Hæstiréttur íslands

Mál nr. 14/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 8

                                                    Miðvikudaginn 13. janúar 1999.

Nr. 14/1999.                                         Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum

                                                    (Karl Gauti Hjaltason sýslumaður)

                                                    gegn

                                                    X

                                                    (Jón Hauksson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

X var undir rökstuddum grun um aðild að umfangsmiklu fíkniefnamáli. Var X gert að sæta gæsluvarðhaldi í tíu daga á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. janúar 1999, sem barst réttinum samdægurs ásamt kærumálsgögnum. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. janúar 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 19. janúar nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. janúar 1999.

Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hefur gert þá kröfu, að E, kt. ..., verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til laugardagsins 30. janúar 1999, kl. 16.00.

Af hálfu kærðu hefur framkominni kröfu verið mótmælt, en til vara er þess krafist af hálfu kærðu að kærða verði úrskurðuð í gæsluvarðhald til mun styttri tíma en krafist er.

Lögreglan í Vestmannaeyjum kveðst hafa í nokkurn tíma haft grun um að sambýlismaður kærðu væri viðriðinn fíkniefnabrot. Hann er skipverji á togaranum Breka VE-61. Síðastliðna nótt lagðist skipið við höfn í Vestmannaeyjum eftir siglingu til Bremerhaven. Kærða og sambýlismaður hennar komu með skipinu, en þau höfðu verið klefafélagar í ferðinni. Skömmu eftir komu skipsins voru kærða, sambýlismaður hennar og kona ein handtekin þar sem þau voru í bifreið við skipshlið. Í bifreiðinni fundust 5 kíló af efni sem lögreglan telur vera hass. Þá hafði sambýlismaður kærðu einnig innan klæða 33 grömm af sama efni og lítið eitt af efni sem lögreglan telur vera marihuana.

Samkvæmt framlögðum gögnum er rannsókn máls þessa skammt á veg komin, en um er að ræða innflutning á miklu magni af fíkniefnum. Lögregla kveður rannsókn máls þessa verða umfangsmikla og nauðsynlegt sé að yfirheyra frekar kærðu og aðra, sem að öllum líkindum tengjast hinu meinta broti kærðu. Sýnist því ekki vera komist hjá að varna því, að kærða nái hugsanlega að spilla sakargögnum. Samkvæmt framansögðu og með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, ber að fallast á kröfu sýslumannsins í Vestmannaeyjum um að kærða skuli sæta gæsluvarðhaldi, en þó ekki lengur en til 19. janúar 1999, klukkan 16.00.

Ólafur Börkur Þorvaldsson, dómstjóri, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Kærða, E, kt. ..., til heimilis að ..., sæti gæsluvarðhaldi, þó ekki lengur en til 19. janúar 1999, klukkan 16.00.