Hæstiréttur íslands

Mál nr. 126/2004


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Ráðningarsamningur
  • Uppsagnarfrestur
  • Laun


Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. september 2004.

Nr. 126/2004.

Melhóll ehf.

(Ásdís J. Rafnar hrl.)

gegn

Enok Sigurgeiri Klemenssyni

(Jónas Haraldsson hrl.)

 

Sjómenn. Ráðningarsamningur. Uppsagnarfrestur. Laun.

Yfirvélstjóranum E var sagt upp störfum með þriggja mánaða uppsagnarfresti, en til stóð að hætta útgerð skips þess sem hann var ráðinn á. Er uppsagnarfrestinum lauk var E endurráðinn til þess að sjá um skipið, sem lá bundið við bryggju. Var skipið selt skömmu síðar. Taldi E sig eiga rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti frá afhendingu þess miðað við laun yfirvélstjóra. Eigandi skipsins, M ehf., taldi sig hins vegar hafa gert tímabundinn ráðningarsamning við E og samið við hann um þau laun sem hann hafði þegið fyrir að annast skipið. Hæstiréttur taldi að E hafi eingöngu verið ráðinn til eftirlitsstarfa með skipinu meðan það lá bundið við bryggju. Hafi E ekki mátt vænta þess að skipinu yrði haldið til veiða af M ehf. Á hinn bóginn væri ósannað að um tímabundinn ráðningarsamning hafi verið að ræða, sem hafi eingöngu átt að standa fram að sölu skipsins. Ætti E rétt á launum í þrjá mánuði frá afhendingu þess miðað við þær mánaðarlega launagreiðslur, sem hann fékk á ráðningartímanum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 25. mars 2004. Hann krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur stefnda verði lækkaðar og málskostnaður látinn falla niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og fram kemur í héraðsdómi hafði stefndi frá árinu 1993 verið yfirvélstjóri á  m/s Kóp GK 175, sem var í eigu Guðmundar Þorsteinssonar, sem sá um rekstur skipsins, og Jóhannesar Jónssonar, sem var skipstjóri þess. Á árinu 2002 stofnuðu eigendurnir einkahlutafélög um eignarhluta sinn í skipinu, Guðmundur stofnaði Strýthól ehf. og Jóhannes Melhól ehf. Samkomulag varð milli eigendanna 4. mars 2002 um að hætta útgerðarrekstri og var ákveðið að halda skipinu til veiða fram til 20. maí 2002. Stefnda var sagt upp störfum sem vélstjóri 15. júní 2002 með þriggja mánaða uppsagnarfresti og kom fram í uppsagnarbréfinu, að það væri vegna slita á útgerðinni. Er ekki ágreiningur um það, að stefnda var greidd samningsbundin kauptrygging í þrjá mánuði. Er uppsagnarfrestinum lauk í september 2002 var stefndi endurráðinn til þess að sjá um skipið, sem lá bundið við bryggju. Hefur stefndi lýst því yfir, að hann hafi átt að sinna eftirliti og koma bátnum í gegnum skoðun. Áfrýjandi keypti hlut Strýthóls ehf. í bátnum 5. nóvember 2002 og seldi hann í byrjun desember til Tálknafjarðar. Stefndi hélt áfram gæslu sinni á skipinu eftir að áfrýjandi var orðinn einn eigandi þess, en ekkert samband hafði verið haft við áfrýjanda þegar stefndi var endurráðinn eftir lok uppsagnarfrestsins. Áfrýjandi bar fyrir dómi, að fallist hefði verið á, að stefndi hefði sömu laun og hann hefði haft hjá Strýthól ehf. við gæslu bátsins og honum tryggð að minnsta kosti þriggja mánaða laun, en áskilið hefði verið, að launagreiðslur féllu niður færi hann fyrr til annarra starfa. Stefndi bar fyrir dómi, að hann hefði komið að máli við forráðamenn áfrýjanda og spurst fyrir um það, hvort hann yrði áfram hjá þeim og verið sagt, að hann ætti að vera áfram og  „myndi bara hugsa um skipið.“

II.

Áfrýjandi heldur því fram, að stefndi hafi verið endurráðinn 15. september 2002 eingöngu í því skyni að annast gæslu skipsins þar til það yrði selt. Hann hafi greitt honum laun fyrir síðari hluta nóvember og desember 2002 og janúar 2003, en ekki fyrir febrúar, þar sem áfrýjandi taldi stefnda hafa fengið nýja vinnu um mánaðamótin janúar/febrúar.

Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnda eins og fyrir er lagt í 1. mgr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, þegar hann var endurráðinn eftir að uppsagnarfrestinum lauk 15. september 2002 og telur stefndi, að um hafi verið að ræða ótímabundinn samning. Er skipið var afhent nýjum eiganda 7. desember 2002 hafi honum ekki verið boðið áframhaldandi starf á skipinu, og hafi því ráðningu hans verið rift. Krefst hann í máli þessu meðallauna í uppsagnarfresti 7. desember 2002 til 7. mars 2003, að frádregnu því, sem áfrýjandi greiddi stefnda fyrir desember 2002 og janúar 2003.

Eins og að framan greinir var skýrt tekið fram í uppsagnarbréfi stefnda, að honum væri sagt upp störfum sem vélstjóri, þar sem útgerð skipsins yrði slitið. Fram er komið, að stefndi vissi að það átti að selja skipið og engar áætlanir voru um áframhaldandi útgerð þess af hálfu áfrýjanda. Eru ekki rök til annars en að telja, að stefndi hafi eingöngu verið ráðinn til eftirlitsstarfa með skipinu meðan það lá bundið við bryggju. Verður að telja sannað, að stefndi hafi ekki mátt vænta þess, að skipinu yrði haldið til veiða af áfrýjanda.

Áfrýjandi heldur því fram, að hér hafi verið um tímabundinn ráðningarsamning að ræða, sem eingöngu ætti að standa fram að sölu skipsins. Er ósannað að svo hafi verið og á stefndi rétt á launum á þriggja mánaða uppsagnarfresti frá afhendingu skipsins 7. desember 2002 til 7. mars 2003.

Samkvæmt framansögðu er varakrafa áfrýjanda tekin til greina og miðað við þær mánaðarlegu launagreiðslur, sem stefndi fékk á ráðningartímanum. Áfrýjandi hefur þegar greitt laun fyrir desember 2002 og janúar 2003. Ber honum því að greiða stefnda laun fyrir febrúar og viku af mars 2003, samtals 321.142 krónur (256.914+64.228)  með dráttarvöxtum frá 24. apríl 2003, er mánuður var liðinn frá dagsetningu kröfubréfs.

Rétt þykir, að áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Melhóll ehf., greiði stefnda, Enok Sigurgeiri Klemenssyni, 321.142 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. apríl 2003 til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 250.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. febrúar 2004.

I

             Mál þetta, sem dómtekið var hinn 14. janúar sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Enok S. Klemenssyni, Köldukinn 6, Hafnarfirði, á hendur Melhóli ehf. Kringlunni 7, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu hinn 22. maí 2003.

             Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 1.604.206 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, frá 7. desember 2002 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

             Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til að greiða honum málskostnað, en til vara að stefnukröfur verði verulega lækkaðar, og málskostnaður felldur niður. 

             Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.

II

             Málavextir eru þeir, að stefnandi réð sig til starfa á m.s. Kóp GK-175 frá Grindavík, árið 1984, en frá árinu 1993, starfaði hann sem yfirvélstjóri á skipinu.  Skipið var upphaflega í eigu tveggja einstaklinga, sem stofnuðu síðar hvor sitt fyrirtækið, Strýthól ehf. og Melhól ehf. 

Í nóvember 2002 keypti Melhóll ehf. hlut Strýthóls ehf. í skipinu.

Um mánaðamótin nóvember/desember 2002, seldi stefndi fyrirtækinu Þórsbergi ehf., Tálknafirði, skipið og var það afhent nýjum eigendum 7. desember 2002.  Stefnanda var ekki boðið áframhaldandi starf á skipinu hjá hinum nýja eiganda, sem ráðið hafi annan vélstjóra í starfið. 

Stefndi greiddi stefnanda 513.828 krónur fyrir mánuðina desember 2002 og janúar 2003, sem stefnandi telur vera kauptryggingu vegna riftunarinnar og dregur frá kröfu sinni um meðallaun í uppsagnarfresti, tímabilið 7. desember 2002 til 7. mars 2003.

Með bréfi, dagsettu 24. mars 2003, krafði lögmaður stefnanda stefnda um meðallaun í uppsagnarfresti, sem stefndi hafnaði með bréfi, dagsettu 31. mars 2003.  Stefnandi ítrekaði kröfur sínar með bréfi til stefnda, dagsettu 5. maí 2003, sem stefndi lét ósvarað.

III

             Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að hann hafi verið ráðinn á skip stefnda sem yfirvélstjóri.  Ekki hafi verið gerður við hann skriflegur ráðningarsamningur, sbr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.  Stefnandi eigi sem yfirmaður rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti, sbr. 9. og 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, og hafi stefndi þegar greitt honum hluta uppsagnarfrests vegna sölu skipsins og riftunar ráðningarsamnings stefnda við stefnanda. 

             Við sölu skipsins hafi ráðningu stefnanda verið rift, enda hafi hann ekki átt þess kost að starfa áfram á skipinu, sbr. 22. gr. sjómannalaga.  Yfirmenn á skipum eigi rétt á óskertum launum í þriggja mánaða uppsagnarfresti.  Komi því ekki til að stefnda sé heimilt að draga frá meðallaunum stefnanda í uppsagnarfresti, tekjur, sem hann hafi unnið sér inn annars staðar á uppsagnarfrestinum.

             Stefnandi byggir á því, að stefnda beri að greiða honum meðallaun í uppsagnarfresti miðað við eigin aflareynslu síðustu mánaða á skipinu, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands.  Þannig verði fundin út heildarlaun hans síðustu mánuði, deilt í með ráðningardögum hans og þannig fundin út meðallaun pr. ráðningardag og síðan margfaldað með 90 dögum, þ.e. uppsagnarfresti stefnanda.  Stefnandi miðar við tekjur sínar árin 2000, 2001 og 2002, en með því að miða við svo langan tíma ætti að vera hægt að fá fram nokkuð nákvæmt meðaltal tekna stefnanda. 

             Stefnandi sundurliðar kröfur sínar með eftirfarandi hætti í stefnu:

             Samkvæmt launaseðlum hafi laun hans verið 6.763.602 krónur almanaksárið 2000.  Árið 2001 hafi þau verið 7.105.242 krónur og árið 2002 6.186.981 króna, eða samtals 20.055.825 krónur vegna þessara þriggja almanaks- og tekjuára.  Meðaltekjur séu því 6.685.275 krónur.  Meðaltekjur pr. dag séu reiknaðar: 6.685.275 kr.:330 (360 lögbundnir 30 dagar í orlof) = 20.258 kr. x 90 = 1.823.200 kr. x 10,17% orlof = 185.421 króna.  Glötuð lífeyrisréttindi (6%) 109.393 kr.  Samtals 1.823.200 kr. + 185.421 kr. +109.393 kr. = 2.118.034 krónur.  Frá þessari tölu dragist kauptrygging 513.828 krónur, eða samtals krafa að fjárhæð 1.604.206 krónur.

             Um lagarök vísar stefnandi til 6. gr., 9.gr., 22. gr. og 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.

             Kröfu um orlof byggir stefnandi á orlofslögum nr. 30/1987.

             Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

             Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

             Kröfu um virðisaukaskatt byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

IV

             Stefndi byggir kröfur sínar á því, að málsatvik hafi verið með þeim hætti, að stefndi og Guðmundur Þorsteinsson, hafi saman gert út m.s. Kóp GK-175.  Hafi Guðmundur alfarið séð um rekstur skipsins á eigin nafni, en Jóhannes hafi verið skipstjóri.  Samstarfið hafi gengið stirðlega árið 2001 og þann 4. mars 2002 hafi aðilar undirritað samkomulag þess efnis að þeir skyldu slíta sameigninni, en halda skipinu til veiða fram til 20. maí 2002.  Í samkomulaginu hafi verið kveðið á um það, að haga uppsögnum á ráðningarsamningum þannig, að starfslok áhafna yrði sem næst þeim tímamörkum.  Jafnframt hafi verið samið um að skipstjóri skipsins, eigandi stefnda, hætti störfum 1. júní 2002.  Öll áhöfnin hafi verið afskráð hinn 16. maí 2002, m.a. stefnandi.

             Stefndi kveðst hafa haldið að eftir þessu samkomulagi hefði verið farið varðandi allt mannahald.

             Báðir eigendur Kóps hafi á fyrri hluta árs 2002 stofnað einkahlutafélög um sinn eignarhluta í útgerðinni.  Guðmundur hafi stofnað einkahlutafélagið Strýthól en Jóhannes einkahlutafélagið Melhól.  Ekki hafi náðst samkomulag milli þeirra um að annar yfirtæki eignarhluta hins.  Í lok október 2002 hafi verið borið undir stefnda hvort hann samþykkti fyrir sitt leyti kauptilboð, sem borist hefði í bátinn frá Guðfinni Birgissyni, dagsett 26. október 2002 og hafði þegar verið samþykkt af Strýthóli ehf.  Stefndi hafi ekki samþykkt tilboðið, en boðist til þess að ganga inn í það og gekk það eftir.  Hinn 5. nóvember 2002 var gengið frá kaupsamningi og afsali í samræmi við áðurgreint kauptilboð, að teknu tilliti til þess, að stefndi var eigandi 50% hlutar í bátnum.  Kaupsamningurinn hafi því hljóðað á um kaup á 50% hlut í bátnum og eignarhlut seljanda í beitu og segulnaglalínu, sem verið hafi um borð.

             Stefndi kveðst á þessum tíma hafa gert út lítinn bát, undir 12 brúttólestum, og hafi ekki staðið til að breyta útgerðarháttum heldur reyna að hagnast á endursölu á Kópi.

             Fram hafi komið hjá forráðamönnum Strýthóls ehf. að stefnandi hefði verið ráðinn tímabundið til að gæta skipsins.  Hafi því verið talið eðlilegt að bjóða honum gæslustarf þegar stefndi hafi tekið við vörslum bátsins, þar sem hann hafi ekki haft annað starf með hendi.  Hafi verið fallist á að stefnandi hefði sömu mánaðarlaun og hann hefði haft við gæslustörfin hjá Strýthól ehf. og tryggð laun í þrjá mánuði ef hann væri ekki kominn í aðra vinnu fyrr.  Aldrei hafi komið til tals að verið væri að yfirtaka skuldbindingar frá fyrri vinnuveitanda.  Skipið hafi verið keypt til endursölu og búist hafi verið við að ekki tæki margar vikur að selja það.  Stefnandi hafi samþykkt þetta.  Skipið hafi síðan verið selt aftur með kaupsamningi dagsettum 4. desember 2002.  Þegar skipið hafi verið afhent nýjum eigendum hafi stefnandi lagt inn launaseðla frá Guðmundi Þorsteinssyni fyrir októbermánuð 2002 og hluta nóvembermánaðar til að upplýsa um þau laun sem hann hefði þar haft.  Jafnframt hafi hann farið fram á að fá greiddan útlagðan kostnað við eldsneyti á bifreið sína og lagt fram nótur.  Hafi honum verið greidd laun fyrir nóvember í samræmi við þessi gögn án athugasemda.  Jafnframt hafi honum verið greidd laun út desembermánuð, hinn 11. desember, þar sem fyrirsjánlegt væri að hann færi ekki í aðra vinnu þann mánuð, en hann hefði neitað að sigla bátnum með kaupendum til nýrrar hafnar.  Greiðslur fyrir janúarmánuð 2003 hafi síðan verið innar af hendi í lok janúar, en þá hafi stefnandi tilkynnt að hann væri kominn í nýja vinnu og gerði ekki frekari launakröfur.

             Athugasemdir við launauppgjör hafi fyrst verið settar fram af hálfu stefnanda, með bréfi lögmanns síðari hluta marsmánaðar 2003.

             Stefnandi heldur því fram, að Guðmundur Þorsteinsson, launagreiðandi stefnanda, hafi sagt honum upp störfum þann 15. júní 2002, með tilvísun til þess að slit yrðu á útgerðinni.  Svo virðist sem stefnandi sé síðar ráðinn í september 2002 til Strýthóls ehf., eða Guðmundar Þorsteinssonar, án samráðs við stefnda, til að sjá um bátinn, þar sem hann hafi verið bundinn við bryggju.  Samkvæmt framlögðum launaseðlum hafi verið samið um ákveðin föst laun.

             Þegar stefndi kaupi eignarhluta Strýthóls í bátnum sé hann eins og öll gögn beri með sér einungis að kaupa umræddan eignarhluta, en engin réttindi eða skyldur, sem tengst hafi útgerð aðila, en henni hafi verið slitið í maímánuði 2002.

             Stefndi heldur því fram, að hann hafi í samræmi við samkomulag aðila greitt stefnanda að fullu fyrir þá vinnu, sem stefnandi hafi haft með höndum við gæslu á skipinu í þrjár vikur.  Stefndi hafi ekki yfirtekið skyldur Guðmundar Þorsteinssonar eða Strýthóls ehf., er stefndi hafi keypt Kóp GK-175.  Stefnanda hafi verið ljóst að ekki hafi staðið til að gera bátinn út og að hann yrði endurseldur strax.  Hafi það verið af greiðasemi við stefnanda, að ráða hann tímabundið og tryggja honum þar með a.m.k. þriggja mánaða laun eða þar til hann fengi aðra vinnu, ef það yrði fyrr.  Stefndi hafi ekki verið ráðinn sem yfirvélstjóri, þar sem aldrei hafi staðið til að báturinn færi á sjó meðan Melhóll ætti hann.

             Til vara krefst stefndi þess, að stefnukröfur verði lækkaðar, og tekið mið af þeim launagreiðslum sem samið hafi verið um milli stefnanda og stefnda.

             Um lagarök vísar stefndi til sjómannalaga nr. 35/1985.

             Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

             Ágreiningur aðila lýtur annars vegar að því hvort stefnanda hafi borið þriggja mánaða uppsagnarfrestur frá störfum, sem yfirmaður á skipi stefnda og hins vegar um fjárhæð launa.  Stefnandi heldur því fram, að hann hafi verið ráðinn á skip stefnda sem yfirvélstjóri.  Hins vegar heldur stefndi því fram, að stefnanda hafi, er stefndi keypti skipið í nóvember 2002, verið boðið gæslustarf við bátinn, þar sem hann hafi ekki haft annað starf með hendi.  Hafi samningur aðila verið þess efnis, að stefnanda yrðu tryggð sömu föstu launin og hann hafi fengið fyrir gæslustörf við bátinn frá hausti 2002 og jafnframt að honum yrðu tryggð laun í þrjá mánuði, ef hann væri ekki kominn í aðra vinnu.

             Fyrir liggur að stefnandi hafði um árabil starfað sem yfirvélstjóri á umræddu skipi, en hafði verið sagt upp störfum með uppsagnarbréfi dagsettu í júní 2002.  Þá liggur og fyrir, að stefnandi var endurráðinn í september 2002, til að sjá um skipið, eins og það er orðað í yfirlýsingu frá Strýthól ehf., sem sá um allt starfsmannahald á skipinu meðan það var í eigu þess fyrirtækis og stefnda.  Í nóvember 2002 eignaðist stefndi allt skipið með kaupum á 50% hluta Strýthóls ehf.  Stefnandi hélt áfram störfum á skipinu eftir það, án þess að gerður væri við hann skriflegur ráðningarsamningur.  Þar sem fyrir liggur að ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda eins og skylt er samkvæmt 6. gr. laga nr. 35/1985 ber að leggja til grundvallar fullyrðingar stefnanda um að hann hafi verið fastráðinn starfsmaður, og að stefndi hafi í raun yfirtekið ráðningarsamninginn, enda er alls ósönnuð sú fullyrðing stefnda, að stefnanda hafi verið gert það ljóst að um tímabundna ráðningu væri að ræða eða að starfssamningur aðila væri með þeim hætti sem stefndi heldur fram.  Með vísan til 2. mgr. 9. gr. laga nr. 35/1985, bar stefnanda því þriggja mánaða uppsagnarfrestur.  Stefnandi leggur til grundvallar kröfu sinni meðaltal launa sinna síðustu þrjú ár fyrir riftun ráðningarsamnings.  Stefndi hefur haldið því fram að ákveða eigi tjón stefnanda með hliðsjón af launum hans síðustu mánuðina fyrir starfslok.  Þegar það er virt, að fallist hefur verið á að stefnandi hafi verið ráðinn á skipið sem yfirvélstjóri, ber að ákveða honum bætur með hliðsjón af reynslu liðins tíma, og þykir þá rétt að bætur honum til handa verði reiknaðar miðað við meðaltal launa hans árið 2002, sem voru 6.186.981 króna, heildarlaun.  Með þessari viðmiðun deilt með dagafjölda, eða 360 dögum, eru laun pr. dag 17.186 krónur, eða 1.546.745 krónur í 90 daga og hefur þá verið reiknað með lögbundnu orlofi, en inn í heildarlaun, sem stefnandi notar sem viðmiðun, hefur verið reiknað orlof.  Við þessa fjárhæð bætast 6% vegna glataðra lífeyrisréttinda, eða 92.805 krónur.  Frá þessari tölu dragast þegar greidd laun, eins og gert er í dómkröfu stefnanda.  Samkvæmt þessu verður því fallist á að stefnda beri að greiða stefnanda 1.639.550 krónur að frádregnum 513.828 krónum, eða 1.125.722 krónur, ásamt dráttarvöxtum eins og krafist er í stefnu, en ekki er ágreiningur um upphafsdag dráttarvaxta.

             Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til þess að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskattsskyldu stefnanda.

             Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

             Stefndi, Melhóll ehf., greiði stefnanda, Enok S. Klemenssyni, 1.125.722 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 7. desember 2002 til greiðsludags.

             Stefndi greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.