Hæstiréttur íslands
Mál nr. 311/2001
Lykilorð
- Skilnaðarsamningur
- Víxill
- Endurkrafa
- Málskostnaðartrygging
- Frávísunarkröfu hafnað
|
|
Fimmtudaginn 21. febrúar 2002. |
|
Nr. 311/2001. |
Garðar H. Björgvinsson(Valgeir Kristinsson hrl.) gegn Erlu M. Alexandersdóttur (Björgvin Þorsteinsson hrl.) og gagnsök |
Skilnaðarsamningur. Tryggingarvíxill. Endurkrafa. Málskostnaðartrygging. Frávísunarkröfu hafnað.
Samkvæmt skilnaðarsamkomulagi G og E, sem gert var árið 1990, skyldi E fá í sinn hlut 650.000 krónur í peningum samkvæmt útistandandi reikningum, sem áttu að greiðast í september eða október sama ár. G afhenti E tryggingarvíxil, að fjárhæð 650.000 krónur til tryggingar greiðslunni. Víxillinn glataðist en E fékk víxilkröfuna viðurkennda í sérstöku dómsmáli og greiddi G hana. Krafðist G endurgreiðslu og skaðabóta vegna meintrar misnotkunar E á víxlinum. Hæstiréttur hafnaði kröfu E um frávísun, sem reist var á því að G hefði afsalað sér rétti sínum til áfrýjunar á héraðsdómi með því að leysa til sín þá málskostnaðartryggingu, sem honum var gert að setja í héraði. Var talið að ákvörðun dómara um málskostnaðartryggingu tæki aðeins til málsmeðferðar á því dómstigi og meðhöndlun hennar réðist af úrslitum máls þar. Innlausn G á málskostnaðartryggingu að gengnum héraðsdómi hafi ekki getað leitt til þess að hann glataði við það lögvörðum rétti til áfrýjunar dómsins. Enginn fyrirvari hafði verið gerður um það af hálfu G að greiðsla hans til E væri háð því að hinar útistandandi skuldir fengjust greiddar. Því var það talið hafa verið á áhættu G hvort krafan innheimtist eða ekki. G hefði gefið út víxil til að tryggja E greiðslu á umræddri fjárhæð, yrði hún ekki greidd samkvæmt skilnaðarsamkomulaginu. E hefði því átt rétt á því að fá tryggingarvíxilinn greiddan þegar G vanefndi greiðsluskyldu sína. Var E því sýknuð af kröfum G.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. ágúst 2001. Hann krefst þess, að gagnáfrýjandi greiði sér 1.650.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. nóvember 1999 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Í gagnsök gerir aðaláfrýjandi þær dómkröfur, að frávísunarkröfu gagnáfrýjanda verði hafnað og hann sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda um málskostnað í héraði.
Gagnáfrýjunarstefna var gefin út 14. nóvember 2001. Gagnáfrýjandi krefst þess aðallega, að kröfu aðaláfrýjanda verði vísað frá Hæstarétti og hann dæmdur til að greiða sér málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst gagnáfrýjandi staðfestingar héraðsdóms að öðru leyti en því, að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér málskostnað í héraði. Þá er krafist málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi reisir frávísunarkröfu sína á því, að aðaláfrýjandi hafi afsalað sér rétti sínum til áfrýjunar á héraðsdómi með því að leysa til sín þá málskostnaðartryggingu, sem honum var gert að setja í héraði. Þetta hafi hann gert hinn 5. júní 2001, en sér hafi ekki orðið um það kunnugt fyrr en 29. október sama ár. Þessi aðgerð samrýmist ekki áfrýjun málsins til Hæstaréttar, enda eigi gagnáfrýjandi einungis rétt til gagnáfrýjunar í því skyni að fá héraðsdóm staðfestan að efni til og málskostnað dæmdan fyrir Hæstarétti.
Aðaláfrýjandi andmælir frávísunarkröfunni með þeim rökum, að málskostnaðartryggingu í héraði hafi aðeins verið ætlað að standa þar til niðurstaða héraðsdóms lægi fyrir. Með honum hafi aðaláfrýjandi verið sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda um málskostnað og þar með hafi hlutverki málskostnaðartryggingar í héraði verið lokið. Gagnáfrýjanda hafi verið í lófa lagið að setja fram kröfu um tryggingu fyrir málskostnaði í héraði samhliða kröfu um málskostnaðartryggingu fyrir Hæstarétti eða gera síðar kröfu um hækkaða málskostnaðartryggingu vegna nýrra upplýsinga.
Líta verður svo á, að ákvörðun dómara um málskostnaðartryggingu taki aðeins til málsmeðferðar á því dómstigi og ráðist meðhöndlun hennar af úrslitum máls þar. Innlausn aðaláfrýjanda á málskostnaðartryggingu að gengnum héraðsdómi gat ekki leitt til þess, að hann glataði við það lögvörðum rétti til áfrýjunar dómsins, sbr. XXV. kafli laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ber því að hafna frávísunarkröfu gagnáfrýjanda.
Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað. Eftir úrslitum málsins þykir rétt, að aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Kröfu gagnáfrýjanda, Erlu M. Alexandersdóttur, um frávísun kröfu aðaláfrýjanda, Garðars H. Björgvinssonar, frá Hæstarétti er hafnað.
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda 300.000 krónur samtals í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2001.
Mál þetta, sem dómtekið var 15. þessa mánaðar að afloknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu, þingfestri 7. nóvember 2000, af Garðari H. Björgvinssyni, kt. 040534-4079, Herjólfsgötu 18 Hafnarfirði, gegn Erlu M. Alexandersdóttur, kt. 220936-3099, Brekkubæ 7, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði dæmd til greiðslu 1.650.000 króna, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. nóvember 1999 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar, ásamt 24,5% virðisaukaskatti, samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Stefnda gerir þær dómkröfur, að hún verði sýknuð af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða henni hæfilegan málskostnað að mati dómsins.
I.
Málsatvik
Málsaðilar skildu lögskilnaði með leyfi sýslumannsembættisins á Selfossi, útgefnu 29. ágúst 1990. Meðal ákvæða í skilnaðarsamkomulagi þeirra um skiptingu eigna og skulda var, að stefnda skyldi fá 650.000 krónur í peningum samkvæmt útistandandi reikningum, er greiddust í september eða október 1990. Skyldi stefnandi afhenda víxil, að fjárhæð 650.000 krónur, til tryggingar greiðslunni. Stefnandi átti að fá sömu fjárhæð í sinn hlut vegna hinna útistandandi reikninga, en um var að ræða inneign stefnanda hjá norsku fyrirtæki, Sortland Boat A/S, vegna umboðslauna stefnanda fyrir sölu fjögurra báta á Íslandi. Norska félagið varð hins vegar gjaldþrota og heldur stefnandi því fram, að krafan hafi ekki fengist greidd, fyrir utan 140.000 krónur, og hafi stefnda fengið helming þeirrar fjárhæðar í sinn hlut. Þar sem stefnda glataði umræddum tryggingarvíxli, höfðaði hún mál til ógildingar honum. Var víxillinn ógiltur með dómi 4. apríl 1991. Þann 26. júní 1991 höfðaði stefnda innheimtumál á hendur stefnanda á grundvelli ógildingardómsins og rak málið sem víxilmál samkvæmt víxillögum og XVII. kafla laga nr. 91/1991. Stefnandi tók til varna og krafðist sýknu, en þær varnir komust af réttarfarsástæðum ekki að gegn mótmælum stefnanda. Með dómi 30. apríl 1992 var stefnanda gert að greiða stefndu 650.000 krónur með dráttarvöxtum og 150.000 krónur í málskostnað. Hinn 30. mars 1999 var gert fjárnám í eignarhluta stefnda í fasteigninni að Herjólfsgötu 18 Hafnarfirði samkvæmt dómkröfunni, sem þá var talin nema 2.557.938 krónum. Í framhaldi af því var krafist nauðungarsölu og fór lokasala fram í október sama ár. Í framhaldi af því náðist samkomulag um, að stefnandi greiddi stefndu 1.500.000 krónur sem fullnaðargreiðslu 2. nóvember 1999, en með fyrirvara um endurkröfu á hendur henni. Þá kveðst stefnandi hafa greitt þáverandi lögmanni sínum 150.000 krónur vegna reksturs fyrra málsins og gerir jafnframt kröfu á hendur stefndu um greiðslu þess kostnaðar.
Bú stefnanda var tekið til gjaldþrotaskipta með dómsúrskurði 18. október 2000, en með bréfi skiptastjóra, dagsettu 8. janúar 2001, var stefnanda heimilað að reka mál þetta á sinn kostnað og sína ábyrgð, en til hagsbóta fyrir þrotabúið, ynnist það.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir málsókn sína á því, að hér sé um að ræða skaðabótakröfu á grundvelli víxillaga og/eða endurkröfu vegna misnotkunar stefndu á víxli, sem gefinn hafi verið út til tryggingar kröfu, er aldrei hafi orðið gild og bindandi milli málsaðila. Um lagarök vísar stefnandi til skaðabótareglna víxillaga og 2. mgr. 119. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þá byggir stefnandi og á samningsskuldbindingum aðila og reglum samningalaga um skuldbindingargildi samninga.
III.
Málsástæður og lagarök stefndu
Stefnda byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því, að samkvæmt skilnaðarsamkomulagi hennar og stefnanda, hafi hún átt að fá 650.000 krónur og að það hafi verið stefnanda að standa henni skil á greiðslu þessari. Hafi stefnandi afhent stefndu víxil til tryggingar því, að hún fengi fjárhæð þessa og það alfarið verið á hans áhættu, hvort kröfurnar innheimtust eða ekki.
Í öðru lagi er á því byggt, að samkvæmt skilnaðarsamkomulaginu hafi stefnanda borið að tryggja stefndu greiðslu samkvæmt 5. lið þess og það hafi hann gert með afhendingu víxilsins. Sé stefnandi í raun að krefjast þess, að skilnaðarsamningnum verði breytt, þannig að hann beri ekki ábyrgð á greiðslu þessari til stefndu, en til þess séu allir frestir löngu liðnir, þar sem stefnanda hafi borið að höfða mál til breytinga á skilnaðarsamningnum innan árs frá útgáfu lögskilnaðarleyfisins, sbr. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 60/1972, er gilt hafi um stofnun og slit hjúskapar á þeim tíma er lögskilnaður málsaðila átti sér stað.
Í þriðja lagi er á því byggt, að allsendis sé ósannað, að kröfurnar hafi ekki verið greiddar og jafnframt, hvort um sé að ræða þær kröfur, sem stefnandi tiltaki í sóknarskjölum.
Í fjórða lagi byggir stefnda á því, að kröfur stefnanda séu fyrndar, sbr. 3. gr. laga nr. 14/1905.
Sé um að ræða skaðabótakröfu samkvæmt 2. mgr. 119. gr. laga nr. 91/1991, hafi stefnanda borið að höfða það mál án tafar. Hafi hann sýnt af sér algjört tómlæti með aðgerðarleysi sínu, en hann hafi getið höfðað málið strax á árinu 1992. Þá sé krafa stefnanda órökstudd, hvað fjárhæð varðar. Er mótmælt, að stefnandi geti átt rétt á skaðabótum vegna greiðslu málskostnaðar, að fjárhæð 150.000 krónur, enda sé sú krafa ekki studd reikningi. Þá er dráttarvaxtakröfu stefnanda sérstaklega mótmælt.
IV.
Forsendur og niðurstaða
Samkvæmt áðurnefndu skilnaðarsamkomulagi aðila máls þessa um skiptingu eigna og skulda, sem bókað var í hjónaskilnaðarbók Árnessýslu 29. ágúst 1990 og undirritað af aðilum, skyldi stefnda meðal annars fá í sinn hlut 650.000 krónur í peningum samkvæmt útistandandi reikningum ,,[...] er greiðast í september eða októbermánuði 1990.” Á sama hátt skyldi stefnandi fá sömu fjárhæð í sinn hlut. Þá er og bókað í hjónaskilnaðarbók, að stefnandi afhendi stefndu tryggingarvíxil, að fjárhæð 650.000 krónur, til tryggingar greiðslunni.
Í samkomulaginu er enginn fyrirvari gerður um það af hálfu stefnanda, að ofangreind greiðsla hans til stefndu væri háð því, að krafa sú, er stefnandi átti á hinn norska aðila, fengist greidd. Verður því að telja, að það hafi verið á áhættu stefnanda, hvort krafan innheimtist eða ekki. Stefnandi gaf og út víxil til að tryggja stefndu greiðslu á framangreindri fjárhæð, yrði hún ekki greidd samkvæmt skilnaðarsam-komulaginu. Stefnandi átti því rétt á að fá tryggingarvíxilinn greiddan, þegar stefnandi vanefndi greiðsluskyldu sína. Af þessum sökum ber að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í máli þessu, en eftir atvikum er rétt, að málskostnaður þeirra í millum falli niður.
Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefnda, Erla M. Alexandersdóttir, er sýkn af kröfum stefnanda, Garðars H. Björgvinssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.