stefnanda um birtingu dóms.
Stefndu
byggja á því að fjölmiðlar hafi víðtækum skyldum að gegna og að efni af því
tagi sem hér um ræði eigi erindi við almenning. Á slíka umfjöllun verði ekki
lagðir fjötrar. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að farið hafi verið út fyrir
mörk tjáningarfrelsisins.
Stefndu
mótmæla kröfu um málskostnað, svo og vaxtakröfu. Krafa um viðurkenningu á
ábyrgð DV sé óskiljanleg því DV hafi ekki verið stefnt í málinu nema til vara.
Af þeim sökum sé ekki tilefni til að fjalla um þá kröfu.
IV.
Stefnandi krefst í fyrsta lagi
ómerkingar ummæla. Er sú krafa reist á 235. gr. og 2. mgr. 236. gr., sbr. 1.
mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga, en til vara á 234. gr., sbr. 2. mgr. 236.
gr., og 1. mgr. 241. sömu laga. Í öðru lagi krefst stefnandi þess að stefndu
verði dæmdir til refsingar. Byggir sú krafa á c-lið 1. mgr. 51. gr. laga nr.
38/2011, sbr., 235. gr., sbr. 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr.
19/1940, en til vara á því að hin tilvitnuðu ummæli séu ærumeiðandi móðganir og
varði við 234. gr. sbr. 2. mgr. 236. gr. sömu laga. Í þriðja krefst stefnandi
greiðslu miskabóta. Í fjórða lagi krefst stefnandi þess að forsendur og dómsorð
verði birt í DV. Að lokum er krafist viðurkenningar á ábyrgð DV ehf. til
greiðslu skaðabóta.
Svo
sem að framan greinir birtist þann 5. ágúst 2012, umfjöllun um stefnanda á
vefsvæðinu dv.is með fyrirsögninni: Sagður
hátt settur í „stærstu glæpasamtökum heims“ með 19 þúsund á mánuði. Er
krafist ómerkingar á greindum ummælum auk eftirtalinna ummæla sem birtust í
umfjölluninni á vefsvæðinu: Liðsmenn
félaga sem íslensk lögregluyfirvöld hafa sett á athugunarlista yfir samtök sem
stunda skipulagða glæpastarfsemi eru ekki með há laun miðað við álagningarskrá.
[
] DV kannaði laun nokkurra einstakling
sem opinberlega hafa verið kenndir við eða kenna sig sjálfir við samtök sem
sögð eru tengjast skipulagðri glæpastarfssemi. Meðal annars kannaði DV tekjur
liðsmanna Hells Angels, Outlaws, liðsmanna stuðningsklúbba þessara félaga auk
þekktra ofbeldismanna. [
] Hilmar Þór
Leifsson er fyrrverandi meðlimur Hells Angels [
] ... að faðir sinn væri háttsettur í „stærstu glæpasamtökum heims“ og að
lítið mál væri að láta menn á hans vegum vinna barnshafandi konu fórnarlamsins
mein. [
] Áskrifendur geta lesið allt
um laun nokkra þekktra mann í undirheimum með því að smella á „Meira.“
Stefnandi
telur að með ummælunum hafi verið vegið að æru hans, þar sem því sé haldið fram
að hann sé meðlimur í skipulögðum glæpasamtökum og hafi framfleytt sér á
háttsemi er fari í bága við 175. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Byggir stefnandi á því að öll hin umstefndu ummæli séu ærumeiðandi aðdróttanir
er feli sér brot gegn 235. og 2. mgr. 236. gr. laga nr. 19/1940 og því beri að
ómerkja ummælin með vísan til 1. mgr. 241. gr. sömu laga, en til vara að
ummælin varði við 234. gr., sbr. 2. mgr. 236. gr. sömu laga.
Samkvæmt
1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 eru allir frjálsir skoðana sinna
og sannfæringar. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að hver maður eigi rétt á að láta í
ljós skoðanir sínar, en að hann verði að ábyrgjast þær fyrir dómi. Ritskoðanir
og aðrar tálmanir á tjáningarfrelsi megi þó aldrei í lög leiða. Samkvæmt 3.
mgr. ákvæðisins má tjáningarfrelsi aðeins setja skorður með lögum í þágu
allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna
vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist
lýðræðishefðum. Þá er mælt fyrir um í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar að
allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Verður því að
skýra ákvæði XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem mælir fyrir um
ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs, með hliðsjón af þessu.
Samkvæmt
234. gr. laga nr. 19/1940 skal hver sá sem meiðir æru annars manns með móðgun í
orðum eða athöfnum, og hver, sem ber slíkt út, sæta sektum eða fangelsi allt að
einu ári.
Í
235. gr. laga nr. 19/1940 er mælt fyrir um að ef maður dróttar að öðrum manni
einhverju því, sem verða myndi virðingu hans til hnekkis, eða ber slíka
aðdróttun út, þá varði það sektum eða fangelsi allt að einu ári.
Þá
segir í 236. gr. laga nr. 19/1940 að sé ærumeiðandi aðdróttun höfð í frammi eða
borin út gegn betri vitund, þá varði það fangelsi allt að tveimur árum og sé
aðdróttun birt eða borin út opinberlega, enda þótt sakaráberi hafi ekki haft
sennilega ástæðu til að halda hana rétta, þá varði það sektum eða fangelsi allt
að tveimur árum.
Samkvæmt
1. mgr. 241. gr. laganna má í meiðyrðamáli dæma óviðurkvæmileg ummæli ómerk, ef
sá krefst þess sem misgert var við. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins má dæma þann
sem sekur reynist um ærumeiðandi aðdróttun, til þess að greiða þeim, sem
misgert var við, ef hann krefst þess, hæfilega fjárhæð til þess að standast
kostnað af birtingu dóms, atriðisorða hans eða forsendna jafnframt eftir því
sem ástæða þykir til, í opinberu blaði eða riti, einu eða fleirum.
Við
mat á því hvar draga skuli mörkin milli tjáningarfrelsis sem nýtur verndar
samkvæmt 73. gr. stjórnarskrár, og friðhelgi einkalífs, sem varin er af 71. gr.
hennar, skiptir máli hvort það efni sem birt er geti talist þáttur í
þjóðfélagslegri umræðu og eigi þannig erindi til almennings. Hafa fjölmiðlar
mikilvægu hlutverki að gegna við miðlun upplýsinga og skoðana um þjóðfélagsleg
málefni. Á almenningur rétt á að fá upplýsingar sem slík málefni varða og þurfa
sérstaklega ríkar ástæður að vera fyrir því að skerðing á frelsi fjölmiðla geti
talist nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi eins og nánar kemur fram í dómum
Hæstaréttar Íslands, m.a. dómi frá 15. nóvember 2012 í máli nr. 69/2012. Slíkar
skerðingar geti eftir atvikum átt við séu ósönn ummæli birt eða borin út
opinberlega gegn betri vitund.
Í
skýrslu sem tekin var af stefnanda við aðalmeðferð málsins staðfesti stefnandi
að hann hefði verið meðlimur í vélhjólasamtökunum Fáfni til ársins 2007, er
hann hafi ákveðið að hætta.
Í
skýrslu ríkislögreglustjóra um „Mat ríkislögreglustjóra á skipulagðri
glæpastarfsemi og hættu á hryðjuverkum“ sem gefin var út í febrúar 2009, segir
í kafla 8 þar sem fjallað er um vélhjólagengi: „Íslenski vélhjólaklúbburinn
Fafner MC-Iceland (Fáfnir) hefur hlotið viðurkenningu sem „stuðningsklúbbur“
Hells Angels hér á landi. Þar með hefur hópur manna á Íslandi stofnað til
formlegra tengsla við alþjóðleg glæpasamtök. Fyrir liggur að félagar í Fafner
MC-Iceland stefna að fullri aðild að Hells Angels-samtökunum.“
Samkvæmt
framangreindu þykir ljóst að stefnandi var félagsmaður í samtökum sem tengd
hafa verið við skipulagða glæpastarfsemi. Af því leiðir að umfjöllun sem
birtist á vefsvæðinu dv.is þann 5. ágúst 2007 er sönn að því leyti að stefnandi
hafi verið liðsmaður samtaka sem stunda skipulagða glæpastarfsemi. Á hinn
bóginn verður ekki talið sannað að stefnandi hafi verið liðsmaður Hells Angels,
eins og haldið er fram í umræddri umfjöllun sem birtist á vefsvæðinu dv.is. Eru
engin haldbær gögn sem styðja þann málatilbúnað stefndu.
Ummæli
þau sem birtust á vefsvæði dv.is verður að meta í heild. Meginatriðið er að í
umfjölluninni er sett fram hvöss gagnrýni m.a. á stefnanda með því að tengja
hann við félagsskap sem talinn er stunda glæpastarfsemi og þar sem opinberar
tekjur einstakra félagsmanna miðað við álagningarskrá ríkisskattstjóra, þar á
meðal stefnanda, eru mjög dregnar í efa. Að auki er gefið í skyn að auðvelt sé
að fá stefnanda til að vinna tiltekin óhæfuverk.
Í
greininni er kveðið fast að orði. Á hinn bóginn var stefnandi félagsmaður í
samtökum sem opinberlega hafa verið tengd við skipulagða glæpastarfsemi enda
þótt þau samtök hafi ekki borið nafnið Hells Angels, eins og ranglega segir í
umfjölluninni, heldur Fáfnir. Félagsmenn í þessum samtökum mega búast við því
að verða gagnrýndir óvægilega og í samræmi við þá glæpastarfsemi sem þau eru
opinberlega og almennt talin standa fyrir.
Dómurinn
telur að fyrrgreind ummæli fari ekki út fyrir mörk tjáningarfrelsisins miðað
við atvik máls þessa. Ber því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda í máli
þessu.
Með
vísan til 1. og 4. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, er stefnandi dæmdur til að
greiða stefndu 300.000 krónur í málskostnað.
Ragnheiður
Snorradóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
DÓMSORÐ:
Stefndu,
Reynir Traustason, Jón Trausti Reynisson og DV ehf., eru sýknuð af kröfum
stefnanda, Hilmars Leifssonar.
Stefnandi
greiði stefndu 300.000 krónur í málskostnað.