Hæstiréttur íslands
Mál nr. 158/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 22. mars 2006. |
|
Nr. 158/2006. |
Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli(Eyjólfur Kristjánsson fulltrúi) gegn X (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. mars 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. mars 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 24. mars 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði var varnaraðili stöðvaður ásamt öðrum manni er hann kom til landsins með flugi frá Kaupmannahöfn 16. mars 2006. Ábending mun hafa borist frá erlendum lögregluyfirvöldum um að varnaraðili og samferðamaður hans kynnu að hafa fíkniefni meðferðis. Við leit fundust ekki fíkniefni á þeim félögum og var þeim sleppt. Hins vegar kveður sóknaraðili að við leitina hafi komið í ljós að þeir félagar hafi meðal annars haft meðferðis talsvert magn af svörtum bréfmiðum í peningaseðlastærð, joð, vaselín og álpappír og svokallaðan fluorescentlampa, en lítið af peningum. Sóknaraðili kveðst hafa upplýsingar frá erlendum lögregluyfirvöldum um að framangreind efni og tæki megi noti til tiltekinna fjársvika og hafi af þeim sökum verið ákveðið að leita á varnaraðila og samferðamanni hans þegar þeir færu á ný úr landi. Er þeir félagar hugðust fara úr landi þann 17. mars fundust á þeim um 100.000 evrur í reiðufé. Telur sóknaraðili nú að ætlað brot varnaraðila varði við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Að sögn sóknaraðila hafa varnaraðili og samferðamaður hans ekki getað gefið trúverðugar skýringar á því hvers vegna þeir höfðu þessa fjármuni meðferðis og fær þessi fullyrðing stoð í framburðarskýrslum þeirra. Þá hafi komið fram að við leit á hótelherbergi því sem varnaraðili og félagi hans dvöldu hafi fundist merki þess að framangreind efni hefðu verið notuð með tilteknum hætti. Því sé fyrir hendi rökstuddur grunur um að varnaraðili og félagi hans hafi svikið út fé með þekktri aðferð, sem nánari grein sé gerð fyrir í gögnum málsins.
Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að kominn sé fram rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi átt þátt í að svíkja út þá fjárhæð sem hann var með meðferðis er hann hugðist halda úr landi og hefur sóknaraðili til rannsóknar ætluð tengsl nokkurra nafngreindra manna við sakarefnið. Þykja því fyrir hendi skilyrði a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. mars 2006.
Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli hefur í dag krafist þess að kærði, X, f. [...], nígerískur ríkisborgari sem grunaður er um brot gegn 264. gr. almennra hegningarlaga verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi til kl. 16.00 föstudaginn 24. mars 2006.
Í greinargerð sýslumanns kemur fram að upphaf máls þessa hafi verið með þeim hætti að kærði og samferðamaður hans voru stöðvaðir af tollvörðum á Keflavíkurflugvelli skömmu eftir miðnætti þann 16. mars síðastliðinn við komu þeirra til landsins frá Kaupmannahöfn. Rökstuddur grunur var fyrir hendi um að þeir væru tengdir fíkniefnamisferli og því líkur á að þeir væru að bera inn til landsins fíkniefni. Rannsóknarlögreglan á Keflavíkurflugvelli færði þá til röntgenskoðunar á Landspítala Háskólasjúkrahúsi, en þeir höfðu báðir veitt heimild til skoðunarinnar. Röntgenskoðun leiddi í ljós að kærði og samferðamaður hans voru ekki með neina aðskotahluti innvortis. Þegar þeir voru báðir teknir í nákvæma fíkniefnaleit við komuna til landsins veitti tollgæsla og lögregla því sérstaka eftirtekt að í farangri þeirra var að finna eina flösku af joði, fluorescent lampa, álpappír, sellofanpappír og þerripappír, en þessi tæki og tól eru notuð til að greina hvort peningaseðlar séu falsaðir eður ei. Þá var einnig skráð af lögreglu það magn peninga er þeir voru með meðferðis við komuna til landsins. Í ljósi þessa farangurs kærða og samferðamanns hans var ákveðið af fela tollgæslunni á Keflavíkurfluigvelli að fylgjast með er þeir færu úr landi og skoða farangur þeirra við það tilefni. Í morgun, 17. mars 2006, var kærði síðan stöðvaður af tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli, er hann var ásamt samferðamanni sínum á leið úr landi. Við skoðun kom í ljós að þeir voru með meðferðis í farangri sínum 100.000 evrur í reiðufé. Grunur er leikur á að um sé að ræða flutning á ólögmætum ávinningi vegna fíkniefnsölu eða af annarri brotastarfsemi. Skýringar þær er kærði og samferðamaður hans hafa gefið á fénu séu ótrúverðugar og enn liggur ekki fyrir hvort peningaseðlarnir eru ófalsaðir. Kærði og samferðamaður hans reyndu síðdegis í gær, þann 16. mars, að kaupa farmiða frá landinu án tillits til viðkomustaðar en tókst það ekki þar sem allar flugvélar voru fullbókaðar. Kærði og samferðamaður hans breyttu þá brottför sinni til dagsins í dag, en upphaflegur farmiði þeirra gerði ráð fyrir brottför sunnudaginn 19. mars næstkomandi.
Rannsókn málsins á hendur kærða er á algjöru frumstigi. Unnið er að öflun gagna varðandi hann í samstarfi við alþjóðadeild ríkislögreglustjóra. Fyrir liggur rökstuddur grunur um að kærði eigi sér samstarfsmann eða menn hérlendis. Unnið er meðal annars að rannsóknum á símtölum kærða á meðan á dvöl hans stóð hér á landi og hugsanlegum bankaúttektum eða viðskiptum hér á landi.
Rökstuddur grunur sé því fyrir því að kærði hafi meðal annars gerst brotlegur við 264. gr. almennra hegningarlaga númer 19, 1940. Ætluð brot kærða geta því varðað allt að 12 ára fangelsi. Haldi kærði óskertu frelsi sínu má ætla að hann muni reyna að torvelda rannsókn málsins með því að hafa samband við hugsanlega samstarfsaðila hér á landi og jafnvel erlendis.
Um lagarök vísast til 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944 sbr. 5. gr. laga nr. 97, 1995 og a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991.
Við fyrirtöku málsins í dag mótmælti kærði gæsluvarðhaldskröfunni.
Þrátt fyrir að kærði hafi mótmæli framkominni kröfu, þykir fram komið að fyrirliggjandi rannsóknargögn gefi tilefni til þess að fallast á rökstuddur að grunur sé uppi um að hann hafi gerst sekur um brot gegn 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og því er fallist á að skilyrði a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála séu uppfyllt. Ber því að verða við kröfu sýslumanns eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 24. mars nk. kl. 16:00.