Hæstiréttur íslands

Mál nr. 118/2001


Lykilorð

  • Dómsuppkvaðning
  • Ómerking héraðsdóms
  • Heimvísun


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. október 2001.

Nr. 118/2001.

Íslenska ríkið

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

gegn

Jóhanni Þorgeirssyni

(Jón Magnússon hrl.)

 

Dómsuppkvaðning. Ómerking héraðsdóms. Heimvísun.

Héraðsdómur var ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsuppsögu að nýju, þar sem ekki hafði verið fylgt fyrirmælum síðari málsliðar 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Að gefnu tilefni var tekið fram að rétt hefði verið að bóka í þingbók yfirlýsingar aðilanna um að ekki væri þörf á að flytja málið á ný eða leggja fram á dómþingi við uppkvaðningu dómsins bréflegar yfirlýsingar þeirra um þetta.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. mars 2001. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og málskostnaður á báðum dómstigum falli niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málið var tekið til dóms í héraði við lok aðalmeðferðar 20. nóvember 2000. Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 29. desember sama árs. Samkvæmt þessu leið lengri tími en fjórar vikur frá því að málið var dómtekið þar til dómur var kveðinn upp. Samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála bar vegna þessa dráttar að flytja málið á ný, nema dómari og aðilar teldu það óþarft. Málið var ekki flutt að nýju. Við uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms var sótt þing af hálfu áfrýjanda, en í engu getið í þingbók afstöðu hans til þess hvort þörf væri á að flytja málið á ný. Ekki var þá sótt þing af hálfu stefnda. Af gögnum málsins verður ekki séð að aðilarnir hafi bréflega lýst afstöðu sinni í þessum efnum.

Stefndi hefur lagt fyrir Hæstarétt bréf héraðsdómara 3. október 2001, þar sem fram kemur að hann hafi haft samband við lögmenn aðila utan réttar nokkru fyrir þinghaldið, sem háð var til að kveða upp hinn áfrýjaða dóm, og gefið þeim kost á því að flytja málið á ný. Segir í bréfinu að lögmennirnir hafi ekki talið þörf á því og dómarinn verið sama sinnis. Þessi staðfesting héraðsdómara getur ekki að lögum komið í stað þess að bókaðar hefðu verið í þingbók yfirlýsingar aðilanna um að ekki væri þörf á að flytja málið á ný eða lagðar fram á dómþingi við uppkvaðningu dómsins bréflegar yfirlýsingar þeirra um þetta.

Vegna alls þess, sem að framan greinir, verður ekki komist hjá því að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsuppsögu að nýju.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og uppsögu dóms að nýju.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. desember 2000.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 20. nóvember sl., að loknum munnlegum mál­flutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Jóhanni Þorgeirssyni, kt. 310836-3389, Álfheimum 25, Reykjavík, á hendur íslenska ríkinu, með stefnu þingfestri 13. apríl 2000.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefn­anda 100.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 19. september 1996 til greiðsludags og að áfallnir dráttarvextir verði lagðir við höf­uð­stól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn hinn 19. september 1997.  Þá krefst stefnandi máls­kostnaðar úr hendi stefnda, samkvæmt mati dómsins, auk virðis­auka­skatts á mál­flutningsþóknun, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefn­anda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað, samkvæmt mati dómsins. 

Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að máls­kostnaður í því tilviki verði felldur niður.

II.

Málavextir eru þeir, að hinn 8. ágúst 1996 pantaði stefnandi og greiddi fyrir ferð, fyrir sig og fjölskyldu sína til Amsterdam hinn 27. ágúst 1996 hjá ferðaskrifstofunni Ístravel. 

Ferðaskrifstofan Ístravel ehf., sem áður hét Ferðaskrifstofa Kjartans Helgasonar hf., fékk leyfi til ferðaskrifstofureksturs hinn 15. apríl 1986.

Ný löggjöf um skipulag ferðamála tók gildi 1994.  Þann 5. maí 1995 setti sam­göngu­ráðherra reglugerð um ferðaskrifstofur nr. 281/1995 á grundvelli laga nr. 117/1994.  Með bréfi samgöngumálaráðuneytisins til allra ferðaskrifstofa, dagsettu 9. ágúst 1995, var hin nýja löggjöf kynnt og jafnframt óskað eftir endurskoðuðu árs­upp­gjöri ferðaskrifstofanna vegna ársins 1995 auk upplýsinga um fyrirhuguð umsvif á ár­inu 1996 fyrir 1. maí 1996.  Ársreikningur Ferðaskrifstofu Kjartans Helgasonar hf. fyrir árið 1994 barst ráðuneytinu, en ársreikningur og gögn þau sem beðið hafði verið um voru hins vegar ekki send.

Með bréfi dagsettu 30. maí 1996 tilkynnti Íslandsbanki samgönguráðuneytinu að banka­ábyrgð Ferðaskrifstofunnar hefði verið sagt upp með sex mánaða fyrirvara.  Ferðaskrifstofan Ístravel ehf. hætti rekstri og lagði inn ferðaskrifstofuleyfi sitt hinn 12. ágúst 1996.  Óskaði ferðaskrifstofan jafnframt eftir atbeina ráðuneytisins við að koma farþegum til síns heima.  Vegna fyrrnefndrar rekstrarstöðvunar ferða­skrif­stof­unnar var stefnanda fyrirmunað að fara umrædda ferð, sem hann hafði greitt fyrir, annars vegar með vísakorti og hins vegar með ávísun að fjárhæð 100.000 krónur.  Hins vegar var ekki gjaldfærð greiðsla á greiðslukortareikning stefnanda, þar sem ferða­skrifstofan hætti rekstri áður en til þess kom.  

Stefnandi lýsti kröfu í tryggingafé ferðaskrifstofunnar Ístravel ehf. með bréfi til stefnda, dagsettu 19. ágúst 1996.  Stefndi hafnaði kröfu stefnanda með bréfi dagsettu 1. nóvember 1996, þar sem allt tryggingafé fyrirtækisins hefði verið notað til þess að greiða heimflutning farþega á vegum ferðaskrifstofunnar.

Stefnandi leitaði til Neytendasamtakanna, sem fyrir hans hönd báru fram kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna ákvörðunar samgönguráðuneytisins við uppgjör á trygg­ingafé ferðaskrifstofunnar Ístravel ehf.  Niðurstaða umboðsmanns, dagsett 12. mars 1999, var sú: „að samgönguráðherra hafi látið of langan tíma líða frá gildistöku laga nr. 81/1994 þar til ráðuneyti hans gerði ferðaskrifstofunni að láta í té upplýsingar til að nýjar ákvarðanir yrðu teknar um tryggingar ferðaskrifstofa. 

Þá tel ég að samgönguráðuneytinu hafi ekki verið heimilt að veita þeim sem staddir voru erlendis á vegum Ístravel ehf. forgang fram yfir þá sem greitt höfðu inn á ferðir með félaginu.  Ég tel að ráðuneytið hefði átt að haga málum þannig að hlut­falls­leg skerðing gengi jafnt yfir alla sem gerðu og áttu með réttu kröfu í trygg­ing­ar­féð.

Samkvæmt framangreindu beini ég þeim tilmælum til samgönguráðuneytisins að það taki mál þeirra Bjarna Júlíussonar og Jóhanns Þorgeirssonar til endurskoðunar komi fram beiðni þess efnis frá þeim og leiti leiða til að rétta hlut þeirra.”

Í kjölfar þessa álits umboðsmanns fór stefnandi fram á það við stefnda með bréfi dag­settu 7. apríl 1999, að hann endurskoðaði afstöðu sína.  Með bréfi dagsettu 14. maí 1999 hafnaði stefndi þeirri beiðni. 

III.

Stefnandi byggir kröfu sína á hendur stefnda á því, að hann hafi átt rétt á að fá greiðslur af tryggingafé ferðaskrifstofunnar Ístravel ehf., samkvæmt 13. grein laga um skipu­lag ferðamála, nr. 117/1994.

Reglum um grundvöll tryggingar ferðaskrifstofa hafi verið breytt með lögum nr. 81/1994.  Markmið með breytingunum hafi verið að samræma íslensk lög tilskipun Evrópu­sambandsins nr. 90/314/EBE, frá 13. júní 1990, sem kveði á um aukna neyt­enda­vernd að þessu leyti.  Hlutverk stefnda hafi verið að tryggja að fullnægt væri samn­ingsskuldbindingum, sem stefndi hafi tekist á hendur með EES-samningnum, og tryggja að nýjar og breyttar lagareglur kæmu til framkvæmda við gildistöku samn­ingsins. 

Með lögum 81/1994 hafi verið felld úr gildi 2. mgr. 17. gr. laga nr. 79/1985, um skipu­lag ferðamála, þar sem kveðið hafi verið á um að kostnaður við heimflutning far­þega hefði forgang í tryggingafé fram yfir aðrar kröfur.  Í 1. mgr. 13. gr. nú­gild­andi laga um skipulag ferðamála nr. 117/1994, sbr. 7. gr. laga nr. 81/1994, sé ekki gerður greinarmunur á rétti til endurgreiðslu fjár sem greitt hafi verið og greiðslu á kostnaði við heimflutning.  Lögin veiti því ekki þeim, sem staddir hafi verið erlendis á vegum ferðaskrifstofunnar, forgang í tryggingaféð umfram stefnanda.

Stefnandi byggir og á því, að samkvæmt reglugerð nr. 281/1995, um ferða­skrif­stofur, hefði stefndi átt að vera búinn að hækka tryggingafjárhæð ferðaskrifstofunnar í 10.000.000 króna.  Stefndi hafi ekki gert það og hafi hann með þessu aðgerðarleysi sínu valdið því að ekki hafi verið hægt að greiða allar þær kröfur sem lýst hafi verið í tryggingafé ferðaskrifstofunnar Ístravel ehf.

Þá byggir stefndi kröfu sína á 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt henni hafi stefnda borið skylda til að tryggja jafnræði við uppgjör á tryggingafé ferða­skrif­stofunnar Ístravel ehf. þannig að aðilum, sem orðið hafi fyrir fjárhagslegu tjóni við það að ferðaskrifstofan hætti rekstri, yrði ekki mismunað við uppgjörið.

Þar sem stefndi hafi ekki framfylgt lögum nr. 117/1994 með fullnægjandi hætti og ekki farið að lögum við uppgjör á tryggingafé ferðaskrifstofunnar Ístravel ehf., hafi hann bakað stefnanda tjón, sem stefndi beri bótaábyrgð á.  Stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna þess að stefndi hafi ekki farið að skýrum fyrirmælum laga og megin­reglum stjórnsýsluréttarins.  Eigi stefnandi því rétt á bótum samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins, sem svari til tjóns stefnanda.

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 117/1994, um skipulag ferðamála, stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993.  Stefnandi vísar og til reglugerðar um ferðaskrifstofur nr. 281/1995.  Þá vísar stefnandi til meginreglna stjórnsýsluréttar og almennra reglna skaða­bótaréttar.

Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á lögum nr. 25/1987, með síðari breyt­ingum.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um með­ferð einkamála.

Kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

IV.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að meginorsök tjóns stefnanda hafi verið rekstr­arstöðvun ferðaskrifstofunnar Ístravel ehf. og vanefndir hennar á samningi gerð­um við stefnanda.  Ætlað tjón stefnanda sé ekki afleiðing af háttsemi starfsmanna stefnda.  Sök ferðaskrifstofunnar hafi verið meginvaldur að tjóni stefnanda.  Sök ferða­skrifstofunnar hafi verið stórfelld, þar sem aðeins hafi liðið nokkrir dagar frá því að stefnandi keypti ferðina uns rekstrarstöðvun hafi verið tilkynnt.  Forráðamönnum ferða­skrifstofunnar virðist hafa verið ljóst að þeir gætu ekki staðið við skuldbindingar sínar og að Íslandsbanki hefði sagt upp tryggingunni með áskildum fyrirvara.

Stefndi kveður að við breytingu á laga- og starfsumhverfi ferðaskrifstofa, sem m.a. hafi orðið við setningu laga nr. 81/1994, hafi ekki verið settar skýrar reglur um eftirlit og heimildir ráðuneytisins við mat á tryggingafjárhæð ferðaskrifstofu.

Stefndi kveður að samkvæmt lögum og reglugerð hafi tryggingaskyldan svo og skylda til að láta í té upplýsingar og afla tryggingar í samræmi við umfang rekstrar og kostnaðar, sem greiða þyrfti af tryggingafénu, hvílt á ferðaskrifstofunni Ístravel ehf.  Sam­gönguráðuneytið hafi ekki vanrækt skyldur sínar til að framfylgja lögum og reglu­gerð og kalla eftir upplýsingum frá ferðaskrifstofunni.  Tíminn, sem liðið hafi frá setningu laga um ferðaskrifstofuleyfi nr. 81/1994 og þar til ferðaskrifstofunni hafi með setningu reglugerðar nr.  281/1995 og bréfi ráðuneytisins, dagsettu 9. ágúst 1995, verið gert að leggja fram nauðsynlegar upplýsingar, breyti ekki neinu um bóta­skyld­una, þar sem ferðaskrifstofan hafi, alllöngu áður en tjón stefnanda varð, brugðist fyrir­mælum ráðuneytisins og lagaskyldum.  Tjón stefnanda geti því ekki verið á ábyrgð og áhættu stefnda.  Í lögunum hafi ekki verið mælt fyrir um greiðsluskyldu ríkis eða bótaábyrgð þess, en ráðuneyti samgöngumála falið  ákvörðunarvald um það hvort greiða skyldi af tryggingafénu.

Skilyrði bótaábyrgðar samkvæmt almennum reglum séu ekki uppfyllt, þar sem tjón stefnanda sé ekki afleiðing háttsemi stefnda enda engri sök til að dreifa af hálfu stefnda eða ólögmætum ráðstöfunum.

   Tjón stefnanda hafi verið afleiðing af vanefndum viðsemjanda hans, ferða­skrif­stof­unnar Ístravel ehf. Ferðaskrifstofunni hafi borið að sjá til þess að tryggingin næmi a.m.k. 10 milljónum króna, væri rekstur hennar svo umfangsmikill, eins og lögin og reglu­gerðin kvæðu á um.  Ferðaskrifstofunni hefði borið að vekja athygli ráðu­neyt­isins á því að rekstur hennar væri að breytast og þörf væri á hærri tryggingu.  Það hafi verið skylda ferðaskrifstofunnar að hafa í gildi nægilega háa tryggingu í samræmi við rekstur hennar.  Verkefni ráðuneytisins hefði aðeins verið að ákveða fjárhæð trygg­ingar með reglugerð, en það vald hafi ráðherra verið falið með lögum.   Stefndi geti því ekki borið ábyrgð á því að ferðaskrifstofan gæfi réttar upplýsingar og aflaði sér nægilegrar tyggingar.

Þá bendir stefndi á að meginstarfsemi ferðaskrifstofunnar Ístravel ehf. fram til ársins 1996 hafi verið sala annarrar þjónustu en svonefndra alferða samkvæmt lögum nr. 81/1994.  Auglýsing nr. 23/1990, um tryggingafé ferðaskrifstofa hafi kveðið á um lágmarksfjárhæð trygginga og hafi ferðaskrifstofan haft tryggingu að fjárhæð 6 milljónir króna.  Stefnda hafi ekki verið kunnugt um breytingu á umfangi og eðli ferðaskrifstofunnar á fyrri hluta árs 1996 þó svo ársreikningur hennar fyrir árið 1995 hefði þá legið fyrir, enda hefði hann tæplega gefið tilefni til þess að tryggingafjárhæð ferðaskrifstofunnar væri hækkuð.  Ráðagerðir félagsins um aukin umsvif í samvinnu við erlent flugfélag á sölu „alferða” á árinu 1996 hafi og ekki legið fyrir á þessum tíma.  Af því sjáist að tjón stefnanda sé ekki afleiðing af háttsemi stefnda og engin orsakatengsl séu á milli stjórnsýslu ráðuneytisins og tjóns stefnanda.

Hvorki lög nr. 117/1994 né tilskipun EBE hafi kveðið á um fjárhæð trygg­ing­ar­innar.   Mat á fjárhæð tryggingar hafi verið falið ráðherra með lögum og hafi hann sinnt þeirri lagaskyldu sinni með útgáfu reglugerðar nr. 281/1995, bæði með al­mennum ákvæðum og sérstökum, ekki síst með ákvæðum um upplýsingaskyldu ferða­skrif­stofa, svo sem nauðsynlegt hafi verið.  Slík almenn ákvæði séu sett til að tryggja neyt­endavernd, en geti þó ekki komið í veg fyrir að í einhverjum tilvikum geti ferða­skrif­stofur valdið viðskiptamönnum sínum tjóni, sem ekki verði bætt af slíkri trygg­ingu.

Einnig byggir stefndi á því, verði ekki á framangreind rök hans fallist, að sam­göngu­ráðuneytið hafi ekki fengið neinar þær upplýsingar frá ferðaskrifstofunni, sem gefið hafi tilefni til aðgerða eða breytinga á gildandi tryggingafjárhæð hennar.  Verði því að miða við það að trygging ferðaskrifstofunnar á umræddum tíma hafi, sam­kvæmt 2. mgr. 8. gr. sbr 5. gr. reglugerðar nr. 281/1995, átt að vera sex til tíu milljónir.  Lagaskylda ferðaskrifstofunnar hafi hins vegar ætíð verið fyrir hendi og í aug­lýsingu nr. 23/1990, hafi aðeins verið kveðið á um lágmarksfjárhæð.  Ábyrgðin á því að hafa ekki næga tryggingu, sinna ekki upplýsingaskyldu sinni og auka umsvif sín, hafi verið ferðaskrifstofunnar.

Ákvæði laga um opinbert eftirlit séu ekki sett til að tryggja mönnum bótarétt ríkisins, sinni viðsemjendur ekki lagaskyldu sinni.  Ábyrgð á því og áhætta vegna þess  að ferðaskrifstofan vanefndi bæði samning sinn við stefnanda og skyldur um trygg­ingar, hafi ekki hvílt á stefnda.  Þá bendir stefndi á, að eðli ferðaskrifstofureksturs sé með þeim hætti að bein afskipti hins opinbera eftirlitsaðila af starfseminni geti kallað á viðbrögð viðskiptavina hennar og rýrt traust hennar á markaði, jafnvel valdið henni tjóni.  Einnig bendir stefndi á að samkvæmt meginreglu skaðabótaréttar hafi að­gerð­ar­leysi ekki í för með sér bótaskyldu nema í undantekningartilvikum, sem ekki geti átt við hér.

Stefndi byggir á því, að skýra beri 13. og 14. gr. laga nr. 117/1994 með þeim hætti að að tryggingafé yrði ráðstafað þannig að strandaglópum yrði fyrst tryggð heim­för.  Sú skýring ákvæðanna eigi sér forsögu, sbr. 2. mgr. 17. laga nr. 79/1985, um skipulag ferðamála svo og eðli máls og meginreglu laga.  Þá hafi tilgangur með setn­ingu laga nr. 81/1994, um skipulag ferðamála, ekki verið sá að breyta þessu sérstaklega.  Tilskipun nr. 90/314/EBE mæli ekki fyrir um bann við forgangi tiltekinna ráðstafana vegna trygginga ferðaskrifstofa og hafi ráðstöfun sam­göngu­mála­ráðu­neyt­isins ekki verið í andstöðu við tilskipunina.  Samningsskuldbindingum sam­kvæmt tilskipuninni hafi verið fullnægt og kveðið á um ríkari neytendavernd eins og heimilt sé samkvæmt tilskipuninni.

Stefndi byggir og á því að samkvæmt téðri lagagrein hafi tryggingafénu verið ætlað að endurgreiða viðskiptavinum ferðaskrifstofa það fé sem greitt hefði verið svo og kostnað við heimflutning farþega.  Ekki hafi nægt að greiða hluta af kostnaði við heim­flutning eða endurgreiða síðar útlagðan kostnað farþega við heimför.  Ráðuneytinu hafi því verið rétt að láta heimflutning farþega hafa forgang  þar sem trygg­ing ferðaskrifstofunnar hafi verið of lág, enda slík ráðstöfun ekki óheimil.  Ráð­herra hafi því átt endanlegt mat um það hvernig tryggingafénu yrði ráðstafað sam­kvæmt 14. gr. laganna.  Hafi hann við mat sitt látið meiri hagsmuni ganga framar minni og tryggt heimflutning strandaglópa fyrst á grundvelli neyðarréttar, þar sem sú ráðstöfun hafi verið brýnni. 

Einnig byggir stefndi á því að ferðaskrifstofan Ístravel ehf. hafi haft starfsleyfi sam­kvæmt eldri lögum og bú hennar hafi ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta á þessum tíma.  Hins vegar hafi ferðaskrifstofan lagt inn starfsleyfi sitt og óskað eftir at­beina ráðuneytisins við heimflutning farþega.  Hafi því ráðuneytinu verið heimil um­rædd ráðstöfun á tryggingafénu.  Einnig vísar stefndi til dóms Hæstaréttar frá 5. mars 1998 í málinu nr. 345/1997, þar sem greiðsla kostnaðar við heimflutning sé við­ur­kennd til að hafa forgang ef til rekstrarstöðvunar komi.  Hafi það verið málefnaleg og lög­mæt ráðstöfun á takmörkuðu tryggingafé að ráðstafa því við brýnustu aðgerðir.

Stefndi mótmælir því að ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 geti átt við í málinu, þar sem ekki hafi verið um að ræða eiginlega stjórnvaldsákvörðun um rétt eða skyldu í ein­stöku máli heldur almenna framkvæmd laga og fyrirmæla.  Verði hins vegar litið svo á að þau lög eigi við byggir stefndi á því að ráðstöfun tryggingafjárins hafi verið mál­efnaleg og í samræmi við meðalhófsreglu.  Þar sem tryggingaféð hafi verið tak­markað og aðeins dugað fyrir heimflutningi farþega hafi verið sérdeilis óhagkvæmt og jafnvel rangt að láta alla þá er beðið hafi þess að komast aftur milli landa til síns heima sjá um það sjálfa og bíða með að úthluta tryggingafénu síðar.  Ekki verði lögð að jöfnu aðstaða þeirra sem beðið hafi heimflutnings og þeirra sem greitt hafi fyrir ferð en ekki hafið hana.  Líta beri til legu landsins sem geri það að verkum að ferða­úr­ræði séu færri og kostnaðameiri, en annars staðar.  Því hafi ekki verið um að ræða brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga, þar sem ekki hafi verið um sambærileg tilvik að ræða.  Þá byggir stefndi og á því að ráðuneytið hafi ekki haft til úrlausnar tvö sam­bærileg mál þar sem stefnanda hafi verið mismunað, enda hafi stefnandi ekki gert viðvart fyrr en með bréfi dagsettu 19. ágúst 1996.

Stefnandi hafi aldrei látið reyna á það hvort ferðaskrifstofan gæti endurgreitt honum féð eða gert kröfu um skaðabætur á hendur ferðaskrifstofunni eða á hendur for­ráðamönnum hennar á grundvelli almennra reglna eða 10. gr. laga nr. 80/1994, um alferðir.  Stefnanda hafi borið að beina kröfum sínum að ferðaskrifstofunni áður en hann beindi kröfum sínum að ráðuneytinu, þar sem á umræddum tíma hafi ferða­skrifstofan hvorki fengið greiðslustöðvun né verið tekin til gjaldþrotaskipta. Þá hafi stefnandi ekki lýst kröfum í þrotabú ferðaskrifstofunnar eftir að hún var úrskurðuð gjaldþrota hinn 26. mars 1998.  Ætlað tjón stefnanda er því  að nokkru eigin sök hans bæði vegna þess að hann hafi ekki haldið rétti sínum til laga eða reynt að takmarka tjón sitt.

Þó svo stefndi hefði úthlutað tryggingafénu jafnt sé ljóst að stefnandi hefði ekki fengið kröfu sína greidda að fullu heldur hugsanlega aðeins brot af henni.  Stefnandi hafi ekki gert tilraun til að sýna fram á ætlað tjón sitt og hverju hefði verið úthlutað til stefnanda ef úthlutað hefði verið jafnt til allra af tryggingafénu.  Krafa stefnanda sé því óraunhæf að þessu leyti.  Óljóst sé hvort stefnandi telji að ráðstafa hefði átt trygg­inga­fénu jafnt miðað við höfðatölu, í hlutfalli við fjárhæð krafna eða eftir því hvenær kröfur hefðu borist.  Augljóst sé að lítið hefði komið í hlut stefnanda af 6 eða 10 milljón króna tryggingu ferðaskrifstofunnar, ef úthlutað hefði verið jafnt til allra þeirra 320 viðskiptamanna hennar, þar af 275, sem þurft hafi á heimflutningi að halda.  Krafa stefnanda geti því ekki verið afleiðing af ráðstöfun stefnda á tryggingafénu, hvort sem það hefði verið 6 eða 10 milljónir króna.  Skilyrði almennra fébótareglna um orsakatengsl séu því ekki uppfyllt og beri stefndi ekki ábyrgð á vanefndum samnings ferðaskrifstofunnar Ístravel ehf. við stefnanda. 

Stefndi byggir varakröfu sína um lækkun dómkrafna stefnanda á sömu máls­ástæðu.  Einungis sé unnt að dæma stefnda til að greiða stefnanda það tjón, sem ó­um­deil­anlega hafi verið afleiðing af ætlaðri bótakskyldri háttsemi stefnanda, en hverf­andi hluti kröfu stefnanda hefði náð fram að ganga þó svo tryggingafénu hefði verið ráð­stafað á annan hátt, einnig þó að tryggingin hefði verið hærri.

Stefndi mótmælir upphafstíma dráttarvaxtakröfu stefnanda með vísan til 15. gr. laga nr. 25/1987.  Komi til bótaskyldu beri í fyrsta lagi að miða við dómsuppsögu eða þing­festingu málsins, þar sem skaðabóta hafi ekki verið krafist fyrr og upplýsingar, sem byggja megi á ákvörðun um fjárhæð bóta, hafi ekki komið fram fyrr.  Verði ekki á það fallist beri í fyrsta lagi að miða við mánuð frá kröfubréfi dagsettu hinn 7. apríl 1999.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um með­ferð einkamála.

 

V.

Krafa stefnanda á hendur stefnda byggir á því, að hann hafi átt rétt til greiðslu af trygg­ingafé ferðaskrifstofunnar Ístravel ehf.

Stefnandi hafði, hinn 8. ágúst 1996, greitt inn á ferð, sem hann hugðist fara á vegum ferðaskrifstofunnar.  Var um að ræða svokallaða alferð, sem aldrei var farin og hefur stefnandi ekki fengið greiddar 100.000 krónur, sem hann greiddi inn á ferðina.

Eins og fram hefur komið lagði ferðaskrifstofan Ístravel ehf. inn ferða­skrif­stofu­leyfi sitt 12. ágúst 1996 og hætti þá rekstri.  Stefndi notaði tryggingafé ferða­skrif­stofunnar, sem var 6.000.000 króna, til þess að greiða fyrir heimför farþega ferða­skrifstofunnar. 

Á umræddum tíma voru í gildi lög nr. 117/1994, um skipulag ferðamála.  Hafði áður­gildandi lögum nr. 79/1985, um sama efni, verið breytt með lögum nr. 81/1994.  Ástæða þessara lagabreytinga var m.a., eins og fram kemur í athugasemdum með frum­varpinu, aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.  Samkvæmt tilskipun ráðs Evrópu­bandalaganna, frá 13. júní 1990, um ferðapakka, orlofspakka og skoð­un­ar­pakka, skyldu aðildarríki gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja neytendum vernd í ferðaþjónustu með tryggingu ferðaskrifstofa.  Í tilskipuninni er fjallað um trygg­inga­skyldu.

Í 13. gr. laga nr. 117/1994, segir svo: „Ferðaskrifstofa, eða samtök slíkra fyrir­tækja, skal setja tryggingu fyrir endurgreiðslu fjár sem greitt hefur verið og fyrir greiðslu kostnaðar við heimflutning neytandans ef til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar við­komandi ferðaskrifstofu kemur.

Samgönguráðherra ákveður með reglugerð upphæð og skilmála tryggingar skv. 1. mgr.  Skal þá miðað við að upphæð tryggingar sé í samræmi við umfang þess reksturs sem tryggingin nær til og þann kostnað sem greiða skal  af tryggingafénu.

Ráðuneytið getur krafist ársreikninga og annarra upplýsinga frá ferða­skrif­stofum.”  

Á grundvelli þessara laga setti samgöngumálaráðherra reglugerð sem er nr. 281/1995, en samkvæmt þeirri reglugerð skyldi trygging ferðaskrifstofa með svo­kallað A-leyfi, en þar er átt við ferðaskrifstofur sem skipuleggja ferðir erlendis og selja farseðla, vera tíu milljónir króna, en unnt var að ákveða trygginguna lægri fjár­hæð.

Í athugasemdum frumvarpsins með fyrrgreindri lagagrein kemur fram, að áður en leyfi til ferðaskrifstofureksturs sé veitt skuli ferðaskrifstofa eða samtök slíkra fyrirtækja leggja fram sönnun þess að hún hafi nægilega tryggingu til heimflutnings farþega erlendis frá auk þess sem skylt sé að gera farþega kleift að ljúka alferð, hvort sem um sé að ræða alferð innan lands eða utan, í samræmi við upphaflega áætlun hennar.  Enn fremur skuli tryggja endurgreiðslu þess fjár er viðskiptavinur hefur þegar greitt vegna alferðar sem enn sé ófarin komi til rekstrarstöðvunar eða gjaldþrots ferðaskrifstofu.  Þá segir að þeir sem greitt hafi alferð að hluta eða öllu leyti en ekki hafið ferð skuli fá endurgreitt það fé sem þeir hafi reitt af hendi.

Í 14. gr. laganna segir: „ Samgönguráðuneytið ákvarðar hvort greiða skal af trygg­ingafé skv. 13. gr.  Eigi er heimilt að fella úr gildi tryggingu eða skerða trygg­inga­fé nema leyfi ráðuneytisins komi til.”

Með vísan til framanritaðs hefur íslenska ríkið tekið að sér að tryggja neytendum vernd á þessu sviði ferðamála, með því að skylda ferðaskrifstofur og gera að skilyrði rekstrar þeirra, að sett sé trygging fyrir greiðslum eins og þeim sem stefnandi krefur stefnda um í máli þessu.  Slík trygging var og skilyrði rekstrar ferðaskrifstofa, sam­kvæmt lögum, og bar stefnda lögum samkvæmt að sjá til þess að trygging væri nægileg.

Ferðaskrifstofan Ístravel ehf. hætti rekstri og tók ráðuneytið að sér að greiða af trygg­ingafé ferðaskrifstofunnar.  Samkvæmt áðurgreindum lögum átti stefnandi, sem greitt hafði inn á ferð með ferðaskrifstofunni, því rétt á greiðslu af því tryggingafé.  Þó svo ráðuneytinu hafi með fyrrgreindum lögum verið falið að ákveða hvort greiða skyldi af tryggingafé ferðaskrifstofunnar, er þess engin stoð í lögunum að ráðuneytinu hafi verið veitt sú heimild að ákveða hverjum af viðskiptavinum ferðaskrifstofa skuli greitt, heldur þvert á móti, er þar kveðið á um að greiða skuli bæði fyrir heimflutning far­þega og endurgreiðslu innborgaðrar fjárhæðar á ferð, sem neytandi hafi keypt.  Þó svo fram hafi komið að tryggingafé ferðaskrifstofunnar, hafi einungis dugað fyrir greiðslu heimflutnings farþega, verður ekki séð að með því hafi einungis verið hægt að greiða kröfur þeirra, sem þurftu heimflutning, enda bar stefnda að sjá til þess að trygg­ingarfjárhæð ferðaskrifstofunnar væri eins og reglugerðarákvæði kveður á um. 

Þegar allt framaritað er virt hefur stefndi ekki uppfyllt lagaskyldur sínar og þá vernd sem stefndi lögum samkvæmt skyldi veita neytendum, og með því valdið stefnanda tjóni.  Ber því að taka til greina dómkröfu stefnanda í málinu.

Samkvæmt þessari niðurstöðu skal stefndi greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur.

Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan, en uppkvaðning hans hefur dregist nokkuð vegna embættisanna dómarans.

 

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Jóhanni Þorgeirssyni, 100.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 19. september 1996 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.