Hæstiréttur íslands
Mál nr. 462/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 22. nóvember 2004. |
|
Nr. 462/2004. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stæði, sbr. c. lið 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. nóvember 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2004, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili sætti áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 15. desember 2004 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2004.
Ár 2004, miðvikudaginn 17. nóvember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjatorg af Símoni Sigvaldasyni héraðsdómara, kveðinn upp svofelldur úrskurður.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, verði með vísan til 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti skv. 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991 stendur, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 15. desember nk. kl. 16.00.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum í dag var dómfelldi dæmdur í 12 mánaða fangelsi vegna brota á skjalafals- og auðgunarbrotaákvæðum almennra hegningarlaga, auk brota á umferðarlögum. Til frádráttar refsingunni kom 38 daga gæsluvarðhaldsvist dómfellda. Við uppkvaðningu dómsins tók dómfelldi sér frest til að kveða á um áfrýjun.
Samkvæmt 106. gr. laga nr. 19/1991 lýkur gæsluvarðhaldi þegar dómur hefur verið kveðinn upp í málinu. Eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á fresti skv. 2. mgr. 151. gr. laganna stendur. Dómfelldi hefur sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli c liðar 1. mgr. 103. gr. laganna vegna þeirra brota er hann hefur nú verið dæmdur fyrir. Skilyrði 106. gr. eru því uppfyllt og verður krafan því tekin til greina eins og hún er fram sett.
Úrskurðarorð:
Dómfelldi, X, sæti gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stendur, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 15. desember nk. kl. 16.00.