Hæstiréttur íslands
Mál nr. 443/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 3. júlí 2013. |
|
Nr. 443/2013.
|
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn X (Björgvin Þorsteinsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr., sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. júlí 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan áfrýjunarfrestur í máli Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-[...]/[...] stendur yfir, þó eigi lengur en til föstudagsins 26. júlí 2013 klukkan 23:59. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2013.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...]-[...], [...],[...], sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan áfrýjunarfrestur varir, þó eigi lengur en til föstudagsins 26. júlí 2013, kl. 23:59.
Í greinargerð kemur fram að rannsókn málsins hafi hafist 21. janúar sl. en lögreglan hafi þann dag lagt hald á samtals 19.435,62 g af amfetamíni. Fíkniefnin hafi fundist við leit tollgæslu í póstsendingum í póstmiðstöðinni að Stórhöfða 32 í Reykjavík sem hafi borist til landsins frá Danmörku.
Rannsóknargögn hafi borist ríkissaksóknara 10. apríl sl. og ákæra verið gefin út 18. sama mánaðar. X hafi verið ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, sbr. ákærulið I/2.
Sakamálið nr. S-[...]/[...] á hendur [...] o.fl. vegna framangreinds sakarefnis hafi verið þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 3. maí sl. Greinargerðir nokkurra sakborninga hafi verið lagðar fram við fyrirtöku 24. maí sl. Aðalmeðferð farið fram 30. og 31. maí sl. og málið dómtekið hinn síðari dag. Dómur í málinu hafi verið kveðinn upp í dag þar sem X hafi verið sakfelldur og dæmdur til óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar.
X hafi verið handtekinn 11. febrúar sl. og hafi hann sætt óslitnu gæsluvarðhaldi frá 12. febrúar sl., fyrst á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. dóma Hæstaréttar frá 14. febrúar sl. (101/2013), 25. febrúar sl. (122/2013), 11. mars sl. (150/2013), 18. mars sl. (175/2013), en frá 26. mars sl. til dagsins í dag á grundvelli 2. mgr. 95. gr. sömu laga, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjaness frá 26. mars sl. (R-233/2013) og úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 19. apríl sl. (R-145/2013), 17. maí sl. (R-199/2013) og 14. júní sl. (R-237/2013).
X hafi [...] verið sakfelldur og dæmdur til óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar fyrir alvarlegt brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga. Ríkissaksóknari telji áframhaldandi gæsluvarðhald vera nauðsynlegt vegna almannahagsmuna. Um sé að ræða stórfellt fíkniefnalagabrot sem varði mikið magn af sterkum ávana- og fíkniefnum sem lögregla hafi lagt hald á og séu þau talin hafa átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi. Ríkissaksóknari telji að það muni særa réttarvitund almennings og valda almennri hneykslan í samfélaginu ef sakborningur, sem sakfelldur hafi verið fyrir svo alvarlegt fíkniefnalagabrot, eins og talið sé eiga við um X, gangi laus á meðan áfrýjunarfrestur varir.
Ríkissaksóknari telji að forsendur fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna hafi ekki breyst frá því framangreindur úrskurður var kveðinn upp 14. júní sl. Þá hafi meðferð málsins fyrir héraðsdómi verið innan ásættanlegra tímamarka að teknu tilliti til umfangs þess o.fl.
Um tímamörk áfrýjunarfrests sé vísað til dóma Hæstaréttar í málum nr. 31/2005 og 641/2006.
Sakarefnið sé talið varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til 2. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr., sbr. 199. gr., laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.
Dómfelldi hlaut með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum [...], 3 ára og 6 mánaða fangelsisdóm fyrir alvarlegt brot á fíkniefnalöggjöfinni. Dómfelldi hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 12. febrúar sl. vegna þeirra brota sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir að hluta. Dómfelldi hefur tekið sér lögmæltan frest til ákvörðunar um áfrýjun málsins.
Samkvæmt 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 getur dómari úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á áfrýjunarfrestur stendur, sbr. 199. gr. sömu laga.
Með vísan til alvarleika brots þess sem hann hefur nú verið dæmdur fyrir krefjast almannahagsmunir þess að hann sæti varðhaldi. Verður honum með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga sbr. 3. mgr. 97. gr. nr. 88/2008 gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stendur í máli hans, í samræmi við kröfu ríkissaksóknara, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Dómfelldi, X, kt. [...]-[...], [...], [...], sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan áfrýjunarfrestur varir, þó eigi lengur en til föstudagsins 26. júlí 2013, kl. 23:59.