Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-28
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Opinberir starfsmenn
- Áminning
- Miskabætur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 11. mars 2022 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 11. febrúar sama ár í máli nr. 701/2020: A gegn Landspítala á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggur í mat Hæstaréttar hvort skilyrði til áfrýjunar séu uppfyllt.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að skrifleg áminning sem henni var veitt 24. nóvember 2014 verði felld úr gildi og gagnaðila gert að greiða henni 2.000.000 króna í miskabætur. Fyrrgreind áminning var veitt á grundvelli 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins vegna atviks er átti sér stað mánuði fyrr í starfi hennar sem hjúkrunarfræðingur hjá gagnaðila.
4. Í dómi héraðsdóms var ekki fallist á að skort hafi á efnisleg skilyrði fyrir áminningunni. Raktar voru þær faglegu kröfur sem gerðar væru til heilbrigðisstarfsmanna og komist að þeirri niðurstöðu með hliðsjón af gögnum málsins að hún hefði vikið verulega frá því sem almennt mætti krefjast af heilbrigðisstarfsmanni. Ekki var fallist á að ákvörðun um að veita henni áminningu hefði byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum, verið tilefnislaus, reist á röngum forsendum eða að skort hefði á rökstuðning fyrir henni. Þá var ekki fallist á að gagnaðili hefði brotið gegn meðalhófsreglu, rannsóknarreglu eða jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Gagnaðili var því sýknaður af kröfu leyfisbeiðanda og sú niðurstaða staðfest í Landsrétti.
5. Leyfisbeiðandi byggir í fyrsta lagi á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Í því efni telur hún dóm Landsréttar á skjön við fyrri dómaframkvæmd, fyrirmæli laga og viðteknar fræðikenningar og því hafi það verulegt almennt gildi að hann komi til endurskoðunar. Í öðru lagi varði úrslit málsins sérstaklega mikilvæga hagsmuni hennar og vísar því til stuðnings til persónulegra hagsmuna sinna af því að áminningin verði felld úr gildi. Í þriðja lagi sé ástæða til að ætla að málsmeðferð fyrir héraðsdómi og Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant og að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til. Þannig hafi héraðsdómur, sem Landsréttur staðfesti, meðal annars ekki tekið afstöðu til allra málsástæðna hennar. Þá sé skýring bæði héraðsdóms og Landsréttar á 21. gr. laga nr. 70/1996 bersýnilega röng.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð hafi verið stórlega ábótavant eða að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.