Hæstiréttur íslands

Mál nr. 654/2017

A (Ásta Björk Eiríksdóttir hdl.)
gegn
barnaverndarnefnd kópavogs, B og C (Þyrí H. Steingrímsdóttir hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Sönnunarfærsla
  • Gjafsókn

Reifun

Í apríl 2016 samþykkti E, móðir stúlkunnar D, að barnaverndarnefnd K tæki við forsjá dóttur hennar og að hún yrði vistuð hjá B og C til 18 ára aldurs. A, faðir D, fór ekki með forsjá stúlkunnar en mun hafa samþykkt ráðstöfunina. Síðar höfðaði A mál á hendur barnaverndarnefnd K, B og C þar sem hann krafðist þess aðallega að fóstursamningi yrði hnekkt og honum einum falin forsjá stúlkunnar, en til vara að felldur yrði úr gildi nánar tilgreindur úrskurður barnaverndarnefndar um inntak umgengni stúlkunnar við sig. Með hinum kærða úrskurði var hafnað kröfu A um dómkvaðningu matsmanns til að leggja mat á forsjárhæfni hans í málinu. Í dómi sínum vísaði Hæstiréttur til dóms réttarins í máli nr. 334/2017 þar sem kröfu A um að honum yrði falin forsjá dóttur sinnar hafði verið vísað frá dómi. Taldi rétturinn að í ljósi þeirra málsástæðna sem aðilar málsins hefðu fært fram í tengslum við þær kröfur sem eftir stæðu, yrði ekki séð að við úrlausn um þær gæti á nokkurn hátt reynt á hvort sannað væri að A væri fær um að fara með forsjá dóttur sinnar. Með vísan til þess og 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Karl Axelsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. október 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. október 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að héraðsdómara verði gert að dómkveðja matsmann í samræmi við matsbeiðni sína. Þá krefst hann kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefjast varnaraðilarnir B og C kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem þeim hefur verið veitt.

I

Samkvæmt gögnum málsins eignuðust sóknaraðili og E barnið D [...], en með því að þau fyrrnefndu voru á þeim tíma hvorki í hjúskap né skráðri sambúð fór E ein með forsjá barnsins, sbr. 2. mgr. 29. gr. barnalaga nr. 76/2003. Fyrir liggur að varnaraðilinn barnaverndarnefnd Kópavogs tók 1. apríl 2016 við forsjá barnsins á grundvelli yfirlýsingar E, sem lýsti sig jafnframt samþykka því að barninu yrði ráðstafað í fóstur til átján ára aldurs hjá varnaraðilunum B og C, sbr. 1. og 2. mgr. 25. gr. og 65. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Um þá ráðstöfun gerðu síðan varnaraðilarnir allir fóstursamning 22. júlí 2016, þar sem meðal annars voru ákvæði um umgengni barnsins við móður sína og sóknaraðila. Virðist óumdeilt að þetta hafi allt verið gert með samþykki sóknaraðila. Þegar frá leið reis á hinn bóginn ágreiningur um umgengni hans við barnið og leitaði hann af því tilefni 30. nóvember 2016 úrskurðar varnaraðilans barnaverndarnefndar Kópavogs um breytta tilhögun umgengninnar, svo og um kröfu sína um að sér yrði falin forsjá barnsins. Þessum kröfum hafnaði varnaraðilinn með úrskurði 12. janúar 2017.

Sóknaraðili höfðaði mál þetta á hendur varnaraðilum 31. janúar 2017 og krafðist þess aðallega að fóstursamningnum frá 22. júlí 2016 yrði hnekkt og sér einum falin forsjá dóttur sinnar til átján ára aldurs, en til vara að felld yrðu úr gildi ákvæði um umgengni hans í úrskurðinum frá 12. janúar 2017. Með úrskurði héraðsdóms 12. maí 2017 var aðalkröfu sóknaraðila vísað frá dómi. Í dómi Hæstaréttar 21. júní sama ár í máli nr. 334/2017 var sú niðurstaða staðfest að því er varðaði kröfu sóknaraðila um forsjá, en á hinn bóginn var lagt fyrir héraðsdóm að taka til efnismeðferðar kröfu hans um að fóstursamningnum yrði hnekkt.

Í þinghaldi í héraði 27. september 2017 lagði sóknaraðili fram beiðni um að dómkvaddur yrði maður til að „skoða og leggja sérfræðilegt mat á forsjárhæfni matsbeiðanda“, þar á meðal hvort hann teldist „fær um að sinna daglegri umönnun og uppeldi dóttur sinnar.“ Varnaraðilar mótmæltu þessari beiðni og var henni hafnað með hinum kærða úrskurði.

II

Að gengnum fyrrnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 334/2017 er til úrlausnar í máli þessu aðalkrafa sóknaraðila um að fóstursamningnum milli varnaraðila 22. júlí 2016 verði hnekkt, en að henni frágenginni varakrafa um ógildingu ákvæða um umgengni sóknaraðila við dóttur sína í úrskurði varnaraðilans barnaverndarnefndar Kópavogs frá 12. janúar 2017. Í ljósi málsástæðna, sem aðilarnir hafa hvert fyrir sitt leyti fært fram í tengslum við þessar kröfur, verður ekki séð að við úrlausn um þær geti á nokkurn hátt reynt á hvort sannað sé að sóknaraðili sé fær um að fara með forsjá dóttur sinnar. Á þessum grunni og með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila og varnaraðilanna B og C fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, og varnaraðila, B og C, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns sóknaraðila, 150.000 krónur, og lögmanns varnaraðilanna, 150.000 krónur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. október 2017.

Mál þetta, var höfðað með birtingu stefnu þann 31. janúar 2017.

Stefnandi er A, kt. [...],[...],[...] Kópavogi.

Stefndu eru barnaverndarnefnd Kópavogs, B, kt. [...]og C, kt. [...],[...],[...] Kópavogi.

Stefnandi krafðist þess aðallega í stefnu, að fóstursamningi um dóttur hans yrði hnekkt og stefnanda yrði falin forsjá stúlkunnar til 18 ára aldurs, en til vara að felldur yrði úr gildi úrskurður barnaverndarnefndar, dags. 12. janúar 2017 um inntak umgengni stefnanda við stúlkuna.

Við fyrirtöku málsins þann 27. september sl., lagði stefnandi fram beiðni um dómskvaðningu matsmanns, þar sem þess er óskað að dómkvaddur verði einn hæfur og óvilhallur sálfræðingur til þess að skoða og leggja sérfræðilegt mat á forsjárhæfni stefnanda. Lögmaður stefndu mótmælti þeirri matsbeiðni og krafðist þess að henni yrði hafnað. Fór fram munnlegur málflutningur um þann þátt málsins og hann tekinn til úrskurðar þann 3. október 2017. Í þessum þætti málsins eru stefndu varnaraðilar en stefnandi sóknaraðili.

I

Málsatvik

Sóknaraðili er kynfaðir stúlkunnar D sem fæddist [...], en móðir er E.

Þann 1. apríl 2016, afsalaði móðir stúlkunnar forsjá barnsins til barnaverndarnefndar Kópavogs, skv. 25. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Þann 22. júlí 2016 var gengið frá fóstursamningi á milli barnaverndarnefndar Kópavogs sem forsjáraðila og B og C sem fósturforeldra, með vísan til 68. gr. laga nr. 80/2002, um vistun barnsins frá 4. apríl 2016 til [...].

Með úrskurði sóknaraðila, barnaverndarnefndar, dags. 12. janúar 2017, var kröfu varnaraðila um forsjá hafnað á þeim forsendum að hann hefði ekki farið með forsjá barnsins og gæti því ekki á grundvelli 34. gr. laga nr. 80/2002 krafist endurskoðunar ráðstafana sem kynmóðir og forsjáraðili hefðu samþykkt.

Með úrskurði þann 12. maí 2017, var aðalkröfu málsins vísað frá dómi en hafnað var frávísun varakröfu. Í dómi Hæstaréttar nr. 334/2017, frá 21. júní 2017, var lagt fyrir héraðsdóm að taka til efnismeðferðar þá kröfu stefnanda, að fóstursamningi stefndu, frá 22. júlí 2016, verði hnekkt, en vísað var frá héraðsdómi kröfu sóknaraðila um forsjá.

II

Málsástæður sóknaraðila

Sóknaraðili byggir á því að Hæstiréttur hafi tekið undir kröfu hans, um að krafa hans um ógildingu fóstursamnings væri í eðli sínu krafa um endurskoðun þeirra ákvarðana sem liggi að baki samningnum. Verði því að meta hvort sú ákvörðun hafi verið gild eftir þeim mælikvörðum sem við eigi þegar gildi stjórnvaldsákvarðana sé metið, þ.e. hvort reglur hafi verið brotnar sem hafi leitt til rangrar niðurstöðu máls. Sé framangreint tilgangur matsbeiðni sóknaraðila.

Sóknaraðili vísar til 67. gr. a. barnaverndarlaga nr. 80/2002, um að barnaverndarnefnd skuli kanna grundvöll þess að ráðstafa barni til forsjárlauss foreldris og skv. 3. mgr. 67. gr. a. sömu laga sé sú skylda lögð á herðar barnaverndarnefnd að meta forsjárhæfni hins forsjárlausa foreldris. Það hafi ekki verið gert. Mat á því hvort sóknaraðili hafi verið hæfur til þess að fara með forsjá dóttur sinnar hafi verið veigamikill þáttur í ákvörðun um fóstursamning barnsins. Sé því afar nauðsynlegt fyrir málatilbúnað sóknaraðila að fyrir liggi mat á forsjárhæfni hans og stjórnsýsluákvörðun barnaverndarnefndar verði ekki metin með fullnægjandi hætti nema þetta liggi fyrir. Verði ekki fallist á kröfu sóknaraðila sé honum ómögulegt að sýna fram á að niðurstaða varnaraðila hefði orðið önnur ef viðeigandi málsmeðferðarreglum hefði verið beitt. Þá sé sóknaraðila jafnframt nauðsyn á því að afla sönnunargagna gegn þeim fullyrðingum sem hann telur koma fram í málsskjölum er varði hæfni hans sem foreldris. 

Sóknaraðili telur að dómur Hæstaréttar sem varnaraðili vísi til í máli nr. 539/2016 geti alls ekki átt við, enda málsatvik ekki sambærileg. Þá telur sóknaraðili að í þessum þætti málsins sé ekki til úrlausnar hvort sóknaraðila hafi verið boðin forsjá barnsins og hann neitað. Sóknaraðili hafnar því að beiðnin sé óskýr og ljóst sé að henni sé ætlað að sanna forsjárhæfni sóknaraðila. Ákvæði 56. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 sé eina ákvæðið í lögunum sem kveði á um öflun matsgerða og hafi verið beitt í sambærilegum málum.

III

Málsástæður varnaraðila

Varnaraðilar vísa máli sínu til stuðning til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Sé krafa sóknaraðila bersýnilega tilgangslaus til sönnunar, enda hafi í dómi Hæstaréttar nr. 334/2017, komið skýrt fram að krafa sóknaraðila um forsjá verði ekki tekin til efnismeðferðar í þessu máli. Þá hafi mat á forsjárhæfni sóknaraðili sem færi fram í dag ekkert að gera með sönnun um það hvernig staðið hafi verið að málum á sínum tíma.

Varnaraðilar telja að verið sé að óska mats til stuðnings öðrum málsástæðum sóknaraðila. Slík sönnunarfærsla sé þarflaus sbr. dóm Hæstaréttar nr. 539/2016. Matið hafi ekki þýðingu fyrir það úrlausnarefni sem hér sé til meðferðar um ákvörðun og gildi fóstursamnings.

Varnaraðilar mótmæla þeirri túlkun sóknaraðila að 67. gr. a barnaverndarlaga nr. 80/2002 leggi þá skyldu á herðar barnaverndarnefnd að láta meta forsjárhæfni allra kynforeldra barna við þessar aðstæður. Nefndinni beri samkvæmt ákvæðinu að kanna grundvöll þess að ráðstafa barni til hins foreldris. Það hafi verið gert í þessu tilfelli og sóknaraðili þá ítrekað neitað að gerast forsjáraðili barnsins, en aldrei hafi verið gengið út frá því að hann væri óhæfur.

Varnaraðilar byggja á því að matsbeiðni sóknaraðila sé óskýr. Í 61. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála segi skýrt að fram skuli koma hvað eigi að meta og hvað aðili hyggist sanna með matinu. Ekkert sé kveðið á um það í matsbeiðni sóknaraðila.

Varnaraðilar benda á að sóknaraðili geti borið fram nýjar málsástæður skv. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 80/2002, en tilvísun til 56. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 eigi ekki við, enda sé þar kveðið á um skyldu barnaverndarnefnda að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst, e.a. eftir beiðni dómara að aflað verði matsgerða. Sé því ekki lagagrundvöllur fyrir framkominni matsbeiðni sóknaraðila.  

IV

Niðurstaða

Í dómi Hæstaréttar nr. 334/2017, var lagt fyrir héraðsdóm að taka til efnismeðferðar hvort fóstursamningi frá 22. júlí 2016 verði hnekkt. Kröfu sóknaraðila um forsjá var hins vegar vísað frá héraðsdómi.

Sóknaraðili vísar til 56. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 í beiðni sinni um skipun matsmanns þar sem ekki sé við annað ákvæði að styðjast í nefndum lögum er taki til matsgerða. Nefnt ákvæði á samkvæmt orðanna hljóðan aðeins við forsjársviptingarmál að kröfu barnaverndarnefnda og kveður á um skyldur barnaverndarnefnda o.e.a. dómara að upplýsa þau mál. Ákvæðið á ekki við um beiðni málsaðila um að dómkvaddur verði matsmaður til að meta forsjárhæfni og þá ber til þess að líta að þetta mál er ekki forsjármál. Sóknaraðila er hins vegar samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laga nr. 80/2002 heimilt að afla nýrra sönnunargagna í héraði eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar.

Um meðferð mála fyrir dómi samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga gilda ákvæði laga um meðferð einkamála eftir því sem við getur átt. Í 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, er aðilum máls veittur víðtækur réttur til að afla sönnunargagna á eigin ábyrgð og kostnað, enda sé það sem sanna á ekki bersýnilega tilgangslaust til sönnunar sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Sóknaraðila er því heimilt að óska sjálfur matsgerðar í þeim tilgangi að renna stoðum undir mál sitt.

Ekki er fallist á það að ákvæði 61. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála sé ekki uppfyllt, enda fram komið í málinu af hálfu sóknaraðila hvað hann hyggst sanna með matinu. Með vísan til framangreinds telst vera nægilegur lagagrundvöllur fyrir beiðni sóknaraðila.

Málsaðila greinir á um hvaða skyldur hvíli á barnaverndarnefnd skv. ákvæðum 67. gr. a. laga nr. 80/2002, þar sem segir að barnaverndarnefnd skuli kanna grundvöll þess að ráðstafa barni til hins foreldrisins ef forsjáraðili hyggst afsala sér forsjá barnsins skv. 25. gr. laga nr. 80/2000. Sú ráðstöfun fór fram þann 1. apríl 2016, þegar forsjáraðili afsalaði barninu til barnaverndarnefndar Kópavogs. Í máli þessu er ekki til úrslausnar hvort þeirri ráðstöfun verði hnekkt. Ekki er hægt að fallast á það með sóknaraðila að Hæstiréttur hafi í eðli sínu fallist á endurskoðun annarra ákvarðana sem liggi að baki fóstursamningi, enda kemur skýrt fram í dómnum að taka skuli fóstursamning, dags. 22. júlí 2016 til efnismeðferðar en ekki um ákvörðun um forsjá barnsins.

Þá telur dómurinn, óháð því hvort barnaverndarnefnd hefði borið að láta framkvæma forsjármat hjá sóknaraðila á sínum tíma eða ekki samkvæmt 67. gr. a. laga nr. 80/2002, að það hafi ekki þýðingu fyrir úrlausnarefni þessa máls að nú fari fram forsjármat hjá honum um stöðu hans í dag.

Með vísan til framangreinds verður talið eins og mál þetta er vaxið að sú sönnum sem sóknaraðili vill færa fram með hinni umbeðnu matsgerð, sé bersýnilega tilgangslaus sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, til að ráða til lykta ágreiningi aðila um gildi fóstursamnings frá 22. júlí 2016. Verður því fallist á kröfu varnaraðila um að dómkvaðning af framangreindu tilefni fari ekki fram.

Ekki var gerð krafa um málskostnað í þessum þætti málsins.

Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu sóknaraðila um að dómkvaddur verði einn hæfur og óvilhallur sálfræðingur til að skoða og leggja sérfræðilegt mat á forsjárhæfni sóknaraðila, er hafnað.