Hæstiréttur íslands
Mál nr. 54/2007
Lykilorð
- Rán
- Skilorðsrof
|
|
Fimmtudaginn 14. júní 2007. |
|
Nr. 54/2007. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Arthuri Geir Ball (Brynjar Níelsson hrl.) |
Rán. Skilorðsrof.
A var ákærður fyrir vopnað rán í verslun. Hann játaði brot sitt. Með brotinu rauf A skilorð og bar því að ákveða honum refsingu að teknu tilliti til ákvæða 60. gr., sbr. 77. gr. alm. hgl. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. janúar 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu.
Ákærði krefst þess að refsing verði milduð og að hún verði að öllu leyti skilorðsbundin.
Í máli þessu er ekki til endurskoðunar sakfelling héraðsdóms, sem byggir meðal annars á skýlausri játningu ákærða. Gerðist hann sekur um rán með því að fara með hulið andlit sitt inn í verslun, ógna afgreiðslustúlku með 24 cm löngum fjaðurhníf, skipa henni að afhenda sér peninga úr sjóðsvél verslunarinnar og hafa á brott með sér 94.911 krónur. Samkvæmt ákæru átti ákærði að hafa skýrt tveimur öðrum mönnum frá fyrirætlan sinni um að fremja ránið. Fóru þeir þrír saman á bifreið sem lagt var við verslunina og eftir að brotið var framið óku þeir að dvalarstað eins þeirra þar sem þeir voru handteknir. Báðir þessir menn voru ákærðir fyrir hlutdeild í broti ákærða, en héraðsdómur sýknaði annan þeirra.
Eins og nánar er rakið í héraðsdómi hefur ákærði einu sinni hlotið dóm fyrir fíkniefnalagabrot, fjórum sinnum fyrir þjófnað eða tilraun til þjófnaðar og einu sinni fyrir rán. Ákærði hefur ekki áður afplánað fangelsisrefsingu, en allir þeir dómar sem hann hefur hlotið voru bundnir skilorði, utan einn þar sem ákærða var ekki gerð sérstök refsing fyrir þjófnaðarbrot. Ákærði framdi öll fyrri brot sín áður en hann náði 18 ára aldri, en hann var einungis 15 ára gamall er hann framdi fyrra ránsbrotið.
Refsingu ákærða ber að ákveða að teknu tilliti til ákvæða 60. gr., sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og gert er í hinum áfrýjaða dómi. Því verður dæmd upp samtals 11 mánaða skilorðsbundin fangelsisrefsing samkvæmt tveimur dómum 27. október 2004 og 13. febrúar 2006 og felld inn í þá refsingu sem honum verður nú gerð. Að öllu framanrituðu virtu, einkum þegar litið er til þeirrar aðferðar sem ákærði beitti við ránið og þess að hann rauf skilorð, en hins vegar til þess að ákærði var einungis 18 ára er hann framdi brotið, er refsing hans ákveðin fangelsi í tvö ár. Í ljósi sakarferils ákærða og eðlis brots hans eru ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna, en frá henni skal draga gæsluvarðhaldsvist er ákærði sætti 16. til 26. júlí 2006.
Ákvæði héraðsdóms um greiðslu sakarkostnaðar verður staðfest. Með vísan til 1. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skal áfrýjunarkostnaður falla á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Arthur Geir Ball, sæti fangelsi í tvö ár en frá refsingunni skal draga gæsluvarðhald hans með fullri dagatölu frá 16. júlí 2006 til 26. júlí 2006.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. desember 2006.
Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 2. október 2006 á hendur ákærðu, Arthur Geir Ball, kt. 150388-2529, Miðholti 5, Mosfellsbæ, X, kt. [...] og Y, kt.[...], “fyrir hegningarlagabrot og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni framin í Mosfellsbæ laugardagskvöldið 15. júlí 2006:
1. Gegn ákærðu öllum fyrir rán í versluninni Krónunni, Háholti 24, sem þeir framkvæmdu eins og hér greinir:
Eftir að ákærði Arthur Geir hafði greint meðákærðu frá fyrirætlan sinni um að fremja rán í versluninni Krónunni, fóru ákærðu saman í bifreiðinni LU-718, sem ákærði X, ók að útibúi KB banka við Þverholt 1, skammt vestan við verslunina Krónuna, þar sem ákærði Arthur Geir fór út úr bifreiðinni. Ákærði Arthur Geir huldi andlit sitt með húfu sem búið var að klippa toppinn af og fór inn í verslunina vopnaður fjaðurhnífi, ógnaði afgreiðslustúlkunni A með hnífnum og skipaði henni að afhenda sér peninga úr sjóðsvél verslunarinnar og hafði á brott með sér kr. 94.911 úr versluninni. Ákærði Arthur Geir fór því næst aftur að bifreiðinni LU-718 og fóru ákærðu saman á brott í bifreiðinni en voru handteknir skömmu síðar á dvalarstað ökumanns bifreiðarinnar, ákærða X, að [...].
Brot ákærða Arthurs Geirs telst varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot ákærðu X og Y við sama lagaákvæði, sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga.
2. Gegn ákærða Atla fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa að [...], haft í vörslum sínum, í hægri buxnavasa, 0,55 g af amfetamíni er lögregla fann við leit á ákærða í tengslum við handtöku hans og meðákærðu í kjölfar ráns þess sem getið er í 1. lið ákæru.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til að sæta upptöku á fjaðurhníf úr málmi, sbr. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga, og að 0,55 g af amfetamíni verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.
Einkaréttarkrafa:
Kaupás hf., kennitala 711298-2239, gerir kröfu um að ákærðu verði gert að greiða félaginu samtals 144.911, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá tjónsdegi 15. júlí 2006 en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.”
Málavextir
1. ákæruliður.
Að kvöldi laugardagsins 15. júlí 2006, kl. 22.48, var lögreglan kvödd að versluninni Krónunni, Bjarkarholti, Mosfellsbæ, vegna tilkynningar um rán sem þar hefði verið framið. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu hittust þar fyrir starfsmenn verslunarinnar, þeir B og C sem kváðu samstarfskonu þeirra, A, hafa komið til þeirra grátandi og skelfda eftir að hún hafði verið rænd af manni með hníf. Var A tekin tali og lýsti hún manninum svo að hann hefði verið um 170-180 cm á hæð, klæddur í dökka peysu, sennilega gallabuxur, dökka skó, húfu og með svartan trefil yfir nefi og munni, hugsanlega með Manchester United merki framan á. Maðurinn hefði rétt henni gulan Bónus-plastpoka og sagt henni að setja peningana í hann. Þá hefði hann otað að henni hnífnum. Á vettvangi gaf sig fram við lögreglu D og staðfesti hann frásögn A. Kvaðst hann hafa verið að versla en farið út í bíl sinn þegar maðurinn snéri sér að honum með hnífinn í höndunum. Sagði hann hnífinn hafa verið um 10-20 cm langan og lýsti manninum svo að hann væri um 170-180 cm á hæð með sólgleraugu, klæddur dökkri jogging-peysu með hettu á höfði, einhverskonar grímu fyrir munni og nefi og í svörtum skóm.
Í kjölfarið hóf lögreglan leit af ræningjanum í næsta nágrenni. Rákust þeir á mann, móðurbróður ákærða X, að nafni E, sem var á ferli í Byggðarholti en í fórum hans fundust þrír hnífar og klæðnaður sem kom heim og saman við þá lýsingu sem vitni höfðu gefið af klæðaburði ræningjans. Beindist grunur þá að fimm piltum sem staddir voru í [...] og voru ákærðu á meðal þeirra. Voru A sýndir hnífarnir og benti hún á silfraðan vasahníf með rauðum lit í skefti og sagði það hnífinn úr ráninu. Liggja ljósmyndir af hnífnum frammi í rannsóknarskýrslu lögreglu. Er um að ræða ómerktan fjaðurhníf með málmskefti og hnífurinn festur saman með þremur hnoðum. Á miðju skeftisins er fest rautt plastefni. Heildarlengd hnífsins er 24 cm, skefti 13,3 cm og hnífsblað því 10,7 cm. Mesta breidd þess er 2,7 cm og mesta þykkt 3 mm. Engin nothæf fingraför hafi fundist á hnífnum.
Lögreglumenn fóru í [...]. Í handtökuskýrslu, dagsettri 16. júlí sl., er aðkomu þar lýst svo að í stofu hafi verið ákærðu Arthur Geir, X og Y ásamt tveimur öðrum piltum og virtust allir vera í annarlegu ástandi. Á gólfi hafi verið gulur Bónuspoki með skiptimynt. Við leit á ákærða Y hafi fundist zip-poki með hvítu efni. Leiddi efnarannsókn lögreglu í ljós að um var að ræða 0,55 g af amfetamíni. Aðilar þessir voru vistaðir í fangageymslu og í kjölfar yfirheyrslna var þeim gert að sæta gæsluvarðhaldi.
Samkvæmt skýrslu Húnboga Jóhannssonar, rannsóknarlögreglumanns, frá 16. júlí sl., var myndbandskerfi í verslun Krónunnar og því til upptaka af ráninu. Þá hefði komið í ljós að ræninginn hafði á brott með sér um 100.000 krónur í peningum.
Samkvæmt skýrslunni sagði X lögreglu það að hann hefði verið heima hjá sér ásamt E og boðið meðákærðu Arthuri Geir og Y til sín. Hefðu þeir farið saman á “rúntinn” á bíl hans, LU-718, og kvaðst hann hafa verið ökumaður. Þeir hefðu lagt bifreiðinni í stæði aftan við KB-banka og þar hefði Arthur Geir farið út úr bifreiðinni en komið aftur eftir skamma stund og sagt þeim að drífa sig í [...]. Undan jakka sínum hefði hann tekið plastpoka, merktan versluninni Bónus, með peningaseðlum og smámynt í.
Lögreglan fann ljósbrúna derhúfu á bifreiðastæði þessu. Síðar þennan dag var farið með X aftur í [...] en grunur lék á að peningunum hefði verið komið fyrir í arni í stofu hússins. Reyndist það rétt því í arninum fundust samtals 93.000 krónur í peningaseðlum.
Á myndbandsupptökunni úr eftirlitsmyndavél verslunarinnar, sem liggur frammi í málinu, má sjá mann koma inn í verslunina. Er hann í dökkum jakka með derhúfu á höfði og í hettupeysu, með hettuna yfir derhúfunni. Hann er með ljósa fingravettlinga. Í hendi hans má sjá ílangan hlut og virðist hann munda hann með höndina eilítið á lofti. Þá sést hann rétta afgreiðslustúlkunni plastpoka sem hann tekur upp úr jakkavasanum og tekur við honum aftur þegar hún hefur sett í hann peningaseðla og smámynt.
Þá liggja frammi í málinu ljósmyndir af vettvangi og útkeyrslu að bifreiðarplaninu sunnan megin við KB-banka þar sem bifreiðinni LU-718 var lagt og derhúfan fannst. Bifreiðin var rannsökuð og fannst í henni hnífur með svörtu skefti í hólfi í framhurð. Af ljósmyndum úr íbúðinni [...] má þar m.a. sjá Bónus-poka liggja á stofugólfi. Þá má sjá hvar peningaseðlum hafði verið komið fyrir í arni í stofunni. Í rannsóknarskýrslu tæknideildar, dagsettri 2. ágúst 2006, kemur fram að fingurfar Arthurs Geirs hafi fundist á 500 króna seðli og hafi hann verið sendur til fingrafarasérfræðings til rannsóknar.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu 18. júlí sl. játaði Arthur Geir verknaðinn en kvaðst muna lítið eftir atvikinu þar sem hann hafi verið undir áhrifum áfengis- og fíkniefna. Hann kvaðst hafa þurft fé til að fjármagna neyslu sína og hefði hann átt hugmyndina að þessu og ekki sagt hinum tveimur frá fyrirætlunum sínum. Hefði þeim fyrst verið kunnugt um ránið þegar þeir snéru aftur í [...].
Ákærði Y greindi svo frá í skýrslutöku 16. júlí sl. að honum hafi ekki verið kunnugt um ránið og kannaðist ekki við að hafa ekið með meðákærðu að KB-banka í bifreiðinni LU-718. Við yfirheyrslu 18. júlí sl., sem gefin var að viðstöddum verjanda, kannaðist hann við að hafa verið í bílnum með meðákærðu. Kvað hann Arthur Geir hafa hlaupið út úr bílnum og komið aftur með “fullt af peningum í Bónus-poka”. Hefði Arthur Geir sagt við þá heima hjá X að hann ætlaði að fremja rán og að hann myndi deila með þeim afrakstrinum ef þeir færu með honum. Kvaðst ákærði hafa álitið að hann væri að ljúga þessu og ekki trúað því að hann léti verða af því. Þeir X hefðu farið með Arthuri Geir þar sem hann hefði ekki viljað fara einn en þeir samt ekki trúað því að hann myndi gera þetta. Hefðu þeir reiðst honum þegar þeim var ljóst hvað hann hafði gert og kvaðst ákærði hafa verið í “sjokki”. Kvað hann þá alla hafa neytt áfengis og fíkniefna.
Ákærði X sagði frá í skýrslutöku hjá lögreglu 16. júlí sl. að Arthur Geir hefði beðið sig um að aka með sig að KB-banka og hefði Y farið með þeim í bílnum. Hefði hann spurt Arthur Geir hvert hann ætlaði og hann þá svarað að hann ætlaði að ræna verslunina Krónuna. Kvaðst hann hafa orðið skelfingu lostinn en þó beðið eftir Arthuri Geir í bílnum. Við bankann hefði Arthur Geir farið út úr bílnum og komið nokkru síðar hlaupandi aftur og sagt “brunaðu í burtu, ég er með fullt af peningum” og sagst hafa rænt Krónuna. Hefði hann svo ekið með þá heim til sín í [...].
Við yfirheyrslu 18. júlí sl. sem verjandi ákærða var viðstaddur kvað X sig hafa grunað að Arthur Geir hafi ætlað að “vesenast eitthvað” inni í Krónunni vegna þess sem hann hafði sagt. Hefði hann verið að “tuða” um þetta áður en þeir lögðu af stað frá [...]og hann því grunað þetta og reyndar verið alveg viss um það, enda þekkt Arthur Geir og verið búinn að heyra af honum sögur. Hafi Arthur Geir sagt að hann ætlaði að stela peningum úr versluninni. Hann kvaðst hafa reynt að telja Arthur Geir hughvarf en hafa að lokum samþykkt að “skutla” honum að KB-banka og ekið þangað. Hefði Y setið frammí en Arthur Geir í aftursæti. Hefði ákærði talað um að eiga peninga sjálfur. Hann kvaðst muna það eitt af ökuferðinni heim frá bankanum að Y hefði sagt við Arthur Geir að hann skyldi beygja sig niður.
A skýrði svo frá í skýrslu hjá lögreglu að hún hefði verið að afgreiða viðskiptavin þegar hún tók eftir strák með trefil fyrir andlitinu koma inn í verslunina. Hann hefði tekið upp hjá sér og haldið fyrir framan hana hníf, sagt “peningana núna” og rétt henni Bónus-innkaupapoka. A kvaðst hafa orðið mjög óttaslegin og gert eins og hann sagði. Hún kvaðst hafa leitað sér aðhlynningar á slysadeild. Kvaðst hún hafa átt erfitt með svefn eftir þetta og treysti hún sér ekki til að vera ein.
Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í aðalmeðferð málsins fyrir dómi.
Ákærði Arthur Geir kveður ákæruna vera rétta að því er hann varðar og viðurkennir að hafa farið í verslunina Krónuna og rænt þeim verðmætum sem greinir í ákærunni. Ákærði segir meðákærðu vera saklausa af ákærunni en segist samt muna lítið eftir atvikum málsins, enda verið í mikilli vímu eftir nokkurra daga óreglu þegar atburðurinn varð og hafi hann ekki vitað hvað hann gerði. Hafi þeir farið út að keyra og kveðst hann hafa beðið strákana um að stöðva bílinn. Hafi hann svo stokkið úr bílnum. Hann kveðst ekki hafa verið búinn að greina meðákærðu frá fyrirætlan sinni. Undir ákærða er borið það sem haft var eftir meðákærða X í lögregluskýrslum um það sem ákærði hefði sagst ætla að gera, þ. e. að ræna Krónuna, og kveðst hann ekki muna eftir þessu. Um það sem haft var eftir meðákærða Y í lögregluskýrslu um þetta atriði, þ. e. að ákærði hefði sagst ætla að ræna peningum og að þeir skyldu fá af fengnum ef þeir kæmu með honum í þetta, segir hann að þetta hafi hann sagt til þess að þóknast lögreglunni. Ákærði segist muna óljóst eftir sér fyrir utan búðina og inni í henni og svo næst að hann var á gangi í áttina að bílnum. Hann kveðst ekki muna eftir að hafa verið með vopn en frekar finnist honum hann hafa verið með prik, sem líktist hnífi, í hendinni og hent því frá sér eftir ránið á leið að bílnum. Hefði einhver verið með slíkt fyrr um kvöldið. Hann segir þó aðspurður að hann geti ekki alveg fullyrt að hann hafi ekki verið með hníf frekar en þetta prik. Hann kveðst muna eftir því að þeir óku heim til X og svo að hann sat í sófa þar inni með peninga í höndunum. Þá muni hann eftir því að lögreglan kom inn til þeirra. Ákærða eru sýndar ljósmyndir af hnífum sem fundust í fórum ákærðu og kveðst hann ekki kannast við þá.
Ákærði kveðst hafa sótt AA-fundi reglulega eftir að hann losnaði úr varðhaldi vegna málsins. Þá hafi hann gert sér far um að stunda líkamsrækt og hreyfingu og haldið sig frá vímuefnum.
Ákærði X neitar sök. Hann kannast við að hafa ekið meðákærðu í bílnum í umrætt sinn. Hann kveðst hafa beðið með bílinn eftir að Arthur Geir fór úr honum og hafa ekið meðákærðu frá bankanum eftir að Arthur Geir kom í bílinn aftur. Hafi Arthur Geir verið í vímu þegar þetta gerðist. Ákærði kveðst fyrst hafa gert sér grein fyrir því í bílnum á leið heim til sín að Arthur Geir hefði rænt peningum enda hafi hann verið með peninga í poka. Ekki muni hann hvort Arthur Geir sagði nokkuð um þetta þegar hann kom aftur í bílinn til þeirra. Undir ákærða er borin lögregluskýrsla sem hann gaf í málinu 16. júlí sl. Hann ítrekar að hann hafi ekki vitað hvað til stóð hjá Arthuri Geir. Hann kannast við að hafa verið búinn að heyra eitthvað á Arthuri Geir um þetta áður en hafa tekið það sem spaug. Um skýrslu sem hann gaf 18. sama mánaðar þar sem haft var eftir honum að hann hafi grunað að Arthur Geir hafi ætlað að “vesenast” eitthvað í Krónunni og verið “alveg viss um” það og Arthur Geir auk þess verið búinn að segja þetta, kannast ákærði við að hann hafi grunað þetta. Um það að hann hafi látið undan suði Arthurs Geirs um að aka honum í ránsleiðangur segir hann að Arthur Geir hafi eitthvað verið búinn að tala um þetta en kveðst hafa tekið það sem spaug. Arthur Geir hafi sagt þegar hann kom aftur í bílinn að ákærði skyldi aka heim. Ekki muni hann hvort Arthur Geir hafi þá einnig sagst vera með “fullt af peningum”. Hann segist ekki minnast þess að Arthur Geir hafi beinlínis sagt að tilgangurinn með bílferðinni væri sá að fremja rán enda kveðst hann þá ekki myndu hafa ekið með ákærða. Arthur Geir hafi heldur ekki sagt neitt um fyrirætlun sína á leiðinni að bankanum. Hann hafi sagt þegar hann fór þar úr bílnum að hann kæmi eftir smástund. Hafi hann komið skokkandi aftur eftir 10 mínútur og sagt að ákærði skyldi aka heim. Kveðst hann þá hafa farið að gruna hvað gerst hafði. Segist hann aðspurður muna eftir því að á leiðinni hafi Y sagt Arthuri Geir að hann skyldi beygja sig niður.
Ákærði segist hafa unnið við byggingavinnu eftir þetta.
Ákærði Y neitar sök. Hann kannast við að hafa verið í bílnum sem X ók með þá Arthur Geir heiman frá sér að bankanum og þaðan aftur. Hann kveðst ekki hafa vitað fyrir að Arthur Geir ætlaði sér að fremja rán, ekki trúað því. Arthur Geir hafi hins vegar talað um heima hjá X að gera þetta en kveðst hafa tekið það sem spaug. Ekki muni hann hvernig orð féllu en Arthur Geir hafi talað um Krónuna í þessu sambandi. Ekki viti hann hver hafi átt frumkvæðið að ökuferðinni. Hann kannast við það að Arthur Geir hafi lofað þeim hluta af fengnum, andstætt því sem haft er eftir honum í lögregluskýrslu, og að hann hafi sagt heima hjá X að hann ætlaði að ræna peningum. Hann kveðst ekki hafa trúað því að Arthur Geir léti verða af þessu og einungis farið með í bílnum svo X væri ekki einn, eins og haft er eftir honum hjá lögreglu. Hann segir öskur og læti hafa orðið þegar Arthur Geir kom aftur í bílinn og segist hafa fengið áfall, enda hefði hann ekki trúað því að Arthur Geir léti verða af þessu. Hann kveðst hafa séð poka með peningunum eftir að þeir komu heim til X. Hafi Arthur Geir farið að telja peninga þar sem hann sat í sófa. Hann kveðst hafa verið búinn að sjá hníf hjá Arthuri Geir fyrr um kvöldið en ekki séð að hann væri með hann í ferðinni. Ákærði segist hafa setið frammi í bílnum en Arthur Geir í aftursætinu, að hann minnir. Ákærði segist alls ekki hafa liðsinnt Arthuri Geir við þetta verk og ekki heldur hvatt hann til þess á nokkurn hátt. Hann kannast við að hafa sagt Arthuri Geir á leiðinni að beygja sig niður á leiðinni frá bankanum. Hafi hann gert þetta vegna þess að þá var hann orðinn áskynja þess sem gerst hafði.
A hefur skýrt frá því að hún hafi verið við störf í búðinni umrætt sinn og hafi þá komið í búðina maður með hníf sem hann hélt á við hlið sér og var hnífskeftið rautt að sjá. Hafi hann heimtað að fá strax peninga og hún orðið við því. Að svo búnu hafi hann farið út. Hafi hann verið mjög dökkklæddur, með trefil fyrir niðurandliti og hettu á höfði. Vitnið sér ljósmyndir af hnífum sem hald var lagt á. Ber hún kennsl á hníf með rauðu efni í skeftinu og segir það vera hnífinn sem maðurinn var með. Maðurinn hafi svo farið út með peningana í plastpoka og hún hringt á hjálp. Hún segist ekki hafa treyst sér til þess fyrst í stað eftir þetta að vinna ein á kvöldin en nú sé hún farin að geta gert það.
Ingólfur Bruun rannsóknarlögreglumaður, tók skýrsluna af ákærða X 16. júlí. Segir hann víst að skýrslan sé rétt höfð eftir ákærða, þótt hann muni ekki eftir einstökum atriðum í henni. Kveðst hann geta staðfest þessa skýrslu fyrir sitt leyti.
Snorri Magnússon, rannsóknarlögreglumaður, tók skýrslur af ákærðu X og Y 18. júlí. Hann segir skýrslurnar vera rétt eftir ákærðu hafðar. Hann kveðst sérstaklega minnast þess að verjandi ákærða Y hafi lesið skýrsluna upphátt fyrir hann þar sem ákærði sé lesblindur.
Niðurstaða
Ákærði Arthur Geir hefur játað brot sitt og er játning hans studd vætti A og framburði meðákærðu og auk þess sýnilegum sönnunargögnum. Ákærði hefur ekki neitað því með öllu að hafa verið með hníf og A hefur borið kennsl á einn hnífanna sem fundust hjá ákærðu og segir þar vera kominn hnífinn sem ránsmaðurinn lét sjást í hjá sér þegar hann heimtaði peningana. Telst sannað að ákærði hafi rænt peningunum eins og í ákærunni segir og að hann hafi beitt hnífi við verknaðinn. Telst hann hafa brotið gegn 252. gr. almennra hegningarlaga.
Skilja verður þennan ákærulið svo að ákærða X sé þar gefið að sök að hafa, eftir að Arthur Geir hafði sagt að hann hygðist ræna verslun Krónunnar, liðsinnt honum í verki með því að aka honum að KB-bankanum við Þverholt, bíða þar eftir honum á meðan Arthur Geir framdi ránið og aka honum loks heim til sín með ránsfenginn. Ákærði hefur neitað sök fyrir dómi. Skýrslu hans hjá lögreglu 18. júlí, sem gefin var að viðstöddum verjanda og yfirheyrandi hefur staðfest fyrir sitt leyti og telja verður því að sé rétt eftir honum skráð, er þó ekki unnt að skilja á annan veg en þann að hann hafi vitað, af þeim ástæðum sem hann tiltekur þar, að meðákærði Arthur Geir ætlaði sér að ræna Krónubúðina áður en hann tók að sér að aka honum í bílnum. Í framburði sínum fyrir dómi dregur hann mjög úr. Sú skýrsla hans er bæði losaraleg og mótsagnakennd og hann hefur heldur ekki gefið neina viðhlítandi skýringu á breyttum framburði sínum. Þykir mega byggja á játningu ákærða hjá lögreglu og slá því föstu að ákærði hafi gerst sekur um hlutdeild í ránsbroti Arthurs Geirs með því að aka honum í bílnum að bankanum, bíða hans þar og aka honum heim til sín með ránsfenginn. Hefur hann gerst sekur um brot gegn 252. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.
Um þátt ákærða Y í málinu er það að segja að í ákærunni segir hvorki að hann hafi liðsinnt Arthuri Geir í orði né verki. Þá er því heldur ekki lýst að hann hafi á annan hátt átt þátt í því að brotið var framið, nema með því að sitja í bílnum á ferðinni til og frá bankanum og meðan beðið var þar eftir Arthuri Geir. Getur sú háttsemi ákærða ekki talist vera hlutdeild í broti Arthurs Geirs og ber að sýkna ákærða af þessum ákærulið.
2. ákæruliður.
Ákærði Y hefur skýlaust játað það brot sem hann er saksóttur fyrir. Hefur hann orðið sekur um athæfi það sem lýst er í ákærunni og réttilega er þar fært til refsiákvæða.
Viðurlög, skaðabætur og sakarkostnaður.
Ákærði Arthur Geir er ungur að aldri en á samt að baki nokkurn sakferil. Hann var sakfelldur en ákvörðun refsingar frestað skilorðsbundið í 2 ár með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 2. desember 2003, fyrir þjófnað og tilraun til þjófnaðar. Þá var hann 14. maí 2004 dæmdur í 7 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár fyrir rán og þjófnað. Hinn 27. október var hann sakfelldur fyrir þjófnað en ekki gerð sérstök refsing. Þá var hann dæmdur í 8 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir fíkniefnalagabrot, með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 27. júní 2005 og var þá fyrri dómurinn dæmdur upp. Loks var hann dæmdur með dómi Héraðsdóms Reykjaness 13. febrúar 2006 í 3 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir nytjastuld og þjófnað. Í þeim dómi er byggt á því að ákærði hafi ekki áður gerst sekur um refsilagabrot. Ákærði hefur með broti sínu nú rofið skilorð hins síðastgreinda dóms. Með vísan til 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga ber að dæma upp báða skilorðsdómana, samtals 11 fangelsismánuði, og gera ákærða refsingu í einu lagi. Þykir hún, með vísan til aldurs ákærða, sakferils hans, þess að hann hefur játað brot sitt en einnig þess að hann beitti hnífi við það, vera hæfilega ákveðin fangelsi í 3 ár. Frá refsingu þessari ber að draga 10 daga gæsluvarðhaldsvist sem ákærði sætti vegna málsins.
Ákærði X hefur ekki áður sætt refsingu. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði. Rétt er að fresta því að framkvæma refsingu þessa og ákveða að hún falli niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Komi refsingin til framkvæmdar ber að draga frá henni 5 daga gæsluvarðhaldsvist sem ákærði sætti vegna málsins.
Ákærði Y var á árinu 2005 sektaður tvisvar sinnum hjá lögreglustjóra, í fyrra sinnið fyrir umferðarlagabrot en í hið síðara fyrir fíkniefnabrot. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin 40.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og komi 4 daga fangelsi í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu.
Í málinu eru bótakrafa fyrirtækisins Kaupáss, samtals að fjárhæð 144.911 krónur. Jafnframt er krafist vaxta. Engan rökstuðning eða skýringar er að finna með kröfugerð þessari og ber að vísa henni frá dómi, eins og krafist hefur verið af hálfu ákærða X.
Dæma ber ákærðu Arthur Geir og X til þess að sæta upptöku á fjaðurhnífi samkvæmt lagaheimild sem tilfærð er í ákærunni og ákærða Y til þess að sæta upptöku á 0,55 g af amfetamíni samkvæmt tilfærðri lagaheimild.
Loks ber að dæma ákærðu Arthur Geir og X hvorn um sig til þess að greiða verjanda sínum 250.000 krónur í málsvarnarlaun, þeim Brynjari Níelssyni og Sveini Andra Sveinssyni hæstaréttarlögmönnum, en ákærða Y til þess að greiða verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 45.000 krónur í málsvarnarlaun. Úr ríkissjóði ber að greiða verjandanum 205.000 krónur í málsvarnarlaun. Málsvarnarlaunin eru tiltekin að meðtöldum virðisaukaskatti. Annan kostnað mun ekki hafa leitt af málinu.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Arthur Geir Ball, sæti fangelsi í 3 ár. Frá refsingunni dregst 10 daga gæsluvarðhaldsvist.
Ákærði, X, sæti fangelsi í 8 mánuði. Frestað er því að framkvæma refsingu þessa og fellur hún niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu að telja, haldi ákærði almennt skilorð. Frá refsingunni dragist 5 daga gæsluvarðhaldsvist komi hún til framkvæmdar.
Ákærði, Y, greiði 40.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og komi 4 daga fangelsi í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu.
Ákærðu Arthur Geir og X sæti upptöku á fjaðurhnífi og ákærði Y upptöku á 0,55 g af amfetamíni.
Ákærðu Arthur Geir og X greiði hvor um sig verjanda sínum 250.000 krónur í málsvarnarlaun, Brynjari Níelssyni og Sveini Andra Sveinssyni hæstaréttarlögmönnum. Ákærði Y greiði verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 45.000 krónur í málsvarnarlaun en úr ríkissjóði greiðist 205.000 krónur í málsvarnarlaun til verjandans.