Hæstiréttur íslands
Mál nr. 502/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald
- Útlendingur
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
|
|
Miðvikudaginn 17. september 2008. |
|
Nr. 502/2008. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum(Alda Hrönn Jóhannsdóttir, fulltrúi) gegn X (Ásbjörn Jónsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. Útlendingar. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.
Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, svo sem þeim var breytt með 18. gr. laga nr. 86/2008, þar sem ekki þóttu leiddar að því nægjanlegar líkur að X hefði gefið rangar upplýsingar um hver hann væri. Þá þóttu gögn málsins ekki fullnægjandi til að álykta með nægjanlegri vissu að af X stafaði slík hætta að nauðsynlegt væri að grípa til gæsluvarðhalds.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. september 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. september 2008. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. september 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 24. október 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og til vara að beitt verði vægari úrræðum. Til þrautavara er þess krafist að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Sóknaraðili reisir kröfu sína á því að rökstuddur grunur leiki á að varnaraðili hafi gefið rangar upplýsingar um hver hann sé og að hann eigi að hafa sýnt af sér hegðun sem gefi til kynna að af honum geti stafað hætta. Í gögnum málsins er að finna upplýsingar um að varnaraðili hafi gengið undir nafninu X, bæði í Þýskalandi, Svíþjóð og Noregi, en hann kveðst vera frá Vestur-Sahara. Ekki hafa verið leiddar líkur að því að þær upplýsingar séu rangar. Þá eru gögn málsins ekki fullnægjandi til álykta megi með nægilegri vissu að af varnaraðila geti stafað slík hætta að nauðsynlegt sé að grípa til gæsluvarðhalds. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. september 2008.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til 7. mgr. 29. gr. útlendingalaga nr. 96/2002, sbr. lög nr. 86/2008, sbr. b- og c-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að X, fæddur [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 24. október 2008, kl. 16.00.
Kærði hefur mótmælt kröfunni.
Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot á 7. mgr. 29. gr. útlendingalaga nr. 96/2002, sbr. 18. gr. laga nr. 86/2008.
Í kröfu lögreglustjórans kemur m.a. fram að kærði hafi verið handtekinn 11. september 2008 á dvalarstað hælisleitenda að Fitjabraut 6b í Njarðvík en hann sé hælisleitandi hér á landi. Ástæða handtökunnar hafi verið sú að tilkynnt hafi verið frá öðrum íbúum að Fitjabraut 6b að þeim stæði ógn af kærða sem hefði hótað þeim með hnífi og hann lagt hendur á annan hælisleitanda. Þá hafi lögreglan haft afskipti af kærða aðfaranótt 6. september sl. þar sem hann hafi farið inn í lögreglubifreið sem hafi staðið mannlaus fyrir utan skemmtistað í Reykjanesbæ. Er lögreglan hafi komið að bifreiðinni hafi hann reiðst mjög og ráðist að lögreglumönnunum. Hann hafi því verið handtekinn og vistaður í fangageymslu. Lögreglunni hafi borist upplýsingar frá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra að kærði hafi sótt um hæli í Svíþjóð og einnig í Noregi en undir mismunandi nöfnum. Þá kemur fram í greinargerð lögreglunnar að kærði hafi komið hingað til lands með Norrænu til Seyðisfjarðar sem laumufarþegi þann 28. ágúst sl.
Samkvæmt framansögðu telur lögreglustjóri að sterkar vísbendingar séu um að kærði hafi gefið rangar upplýsingar um hver hann sé og að hann sýni jafnframt af sér hegðun sem gefi til kynna að hætta geti stafað af honum. Telur lögreglustjóri því nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans eru til rannsóknar hjá lögreglu og Útlendingastofnun.
Að öllu framangreindu virtu, sem og gögnum málsins að öðru leyti, verður fallist á það með lögreglustjóra að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði hafi villt á sér heimildir. Þá verður einnig talið að hann hafi sýnt af sér hegðun sem gefi til kynna að af honum kunni að stafa hætta. Samkvæmt 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, svo sem þeim var breytt með 18. gr. laga nr. 86/2008, eru því fyrir hendi skilyrði til gæsluvarðhalds yfir kærða. Krafa lögreglustjórans verður því tekin til greina og kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 24. október 2008, kl. 16.00.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 24. október 2008, kl. 16.00.