Hæstiréttur íslands

Mál nr. 171/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Mánudaginn 19. mars 2012.

Nr. 171/2012.

 

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Ingi Freyr Ágústsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. mars 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. mars 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 21. mars 2012 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara þess að sér „verði gert að sæta úrræðum 1. mgr. 101. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, þ.e. að honum verði gert að sæta farbanni, eða að sakaborningur haldi sig innan ákveðins svæðis eða á ákveðnum stað.“ Að því frágengnu er þess krafist að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 15. mars 2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði X, kt. [...], til að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 21. mars nk. kl. 16. Þá er þess jafnframt krafist að honum verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að kærði hafi verið handtekinn í gær, ásamt fimm öðrum mönnum, sterklega grunaður um aðild að hrottalegri og mjög alvarlegri líkamsárás á hendur þremur mönnum, sem allir hafi verið barðir illa, af fjölda manna, í líkama og í höfuð með golfkylfum, hafnaboltakylfu, þungum handlóðum og stórri sleggju. Árásin hafi átt sér stað miðvikudaginn 4. janúar sl., í íbúð að [...] í [...].

Samkvæmt fyrirliggjandi læknisvottorðum hafi mennirnir þrír leitað á slysadeild strax í kjölfar árásarinnar, en þeir hafi m.a. hlotið opið beinbrot á fæti, brot á hnéskel, brot á úlnlið, auk skurða á höfði og ýmissa yfirborðsáverka.

Í síðustu viku hafi brotaþolarnir, A, B og C, leitað til lögreglu. Þeir hafi allir greint frá því að kærði, ásamt um tíu öðrum mönnum, hafi komið inn á heimili C, að [...], og ráðist þar á þá sem þar voru inni.

B hafi skýrt frá því að hann hafi verið barinn með golfkylfu, handlóðum og stórri sleggju. Höggin hefðu lent bæði í skrokk og á höfði, auk þess sem hann hefði verið barinn þungu höggi með sleggju í hægri sköflung. Í niðurstöðu læknisvottorðs komi þetta fram: „B var með staðfest brot á sköflungi og hnéskel þegar hann var fluttur til skoðunar á bráðadeild.  Bæði beinin eru mjög sterkbyggð í ungum mönnum og því þarf mikið högg til þess að brjóta þau með þeim hætti sem orðið hafði hjá B.“

A hafi greint frá því að hann hafi verið barinn með golfkylfum af hópi manna, í handlegg, höfuð og í efri hluta líkamans, jafnframt sem hann hafi verið laminn með hafnaboltakylfu í handlegg og fengið handlóð í bringu. Hann hafi borið hendur fyrir höfuð sér og hlotið fjölda högga sem hann hafi reynt að verjast. Samkvæmt læknisvottorði hafi hann hlotið 3 sm stjörnulagað sár á hnakka, skrapsár á báðum öxlum, stórt mar og blóðsafn á vinstri upphandlegg, mar á báðum framhandleggjum yfir öln, stórt mar á miðjum framhandleggnum og brot á vinstri úlnlið. Í niðurstöðukafla vottorðsins segi: „A sem er vel að manni, vöðvamikill og hraustlegur hefur orðið fyrir mörgum höggum á líkamann. Fengið sár á hnakka, mar einkum á efri útlimi og af staðsetningu áverkanna má dæma að hann hafi borið hönd fyrir höfuð sér þegar högg dundu á honum. Hann er með lítið sár á fingri og greinist brot vegna viðvarandi verkja í vinstri úlnlið þar sem sést að brotnað hefur nabbi af öln.“

Í skýrslu C komi fram að hann hafi verið laminn með sleggju beint í höfuðið og við það vankast og fallið í gólfið, þar sem hann hafi svo fengið í sig golfkylfu og handlóð. Í niðurstöðukafla læknisvottorðs segi: „C var með áverka á höfði sem samrýmdust lýsingu hans á því höggi sem hann hafði orðið fyrir. Hafa þarf í huga að höggi á höfuð sem veldur skurði líkt og C var með fylgir ávallt hætta á lífshættulegum höfuðáverkum.“

Allir þrír brotaþolarnir hafi greint frá því að um hafi verið að ræða vel skipulagða árás umræddra manna. Árásin hafi staðið stutt yfir og allir hafi þeir óttast mjög um líf sitt.

Þá hafi lögreglan einnig rætt við tvo nafngreinda menn sem hefðu verið á heimili B í umrætt sinn, sem báðir hefðu staðfest að kærði hafi, ásamt hópi manna, komið inn í húsnæðið. Mennirnir hefðu verið vopnaðir bareflum og ráðist á þremenningana með þeim hætti sem að ofan er lýst.

Einn sakborninga hafi viðurkennt aðild sína að árásinni. Hann hafi þó ekki viljað greina frá þætti annarra í málinu af ótta um hefndaraðgerðir.

Í skýrslutöku hjá lögreglu í gær hafi kærði kosið að tjá sig ekki um þær sakir sem á hann voru bornar.

Kærði sé nú undir rökstuddum grun um að hafa tekið þátt í vel skipulagðri árás fjölda manna á ofangreinda þrjá menn. Í málinu liggi fyrir framburður vitna og brotaþola um aðild kærða að árásinni. Þá liggi fyrir læknisvottorð sem styðji framburð brotaþola um hinar hrottafengnu líkamsárásir.

Rannsókn málsins, sem sé afar skammt á veg komin, sé umfangsmikil og á viðkvæmu stigi. Fyrir liggi að taka þurfi frekari skýrslur af brotaþolum og öðrum vitnum. Þá liggi fyrir lögreglu að taka enn frekari skýrslu af kærða og öðrum sakborningum málsins. Lögregla leiti enn þriggja manna sem gangi lausir og séu grunaðir um aðild að árásinni og nauðsynlegt sé að yfirheyra í þágu málsins. Þá liggi fyrir lögreglu að afla frekari sönnunargagna, s.s. símaupplýsinga allra sakborninga.

Það er mat lögreglustjóra að lagaskilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála séu uppfyllt í máli þessu, enda sé kærði undir rökstuddum grun um afbrot sem fangelsisrefsing sé lögð við og þá séu yfirgnæfandi líkur til þess, gangi kærði frjáls ferða sinna, að hann kunni að torvelda rannsókn málsins, s.s. með því að hafa áhrif á framburði vitna og annarra sakborninga.

Með vísan til alls ofangreinds, gagna málsins og a- liðar 1. mgr. 95. gr. og b- liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um aðild að hrottalegri líkamsárás í félagi við aðra. Rannsókn málsins er á viðkvæmu stigi. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins með því að koma sönnunargögnum undan eða hafa áhrif á samseka og vitni. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfur lögreglustjóra, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 21. mars 2012, kl. 16:00.

Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.