Hæstiréttur íslands
Mál nr. 447/2009
Lykilorð
- Staðgreiðsla opinberra gjalda
- Skilorð
- Einkahlutafélag
|
|
Fimmtudaginn 14. janúar 2010. |
|
Nr. 447/2009. |
Ákæruvaldið (Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn Sigurði Óskari Waage (Bjarni Hauksson hrl.) |
Staðgreiðsla opinberra gjalda. Skilorð. Einkahlutafélög.
S var sakfelldur fyrir brot á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, með því að hafa sem framkvæmdastjóri H ehf., ekki staðið skil á skilagreinum og staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins á ákveðnu tímabili. Þá var brot S einnig talið varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var S dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og honum gert að greiða 4.200.000 króna sekt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. ágúst 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
Ákærði krefst sýknu af kröfu ákæruvaldsins.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Sigurður Óskar Waage, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 247.176 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, 225.900 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2009,
I
Málið, sem dómtekið var 11. júní sl., er höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra, útgefinni 25. mars 2009 á hendur „A, kennitala og heimilisfang [...], Sigurði Óskari Waage, kennitala 000000-0000, Sólbakka, Mosfellsbæ, og B, kennitala og heimilisfang [...],
Fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum framin í rekstri einkahlutafélagsins Handverksmenn, kennitala 000000-0000, sem ákærði Sigurður Óskar var framkvæmdastjóri og prókúruhafi fyrir, ákærði A var stjórnarmaður og prókúruhafi fyrir, og ákærði B var starfandi fjármálastjóri fyrir, með því að hafa eigi staðið skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna tímabilanna janúar og júlí 2006 og febrúar og mars 2007, og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli í III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna tímabilanna janúar til og með desember 2006 og febrúar og mars 2007, samtals að fjárhæð kr. 6.318.969, sem sundurliðast sem hér greinir:
|
Greiðslutímabil: |
Vangoldin staðgreiðsla: |
|
|
Árið 2006 |
|
|
|
janúar |
kr. 168.125 |
|
|
febrúar |
kr. 171.852 |
|
|
mars |
kr. 166.882 |
|
|
apríl |
kr. 382.194 |
|
|
maí |
kr. 530.395 |
|
|
júní |
kr. 526.546 |
|
|
júlí |
kr. 539.192 |
|
|
ágúst |
kr. 472.196 |
|
|
september |
kr. 455.575 |
|
|
október |
kr. 577.098 |
|
|
nóvember |
kr. 540.813 |
|
|
desember |
kr. 639.261 |
kr. 5.170.129 |
|
Árið 2007 |
|
|
|
febrúar |
kr. 648.314 |
|
|
mars |
kr. 500.526 |
kr. 1.148.840 |
|
|
Samtals |
kr. 6.318.969 |
Framangreind brot ákærðu teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig:
a) 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Ákærðu, A og B, hafa játað sakargiftir og krefjast vægustu refsingar. Ákærði, Sigurður Óskar, neitar sök og krefst sýknu. Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
II
Ákærðu A og B hafa skýlaust játað sök samkvæmt ákærunni og er engin ástæða til að draga í efa að játning þeirra sé sannleikanum samkvæm. Þeir gera engar athugasemdir við tímabil og fjárhæðir sem tilgreindar eru í ákærunni.
Þrátt fyrir að ákærði Sigurður Óskar neiti sök gerir hann ekki athugasemdir við það sem í ákæru greinir, að hann hafi verið framkvæmdastjóri nefnds einkahlutafélags á því tímabili sem þar greinir. Þá gerir hann heldur ekki athugasemdir við tölur þær sem tilgreindar eru í ákæru og að þeim fjárhæðum hafi ekki verið skilað til ríkissjóðs eins og þar segir. Sýknukrafa hans byggist á því að staða hans sem framkvæmdastjóra hafi verið til málamynda, en aðalstarf hans hjá félaginu hafi verið að standa fyrir húsbyggingum á Akranesi. Með vísun til þessarar afstöðu ákærðu til sakarefnisins verða málavextir ekki reifaðir að öðru leyti en það sem snýr að framkvæmdastjórastöðu ákærða Sigurðar Óskars, sbr. 4. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008.
Það er ágreiningslaust í málinu að ákærði Sigurður Óskar var framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins á þeim tíma sem um ræðir og það hafði verið tilkynnt hlutafélagaskrá. Við aðalmeðferð bar ákærði að ástæða þess að hann tók þetta að sér hafi verið að meðákærði B gat ekki gegnt stöðunni vegna fjárhagserfiðleika í kjölfar hjónaskilnaðar. Sjálfur hafi ákærði staðið fyrir húsbyggingum á vegum félagsins sem verktaki og það verið aðalstarf hans. Hann hafi ekki komið nálægt bókhaldi eða neinu því um líku og engar hugmyndir haft um stöðu staðgreiðslumála. Hann kvaðst aldrei hafa rætt fjármál við meðákærðu. Framkvæmdastjórastaðan hafi átt að vera tímabundin meðan B gengi í gegnum skilnað. Hann kvaðst hafa tekið stöðuna að sér án þess að vita hvaða ábyrgð fylgdi henni. Í sjálfu sér hefði hann þó haft hugmynd um þessa ábyrgð eins og hann orðaði það en ekki reyndi hann neitt að kynna sér hana. Í raun og veru hefði hann bara lánað nafn sitt. Ákærði kvaðst þó hafa vitað um greiðsluerfiðleika félagsins en ekki velt þeim sérstaklega fyrir sér.
Meðákærðu báru efnislega á sama hátt um störf ákærða Sigurðar Óskars hjá félaginu og hér að framan var rakið úr framburði hans.
III
Með játningum ákærðu, A og B, sem styðjast við önnur gögn málsins er sannað að þeir hafi gerst sekir um það sem þeim er gefið að sök í ákæruskjalinu og eru brot þeirra þar rétt færð til refsiákvæða.
Ákærði Sigurður Óskar var framkvæmdastjóri félagsins, eins og rakið var, og þótt engin ástæða sé til að efast um að aðdragandi ráðningar hans og tilgangur hafi verið með þeim hætti sem lýst var, er ekki hægt að líta fram hjá því að lögum samkvæmt hvíla tilteknar skyldur á framkvæmdastjóra einkahlutafélags, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Ákærða mátti því vera ljóst að með því láta skrá sig sem framkvæmdastjóra tók hann á sig tilteknar skyldur, eins og hann hefur reyndar kannast við fyrir dómi og að framan var rakið. Þar á meðal að annast daglegan rekstur félagsins eins og segir í tilvitnaðri lagagrein. Í því felst meðal annars að sjá til þess að staðin séu skil á afdreginni staðgreiðslu. Það er því ekki hægt að fallast á það með ákærða að sýkna beri hann vegna þess að staða hans hjá félaginu hafi eingöngu verið til málamynda. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur á sama hátt og meðákærðu.
Enginn ákærðu hefur áður gerst sekur um lögbrot. Eins og málið er vaxið er rétt að gera öllum ákærðu sömu refsingu. Refsing hvers þeirra er hæfilega ákveðin 2 mánaða fangelsi er bundin skal skilorði eins og segir í dómsorði. Þá verður hverjum þeirra gert að greiða 4.200.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og komi 60 daga fangelsi í stað sektar verði hún ekki greidd innan 4 vikna.
Loks skulu ákærðu greiða óskipt málsvarnarlaun verjanda síns eins og segir í dómsorði.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Ákærð, A, Sigurður Óskar Waage og B, sæti hver um sig fangelsi í 2 mánuði, en fresta skal fullnustu refsinga allra ákærðu og falli þær niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins fyrir þeim, haldi þeir almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærðu greiði, hver um sig, 4.200.000 krónur í sekt til ríkisjóðs og sæti hver þeirra 60 daga fangelsi verði sektin ekki greidd innan 4 vikna.
Ákærðu greiði óskipt málsvarnarlaun verjanda síns Bjarna Haukssonar hrl., 237.048 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.