Hæstiréttur íslands

Mál nr. 280/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 1

 

Miðvikudaginn 1. ágúst 2001.

Nr. 280/2001.

 

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Böðvar Bragason lögreglustjóri)

gegn

X

(Jóhann Halldórsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. og D. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

 

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. og d. liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. júlí 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júlí 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. september nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júlí 2001.

 

Ár 2001, föstudaginn 27. júlí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Hirti O. Aðalsteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X [ . . . ], verði á grundvelli c. og d. liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til föstudagsins 7. september 2001 kl. 16.00.

[ . . . ]

Krafa lögreglustjóra er byggð á c. og d. liðum 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 um meðferð opinberra mála.

Samkvæmt rannsóknargögnum í máli þessu og vottorði Sigurðar Páls Pálssonar geðlæknis, sem annast nú geðrannsókn á hendur kærðu, er fyllsta ástæða til þess að ætla að kærða muni halda áfram afbrotum haldi hún óskertu frelsi. Hefur hún lýst yfir eindregnum ásetningi að skaða þá sem hún telur að hafi gert á hlut sinn. Að mati geðlæknisins getur kærða ennþá verið öðrum mjög hættuleg sé hún ekki undir ströngu eftirliti.

Í vottorði geðlæknisins dags. í gær, kemur fram að hann hafi fjórum sinnum átt viðtöl við kærðu, síðast í fyrradag, en geðrannsókn hans sé ekki að fullu lokið. Segist hann gera ráð fyrir að ljúka málinu í ágústmánuði nk. Þá kemur fram í vottorði hans að kærða er ekki sturluð eða með rugleinkenni en örugg merki andfélagslegrar borderline-persónuleikaröskunar virðast vera að koma fram. Hún sé auk þess með sögu um misnotkun læknislyfja, áfengis og jafnvel fíkniefna. Ljóst sé að þessir þættir auki ennfrekar hættuna á reiðiköstum, hömluleysi og tryllingslegum viðbrögðum.

Eins og högum kærðu er nú háttað þykir að mati dómsins varhugavert að kærða haldi óskertu frelsi. Með vísan til framanritaðs, c og d liða 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála og annarra gagna málsins þykir rétt að taka kröfu lögreglu­stjórans í Reykjavík til greina eins og hún er fram sett.

 

Úrskurðarorð:

Kærða, X [ . . . ], sæti áfram gæsluvarðhaldi en þó eigi lengur en til föstudagsins 7. september nk. kl. 16.00.