Hæstiréttur íslands
Mál nr. 256/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. apríl 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. apríl 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 3. maí 2017 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. apríl 2017.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, fd. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 3. maí 2017, og að henni verði gert að sæta einangrun á meðan á því stendur.
Kærða mótmælir kröfu lögreglustjóra og krefst þess aðallega að henni verði hafnað en til vara að henni verði markaður skemmri tími.
I
Í greinargerð kemur fram að Lögreglustjóranum á Suðurnesjum hafi borist tilkynning frá tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í gær, 20. apríl 2017, um að kærða, X, hefði verið stöðvuð á tollhliði, grunuð um að hafa fíkniefni meðferðis í farangri sínum við komu hingað til lands með flugi [...] frá [...].
Við skoðun á farangri kærðu hafi komið í ljós hvítt duft þegar stungið var á botni á tösku hennar. Við skoðun á duftinu hafi Itemiser greiningarvél tollgæslunnar sýnt svörun á kókaín. Við nánari skoðun á ferðatösku kærðu hafi komið í ljós að lok og botn ferðatöskunnar hafi innhaldið filter pakkningar sem innhéldu meint kókaín. Í framhaldi af því hafi verið gerð líkamsleit á kærðu og hún send í röntgen en ekkert saknæmt hafi fundist. Í kjölfar þessa hafi kærða verið handtekin og flutt á lögreglustöðina við Hringbraut þar sem hún hafi verið vistuð. Ekki liggi fyrir að svo stöddu um magnið af hinu meinta kókaíni. Hafi verið tekin skýrsla af kærðu fyrr í dag 21. apríl 2017, sbr. meðfylgjandi gögn málsins. Þá hafi hinum ætluðu fíkniefnum verið komið til frekari rannsóknar hjá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Samkvæmt framansögðu og með vísan til gagna málsins telji lögreglustjóri miklar líkur á því að þau ætluðu fíkniefni sem kærða hafi komið með til landsins hafi verið ætluð til sölu og dreifingar. Sé því fram kominn rökstuddur grunur fyrir því að kærða hafi með ætlaðri refsiverðri háttsemi sinni gerst sek um brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ákvæði laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, þrátt fyrir að tegund eða magn hinna ætluðu fíkniefna liggi ekki fyrir að svo stöddu. Telji lögreglustjóri nauðsynlegt að kærða sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hennar eru til rannsóknar hjá lögreglu.
II
Nánar segir í greinargerð lögreglustjóra að rannsókn málsins sé á frumstigi. Lögregla vinnur nú m.a. að því í fyrsta lagi að rannsaka aðdraganda að ferð kærðu hingað til lands og tengsl hennar við hugsanlega vitorðsmenn hér á landi og erlendis. Í öðru lagi telji lögregla sig þurfa svigrúm til að rannsaka nánar, áður en kærða verður látin laus úr haldi lögreglu, hvort að ætluðu fíkniefni hafi verið ætluð til sölu og dreifingar hér á landi. Þá telji lögregla einnig, miðað við það magn meintra fíkniefna sem hald hefur verið lagt á í málinu, að háttsemi kærðu kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga auk ákvæða laga um ávana- og fíkniefni. Lögreglustjóri telji einsýnt að ætla að kærða kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hún laus. Að sama skapi telji lögregla hættu á að kærða verði beitt þrýstingi af hugsanlegum samverkamönnum og að reynt verði að hafa áhrif á hana.
Þess er einnig krafist að kærðu verði gert að sæta einangrun, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, á meðan á gæsluvarðhaldi stendur með vísan til framangreindra rannsóknarhagsmuna.
Með vísan til alls framangreinds a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni telur lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 3. maí 2017, kl. 16:00.
III
Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærða undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins er á frumstigi. Haldi kærða óskertu frelsi sínu gæti hún torveldað rannsókn málsins með því að hafa áhrif á samseka eða koma sönnunargögnum undan. Með vísan til a. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 2. mgr. 98. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er fallist á kröfur lögreglustjóra um að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðahaldi og einangrun eins og krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærða, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 3. maí 2017. kl. 16:00.
Kærða skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.