Hæstiréttur íslands

Mál nr. 823/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Föstudaginn 27. desember 2013.

Nr. 823/2013

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Vilhjálmur Reyr Þórhallsson fulltrúi)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómason, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. desember 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 30. desember 2013 klukkan 12 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að hann sæti farbanni.

Sóknaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að varnaraðila verði gert að sæta farbanni til sama tíma og markaður er í úrskurðinum.

Eftir að hinn kærði úrskurður var kveðinn upp var innihald flösku þeirrar, sem lögregla lagði hald á að kvöldi 22. desember 2013, rannsakað af hálfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og samkvæmt niðurstöðu þeirrar rannsóknar hefur flaskan að geyma 500 millilítra af amfetamíni. Að þessu gættu er staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að uppfyllt séu skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi. Þá er fullnægt skilyrðum 2. mgr. 98. gr. sömu laga til þess að hann sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness mánudaginn 23. desember 2013.

                Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur með kröfu dagsettri í dag krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til a- og b-liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að X, fd. [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins  6. janúar 2014, kl. 16:00, og að á þeim tíma verði kærða gert að sæta einangrun.

                Kærði krefst þess aðallega að kröfu lögreglustjóra verði hafnað, til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður styttri tími en lögreglustjóri krefst og til þrautavara að kærða verði gert að sæta farbanni.

I

                Í greinargerð með kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum segir meðal annars að tilkynning hafi borist frá tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í gærkvöldi, 22. desember 2013, þess efnis að kærði hafi verið tekinn til nánari skoðunar af tollvörðum vegna gruns um að hann hefði fíkniefni falin í fórum sínum. Samkvæmt frumskýrslu tollgæslunnar hafi áfengisflaska fundist í fórum kærða sem vakið hafi áhuga tollvarða. Í viðræðum sínum við tollverði hafi kærði greint frá því að í flöskunni væri áfengi sem hann hefði fengið hjá systur sinni. Tollverðir hafi tekið sýni úr flöskunni og framkvæmt próf til að sjá styrkleika áfengis í sýninu. Niðurstaða prófsins hafi verið sú að ekkert áfengi væri í flöskunni. Af þeim sökum hafi vaknað grunur um að flaskan kynni að innihalda amfetamín í fljótandi formi. Vegna þessa hafi kærði verið spurður öðru sinni hvað væri í flöskunni og hann þá svarað því til að hann vissi það ekki.

                Lögreglustjóri segir flöskuna, ásamt innihaldi hennar, hafa verið senda til frekari rannsóknar hjá tæknideild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til forprófunar og muni hún í kjölfarið verða send Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands sem rannsaka muni innihaldið nánar. Um atvik að baki kröfu sinni vísar lögreglustjóri til þeirra rannsóknargagna málsins er fylgdu kröfu embættisins.

II

Lögreglustjóri kveður rannsókn málsins í fullum gangi. Kærði hafi neitað sök og sagt að í flöskunni væri léttvín. Lögregla vinni nú að því að rannsaka frekar aðdragandann að ferð kærða hingað til lands og hugsanleg tengsl hans við vitorðsmenn á Íslandi og/eða erlendis, auk annarra atriða sem lögregla telji að séu mikilvæg vegna rannsóknar málsins. Að mati lögreglu sé framburður kærða afar ótrúverðugur og þá hafi hann ekki verið samvinnuþýður. Meðal þess sem lögregla rannsaki nú sé sakaferill kærða erlendis. Þá telji lögregla einnig hættu á að kærði verði beittur þrýstingi og að reynt verði að hafa áhrif á kærða, af hendi samverkamanna kærða, gangi hann laus á þessu stigi rannsóknar hjá lögreglu. Af þessum sökum telji lögregla að skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála, um gæsluvarðhald, sé fullnægt í málinu.

                Þá vísar lögreglustjóri til þess að kærði sé erlendur ríkisborgari sem virðist ekki hafa nein tengsl við land og þjóð en hann stundi hvorki atvinnu hér á landi né eigi hér fjölskyldu eða vini. Af þessum sökum telji lögregla hættu á að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast, ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar gangi hann laus meðan mál hans sé til meðferðar hjá lögreglu. Af þessum sökum telji lögregla að skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála, um gæsluvarðhald, sé fullnægt í málinu, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 595/2011.

                Lögregla telji að sá vökvi sem fundist hafi í fórum kærða hafi verið ætlaður til framleiðslu fíkniefna hér á landi, sem síðan hafi verið ætlunin að dreifa og selja hér. Þá telji lögregla einnig, miðað við magn vökvans til framleiðslu fíkniefna, að ætluð háttsemi kærða kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk ákvæða laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Þá telji lögregla að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus.

Lögreglustjóri krefst þess að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

                Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a- og b- liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 6. janúar 2014, kl. 16:00.

III

                Kærði er undir rökstuddum grun um brot sem varðað getur fangelsi. Svo sem rakið er að framan er rannsókn málsins á frumstigi. Hefur kærði við skýrslugjöf gefið lögreglu ákveðnar upplýsingar sem lögregla hefur ekki haft færi á að sannreyna. Gangi kærði laus má ætla að hann kunni að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá ummerki brots, skjóta undan munum eða hafa áhrif á samseka eða vitni. Skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eru því uppfyllt í málinu. Þá er fallist á að uppfyllt séu skilyrði til að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Er því orðið við kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum um að kærði sæti gæsluvarðhaldi, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

                Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærða, X, fd. [...], er gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 30. desember 2013, kl. 12.00.

Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.