Hæstiréttur íslands
Mál nr. 586/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Skuldajöfnuður
|
|
Þriðjudaginn 15. október 2013. |
|
Nr. 586/2013.
|
Glitnir hf. (Steinunn Hólm Guðbjartsdóttir hrl.) gegn Nýherja hf. (Heiðar Ásberg Atlason hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Skuldajöfnuður.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi um viðurkenningu kröfu sem N hf. lýsti við slit G hf. á grundvelli samnings þeirra um nánar tilgreinda tölvuþjónustu sem G hf. tókst á hendur fyrir hönd dótturfélags síns í Noregi. Þá krafðist N hf. þess að viðurkennt yrði að félaginu væri heimilt að skuldajafna fyrrgreindri kröfu sinni við kröfur G hf. á hendur sér á grundvelli tveggja lánssamninga og yfirdráttarskuldar sem Í hf. hafði tekið yfir af G hf. samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Fallist var á að N hf. ætti kröfu á hendur G hf. er næmi því tjóni sem N hf. hefði orðið fyrir af völdum þess að G hf. hefði ekki tekið við réttindum og skyldum samkvæmt gagnkvæmum samningi aðila eftir að síðastgreindur aðili var tekinn til slita. Þá var fallist á að skilyrði skuldajafnaðar samkvæmt 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.væru uppfyllt að því er varðaði fyrrgreindar kröfur Í hf. á hendur N hf. og var réttur N hf. þar að lútandi því einnig viðurkenndur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. ágúst 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. september sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. ágúst 2013, þar sem leyst var úr ágreiningi um viðurkenningu kröfu, sem varnaraðili hafði lýst við slit sóknaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði með öllu að viðurkenna kröfu varnaraðila að fjárhæð 116.467.772 krónur. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 30. ágúst 2013. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur að öðru leyti en því að fjárhæð kröfu sinnar verði ákveðin 116.467.772 krónur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða hans um að viðurkenna kröfu varnaraðila við slit sóknaraðila, sem ber heitið Glitnir hf. en ekki slitabú Glitnis hf. eins og hann er nefndur í úrskurðinum, að fjárhæð 1.828.660 danskar krónur, en samkvæmt 3. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, verður sú fjárhæð tilgreind í íslenskum krónum eftir skráðu sölugengi danskrar krónu 22. apríl 2009 eins og í dómsorði greinir. Þá verður jafnframt staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að kröfu þessari sé skipað í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, svo og að varnaraðila sé heimilt að neyta með henni skuldajafnaðar við skuldir sínar við Íslandsbanka hf., sem nánar greinir í hinum kærða úrskurði.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi svo sem segir í dómsorði.
Það athugast að aðfinnsluvert er að aðilarnir hafa í verulegum mæli lagt fram gögn á erlendu tungumáli, sem aðeins hafa að litlu leyti verið þýdd á rétt þingmál samkvæmt 1. mgr. og 3. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómsorð:
Viðurkennd er krafa varnaraðila, Nýherja hf., við slit sóknaraðila, Glitnis hf., að fjárhæð 41.550.813 krónur og nýtur hún stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um heimild varnaraðila til að neyta skuldajafnaðar með kröfu sinni eru staðfest.
Sóknaraðili greiði varnaraðila samtals 1.300.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. ágúst 1013.
Þetta mál, sem barst dóminum, 16. mars 2012, með bréfi slitastjórnar Glitnis banka hf., var þingfest 30. apríl það ár og tekið til úrskurðar 2. júlí 2013.
Sóknaraðili, Nýherji hf., kt. 530292-2079, Borgartúni 37, Reykjavík, krefst þess að fjárkrafa hans í slitabú Glitnis hf., 116.467.772 krónur, verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Hann krefst þess jafnframt að viðurkenndur verði réttur hans til að skuldajafna fjárkröfunni við fjárkröfur Íslandsbanka hf. á hendur honum samkvæmt:
i. annars vegar tveimur lánssamningum, upphaflega milli sóknaraðila og varnaraðila, báðum dags. 20. mars 2006, upphaflega að fjárhæð 560.000.000 króna og 200.000.000 króna, sem síðar var báðum skuldbreytt með lánssamningi milli Íslandsbanka hf. og sóknaraðila, 14. desember 2010, upphaflega að fjárhæð 420.000.000 króna, og
ii. hins vegar yfirdráttarskuld sóknaraðila á sérkjarareikningi hjá Íslandsbanka hf. nr. 525-26-2.
Sóknaraðili krefst enn fremur málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili, slitabú Glitnis hf., kt. 550500-3530, Sóltúni 26, Reykjavík, krefst þess aðallega að staðfest verði sú afstaða slitastjórnar að neita að viðurkenna fjárkröfu sóknaraðila, 116.467.772 kr., sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila.
Jafnframt krefst varnaraðili þess að hafnað verði þeirri kröfu sóknaraðila að viðurkenndur verði réttur hans til að nýta framangreinda fjárkröfu til skuldajöfnuðar við fjárkröfur Íslandsbanka hf. á hendur honum.
Til vara krefst varnaraðili þess að fjárhæð kröfu sóknaraðila verði lækkuð.
Í öllum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Málavextir
Sóknaraðili, Nýherji, og Glitnir banki hf. rituðu, 19. nóvember 2007, undir rammasamning um úthýsingu á tölvuþjónustu (e. Cover Agreement). Með honum tók sóknaraðili, sem þjónustuveitandi (e. service provider), að sér að veita bankanum, viðskiptavini (e. customer), tiltekna tölvuþjónustu. Þessi samningur er stuttur, einblöðungur, en þar er tekið fram að samningsaðilar séu bundnir af réttindum og skyldum tilgreindum í samningi um úthýsingu sem var fylgiskjal við samninginn og óaðskiljanlegur hluti hans. Fylgisamningurinn um úthýsingu (e. Agreement Regarding IT Outsourcing Services for Glitnir) undirritaður sama dag, var hins vegar á milli Nýherja og IBM Danmark A/S. Með honum tók IBM að sér að veita sóknaraðila tilgreinda tölvuþjónustu. Fulltrúi bankans undirritaði hann því til staðfestu að bankinn vissi af tilvist hans og efni (e. countersigned).
Þennan samning gerði bankinn fyrir hönd dótturfélags síns í Noregi, Glitni Bank ASA, og var það því sá banki sem naut þjónustu IBM Danmark A/S þar til hann var seldur, 21. október 2008.
Samkvæmt grein 8.2 í síðarnefnda samningnum getur viðskiptamaður, bankinn, ákveðið að slíta samningnum og skal hann þá greiða sóknaraðila samningsslitafjárhæð (e. Termination Charges), samkvæmt nánari fyrirmælum samningsins. Nánar tiltekið segir í grein 8.2:
Customer may elect to terminate this Agreement for its convenience by providing Service Provider with a written notice stating Customers election to terminate this Agreement for its convenience and the effective date of such termination. Such effective date will be: 1. no earlier than three contract years from the Service Start Date; and 2. no earlier than six months, and no later than 12 months, after Service providers receipt of such notice; and paying Service Provider the Termination Charges and other fees defined in this Agreement.
Aukið var við samning sóknaraðila og bankans fimm sinnum með undirritun viðauka nr. 1, 2, 4, 5 og 6. Viðauki með númerið 3 var ekki gerður.
Hinn 7. október 2008, beitti Fjármálaeftirlitið heimild stjórnvalda samkvæmt 100. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., til að taka yfir starfsemi Glitnis banka hf. og skipaði bankanum skilanefnd til að taka við stjórn hans.
Með tölvuskeyti, 13 október 2008, tilkynnti Nýi Glitnir banki hf. sóknaraðila þær breytingar sem voru í bígerð með stofnun nýja bankans og óskaði eftir áframhaldandi notkun á leyfum á meðan greining færi fram eða þar til samningar við Nýja Glitni banka tækju gildi. Varð niðurstaðan sú að Nýherji og IBM veittu dótturfélagi bankans í Noregi þjónustu til ársloka 2008 eða í um þrjá mánuði til viðbótar.
Hinn 15. nóvember 2008 tóku gildi lög nr. 129/2008 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Á grundvelli þeirra var Glitni banka, 24. nóvember 2008, veitt heimild til greiðslustöðvunar. Með bréfi, 7. desember 2008, sendu starfsmenn Nýja Glitnis sóknaraðila tilkynningu þar sem þjónustu Nýherja og IBM við Glitni í Noregi var ekki óskað lengur og vísað til þess að vegna nýrrar skipunar bankans yrði að slíta þessum þríhliða samningi.
Með gildistöku laga nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002, 22. apríl 2009, var Glitnir banki tekinn til formlegrar slitameðferðar. Slitameðferðin var kennd við greiðslustöðvun á meðan heimild bankans til greiðslustöðvunar á grundvelli laga nr. 129/2008 var enn í gildi.
Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði varnaraðila slitastjórn, 12. maí 2009, með heimild í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Að beiðni skilanefndar og slitastjórnar úrskurðaði Héraðsdómur Reykjavíkur, 22. nóvember 2010, að Glitnir væri tekinn til formlegrar slitameðferðar.
Samkvæmt XII. kafla laga nr. 161/2002 gilda í meginatriðum reglur laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 um slitameðferð fjármálafyrirtækja, þar á meðal um meðferð krafna á hendur þeim. Slitastjórn birti innköllun í fyrra sinn í Lögbirtingarblaðinu, 26. maí 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 26. nóvember 2009.
Þar sem slitabú bankans gekk ekki inn í samningssamband hans við sóknaraðila lýsti sóknaraðili almennri kröfu við slitameðferð varnaraðila að fjárhæð 116.467.772 krónur (5.063.596 danskar krónur) auk vaxta og kostnaðar. Jafnframt lýsti sóknaraðili yfir skuldajöfnuði, samkvæmt 100. gr. laga nr. 21/1991, við kröfur bankans á hendur sóknaraðila, sem höfðu verið yfirteknar af Íslandsbanka hf. við hrun bankans í október 2008 með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008. Skuldir sóknaraðila byggjast á tveimur lánssamningum, dags. 20. mars 2006, og yfirdráttarskuld á sérkjarareikningi nr. 525-26-2, sem síðar var skuldbreytt með lánssamningi, 14. desember 2010. Skuldir sóknaraðila samkvæmt lánssamningunum námu samtals 1.012.979.563 krónum, 8. október 2008, en vegna yfirdráttarins 71.808.432 krónum miðað við stöðu hans þann dag.
Með bréfi, 15. desember 2010, tilkynnti slitastjórn varnaraðila sóknaraðila að kröfu hans væri hafnað. Hún væri ekki talin eiga rétt á sér þar sem hvorugur aðili samningsins hefði skyldum að gegna eftir fall Glitnis banka hf. haustið 2008. Slitastjórn áskildi sér allan rétt til að mótmæla öllum kröfum sóknaraðila um skuldajöfnuð, sem tengdust kröfu sóknaraðila á hendur slitabúinu, og hafna þeim. Sóknaraðili mótmælti þessari afstöðu slitastjórnarinnar með bréfi, 1. desember 2010. Fundur, 5. mars 2012, haldinn til að jafna ágreining málsaðila reyndist árangurslaus og vísaði slitastjórnin ágreiningnum því til úrlausnar héraðsdóms, í samræmi við 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991.
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili byggir aðallega á því að krafa hans grundvallist á samningi bankans við sóknaraðila en verði ekki fallist á þá málsástæðu þá byggi hún á reglum um skaðabætur.
Samningskrafa
Sú krafa sóknaraðila að viðurkenna beri kröfu hans, að fjárhæð 116.467.772 krónur, sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila byggist í fyrsta lagi á því að krafan sé um efndir samnings og reist á ákvæðum samningsins við Glitni banka um úthýsingu á tölvuþjónustu hans, 19. nóvember 2007. Krafan byggist nánar tiltekið á grein 8 í samningnum en ákvæðið beri yfirskriftina Renewal and Termination, sbr. einnig fylgiskjal C (Schedule C) við samninginn, aðallega grein 2.2 (liðir e. og f.).
Í grein 8.2 í samningnum hafi verið samið um afleiðingar þess segði bankinn samningum upp en þar segi:
Customer may elect to terminate this Agreement for its convenience by providing Service Provider with a written notice stating Customers election to terminate this Agreement for its convenience and the effective date of such termination. Such effective date will be: 1. no earlier than three contract years from the Service Start Date; and 2. no earlier than six months, and no later than 12 months, after Service providers receipt of such notice; and paying Service Provider the Termination Charges and other fees defined in this Agreement.
Með vísan til þessa ákvæðis og skilgreininga á hugtökunum viðskiptavinur (Customer) og þjónustuveitandi (Service Provider) í samningnum hafi bankinn, nú varnaraðili, sem viðskiptamaður heimild til þess að segja upp samningnum og hafi varnaraðili nýtt sér hana. Í slíkum tilfellum leggi ákvæðið þá skyldu á viðskiptamann að hann greiði þjónustuveitanda ákveðna samningsslitagreiðslu (Termination Charges) og önnur viðeigandi gjöld skilgreind í samningnum. Í undirskjali 1 (Exhibit 1) sé um skilgreiningu á hugtakinu Termination Charges vísað til fylgiskjals C (Schedule C) en þar séu ítarlegar reikniforsendur til að ákvarða fjárhæð samningsslitagreiðslu. Samkvæmt þeim forsendum beri varnaraðila að greiða 5.063.596 danskar krónur við uppsögn samnings samkvæmt grein 8.2, eða 116.467.722 íslenskar krónur miðað við gengið 22. apríl 2009. Skyldi þessi greiðsla nema fjárhæð sem samsvaraði hlutdeild í eftirstöðvum stofnkostnaðar við að koma tölvuþjónustunni á, sem varnaraðili skyldi greiða í stað þess að greiða eftirstöðvar samnings eins og þær hefðu verið hefði samningurinn verið efndur réttilega, sem sé mun hærri fjárhæð. Síðar verði gerð nánari grein fyrir forsendum og útreikningi þessarar kröfu.
Sóknaraðili byggir á því að aðilar hafi, með vísan til greinar 8.2 í samningi sínum, þegar við samningsgerð samið um þá fjárhæð sem greiða bæri fyrir hlutdeild í eftirstöðvum kostnaðar við einhliða samningsrof varnaraðila. Í samningnum séu því reglur um hvernig reikna skuli eftirstöðvar af beinum útlögðum kostnaði sóknaraðila við samning aðila í samræmi við þann tíma sem eftir lifði af upphaflegum samningstíma. Krafa sóknaraðila byggist því á fyrir fram umsaminni fjárhæð vegna kostnaðarhlutdeildar vegna samningsslita en aðilar hafi orðið ásáttir um hver sá kostnaður væri á hverjum tíma.
Þegar samið sé um stór verkefni til lengri tíma sé það forsenda að samningstíminn haldi, enda hafi meðal annars margháttaður kostnaður af samningsgerð sem og kostnaður við að koma upp og hefja þjónustu, flókin og yfirgripsmikil fjárfesting í vélbúnaði, sérhæfðum hugbúnaði, aðstöðu, þjálfun starfsmanna o.fl., tekið mið af samningstíma og verið deilt niður á hann. Þessi forsenda hafi verið óumdeild milli samningsaðila og endurspeglist hún í nákvæmum reglum samningsins um hvernig beri að reikna greiðslur vegna samningsslita. Í ljósi framangreinds telur sóknaraðili að taka beri kröfu hans til greina að fullu.
Skaðabótakrafa
Verði ekki fallist á að sóknaraðili eigi kröfu um efndir samnings byggir hann á því að hann eigi rétt til skaðabóta vegna fyrirvaralausra samningsslita sem nemi umsömdum eftirstöðvum útlagðs kostnaðar vegna fjárfestingar í búnaði og kostnaðar af innleiðingu. Í XII. kafla laga nr. 21/1991 séu ákvæði um gagnkvæma samninga og hvernig fari með slík réttarsambönd við gjaldþrot samningsaðila. Samkvæmt 1. mgr. 91. gr. laganna sé þrotabúi heimilt að taka við réttindum og skyldum þrotamanns samkvæmt gagnkvæmum samningi. Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. geti þrotabú sagt upp samningi um leigu eða annað varanlegt réttarsamband með venjulegum hætti eða sanngjörnum fresti þótt lengri uppsagnarfrestur sé ákveðinn í samningnum eða hann sé óuppsegjanlegur, nema samningnum hafi verið þinglýst eða hann skráður opinberlega á hliðstæðan hátt, sbr. 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, en þar segi að við slit fjármálafyrirtækis gildi sömu reglur og við gjaldþrotaskipti um gagnkvæma samninga þess og kröfur á hendur því að öðru leyti en því að dómsúrskurður um að það sé tekið til slita leiði ekki sjálfkrafa til þess að kröfur á hendur því falli í gjalddaga.
Nýti þrotabú sér ekki heimild til þess að taka við réttindum eða skyldum samkvæmt gagnkvæmum samningi, skv. 91. gr., eða nýti heimild sína til að segja upp samningi, með stoð 96. gr., skuli þrotabúið greiða skaðabætur vegna þess tjóns sem viðsemjandi þess hafi orðið fyrir, sbr. 94., sbr. 3. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili telji sig hafa orðið fyrir verulegu fjártjóni vegna þess að varnaraðili hafi ekki tekið við réttindum og skyldum samkvæmt fyrirliggjandi samningi aðila, en einungis rétt tæpt eitt ár hafi verið liðið af fimm ára gildistíma samningsins þegar bankinn fór í þrot. Sóknaraðili eigi því rétt á skaðabótum með stoð í fyrrgreindum ákvæðum laga nr. 21/1991. Hann telji tjón sitt nema 5.063.596 dönskum krónum í samræmi við útreikning í ákvæði 8.2 í samningi aðila, enda hafi aðilar með vísan til þeirrar greinar þegar áætlað og samið um það tjón sem hlytist af einhliða samningsrofum, eins og áður hafi verið rakið. Síðar verði gerð nánari grein fyrir forsendum útreiknings þessarar kröfu.
Sóknaraðili leggur á það áherslu að hann hafi orðið fyrir verulegu fjártjóni vegna vanefnda varnaraðila sem beri ábyrgð á framangreindum grundvelli sem og á grundvelli almennra meginreglna um skaðabætur innan samninga. Samkvæmt meginreglu kröfuréttar sé þeim sem valdi öðrum manni tjóni skylt að greiða tjónþola fé sem nægi til þess að rétta hlut hans og gera hann eins settan fjárhagslega og tjónið hefði ekki orðið.
Fjárhæð kröfu forsendur og útreikningar
Fjárhæð dómkröfu sóknaraðila, hvort sem hún styðjist við efndir samnings eða reglur skaðabótaréttar, byggist á sama reiknigrundvelli. Fjárhæðin jafngildi vangoldinni samningsgreiðslu sem hann telji sig eiga rétt til samkvæmt samningnum. Samkvæmt honum hafi allri tölvuþjónustu bankans verið úthýst og hafi verkefnið því, vegna umsvifa bankans fyrir hrun hans haustið 2008, verið gríðarlega stórt. Í samningi bankans við sóknaraðila séu nákvæmar aðferðir fyrir útreikning greiðslna sem sóknaraðili eigi rétt á vegna samningsslita og taki krafa hans alfarið mið af þeim.

Forsendur og útreikningar kröfufjárhæðar samningsslitagreiðslu séu svofelld:
Samkvæmt grein 8.2 í samningi aðila skuli viðskiptamaður við samningsslit greiða samningsslitagreiðslu (e. Termination Charges) og önnur viðeigandi gjöld skilgreind í samningnum. Skilgreining hugtaksins Termination Charges í undirskjali 1 (Exhibit 1) við samninginn vísi til þess að hugtakið hafi þá þýðingu sem því sé gefið í fylgiskjali C (Schedule C).
Með vísan til greinar 8.2 og skilgreiningar á hugtakinu Service Start Date í undirskjali 1 (Exhibit 1) við samning aðila hafi samningsslit í fyrsta lagi getað tekið gildi að liðnum þremur samningsárum frá 1. janúar 2008, það er 1. janúar 2011. Samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum auk b-liðar greinar 2.2 í fylgiskjali C (Schedule C), töflu í undirskjali C-1 (Exhibit C-1) og í ljósi þess að einungis hafi verið liðið eitt ár af samningstímanum krefjist sóknaraðili þess að varnaraðili greiði árgjöld vegna 2009 og 2010:
|
Annual Services Charge 2.065.000 + 2.007.000 = 4.072.000 danskar krónur. |
Samkvæmt e-lið greinar 2.2 í fylgiskjali C skuli viðskiptamaður greiða samningsslitagreiðslu í samræmi við undirskjal C-1.
Samkvæmt Termination Charge Proration Formula í töflu í fylgiskjali C í samningnum og töflu í undirskjali C-1 beri að greiða 567.000 danskar krónur vegna þessa þáttar. Samkvæmt formúlunni verði fjárhæðin fundin þannig:
|
Termination Charge Proration Formula = [[(A-B) / 12 mánuðir] x C] + B |
|
A = fjárhæð samningsslitagreiðslu fyrir það ár þar sem samningsslit taka gildi. |
|
B = fjárhæð samningsslitagreiðslu fyrir árið eftir að samningsslit taka gildi. |
|
C = fjöldi mánaða eftir af samningstíma á því ári er samningsslit taka gildi. |
|
Termination Charge [[(567.000-350.000) / 12] x 12] + 350.000 = 567.000 danskar krónur. |
Sóknaraðili krefst jafnframt árgjalda og samningsslitagreiðslna vegna þeirra viðauka sem gerðir voru við samninginn.
|
Viðauki nr. 1 Samkvæmt kafla 3 í viðauka 1 krefst sóknaraðili árgjalda vegna 2009 og 2010: 100.968 + 100.968 = 201.936 danskar krónur. |
|
Viðauki nr. 2 Samkvæmt kafla 3 í viðauka 2 falla engin gjöld til vegna þessa viðauka. |
|
Viðauki nr. 4 Samkvæmt kafla 11 í viðauka 4 krefst sóknaraðili árgjalda vegna 2009 og 2010 og samningsslitagreiðslu vegna 2010: 57.080 + 57.080 + 88.700 = 202.860 danskar krónur. |
|
Viðauki nr. 5 Samkvæmt kafla 2 í viðauka 5 krefst sóknaraðili samningsslitagreiðslu vegna 2008: = 9.900 danskar krónur. |
|
Viðauki nr. 6 Samkvæmt kafla 2 í viðauka 6 krefst sóknaraðili samningsslitagreiðslu vegna 2008: = 9.900 danskar krónur. |
Fjárhæð kröfu sóknaraðila nemi því samtals 5.063.596 dönskum krónum eða 116.467.722 íslenskum krónum miðað við gengi danskrar krónu gagnvart íslenskri, 22. apríl 2009.
Skuldajafnaðarkrafa
Sóknaraðili krefst þess einnig að viðurkenndur verði réttur hans til að skuldajafna kröfu sinni, að fjárhæð 116.467.772 krónur, samkvæmt framangreindu við kröfur Íslandsbanka hf. á hendur honum. Þessar kröfur séu annars vegar komnar til vegna tveggja lánssamninga, sem upphaflega voru gerðir við Íslandsbanka, 20. mars 2006, og hins vegar yfirdráttar á sérkjarareikningi nr. 525-26-2. Í kjölfar hruns varnaraðila í október 2008 hafi þessar kröfur á hendur sóknaraðila flust til Nýja Glitnis banka hf., nú Íslandsbanka hf., í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 14. október 2008. Í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu sóknaraðila á árinu 2010, hafi þessum lánssamningum verið skuldbreytt í einn nýjan samning, 14. desember 2010, eins og nánar greinir hér á eftir. Sóknaraðili byggir á því að öll skilyrði skuldajöfnuðar séu uppfyllt í skilningi 100. gr. laga nr. 21/1991. Hann eigi gilda, skýra og ótvíræða kröfu á hendur varnaraðila sem hafi stofnast löngu fyrir hið tilskilda þriggja mánaða tímamark fyrir frestdag en frestdagur við slit varnaraðila sé 15. nóvember 2008. Þá séu ekki fyrir hendi hindranir tilgreindar í ákvæðinu er varði grandsemi kröfuhafa um greiðsluerfiðleika þrotamanns og að kröfuhafi hafi fengið kröfuna til að skuldajafna, en varnaraðili beri sönnunarbyrði fyrir því að svo hafi verið.
Þá byggir sóknaraðili á því að í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 14. október 2008, felist ótvíræð heimild fyrir sóknaraðila til að krefjast skuldajöfnuðar við kröfur Íslandsbanka. Í 13. tölulið segi að framsal kröfuréttinda samkvæmt ákvörðuninni skuli ekki svipta skuldara rétti til skuldajöfnuðar sem hann hafi átt gagnvart fyrri kröfuhafa eða þrotabúi hans.
Með vísan til fyrrnefndra lánssamninga, 20. mars 2006, sbr. nú lánssamning, 14. desember 2010, sem og yfirdráttar á sérkjarareikningi nr. 525-26-2, eigi Íslandsbanki hf. kröfur á hendur sóknaraðila.
Skuldir sóknaraðila samkvæmt umræddum lánssamningum, gerðum 20. mars 2006, upphaflega að fjárhæð 200.000.000 króna nr. 103940 (undirnúmer lánshluta 307744) og að fjárhæð samtals 560.000.000 króna nr. 103941 (undirnúmer lánshluta 307745, 307746, 307747, 307748, 307749, 307763, 307764, 307765 og 307766), hafi í kjölfar undirritunar, annars vegar samkomulags um kyrrstöðu, 29. september 2010, og hins vegar samkomulags um endurskipulagningu Nýherja sama dag, verið færðar niður með svonefndri höfuðstólsleiðréttingu og skuldbreytt í óverðtryggt lán í íslenskum krónum með undirritun lánssamnings nr. 104480 að fjárhæð 420.000.000 króna. Samkvæmt ákvæðum síðastgreinds lánssamnings nr. 104480, sem tók við af fyrrnefndum eldri lánssamningum frá 2006, skyldi eftir þessa skuldbreytingu ráðstafa því til niðurgreiðslu á eldri lánum samkvæmt lokamálsgrein 1. gr. og ákvæðum (xvii)-(xviii) liðar 8. gr. lánssamningsins.
Þá vísar sóknaraðili til þess að stofnað hafi verið til skuldar á sérkjarareikningi nr. 525-26-2 löngu fyrir frestdag en sá reikningur hafi jafnframt verið stofnaður mörgum árum áður eða 1. desember 1995.
Sóknaraðili telur því ljóst að framangreindar kröfur, þ.e. fjárkröfur aðalkröfuhafa á hendur honum sem hann krefst viðurkenningar á rétti til að greiða með skuldajöfnuði, hafi stofnast fyrir frestdag.
Hinn 15. október 2008 hafi skuld sóknaraðila samkvæmt lánssamningi nr. 103940 numið 239.274.594 krónum og samkvæmt lánssamningi nr. 103941 715.705.719 krónum en þann dag, kl. 9:00, hafi Nýi Glitnir banki hf. (nú Íslandsbanki hf.) tekið við þeirri starfsemi sem varnaraðili hafði með höndum, sbr. 5. tölulið ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins, 14. október 2008. Samkvæmt 6. tölulið ákvörðunarinnar skyldi greiðslustaða skuldaskjala við framsal miðast við sama tímamark og greinir í 5. tölulið ákvörðunarinnar.
Skuld sóknaraðila við varnaraðila vegna yfirdráttar á sérkjarareikningi nr. 525-26-2 hafi, sama dag, numið 66.010.655 krónum.
Skuldir sóknaraðila við varnaraðila miðað við stöðuna í byrjun dags 15. október 2008 fyrir framsal þeirra til Nýja Glitnis banka hf. hafi því numið samtals 1.020.990.968 krónum (þ.e. 239.274.594 + 715.705.719 + 66.010.655).
Sóknaraðili byggir á því að krafa hans, það er krafa gagnkröfuhafa, hvort heldur hún verði talin grundvallast á samningi aðila eða réttarreglum um skaðabætur, hafi stofnast þegar við samningsgerð, 19. nóvember 2007, þegar samningur hans og Glitnis banka hf. var undirritaður.
Telur sóknaraðili það almenna reglu að krafa til greiðslu samkvæmt aðalefni samnings teljist stofnast þegar samningur sé gerður. Hið sama gildi um skaðabótakröfur, innan samninga, þær teljist einnig stofnast við samningsgerðina þótt þær verði hins vegar sjaldnast virkar þá.
Það leiði af stofnunarreglu samninga og þeirra krafna sem þeim fylgi að bótakrafa gagnkröfuhafa, sem byggist á vanefnd samnings sem þrotabú hafi ákveðið að ganga ekki inn í, sé tæk til skuldajöfnuðar hafi verið stofnað til samningsins áður en þrír mánuðir voru til frestdags.
Að lokum byggir sóknaraðili á því að umrætt þriggja mánaða tímamark, sem 100. gr. laga nr. 21/1991 tilgreini, miði einkum að því að koma í veg fyrir að kröfur, sem hafi verið framseldar stuttu fyrir frestdag, séu notaðar til skuldajöfnuðar. Skilyrðið geti aldrei átt við um þau tilvik þegar kröfur stofnist á sama grunni og eldri viðvarandi samningar, enda skorti öll efnisrök til þess að klippa ævinlega þrjá seinustu mánuðina aftan af kröfunni. Skýra verði tilvitnað ákvæði þannig að orðalagið að „eignast kröfuna“ taki fyrst og fremst til framseldra krafna. Í öllu falli geti það aldrei tekið nema til nýrra krafna sama aðila og alls ekki til þeirra sem byggist á eldri samningum hvort heldur það séu viðvarandi þjónustusamningar eða aðrir samsvarandi samningar sem sé ætlað að gilda um tiltekinn tíma. Hér sé því ekki um ný kröfuréttindi að tefla.
Að öllu framangreindu virtu telur sóknaraðili að viðurkenna beri rétt hans til skuldajöfnuðar.
Til stuðnings kröfum sínum vísar sóknaraðili til meginreglna samninga-, kröfu- og skaðabótaréttar. Kröfu sína um málskostnað byggir sóknaraðili á 129. gr., sbr. 130. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.
Málsástæður varnaraðila
Varnaraðili mótmælir öllum málsástæðum og lagarökum sóknaraðila.
Viðmið slitameðferðar varnaraðila
Varnaraðili vísar til þess að Alþingi hafi, 6. október 2008, samþykkt frumvarp er varð að lögum nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Með 5. gr. laganna, sem varð 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, hafi Fjármálaeftirlitinu verið veitt heimild til að taka yfir vald hluthafafundar fjármálafyrirtækis í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði.
Með ákvörðun, 7. október 2008, hafi Fjármálaeftirlitið tekið yfir vald hluthafafundar Glitnis banka hf. og vikið stjórn hans frá. Jafnframt hafi eftirlitið skipað bankanum skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnar félagsins. Í ákvörðuninni komi fram að engin vanefndarúrræði viðsemjanda bankans skyldu taka gildi sem afleiðing af þeirri ákvörðun að skipa bankanum skilanefnd. Varnaraðili hafi komið til slita eftir sérreglum laga nr. 161/2002, 22. apríl 2009 og ráði reglur laga nr. 21/1991 í meginatriðum því hvernig fari um réttindi annarra á hendur honum.
Varnaraðili vísar til þess að skilanefnd hans hafi verið skipuð í skjóli opinbers valds og hafi því, samkvæmt heiti sínu, hlotið að hafa verið ætlað að leggja drög að aðgerðum til skuldaskila hans. Því verði að telja að frá 7. október 2008 hafi varnaraðili verið í þeirri aðstöðu, sem leggja megi að jöfnu við að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans að því er varðar gagnkvæma samninga milli hans og annarra. sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í máli nr. 441/2011. Varnaraðili byggir á því að sóknaraðila hafi verið það ljóst og það hafi verið staðfest með því að samningur málsaðila var framlengdur sérstaklega í þrjá mánuði til viðbótar. Ekki hafi verið þörf á þeirri framlengingu nema vegna þess að varnaraðila hafði verið skipuð skilanefnd og gjaldþrotameðferð var hafin eða málsmeðferð sem megi jafna til hennar.
Lög nr. 129/2008 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki hafi tekið gildi 15. nóvember 2008. Megintilgangur lagabreytingarinnar hafi verið að gera þeim fjármálafyrirtækjum, þar á meðal þeim bönkum sem þá hafði verið skipuð skilanefnd, kleift að fá greiðslustöðvun og öðlast þannig nauðsynlega réttarvernd. Greiðslustöðvun varnaraðila hafi miðað að því að varðveita fjárhagslega stöðu bankans og veita svigrúm til nauðsynlegrar endurskipulagningar. Á grundvelli laganna hafi varnaraðila verið veitt heimild til greiðslustöðvunar, 24. nóvember 2008.
Almennt um gagnkvæma samninga í gjaldþrotaskiptarétti
Varnaraðili vísar til þess að samkvæmt 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki gildi sömu reglur og við gjaldþrotaskipti um gagnkvæma samninga þess og kröfur á hendur því. Í XV. kafla laga nr. 21/1991 sé fjallað um gagnkvæma samninga. Í 91. gr. laganna segi að þrotabúi sé heimilt að taka við réttindum og skyldum þrotamannsins eftir gagnkvæmum samningi. Í 2. mgr. 91. gr. komi fram að viðsemjandi þrotamannsins geti krafist þess að þrotabúið taki afstöðu til þess innan hæfilegs frests hvort það muni nýta heimild sína.
Í 94. gr. segi að nýti þrotabúið ekki heimild sína samkvæmt 1. mgr. 91. gr. geti viðsemjandinn krafið það um skaðabætur vegna þess tjóns sem hann hafi orðið fyrir við samningsslitin, sbr. þó 96. gr. Samkvæmt því ákvæði geti þrotabúið sagt upp samningi um leigu eða annað varanlegt réttarsamband á venjulegan hátt eða með sanngjörnum fresti þótt lengri uppsagnarfrestur sé ákveðinn í samningnum eða hann sé óuppsegjanlegur, nema samningnum hafi verið þinglýst eða hann skráður opinberlega á hliðstæðan hátt. Í 3. mgr. 96. gr. laganna sé tekið fram að þegar sérstaklega standi á megi gera þeim sem segi upp samningi með heimild í 1. eða 2. mgr. 96. gr. að greiða hinum skaðabætur vegna þess tjóns sem leiðir af uppsögninni.
Beini viðsemjandi ekki fyrirspurn til skiptastjóra um hvort þrotabúið hyggist ganga inn í samninginn sé meginreglan sú að hinn gagnkvæmi samningur falli niður við uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti lýsi þrotabúið ekki yfir að það hyggist ganga inn í hann, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 474/2011. Einnig geti þrotabú upplýst viðsemjanda sérstaklega um að það hyggist ekki ganga inn í samninginn.
Meginréttaráhrif þess að þrotabú ákveði að ganga ekki inn í gagnkvæman samning séu nokkur, meðal annars þau að viðsemjandinn geti slitið samningnum, sbr. 1. mgr. 93. gr. laga nr. 21/1991. Þá geti viðsemjandi einnig krafist skaðabóta vegna þess tjóns sem hann verði fyrir við samningsslitin sbr. 1. mgr. 94. gr. laganna, en slík krafa fengi þá stöðu almennrar kröfu í þrotabúið, samkvæmt 113. gr. laganna. Þá hafi hann jafnframt önnur úrræði sem ekki eigi við í þessu máli.
Í 94. gr. sé fjallað um skaðabótaskyldu þrotabús þar sem fram komi að nýti þrotabúið ekki heimild sína samkvæmt 1. mgr. 91. gr., geti viðsemjandinn krafið það um skaðabætur vegna þess tjóns sem hann verði fyrir við samningsslitin, sbr. þó 96. gr. laganna. Reglan gildi hvort heldur sem þrotabúið lýsi yfir berum orðum að það gangi ekki inn í samninginn eða það sýni á einhvern hátt í verki að það komi ekki til með að ganga inn í samninginn samkvæmt 1. mgr. 91. gr. laganna.
Samkvæmt almennum skaðabótareglum sé einungis hægt að krefjast bóta fyrir raunverulegt tjón sem viðsemjandinn verði fyrir við samningsslitin og þær reglur gildi um kröfur gagnaðila vegna samningsslita, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í máli nr. 450/2011.
Ákvæði 59. gr. dönsku gjaldþrotalaganna samsvari 94. gr. laga nr. 21/1991. Þar segi að gangi þrotabú ekki inn í gagnkvæman samning, geti viðsemjandinn krafið það um skaðabætur vegna þess tjóns sem hann hafi orðið fyrir við samningsslitin, sbr. þó ákvæði 61. gr. Í danskri réttarframkvæmd hafi ekki verið talið gilt samningsákvæði sem kveði á um að við gjaldþrot sé hægt að krefjast hærri greiðslu úr þrotabúi en nam sjálfu tjóninu. Telja verði það sama gilda hér á landi. Viðsemjandi geti krafist þess að fá bætt það tjón sem hann hafi raunverulega orðið fyrir og geti sýnt fram á það, svo framarlega sem hann hafi ekki fengið sanngjarnan uppsagnarfrest skv. ákvæði 96. gr.
Samningur sóknaraðila og varnaraðila út frá sjónarmiðum gjaldþrotaskiptaréttar
Samkvæmt þeim samningi, sem krafa sóknaraðila grundvallist á, hafi sóknaraðili veitt varnaraðila þjónustu og hefjist samningstímabilið (e. Effective date) 19. nóvember 2007 og ljúki (e. Expiration date) 31. desember 2012. Samningssambandið sé því gagnkvæmt og teljist varanlegt í skilningi 96. gr.
Í samningnum segi að viðskiptavinur (varnaraðili) geti sagt samningnum upp samkvæmt ákvæði 8.2. Það geti þó ekki orðið fyrr en að þremur árum liðnum frá því þjónustutímabilið hefjist (e. Service Start Date), 1. janúar 2008, og ekki fyrr en að sex mánuðum liðnum frá því sóknaraðili tók við slíkri tilkynningu og að lokinni greiðslu til sóknaraðila samkvæmt riftunargjöldum (e. Termination Charges) ásamt öðrum gjöldum sem séu skilgreind í samningnum.
Varnaraðili geti því sagt samningnum upp með sanngjörnum fresti án tillits til uppsagnarfrests sjálfs samningsins sem hafi verið of langur, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991. Það hafi varnaraðili gert með því að tilkynna sóknaraðila í upphafi októbermánaðar 2008 að samningurinn yrði framlengdur um stuttan tíma. Byggir varnaraðili á því að sóknaraðili hafi fengið slíka tilkynningu 13. október 2008. Varnaraðili byggir á því til vara, verði ekki talið að tilkynning hans til sóknaraðila 13. október hafi verið fullnægjandi eða að sóknaraðila hafi ekki verið að öðru leyti ljóst að varnaraðili væri kominn í slitameðferð eða það sem megi jafna til hennar, að sóknaraðili hafi fengið slíka tilkynningu með bréfi dagsettu 7. desember 2008.
Samkvæmt 94. gr. laganna eigi viðskiptavinur rétt á bótum sé samningi sagt upp. Hann verði þó ávallt að sýna fram á raunverulegt tjón og hið raunverulega tjón geti aldrei orðið meira en venjulegur og sanngjarn uppsagnarfrestur. Í undantekningartilvikum megi víkja frá þeirri reglu og sé það eingöngu heimilt séu skilyrði 3. mgr. 96. gr. laganna uppfyllt. Það ákvæði veiti samningsaðila heimild til að fá bætt það tjón sem leiðir af uppsögninni. Eins og ákvæðið hafi verið skilgreint í framkvæmd, verði ákvæði, í samningi sem ekki er fram haldið, um hærri greiðslu en nemi sjálfu tjóninu, ekki framfylgt. Sóknaraðili geti aðeins krafist þess raunverulega tjóns sem hann hafi orðið fyrir og honum beri að sýna fram á það með hefðbundnum leiðum.
Samkvæmt 3. mgr. 96. gr. geti sá sem segi samningi upp, viðsemjandi eða þrotabú, krafið hinn um skaðabætur vegna þess tjóns sem af uppsögninni leiðir. Það sé háð því að aðstæður séu sérstakar. Þessa undantekningu beri að túlka þröngt. Ekki sé nægilegt að viðsemjandi hafi beðið tjón sökum þess að uppsagnarfrestur hafi verið styttur með heimild í 1. mgr. 96. gr. heldur verði meira að koma til að mati varnaraðila. Sóknaraðili verði að sanna að aðstæður hans séu svo sérstakar að þessi undantekning eigi við og sýna fram á tjón sitt. Ekki megi þó greiða hærri bætur en nemi raunverulegu tjóni hans.
Sóknaraðili vísi til ákvæðis samningsins til stuðnings fjárkröfu sinni, 116.467.772 kr., en varnaraðili telji kröfuna vanreifaða eins og síðar verði útskýrt.
Varnaraðili telur ekki hægt að miða við uppsagnargjald samkvæmt samningi aðila. Þar sé tiltekið að samningnum sé ekki hægt að segja upp fyrr en í fyrsta lagi 1. janúar 2011. Slíkt sé alltof langur og ósanngjarn frestur og ekki sé með neinu móti hægt að líta til hans hér. Sóknaraðili hafi fengið tilkynningu um að samningnum yrði ekki fram haldið með venjulegum og sanngjörnum fresti. Hann hafi ekki gert neinn reka að því að sýna fram á raunverulegt tjón sitt eða að atvik máls fullnægi skilyrðum 3. mgr. 96. gr. laganna. Þá hafi hann ekki reynt að sýna fram á að samningnum hafi ekki verið sagt upp með venjulegum eða sanngjörnum fresti. Varnaraðili telji því ótvírætt að hafna beri kröfu sóknaraðila enda hafi hann ekki sýnt fram á réttmæti kröfu sinnar. Þar að auki sé málið vanreifað af sömu ástæðum og beri að hafna kröfunni þegar á þeim grundvelli.
Varnaraðili telur það hvíla á sóknaraðila að sanna kröfu sína, tjón sitt og af hvaða ástæðum varnaraðili eigi að bera það. Einnig hvíli á sóknaraðila að sýna fram á það telji hann sig ekki hafa fengið sanngjarnan frest frá uppsögn samnings. Það hafi sóknaraðili ekki gert að mati varnaraðila og beri því að hafna kröfunni.
Túlkun á samningi sóknar- og varnaraðila (samningskrafa)
Varnaraðili hafnar því að krafa sóknaraðila um tiltekna umsamda samningsslitagreiðslu verði tekin til greina og hafnar því að slík krafa komist að á grundvelli sjónarmiða gjaldþrotaskiptaréttar sem hér hafi verið reifuð. Því til viðbótar hafnar varnaraðili kröfunni á grundvelli samnings aðilanna. Telur varnaraðili þennan þátt kröfu sóknaraðila vanreifaðan enda sé afar erfitt að gera sér grein fyrir því á hvaða grundvelli sóknaraðili fái út þá fjárhæð sem hann krefjist í málinu. Varnaraðili taki þó til varna á þeim takmarkaða grundvelli sem hann geti.
Sóknaraðili byggi á því að í ákvæði 8.2 í samningi aðila hafi verið samið um hvernig fara bæri að yrði samningi sagt upp. Við slíka uppsögn skyldi varnaraðili greiða samningsslitagreiðslu og önnur gjöld. Sóknaraðili vísi í fylgiskjal C (Schedule C) en þar séu forsendur til að reikna fjárhæð samningsslitagreiðslu. Sóknaraðili telji að á þeim grundvelli skuli varnaraðili greiða 5.063.596 danskar krónur við uppsögn samnings skv. gr. 8.2. eða 116.467.722 kr.
Fyrir það fyrsta vísi sóknaraðili til ákvæðis e-liðar 2.2 í fylgiskjali C (Schedule C) með samningnum. Þar segi að rifti viðskiptavinur eða segi upp (e. terminates) samningnum eins og lýst sé í ákvæði 8.1, skuli viðskiptavinur greiða þjónustuaðila samningsslitagreiðslu eins og henni sé lýst í undirskjali C-1 (Exhibit C-1). Jafnframt skuli þjónustuaðili, sóknaraðili, innan þrjátíu daga frá því hann tók við uppsögninni senda viðskiptavini, varnaraðila, reikning fyrir uppsagnargjaldinu. Varnaraðili geti ekki séð að sóknaraðili hafi fullnægt þessu skilyrði og verði því að telja kröfuna þá þegar niður fallna hafi hún einhvern tíma verið fyrir hendi.
Í öðru lagi vísi sóknaraðili til e-liðar ákvæðis 2.2 í grein 8.1 í samningi aðila en þar sé rætt um endurnýjun (e. renewal) samningsins en ekki uppsögn. Því geti krafa á grundvelli ákvæðis e-liðar í grein 2.2 ekki átt við um uppsögn samnings eins og rætt er um í ákvæði 8.2.
Sóknaraðili vísi í grein 8.2 í greinargerð sinni og skilgreiningar á hugtakinu Service Start Date í undirskjali 1 (Exhibit 1). Samningsslitin geti í fyrsta lagi tekið gildi að liðnum þremur samningsárum frá 1. janúar 2008, það er 1. janúar 2011. Sóknaraðili vísi til þess að samkvæmt þessum tveimur ákvæðum skuli varnaraðili greiða sóknaraðila árgjöld (e. Annual Services Charge) fyrir árin 2009 og 2010. Varnaraðili hafni þessari kröfu. Honum geti ekki verið gert að greiða árgjöld, eða önnur gjöld, eftir að samningnum hafi verið sagt upp, enda sjáist ekki að slíkt sé hluti af uppsagnargjaldinu eins og það sé skilgreint í e-lið í grein 2.2.
Þá krefjist sóknaraðili jafnframt greiðslu samkvæmt reiknireglu í fylgiskjali C, svokölluð Termination Charge Proration Formula. Varnaraðili geri athugasemdir við að hvergi sé vísað í þessa reiknireglu í e-lið greinar 2.2 í fylgiskjali C þar sem rætt sé um samningsslitagreiðslu (e. Termination Charges). Varnaraðili geri einnig athugasemd við útreikning sóknaraðila í greinargerð sinni. Þar komi fram, í þýðingu sóknaraðila, að A-liður sé „fjárhæð samningsslitagreiðslu fyrir það ár þar sem samningsslit taka gildi“, B-liður sé „fjárhæð samningsslitagreiðslu fyrir árið eftir að samningsslit taka gildi“ og C-liður sé „fjöldi mánaða eftir af samningstíma á því ári er samningsslit taka gildi“. Á þeim grundvelli setji sóknaraðili A-lið sem 567.000 DKK, B-lið sem 350.000 DKK og C-lið sem 12 (mánuði).
Eins og fram komi í samningnum, eigi reiknireglan við gjöld sem sé nánar lýst í undirskjali C-1 (Exhibit C-1). Í því undirskjali sé tafla þar sem segi að fyrir árin 2008 og 2009 sé ekkert uppsagnargjald (e. Termination Charge). Hins vegar sé uppsagnargjald fyrir árið 2010, hefðu samningsslit tekið gildi á því ári. Samningnum hafi hins vegar verið sagt upp á árinu 2008. Þá geti varnaraðili ekki heldur séð hvernig sóknaraðili fái út fjölda mánaða samkvæmt C-lið en sóknaraðili krefjist greiðslu fyrir 12 mánuði. Samningnum hafi verið sagt upp í fyrsta lagi í október og í síðasta lagi í desember 2008, eftir því hvort dómurinn telji rétt. Því geti varnaraðili ekki séð hvernig sóknaraðili fái út töluna 12 fyrir C-lið.
Varnaraðili hafnar þessum útreikningum sóknaraðila sem vanreifuðum og að því er virðist alröngum.
Þá krefjist sóknaraðili jafnframt árgjalda og samningsslitagreiðslna vegna þeirra viðauka sem hann og bankinn hafi gert við samninginn. Varnaraðili hafnar því að sóknaraðili geti krafist þessara gjalda. Sóknaraðili krefjist árgjalda samkvæmt viðaukum nr. 2 og 4. Varnaraðili geti ekki séð að árgjöld séu hluti af samningsslitagreiðslum miðað við þau ákvæði sem sóknaraðili vísi til. Hvergi sé vísað til slíkra gjalda í ákvæði 8.2 í samningi aðila sem lúti að samningsslitum í hagræðingarskyni (Termination for Convenience) eða í e-lið ákvæðis 2.2 í fylgiskjali C (Schedule C). Þá verði ekki heldur séð að slík krafa felist í þeirri reiknireglu sem sóknaraðili vísi til og kallast Termination Charge Proration Formula. Í viðauka 4 sé þar að auki hvergi viðmiðun um árgjöld. Varnaraðili hafnar samningsslitakröfu sóknaraðila fyrir viðauka 4. Þar sé rætt um Termination Charge fyrir árið 2010 að fjárhæð 88.700 danskar krónur en eins og áður hafi verið reifað hafi samningnum verið sagt upp á árinu 2008 og því ætti ekki að greiða neina samningsslitagreiðslu.
Varnaraðili hnjóti um það að sóknaraðili krefjist greiðslu 9.900 danskra króna sem meintrar samningsslitagreiðslu í viðauka 5 og 6. Það sé athyglisvert að þar miði sóknaraðili við að samningnum hafi verið sagt upp á árinu 2008 en í öðrum samningsslitagreiðslum sem áður hafi verið reifaðar miði sóknaraðili við árið 2009 eða 2010. Sóknaraðili rökstyðji ekki hvers vegna kröfugerð hans sé svo háttað.
Að öllu framangreindu reifuðu hafnar varnaraðili kröfum sóknaraðila jafnframt á þeim grundvelli að samkvæmt ákvæði 14.3 í samningi um úthýsingu skuli varnaraðili ekki bera ábyrgð á því geti hann ekki framfylgt skyldum sínum sem stafi af atvikum eða aðstæðum sem hann geti ekki ráðið við, svokölluðum force majure aðstæðum. Varnaraðili byggir á því að hrun fjármálamarkaða og slitameðferð varnaraðila hafi orðið vegna slíkra aðstæðna. Hrun íslensku bankanna, Glitnis þar á meðal, hafi verið hluti af alheimsfjármálahruni sem leiddi til þess að lánalínur lokuðust um víða veröld. Bankanum hafi ekki verið mögulegt að stýra þeim aðstæðum eða stöðva og með skipun skilanefndar, 7. október 2008, hafi slitameðferð hans hafist. Í kjölfarið hafi orðið að segja upp samningi við sóknaraðila.
Varnaraðili bendir jafnframt á að samkvæmt 12. gr. samnings um úthýsingu sé hámark á skaðabótakröfum í tengslum við samninginn. Þar segi að hámark skaðabótakrafna jafngildi fjárhæð sem varnaraðili hafi greitt sóknaraðila fyrir þjónustu samkvæmt samningnum síðastliðna sex mánuði áður en þau atvik urðu sem krafan byggist á. Þá komi jafnframt fram, í lok 12. gr., að hvorugur aðili muni bera einhverja ábyrgð á tjóni sem hinn aðilinn valdi eða verði vegna getuleysis hins aðilans til að framfylgja skyldum samningsins.
Varnaraðili byggir jafnframt á því að í ákvæði 8.3 í samningi aðila sé rætt um uppsögn vegna ástæðu (e. Termination for Cause). Þar segi að báðir aðilar geti sagt samningnum upp vegna material breach sem sé hvergi skilgreint, en vísi til efnislegs brots á samningnum.
Þá byggir varnaraðili jafnframt á því að í ákvæði b-liðar ákvæðis 8.6 í samningi aðila um úthýsingu segi að þurfi viðskiptavinur, varnaraðili, að lýsa yfir gjaldþroti eða að augljóst sé að hann geti ekki fullnægt skyldum sínum, skuli sóknaraðili ganga til samninga með góðum hug (e. good faith negotiations) til að tryggja ótruflaða viðtöku þjónustunnar. Virðist því sem sóknar- og varnaraðili hafi samið sérstaklega um það kæmi sú staða upp sem varð raunin.
Þá segi í samningi aðila um úthýsingu, 3. gr., að samningurinn víki fyrir settum lögum. Varnaraðili vísi því til sömu sjónarmiða og hann reifaði hér að framan og varði gagnkvæma samninga við slitameðferð.
Varnaraðili telur framangreindar málsástæður nægja til þess að hafna beri kröfum sóknaraðila. Þar að auki telur varnaraðili kröfur sóknaraðila svo vanreifaðar að honum sé gert erfitt að grípa til fullnægjandi varna. Öll andmæli varnaraðila séu með þeim fyrirvara að sóknaraðili hafi ekki látið þýða þann samning sem hann lagði fram í málinu.
Skuldajöfnun
Vegna kröfu sóknaraðila um skuldajöfnuð vísar varnaraðili til þess að frestdagur við slitameðferð hans sé 15. nóvember 2008. Samkvæmt 100. gr. laga nr. 21/1991 geti lánardrottinn, sóknaraðili, aðeins nýtt kröfu til skuldajöfnuðar hafi hann eignast hana áður en þrír mánuðir voru til frestdags, hann hafi hvorki vitað né mátt vita að þrotamaðurinn ætti ekki fyrir skuldum og ekki fengið kröfuna til að skuldajafna. Samkvæmt þessu hefði sóknaraðili þurft að eignast kröfu sína fyrir 15. ágúst 2008.
Varnaraðili hafni því að þau skilyrði séu fyrir hendi að heimilt sé að krefjast skuldajöfnuðar samkvæmt ákvæði 100. gr. Fyrir það fyrsta hafni varnaraðili tilvist þeirrar kröfu sem sóknaraðili vilji nota til skuldajöfnuðar. Yrði talið að sóknaðili ætti hana, eða hluta hennar, hafnar varnaraðili því að hún sé tæk til skuldajöfnuðar. Jafnframt sé hvorugt tímaskilyrðið uppfyllt. Samningi sóknaraðila við bankann hafi annaðhvort verið sagt upp 13. október 2008 þegar sóknaraðili fékk tölvupóst þar að lútandi, eða 7. desember 2008, þegar sóknaraðili fékk endanlega tilkynningu um uppsögn samningsins. Krafa sóknaraðila hafi því ekki stofnast þremur mánuðum fyrir frestdag varnaraðila eins og sé skilyrði samkvæmt 100. gr. Krafa bankans, sem nú hafi verið framseld Íslandsbanka, á hendur sóknaraðila hafi ekki heldur orðið til fyrir frestdag. Varnaraðili hafni því öllum þeim sjónarmiðum sem sóknaraðili nefni máli sínu til stuðnings.
Sönnunarreglur
Varnaraðili byggir á því að sönnunarbyrðin um að krafa sóknaraðila sé fyrir hendi hvíli á sóknaraðila. Hann vísar til þeirrar meginreglu sem búi að baki ákvæði 117. gr. laga nr. 21/1991, um form og efni kröfulýsingar og sönnunargagna sem kröfur séu studdar við. Þau gögn sem sóknaraðili hafi lagt fram kröfu sinni til stuðnings sýni að mati varnaraðila ekki fram á að krafan eigi rétt á sér. Jafnframt vísar varnaraðili til þess að sönnunarbyrði um eðli kröfunnar og stöðu í skuldaröð hvíli óumdeilt á sóknaraðila.
Til stuðnings kröfum sínum vísar varnaraðili til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. og almennra reglna kröfuréttar. Hann vísar jafnframt til þeirra laga og reglna sem getið er í kaflanum um málsástæður. Kröfu sína um málskostnað byggir varnaraðili á 130. gr., sbr. 129. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, svo og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt á málskostnað.
Skýrslur fyrir dómi
Þórður Sverrisson, forstjóri sóknaraðila, bar að á þessum tíma hafi Glitnir unnið í stóru verkefni, Glitnir One, þar sem bankinn hafi ætlað að hætta að reka eigin tölvusali en setja þess í stað allan tölvurekstur fyrir alla starfsemi sína, hvar sem hún var í heiminum, á einn stað. Nýherji hafi tekið að sér að annast þá hýsingu og bjóða Glitni þjónustu í samvinnu við IBM. Nýherji ætlaði að annast það sem tilheyrði Íslandi í sínu gagnaveri hér en vegna starfsemi bankans erlendis hafi Nýherji endursamið við IBM.
Glitnir hafi ákveðið hvað hann þyrfti og vildi. Nýherji hafi hannað kerfi sem hentaði Glitni, stillt upp og fjárfest í vél- og hugbúnaði og uppsetningu og hafi aðlagað allt þeirra þörfum. Þetta sé ekki ósvipað því þegar Marel hanni og setji upp flæðilínu í frystitogara. Það sé allt sérhannað úr allskonar „módúlum“.
Nýherji hafi sett það sem um var samið upp í gagnaveri í Danmörku. Þjónustan hafi verið seld sem veita, gegn mánaðarlegu gjaldi. Öll fjárfestingin hafi komið til í upphafi ekki ósvipað því þegar orkuver er reist. Í framhaldi af því komi rekstrarkostnaður. Þegar menn semji svona tryggi menn sér það að þeir fái fjárfestingarkostnaðinn greiddan og því sé í samningnum ákvæði um bætur segi kaupandinn upp samningnum eða slit verði á samningi. Í upphafi sé þannig samið um að kaupandinn greiði fyrir þann kostnað sem hann hafi stofnað til.
Til sé annað form á svona samningum. Nýherji taki þá að sér að reka kerfi en viðskiptavinurinn hafi sjálfur keypt vélbúnað og hugbúnað og allt sem sett sé upp en greiði Nýherja einungis fyrir reksturinn. Í því tilviki hafi viðskiptavinurinn þegar greitt fyrir það sem Nýherji sé að tryggja sér að fá greitt í samningi eins og þeim sem hann gerði við Glitni, þ.e.a.s. með svonefndri samningsslitagreiðslu. Þess vegna sé samningurinn svona gerður. Nýherji kynni báðar tegundir samninganna fyrir viðskiptavinum sínum og hafi Glitnir valið þessa tegund enda hafi það verið stefna bankans að hætta að reka tölvusali. Bankinn hafi ætlað að kaupa þessa þjónustu frá þriðja aðila eins og flestir bankar geri nú.
Verkefnið felist í því að setja kerfin rétt upp í samræmi við þarfir kaupandans. Reksturinn sé ekki flókni eða dýrasti þátturinn. Dýrasti þátturinn sé uppsetningin, fjárfestingin, innleiðingin, tengingarnar og allt sem því fylgi. Nýherji sjái um að fjármagna það allt saman og fái það síðan endurgreitt eins og um var samið.
Gerður sé samningur til fimm ára og greiðslum skipt þannig að stofn- og rekstarkostnaður greiðist að fullu á því tímabili. Menn tryggi það að þeir fái aldrei minna en stofnkostnaðinn greiddan og reksturinn fyrstu þrjú árin. Menn verði að fá það greitt. Þess vegna sé gengið frá þessu svona, með þriggja ára uppsagnarfresti.
Hugsanlega sé hægt að endurnýta einhverjar einingar en vélbúnaðurinn sé þó sérstaklega hannaður fyrir Glitni en hvorki hugbúnaðurinn né uppsetningin nýtist öðrum. Hann geti ekki svarað því hvort IBM hafi tekist að nýta eitthvað af vélbúnaðinum aftur.
Sérstaklega spurður um fjárhæð stofnkostnaðarins bar fyrirsvarsmaðurinn að IBM gerði svona samninga við fjölda fyrirtækja erlendis. Fyrirtækið áætli stofnkostnaðinn út frá vélbúnaði, hugbúnaði, vinnu og tíma við uppsetningu. Fjárhæðinni deili þeir niður á samningstímann. Þegar fjárhæðirnar hafi verið settar inn í samninginn hafi þær ekki verið til að semja um. Taki IBM verkefni sem þetta að sér ákveði það samningsfjárhæðina út frá stofnkostnaðinum og tilgreini eftir hvaða tíma, sem í þessu tilviki sé þrjú ár, stofnkostnaðurinn hafi verið greiddur. Eftir það taki þeir inn áframhaldandi rekstarkostnað og ávinning.
Að sögn fyrirsvarsmannsins hefðu menn getað áætlað þessa tölu og látið kaupandann skrifa upp á víxil til að fá staðfest að þeir fengju þessa greiðslu. Þeir séu að tryggja sig fyrir því að verða ekki fyrir tjóni detti viðsemjandanum í hug að ganga út úr samningum áður en samningstíminn væri runninn út. Þeir hafi stofnað til alls kostnaðarins en eigi eftir að fá það sem viðsemjandinn hafi staðfest að hann myndi greiða. Stofnkostnaðurinn birtist á þennan hátt í samningnum. Þeim mun lengri tími sem sé liðinn af samningnum og afnotagjöld greidd þeim mun lægri sé samningsslitagreiðslan þegar að þeim kemur.
Niðurstaða
Sóknaraðili, Nýherji, gerði rammasamning við Glitni banka hf., um leigu tölvukerfis sem átti að nota hjá dótturfélagi Glitnis í Noregi, Glitni ASA, á tímabilinu frá 1. janúar 2008 til og með 31. desember 2012. Af þessum sökum samdi Nýherji við IBM í Danmörku um að það félag tæki að sér svonefnda úthýsingu í fimm ár. Samningurinn þeirra í milli, sem var all-ítarlegur, varð hluti rammasamningsins milli Nýherja og Glitnis. Nýherji tók að sér að fjármagna vél- og hugbúnað og uppsetningu og annan stofnkostnað fyrir Glitni. Þessum samningi mátti ekki segja upp fyrr en eftir þrjú ár, að sögn fyrirsvarsmanns Nýherja vegna þess að þá fyrst yrði stofnkostnaðurinn greiddur miðað við umsamda dreifingu greiðslna yfir samningstímann.
Með úthýsingarsamningnum eru níu fylgiskjöl (Schedule) auðkennd með bókstöfum og varðar hvert fylgiskjal ákveðin efnisatriði og er í raun kafli samningsins um það atriði. Í fylgiskjölunum eru síðan undirskjöl (Exhibits) þar sem eru ýmsar töflur og sundurliðanir. Í fylgiskjali C (Schedule C) er fjallað um greiðslur og eru þær í öllum tilvikum tilgreindar í dönskum krónum. Allar fjárhæðir sem verður getið í textanum hér fyrir neðan eru í dönskum krónum.
Samkvæmt gr. 6 í skjali C byggist grunnviðmið þjónustunnar á áætlun Glitnis (Customers predicted resource requirements). Miðað við þær grunnþarfir sem Glitnir hafði skilgreint og Nýherji hafði tekið að sér að veita bar bankanum að greiða árgjald sem nam árið 2008, 2.071.000 kr., 2009, 2.065.000 kr., 2010, 2.007.000 kr., 2011, 1.854.000 kr. og 2012, 1.815.000 kr. Jafnframt bar bankanum að greiða árið 2008 yfirfærslugjald (transition charge), 1.277.000 kr. Sliti bankinn samningnum fyrir 31. desember 2010 bar honum að greiða samningsslitagreiðslu (termination charge) sem nam 567.000 kr. en sliti bankinn samningnum árið 2011 yrði samningsslitagreiðslan 350.000 kr.
Glitnir virðist í upphafi hafa vanmetið vél- og hugbúnað sem hann þyrfti vegna dótturfélags síns í Noregi og því voru fram eftir árinu 2008 gerðir viðaukar við samninginn. Í fyrsta viðauka, 21. desember 2012, var reiknað út að jafnaðargreiðsla fyrir þá viðbótarþjónustu þyrfti að vera 100.968 kr. á ári öll fimm ár samningstímans og sérstakt yfirfærslugjald, 11.896 kr., einungis greitt árið 2008.
Annar viðauki við samninginn, 21. desember 2007, varðaði einungis þjónustu sem átti að veita á árinu 2008 og því ekkert gjald tekið fyrir hana næstu fjögur ár samningstímans. Eins og fram er komið var ekki gerður viðauki með númerið þrír.
Fyrir þjónustu sem var bætt við með fjórða viðauka, 27. júní 2008, skyldi greiða fyrir árið 2008, 59.960 kr., og sérstakt yfirfærslugjald, 247.700 kr., en jafnaðargjald fyrir næstu fjögur árin yrði 57.080 kr. Jafnframt skyldi greiða samningsslitagjald, 88.700 kr., sliti bankinn samningnum 31. desember 2010 eða fyrr, en 54.100 kr., yrði honum slitið á árinu 2011.
Í fimmta viðauka, 17. júlí 2008, er enn bætt við þjónustuna og skyldi árgjaldið fyrir 2008 vera 23.200 kr., en 69.600 kr. hin fjögur samningsárin. Sérstakt uppsetningargjald var 49.500 kr. og samningsslitagreiðsla fyrir 2008, 9.900 kr., fyrir 2009, 8.800 kr., fyrir 2010, 6.500 kr. og fyrir árið 2011 3.100 kr.
Í sjötta viðauka, 12. ágúst 2008, er enn bætt við þjónustuna og skyldi árgjaldið 2008, fyrir þessa viðbót, nema 17.400 kr. en sérstakt uppsetningargjald 49.500 kr. Jafnaðargjald næstu fjögur árin nam 69.600 kr. Samningsslitagreiðsla fyrir 2008, 9.900 kr., fyrir 2009, 8.800 kr., fyrir 2010, 6.500 kr. og fyrir árið 2011 3.100 kr.
Gjaldskrár aðalsamningsins og viðaukanna eru svona, settar saman í eina töflu:
|
|
2008 |
2009 |
2010 |
2011 |
2012 |
|
Aðalsamn. 19. nóv. 2007 |
|
|
|
|
|
|
Árgjald |
2.071.000 |
2.065.000 |
2.007.000 |
1.854.000 |
1.815.000 |
|
Yfirfærslugjald |
1.277.000 |
|
|
|
|
|
Samningsslitagreiðsla |
|
|
567.000 |
350.000 |
|
|
Viðauki 1, 21. des. 2007 |
|
|
|
|
|
|
Árgjald |
100.968 |
100.968 |
100.968 |
100.968 |
100.968 |
|
Yfirfærslugjald |
11.896 |
|
|
|
|
|
Viðauki 2, 21. des. 2007 |
|
|
|
|
|
|
Árgjald |
185.328 |
|
|
|
|
|
Yfirfærslugjald |
18.469 |
|
|
|
|
|
Viðauki 4, 26. júní 2008 |
|
|
|
|
|
|
Árgjald |
59.960 |
57.080 |
57.080 |
57.080 |
57.080 |
|
Yfirfærslugjald |
247.700 |
|
|
|
|
|
Samningsslitagreiðsla |
|
|
88.700 |
54.100 |
|
|
Viðauki 5, 17. júlí 2008 |
|
|
|
|
|
|
Árgjald |
23.200 |
69.600 |
69.600 |
69.600 |
69.600 |
|
Yfirfærslugjald |
49.500 |
|
|
|
|
|
Samningsslitagreiðsla |
9.900 |
8.800 |
6.500 |
3.100 |
|
|
Viðauki 6, 17. ágúst 2008 |
|
|
|
|
|
|
Árgjald |
17.400 |
69.600 |
69.600 |
69.600 |
69.600 |
|
Yfirfærslugjald |
49.500 |
|
|
|
|
|
Samningsslitagreiðsla |
9.900 |
8.800 |
6.500 |
3.100 |
|
Sóknaraðili krefst greiðslu þeirra fjárhæða sem eru feitletraðar, samtals 5.063.596 danskra króna. Þjónusta samkvæmt viðauka 5 hófst ekki fyrr en 1. september 2008 (start date for operation) og því er einungis greiddur 1/3 hluti árgjaldsins það ár. Þjónusta samkvæmt viðauka 6 hófst ekki fyrr en 1. október 2008 og því er einungis greiddur 1/4 hluti árgjaldsins það ár. Þar sem heimilt var að slíta samningsviðaukum 5 og 6 í árslok 2008 krefst sóknaraðili samningsslitagjalds fyrir árið 2008 en ekki annarra gjalda vegna þessara tveggja viðauka.
Með bókun, 4. janúar 2013, féll sóknaraðili frá reiknireglu vegna samningsslitagreiðslu (Termination Charge Proration Formula) þar sem vanefndir hafi hafist um áramót og því sé ekki þörf á að hlutfallsreikna samningsslitagreiðsluna.
Fjármálaeftirlitið tók yfir starfsemi Glitnis banka 7. október 2008. Slitabúið gekk ekki inn í samningssambandið. Nýherji, sem taldi sig hafa orðið fyrir tjóni við það, enda var þá einungis liðinn 1/5 samningstímans, lýsti kröfu í slitabú bankans.
Ágreiningur þessa máls snýst í fyrsta lagi um það hvort sóknaraðili eigi yfirhöfuð rétt til einhverrar greiðslu frá varnaraðila vegna samningsslitanna. Eigi hann hana snýst hann um hvort hún byggist á skyldu til að efna samninginn samkvæmt ákvæðum hans um samningsslit eða skyldu til bóta vegna vanefnda á samningnum.
Sóknaraðili krefst þess einnig að viðurkenndur verði réttur hans til að nýta fjárkröfuna til skuldajöfnuðar við kröfu Íslandsbanka á hendur honum.
Að mati dómsins losnar varnaraðili ekki undan skyldu vegna þessa samnings á grundvelli svonefndra force majeure-aðstæðna enda er gjaldþrot, jafnvel útbreidd efnahagskreppa, ekki aðstæður sem falla undir slíkt ákvæði. Jafnframt þykir það ekki hafa neina þýðingu fyrir skyldur varnaraðila þótt sóknaraðili hafi ekki, eins og umsamið var, gefið út reikning fyrir uppsagnargjaldinu innan þrjátíu daga frá því honum varð kunnugt um að varnaraðili gengi ekki inn í samningssambandið. Enn fremur verður 12. gr. úthýsingarsamningsins ekki talin eiga við hér enda er þar rætt um annað tjón en það sem verður við það að slitabú vill ekki ganga inn í samningssambandið.
Undir gagnkvæma samninga samkvæmt XV. kafla laga nr. 21/1991 falla samningar þar sem þrotamaður hefur ekki efnt sinn hlut að fullu þegar bú hans er tekið til slita. Samkvæmt 1. mgr. 91. gr. getur þrotabú tekið við réttindum og skyldum þrotamanns samkvæmt gagnkvæmum samningi. Af framlögðum gögnum verður ekki séð að skilanefnd Glitnis hafi tilkynnt Nýherja að hún hygðist ekki ganga inn í samningssambandið. Hins vegar óskaði sá banki sem var reistur á grunni þess sem Fjármálaeftirlitið tók yfir 7. október 2008, Nýi Glitnir banki, eftir því að nýta sér þjónustuna um skamman tíma þar til framtíð dótturfélags Glitnis í Noregi væri ráðin.
Nýi bankinn sendi Nýherja og IBM tilkynningu, 7. desember 2008, þess efnis að vegna nýrrar skipunar bankanna yrði að slíta þessum þríhliða samningi (The trilateral agreement ... is thus subject to discontinuance due to above legal situation).
Enda þótt skilanefnd hafi ekki hafnað því skriflega að ganga inn í samningssamband bankans við Nýherja og IBM þykir verða að miða við að við lok árs 2008 hafi legið fyrir að bankinn myndi ekki vilja ganga inn í samningssambandið. Sóknaraðili lítur svo á að varnaraðili hafi sagt upp samningnum frá og með 1. janúar 2009 og tekur krafa hans mið af því.
Þar sem samningsslitin urðu vegna yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á bankanum og slita hans, sem þá var farið að undirbúa, er ekki fallist á þá málsástæðu sóknaraðila að greiða beri samningsslitakostnað eins og hefði bankinn rift samningnum í hagræðingarskyni án þess að hann væri tekinn til slita vegna fyrirmæla í lögum.
Þegar slitameðferð veldur því að slitabú tekur ekki við réttindum og skyldum þrotamanns samkvæmt gagnkvæmum samningi er það vanefnd sem veitir viðsemjanda þrotamanns rétt til að krefjast bóta enda stendur svo á að vegna eðlis samningsins getur sóknaraðili ekki krafist þess að fá til baka það sem hann hefur innt af hendi í þágu bankans, sbr. 2. mgr. 93. gr. laga nr. 21/1991. Þess í stað getur hann krafist þess að fá tjón sitt bætt samkvæmt 94. gr. laganna. Þar segir að nýti þrotabúið ekki heimild sína samkvæmt 1. mgr. 91. gr. geti viðsemjandinn krafið það um skaðabætur vegna þess tjóns sem hann verði fyrir við samningsslitin, sbr. þó 96. gr.
Samkvæmt því ákvæði, 96. gr., getur þrotabúið sagt upp samningi um leigu eða annað varanlegt réttarsamband með venjulegum hætti eða sanngjörnum fresti þótt lengri uppsagnarfrestur sé ákveðinn í samningnum eða hann sé óuppsegjanlegur, nema samningnum hafi verið þinglýst eða hann skráður opinberlega á hliðstæðan hátt.
Í fræðum er miðað við að viðvarandi réttarsamband sem ákvæðið taki til séu leigusamningar um fasteignir eða lausafé, til dæmis eignarleiga, vinnusamningar, afnotasamningar margvíslegir, til dæmis við sjónvarpsstöðvar, samningar við rafveitu, vatnsveitu eða hitaveitu, samningar um reglubundnar auglýsingar, reglubundna þjónustu svo sem ræstingar eða við öryggisfyrirtæki.
Enda þótt margir þessara samninga eigi það sameiginlegt að þjónustuveitandinn leggi megnið af stofnkostnaðinum fram í upphafi og sá sem nýtir sér þjónustuna greiði í talsverðan tíma á eftir fyrir stofnkostnaðinn, með mánaðarlegu gjaldi, er stofnkostnaðurinn í þessum tilvikum ekki eingöngu í þágu eins viðskiptavinar eins og í þessu máli. Detti kaupandi þjónustunnar úr skaftinu verður sú þjónusta sem honum var veitt, veitt öðrum.
Glitnir keypti af Nýherja heildarverkefni sem eingöngu nýttist honum og hafði afmarkaðan tíma, 5 ár. Mánaðargjaldið var því ekki ákveðið út frá því hvaða þjónusta var veitt bankanum mánaðarlega, heldur fleiri þáttum og greiðslur til þjónustuveitandans lækkuðu eftir því sem leið á samningstímann. Jafnframt bar, væri samningnum slitið fyrir ákveðið tímamark, að greiða samningsslitagreiðslu sem er ekki algengt í þeim samningum sem alla jafna falla undir þetta ákvæði.
Samningur sóknaraðila og Glitnis var að sönnu til fimm ára en hann þykir svo eðlisólíkur þeim samningum sem 96. gr. er almennt talin gilda um að hann verði ekki talinn varanlegt réttarsamband í skilningi þess lagaákvæðis.
Því þykir 94. gr. laganna eiga við um samning sóknaraðila og bankans. Samkvæmt því ákvæði á sóknaraðili rétt á að fá bætt það tjón sem nemur verðmæti þeirra hagsmuna sem hann innti af hendi í þágu bankans og hefur ekki þegar fengið greitt fyrir. Sóknaraðili kveðst krefjast greiðslu þess stofnkostnaðar sem hann hafi lagt út fyrir í upphafi, til þess að koma mætti tölvuþjónustunni á, en hafi ekki fengið greiddan að fullu.
Í samningnum er stofnkostnaðurinn ekki tilgreindur sjálfstætt heldur er honum dreift á árin í gjaldskrá aðalsamningsins og viðaukanna sem ítarlega var lýst hér að framan. Í samningnum eru tvö uppsagnarákvæði. Annað veitir samningsaðilum heimild til uppsagnar vegna vanefnda hins (Termination for Cause) og hitt heimild til uppsagnar í hagræðingarskyni (Termination for Convenience). Samkvæmt því ákvæði má uppsögn eða samningsslit ekki taka gildi fyrr en að liðnum þremur árum frá upphafsdegi þjónustunnar, sem var 1. janúar 2008. Í samningnum er ekki tekið fram hvers vegna þetta tímamark varð fyrir valinu. Fyrir dómi útskýrði forstjóri sóknaraðila að með því að heimila ekki riftun fyrr en eftir þrjú ár tryggði þjónustuveitandinn sér að hann fengi aldrei minna greitt en stofnkostnaðinn og rekstarkostnaðinn fyrstu þrjú árin.
Hann bar að vísu einnig að taki IBM verkefni sem þetta að sér setji fyrirtækið nánar ákveðna fjárhæð inn í samninginn út frá stofnkostnaðinum og tilgreini eftir hvaða tíma, sem í þessu tilviki sé þrjú ár, stofnkostnaðurinn hafi verið greiddur. Eftir þann tíma taki fyrirtækið inn áframhaldandi rekstarkostnað og ávinning. Það er nýstárleg viðskiptastefna að fyrirtæki fallist á að rifta megi samningi þegar komið er að þeim tíma að útlagður kostnaður vegna þess verkefnis sem það hefur tekið að sér sé greiddur enda þótt fyrirtækið hafi þá hvorki fengið greiddan rekstarkostnað á þeim tíma samningsins sem liðinn er né nokkurn hagnað. Fyrirtæki sem byggja á henni eru væntanlega ekki mjög lífvænleg. Þykir verða að leggja þann framburð til grundvallar að með því að heimila ekki riftun fyrr en eftir þrjú ár tryggi þjónustuveitandinn sér að hann fái aldrei minna greitt en stofnkostnaðinn og rekstarkostnaðinn fyrstu þrjú árin.
Með rammasamningnum samþykkti Glitnir að vera bundinn af þeim samningi sem Nýherji gerði við IBM enda átti að veita þjónustuna dótturfélagi Glitnis í Noregi. Varnaraðili leiddi ekki þá starfsmenn Glitnis banka sem komu að samningsgerðinni til þess að þeir gætu upplýst dóminn um það hvernig þessi samningsgerð horfði við þeim þegar til samningsins var stofnað og hvort skilningur þeirra stangaðist á við frásögn fyrirsvarsmanns sóknaraðila. Jafnvel þótt úthýsingarsamningurinn hafi verið milli Nýherja og IBM var bankinn bundinn af honum og hlýtur að hafa viljað skilja þau ákvæði sem veittu honum rétt og bökuðu honum skyldu, svo sem ákvæði um útreikning tiltekinna gjalda. Þar sem ekki er við annað að styðjast þykir því, til fyllingar því sem kemur fram í samningnum, verða að leggja framburð fyrirsvarsmanns sóknaraðila til grundvallar.
Til þess að komast að því hvert sé hreint tjón sóknaraðila, það er hverjar eftirstöðvar stofnkostnaðarins séu, hefur dómurinn ekki önnur gögn til að vinna með en gjaldskrár samningsins og viðaukanna og framburð fyrirsvarsmanns sóknaraðila fyrir dómi.
Þá þarf að greiða úr því hver sé hlutur stofnkostnaðarins í heildarfjárhæðinni. Í þeim útreikningi sem hér fer á eftir eru allar fjárhæðir tilgreindar í dönskum krónum. Miðað við framburð fyrirsvarsmanns sóknaraðila er greitt fyrir stofnkostnaðinn (x) og rekstrarkostnað fyrstu þrjú árin (3y) með árgjaldinu fyrstu þrjú árin (2.071.000 + 2.056.000 + 2.007.000), yfirfærslugjaldi (1.277.000) og samningsslitagreiðslu (567.000), samtals 7.987.000 krónur.
Hefði verið staðið við samninginn til fullnustu áttu árgjaldið öll fimm árin (2.071.000 + 2.065.000 + 2.007.000 + 1.815.000 + 1.815.000) og yfirfærslugjaldið (1.277.000) að standa straum af stofnkostnaði (x) og rekstarkostnaði öll fimm árin (5y), samtals 11.089.000 kr. Sé fyrri talan (x+3y) 7.987.000 kr. dregin frá þeirri síðari (x+5y) 11.089.000 kr. sést að rekstarkostnaður tveggja ára (2y) er 3.102.000 kr. og jafnframt að rekstarkostnaður eins árs (y) er 1.551.000 kr.
Sé rekstarkostnaður fimm ára (5y) 7.755.000 kr. dreginn frá verðmæti samningsins, hefði hann verið efndur að fullu, standa eftir 3.334.000 kr. Sé rekstarkostnaður þriggja ára (3y) 4.653.000 kr. dreginn frá samningnum, hefði honum verið sagt upp eftir þrjú ár, standa eftir 3.334.000 kr. Samkvæmt þessum forsendum, sem byggja á framburði forsvarsmanns sóknaraðila og tölum í samningnum nemur stofnkostnaður aðalsamningsins (x) 3.334.000 dönskum krónum.
Hreint tjón sóknaraðila, ógreiddur stofnkostnaður, vegna aðalsamningsins er stofnkostnaðurinn að frádregnu yfirfærslugjaldinu sem var greitt árið 2008 og að frádregnum þeim stofnkostnaði sem var greiddur 2008 (sem er árgjaldið það ár að frádregnum rekstrarkostnaði) (3.334.000 - (1.277.000 + (2.071.000 - 1.551.000) ) ) samtals 1.537.000 danskar krónur.
Af gjaldskrá viðauka 1 sést að þar er ekki dreift neinum stofnkostnaði fyrstu þrjú árin heldur er hann allur greiddur með yfirfærslugjaldinu. Miðað við þá frásögn fyrirsvarsmanns sóknaraðila að gjaldið sé reiknað þannig út að menn tryggi sér að fá greiddan stofnkostnaðinn og rekstrarkostnað fyrstu þrjú árin og að teknu tilliti til gjaldskrár viðauka 1 hefur sóknaraðili ekki orðið fyrir neinu hreinu fjártjóni vegna viðauka 1.
Gjaldskrá viðauka 4 er byggð upp á sama hátt og gjaldskrá aðalsamningsins. Samkvæmt gjaldskrá viðauka 4 er greitt fyrir stofnkostnað (x) og rekstrarkostnað fyrstu þrjú árin (3y) með árgjaldi fyrstu þrjú árin (59.960 + 57.080 + 57.080), yfirfærslugjaldi (247.700) og samningsslitagreiðslu (88.700), samtals 510.520 danskar krónur.
Hefði verið staðið við viðauka 4 til fullnustu áttu árgjaldið öll árin (59.960 + 57.080 + 57.080 + 57.080 + 57.080) og yfirfærslugjaldið (247.700) að standa straum af stofnkostnaði (x) og rekstarkostnaði öll fimm árin (5y), samtals 535.980 danskar krónur. Sé fyrri talan (x+3y) 510.520 kr. dregin frá þeirri síðari (x+5y) 535.980 kr. sést að rekstarkostnaður tveggja ára (2y) er 25.460 kr. og jafnframt að rekstarkostnaður eins árs (y) er 12.730.
Sé rekstarkostnaður fimm ára (5y) 63.650 kr. dreginn frá verðmæti viðauka 4 hefði hann verið efndur að fullu standa eftir 472.330 kr. Sé rekstarkostnaður þriggja ára (3y) 38.190 kr. dreginn frá því verðmæti sem bar að greiða hefði samningnum verið sagt upp eftir þrjú ár standa eftir 472.330 kr. Samkvæmt þessu nemur stofnkostnaður (x) viðauka 4, 472.330 dönskum krónum.
Hreint tjón sóknaraðila vegna viðauka 4, ógreiddur stofnkostnaður, er stofnkostnaðurinn að frádregnu yfirfærslugjaldinu, sem var greitt 2008, að frádregnum þeim stofnkostnaði sem var greiddur 2008 (sem er árgjaldið það ár að frádregnum rekstrarkostnaði) (472.330 (247.700 + (59.960 12.730) ) ) nemur samtals 271.860 dönskum krónum.
Vegna viðauka 5 og 6 krefst sóknaraðili eingöngu samningsslitagreiðslunnar 9.900 danskra króna og því verður við þá fjárhæð miðað enda þótt útreikningur á hreinu tjóni hans vegna þessara viðauka kynni að skila hærri fjárhæð.
Samkvæmt þessu er fallist á að hreint tjón sóknaraðila vegna þess að varnaraðili gekk ekki inn í þann samning sem Glitnir banki gerði við hann, 17. nóvember 2007, nemi (1.537.000 + 271.860 + 9.900 + 9.900) 1.828.660 dönskum krónum. Hreint tjón er sá hluti stofnkostnaðarins sem sóknaraðili átti eftir að fá greiddan. Viðurkennt er að sóknaraðili eigi rétt til þessarar fjárhæðar úr búinu og að hún njóti stöðu í kröfuröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili krefst þess einnig að viðurkenndur verði réttur hans til að skuldajafna kröfu sinni á hendur varnaraðila við kröfur Íslandsbanka hf. á hendur honum. Þessar kröfur séu annars vegar komnar til vegna tveggja lánssamninga, sem upphaflega voru gerðir við Íslandsbanka, 20. mars 2006, og hins vegar yfirdráttar á sérkjarareikningi nr. 525-26-2. Í kjölfar hruns Glitnis banka í október 2008 hafi þessar kröfur bankans á hendur sóknaraðila flust til Nýja Glitnis banka hf., nú Íslandsbanka hf., í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 14. október 2008. Í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu sóknaraðila, á árinu 2010, hafi þessum lánssamningum verið skuldbreytt í einn nýjan samning, 14. desember 2010.
Réttur sóknaraðila til skuldajöfnuðar ræðst af 100. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt ákvæðinu getur hver sá, sem skuldar þrotabúinu, dregið frá skuld sinni það sem hann á hjá því, hvernig sem skuld og gagnkröfu er varið, hafi hann eignast kröfuna áður en þrír mánuðir voru til frestdags, hvorki vitað né mátt vita að þrotamaðurinn átti ekki fyrir skuldum og ekki fengið kröfuna til að skuldajafna, enda hafi krafa þrotabúsins á hendur honum orðið til fyrir frestdag.
Varnaraðili mótmælir því að sóknaraðili hafi eignast kröfu sína áður en þrír mánuðir voru til frestdags svo og því að krafa Íslandsbanka á hendur honum hafi orðið til fyrir frestdag.
Krafa um skaðabætur vegna vanefnda á samningi á rætur í samningnum. Réttur til skaðabótanna stofnast þegar samningurinn kemst á, enda þótt hún verði ekki virk fyrr en síðar. Rammasamningur málsaðila var undirritaður 19. nóvember 2007. Í honum segir að úthýsingarsamningurinn sé hluti rammasamningsins. Samkvæmt úthýsingarsamningnum og viðaukum sem gerðir voru við hann er Glitnir, sem viðskiptavinur, skuldbundinn til þess að inna af hendi umsamin gjöld. Við undirritun samningsins stofnaðist því krafa Nýherja á hendur bankanum hvort heldur til að efna samninginn eða til skaðabóta vegna vanefnda hans. Krafa sóknaraðila stofnaðist því um ári fyrir frestdag.
Fallist er á það með sóknaraðila að þrátt fyrir skuldbreytingu lánssamninganna tveggja, frá mars 2006, í einn samning, í desember 2010, sé krafa Íslandsbanka á hendur honum ekki frá þeim tíma enda var því láni ráðstafað til að greiða upp eldri lánin. Af þessum sökum er jafnframt fallist á að krafa Íslandsbanka á hendur sóknaraðila samkvæmt þeim lánssamningi hafi stofnast meira en þremur mánuðum fyrir frestdag. Sama gildir um kröfu Íslandsbanka á hendur sóknaraðila vegna skuldar á sérkjarareikningi.
Þar sem ekkert liggur fyrir um það að sóknaraðili hafi vitað eða mátt vita að bankinn hafi ekki átt fyrir skuldum þegar hann eignaðist kröfuna, eða að fjárhagsástand bankans hafi yfirhöfuð verið þannig á þeim tíma, svo og að ekkert bendir til þess að sóknaraðili hafi fengið kröfuna til þess að nýta til skuldajöfnuðar verður viðurkenndur réttur sóknaraðila til þess að skuldajafna þeirri kröfu sem hann á í slitabú Glitnis hf. við þá kröfu sem Íslandsbanki á á hendur honum.
Niðurstaðan er því sú að viðurkennt er að sóknaraðili eigi rétt til hluta þeirrar fjárkröfu sem hann lýsti í slitabú Glitnis svo og að hún njóti stöðu almennrar kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Jafnframt er viðurkenndur réttur sóknaraðila til að nýta þessa fjárkröfu til skuldajöfnuðar við kröfur Íslandsbanka á hendur honum og áður hefur verið lýst.
Vegna þessarar niðurstöðu og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila hluta málskostnaðar hans sem þykir hæfilega ákveðinn 1.004.000 krónur í málskostnað.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Krafa sóknaraðila, Nýherja hf., í slitabú Glitnis hf., að fjárhæð 1.828.660 danskar krónur, er viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Viðurkenndur er réttur sóknaraðila til að skuldajafna fjárkröfunni við kröfur Íslandsbanka hf. á hendur honum samkvæmt:
i. annars vegar tveimur lánssamningum upphaflega milli sóknaraðila og varnar-aðila, báðum dags. 20. mars 2006, upphaflega að fjárhæð 560.000.000 króna og 200.000.000 króna, sem síðar var báðum skuldbreytt með lánssamningi milli Íslandsbanka hf. og sóknaraðila, dags. 14. desember 2010, upphaflega að fjárhæð 420.000.000 króna, og
ii. hins vegar yfirdráttarskuld sóknaraðila á sérkjarareikningi hjá Íslandsbanka hf. nr. 525-26-2.
Varnaraðili, slitabú Glitnis hf., greiði sóknaraðila 1.004.000 kr. í málskostnað.