Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-36
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Nauðungarsala
- Skaðabætur
- Miskabætur
- Jafnræði
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 17. mars 2022 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 18. febrúar sama ár í máli nr. 124/2021: A gegn ÍL-sjóði á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfum leyfisbeiðanda sem rætur eiga að rekja til nauðungarsölu gagnaðila á eign hennar í [...] 2014 og voru þær reistar á því að ekki hafi verið samræmi milli þeirra fjárhæða sem fram komu í greiðsluáskorun annars vegar og nauðungarsölubeiðni hins vegar.
4. Með dómi Landsréttar var niðurstaða héraðsdóms um að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda staðfest. Landsréttur vísaði til þess að greiðsluáskorun og nauðungarsölubeiðni hefðu uppfyllt skilyrði 9. gr. og 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og samkvæmt því hefðu verið uppfyllt skilyrði 1. mgr. 13. gr. laganna. Talið var að ekki hefðu verið augljósir efnislegir annmarkar á rétti gagnaðila til að krefjast nauðungarsölu með því að hærri kröfufjárhæð hefði verið tilgreind í nauðungarsölubeiðni en í greiðsluáskorun enda óumdeilt að leyfisbeiðandi hefði í raun verið í vanskilum við gagnaðila. Þá var ekki fallist á að leyfisbeiðandi hefði verið beitt óréttmætri mismunun með nauðungarsölunni eða að brotið hefði verið gegn friðhelgi einkalífs og eignarrétti hennar.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Málið hafi verulegt fordæmisgildi um túlkun 9. og 11. gr. laga nr. 90/1991 með tilliti til þess hvort ákvæðin heimili að gjaldfallnar afborganir, sem ekki hefur verið send greiðsluáskorun vegna, geti verið grundvöllur nauðungarsölubeiðni. Leyfisbeiðandi telur jafnframt að málið geti verið fordæmisgefandi um mat á skaðabótum vegna ólögmætrar nauðungarsölu. Þá sé niðurstaða Landsréttar bersýnilega röng að efni til. Leyfisbeiðandi telur að gagnaðili hafi staðið að nauðungarsölunni með ólögmætum hætti þar sem á söludegi hafi legið fyrir úrskurður Héraðsdóms Suðurlands þar sem sams konar nauðungarsölubeiðni var metin ólögmæt. Leyfisbeiðandi telur að niðurstaða Landsréttar feli í sér að ekki hafi verið gætt jafnræðis meðal lántakenda og að mismunandi reglur gildi eftir landsvæðum. Þá telur leyfisbeiðandi að niðurstaða Landsréttar sé á skjön við meginreglu einkamálaréttarfars um að dómar hafi fullt sönnunargildi nema annað sé leitt í ljós.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.