Hæstiréttur íslands

Mál nr. 45/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Endurupptaka


                                     

Föstudaginn 13. febrúar 2015.

Nr. 45/2015.

Ingigerður Hjaltadóttir og

Kaupmiðlun ehf.

(Jón Egilsson hrl.)

gegn

Söru Sigurðardóttur

(Einar Hugi Bjarnason hrl.)

Kærumál. Endurupptaka.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu I og K ehf. um endurupptöku máls sem S höfðaði gegn þeim og dæmt var í héraði í framhaldi af útivist I og K ehf. Var ekki talið að fullnægt væri skilyrðum a. til d. liðar 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til endurupptöku málsins. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 21. desember 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. janúar 2015. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. desember 2014, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að héraðsdómsmálið nr. E-3972/2013 yrði endurupptekið. Kæruheimild er í q. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að endurupptaka málsins verði heimiluð. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti og kemur krafa hennar um málskostnað í héraði því ekki til álita hér fyrir dómi.

Í máli því, sem sóknaraðilar krefjast að endurupptekið verði, féllst héraðsdómur á kröfu varnaraðila um að sóknaraðilum bæri að fjarlægja tré í eigu þeirra síðarnefndu á lóð þeirra að Traðarlandi 12 í Reykjavík. Var krafan meðal annars á því reist að koma þyrfti í veg fyrir tjón á fasteign varnaraðila að Traðarlandi 14. Af þeirri ástæðu gerði hún jafnframt kröfu um að sóknaraðilum yrði gert að hreinsa dren og klóaklagnir í stíg milli lóða málsaðila, en hann er hluti af sameign fasteignanna Traðarlands 10 til 16. Með héraðsdóminum var síðarnefnd krafa einnig tekin til greina.

Þrátt fyrir að kröfugerð varnaraðila í framangreindu dómsmáli hafi að nokkru leyti einnig lotið að lagfæringum á sameignarlóð áðurnefndra fjögurra fasteigna verður, eins og mál þetta liggur fyrir og að framan er rakið, fallist á þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar að varnaraðili hafi mátt haga kröfugerð sinni með þeim hætti sem hún gerði. Er þá til þess að líta að hún hafði sjálfstæða hagsmuni af  úrlausn málsins þar sem tjónið sem um ræðir kom einungis fram á fasteign hennar. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðilum verður gert greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Ingigerður Hjaltadóttir og Kaupmiðlun ehf., greiði óskipt varnaraðila, Söru Sigurðardóttur, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. desember 2014.

I

Með beiðni dagsettri 23. júní 2014 óskuðu sóknaraðilar, Ingigerður Hjaltadóttir og Kaupmiðlun ehf., bæði til heimilis að Traðarlandi 12 í Reykjavík, eftir endurupptöku dóms Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp 6. janúar 2014 í máli nr. E-3972/2013. Hafði sóknaraðilum verið stefnt í því máli, auk Helgu Valsdóttur, til heimilis að Traðarlandi 10 í Reykjavík og Önnu Kathrine Angvik Jacobsen og Andra Sigþórssyni, báðum til heimilis að Traðarlandi 16 í Reykjavík, til réttargæslu. Varnaraðili þessa máls, Sara Sigurðardóttir til heimilis að Traðarlandi 14 í Reykjavík, var stefnandi í hinu umþrætta máli. Við þingfestingu kröfu sóknaraðila 7. júlí sl. mótmælti varnaraðili endurupptökubeiðninni og krefst þess að kröfu sóknaraðila um endurupptöku málsins verði hafnað auk málskostnaðar úr þeirra hendi.

Málið var tekið til úrskurðar 20. nóvember 2014 að loknum munnlegum málflutningi.

II

Við vestanverð lóðamörk Traðarlands 12 í Reykjavík standa þrjár aspir sem deila aðila stendur um. Varnaraðili, sem býr að Traðarlandi 14, telur trén hafa valdið sér og eiginmanni sínum óþægindum, sér í lagi þar sem rætur trjánna hafi í tvígang stíflað drenlagnir með þeim afleiðingum að upp úr niðurfalli fasteignar hennar flæddi. Þá geri hæð og þéttleiki trjánna það að verkum að nær algerlega skyggi á dagsbirtu og sól fyrripart dags við norðausturhluta Traðarlands 14 þannig að varnaraðili kveðst ekki geta nýtt sér dvalarstétt til útiveru.

Sóknaraðilanum Ingigerði var birt stefna 3. október 2013 og tók hún jafnframt við stefnu fyrir hönd Kaupmiðlunar ehf. Málið var þingfest 10. sama mánaðar. Útivist varð af hálfu beggja sóknaraðila máls þessa og var málið þá tekið til dóms á grundvelli 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2014 var sóknaraðilum, að viðlögðum dagsektum, gert að fjarlægja umræddar aspir og hreinsa með varanlegum hætti á sinn kostnað dren- og klóaklagnir sem liggja í malbikuðum stíg á milli fasteignar varnaraðila og sóknaraðila. Loks var sóknaraðilum gert að greiða varnaraðila 190.674 krónur í skaðabætur auk 170.000 króna í málskostnað. Sóknaraðilar hafa nú með beiðni sinni til dómsins óskað eftir endurupptöku málsins og snýst ágreiningur sá sem hér er til úrlausnar um þá kröfu og hvort skilyrði laga nr. 91/1991 um endurupptöku útivistarmáls í héraði séu uppfyllt.

III

Málatilbúnaður beggja sóknaraðila er eins í öllum meginatriðum og er því gerð grein fyrir honum í einu lagi.

Sóknaraðilar kveða að þeim hafi fyrst verið kunnugt um málsúrslit þegar komið var með fjárnámsboðun til annars sóknaraðilans, Ingigerðar, 19. júní 2014. Sóknaraðilanum Kaupmiðlun ehf. hafi orðið kunnugt um málsúrslit að kvöldi þess sama dags þegar sóknaraðilinn Ingigerður lét fyrirsvarsmann hans, Robert Downey, vita af fjárnámsboðuninni. Sóknaraðilar byggja kröfu sína um endurupptöku málsins á grundvelli b-liðar 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála á fjórum forsendum.

Í fyrsta lagi byggja sóknaraðilar á því að 5. september 2013 hafi varnaraðili gefið út stefnur á hendur þeim með sömu dómkröfum og um sömu sakarefni og í því máli sem dæmt var 6. janúar 2014. Hafi stefnurnar verið birtar fyrir stefndu, Ingigerði, á heimili hennar og þingfestar 17. september 2013. Nýjar stefnur með sömu dómkröfum hafi svo verið birtar stefndu Ingigerði 3. október 2013. Hafi þau mál verið þingfest 10. október 2013 og hinn umdeildi dómur gengið vegna þeirra. Telur stefnandi að vegna litis pendens áhrifa þingfestingar fyrra málsins hefði átt að vísa síðara málinu frá sjálfkrafa dómi (ex officio).

Í öðru lagi byggja sóknaraðilar á því að kennitala stefnanda sé röng í stefnunum. Kennitala stefnanda sé sögð vera 161039-2419 en hið rétta sé að kennitalan er 160139-2419. Dómari hafi heimild til að leiðrétta augljósar villur í stefnu samkvæmt 1. mgr. 113. gr. laga nr. 91/1991 sé sú leiðrétting í samræmi við þau skjöl sem stefnandi byggi á í málinu. Engin skjöl hafi verið lögð fram í málinu af hálfu stefnanda sem sögðu til um það að kennitalan væri röng. Dómarinn hafði því engin dómskjöl til að byggja þessa leiðréttingu á og hún hafi því verið andstæð tilvitnuðu lagaákvæði. Villan hefði átt að leiða til frávísunar málsins sjálfkrafa (ex officio) ein og sér. Sóknaraðilar segja kennitölur manna vera stóran þátt í því að sanna og tilgreina hverjir þeir séu. Séu kennitölurnar „[m]ikilvægari en mannanöfn, þar sem margir kunna að bera sama nafnið, en hver einstakur maður í íslensku samfélagi ber og hefur sína sérstöku kennitölu“. Taka sóknaraðilar fram að Robert Downey, forsvarsmaður Kaupmiðlunar ehf., hafi hringt í dómara málsins og upplýst hann um villuna. Hefði dómara á þessum grundvelli borið að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi (ex officio) enda fullkunnugt um þann galla sem stefnan var haldin.

Í þriðja lagi segja sóknaraðilar Robert Downey vera eina lögformlega stjórnarmanninn í hinu stefnda einkahlutafélagi, Kaupmiðlun. Í stefnu sé hann hins vegar ranglega nefndur Róbert Árni Hreiðarsson auk þess sem hann sé þar ranglega titlaður framkvæmdastjóri félagsins. Segja sóknaraðilar að með heimild Þjóðskrár hafi Róbert Árni Hreiðarsson breytt nafni sínu í Robert Downey í byrjun árs 2012, löngu áður en stefnurnar í málinu voru gefnar út. Þá kveða sóknaraðilar heimilisfang Roberts vera ranglega tilgreint, en það er sagt vera að Traðarlandi 12 í Reykjavík. Þrátt fyrir að það komi fyrir að hann dvelji í kjallara hússins að Traðarlandi 12 þegar hann sé staddur hér á landi séu mörg ár síðan hann hafi flutt lögheimili sitt í íbúð að Grænási 1b í Reykjanesbæ. Hefðu þessar villur, saman eða einar sér, átt að leiða til frávísunar málsins án kröfu.

Í fjórða lagi telja sóknaraðilar að vísa hefði átt málinu frá dómi á grundvelli 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem stefnandi hafi ekki sýnt fram á að réttur hans til málsóknar á hendur stefndu hafi verið orðinn til eða hafi verið til staðar. Vísa sóknaraðilar til dóms Hæstaréttar í máli nr. 352/2010 máli sínu til stuðnings.

Þá byggja sóknaraðilar varakröfu sína um endurupptöku á grundvelli c-liðar 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 á því að dómara hefði borið að sýkna þá að öllu leyti eða hluta. Fyrir því færir sóknaraðili eftirfarandi rök.

Fyrir liggi að lóðin fyrir húsin á reitnum Traðarlandi 10 til 16 sé sameiginleg öllum eigendum húsanna nr. 10 til 16 við Traðarland. Hins vegar hafi eigendur markað sér ákveðna reiti umhverfis hús sín til afnota með samþykki allra, þrátt fyrir að öll lóðin sé sameiginleg. Ef einhver vandamál hafi komið upp varðandi sameiginlegt viðhald á lóðinni hafi eigendur almennt leyst þau í góðu og greitt hlutfallslega fyrir þrátt fyrir að ekki hafi verið farið að lögum við viðgerðir eða endurbætur. Eiga sóknaraðilar hér sérstaklega við viðgerðir og framkvæmdir eiganda hússins nr. 14 við Traðarland.

Sóknaraðilar segja að um ákvarðanatöku vegna framkvæmda og/eða viðhalds á lóðinni skuli fara samkvæmt lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994 enda séu lögin ófrávíkjanleg í þessum efnum með fáum undantekningum, sbr. 1. og 2. gr. laganna, sem þó eigi ekki við í þessu máli. Varnaraðila hafi borið að fara að lögunum til að fá úrlausn mála sinna. Eigendum sameigna sé óheimilt að skipa málum sínu, réttindum og skyldum á annan veg en mælt sé fyrir um í lögunum. Það að ekkert formlegt húsfélag sé til staðar með eigendum húseignanna Traðarlandi 10 til 16 veiti einstökum eigendum húseignanna ekki frjálsræði og óskorað vald til að taka einhliða ákvarðanir um viðhaldsverkefni og endurbætur á lóðinni. Lögin um fjöleignarhús gerir reyndar ráð fyrir því að til staðar séu húsfélög þegar eignir séu í sameign en samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laganna sé það ekki lagaskylda að stofna húsfélag. Það megi vera óformlegt eins og í þessu tilviki. Eðli málsins samkvæmt verði að telja með hliðsjón af 1. mgr. 58. gr. laganna að æðsta vald í óformlegu húsfélagi sé almennur fundur þess eða húsfundur. Almenna húsfundi skuli halda þegar ¼ hluti félagsmanna krefjist þess sbr. 1. mgr. 60. gr. laganna. Í 2. mgr. lagagreinarinnar sé nánar kveðið á um boðun slíkra funda. Þá megi ráða af 3. mgr. greinarinnar að viðkomandi eiganda sé heimilt að boða sjálfur til húsfundar og halda hann ef hann vill bera upp tillögur til afgreiðslu um viðhald og endurbætur á sameign. Þá segi í 3. mgr. 62. gr. laganna að hver félagsmaður eigi rétt á að fá ákveðin mál tekin fyrir á húsfundi en ekki til atkvæðagreiðslu nema þeirra hafi verið getið í fundarboði með þeirri undantekningu þó sem getið sé um í 4. mgr.

Varnaraðila hafi borið að kalla saman húsfund hafi honum þótt á sig hallað varðandi viðhald sameignar. Á húsfundi hafi hann getað lagt fram tillögur að úrbótum og viðgerðum, bæði á dreni og klóaklögnum á hinni sameiginlegu lóð. Þá hafi hann getað lagt fram tillögur að lausn á málefnum varðandi aspirnar, sem á lóðinni eru. Slíkt hafi varnaraðili ekki gert, ef undan er skilin ein tilraun Gunnars Ólafssonar, maka varnaraðila, sem hafi boðað til húsfundar 7. ágúst 2009 í húsakynnum Húseigendafélagsins.

Á fundinum í ágúst 2009 hafi verið upplýst af maka varnaraðila að fundurinn væri einkum ætlaður til kynningar á sameiginlegum málum eigenda Traðarlands 10-16. Á sama fundi hafi Herbert Hauksson, fulltrúi eigenda Traðarlands 16, greint frá því að lagnir hefðu sigið eftir að byggt var við hliðina á húsinu Traðarlandi 16. Nú hafi orðið verulegt jarðsig á allri lóðinni sem gæti hafa skemmt lagnir á svæðinu og rörasamsetningar gliðnað. Hafi eigendur rætt sín á milli um aðgerðir vegna þessa og séu þær jafnvel fyrirhugaðar á næstunni. Þá sagði Herbert frá því að húsið nr. 16 hefði verið fyrsta húsið sem byggt var á hinni sameiginlegu lóð. Brunnar hafi verið settir á það dýpi sem hentaði því húsi, en vert er að athuga að enginn kjallari sé í því þótt djúpir kjallarar hafi verið grafnir út í öðrum húsum. Stefndi telur að við þetta hafi skapast hætta á frárennslisvandamálum og að hér kunni að vera komin skýring á því af hverju vatn komst inn í kjallarann hjá stefnanda í mikilli rigningu.

Taka sóknaraðilar fram að á teikningum sé kjallari varnaraðila aðeins teiknaður sem geymslurými en ekki vistarverur íbúa. Varnaraðili hafi hins vegar innréttað kjallarann sem slíkan og m.a. leigt hann ferðamönnum á sumrin. Kunni vatnstjón stefnanda því að vera meira en ella. Þá vísa sóknaraðilar til þess að varnaraðili hafi ekki látið dómkvadda matsmenn meta tjón sitt.

Sóknaraðili vísar til þess að annar húsfundur hafi verið haldinn 21. október 2009. Á fundinum hafi ekki náðst samstaða um aðgerðir vegna aspa og lagna á lóðinni. Fulltrúi stefndu, Róbert Árni Róbertsson, hafi lýst því yfir að stefndu væru reiðubúin að greiða fjórðung kostnaðar við lagfæringarnar.

Sóknaraðilar segja að aspirnar kunni að vera rótdauðar vegna mikillar grisjunar sóknaraðila á undanförnum árum. Þær hafi þannig ekki laufgast sumarið 2014. Frá því sumarið 2011 hafi aspirnar aðeins skyggt óverulega á norðausturhluta lóðar stefnanda og bótagrundvöllur getið því ekki verið fyrir hendi.

Sóknaraðilar taka fram að þau hafi alltaf samþykkt fyrir sitt leyti að aspirnar yrðu fjarlægðar og segjast ítrekað hafa boðist til að bera hluta kostnaðarins í samræmi við hlutfallsreglur.

Verði fallist á endurupptöku málsins vísa sóknaraðilar til þess að dómari kveði á um það í úrskurði sínum um endurupptöku að réttaráhrif dóms falli niður þar til máli lýkur á ný í héraði sbr. 1. mgr. 139. gr. laga nr. 91/1991. Boðun hafi verið birt sóknaraðilanum Ingigerði 19. júní sl. vegna fyrirhugaðrar fjárnámsgerðar en sóknaraðilanum Robert Downey hafi ekki verið birt fjárnámsboðun. Um brýnt hagsmunamál sé að ræða þar sem þau hafi um nokkurt skeið reynt að selja fasteignina að Traðarlandi 12 og fjárnám í henni geti spillt þeim fyrirætlunum. Fasteignin sé í sölumeðferð hjá nokkrum fasteignasölum. Þá verði að horfa til þess að með væntanlegri fjárnámsgerð muni kostnaður í málinu aukast, sérstaklega við þinglýsingu fjárnámsgerðarinnar og við uppboðsmeðferð ef til til hennar kemur.

Að lokum krefjast sóknaraðilar málskostnaðar úr hendi varnaraðila en til vara að málskostnaður falli niður.

Um lagarök vísa sóknaraðilar til ákvæða fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994, laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 einkum ákvæða um endurupptöku og útivist og um málskostnað en einnig til 1. mgr. 26. gr. laganna. Þá sé sóknaraðilinn Kaupmiðlun ehf. virðisaukaskylt félag en ekki sóknaraðilinn Ingigerður. Því beri að líta til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt varðandi kröfu um málskostnað hvað hana varðar og taka tillit til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

IV

Varnaraðili telur að skilyrði 1. og 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála séu ekki uppfyllt þar sem sóknaraðili hafi ekki beiðst endurupptöku málsins innan þess tímafrests sem gefinn sé í fyrrnefndum málsgreinum. Þá telur varnaraðili skilyrði b- eða c-liðar 2. mgr. 137. gr. laganna ekki uppfyllt. Sóknaraðili hafi ekki leitast við að sanna að efni birtingarvottorðsins sé rangt, en fyrir því beri hann sönnunarbyrði samkvæmt 2. mgr. 137. gr. laga um meðferð einkamála.

Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa verið birt stefna í málinu með þeim hætti sem fram komi í birtingarvottorði. Þar með hafi sóknaraðila strax verið kunnugt um málareksturinn. Engin haldbær skýring liggi fyrir um það af hverju sóknaraðilar hafi ekki mætt við þingfestingu málsins. Sóknaraðilar verði að bera hallann af því. Engu skipti þótt annað mál kunni að hafa verið fellt niður enda skýrt kveðið á um það í 2. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 um málalok þegar stefnandi sæki ekki þing eða fellir málsókn sína niður. Þá bendir varnaraðili á að Robert, sem sé lögfræðingur og stjórnarmaður í Kaupmiðlun ehf., hafi hringt í dóminn eftir þingfestingu málsins 10. október 2013 og bent á það sem hann taldi vera villur í stefnunni. Hafi því öllum aðilum málsins verið kunnugt um málið og að dóms væri að vænta í því. Það sé því af og frá að sóknaraðila hafi fyrst verið kunnugt um málsúrslit 19. júní 2014. Þegar af þessari ástæðu beri að hafna beiðni sóknaraðila um endurupptöku málsins.

Fallist dómurinn ekki á að beiðni sóknaraðila um endurupptöku fullnægi ekki þeim tímafrestum sem gefnir séu í 1. og 2. mgr. 137. gr. byggir varnaraðili á því að skilyrðum b- og c-liða sé ekki fullnægt.

Að því er varðar b-lið 2. mgr. 137. gr. sérstaklega telur varnaraðili að sú málsástæða sóknaraðila sem lýtur að litis pendens áhrifum sé þýðingarlaus fyrir úrlausn málsins, enda sé ljóst að krafan hafi ekki verið dæmd sbr. 2. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála. Þá sé málsástæðum sóknaraðila um að röng kennitala í stefnu og nafnabreyting fyrirsvarsmanns hafi áhrif á úrlausn málsins mótmælt sem fráleitum.

Þá kveður varnaraðili þá málsástæða sóknaraðila að vísa beri málinu frá á grundvelli 26. gr. laga um meðferð einkamála vera órökstudda, ósannaða og óskýra þar sem ekki sé ljóst hvaða atriði í málatilbúnaði hans beri að vísa frá á grundvelli þess og því ómögulegt fyrir hann að verjast slíkum málsástæðum. Engin gögn séu lögð fram sem styðji fullyrðingar sóknaraðila, heldur séu þær settar fram með almennum hætti og séu þær vanreifaðar, ósannaðar og þýðingarlausar fyrir úrlausn málsins. Telur varnaraðili ljóst að skilyrði b-liðar 2. mgr. 137. gr. séu ekki uppfyllt.

Þá telur varnaraðili engin rök standa til þess að fallast verði á endurupptöku málsins á grundvelli c-liðar 2. mgr. 137. gr. laganna. Umfjöllun sóknaraðila um reglur fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 eða fundi utanaðkomandi aðila sé þýðingarlaus og vandséð að það skipti máli fyrir úrlausn málsins, enda ljóst að slíkt leiði ekki til sýknu án kröfu. Þá sé varnaraðila ómögulegt að taka sérstaka afstöðu til þeirra atvika sem lýst sé í beiðninni, svo sem um frárennslislagnir og greiðslu reikninga, og bendir á að ekki hafi verið lögð fram nein frekari gögn til stuðnings umræddum staðhæfingum og til sönnunar á þeim fullyrðingum. Sé þá ósagt látið hvort þær staðhæfingar, ef þær teldust sannaðar á annað borð, væru þess eðlis að þær hefðu áhrif á úrlausn málsins. Varnaraðili telur því beiðni sóknaraðila um endurupptöku á grundvelli c-liðar vanreifaða og ósannaða.

Þá sé fullyrðingum sem fram komi í beiðni sóknaraðila varðandi sameign lóða mótmælt enda séu þær ósannaðar, ekki studdar neinum gögnum og í engu sé rökstutt að þessi atriði hefðu getað leitt til sýknu án kröfu. Að öðru leyti kveðst varnaraðili vísa til forsendna dóms í máli því sem óskað er endurupptöku hvað þetta varðar. Telur varnaraðili ljóst að skilyrðum c-liðar 2. mgr. 137. gr. sé ekki uppfyllt.

Um lagarök vísar varnaraðili til laga nr. 91/1991.

V

Í 137. gr. laga nr. 91/1991 greinir frá því með hvaða skilyrðum stefndi í dómsmáli, sem ekki sækir þing eða þingsókn hans fellur niður, getur beiðst endurupptöku máls. Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því máli lauk í héraði en innan árs frá því getur hann samkvæmt 2. mgr. greinarinnar beiðst endurupptöku ef beiðni berst dómara innan mánaðar frá því stefnda urðu málsúrslit kunn og hann sýnir fram á að fullnægt sé einhverju af eftirtöldum fjórum skilyrðum: Í fyrsta lagi að stefna hafi hvorki verið birt honum né öðrum sem mátti birta fyrir, í öðru lagi að átt hefði að vísa kröfum á hendur honum sjálfkrafa frá dómi að einhverju leyti eða öllu, eða í þriðja lagi að átt hefði að sýkna stefnda án kröfu að einhverju leyti eða öllu og í fjórða lagi að stefnandi sé samþykkur endurupptöku.

Fyrir liggur að mál nr. E-3972/2013 var þingfest 10. október 2013. Útivist varð af hálfu stefndu og var málið þá dómtekið að kröfu stefnanda. Sóknaraðilar fullyrða að úrslit málsins hafi fyrst orðið þeim kunn 19. júní 2014, þegar komið var með fjárnámsboðun til sóknaraðilans Ingigerðar. Beiðni þeirra um endurupptöku málsins barst héraðsdómi stuttu síðar, eða 24. júní sama ár. Varnaraðili telur á hinn bóginn að sóknaraðilum hafi mátt vera kunnugt um málsúrslit mun fyrr, enda hafi stefna málsins verið löglega birt og fyrir liggi að Robert, lögfræðingur og stjórnarmaður í Kaupmiðlun ehf., hafi hringt í dóminn eftir þingfestingu til að benda dómara á ýmis atriði sem hann taldi betur mega fara. Fyrir fullyrðingu sinni, um að sóknaraðilum hafi verið kunnugt um málsúrslit mun fyrr, ber varnaraðili sönnunarbyrði samkvæmt 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varnaraðili hefur ekki fært neinar sönnur á að sóknaraðilum hafi verið kunnugt um málsúrslit fyrir 19. júní 2014. Það eitt að málsaðilar hafi vitað af málshöfðuninni fyrir þann tíma telst ekki sönnun þess að þeim hafi verið kunnugt um málalokin. Telst þessi málsástæða varnaraðila því ósönnuð. Verður því lagt til grundvallar við úrlausn málsins að sóknaraðilum hafi ekki orðið kunnugt um úrslit máls nr. E-3972/2013 fyrr en 19. júní 2014. Beiðni þeirra barst héraðsdómi 24 sama mánaðar. Er því fullnægt skilyrði 2. mgr. 137. gr. laganna um að beiðni sóknaraðila hafi borist innan þess tímafrests sem þar er tilgreindur.

Kemur þá til álita hvort einhver þeirra fjögurra skilyrða sem kveðið er á um í 2. mgr. 137. gr. séu uppfyllt.

Fram er komið að stefna í máli nr. 3972/2013 var birt fyrir sóknaraðilanum Ingigerði á lögheimili hennar og tók hún einnig við stefnunni fyrir hönd sóknaraðilans Kaupmiðlunar, sem er með lögheimili á sama stað. Verður að skilja málatilbúnað aðila á þá leið að ekki sé um það deilt að stefna málsins hafi verið réttilega birt. Kemur a-liður 2. mgr. 137. gr. því ekki til frekari skoðunar í máli þessu.

Í málinu byggja sóknaraðilar á því að dómara hefði borið að vísa málinu frá, sbr. b-lið 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Byggist málatilbúnaður sóknaraðila að þessu leyti á því að dómara hafi borið að vísa málinu frá dómi vegna litis pendens áhrifa þingfestingar máls með sömu kröfum, sem höfðað var 5. september 2013. Hér er til þess að líta að það mál var fellt niður 3. október 2013, sama dag og mál það var höfðað sem hér er til umfjöllunar. Verður því ekki talið að fyrra málið hafi litis pendens áhrif og er málatilbúnaði sóknaraðila hvað þetta varðar hafnað.

Í öðru lagi telja sóknaraðilar að þar sem tveir tölustafir í kennitölu stefnanda höfðu víxlast í stefnunni hefði borið að vísa málinu frá dómi. Ekki verður fallist á með sóknaraðilum að vísa hefði átt málinu frá á þeim grundvelli einum enda verður að telja að ekki hafi farið á milli mála hver stefnandi málsins var, stefndu hafi mátt vera það fullljóst og eins að stefnu væri beint að þeim.

Í þriðja lagi telja sóknaraðilar að vísa hefði átt málinu frá dómi þar sem fyrirsvarsmaður stefnda Kaupmiðlunar ehf. var í stefnu sagður heita Róbert Árni Hreiðarsson, en sá maður hefur nú breytt nafni sínu í Robert Downey. Hér er til þess að líta að opinber gögn báru með sér að fyrirsvarsmaður stefnda héti enn Róbert Árni Hreiðarsson á þeim tíma er stefnan var birt. Þá var kennitala hans var réttilega tilgreind í stefnu. Þá telja sóknaraðilar það hafa þýðingu fyrir því að málinu hefði átt að vísa frá að heimilisfang Roberts er sagt vera að Traðarlandi 12 í Reykjavík, en hið rétta mun vera að heimilisfang hans sé að Grænási 1b í Reykjanesbæ. Ljóst er að hið stefnda félag, Kaupmiðlun ehf., átti lögheimili að Traðarlandi 12 í Reykjavík og mátti þar af leiðandi birta stefnu á hendur félaginu þar, sbr. 4. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður því ekki talið að vísa hefði átt málinu frá dómi vegna þessa.

Í fjórða lagi telja sóknaraðilar að vísa hefði átt málinu frá dómi á grundvelli 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, enda hafi varnaraðili ekki sýnt fram á að réttur hans til málsóknar á hendur stefndu sé til orðinn eða til staðar. Taka verður undir með varnaraðilum að framsetning þessarar málsástæðu sóknaraðila er of óskýr og vanreifuð til að unnt sé að leggja efnislegt mat á hana.

Er því ekkert fram komið, sem leiðir til þeirrar niðurstöðu að vísa hefði átt málinu frá dómi. Gögn málsins og málatilbúnaður stefnanda þótti fullnægjandi á sínum tíma og ekkert hefur verið leitt í ljós undir rekstri þessa þáttar málsins sem leiðir til annarrar niðurstöðu.

Sóknaraðilar byggja einnig á því að sýkna hefði átt þá að einhverju leyti eða öllu í málinu, sbr. c-lið 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Mat þetta er nokkrum erfiðleikum bundið þar sem málatilbúnaður sóknaraðila er nokkuð óskýr hvað þetta varðar. Þó verður hann helst skilinn þannig að þörf hefði verið á aðild húsfélags Traðarlands 10-16 að málinu. Verður þá helst ráðið af málatilbúnaði sóknaraðila að um aðildarskort hafi verið að ræða sem leitt hefði til sýknu á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Ekki verður talið að sú málsástæða sóknaraðila sem varðar reglur fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 og aðkomu húsfélags að málsókninni geti haft nokkra þýðingu í málinu, enda ljóst að hin umdeildu tré voru séreign sóknaraðila og var kröfum um að þau yrðu fjarlægð og að skemmdir sem trén ollu yrðu lagfærðar því réttilega beint að sóknaraðilum. Er því hafnað að c-liður 2. mgr. 137. gr. geti átt við í málinu.

Málatilbúnaður sóknaraðila hvað varðar umræddan c-lið 2. mgr. 137. gr. verður einnig skilinn svo að þeir telji jafnvel að allir eigendur Traðarlands 10-16 hafi þurft að eiga aðild að málinu en varnaraðili hafi ekki getað hlutast einn til um það að fara í mál við sóknaraðila vegna umræddra trjáa. Hvað þetta varðar er til þess að líta að sé reglum um samaðild samkvæmt 18. gr. laga nr. 91/1991 ekki fylgt leiðir það til frávísunar máls en ekki sýknu. Ráða má af gögnum málsins að hluti lóðarinnar að Traðalandi 10 til 16 sé að einhverju leyti í sameign eigenda Traðarlands 10 og 16 og sóknaraðila og varnaraðila. Þá kemur fram í stefnu málsins að allir eigendur Traðarlands 10 til 16 hafi áður staðið sameiginlega að greiðslu kostnaðar vegna fyrri hreinsunaraðgerða vegna umræddra aspa. Þrátt fyrir þetta verður að telja að varnaraðili hafi haft sjálfstæða hagsmuni af því að fá skorið úr um sakarefnið í máli nr. E-3972/2013. Verður einnig að hafa í huga að fasteignareigendum Traðarlands 10 og 16 var stefnt til réttargæslu í málinu til að gæta hagsmuna sinna. Verður því heldur ekki talið að sjónarmið hvað þetta varðar geti orðið til þess að endurupptaka máls nr. E-3972/2013 verði heimiluð.

Þá þykir ástæðulaust að fjölyrða um skilyrði d-liðar 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991.

Að öllu framangreindu virtu verður að hafna kröfu sóknaraðila um að málið nr. E-3972/2013 verði endurupptekið.

Eins og atvikum máls þessa er háttað þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Af hálfu sóknaraðilans, Ingigerðar Hjaltadóttur, flutti málið Snorri Sturluson hdl. Af hálfu sóknaraðilans, Kaupmiðlunar ehf., flutti málið Robert Downey fyrirsvarsmaður félagsins. Af hálfu varnaraðila flutti málið Þorsteinn Ingi Valdimarsson hdl.

Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu sóknaraðila, Ingigerðar Hjaltadóttur og Kaupmiðlunar ehf., um endurupptöku málsins nr. E-3972/2013, Sara Sigurðardóttir gegn Ingigerði Hjaltadóttur og Kaupmiðlun ehf. og til réttargæslu Helgu Valsdóttur, Önnu Kathrine Angvik Jacobsen og Andra Sigþórssyni, er hafnað.

Málskostnaður fellur niður.