Hæstiréttur íslands

Mál nr. 526/2013


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Nauðung
  • Misneyting
  • Vændi
  • Fyrning
  • Miskabætur


                                     

Fimmtudaginn 31. október 2013.

Nr. 526/2013.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

Karli Þorsteinssyni

(Jóhannes Ásgeirsson hrl.

Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

(Björgvin Jónsson hrl.

Þórdís Bjarnadóttir hrl. réttargæslumenn)

Kynferðisbrot. Nauðgun. Misneyting. Vændi. Fyrning. Miskabætur.

K var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn B, A og D með því að hafa í nánar tilgreind skipti haft við þá kynferðismök, en K notfærði sér að mennirnir gátu ekki spornað gegn verknaðinum sökum andlegrar fötlunar ennfremur sem hann fékk þá til kynmaka með peningagreiðslum og eftir atvikum öðrum gjöfum, en þó ekki í hvert sinn. Var háttsemi K gagnvart A talin varða við 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fram til 4. apríl 2007, er lög nr. 61/2007 tóku gildi, en frá þeim tíma við 2. mgr. 194. gr. sömu laga. K var hins vegar sýknaður af broti gegn 1. mgr. 206. gr. laganna þar sem brot hans gegn A áttu sér stað fyrir 1. maí 2009 er lög nr. 54/2009 tóku gildi. Þá var háttsemi K gagnvart B og D talin varða við 2. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga. K játaði að auki kynferðisbrot gegn C sem talin voru varða við 209. gr. almennra hegningarlaga fram til 4. apríl 2009 og eftir það við 199. gr. laganna. Þar sem meira en fimm ár voru liðin síðan hinum refsiverða verknaði lauk voru brot K gagnvart C talin fyrnd og var honum því ekki refsað fyrir þá háttsemi. Var refsing K ákveðin fangelsi í 7 ár auk þess sem honum var gert að greiða B, A og D miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson, Eiríkur Tómasson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. júlí 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða verði staðfest, en að honum verði ákvörðuð refsing vegna sakargifta í III. kafla ákæru og refsing hans þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfum verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að þær verði lækkaðar.

B krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 2.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 1.200.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en til vara staðfestingar héraðsdóms.

D krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en miskabætur brotaþolanna B og A, sem ákveðnar verða til hvors um sig 1.200.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanna brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að ákærði, Karl Þorsteinsson, greiði B og A hvorum um sig 1.200.000 krónur með vöxtum eins og í héraðsdómi greinir.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 1.144.770 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Ásgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur, og þóknun réttargæslumanna brotaþola, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur og Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 7. júní 2013

Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 15. maí 2013, er höfðað með ákæru, útgefinni af ríkissaksóknara 2. apríl 2013 á hendur Karli Þorsteinssyni, kt. [...], [...], [...], fyrir eftirfarandi kynferðisbrot framin á heimili hans að [...] í [...] nema annað sé tekið fram:

I.

Nauðgun og kaup á vændi, með því að hafa ítrekað á tímabilinu frá árinu 1995 til 2011, stundum með nokkurra mánaða millibili, haft kynferðismök við A, kennitala [...], og við það notfært sér að hann gat ekki spornað við verknaðinum sökum andlegrar fötlunar en ákærði greiddi A fyrir hvert skipti með peningum, strætisvagnamiðum, áfengi eða sígarettum.

Telst þetta varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, áður 196. gr. sömu laga, og 1. mgr. 206. gr. sömu laga eftir 1. maí 2009.

II.

Nauðgun og kaup á vændi, með því að hafa ítrekað frá árinu 2007 fram í desember 2012 haft kynferðismök við B, kennitala [...], og við það notfært sér að hann gat ekki spornað við verknaðinum sökum andlegrar fötlunar en ákærði greiddi B fyrir hvert skipti með peningum á bilinu 500-3000 kr., mat, áfengi eða sígarettum.

Telst þetta varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, áður 196. gr. sömu laga, og 1. mgr. 206. gr. sömu laga eftir 1. maí 2009.

III.

Nauðgun, með því að hafa í nokkur skipti á árunum 2006 til 2007, á almenningssalernum á Lækjartorgi, í Bankastræti og á Hlemmi, haft kynferðismök við C, kennitala [...], og við það notfært sér að hann gat ekki spornað við verknaðinum sökum andlegrar fötlunar.

Telst þetta varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, áður 196. gr. sömu laga.

IV.

Nauðgun og kaup á vændi, með því að hafa a.m.k. í 4 skipti á tímabilinu frá sumrinu 2011 fram í desember 2012, haft kynferðismök við D, kennitala [...], og við það notfært sér að hann gat ekki spornað við verknaðinum sökum andlegrar fötlunar en ákærði greiddi D á bilinu 3-5.000 kr. fyrir hvert skipti.

Telst þetta varða við 2. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu A er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum miskabætur skv. 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, að fjárhæð 1.200.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 4. gr. sömu laga, frá 1. janúar 2011, en síðan dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga, sbr. 9. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Af hálfu B er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 2.500.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2013 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Af hálfu C er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 1.400.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 1. janúar 2007 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er kynnt ákærða en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags auk greiðslu þóknunar við réttargæslu að mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts á réttargæsluþóknun.

Af hálfu D er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum miskabætur skv. 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, að fjárhæð 600.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 4. gr. sömu laga, frá 1. júní 2011, en síðan dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga, sbr. 9. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður og bótakröfum verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 9. janúar sl. komi að fullu til frádráttar refsingu. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins sem greiðist úr ríkissjóði.

Málsatvik

Upphaf máls þessa var það að í sjónvarpsþættinum Kastljósi í Ríkissjónvarpinu mánudaginn 7. janúar sl. viðurkenndi ákærði kynferðisbrot gegn börnum. Var ákærði af því tilefni kallaður til skýrslutöku hjá lögreglu þriðjudaginn 8. janúar sl. Kom þar fram hjá honum að hann hefði ekki brotið gegn barni í langan tíma. Eftir árið 1986 hafi hann eingöngu átt kynferðisleg samskipti við eldri menn, á aldrinum 20 til 30 ára. Það hafi verið með þeim hætti að þeir hafi komið í heimsókn til hans og þeir hafi farið að ræða saman. Hann hafi svo farið að káfa á þeim, en báðir aðilar hafi verið samþykkir þessu. Hann kvaðst hafa hitt þessa menn á förnum vegi og boðið þeim heim. Hann taldi hugsanlegt að einhverjir þeirra hafi haft spurnir af því að hann væri svona innréttaður og kannski þurft sjálfir á því að halda að komast í þannig félagsskap. Ákærði taldi þetta ekki hafa gerst oft. Aðspurður hvort hann hafi boðið þessum mönnum greiðslu sagði ákærði að einstaka sinnum hafi þá „vantað á bensínið“. Hann hafi þá látið þá hafa 1.000 til 1.500 krónur.

Ákærði var yfirheyrður á ný 9. janúar sl. Spurður um samskipti sín við menn yfir 18 ára aldri nefndi hann sem dæmi að einn hafi verið í bílabraski og hafi vantað peninga vegna þess. Hann hafi látið hann hafa peninga fyrir bensíni. Þetta hafa staðið yfir á fimm til sjö ára tímabili. Spurður um hvort þessir peningar hafi verið fyrir kynlífsgreiða taldi ákærði það ekki alltaf hafa verið, en það hafi komið fyrir og hafi verið samþykkt af þeim báðum. Þetta hafi farið þannig fram að maðurinn hafi komið til hans og þeir farið að spjalla saman. Hann hafi síðan farið að fróa honum. Manninn hafi stundum vantað peninga vegna bifreiðar sinnar, fyrir bensíni eða einhverju slíku, og hann hafi þá látið hann hafa peninga fyrir að „fá að njóta þess að fróa“. Ákærði vildi ekki tilgreina um hvaða mann væri að ræða. Um fleiri slíka menn hafi verið að ræða, en þar hafi peningar ekki verið í spilinu. Hann kvaðst þó hafa látið annan mann fá peninga fyrir bensíni á svipuðum tíma. Þetta hafi staðið yfir til þessa dags, en þó hafi dregið mjög úr þessu. Spurður um samkomulag sem hann hafi gert við þennan mann kvaðst hann hafa langað til að fá útrás með því að fróa honum. Það hafi verið „í lagi“ og maðurinn hafi síðan fengið pening, 1.000 til 3.000 krónur, og verið „farinn með það sama“. Aðspurður hvort maðurinn hafi fengið pening í staðinn svaraði ákærði því játandi. Spurður hvort honum hafi dottið í hug að hann gæti verið að kaupa vændi sagðist ákærði hafa verið að velta því fyrir sér fyrir nokkrum dögum. Honum hafi ekki fundist þetta vera rétt og finnist það ekki enn. Ákærði kvaðst hafa kynnst þessum manni úti á götu og þeir hafi tekið tal saman. Manninn hafi vantað sígarettur og hann hafi látið hann hafa pening fyrir þeim. Hann hafi verið á bifreið öðru hvoru og þá vantað pening fyrir bensíni. Kynferðisleg samskipti þeirra hafi farið þannig fram að hann hafi fróað manninum, en maðurinn hafi einungis fróað honum í tvö skipti. Um fjölskyldumann hafi verið að ræða og hann vildi ekki nafngreina hann. Hann taldi þetta hafa staðið yfir í 5 til 8 ár og síðasta skiptið hafi verið í desember sl. Þetta hafi gerst u.þ.b. einu sinni í mánuði. Ákærði kvaðst ekki hafa látið fleiri menn hafa sígarettur eða peninga fyrir kynlífsþjónustu, en fleiri menn hefðu þó komið til hans. Þar væri um að ræða fjölskyldumenn sem hafi verið að leita eftir því að fá fróun.

Aðspurður hvort ákærði þekkti B kvað hann B hafa komið til sín fyrir löngu, ásamt kunningja sínum. Hann hefði ekki haft samband við þann mann síðan. Hann taldi það hafa verið fyrir um fjórum árum síðan, en kvað B ekki hafa verið orðinn [...] ára á þessum tíma. Hann hafi verið í sambandi við hann síðast í desember sl. Hann kvað B vera óreglumann, auk þess sem hann ætti við fleiri sálræn vandamál að stríða. Nánar spurður um heilbrigði B kvað ákærði hann ekki ganga heilan til skógar. Hann væri gríðarlega skynsamur að tala við, en hann hafi farið yfir á eiturlyfjum eða einhverju slíku. B hafi búið á sambýli fyrir þroskaskerta, en hann hafi haldið að honum hafi verið komið fyrir þar vegna þess að það væri „svoddan óregla og flökt á honum að það réði enginn við hann“. B hafi oft komið til hans og stundum hringt á undan sér. Þetta gæti hafa verið einu sinni í viku. Stundum hafi hann verið að fá sér töflur, stundum hafi hann stoppað og þeir verið að gera „þessa hluti“. Hann hafi látið B fá sígarettur og peninga fyrir sígarettum, 1.000, 2.000 eða 3.000 krónur, en þó ekki í hvert skipti. Hann reyki ekki sjálfur, en hafi stundum átt sígarettur ef von hafi verið á B. Hann hafi fengið að fikta við getnaðarliminn á honum, fróa honum og veita honum munnmök. Allur gangur hafi verið á því hvort rætt hafi verið fyrir fram um greiðslu. B hafi komið til sín og beðið um sígarettur og hann hafi þá gert þetta við hann. Spurður um hvort þetta hafi verið alveg skýr greiðsla fyrir það játaði ákærði því. Hann hafi hins vegar einnig látið B fá peninga þó ekkert kæmi í staðinn. Hann taldi B hafa verið rólegan og ánægðan með þetta. Hann hafi talað við mömmu hans í desember sl. Hún hafi beðið hann um að láta B ekki hafa peninga og þá hafi hann hætt því.

Spurður um „A“ kvað ákærði það vera þann sem komið hafi með B til hans. Hann hafi verið í óreglu og vitleysu og verið að leita sér að fötum, kvenfatnaði og slíku. Hann hafi ekkert samband haft við hann. Hann hafi búið á sambýlinu [...] ásamt B og væri þroskaheftur. Spurður um hvort hann hafi haft kynferðisleg samskipti við A kvað hann það hafa verið einu sinni eða tvisvar. Hann mundi ekki hvenær það hefði verið, en það væru mörg ár síðan, líklega 4-5. Hann hafi hitt A á Klambratúni og þeir hafi farið að spjalla um „þessa hluti“. Hann hafi svo komið með honum heim og skoðað klámblöð.

Þann 11. janúar sl. mætti A til lögreglu og lagði fram kæru á hendur ákærða. Hann kvaðst hafa kynnst ákærða þegar hann hafi verið í kringum tvítugt og samskiptum þeirra hafi lokið um 2011. Hann hafi fyrst farið heim til ákærða í för manns að nafni E. Þeir hafi drukkið kaffi, en þegar liðið hafi á heimsóknina hafi þeir báðir farið að þukla á sér. Þeir hafi fengið hann til að kyssa sig og þreifa á kynfærum þeirra og eiga við þá munnmök. Þeir hafi verið tveir í eitt skipti, en í hin skiptin hafi ákærði verið einn. Ákærði hafi síðan fundið símanúmer hans í símaskránni. Hann hafi farið að hringja til sín og biðja sig um aðstoð, t.d. við að færa til kassa í geymslunni. Hann hafi farið til ákærða í þeim tilgangi, en ákærði hafi svo farið að þreifa á sér og fara inn á sig. Ákærði hafi snert á honum kynfærin og beðið hann um að snerta sig. Honum hafi fundist þetta óþægilegt. Ákærði hafi sýnt honum gróf klámblöð og klámspólur. Hann kvað ákærða alltaf hafa viljað greiða sér fyrir heimsóknirnar með einhverju, peningum, strætisvagnamiðum, áfengi eða jafnvel sígarettum. Honum líði mjög illa með þetta. Hann hafi velt því fyrir sér í hverri heimsókn hvort hann væri að gera rétt eða rangt.

A gaf aftur skýrslu hjá lögreglu 15. janúar sl. Hann lýsti því þá að ákærði hefði þreifað á kynfærum sínum og beðið sig um að þreifa á sér. Honum hafi fundist hann verða að gera þetta þar sem hann hafi verið hræddur um að lenda í einhverju ef hann segði nei. Ákærði hafi alltaf viljað greiða sér með peningum, áfengi, sígarettum eða strætisvagnamiðum til að þegja. Hann hafi einhvern tíma beðið sig um að þegja. Ákærði hafi einnig tottað hann. Ákærði hafi „yfirleitt alltaf“ hringt í hann og beðið hann um að koma og hjálpa sér. Hann hafi farið þar sem hann væri mjög hjálpsamur, en ekki búist við því að eiga kynferðisleg samskipti við ákærða. Hann sagðist hafa farið ansi oft til ákærða á árunum 1995 til 2011, en ekki hafa hitt hann á síðasta ári. Hann var ekki viss um fjölda skipta á ári, en það hafi verið mjög mismunandi.

Í málinu liggur fyrir örorkumat A frá árinu 1994 þar sem fram kemur að A hafi verið metinn með meira en 75% örorku vegna meðfædds heilaskaða, þroskahömlunar og flogaveiki. Þá liggja fyrir læknisvottorð sem liggja til grundvallar matinu og fyrri örorkumöt.

Tryggvi Sigurðsson sálfræðingur var af lögreglu fenginn til að greina þroska og heilbrigðisástand A í þágu rannsóknar málsins. Í vottorði hans, dagsettu 24. mars sl., kemur fram að niðurstöður greindarprófunar og annarra sálfræðilegra prófana sýni greind á stigi vægrar þroskahömlunar, en greindarvísitala hans sé 65. Hann eigi jafnframt við alvarlega erfiðleika að stríða í félagslegri aðlögun og sýni margvísleg einkenni röskunar á einhverfurófi. Upplýsingar frá forstöðumanni [..., þar sem hann búi nú, bendi til margvíslegra og alvarlegra einkenna depurðar, athyglisbrests og andfélagslegrar hegðunar. Hann sætti sig ekki við [...] og hafi áhuga á að gangast undir [...]. Fötlun A sé margþætt, alvarleg og augljós. Hún hafi það í för með sér að auðvelt sé að misnota traust hans og leiða hann í þá tegund samskipta sem hann hafi kært. Kynferðisbrotið sé því alvarlegt og hafi leitt til mikillar vanlíðunar hjá A.

Þann 10. janúar sl. mætti B til lögreglu og lagði fram kæru á hendur ákærða. Fram kom að hann hafi séð þátt Kastljóss um ákærða og í framhaldinu sagt móður sinni frá honum. Hann kvað frænda sinn, A, hafa kynnt sig fyrir ákærða þegar hann hann hafi verið 16 ára. Hann hafi þá verið í mikilli fíkniefnaneyslu. Hann hafi verið hjá ákærða í viku, en muni eiginlega ekkert eftir þessari viku vegna neyslu og viti því ekki hvað hafi gerst. Hann hafi hins vegar heyrt eitt og annað sem hafi átt að hafa gerst. Hann hafi átt að hafa tottað ákærða og leyft honum að fitla við sig. Ákærði hafi hringt í sig á öllum tímum sólarhringsins, en hann hafi lokað á samskipti við hann. Hann hafi ekki byrjað að tala aftur við ákærða fyrr en fyrir um tveimur til þremur árum. Ákærði hafi boðið honum í kaffi. Þegar hann hafi verið búinn með kaffi og kökur hafi ákærði byrjað að þukla á sér. Ákærði hafi viljað fróa honum og að hann fróaði sér. Þá hafi ákærði viljað að hann færi í sleik við sig. Ákærði hafi oft viljað gera hluti sem hann hafi ekki langað til að gera. Hann hafi átt að fróa honum, totta eða kyssa með tungunni. Þetta hafi verið hreint út sagt viðbjóður. Þeir hafi báðir fengið sáðlát, ákærði hafi þurrkað sitt, en hans hafi farið upp í ákærða. Hann hafi oft sagt honum að hann hefði engan áhuga á karlmönnum. Ákærði hafi ekki skilið það. Þetta hafi verið hans heimavöllur og hann hafi þurft að gera það sem ákærði vildi. Ákærði hafi vitað að honum þætti þetta allt mjög óþægilegt, en honum hafi verið alveg sama. Hann hafi pressað á sig að gera þetta, þannig að í rauninni hafi hann nánast neytt sig til þess. Þetta hafi ekki verið eitthvað sem hann hafi viljað. Hann hafi sagt ákærða að hann neytti eiturlyfja, væri með ofvirkni og athyglisbrest, væri eftir á og með geðröskun og geðklofa og „guð má vita hvað“. Einu sinni hafi annar maður verið með þeim í svefnherbergi ákærða. Síðar í skýrslunni kom þó fram að hann teldi manninn oft hafa verið með þeim. Hann hefði ekki hugmynd um hversu oft þetta hefði gerst, en það hefði síðast verið í byrjun desember sl. Þá hafi hann hringt í ákærða til þess að spyrja um eitthvað og ákærði hafi boðið sér í kaffi. Hann hafi spurt ákærða hvort hann gæti reddað sér fyrir mat. Ákærði hafi sagt: „Já, þú verður að runka mér og fara í sleik við mig í klukkutíma bæði skiptin.“ Hann hafi farið fimm til sex sinnum til ákærða í desember. Í tvö þeirra skipta hafi hann verið í klukkutíma að fróa ákærða og klukkutíma í sleik við hann, tvisvar sinnum hafi hann einungis stoppað í 15 mínútur og tvisvar ekki farið inn. Hann kvaðst ekki muna mjög vel eftir tímanum fram að þessu, en um mjög mörg önnur tilvik væri að ræða. Hann kvað ákærða hafa blindað sig með gjöfum; peningum, mat, sígarettum og áfengi og hann hafi átt að gera eitthvað kynferðislegt í staðinn. Hann hafi fengið pening fyrir mat áður en hann hafi farið heim, 500 til 3.000 krónur, en ákærði hafi lofað honum miklu meira, 20.000 til 40.000 krónum. Í síðasta skiptið sem hann hafi komið til hans hafi ákærði lofað sér því að fá allar eignir hans þegar hann félli frá. Hann hafi einhvern tíma fengið lán hjá ákærða, en hafi átt að borga til baka með kynlífi. Hann hafi talið ákærða vera vin sinn og þess vegna farið til hans aftur og aftur. B kvaðst vera reiður út í sjálfan sig og skammast sín. Hann hafi oft hugsað um að taka eigið líf.

Í málinu liggur fyrir örorkumat B frá árinu 2002 þar sem fram kemur að hann hafi verið metinn með 75% varanlega örorku, en hann sé með litningagalla og meðfylgjandi skapgerðarerfiðleika með ofvirkni. Færnisskerðing hans sé ótvíræð vegna meðfædds heilaskaða, þroskahömlunar og flogaveiki. Þá liggja fyrir fyrri örorkumöt ásamt læknisvottorðum sem liggja til grundvallar matinu.

Einnig liggur fyrir vottorð Ólafs Ó. Guðmundssonar, yfirlæknis á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, dags. 29. janúar 2013. Þar kemur fram að samantekið sýni saga og ferill B á BUGL að hann hafi átt við erfið frávik í þroska að stríða sem hafi haft áhrif á vitsmunastarf og torveldað honum mjög allt nám. Þetta hafi komið fram í tjáningu, samhæfingu hreyfinga, félagslegu samspili og mjög skertri stjórn á skapsmunum. Það hafi verið ljóst frá fyrstu tíð að hann þyrfti sérhæft umhverfi og aðlagaðar kröfur, sem virðist hafa gengið erfiðlega að koma til móts við. Lyfjameðferð sem hafi miðað að því að draga úr mest hamlandi einkennum hafi gengið misjafnlega, á meðan önnur úrræði hafi skort. Síðustu afskipti BUGL af málefnum B hafi verið í desember 2000.

Þá liggur fyrir vottorð Kjartans Jónasar Kjartanssonar, yfirlæknis geðdeildar Landspítalans, dags. 27. janúar 2013. Þar kemur fram að B hafi frá árinu 2000 endurtekið komið á bráðamóttöku geðdeildar vegna ofbeldis, sjálfsskaða, neysluvanda og húsnæðisleysis. Vandi B sé fjölþættur. Í fyrsta lagi sé um neysluvanda að ræða. Hann hafi einkum verið að nota örvandi efni, en einnig áfengi. Neysla á vímuefnum sé ekki mikil, en hann megi ekki við miklu til að lenda í vandræðum. Hann ýki neysluna og noti sem leið til að fá viðurkenningu og þjónustu. Hann hafi ekki verið með fráhvarfseinkenni svo nokkru nemi í innlögnum. Í síðustu þremur innlögnum hafi hann ekki sýnt meðferðarvilja og ekki verið tilbúinn til að taka á neysluvanda að nokkru marki. Í öðru lagi sé hann með þroskaskerðingu. Hann sé með [...] litningagalla og greind undir meðallagi. Þá hafi hann atferlistruflanir, einkum hótanir og beitingu ofbeldis. Í þriðja lagi glími hann við félagslegan vanda. Hann sé húsnæðislaus og hafi hafnað þeim úrræðum sem honum hafi boðist, sem sé sambýli og vistun á sveitaheimili. Hann vilji fá íbúð, en það úrræði henti honum engan veginn. Hann sé því á götunni, en dveljist hjá móður sinni þegar hann sé ekki í neyslu. Í fjórða lagi sé um að ræða endurteknar sjálfsvígshótanir og ofbeldishótanir. Saga sé um endurtekna sjálfskaða, skemmdarverk og ofbeldi gagnvart öðrum. Hann teljist vera almennt í aukinni sjálfsvígshættu vegna hvatvísi, neysluvanda og húsnæðisleysis. Hins vegar sé einnig ljóst að hann beiti sjálfsvígshótunum til að fá sínu framgengt, t.d. innlögn á geðdeild og þar með húsaskjól.

Tryggvi Sigurðsson sálfræðingur var af lögreglu fenginn til að greina þroska og heilbrigðisástand B í þágu rannsóknar málsins. Í vottorði hans, dagsettu 24. mars sl., kemur fram að ekki hafi reynst unnt að leggja próf fyrir B til að meta greind hans, þar sem hann hafi einungis mætt í eitt skipti og þá verið augljóslega í mikilli neyslu. Ekki hafi tekist að fá hann til að mæta aftur þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Í fyrirliggjandi gögnum sé lýst alvarlegum og langvarandi erfiðleikum í þroska og hegðun B. Niðurstöður sálfræðilegra prófana á Landspítalanum árið 2000 hafi sýnt vitsmunaþroska á mörkum tornæmis og vægrar þroskahömlunar, en greindarvísitala hans hafi þá mælst 72. Hann eigi auk þess við alvarlegan athyglisbrest og ofvirkni að stríða, skapofsa og önnur skapferilsvandamál. Þá hafi hann greinst með [...]litningagalla sem geti leitt til frávika í þroska og hegðun. Ekki liggi fyrir athuganir sem framkvæmdar hafi verið eftir að B hafi náð fullorðinsaldri. Það sé bagalegt þar sem sterkar líkur séu á því að hann uppfylli greiningarviðmið fyrir þroskahömlun. Niðurstaða athugunar hans sé sú að taka verði öllum upplýsingum frá B með miklum fyrirvara. Hann virðist ekki átta sig á mörkum raunveruleika og ímyndunar og sé hvatvís og óútreiknanlegur í hegðun. Meðfæddir og áunnir erfiðleikar B í þroska og hegðun hafi magnast vegna mikillar og langvarandi fíkniefnaneyslu. Erfiðleikar B séu mjög alvarlegir og öllum ljósir. Mikilvægt sé að athugun á erfiðleikum B fari fram þegar aðstæður skapist til þess, til dæmis á því hvort hann uppfylli greiningarviðmið fyrir þroskahömlun, eins og líkur bendi til.

Þann 14. janúar sl. mætti C til lögreglu og lagði fram kæru á hendur ákærða. Hann lýsti því að ákærði hefði káfað á sér á klósettinu á Hlemmi árið 2007. Hann hefði verið að fara að losa þvag þegar ákærði hefði þreifað á kynfærum hans. Hann kvaðst einnig hafa hitt ákærða á Lækjartorgi árið 2006 og þá hefði það sama gerst. Ákærði hefði beðið sig um að fara inn á klósett og hann hefði ekki þorað öðru en að hlýða honum þar sem hann hafi haldið að hann væri vondur. Hann kvað ákærða hafa snert kynfæri sín í dálítinn tíma og viljað að hann snerti sig einnig. Hann hefði aðeins komið við kynfæri hans, en ekki mikið. Ákærði hefði hreyft höndina smá þegar hann hefði snert hann. Ákærði hefði einnig sleikt kynfæri sín og honum hafi fundist það óþægilegt. Ákærði hafi einnig viljað að hann sleikti kynfæri hans, en hann hafi ekki viljað það. Hin skiptin hafi verið eins. Stundum hafi einhver komið inn á klósett en þá hafi ákærði hætt og því hafi enginn séð hvað hann hafi verið að gera. Aðspurður hvort hann hafi fengið sáðlát kvað hann svo ekki vera og hann mundi ekki hvort ákærði hefði fengið sáðlát. Hann kvaðst aldrei hafa viljað gera þetta. Aðspurður hvort hann hafi einhvern tíma viljað að ákærði væri að gera þetta sagði hann að það hafi kannski verið einu sinni, ekki oftar, en honum hafi samt fundist það óþægilegt. Hann kvaðst hafa hitt ákærða oftar en tvisvar en mundi ekki hvort það hafi verið oftar en fimm sinnum. Þeir hafi hist einu sinni eða tvisvar á Lækjartorgi, en oftar á Hlemmi. Hann hafi verið að bíða eftir strætisvagni eða fá sér að borða þegar hann hafi hitt ákærða á þessum stöðum. Hann hafi hætt að fara á Hlemm, þar sem það hafi ekki verið neitt gaman lengur. Honum hafi liðið illa þegar ákærði hafi verið búinn að gera þetta við sig og átt erfitt með svefn. C kvaðst ekki hafa vitað nafn ákærða fyrr en hann hefði séð hann í sjónvarpinu. Hann hafi engum sagt frá þessum atburðum, fyrr en hann hafi leitað til F, starfsmanns á sambýli hans. Honum hafi liðið illa vegna þessa og hugsað um þetta eftir að hann hafi séð ákærða í sjónvarpinu.

Í málinu liggur fyrir örorkumat C þar sem fram kemur að hann hafi verið metinn með meira en 75% örorku vegna afleiðinga þess að hann varð fyrir [...] í [...] er hann var sex ára. Þá liggja fyrir læknisvottorð sem liggja til grundvallar matinu.

Tryggvi Sigurðsson sálfræðingur var af lögreglu fenginn til að greina þroska og heilbrigðisástand C í þágu rannsóknar málsins. Í vottorði hans, dagsettu 22. mars sl., kemur fram að niðurstöður greindarprófunar og annarra sálfræðilegra prófana sýni greind á stigi vægrar þroskahömlunar, en greindarvísitala hans sé 61 stig, auk marktækra frávika í félagslegri aðlögunarfærni. C sé einnig hreyfihamlaður af völdum heilalömunar og alvarlegir erfiðleikar komi fram í máltjáningu. Hann eigi því við margþætta fötlun að stríða sem hái honum í daglegu lífi, atvinnu og í samskiptum við aðra. Fötlun hans sé augljós og hafi það meðal annars í för með sér að hann sé áhrifagjarn, leiðitamur og að auðvelt sé að misnota traust hans. Telur hann lýsingu C á meintum kynferðisbrotum trúverðuga og brot það sem kært sé fyrir því mjög alvarlegt.

Þann 14. janúar sl. mætti D til lögreglu og lagði fram kæru á hendur ákærða. Hann greindi frá því að hann hefði kynnst ákærða á Hlemmi fyrir löngu síðan, þegar hann hafi verið um 16 eða 17 ára. Ákærði hafi komið til hans og byrjað að tala við hann upp úr þurru. Hann hafi ekki séð hann lengi, en svo hafi hann séð hann aftur þegar hann hafi verið úti að keyra árið 2011 og stöðvað til að heilsa upp á hann. Hann hafi þá gefið ákærða símanúmer sitt. Ákærði hafi síðan hringt í hann og sagst vera með peninga fyrir hann. Hann hafi þá farið til hans. Ákærði hafi beðið sig um að koma inn í herbergi og klæða sig úr og hafi svo byrjað að leika við sig. Hann hafi einnig beðið sig um að leika við hann, en hann hafi ekki gert það. Ákærði hafi fiktað í kynfærum sínum, átt við sig munngælur og kysst sig. Ákærði hafi einnig ætlað að setja fingur upp í rassinn á sér, en hann hafði sagt honum að gera það ekki. Hann hafi neitað að gera þessa hluti við ákærða. Aðspurður hvort hann hafi fengið sáðlát kvað hann svo vera. Hann hafi orðið var við að ákærði örvaðist kynferðislega, en hann hafi fróað sér og fengið sáðlát. Þetta hafi gerst árið 2011 og svo aftur 3. desember 2012. Ákærði hafi sagt sér að hann væri uppáhaldið hans. Hann kvaðst ekki hafa þorað öðru en gera það sem ákærði hafi sagt honum þar sem hann hafi verið hræddur um að hann myndi gera eitthvað skaðlegt eða hóta sér einhverju. Hann kvað ákærða hafa hringt reglulega í sig þegar hann hafi verið með peninga fyrir sig. Hann hafi fengið um 2.000 til 5.000 krónur hjá ákærða þegar hann hafi komið til hans, en samtals hafi hann fengið 10.000 krónur hjá honum. Hann hafi fengið peningana eftir kynferðislegu samskiptin. Í eitt skipti hafi ákærði sagt honum að hann væri með bónus fyrir hann, en hann viti ekki hvað hann hafi átt við með því. Hann hafi skilið þetta þannig að hann hafi átt að fá extra pening og ákærði hafi ekki viljað neitt í staðinn. Hann hafi farið til hans þrjú skipti. Þann 3. desember sl. hafi hann farið til ákærða þar sem ákærði hafi sagst vera með peninga, en svo hafi ákærði ekki verið peninga og því hafi hann farið og ekkert kynferðislegt hafi gerst. Hann kvaðst ekki muna nákvæmlega hversu oft þeir hefðu átt kynferðisleg samskipti, en sagði svo síðar að það hefði gerst tvisvar árið 2011. Í seinna skiptið hefði ákærði bara káfað á kynfærunum á sér. D kvaðst ekki hafa verið samþykkur þessum kynferðisathöfnum með ákærða. Hann hafi sagt ákærða einu sinni að hann væri á móti þessu, en hann væri ekkert fyrir þetta. Honum finnist eins og ákærði hafi neytt sig til að gera þessa hluti. Hann hafi ekki átt von á kynferðislegum samskiptum þegar hann hafi farið til ákærða. Hann gerði sér ekki grein fyrir því af hverju hann hefði farið aftur til hans, en hann hafi verið einmana. Þessi atvik hafi haft slæm áhrif á sig og þeim hafi fylgt furðuleg vanlíðan. Hann hafi byrjað að gráta allt í einu og farið að reykja meira. Hann hafi orðið meira lokaður gagnvart konunni sinni og stundum lokað sig inni í herbergi eða inni á klósetti til þess að fá frið fyrir umheiminum. Þá hafi sjálfsmorðshugsanir sótt á hann. D kvaðst aldrei hafa sagt neinum frá þessu, fyrr en hann hefði greint föður sínum frá þessu tveimur dögum áður.

Tryggvi Sigurðsson sálfræðingur var af lögreglu fenginn til að greina þroska og heilbrigðisástand D í þágu rannsóknar málsins. Í vottorði hans, dagsettu 18. mars sl., kemur fram að D virki almennt óöruggur og kvíðinn og beri með sér augljós einkenni greindarskerðingar. Hann eigi t.d. stundum erfitt með að skilja spurningar og tjá sig. Niðurstöður greindarprófunar og annarra sálfræðilegra prófana sýni greind á stigi vægrar þroskahömlunar, en greindarvísitala hans sé 63. Hann sé öryrki og atvinnulaus og búi í íbúð á vegum [...]. D sýni margvísleg einkenni depurðar, kvíða og ofvirkni. Hann hafi ekki náð fótfestu á vinnumarkaði, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. D eigi við fötlun að stríða sem hái honum mjög mikið í daglegu lífi og í félagslegum samskiptum. Hann sé mjög áhrifagjarn og lýsi því í viðtali að hann hafi ekki getað komið í veg fyrir athæfið sem hann hafi kært vegna þess að honum hafi fundist hann „eign“ meints geranda. Brotið hafi haft alvarleg áhrif á líðan D og hljóti að teljast mjög alvarlegt.

Þá liggur fyrir í málinu athugun Sigurrósar Jóhannsdóttur á einkennum einhverfu hjá D, dags. 10. apríl sl. Kemur þar fram að niðurstaða þeirrar athugunar sé sú að heildarstigafjöldi einkenna hafi reynst yfir greiningarmörkum fyrir einhverfu, en þessa niðurstöðu þurfi að túlka í samhengi við aðrar upplýsingar um þroska og hegðun D. Niðurstaðan gefi sterklega til kynna að greining á einhverfurófi eigi við.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 17. janúar sl. Hann greindi frá því að hann hafi kynnst B er hann hafi komið til hans með strák sem héti A. Einhver hafi sagt sér að þeir hefðu búið saman á „einhverju sérbýli eða eitthvað“. Þetta hafi verið fyrir um fjórum til sex árum. Þeir B hafa farið að spjalla saman og síðan farið í „fikt“ sem þeir hafi báðir verið sammála um. Þetta hafi falist í því að hann hafi strokið getnaðarlim B. B hafi svo horfið í einhvern tíma. Í nóvember og desember sl. hafi hann haft munnmök við hann, en hann sé ekki sáttur við það í dag. Hann hafi strokið og sleikt lim B, en B hafi verið alveg sáttur við það. B hafi stundum vantað peninga og hann hafi einstaka sinnum látið hann hafa 1.000 eða 2.000 krónur og einstaka sinnum átt sígarettur handa honum. Síðar greindi hann frá því að hann hafi látið hann hafa peninga þrisvar til fjórum sinnum í mánuði, um 1.000 eða 2.000 krónur að jafnaði, en það gæti þó stundum hafa verið meira. B hafi ekki fengið minna en 6.000 á mánuði árið 2012, en ekki árið á undan. Framan af árinu 2012 hafi þetta verið mjög fá skipti, en oftar seinni hlutann. Samskipti þeirra hafi verið ákaflega lítil árið 2011. Nánar aðspurður taldi hann það geta hafa verið einu sinni til tvisvar í mánuði og svo kannski ekkert í langan tíma. Hann gat ekki munað hve mörg skiptin hefðu verið árið 2010. Greiðslurnar til B hafi aukist eftir að honum hafi farið að líða illa. Það sama hafi gerst á milli þeirra árin 2011 og 2012. Hann hafi fiktað í B. Ekki hafi alltaf verið um kynferðisleg samskipti á milli þeirra að ræða þegar B hafi komið til hans. Hann hafi ekki gert sér grein fyrir því „þótt ótrúlegt sé“ að B væri eitthvað skertur. B hafi verið í óreglu og átt við fíkniefnavanda að stríða. Ákærði sagði eitthvað hafi verið í þessum dreng sem hafi gefið honum „meira en þeir skýrustu hafa gefið mér“. Nánar aðspurður um andlega hagi B kvað hann B vera „að vissu leyti þroskaheftur“, en á hvaða sviði gæti hann ekki sagt til um. Hann kvaðst vita þetta þar sem móðir B hefði sagt sér það þegar þau hafi talað saman í síma í desember sl. B hafi ekki greint sér frá þessu. Hann hafi vitað að B gengi ekki heill til skógar. Nánar aðspurður kvaðst hann hafa vitað að hann væri eitthvað skertur þegar hann hafi átt í kynferðislegum samskiptum við hann. Hann hafi kennt eiturlyfjanotkun hans um. Honum hafi fljótlega fundist eitthvað vera að, en hafi eiginlega ekkert verið að hugsa um það, þó hann hefði átt að gera það. Ákærði játaði að hafa misnotað sér ástand B í kynferðislegum tilgangi. Ákærði kvað B aldrei hafa dvalið hjá sér yfir nótt og neitaði því að hann hefði verið hjá sér í viku þegar hann hafi verið 16 eða 17 ára. Hann viðurkenndi að hafa viljað að B kyssti hann eða færi í sleik við sig, en B hafi ekki viljað það. Hann kvað B hafa sagt sér að hann væri ekkert fyrir þessa hluti, því hann væri upp á kvenhöndina. Hann hafði sagt honum að hann skildi það, en hann væri alveg sérstakur og glæsilegur. Spurður um framburð B um að hann hafi komið fimm til sex sinnum til ákærða í desember sl. taldi ákærði að svo gæti verið. Hann hafi látið hann fá peninga, sígarettur og mat, en það hafi ekki alltaf verið í skiptum fyrir kynlíf. Hann hafi látið hann hafa mat án tillits til þess hvort hann fengi kynlíf í staðinn. Hann hafi ekki litið svo á að hann væri að greiða fyrir vændi. Aðspurður hvort hann hafi lofað B arfi kvaðst hann hafa sagt honum að hann ætti skilið að fá einhverja peninga frá sér þegar þar að kæmi. Spurður um það hvort hann hafi neytt B til kynferðisathafna kvað hann það ekki rétt. Hann hafi farið fram á hlutina, en ekki beitt þvingun. Hann kvað það ekki rétt að hann hafi farið fram á klukkutíma koss og klukkutíma fróun, en kvað það rétt að B hafi fengið sáðlát í munn sinn. Spurður um loforð um 20.000 til 30.000 krónur sagðist hann hafa sagt B að hann gæti fengið peninga fyrir sígarettum og öðru á löngum tíma. Hann kvað það ekki vera rétt að annar maður hafi verið með þeim í kynlífsathöfnum. Hann kvað B hafa verið mjög á móti „samvinnu með strákum og það væru bara hreinar línur“ og hann hafi vitað það.

Ákærði var yfirheyrður á ný síðar sama dag vegna kæru D. Hann kvaðst hafa þekkt D lengi og þeir væru mjög góðir vinir. Um 20 til 30 ár væru síðan þeir hefðu fyrst átt kynferðisleg samskipti. Síðustu tvö árin hafi D verið á bifreið og stundum vantað pening fyrir bensíni eða sígarettum. Hann hafi komið heim til hans, en alltaf verið á hraðferð. Hann hafi fróað honum og fengið að sjúga getnaðarlim hans. Hann hafi fróað sjálfum sér á meðan, en D hafi ekkert verið inni á því. Hann hafi verið allur upp á kvenhöndina. Þetta hafi gerst svona tvisvar í mánuði frá því í byrjun nóvember sl. Ákærði lýsti D sem mjög snaggaralegum, alltaf að flýta sér og verið í einhverju bílagrúski. Hann hafi virkað á sig eins og skotklár náungi og mjög hress. Hann héldi að hann hafi búið með konu [...] og hún væri annað hvort ófrísk eða búin að eiga. D hafi verið samþykkur hlutunum, en fundist hann vera nirfill. Hann hafi látið hann hafa 2.000 til 3.000 krónur, en 5.000 krónur í afmælisgjöf. Ákærði taldi sig ekki hafa verið að nýta sér bágindi D eða verið að kaupa af honum kynlífsþjónustu. Þá lýsti ákærði því að hann hneigðist til karlmanna.

Ákærði gaf skýrslu á ný hjá lögreglu 18. janúar sl. Þá skýrði hann svo frá að hann hafi þekkt A í nokkur ár. Hann muni ekki hvar þeir hafi kynnst, en kannaðist ekki við að það hefði verið í gegnum mann að nafni E. Samband þeirra hafi verið lítið, en A hafi komið heim til hans og verið að skoða ruslblöð og hann hafi fróað honum. A hafi svo yfirleitt tekið við sjálfur. Hann kvaðst ekki hafa gert fleira við A. Þetta hafi gerst ákaflega sjaldan og stundum hafi liðið mánuðir á milli skipta. Kynferðisleg samskipti þeirra hafi verið frá upphafi kynna þeirra, en síðast hafi þau verið fyrir um tveimur til þremur árum síðan. A hafi ekkert fengið í staðinn. Hann hafi viljað fá peninga en það sé teljandi sem hann hafi fengið allan þennan tíma. Hann hafi í einhver skipti látið hann hafa um 1.000 krónur fyrir sígarettupakka. Hann lýsti A sem rólegheita náunga. Hann hafi ekki vitað til þess að hann væri í einhverri óreglu, fyrir utan reykingar. Hann taldi andlegri heilsu hans ekki vel háttað, það væri eins og hann væri eitthvað andlega skertur. Aðspurður hvenær hann hafi gert sér grein fyrir þessari skerðingu kvaðst ákærði eiginlega hafa uppgötvað hana við fyrstu kynni. Þeir hafi verið sammála um að eiga í kynferðislegum samskiptum, en hann sjái það núna að það hafi ekki verið rétt. Hann hafi vitað að A byggi að [...], en þar hafi búið andlega skert fólk.

Ákærði gaf enn skýrslu hjá lögreglu 21. janúar sl., vegna kæru C. Hann kvað C vinna á [...]. Hann hafi fengið ábendingu um hann frá öðrum manni. Hann hafi vitað hver hann væri þegar hann hafi séð hann á Klambratúni. Þeir hafi sest þar á bekk og hann hafi farið að strjúka á honum getnaðarliminn utan klæða. Hann hafi séð hann einstaka sinnum, en ekkert meira samband hafi orðið á milli þeirra. Spurður um þann framburð C að þeir hafi hist á Lækjartorgi árið 2006 taldi hann að þeir hafi kynnst mikið fyrr. Hann sagði C hafa virkað mjög hlýjan, en andlega sé hann ekki heill. Hann hafi séð það strax. Það hafi verið eins og eitthvað vantaði. Hann hafi átt erfitt með að tjá sig. Aðspurður hvort þeir hafi farið saman inn á salerni á Lækjartorgi og Hlemmi kvað hann það hafa verið á Lækjartorgi og Núllinu, en þar hafi ekkert gerst. Engin aðstaða hafi verið til þess á Hlemmi, enda hefði hann ekki gert það á svona opinberum stað. Þegar borinn var undir hann framburður C um að hann hefði káfað á honum á salerninu á Hlemmi viðurkenndi hann þó að það væri rétt. Honum finnist að hann hafi strokið honum um getnaðarliminn „eitthvað svona rétt sem snöggvast“ þegar þeir hafi verið á sitt hvorri þvagskálinni. Í minningunni hafi hann aldrei fróað honum. C hafi aldrei snert hann því hann hafi ekki viljað það. Það hafi heldur ekkert verið inni í myndinni því hann hafi viljað njóta þess að gera þetta sjálfur. Þetta hafi gerst á Lækjartorgi, Núllinu og Hlemmi. Hann taldi C hafa verið ánægðan, en hann hafi ekki örvast við þetta. Hann kvaðst vita að þetta væri rangt. Hann taldi þetta hafa gerst fyrir mörgun árum síðan, jafnvel 10 til 20, en gat ekki tímasett það nánar. Síðar svaraði hann því til að það gætu hafa verið fimm til sjö ár síðan. Þetta hafi verið fá skipti. Aðspurður um framburð C um að þetta hafi síðast verið árið 2007 sagði ákærði að sér fyndist vera lengra síðan.

Ólafur Örn Bragason sálfræðingur var af lögreglu fenginn til að meta þroska og heilbrigðisástand ákærða í þágu rannsóknar málsins og liggur fyrir vottorð hans, dagsett 13. mars sl. Kemur þar fram það sé mat hans að andlegt ástand ákærða hafi verið ágætt í gegnum tíðina. Niðurstöður rannsókna sýni að hann þjáist ekki af alvarlegum geðsjúkdómum á borð við geðklofa og hann glími ekki við hvatvísi, kvíða eða andfélagslega persónuleikaröskun. Ákærði sýni hæfni innan eðlilegra marka á öllum þáttum greindarmats, en hann mælist með slaka meðalgreind. Hann sé slakastur í undirþættinum myndaröðun, sem gefi vísbendingar um að hann hann hafi að einhverju leyti skerta getu til að notfæra sér vísbendingar í félagslegum samskiptum. Ákærði hafi viðurkennt að hafa beitt unglingsdrengi og –stúlkur, á aldrinum 11 til 16 ára, kynferðislegri misnotkun um árabil. Hann greini hins vegar frá því að kynferðislegur áhugi hans hafi breyst frá árinu 1986 og beinst að karlmönnum á aldrinum 20 til 40 ára. Það komi þó ekki heim og saman við dóm yfir honum frá árinu 1994 fyrir að hafa átt mök við dreng undir 16 ára aldri. Eftir að ákærði hafi snúið sér að eldri einstaklingum segi hann Hlemm og Lækjartorg hafa verið staði til að komast í kynferðisleg samskipti. Þeir sem það hafi stundað hafi oft bent á aðra sem væru líklegir til að vilja kynlíf með karlmönnum. Sé ljóst að sá félagsskapur hafi ekki hjálpað ákærða að leiðrétta réttlætingar tengdar kynferðislegum samskiptum, þar sem hann hafi fengið þau skilaboð að það væri í lagi að eiga kynferðisleg samskipti við viðkvæma einstaklinga.

Ákveðnar réttlætingar og mótsagnir komi fram í viðhorfum ákærða til kynferðislegrar misnotkunar gagnvart brotaþolum. Á einum tímapunkti í viðtölum hafi hann sagst vera tilbúinn til að horfast í augu við brot sín og taka ábyrgð, þar sem hann hafi átt frumkvæði að kynferðislegum samskiptum. Á öðrum tímapunkti hafi hann dregið úr ábyrgð sinni og ekki talið sig bera meiri ábyrgð en þolendurnir. Í viðtölum við ákærða hafi komið fram hugsanaskekkjur tengdar hlutverkum innan fjölskyldu og kynlífs. Sem dæmi megi nefna þegar hann hafi lýst sambandi sínu við B. Hann hafi talað um að B væri eins og sonur sinn og B hafi kallað sig afa. Að nota hugtök eins og sonur og afi í tengslum við mann sem hann hafi átt í kynferðislegu samneyti við sé dæmi um slíka hugsanaskekkju.

Ákærði hafi verið metinn með tilliti til barnagirndar, en ekki sé að sjá að hann uppfylli greiningarskilmerki hennar miðað við núverandi brotahegðun og frásagnir hans sjálfs af kynferðislegum áhuga í dag, þar sem kynferðislegur áhugi þurfi að beinast að börnum sem ekki séu orðin kynþroska til að hljóta greiningu. Hann hafi í viðtölum viðurkennt að hafa haft kynferðislegar langanir, fyrst til stúlkna á aldrinum 9-14 ára og síðar til unglingsdrengja þegar hann hafi verið yngri, en þar sé um að ræða sérstaka tegund barnagirndar sem eingöngu beinist að unglingum.

Niðurstöður áhættumatstækja sem notuð hafi verið bendi til þess að miðlungslíkur séu til þess að ákærði brjóti af sér aftur. Þótt hann komi ekki hár út í áhættumati sé það mat sálfræðingsins að hann þurfi á sérhæfðri meðferð að halda, þar sem kynhegðun hans, hugsanavillur og hugsanaskekkjur virðist hafa komið honum í vandræði síðastliðin 50 ár. Þá hafi hann ekki látið af hegðun sinni þrátt fyrir skýr skilaboð, svo sem brottrekstur úr starfi í þrígang, eina skilorðsbundna ákærufrestun og einn skilorðsbundinn dóm. Slík meðferð þurfi að miða að því að hjálpa honum til þess að sporna gegn kynferðislegum löngunum sínum, ásamt því að vinna með áðurnefnda þætti tengda kynferðisbrotum, enda bendi niðurstöður greindarprófs til þess að hann eigi að geta áttað sig á afleiðingum gerða sinna. Hann þurfi því að læra að stjórna betur hegðun sinni og kynferðislegum löngunum. Eins þurfi líklega að vinna með þætti eins og samkennd og viðhorf hans gagnvart þeim sem minna megi sín, t.d. að ekki sé réttlætanlegt að notfæra sér veikleika annarra sér í hag.

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi

Ákærði játaði fyrir dóminum að hafa átt kynferðisleg samskipti við A, en hefur neitað því að hann hafi nýtt sér andlega fötlun hans og því að um vændi hafi verið að ræða. Ákærði kvaðst hafa kynnst A fyrir um tuttugu árum. Kynferðisleg samskipti þeirra hafi hafist strax við fyrstu kynni þeirra. A hafi komið heim til hans og fengið að skoða blöð. Hann hafi fróað A, en svo hafi A sjálfur tekið við. Þannig hafi þetta yfirleitt farið fram. Hann neitaði því að munnmök hefðu átt sér stað á milli þeirra. Hann sagði samband þeirra eingöngu hafa verið kynferðislegt, A hafi stoppað stutt og ekkert annað hafi gerst á milli þeirra. Hann gat í fyrstu ekki lýst því hvor hafi átt frumkvæðið að þessu, heldur sagði þetta hafa æxlast svona, en viðurkenndi síðar að hann hafi átt frumkvæðið. Þetta hafi gerst mjög sjaldan, en stundum hafi liðið langur tími á milli þess sem þeir hafi hist. Hugsanlega hafi verið um 10 skipti að ræða, en síðar taldi hann þau hafa verið 10 til 15. Ekki hafi þó verið um að ræða kynmök í hvert einasta skipti. Hann kannaðist við að hafa látið A fá peninga og sígarettur, en það hafi ekki verið oft og ekki í hvert skipti. Hann kvaðst ekki reykja sígarettur, en stundum hafa átt þær heima handa kunningja sem reykti. Hann kvaðst einnig stundum hafa látið A hafa strætisvagnamiða, en neitaði því að hafa látið hann hafa áfengi. Þetta hafi þó ekki verið greiðsla fyrir kynferðismök. A hafi oft verið á ferðinni og vantað peninga fyrir strætisvagnafari. Þetta hafi verið gjafir milli vina sem hann hefði látið hann fá hvort sem hann hefði fengið eitthvað út úr hlutunum eða ekki. Ákærði kvaðst fljótlega hafa gert sér grein fyrir fötlun A. Hann hafi gert sér grein fyrir þessu þegar þeir hafi spjallað saman. Hann hafi vitað að A byggi á sambýli. Hann viti það núna að það sé ekki í lagi að hafa kynmök við andlega fatlaðan mann, en hann hafi ekki gert sér grein fyrir því þá. Hins vegar hafi verið greinilegt að þetta hafi verið eitthvað sem A hafi viljað. Hann hafi ekki beitt neinum þvingunum og ekki skynjað að hann væri skertur á þann hátt að hann gæti ekki tekið þátt í kynlífi. Ákærði kvaðst ekki muna hvenær síðasta skiptið hefði verið, en það væri orðið mjög langt síðan. Þetta hafi staðið yfir í stuttan tíma, hann hafi kannski komið tvisvar til fimm sinnum eitthvert árið, en svo ekki sést í langan tíma, stundum einhverja mánuði eða ár, allt að tvö til þrjú ár. Hann kannaðist ekki við að síðasta skiptið hefði verið árið 2011 og taldi að það væri lengra en tvö til þrjú ár síðan. A hafi kynnt hann fyrir B og eftir það hafi A eiginlega verið út úr dæminu. Hann hafi kynnst B fyrir [...] ára afmæli hans árið 2008 og ekki átt kynferðisleg samskipti við A eftir það. Hann kvað þá A alltaf hafa verið tvo eina, nema í eitt skipti þegar einhver maður hafi komið með A og hann hafi fróað þeim manni. Ákærði taldi kæru A snúast um að ná sér í peninga.

Ákærði játaði fyrir dóminum að hafa átt kynferðisleg samskipti við B, en neitaði því að hafa nýtt sér andlega fötlun hans og því að um vændi hafi verið að ræða. Hann greindi frá því að B hefði fyrst komið til hans ásamt A. Það hafi ekki verið kynferðisleg samskipti milli þeirra í það sinn, en B hafi hringt síðar og í kjölfarið komið í heimsókn. Hann gat ekki fullyrt hvenær þetta hafi verið, en taldi þá hafa kynnst fyrir [...] ára afmæli B árið 2008. Kynferðisleg samskipti þeirra hafi staðið yfir frá þeim tíma og þar til í desember sl. Þau hafi falist í því að hann hafi fróað honum og sogið á honum getnaðarliminn. Hann hafi svo fróað sér og þá fengið getnaðarliminn á honum upp í sig á meðan hann var að fá fullnægingu. Það hafi þó verið allur gangur á því hvernig kynferðismökin hafi farið fram. Hann gat ekki svarað því til hversu oft þetta hafi gerst, en staðfesti það sem hann bar hjá lögreglu um að þetta hafi verið um þrisvar til fjórum sinnum í mánuði, en þó minna árið 2011, eða einu sinni til tvisvar í mánuði. B hafi búið í [...] og svo [...] í nokkurn tíma og þá hafi hann bara verið í símasambandi. B hafi oft vantað mat og hafi fengið hann hjá honum. Hann hafi einnig fengið hjá honum strætisvagnakort eða –miða, sígarettur og peninga. Hann hafi hætt að láta hann hafa peninga eftir samtal við móður B í desember sl. þar sem fram hafi komið að B hafi notað peningana til að kaupa sér fíkniefni. Hann taldi fyrst að móðir B hafi ekki talað um andlega hagi hans, en þegar borinn var undir hann framburður hans um það hjá lögreglu taldi hann svo vera. Hann hafi vitað að B væri í óreglu. Þeir hafi rætt um ýmislegt, en hann hafi ekki tekið allt trúanlegt sem B hafi sagt honum. B hafi sagt honum frá því að hann væri eftir á og haldinn ýmsum sjúkdómum, en hann hafi ekki vitað hvað væri satt og hvað ekki og jafnvel haldið að þetta væri af pilluáti. Hann kvaðst ekki muna fyllilega hvort B hafi sagt sér frá því að hann byggi á sambýli á [...] þegar hann hafi komið fyrst með A, en hann haldi að hann hafi búið þar þegar þeir hafi kynnst. Þetta sé heimili fyrir fjölfatlaða, en hann hafi vitað það eftir að hafa kynnst A. Hann hafi þó ekki verið með það á hreinu hvort B byggi þarna. Hann hafi ekki hugsað út í það hvort það þýddi að B ætti við fötlun að stríða. Hann hafi ekki gert sér grein fyrir því að hann væri andlega fatlaður. Hann hafi allan tímann vitað að eitthvað væri að B andlega, en hann hafi talið að það væri vegna neyslu fíkniefna. B hafi fengið um 500 til 3.000 krónur í senn hjá honum. Hann hafi tvisvar sinnum komið með 500 krónur til að greiða honum til baka, en hann viti ekkert af hverju. Hann hafi einnig gefið B bjór, en það hafi verið þrír bjórar á þeim tíma sem þeir hafi þekkst. Hann drekki ekki áfengi sjálfur og geti ekki skýrt hvers vegna hann hafi átt bjór. Það hafi þó ekki verið til þess að gefa B. Hann hafi drukkið bjór á einhverju tímabili og átt um helgar þegar hann vann mikið alla vikuna, en svo hætt þessu. Þessir hlutir hafi ekki verið greiðsla fyrir kynferðismök. Þegar ummæli hans í lögregluskýrslu, um að hann fengi að gæla við B ef hann ætti sígarettur, voru borin undir hann gat hann ekki útskýrt þau nánar, en taldi þetta ekki tengjast kynmökum. Hann hafi fengið þessa hluti hjá sér óháð því hvort kynlíf færi fram. Ákærði sagði B eiginlega hafa verið á móti kynlífsathöfnum karlmanna. Hann hafi ekki verið innstilltur á þessa hluti, enda í sambúð. Það hafi hins vegar verið allt í lagi þegar hann hafi átt í hlut. B hafi ekki sagt honum það, heldur hafi það komið í ljós því annars hefði hann ekki komið aftur og aftur. B hafi haldið mikið upp á hann. Hann taldi að þeir hefðu báðir átt frumkvæði að heimsóknum B til sín. Hann hafi talið um vináttu að ræða og jafnræði í sambandi þeirra. B hafi ekki verið mótfallinn hlutunum, en hann hafi kannski átt að vita betur. Hann hafi virt það ef B vildi ekki gera tiltekna hluti. Hann taldi B ekki hafa kært brot gegn sér sjálfur, heldur hafi einhver gert það fyrir hann.

Ákærði viðurkenndi fyrir dóminum að hafa strax séð að C ætti við einhvers konar fötlun að stríða. Hann hafi séð að um líkamlega fötlun væri að ræða, en hann gerði sér ekki grein fyrir hve mörg prósent andlega. Honum hefði verið bent á C af manni sem væri nú látinn. Hann hafi fyrst hitt hann á almenningssalerninu á Lækjartorgi en einnig á almenningssalernum í Bankastræti og á Hlemmi. Um eitt skipti hafi verið að ræða á hverjum stað. Hann kvaðst ekki muna hvenær þetta hafi verið, en það sé langt síðan. Það gæti hafa verið 2006 og 2007. Hann kvaðst hafa káfað á C, utan klæða, í eitt eða tvö skipti, en hann hafi svo tekið á limnum á honum þegar hann hafi verið að pissa. Það hafi verið á Lækjartorgi. Hann kvaðst einungis hafa tekið um liminn, en ekki muna eftir að hafa hreyft höndina. Hann neitaði því að hafa sleikt liminn. Hvorugur þeirra hafi fengið sáðlát. Hann taldi ekki meira hafa gerst, en hugsanlega hefði hann haft áhyggjur af því að einhver kæmi að þeim. Honum hafi fundist eins og C hafi tekið þessu mjög vel.

Ákærði játaði fyrir dóminum kynferðisleg samskipti við D. Hann neitaði því að hafa nýtt sér andlega fötlun hans og því að um vændi hafi verið að ræða. Hann lýsti því að þeir D hefðu verið góðir vinir til fjölda ára. Þeir hafi verið í sambandi öðru hvoru í gegnum árin. D hafi flust eitthvert [...] og komið einu sinni til tvisvar í mánuði til sín og þeir hafi þá átt kynferðisleg samskipti. Þeir hafi átt kynferðisleg samskipti við upphaf kynna þeirra og svo aftur á síðasta ári. Þeir hafi hist aftur er D hafi stöðvað bifreið sína hjá honum. Aðspurður um þann framburð D að um tvö skipti hefði verið að ræða árið 2011 kvað hann það geta verið. Á árinu 2012 hafi hann komið til sín í október eða nóvember. Hann játaði því að um hefði verið að ræða a.m.k. fjögur skipti eins og lýst er í ákæru. Samskipti þeirra hafi farið þannig fram að hann hafi fróað D, en D svo tekið við. Hann hafi einnig sogið á honum liminn. Það hafi þó ekki alltaf gerst. Hann kannaðist við lýsingu D á því að hann hefði fróað sér á sama tíma og hann hefði haft munnmök við hann og D hafi þá fengið sáðlát upp í hann að hans beiðni. Þá kannaðist hann við að hafa káfað á kynfærum D um leið og hann hefði fróað sér. D hafi yfirleitt stoppað stutt þar sem hann hafi verið að flýta sér, en hann hafi komið að heimsækja hann vegna vináttu þeirra. Ákærði kvaðst ekki hafa látið D fá peninga fyrir þetta, en hann hefði þó látið hann hafa bensínpeninga þar sem hann hefði verið í bílaveseni og hefði búið [...] og þurft að aka á milli. Þetta hafi verið um 1.000 til 3.000 krónur í senn. Hann hafi mest látið hann hafa 5.000 krónur þegar hann hafi átt afmæli. Þar af hafi 3.000 krónur verið fyrir bensíni, en 2.000 krónur fyrir afmælisgjöf. Ákærði kvaðst þekkja D vel. Hann væri fjölskyldumaður sem hefði verið í tveimur samböndum með konum og ætti börn. Aðspurður hvort hann væri eitthvað fyrir karlmenn sagðist ákærði ekki vita það, en hann myndi ætla að hann væri fyrir kvenmenn. Hann gat ekki skýrt það hvers vegna hann hefði verið með sér, en það hefði ekki verið vegna peninganna sem hann hafi fengið hjá sér. D hafi verið samþykkur þessum athöfnum þeirra. Hann væri svolítið á eftir, en hann vissi þó ekki hvernig það væri metið. Hann hafi fundið það í samtölum þeirra að hann væri ekki alveg með á nótunum. Hann hafi þó ekki gert sér grein fyrir þessu fyrr en löngu eftir að kynferðisleg samskipti þeirra hafi hafist. Þau hafi hins vegar haldið áfram eftir að hann hafi áttað sig á þessu og hann hafi vitað þetta þessi síðustu skipti sem ákært sé fyrir. Síðasta skiptið sem þeir hafi hist hafi verið 3. desember sl., en þá hafi ekkert kynferðislegt gerst. Aðspurður hvort sá maður sem hefði fengið peninga fyrir bensíni hjá honum, sem hann hefði nefnt í skýrslutöku hjá lögreglu 9. janúar sl., væri D neitaði hann því.

Vitnið, A greindi frá því að hann hefði kynnst ákærða þegar hann hefði verið um tvítugur að aldri. Hann hafi farið heim til hans með manni að nafni E. Allt hafi virst vera í lagi. E hafi látið hann gefa ákærða símanúmer sitt svo ákærði gæti hringt í hann. Eftir þetta fyrsta skipti hafi ákærði farið að hringja í hann og biðja hann um aðstoð. Það hafi hins vegar farið á annan veg en hann hafi búist við. Hann hafi farið til ákærða í þeirri trú að hann ætti að aðstoða hann, en þegar hann hafi viljað fá að fara heim hafi annað komið upp. Þá hafi ákærði leitað á hann og viljað fá eitthvað kynferðislegt. Hann hafi sýnt sér dónaleg blöð og farið að þukla á sér og snerta kynfæri sín. Hann hafi sagt sér að leggjast á sófa og skoða blöðin. Ákærði hafi svo farið að taka utan um kynfæri sín og totta hann. Ákærði hafi viljað kyssa hann og fara í sleik við hann. Ákærði hafi beðið sig um að fá að setja lim hans upp í sig á meðan ákærði fróaði sér. Þetta hafi ekki verið skemmtileg upplifun. Þegar hann hafi verið búinn að fá sínu fram hafi hann viljað láta hann hafa eitthvað í staðinn, svo sem 500 krónur, tóbak, öskubakka eða eitthvað annað. Hann hafi einstaka sinnum látið sig hafa bjór. Honum hafi aldrei liðið vel eftir heimsóknirnar til hans. Þetta hafi gerst mjög oft, oftar en 15 sinnum. Oftast hafi verið kynlíf á milli þeirra þegar þeir hafi hist, en ekki alltaf. Ákærði hafi líka boðið sér á vinnustað sinn. Hann hafi gefið sér mat og peninga þegar hann hafi komið til hans, jafnvel án kynlífs. A var ekki viss um hvenær síðasta skiptið hefði verið. Hann taldi sig hafa búið að [...] öll þessi skipti, en sagðist þó ekki alveg viss um það. [...] sé sambýli fyrir geðfatlaða. Hann kvaðst ekki viss um að ákærði vissi af fötlun sinni. Hann mundi ekki hvort hann hefði greint honum frá því, en hann hefði greint honum frá því hvar hann byggi. Hann viti ekki af hverju hann hafi farið svona oft til ákærða, en hann hafi ekki kunnað við að segja honum að sér liði illa. Hann hafi verið smeykur við hann. Það hafi komið fyrir að hann hafi fengið sáðlát hjá ákærða, en það hafi ekki verið með góðri samvisku. Hann kvaðst ekki muna eftir því að hafa kynnt B fyrir ákærða, en hann muni þó til þess að hafa einhvern tíma farið með B heim til ákærða. A kvaðst hafa séð Kastljóss þættina um ákærða en ekki verið búinn að segja neinum frá þessu fyrir þann tíma. Það hafi verið hringt á sambýlið þar sem hann búi. Forstöðukonan hafi sagt honum að lögreglan hefði hringt og beðið hann um að koma til skýrslutöku. Þá hafi honum farið að líða illa og ýmislegt miður gott hafi rifjast upp fyrir honum. A greindi frá því að sér liði ekki allt of vel núna, hann væri svolítið kvíðinn. Þetta mál hefði hrjáð hann mikið.

Vitnið G, móðir A, skýrði frá því að A hefði greinst flogaveikur við 5 vikna aldur. Einnig hefði greinst hjá honum skemmd við framheila. Hann hefði verið seinn til og gengið alla sína skólagöngu í [...]. Hann hefði þurft aðstoð við nánast alla hluti og manninn með sér. Hann gæti þó oft blekkt þá sem ekki þekktu hann. Hann geti haft góða framkomu og orðað hlutina vel, en skilji þó ekki alltaf hvað orðin þýða sem hann noti. Hann búi nú á stað þar sem starfsfólk sé allan sólarhringinn. Engin alvöru greining liggi fyrir á andlegum þroska hans, en hann þurfi aðstoð við allt, geti ekki hugsað um sig nema með hvatningu og stuðningi. Hann geti engan veginn séð um sig fjárhagslega. Hann sé illa staddur félagslega og mjög auðvelt sé að hafa áhrif á hann. Ef einhver vilji tala við hann telji hann sig hafa eignast nýjan vin. Hann trúi á hið góða í öllum og geri ekki greinarmun á því hvort fólk sé í lagi eða ekki. A hafi rætt við sig um ákærða nýlega, en hann hafi ekki nefnt hann áður. Hún muni eftir því að hann hafi gert mikið af því að skipta um símanúmer þar sem hann hafi verið að forðast ákærða og fleira fólk. Hann hafi sagt að það væri maður að hringja í sig og biðja sig um aðstoð við að færa einhverja kassa. Hann hafi sagt sér eftir að þetta mál hafi komið upp að það hafi verið ákærði. A hafi flutt á [...] við 18 ára aldur, sem sé sambýli fyrir fatlaða einstaklinga. Á síðasta ári hafi hann flutt að [...]. A hafi verið mjög aumur á meðan hann hafi verið að rifja þessa atburði upp og gefa skýrslu hjá lögreglu. Hann hafi, áður en hann hafi farið til lögreglunnar, greint henni frá því að hann hefði átt í kynferðislegum samskiptum við ákærða. Hann hafi ekki lýst því nánar að öðru leyti en því að hann hafi fengið peninga og sígarettur fyrir. Hún sagði A ekki hafa viljað fara til ákærða, en hafa látið til leiðast. Hann sé mjög veikur fyrir því ef honum eru boðnir peningar eða sígarettur. Það sé hægt að kaupa hann til hvers sem er fyrir peninga og fíkniefni. Hún taldi þá [...] sem hann vildi fara í núna tengjast því að hann hafi átt erfitt, hann sé að reyna að  flýja og vilji byrja upp á nýtt sem ný manneskja.

Vitnið H, forstöðumaður á sambýlinu [...], gerði grein fyrir því að A hefði flutt á sambýlið í nóvember sl. Kynferðisbrotadeild lögreglunnar hefði haft samband við sig og sagt sér að A væri vitni, jafnvel þolandi, í þessu máli og að hann hefði verið boðaður til skýrslutöku. Hún hafi sagt A frá þessu. Hann hafi þá sagt henni frá því að hann hefði kynnst ákærða 19 ára gamall. Hann hafi grátið og honum hafi ekki liðið vel. Hann hafi svo rætt þetta nánar næstu daga. Hann hafi sagt að hann hefði heimsótt ákærða oft á heimili hans í [...]. Þeir hafi átt einhvers konar kynmök og honum hafi verið borgað fyrir með ýmsum hætti, sígarettum, peningum, sælgæti eða bjór. Hann hafi illa gert sér grein fyrir því hversu oft þetta hafi gerst eða á hvaða tímabili, en það hafi verið langur tími. Henni hafi fundist að þetta gæti hafa verið að gerast fram til ársins 2010, þar sem A hafi talað um að hann hefði ekki hitt ákærða á þar síðasta ári. A hafi liðið mjög illa þegar málið hafi komið upp. Hann hafi misst svefn og verið grátgjarn. Þá lýsti vitnið því að A væri mjög áhrifagjarn.

Vitnið B greindi frá því að hann hefði kynnst ákærða þegar hann hefði farið heim til hans ásamt A þegar hann hefði verið 15 ára. Hann hafi verið í neyslu og muni ekki eftir því. Hann taldi þó ekki rétt að hann hefði dvalið hjá ákærða í vikutíma. Hann hafi ekki heyrt frá ákærða í nokkur ár, en síðan hafi ákærði haft uppi á sér. Líklega hafi hann fengið símanúmer sitt hjá A. Hann hafi farið til ákærða og þeir hafi spjallað saman í stutta stund. Svo hafi hann farið að hitta ákærða reglulega. Hann hafi talið ákærða vera vin sinni. Stundum hafi þeir einungis spjallað saman. Stundum hafi hann endað „dauður“ inni í rúmi eftir djammið og rankað við sér og þá hafi ákærði verið búinn að gera eitthvað við hann. Ákærði hafi fróað honum og veitt honum munnmök. Ákærði hafi viljað að hann fróaði sér og færi í sleik við sig. Þetta hafi gerst oft, en hann geti ekki nefnt hve oft. Hann gruni að þetta hafi byrjað þegar hann var 15 ára og hafi sofnað í sófanum hjá ákærða. Síðasta skiptið hafi verið í nóvember eða desember í fyrra. Ákærði hafi látið hann hafa eitt og annað, aðallega mat, en einnig peninga til að útvega sér næsta skammt. Hann hafi þó ekki alltaf fengið peninga. Stundum hafi hann fengið einn strætisvagnamiða. Hann hafi farið til ákærða til að fá mat. Hann hafi fengið einn bjór hjá honum. B kvaðst hafa sagt ákærða að hann væri í neyslu og að hann væri á götunni. Hann kvaðst vera misþroska með greindarskerðingu og ADHD, [...] og fleira. Hann hafi ekki sagt ákærða frá því svo hann muni, en það gæti þó vel verið. Ákærði hafi vitað af því að hann hafi búið á [...]. B kvaðst hafa hringt í ákærða til að ræða við hann sem vin. Ákærði hafi stundum hringt í sig á nóttunni til að fá sig til kynferðisathafna. Hann hafi ekki viljað gera þetta. Hann hafi oft reynt að segja ákærða það, en hann hafi ekki hlustað á það, heldur bara ýtt og ýtt á hann þar til hann hafi gefist upp og sagt já. Hann hafi oft reynt að fara, en ákærði hafi lokað dyrunum og dregið hann inn. B kvaðst vera gagnkynhneigður. Ákærði hafi vitað það, enda hafi hann komið þarna með kærustunni sinni. Ákærða hafi verið alveg sama. Ákærði hafi alltaf beðið um það sama, kynlíf. Hann hafi stöku sinnum fengið lánaða peninga hjá ákærða, en það hafi verið mjög lítið, um 200 krónur. Þegar hann hafi ætlað að borga þetta til baka hafi ákærði sagt honum að hann mætti eiga þetta og hann hafi líka viljað fá það borgað í kynlífi. Þeir hafi ekki rætt um að þetta hafi verið greiðsla fyrir kynlíf og hann hafi ekki litið þannig á. Peningarnar sem hann hafi fengið hafi verið um 200 krónur til 3.000 krónur. B kvað líðan sína ekki góða í dag og hann sofi stundum ekki á nóttunni vegna þessa. Hann hafi nokkrum sinnum reynt að taka líf sitt, m.a. vegna þessa. Hann hafi verið í sterkri neyslu til að gleyma þessu. Hann hafi séð ákærða í sjónvarpinu og þá sagt mömmu sinni frá þessu, en fram að því hafi hann engum sagt þetta.

Vitnið I, móðir B, skýrði frá því að B hefði fengið greiningu við 12 ára aldur. Hann [...] og sé mikið misþroska og á einhverfurófi. Hann hafi ekki átt almennilega skólagöngu. Hann hafi farið oft á geðdeild frá fimm ára aldri. Hún kvaðst hafa vitað af sambandi B við ákærða fyrst um árið 2000. Hann hafi farið með A til að heimsækja hann. Svo hafi hún vitað af sambandi milli þeirra síðustu ár. Síðasta haust hafi hún hringt í ákærða og beðið hann um aðstoð, þegar B hafi verið erfiður, til að fá hann til að koma heim. Hún hafi þó ekki talað um andlega hagi B við hann. Hana hafi á síðasta ári eða árið á undan verið farið að gruna hvað væri á seyði á milli þeirra. Hún hafi oft keyrt B til ákærða og sótt hann. Hann hafi einhverju sinni verið rauður og skrítinn í kringum munninn þegar hann hafi komið út. Þegar hún hafi spurt hann um það hafi hann orðið reiður og ekki viljað viðurkenna neitt, en sagst hafa verið að hjálpa ákærða við að parketleggja eða flytja eitthvað til. Hún hafi oft orðið vör við að hann fengi peninga og sígarettur frá ákærða. Hann hafi gefið þá skýringu að þetta væri vegna aðstoðar sinnar. Hana hafi grunað að ákærði gæfi honum pillur. B hafi sótt mikið í að fara til hans eftir að hann hafi farið í neyslu. Ákærði hafi lagt hart að B að koma til sín. Hún hafi sent ákærða símaskilaboð og beðið hann um að láta B í friði. Hún hafi einnig talað við hann í síma. Það hafi verið árið 2011 eða 2012, en þá hafi hún verið farin að hafa áhyggjur af þessu. Hún hafi orðið vör við þetta þegar B hafi flutt heim aftur, en hún gerði sér þó ekki grein fyrir því hvenær hann hefði byrjað að fara til ákærða. Vitnið lýsti B þannig að hann væri eins og kameljón, líktist þeim sem hann væri með hverju sinni. Snemma hafi komið í ljós að auðvelt væri að kaupa hann, er honum hafi verið borgað fyrir að taka próf á BUGL. Hægt sé að teyma hann mjög langt með peningum og öðrum hlutum sem honum séu gefnir. Hún sagði B oft hafa reynt að fyrirfara sér undanfarin tvö ár. Hann hafi fyrst reynt þetta við 15 eða 16 ára aldur. Síðasta ár hafi verið mjög erfitt. Þegar umfjöllunin um ákærða hafi verið í sjónvarpinu hafi B orðið alveg brjálaður og viljað að slökkt væri á sjónvarpinu. Hann hafi þó ekkert sagt um þetta þá og síðan ekki viljað ræða um þessi atvik.

Vitnið C, kvaðst fyrst hafa hitt ákærða á almenningssalerni á Lækjartorgi þar sem ákærði hafi komið við kynfæri hans innan klæða. Ákærði hafi káfað á kynfærum hans innan klæða og fróað honum á almenningssalerni á Hlemmi fjórum til fimm sinnum. Þá hafi hann einu sinni átt við hann munnmök. Ákærði hafi komið inn þegar hann hafi verið að pissa. Hann kannaðist ekki við að hafa hitt ákærða á Núllinu í Bankastræti. Ákærði hafi ekki spurt hann leyfis og hann hafi ekki viljað þetta. Hann hafi einu sinni sagt við ákærða að sér fyndist þetta vont. Hann hafi einu sinni fengið sáðlát en mundi ekki hvort ákærði hefði gert það. Hann sagði þetta hafa gerst oftast þegar þeir hefðu hist, en ekkert annað samband hefði verið á milli þeirra. Þeir hafi þó rætt saman einstaka sinnum. Hann hafi ekki vitað nafn ákærða. Hann kvaðst engum hafa sagt frá þessu. Hann taldi þetta hafa gerst árin 2006 og 2007 og síðasta skiptið hefði verið um haustið 2007. Vitnið sagði að sér hefði ekki liðið vel meðan á þessu hafi staðið, en sér hafi þó liðið ágætlega eftir þetta. Hann hefði séð ákærða í Kastljósi og sagt frá þessu eftir það. Honum hafi liðið illa eftir það.

Vitnið F, forstöðumaður á sambýlinu [...], greindi frá því að C hefði komið til hennar fljótlega eftir fréttaumfjöllun um ákærða. Hann hefði sagt sér að hann þekkti manninn í sjónvarpinu. Þau hafi farið saman inn á skrifstofu og hún beðið hann um að segja sér hvernig hann þekkti hann, hvort hann hefði áreitt hann kynferðislega. Hann hafi sagt svo hafa verið og skýrt frá því að hann hefði fyrst hitt ákærða á Hlemmi árið 1994. Ákærði hafi kallað á sig með nafni og beðið sig um að koma með sér inn á salerni. Hann hafi talið að þetta hafi gerst í fjögur til fimm skipti og alltaf á Hlemmi. Hann hafi sagt að síðasta skiptið hefði verið árið 2005, en nokkrum dögum seinna hafi hann sagt að það hefði líklega verið 2007. Hún hefði spurt hann af hverju hann hefði farið með ákærða á salernið og hann hefði svarað því til að hann hefði ekki þorað öðru. Hann hafi haldið að ákærði myndi lemja sig. Hann hafi reynt að segja ákærða að hann vildi þetta ekki, en eiginlega ekki þorað það og látið þetta yfir sig ganga. Hann hafi talið ákærða vilja vera vin sinn, en svona gerði maður ekki við vini sína. Hann hafi verið með það á hreinu að þetta hafi verið eitthvað sem hann hafi ekki viljað, en það sé mjög sterkt í eðli hans að vilja þóknast. C hafi blygðast sín mjög mikið. Hún taldi að hann hneigðist til kvenna, en hún vissi ekki til þess að hann hneigðist að karlmönnum. C hafi verið mjög létt eftir að hafa sagt frá þessum atburðum. Síðan þá hafi hann ekki rætt þetta. Hún lýsti því að C væri þroskahamlaður. Hann hefði orðið fyrir miklum höfuðáverka þegar hann varð fyrir bifreið sex ára að aldri. Hann sé bæði líkamlega og andlega fatlaður og fái aðstoð við flest atriði daglegs lífs. Hann sé þannig að hann verði mjög glaður ef honum er hrósað og það sé auðvelt að lokka hann með boði, t.d. um vinskap.

Vitnið D greindi frá því að hann hefði kynnst ákærða á Hlemmi fyrir mörgum árum. Ákærði hafi beðið sig um að vera vinur sinn og koma til sín í heimsókn. Hann hafi farið til hans. Þeir hafi rætt saman í fyrstu en síðan hafi ákærði farið að káfa á sér og koma of nálægt sér kynferðislega. Hann hafi verið um 18-19 ára á þessum tíma. Hann hafi flust í burtu, en svo hitt ákærða aftur síðar. Hann hafi þá farið heim til ákærða í nokkur skipti, en þá hafi ákærði gerst enn ágengari. Hann hafi farið að snerta hann innan klæða og klætt sig úr. Ákærði hafi snert kynfæri sín, leikið við þau og fróað honum. Hann hafi snert kynfærin með höndunum og sett þau í munn sinn. Ákærði hafi fróað sér á meðan. Hann kvaðst ekki hafa leyft ákærða að eiga við endaþarminn á sér og ákærði hafi virt það. Þetta hafi gerst árin 2010, 2011 og 2012. Ákærði hafi sagt honum í desember 2010 að hann væri með peninga fyrir hann. Hann hafi fengið 3.000-4.000 krónur þá. Ákærði hafi einnig sagt honum að ef hann kæmi til hans einstöku sinnum myndi hann bæta við bónus. Þetta hafi gerst í fjögur skipti árið 2010, þrjú skipti 2011 og tvö skipti 2012, en hann væri þó ekki alveg viss. D kvaðst hafa fengið greitt fyrir þetta. Þetta hafi verið 2.000-3.000 krónur, en einu sinni hafi hann fengið 5.000 krónur. Þann 3. desember sl. hafi hann komið til ákærða og fengið peninga fyrir bensíni og afmælisgjöf, en ekkert kynferðislegt hefði gerst þá. Ákærði hafi einu sinni reynt að stöðva sig þegar hann hafi ætlað að fara út. Ákærði hafi sagt sér að þessar greiðslur væru vegna þess að hann væri í uppáhaldi hjá honum. Hann hafi talið þetta vera fyrir kynlífið. D kvaðst ekki hafa viljað þetta og hann væri ekki fyrir karlmenn. Hann hefði farið í heimsókn til ákærða til að heilsa upp á hann, en ekki átt von á því að ákærði gerði þetta aftur. Hann hafi talið ákærða vin sinn og haldið að hann myndi hætta þessu, enda hafi hann beðið hann um það þegar þetta hafi verið að gerast en hann hafi alltaf haldið áfram. Það hafi eiginlega alltaf verið kynlíf á milli þeirra þegar þeir hafi hist, en stundum hafi hann sagt að hann hefði ekki tíma til að stoppa. Hann hafi þá bara fengið peningana. Hann kvað ákærða hafa fengið sig til að koma til sín. Hann hafi hringt í sig og sagt að hann væri með peninga fyrir hann. Hann hafi ekki vitað að hann þyrfti að gera eitthvað kynferðislegt í staðinn. D kvaðst hafa verið smeykur við ákærða þegar hann hafi séð hann í fréttunum. Hann hafi áður verið örlítið smeykur við hann, en hann hafi leitt það hjá sér. Honum hafi fundist ákærði stjórna sér svolítið, en gat ekki lýst því nánar. Hann kvaðst vera ofvirkur og með athyglisröskun og hafa átt erfiða skólagöngu. Honum hafi liðið mjög illa eftir þetta. Hann hafi t.d. lent í miklu þunglyndi á laugardaginn. Hann hafi misst alla lífslöngun, meðal annars vegna þessa og þess að hann hefði nýlega verið greindur með dæmigerða einhverfu. Hann kvaðst hafa haldið að ákærði væri vinur sinn. Hann taldi ákærða ekkert hafa vitað um sig og ekki kært sig um að vita það. Hann hafi sagt ákærða að hann ætti konu, en ákærði hafi sagt að sér væri alveg sama. Hann hafi einu sinni sagt honum að hann væri ekki fyrir karlmenn, en ákærði hafi ekki hlustað á sig. Hann hafi einnig sagt honum að hann væri öryrki. Þegar hann hafi séð ákærða í sjónvarpinu hafi hann sagt föður sínum frá þessu.

Vitnið J, faðir D, lýsti því að þegar umræða um ákærða hafi komið upp í fjölmiðlum hafi D haft samband við hann og lýst því að ákærði hefði brotið á sér. Honum hafi skilist á D að það væri langur aðdragandi að þessum atburðum. Hann minnti að hann hefði sagt sér að hann hefði kynnst ákærða á Hlemmi. Hann hefði hvatt hann til að kæra málið. D hefði ekki lýst því hvernig þetta hafi átt sér stað. Hann hafi talið ákærða mikinn vin sinn. Vitnið lýsti því að D hefði verið fæddur ofvirkur. Æska hans hafi verið mjög erfið og hann hafi gengið í [...]. Hann hafi verið á heimili fyrir þá sem hafi ekki látið almennilega að stjórn. Hann sé misþroska, en bráðskarpur á mörgum sviðum. Hann hafi verið í sálfræðigreiningu og út úr því hafi komið að hann væri með dæmigerða einhverfu. Hann eigi þrjú börn með tveimur konum. Hann sé tortrygginn á vissan hátt, en ef honum sé mætt í því sem hann hafi vit á, t.d. í bílamálunum, eða komið fram við hann eins og hann sé svolítið númer, finnist honum mikið til um það og geti verið leiðitamur. Ef hann telur mann vera vin sinn sé hægt að fara langt með hann. D hafi verið kátur og glaður en hafi dottið niður í mikið þunglyndi sl. helgi. Hann gruni að það sé að hluta vegna þessa máls en D hafi kviðið því að þurfa að mæta og segja sögu sína.

Vitnið Tryggvi Sigurðsson sálfræðingur gerði grein fyrir mati fyrir sínu á þroska og heilbrigðisástandi allra brotaþola. Hann kvaðst hafa hitt A alls fimm sinnum. Hann hafi lagt fyrir hann ákveðin próf og rætt við hann, auk starfsmanns þar sem hann búi. Gögn hafi legið fyrir um að A væri með fötlun sem kallaðist væg þroskahömlun. Það sé þó ekkert vægt við að vera með þroskahömlun. Það sé fötlun, en henni sé skipt í fjögur stig og fötlun hans sé á vægasta stiginu. Niðurstaða hans hafi staðfest að þessi greining ætti fyllilega við og A uppfylli alþjóðleg greiningarmerki fyrir hana. Hann eigi langa sögu um erfiðleika í líðan og hegðun. Það sé hans klíníska mat að A sé með röskun á einhverfurófi, án þess að það hafi verið skilgreint sem hans fötlun. Hegðun hans og líðan einkennist af depurð og kvíða. Hann eigi jafnframt sögu um neyslu. Niðurstaða hans sé sú að fötlun A sé margþætt, alvarleg og augljós. Hún hafi í för með sér að auðvelt sé að misnota traust hans og leiða hann í samskipti eins og þau sem hann hafi kært. Það sé eitt af því sem auðvelt sé að tengja við þessa fötlun að ákærði hafi farið ítrekað til ákærða. Það sé mjög þekkt að fólk með þroskahömlun leiti eftir viðurkenningu og trausti. Auðvelt sé að misnota þetta traust. Hann taldi ótvírætt að venjulegu fólki yrði ljóst að þarna væri um fatlaðan einstakling að ræða strax við fyrstu kynni. A sé mjög sérstakur maður og það fari ekki fram hjá fólki. Augljóst sé að ákærði hafi misnotað sér fötlun A. Ekki væri um jafningjasamband að ræða. Hæfni A til þess að samþykkja kynlíf væri skert vegna þroskahömlunar hans. Það lægi í eðli þeirrar stöðu að það væri erfiðara að standast ákveðinn þrýsting. Hann kvað A hafa verið tregan til að ræða líðan sína, en hann hefði þó lýst vanlíðan í tengslum við þessa atburði. Hann taldi A hafa borið skaða af þessum atburðum. Hann myndi eiga erfiðara en aðrir með að vinna úr reynslu sinni vegna fötlunar sinnar.

Vitnið kvað B hafa komið einu sinni til sín. Hann hafi ekki getað gert þær athuganir sem honum hafi verið falið að gera og hann hafi viljað. B væri útigangsmaður og í neyslu. Hann hafi þó rætt við B og kynnt sér gögn málsins. Ýmis vottorð og sálfræðimöt liggi fyrir, það síðasta frá árinu 2000 þar sem B hafi mælst með greindarvísitöluna 72, auk alvarlegra erfiðleika og frávika í hegðun, líðan og félagslegri aðlögun. Alþjóðlegar skilgreiningar á þroskahömlun séu breytilegar, en þegar horft sé á þetta sé hann innan skekkjumarka fyrir þroskahömlun árið 2000. Afar líklegt sé því að ef fötlun hans væri skilgreind núna hefði það leitt til þroskahömlunargreiningar. Öllum sem tali við B sé augljóst að hann sé andlega skertur. Honum hafi fundist hann augljóslega andlega skertur þrátt fyrir að hann hafi að einhverju leyti verið í annarlegu ástandi þegar hann hafi hitt hann. Þótt fötlunargreining á B liggi enn ekki fyrir sé vitsmunaleg skerðing hans greind. Hann sé langt undir því sem kallað séu tornæmismörk. Vitnið kvaðst ekki geta fullyrt að hann félli undir greiningarviðmið fyrir þroskahömlun þó það væri líklegt. Einsýnt væri að B hafi allan sinn þroskaferil átt við alvarlega erfiðleika að stríða þannig að jafna megi ástandi hans við fötlun. Hann sé bæði augljóslega vitsmunalega skertur og illa staddur félagslega og tilfinningalega, auk þess sem hann sé í neyslu. Ástand hans sé því mjög alvarlegt.

Vitnið greindi frá því að C hefði verið athugaður á Greiningarstöð ríkisins. Fötlun hans væri margþætt og erfið. Hann sé með væga þroskahömlun, hreyfihömlun og málhömlun. Þetta sé samsett og alvarleg fötlun sem rekja megi til heilalömunar. Þetta hái honum í daglegu lífi og samskiptum við aðra. Fötlunin sé augljós og alvarleg og hafi í för með sér að hann sé leiðitamur og áhrifagjarn og auðvelt sé að misnota traust hans. Líkamleg fötlun hans sé augljós. Hann hafi ákveðna styrkleika, hann tali hægt, en augljóst sé að hann eigi við andlega fötlun að stríða. Hann hafi rætt um brotin og lýst mikilli vanlíðan í tengslum við þau. Hann sé að reyna að gleyma þessu og lifa af með þessu. Brotin gagnvart honum séu mjög alvarleg. Hann hafi greint frá því að brotin hafi átt sér stað á almenningssalerni á Hlemmi. Ákærði hafi farið með hann þarna inn og komið fram vilja sínum. Hann hafi ekki getað varið sig. Hann telji að C þurfi aðstoð til þess að vinna úr þessari reynslu.

Vitnið greindi frá því að þroskahömlunargreining lægi fyrir á D frá uppvaxtarárum hans. Hann hafi verið í sérskóla fyrir börn með þroskahömlun. Niðurstöður greindarprófana hans hafi staðfest greiningu á vægri þroskahömlun. D sé öryrki og atvinnulaus. Hann hafi lýst mikilli vanlíðan eftir samskipti við ákærða, m.a. sagt að hann hefði hugleitt sjálfsvíg. Hann hafi lýst því að þetta hafi byrjað mun fyrr og staðið mun lengur en komi fram í gögnum málsins. Þegar hann hafi spurt D út í það hafi hann ekki treyst sér til að ræða það. Hann hafi lýst því að sér fyndist ákærði eiga sig og hann gæti því ekki stöðvað þetta. Hann teldi þetta því hafa haft alvarlegar afleiðingar fyrir hann. D sé með augljósa fötlun. Námsferill hans staðfesti það. Fötlunin eigi að vera öllum ljós. Þótt hann beri það ekki með sér útlitslega eigi öllum að vera það ljóst sem tali við hann. Þetta sé ljóst af allri rökhugsun, umræðu og skilningi. Ekki þurfi langar eða djúpar samræður til þess að átta sig á því. Aðspurður hvort hann hafi ekki skilning á því sem fram hafi farið milli hans og ákærða þar sem hann hafi átt í samböndum við konur og eigi börn, svaraði vitnið því að D hefði verið á viðkvæmum aldri og líklega ekki haft mikla reynslu af kynlífi þegar það hafi byrjað. Hann geti samþykkt kynlíf í heilbrigðu jafnaðarsambandi. Hann sé hins vegar veikur fyrir gagnvart misneytingu vegna fötlunar sinnar. Hann hafi lýst því mjög vel og ítrekað að hann hafi ekki getað veitt ákærða mótþróa. Um ýkt stirðnunarviðbrögð sé að ræða hjá honum, eins og öðrum brotaþolum. Þá lýsti vitnið því að fatlaðir einstaklingar ættu erfiðara með að vinna úr kynferðislegri misnotkun en heilbrigðir einstaklingar.

Vitnið Ólafur Örn Bragason sálfræðingur gerði grein fyrir mati sínu sem hann vann fyrir lögreglu á þroska og heilbrigðisástandi ákærða í þágu rannsóknar málsins. Engin merki hefðu verið um að ákærði væri ósakhæfur. Hann hafi verið metinn með tilliti til helstu geðraskana, en þær hafi ekki greinst hjá honum. Þó gætti depurðar og lágs sjálfsmats í kjölfar þess að málin komu upp, en þess hafi ekki gætt áður. Ákærði greinist með slaka meðalgreind. Rökályktunarhæfni hans væri því nægjanleg til þess að hann gæti áttað sig á hlutum eins og því að einstaklingur sem býr á sambýli fyrir fatlað fólk hafi greinst sem slíkur. Hann eigi að geta skynjað upplýsingar úr umhverfinu með eðlilegum hætti. Ákærði sé einu staðalfráviki frá meðaltali, sem teljist innan meðaltals, þannig að hann teljist meðalgreindur í sjálfu sér. Hann hafi viðurkennt að hafa farið á Lækjartorg og Hlemm til að leita í félagsskap karlmanna. Hann geri sér grein fyrir högum þeirra sem hann eigi í samskiptum við, m.a. þegar þeir hafi verið inni á meðferðarstofnunum og haft samband við hann í neyð. Þá hafi hann boðið þeim heim til sín. Hann segi sjálfur frá því að hans kynferðislegu langanir séu í garð karlmanna á aldrinum 25-35 ára. Hann hafi greint frá brotum sínum gegn börnum. Eftir árið 1986 segi hann kynferðislegar langanir sínar hafa breyst og orðið í garð eldri einstaklinga. Hann hafi tilhneigingu til að fegra sig, en það sé ekki óeðlilegt í þessari stöðu. Ekkert sé í hegðun hans sem bendi til þess að áhugi hans beinist að börnum núna. Það kunni að vera eðlilegt þar sem hann hafi sjálfur elst. Hann segist þó hafa kynnst þessum einstaklingum þegar þeir hafi verið rúmlega tvítugir. Ákærði noti aðferð til að nálgast þessa einstaklinga sem séu sambærilegar þeim sem hann hafi beitt á börn áður fyrr, að því er hann segi sjálfur. Hann hafi sóst eftir trúnaðarstörfum með börnum. Hann hafi beðið þau um að koma og aðstoða sig og þá brotið gegn þeim. Með svipuðum hætti fari hann á Hlemm og Lækjartorg þar sem hlutfall viðkvæmra einstaklinga sé mögulega hærra en annars staðar. Hann fái menn svo heim til sín með einhverri tylliástæðu. Hann sýni þeim klámblöð eða myndefni, fari að káfa á þeim og færi þá svo úr fötunum. Hann hafi ekki litið svo á að hann hafi verið að greiða fyrir kynlíf, það hafi verið vinargreiði að láta þá hafa peninga. Mennirnir hafi hins vegar yfirgefið heimili hans þegar kynferðislegum samskiptum þeirra hafi lokið. Hann hafi litið á þessa menn sem vini sína. Ákærði væri dapur gagnvart einum brotaþola, B. Hann hafi talið samband sitt við hann mjög náið. Hann hafi verið honum sem sonur og sýnt af sér hegðun sem benti til þess að honum væri ekki sama um hann. Ákærði gerði sér ekki grein fyrir því að hann hefði valdið brotaþolum skaða. Hann liti ekki á þetta sem brot. Niðurstaða úr greindarprófi hafi ekki bent til þess að ákærði uppfyllti skilyrði siðblindu, þar sem eitt einkenni hennar væri góð greind, en hann hafi ekki metið hann sérstaklega með tilliti til þess. Einstaka þættir á prófunum sem hann hafi lagt fyrir ákærða meti sum einkenni siðblindu. Sum einkenni, eins og skortur á samkennd, bentu þó til hennar. Hegðun ákærða hafi byrjað þegar hann hafi verið mjög ungur og hafi svo þróast í gegnum árin með þessum hætti. Hann uppfylli ekki skilyrði til að vera metinn með barnagirnd. Hann sé ekki mjög andfélagslegur fyrir utan kynhneigð sína. Líkurnar séu um 20% á ítrekun kynferðisbrota. Líkurnar minnki hins vegar með aldrinum og það vegi því mikið í matinu. Hann telji þó að ákærði þurfi ákveðna meðferð innan fangelsisins. Hann hafi ekki látið af hegðun sinni þrátt fyrir skýr skilaboð um að hún væri óásættanleg. Ákærði eigi að hafa getu til að átta sig á afleiðingum gerða sinna, en þurfi að læra að stjórna hegðun sinni. Ákærða hafi verið settur stólinn fyrir dyrnar þar sem börn hafi verið. Hann hafi því þurft að finna leiðir fyrir kynferðislegar langanir sínar og valið þessa leið. Þó hafi hann líka fengið þau skilaboð á [...] að þetta væri ekki í lagi. Ákærði hafi verið virkur í félagsstarfi og atvinnu. Þar hafi jafningjar hans verið. Hann hafi gert sé grein fyrir því að svo hafi ekki verið um brotaþola. Ákærði hafi mælst með ívið meiri sektarkennd en gengur og gerist. Hann hafi verið skýr í því að hann hafi viljað taka ábyrgð. Þegar nánar væri spurt út í hegðunina sem slíka, t.d. hvort þetta hafi haft varanleg áhrif, virtist hann þó ekki trúa því. Ástæðan sé sú að hann líti ekki á þetta sem brot, þar sem hann telji brotaþola hafa getað stöðvað þau.

Niðurstaða

Ákæruliður I

Ákærði hefur viðurkennt að hafa átt kynferðisleg samskipti við brotaþolann A, en neitað því að hafa nýtt sér andlega fötlun hans. Þá neitar hann því að um vændi hafi verið að ræða. Ákærði hefur lýst samskiptum þeirra svo að hann hafi í 10-15 skipti átt við hann kynferðismök, yfirleitt með þeim hætti að hann hafi fróað brotaþola og brotaþoli hafi svo tekið við sjálfur. Hann hefur hafnað því að hafa veitt brotaþola munnmök. Upphaf þessara samskipta taldi hann hafa verið fyrir um 20 árum, en þeir hafi verið búnir að kynnast árið 1995. Það er í samræmi við framburð brotaþola sem taldi þá hafa kynnst þegar hann hafi verið um tvítugt, árið 1995. Hins vegar er óljóst hvenær samskiptum þeirra lauk. Framburður ákærða um það er ekki skýr. Fyrir lögreglu bar hann upphaflega um að tvö til þrjú ár væru síðan, en sagði síðar að það væru fjögur til fimm ár. Ákærði bar fyrir dóminum að samskiptum þeirra hefði lokið þegar A hefði kynnt hann fyrir B. Það hafi verið fyrir [...] ára afmæli B, sem var árið 2008. Brotaþoli var ekki viss um hvenær samskiptum þeirra lauk. Þykir verða að leggja framburð ákærða til grundvallar að þessu leyti og miða við að samskiptum þeirra hafi lokið á árinu 2008. Brotaþoli taldi fyrir dóminum að þetta hefði gerst í fleiri en 15 skipti, en treysti sér ekki til að fullyrða nánar um fjölda skipta. Þar sem engin frekari gögn liggja fyrir í málinu um þetta efni en framburður ákærða og brotaþola þykir verða að leggja til grundvallar að ákærði og brotaþoli hafi átt kynferðismök með þeim hætti sem ákærði hefur lýst í 10-15 skipti.

Fyrir dóminum liggur skýrsla Tryggva Sigurðssonar sálfræðings um þroska A og heilbrigðisástand. Tryggvi kom fyrir dóminn og staðfesti þá niðurstöðu sína að A væri með þroskahömlun. Fötlun hans væri margþætt, alvarleg og augljós. Móðir A, G, kom fyrir dóminn og lýsti fötlun hans. A kom sjálfur fyrir dóminn og er það álit dómsins að hann beri augljós merki fötlunar sinnar. Ákærði hefur borið að hann hafi fljótlega gert sér grein fyrir fötlun A og hafi vitað að hann byggi á sambýli fyrir fatlaða. Ólafur Örn Bragason sálfræðingur mat þroska og heilbrigðisástand ákærða. Í mati hans kom fram að ákærði greindist með slaka meðalgreind. Hann teldist þó innan meðaltals og ætti að búa yfir nægri hæfni til þess að geta skynjað upplýsingar úr umhverfinu með eðlilegum hætti, s.s. að skynja merkingu þess að einstaklingur búi á sambýli fyrir þroskaskerta. Samkvæmt framangreindu hlaut ákærða að hafa verið ljóst allt frá upphafi kynna þeirra A að hann væri haldinn andlegri fötlun.

A hefur greint frá því að hann hafi kynnst ákærða er hann hafi farið á heimili hans í fylgd annars manns þegar hann hafi verið um tvítugt. Ákærði hefur kannast við þessa lýsingu. A lýsti því að eftir fyrstu heimsókn sína til ákærða hafi ákærði tekið að hringja til sín og biðja sig um að koma til að aðstoða sig við einhver viðvik. Heimsóknirnar hafi hins vegar farið á annan hátt en hann hafi búist við. Ákærði hafi þá leitað á hann og viljað fá hann til kynferðislegra samskipta. Ákærði viðurkenndi fyrir dóminum að hann hefði átt frumkvæðið að samskiptunum. Samband þeirra hafi eingöngu verið kynferðislegt og A hafi stoppað stutt hjá honum í hvert sinn. Hann hafi gefið A peninga og sígarettur en þó ekki í hvert sinn.

Í skýrslu Tryggva Sigurðssonar sálfræðings um þroska og heilbrigðisástand A kom fram að fötlun hans hafi það í för með sér að auðvelt sé að misnota traust hans og leiða hann í þá tegund samskipta sem hann hafi kært. Tryggvi staðfesti þetta fyrir dóminum og bar að hæfni A til þess að samþykkja kynlíf væri skert vegna þroskahömlunar hans. Móðir A lýsti því að mjög auðvelt væri að hafa áhrif á hann og hann gerði ekki greinarmun á því hvort hægt væri að treyst fólki eða ekki. Hún lýsti því að A hefði skipt um síma til að reyna að forðast ákærða. Þá lýsti H, forstöðumaður á sambýli þar sem A býr, því að hann væri mjög áhrifagjarn. A hefur lýst vanlíðan sinni vegna þessara samskipta, sem staðfest hefur verið af Tryggva Sigurðssyni sálfræðingi.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður talið sannað að ákærði hafi notfært sér andlega fötlun brotaþola til þess að hafa við hann kynferðismök. Hefur hann með háttsemi sinni gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en 196. gr. laganna fram til gildistöku laga nr. 61/2007 þann 4. apríl 2007. Brot þau sem ákærði er hér sakfelldur fyrir voru framin á árunum 1995 til 2008. Þar sem þau voru framin fyrir breytingu á 1. mgr. 206. gr. laga nr. 19/1940 með lögum nr. 54/2009 þann 1. maí 2009 verður hann sýknaður af broti gegn því ákvæði í þessum lið ákærunnar.

Ákæruliður II

Ákærði hefur neitað því að hafa nýtt sér andlega fötlun brotaþolans B, en játað að hafa haft kynferðisleg samskipti við hann. Hann neitar því að um vændi hafi verið að ræða. Ákærði lýsti því að hann hefði kynnst B er hann hafi komið á heimili hans, ásamt A. Hann var ekki viss um hvenær þetta hafi verið, en taldi það þó hafa verið fyrir [...] ára afmæli B í júlí 2008. B hefur hins vegar lýst því fyrir dóminum að hann hafi farið mun fyrr heim til ákærða, eða þegar hann hafi verið um 15 ára. Hann muni þó ekki eftir því hvað hafi gerst þá. Hann hafi ekki haft samskipti við ákærða í mörg ár, þar til ákærði hafi skyndilega hringt til sín, en hann gat ekki greint frá því hvaða ár það hafi verið. Þykir því verða að miða við framburð ákærða um þetta efni og leggja til grundvallar að kynferðisleg samskipti þeirra hafi hafist á árinu 2008. Ljóst er að þessi samskipti stóðu yfir allt til desember 2012 eins og ákært er fyrir, en bæði ákærði og brotaþoli hafa staðfest að svo hafi verið.

Ákærði hefur lýst kynferðislegum samskiptum sínum við B þannig að hann hafi yfirleitt fróað honum og haft við hann munnmök og er það í samræmi við framburð B. Þá hafi hann fróað sér meðan á þessu hafi staðið. B taldi þetta hafa gerst oft, en gat ekki nefnt fjölda skipta. Ákærði bar fyrir dóminum að þetta hefði gerst oft, en hann taldi það geta hafa verið um þrisvar til fjórum sinnum í mánuði á árinu 2012, en einu sinni eða tvisvar sinnum í mánuði á árinu 2011. Hann mundi ekki hversu oft þetta hefði gerst fyrir þann tíma. B hafi þó búið í [...] og [...] um tíma og þá hafi þeir einungis verið í símasambandi. Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá um lögheimilissögu B var hann búsettur í [...] frá 8. maí 2009 til 21. apríl 2010 og í [...] frá þeim degi til 18. apríl 2011 er hann flutti aftur til Reykjavíkur. Vafa um hvort kynferðisleg samskipti þeirra hafi átt sér stað á þessum tíma verður að meta ákærða í hag. Verður hann því ekki sakfelldur fyrir brot á þessu tímabili. Hins vegar liggur fyrir að háttsemin hefur ítrekað átt sér stað á árunum 2008 til 2012, að þessum tíma undanskildum.

Fyrir dóminum liggur skýrsla Tryggva Sigurðssonar sálfræðings um þroska og heilbrigðisástand B. Kom þar fram að ekki hafi reynst unnt að greina hvort hann uppfylli greiningarviðmið fyrir þroskahömlun þar sem ekki hafi tekist að fá hann til að mæta hjá sálfræðingnum. Fyrirliggjandi gögn bendi þó til þess að sterkar líkur séu til þess að hann geri það. Erfiðleikar B séu mjög alvarlegir og öllum ljósir. Fyrir dóminum kom fram hjá Tryggva að öllum sem ræði við B verði ljóst að hann sé andlega skertur. Vitsmunaleg skerðing hans liggi fyrir, en hann sé langt undir tornæmismörkum. Þrátt fyrir að ekki sé hægt að fullyrða að B sé þroskahamlaður, þar sem ekki hafi tekist að greina hann, sé það mjög líklegt. Ástand hans sé að minnsta kosti þannig að jafna megi því við fötlun. Þá liggur fyrir vottorð Kjartans Jónasar Kjartanssonar, yfirlæknis geðdeildar Landspítalans, þar sem meðal annars kemur fram að B sé með þroskaskerðingu og litningagalla. Móðir B, I, lýsti því fyrir dóminum að B [...], væri misþroska og á einhverfurófi. B kom sjálfur fyrir dóminn. Það er álit dómsins að hann beri merki fötlunar sinnar. B skýrði frá því fyrir dóminum að hann hefði greint ákærða frá því að hann hefði verið í neyslu fíkniefna. Þá gæti verið að hann hefði sagt ákærða frá andlegri heilsu sinni. Fyrir lögreglu skýrði hann hins vegar frá því að hann hefði greint ákærða frá ýmsum andlegum erfiðleikum sínum, meðal annars því að hann væri eftir á. Ákærði hefur borið að brotaþoli hafi greint sér frá því að hann væri eftir á og haldinn ýmsum andlegum sjúkdómum. Hann hafi hins vegar ekki vitað hvað væri rétt í því efni og talið þetta vera afleiðingar fíkniefnaneyslu hans. Þá hafi hann vitað til þess að B byggi á sambýli fyrir fatlaða ásamt A, en hann hafi ekki velt því fyrir sér hvort það þýddi að hann væri andlega fatlaður. Samkvæmt mati Ólafs Arnar Bragasonar sálfræðings á þroska og heilbrigðisástandi ákærða telst ákærði hafa greind innan meðaltals og nægilega hæfni til að skynja upplýsingar úr umhverfinu á eðlilegan hátt og geta gert sér grein fyrir merkingu þess að einstaklingur búi á sambýli fyrir fatlaða. Samkvæmt framangreindu hlaut ákærða að hafa verið það ljóst allt frá upphafi kynna þeirra B að hann væri haldinn andlegri fötlun.

Ákærði lýsti því að samskipti hans og B hefðu hafist aftur eftir nokkurt hlé er B hefði hringt í hann og í kjölfarið komið í heimsókn. Hann taldi þá báða hafa haft frumkvæði að heimsóknum B. Framburður B samræmist framburði ákærða að því leyti að hann kvaðst stundum hafa hringt í ákærða. Ákærði hafi þó verið sá sem hafði samband við hann eftir langt hlé með því að hafa uppi á símanúmeri hans og hringja í hann. Móðir B lýsti því að hún hefði vitað til þess að ákærði hefði hringt endurtekið í B og beðið hann um að koma til sín. Ákærði kvaðst hafa vitað að B hefði verið mótfallinn kynlífi karlmanna, en hann hafi talið það vera í lagi þegar hann hafi átt í hlut. Hann gat þó ekki skýrt þá afstöðu sína með öðru en því að B hefði komið endurtekið til sín. Hann greindi frá því að hann hefði ekki beitt neinni þvingun, en hann hefði hins vegar farið fram á hlutina. B lýsti því að hann hefði ekki viljað þessar kynferðisathafnir og oft reynt að gera ákærða grein fyrir því, án árangurs. Ákærði hefur viðurkennt að hafa látið brotaþola hafa ýmsar gjafir, mat, peninga, strætisvagnakort og -miða, sígarettur og bjór.

Í framburði Tryggva Sigurðssonar sálfræðings fyrir dóminum kom fram að fötlun sú sem jafna megi ástandi B til hafi í för með sér að auðvelt sé að misnota traust hans. Móðir B lýsti því að mjög auðvelt væri að hafa áhrif á hann og hægt væri að teyma hann langt fyrir peningagreiðslur eða vináttuboð. B hefur lýst mikilli vanlíðan vegna þessara atburða. Þá kom fram í framburði móður hans fyrir dóminum að hann hafi margoft reynt sjálfsvíg sl. tvö ár.

Samkvæmt öllu framansögðu þykir komin fram lögfull sönnun fyrir því að ákærði hafi notfært sér það að brotaþoli gat ekki spornað við verknaðinum sökum andlegrar fötlunar og hann hafi gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærða er jafnframt gefið að sök að hafa með háttsemi sinni brotið gegn 1. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur neitað því fyrir dóminum að hafa greitt B fyrir kynferðismök, en hefur viðurkennt að hafa gefið honum mat, peninga, strætisvagnakort og -miða, sígarettur og bjór. Þetta hafi ekki verið greiðslur fyrir kynferðismök og hann hafi látið B fá þetta án tillits til þeirra. Í skýrslu ákærða hjá lögreglu 9. janúar sl. kom fram að hann hafi greitt tveimur mönnum fyrir að „fá að njóta þess að fróa“. Þegar hann var síðar í skýrslunni spurður sérstaklega um B kom fram hjá honum að hann hafi greitt B fyrir kynlíf og allur gangur hafi verið á því hvort rætt hafi verið fyrir fram um greiðslu. Þá kom fram hjá honum að hann hafi vitað að hann fengi að gæla við B ef hann ætti sígarettur. Við aðalmeðferð málsins gat ákærði ekki skýrt þá breytingu á framburði sínum að greiðslurnar hafi ekki verið fyrir kynferðismök. Þykir breytingin á framburði hans ótrúverðug og verður talið sannað að ákærði hafi greitt brotaþola fyrir kynferðismök, þótt hann hafi ekki greitt fyrir hvert skipti. Greiðsla fyrir kynferðismök fellur ekki undir verknaðarlýsingu 2. mgr. 194. laga nr. 19/1940 og tæmir ákvæðið því ekki sök gagnvart 1. mgr. 206. gr. laganna. Verður ákærði því samhliða sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 206. gr. laga nr. 19/1940 frá 1. maí 2009.

Ákæruliður III

Við fyrirtöku máls þessa 11. apríl sl. lýsti ákærði því að hann játaði sök samkvæmt þessum ákærulið, en um þrjú skipti hafi verið að ræða. Hann viðurkenndi að hafa strax séð að brotaþolinn, C, ætti við andlega fötlun að stríða. Við aðalmeðferð málsins breytti ákærði afstöðu sinni á þann hátt að hann teldi háttsemi sína ekki falla undir 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, heldur 209. gr. laganna og 199. gr. þeirra eftir gildistöku hennar.

C bar fyrir dómi að háttsemi ákærða hefði átt sér stað einu sinni á almenningssalerni á Lækjartorgi og fjórum til fimm sinnum á almenningssalerni á Hlemmi. Hann lýsti háttseminni þannig að ákærði hefði káfað á kynfærum hans innan klæða og fróað honum og einu sinni veitt honum munnmök. Þetta hafi gerst árin 2006 og 2007, í síðasta skipti það haust. Ákærði bar hins vegar að um þrjú skipti hefði verið að ræða, eitt á Lækjartorgi, eitt á Hlemmi og eitt á almenningssalerni í Bankastræti. Hann kannaðist við að þetta hafi átt sér stað á árunum 2006 og 2007. Ákærði lýsti háttsemi sinni þannig að hann hefði káfað á brotaþola utan klæða í eitt eða tvö skipti og einu sinni tekið um lim hans. Hann hafi ekki hreyft höndina og ekki veitt brotaþola munnmök. Í skýrslu hjá lögreglu 21. janúar sl. lýsti ákærði því að hann hefði strokið brotaþola um getnaðarliminn, en ekki fróað honum. Þetta hafi gerst á þeim þremur stöðum sem ákærði kannaðist við fyrir dóminum. Ekki liggja fyrir önnur gögn sem varpað geta ljósi á atburðarásina. Þykir því verða að byggja á framburði ákærða og leggja til grundvallar að um þrjú skipti hafi verið að ræða á þeim stöðum sem tilgreindir eru í ákæru. Háttsemi ákærða hafi falist í því að káfa á ákærða utan klæða og taka um getnaðarlim hans í eitt skipti. Þykir játning ákærða í þinghaldi 11. apríl sl. ekki geta breytt þessari niðurstöðu, enda kom þar ekki fram nánari lýsing á háttseminni. Framangreind háttsemi varðar við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en við 199. gr. laganna frá 4. apríl 2007.

Brot samkvæmt 209. gr. laga nr. 19/1940 varða fangelsi allt að 4 árum, en fangelsi allt að 6 mánuðum eða sektum ef brot er smávægilegt, en brot samkvæmt 199. gr. laganna varðar fangelsi allt að 2 árum. Samkvæmt 1. mgr. 81. gr. laga nr. 19/1940 fyrnist sök manns á 5 árum, þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en 4 ára fangelsi.

Brot ákærða voru framin árin 2006 og 2007. Samkvæmt 1. mgr. 82. gr. laga nr. 19/1940 telst fyrningarfrestur brota ákærða frá þeim degi, er refsiverðum verknaði eða refsiverðu athafnaleysi lauk. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar rofnar fyrningarfrestur þegar rannsókn sakamáls hefst fyrir rannsóknara gegn manni sem sakborningi. Brotaþoli kærði brotin til lögreglu 14. janúar 2013 og lögregla bar sakargiftirnar undir ákærða 21. sama mánaðar. Voru þá liðin meira en 5 ár frá brotum ákærða og voru þau fyrnd er málið var höfðað í apríl sl. Ákærða verður því ekki refsað fyrir háttsemi sína samkvæmt þessum lið ákærunnar, sbr. 6. mgr. 82. gr. laga nr. 19/1940.

Ákæruliður IV

Ákærði hefur viðurkennt kynferðisleg samskipti við brotaþolann D, en neitar því að hafa nýtt sér andlega fötlun hans og því að um vændi hafi verið að ræða. Ákærði greindi frá því að hann hefði þekkt D lengi. Þeir hafi átt í kynferðissambandi við upphaf kynna þeirra og aftur árin 2011 og 2012. D lýsti því með sambærilegum hætti fyrir dómi að hann hefði þekkt ákærða fyrir mörgum árum og taldi að hann hefði þá verið 18 til 19 ára. Hann hafi svo hitt ákærða aftur árið 2010. Hann taldi ákærða hafa brotið gegn sér í fjögur skipti árið 2010, þrjú skipti árið 2011 og tvö skipti árið 2012, en kvaðst þó ekki vera alveg viss um þetta. Ákærði hefur viðurkennt að það hafi verið um a.m.k. fjögur skipti að ræða á árunum 2011 og 2012 svo sem ákært er fyrir og verður það lagt til grundvallar niðurstöðu.

Ákærði og D hafa lýst kynferðismökunum með sama hætti, þetta hafi farið fram á þann hátt að ákærði hafi fróað brotaþola og veitt honum munnmök. Ákærði hafi jafnframt fróað sér meðan á þessu hafi staðið.

Fyrir dóminum liggur skýrsla Tryggva Sigurðssonar sálfræðings um þroska og heilbrigðisástand D. Kemur þar meðal annars fram að hann beri með sér augljós einkenni greindarskerðingar. Hann eigi t.d. stundum erfitt með að skilja spurningar og tjá sig. Niðurstöður greindarprófunar og annarra sálfræðilegra prófana sýni greind á stigi vægrar þroskahömlunar. Tryggvi staðfesti greiningu sína fyrir dóminum og kvað D bera augljós merki fötlunar sinnar sem ættu að vera öllum ljós sem ræði við hann. Faðir D, J, lýsti fyrir dóminum andlegum erfiðleikum hans. D kom sjálfur fyrir dóminn. Það er álit dómsins að greina megi á honum merki fötlunar hans. Ákærði bar fyrir dómi að hann hefði gert sér grein fyrir því að D væri „eftir á“, þar sem hann hafi skynjað það á samtölum þeirra. Hann hafi ekki gert sér grein fyrir þessu í fyrstu, en þó hafi hann verið búinn að átta sig á þessu fyrir þessi síðustu skipti sem ákært sé fyrir. Eins og fram hefur komið var það niðurstaða Ólafs Arnar Bragasonar sálfræðings að ákærði hefði greind innan meðaltals og nægilega hæfni til að skynja upplýsingar úr umhverfinu á eðlilegan hátt. Þá er til þess að líta að ákærði hafði þekkt D í langan tíma. Samkvæmt framangreindu þykir ljóst að ákærða var kunnugt um að D væri haldinn andlegri fötlun þegar brot hans áttu sér stað á árunum 2011 og 2012.

Ákærði og D lýstu því báðir fyrir dóminum að þeir hefðu kynnst fyrir nokkru síðan, en samband þeirra hefði rofnað. Þeir hafi svo hist aftur er D hafi séð ákærða og stöðvað bifreið sína hjá honum. D kvað ákærða hafa sagt sér að hann væri með peninga fyrir sig og því hafi hann farið heim til ákærða. Þá hafi ákærði í eitt skipti sagst vera með bónus fyrir sig. Ákærði kvað D ávallt hafa stoppað stutt hjá sér. Hann hafi látið hann hafa peninga fyrir bensíni þar sem hann hafi búið [...]. Hann taldi D hafa verið samþykkan kynferðisathöfnum þeirra, en kvaðst þó telja að hann væri fyrir kvenfólk. D bar fyrir dóminum að hann hefði ekki viljað kynlíf með ákærða, en fundist ákærði stjórna sér. Hann hefði ekki hlustað á sig þegar hann hefði reynt að segja honum að hann væri ekki fyrir karlmenn. D sagði að sér hefði liðið mjög illa eftir þetta. Kemur jafnframt fram í vottorði Tryggva Sigurðssonar sálfræðings að háttsemin hafi haft alvarleg áhrif á líðan D. Ákærði hefur viðurkennt að hafa látið D fá peningagreiðslur, 1.000 til 3.000 krónur í senn.

Í vottorði Tryggva Sigurðssonar sálfræðings kemur fram að D sé mjög áhrifagjarn og hafi lýst því í viðtali að hann hafi ekki getað komið í veg fyrir athæfið þar sem honum hafi fundist hann „eign“ meints geranda. Tryggvi lýsti því fyrir dóminum að þótt D gæti samþykkt kynlíf í jafnaðarsambandi væri ekki um slíkt að ræða hér. D hafi verið ungur og óreyndur þegar hann hafi fyrst hitt ákærða. Hann sé veikur fyrir gagnvart misneytingu vegna fötlunar sinnar og hafi lýst því mjög vel og ítrekað að hann hafi ekki getað sýnt ákærða mótþróa. Þá lýsti faðir D því að hann hann gæti verið leiðitamur. Ef hann telur viðkomandi vin sinn eða ef honum er mætt á hans áhugasviði sé hægt að fara langt með hann.

Með hliðsjón af framansögðu þykir sannað að ákærði hafi notfært sér andlega fötlun brotaþola, og það að hann gat ekki spornað við verknaðinum sökum fötlunarinnar, til þess að hafa við hann kynferðismök. Hefur hann með þessari háttsemi gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærða er jafnframt gefið að sök að hafa með háttsemi sinni brotið gegn 1. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði kvað greiðslur sínar til D ekki hafa verið vegna kynlífs, heldur hafi þetta verið bensínpeningar. Þá neitaði hann því að D væri sá maður sem hann hefði greint frá í skýrslu hjá lögreglu 9. janúar sl. Kom þar fram hjá ákærða að hann hafi átt kynferðisleg samskipti við mann sem hafi verið í bílabraski og hafi vantað peninga vegna þess. Það hafi komið fyrir að hann hafi greitt honum fyrir kynlífsgreiða og það hafi verið samþykkt af þeim báðum. Þrátt fyrir þennan framburð ákærða þykir dóminum ljóst að peningagreiðslur hans voru í raun greiðslur fyrir kynlíf og reiddar af hendi í því skyni að fá brotaþola til þess að koma til hans aftur. Með vísan til niðurstöðu vegna ákæruliðar II verður ákærði jafnframt sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 206. gr. laga nr. 19/1940.

Refsing, einkaréttarkröfur og sakarkostnaður

Ákærði er fæddur árið 1944. Samkvæmt sakavottorði hans hlaut hann 9. júní 1994 þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna brots gegn 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þann 21. mars 1990 var útgáfu ákæru á hendur honum frestað skilorðsbundið í fimm ár vegna brots gegn 203. gr., sbr. 197. gr., laga nr. 19/1940. Ákærði hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn þremur mönnum. Brot ákærða eru mjög alvarleg. Þau eru mörg og stóðu yfir langt tímabil. Brotavilji ákærða var einbeittur og brot hans beindust að andlega fötluðum mönnum sem treystu honum og litu á hann sem vin sinn. Ákærði á sér engar málsbætur. Brot hans samkvæmt ákærulið I voru framin á árunum 1995 til 2008. Verður talið að um áframhaldandi samkynja brot hafi verið að ræða og brotin séu því öll ófyrnd, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 81. gr. laga nr. 19/1940. Frá því ákærði framdi brot sín samkvæmt ákærulið I hafa almenn hegningarlög breyst, eins og fram kemur í ákærunni, varðandi heimfærslu brota til refsiákvæða. Ákærða verður gerð refsing eftir nýrri lögunum, þó þannig að ekki verður beitt þyngri refsingu en heimilt var á þeim tíma er brotin voru framin, sbr. 2. gr. laga nr. 19/1940. Með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sjö ár. Gæsluvarðhald ákærða frá 9. janúar 2013 kemur til frádráttar refsingu.

Réttargæslumenn brotaþola hafa krafist miskabóta úr hendi ákærða. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot gagnvart þremur þeirra og eiga þeir rétt á miskabótum úr hendi hans á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt vottorðum Tryggva Sigurðssonar sálfræðings hafa brotin haft alvarlega afleiðingar fyrir brotaþola. Þá geta þeir átt sérstaklega erfitt með að komast yfir afleiðingar brotanna vegna fötlunar sinnar. Fyrir hönd A er krafist miskabóta að fjárhæð 1.200.000 krónur, auk vaxta. Þykja bætur til hans hæfilega ákveðnar 900.000 krónur, ásamt vöxtum svo sem nánar greinir í dómsorði. Af hálfu B er gerð krafa um 2.500.000 krónur, ásamt vöxtum. Þykja bætur til hans hæfilega ákveðnar 1.100.000 krónur, ásamt vöxtum svo sem greinir í dómsorði. Í samræmi við niðurstöðu ákæruliðar III verður miskabótakröfu C vísað frá dómi samkvæmt 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008. Miskabótakröfu D, að fjárhæð 600.000 krónur, ásamt vöxtum, þykir í hóf stillt og verður hún tekin til greina með vöxtum eins og greinir í dómsorði.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 2.038.710 krónur, auk aksturskostnaðar, 22.000 krónur, og þóknun réttargæslumanna brotaþola, Jóhönnu Sigurjónsdóttir héraðsdómslögmanns, 561.613 krónur, og Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, 272.963 krónur. Þóknun réttargæslumanns brotaþolans C, Bryndísar Guðmundsdóttur héraðsdómslögmanns, 307.475 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts og vinnu á rannsóknarstigi málsins. Ákærði greiði 1.400.280 krónur í annan sakarkostnað.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari.

Dóminn kveða upp Barbara Björnsdóttir héraðsdómari, Ingimundur Einarsson dómstjóri og Ragna Ólafsdóttir sálfræðingur.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Karl Þorsteinsson, sæti fangelsi í sjö ár. Gæsluvarðhald ákærða frá 9. janúar 2013 kemur til frádráttar refsingu.

Vísað er frá dómi miskabótakröfu C.

Ákærði greiði A 900.000 krónur, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2011 til 14. apríl 2013, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði B 1.100.000 krónur, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2013 til 14. apríl 2013, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði D 600.000 krónur, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2013 til 13. apríl 2013, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 2.038.710 krónur, auk aksturskostnaðar, 22.000 krónur, og þóknun réttargæslumanna brotaþola, Jóhönnu Sigurjónsdóttur héraðsdómslögmanns, 561.613 krónur, og Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, 272.963 krónur. Ákærði greiði 1.400.280 krónur í annan sakarkostnað.

Þóknun Bryndísar Guðmundsdóttur, réttargæslumanns brotaþola, 307.475 krónur greiðist úr ríkissjóði.