Hæstiréttur íslands

Mál nr. 487/2009


Lykilorð

  • Viðurkenningarkrafa
  • Áskorun
  • Frávísun frá héraðsdómi
  • Sératkvæði


Miðvikudaginn 21. apríl 2010.

Nr. 487/2009.

Tómas Arnarson

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Ólafur Eiríksson hrl.)

Viðurkenningarkrafa. Áskorun. Frávísun máls frá héraðsdómi. Sératkvæði.

T höfðaði mál gegn V og krafðist þess að viðurkennd yrði greiðsluskylda V úr slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 vegna líkamstjóns sem T kvaðst hafa orðið fyrir. Talið var að skilyrðum 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 væri ekki fullnægt í málinu þar sem óvissa ríkti um hagsmuni T af viðurkenningu þeirri sem hann krafðist. Var málinu vísað frá héraðsdómi af sjálfsdáðum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 23. júní 2009, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 5. ágúst 2009. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjaði hann héraðsdómi öðru sinni 28. ágúst 2009. Áfrýjandi krefst viðurkenningar á greiðsluskyldu stefnda úr slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 vegna líkamstjóns er hann hafi orðið fyrir í umferðarslysi 10. apríl 2004. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að höfða mál til að leita viðurkenningardóms um kröfu hafi aðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur í dómum Hæstaréttar verið skýrður svo, að sá sem höfðar mál til viðurkenningar á greiðsluskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni, í hverju það felist og hver tengsl þess séu við atvik máls. Um þetta hefur áfrýjandi vísað til vottorða læknanna Stefáns Dalbergs 29. mars 2005 og Gauta Laxdals 13. júní 2008. Í vottorði Stefáns er ekki getið um slys sem áfrýjandi hafði lent í nokkrum árum fyrir þann atburð sem um er deilt í þessu máli. Stefán gaf ekki skýrslu fyrir dómi. Fyrir dómi kom fram hjá Gauta að hann hefði skoðað áfrýjanda 5. júní 2008. Áfrýjandi hafi þá látið hjá líða að geta um slys sem hann hafi orðið fyrir á árinu 2006. Aðspurður kvaðst Gauti ekki geta sagt til um þýðingu þess slyss við mat á ætluðu tjóni áfrýjanda vegna atviksins 10. apríl 2004. Stefndi hefur andmælt því að sönnur séu fram komnar um að áfrýjandi hafi orðið fyrir tjóni 10. apríl 2004 og skorað á áfrýjanda að leggja fram gögn um afleiðingar umræddra slysa. Áfrýjandi hefur ekki sinnt þeirri áskorun og er því óvissa í málinu um hagsmuni hans af viðurkenningu þeirri sem hann krefst. Samkvæmt þessu hefur hann ekki sýnt fram á að framangreindum skilyrðum 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 sé fullnægt. Verður málinu því vísað frá héraðsdómi af sjálfsdáðum.

Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður ákvæði héraðsdóms um málskostnað staðfest. Þá verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Áfrýjandi, Tómas Arnarson, greiði stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Sératkvæði

Hjördísar Hákonardóttur

Áfrýjandi byggir kröfu sína á því að hann hafi orðið fyrir tjóni í umferðarslysi 10. apríl 2004. Fram er komið í málinu að auk þess slyss hefur áfrýjandi tvívegis lent í umferðarslysi, í ársbyrjun 2000 og 1. febrúar 2006. Eins og greinir í atkvæði meirihluta dómsins vísar hann um meiðsli sín í umferðarslysinu 10. apríl 2004 og afleiðinga þeirra til vottorða læknanna Stefáns Dalbergs 29. mars 2005 og Gauta Laxdals 13. júní 2008. Í vottorði Stefáns Dalberg er ekki getið um slysið árið 2000 og fram er komið að Gauta Laxdal var ekki kunnugt um slysið árið 2006 þegar hann samdi sitt vottorð. Áfrýjandi varð ekki við áskorun stefnda um að leggja fram öll gögn um umferðarslysin árin 2000 og 2006 og tjón af völdum þeirra. Áfrýjandi hefur því ekki fært fram fullnægjandi sönnun fyrir því hann hafi orðið fyrir tjóni í umferðarslysinu 10. apríl 2004. Þegar af þeirri ástæðu ber að sýkna stefnda af kröfu áfrýjanda.

Ég er sammála atkvæði meirihluta dómsins um málskostnað.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. mars 2009.

Mál þetta var höfðað 14. október 2008 og dómtekið 16. þ.m.

Stefnandi er Tómas Arnarson, Kórsölum 3, Kópavogi.

Stefndi er Vátryggingafélag íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.

Stefnandi krefst viðurkenningar á greiðsluskyldu stefnda úr slysatryggingu öku­manns samkvæmt 92. gr. og 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 vegna líkams­­­tjóns sem stefnandi varð fyrir í umferðarslysi 10. apríl 2004.  Einnig krefst stefn­andi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

1

Málsóknin grundvallast á atviki sem varð laugardaginn 10. apríl 2004 kl. 00.24 samkvæmt skýrslu lögreglunnar í Kópavogi.  Samkvæmt henni fékk lögreglan til­kynn­ingu frá fjarskiptamiðstöð lögreglunnar um að bifreið hefði verið ekið á vegg í bifreiðageymslunni í Fannborg, Kópavogi og slys hefðu orðið á fólki.  Um aksturs­skilyrði segir að myrkur hafi verið, lítil lýsing, skýjað og regn.  Yfirborð vegar: Mal­bikað, slétt.  Færð:  Blautt.  Lögreglumenn, sem hafi farið á vettvang, hafi séð að bif­reið­inni YU-807 hafi verið ekið á vegg.  Tveir menn, stefnandi máls þessa og Valur Hermannsson, hafi kropið á hnjám sínum skammt frá bifreiðinni og sjúkrabifreið hafi þegar verið komin á vettvang.  Stefnandi hafi sagst hafa verið ökumaður bifreiðarinnar og Valur hafi sagst hafa verið farþegi hennar.  Stefnandi hafi sagst vera eigandi bif­reiðarinnar og vera með tryggingar hjá Vátryggingafélagi Íslands.

Eftir stefnanda er haft að hann hafi ekið niður í bifreiðageymsluna á 45-50 km/klst. hraða og að hann hafi allt í einu misst stjórn á bifreiðinni.  Hann hafi ekki gert sér neina grein fyrir því hvað hafi gerst, bifreiðin hafi bara allt í einu lent á veggnum.  Stefnandi var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítalans í Foss­vogi.  Ástandi stefnanda er lýst þannig að sjáöldur hafi verið útvíkkuð, framburður ruglingslegur og málfar óskýrt og var það mat lögreglumanna að hann væri undir áhrifum einhverra lyfja.  Lögreglumaður fór með sjúkrabifreiðinni og segir í skýrsl­unni að hann hafi heyrt stefnanda segja að hann  hefði tekið Ritalintöflur en þegar hann hafi verið inntur eftir þessu hafi hann sagst aldrei hafa sagt þetta og að hann væri ekki undir áhrifum neinna lyfja.  Vegna gruns um að stefnandi hefði ekið undir áhrifum lyfja hafi honum verið tekið blóð til rannsóknar.

Eftir Vali er haft að hann hafi ekki vitað hvað hafi gerst.  Hann hafi sagst ekki vita á hvaða hraða  bifreiðinni hefði verið.  Valur hafi verið fluttur með sömu sjúkra­bifreið og stefnandi á slysadeildina.  Er þangað var komið hafi hann verið spurður hvort hann væri undir áhrifum einhverra efna  og hafi hann sagst vera búinn að reykja hass en vissi ekki hvort hinu sama gegndi um stefnanda.

Í lögregluskýrslunni segir að vegna þess að hvorugur mannanna hafi setið undir stýri þegar að var komið hafi Vali einnig verið tekið blóð og hann hafi einnig gefið þvagsýni.  Læknir hafi verið spurður hvort unnt væri að gera einhvers konar aksturs­mat á mönnunum en hann hafi sagt það ekki vera.  Bifreiðin YU-807 hafi verið óökufær og verið fjarlægð af vettvangi.  Stefnandi er sagður hafa hlotið lítil meiðsl á hálsi og baki.  Ljósmyndir, sem lögreglan tók á vettvangi, liggja frammi í málinu.  Í framlagðri lögregluskýrslu, dags. 19. október 2004, sem hefur að efni upplýsingar um ætluð tryggingasvik, segir m.a. að við athugun hafi komið í ljós að bifreiðin (YU-807) hafi orðið fyrir tjóni og muni stefndi í máli þessu hafa tekið hana í sína vörslu/eigu 11. maí 2004 og greitt einhvern pening út til viðkomandi aðila vegna tjónsins.

Hinn 19. apríl 2004 gaf stefnandi skýrslu hjá lögreglunni í Kópavogi um framangreint atvik.  Hann kvaðst viðurkenna að hafa ekið bifreiðinni YU-807 í umrætt sinn með þeim afleiðingum að hún rakst á húsvegg.   Hann kvað ástæðuna hafa verið þá að hann hafi verið að ræða við farþega sinn, er hafi setið honum á hægri hlið, og misst augnablik athyglina með þeim afleiðingum að hann hafi ekið á vegginn.  Hann kvaðst hafa tognað í baki og ekki vera búinn að ná sér.  Hann kvað það ekki vera rétt að hann hafi verið undir áhrifum lyfja og minntist hann þess ekki að hafa haldið slíku fram við lögreglumennina á vettvangi.

Stefnandi hefur lagt fram tvö læknisvottorð.

Í vottorði Stefáns Dalberg bæklunarlæknis, dags. 29. mars 2005, segir að stefnandi hafi eftir umrætt atvik farið á slysadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss í Fossvogi.  Þar hafi hann verið skoðaður og myndir teknar af baki.   Ekki hafi sést brot en vaxtartruflun hafi sést í liðbol í brjóstbaki.  Hann hafi verið sendur heim sama dag og síðan í sjúkraþjálfun sem hann stundi enn.  Í niðurlagi vottorðsins segir:  „Tómas virðist hafa orðið fyrir varanlegu líkamstjóni í slysinu 10.04.2004.  Hann hefur hlotið tognun á háls og lendhrygg.  Eru einkennin fremur væg í dag, bæði frá hálsinum og lendhryggnum.  Um ár er nú liðið frá slysinu og hefur ástandið verið stabilt síðustu mánuðina.  Ekki er að búast við að hann verði betri með tímanum og telst ástand í dag vera varanlegt.“

Í vottorði Gauta Laxdal bæklunarlæknis, dags. 13. júní 2008, sem hann stað­festi fyrir dóminum, er haft eftir stefnanda að rétt eftir aldamótin hafi hann lent í bílslysi.  Ekið hafi verið í veg fyrir bifreið, sem hann var í, og hann fengið áverka á brjóstbak.  Við bílslysið 10. apríl 2004 hafi verkir í brjóstbakinu, sem hann hafi verið með eftir fyrra slysið, aukist.  Í niðurlagi vottorðsins segir:  „Nokkuð erfitt er að segja til um framtíðarhorfur hvað varðar bata, honum líður svo sem ágætlega í dag en finnur þó sérstaklega fyrir verkjum í brjóstbaki í hvíld sem getur hugsanlega fylgt honum allt lífið.  Það góða er að þetta háir honum ekki svo mikið í vinnunni fyrir utan þegar hann þarf að lyfta þungum hlutum.  Tel ég víst að hans óþægindi í hvíld komi til með að fylgja honum um óákveðinn tíma.  Gæti þurft að halda sér frá erfiðisvinnu í fram­tíðinni.“

Engin gögn liggja fyrir í málinu um umferðarslys sem stefnandi hafi lent í áður en atvik það varð sem um ræðir í málinu.  Hins vegar liggur frammi lögregluskýrsla um umferðarslys 3. febrúar 2006 er bifreið var ekið aftan á kyrrstæða bifreið sem stefnandi var í.  Þar er ekki getið um að stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni.  Frammi liggur umboð stefnanda, dags. 7. mars 2006, til lögmanns til að gæta hagsmuna hans gagnvart Sjóvá-Almennum tryggingum hf. eða öðrum þeim sem málið kynni að beinast að vegna þessa umferðarslyss.  Þar segir:  „. . . Í slysinu varð ég fyrir meiðsl­um á baki og hálsi.“

Með bréfum, dags. 11. október 2006 og 22. ágúst 2007, fór lögmaður stefnanda þess á leit við stefnda að hann viðurkenndi bótaskyldu sína vegna líkams­tjóns sem hann hafi orðið fyrir í umferðarslysi 10. október (svo) 2004.

2

Á því er byggt af hálfu stefnanda að málsóknin sé reist á slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. og 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 en bifreið stefnanda hafi verið tryggð lögboðinni ökumannstryggingu hjá stefnda á slysdegi.  Stefndi hafi ekki viljað viðurkenna bótaábyrgð á slysinu og greiðsluskyldu sína sam­kvæmt vátryggingarsamningi við stefnanda.  Fyrir liggi, sbr. framlögð læknisvottorð, að stefnandi hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni í umferðarslysinu.  Orsakatengsl séu á milli slyssins og líkamstjóns stefnanda og beri stefndi skaðabótaábyrgð á slysinu samkvæmt áður tilvitnuðum lagaákvæðum.

3

Samkvæmt tveimur upplýsingaskýrslum lögreglu, dags. 13. apríl og 14. desember 2004, höfðu tveir menn, sem óskuðu nafnleyndar, samband við lögreglu og lýstu vitneskju sinni um að umræddur vátryggingaratburður hefði verið viljaverk, fram­inn í þeim tilgangi að svíkja út tjónabætur hjá tryggingafélagi.

Með bréfi 20. október 2004 óskaði stefndi eftir nánari lögreglurannsókn vegna umrædds atviks.  Haft hafi verið samband við félagið og því tilkynnt að möguleiki væri á því að umferðaróhappið hafi verið sviðsett með það fyrir augum að svíkja út tjónabætur.

Þegar atvik málsins gerðust lágu fyrir hjá lögreglu upplýsingar sem fengnar voru á grundvelli úrskurða héraðsdóms til að hlera síma Ágústs Ragnars Gestssonar og Gunnars Kristjáns Haraldssonar í öðru óskyldu máli.

Í útprentun af símtali Gunnars Kristjánssonar og Ágústs Ragnars Gestssonar frá 8. febrúar 2004 segir Ágúst Gunnari að hann ætli að láta Tomma kaupa bifreið sína af sér í þeim tilgangi að eyðileggja hana þannig að hann fái bifreiðina bætta úr kaskótryggingu.  Degi síðar afsalar Gestur Halldórsson, faðir Ágústs Ragnars, bifreið­inni YU-807 til stefnanda.  Samhliða afsalinu yfirtók stefnandi áhvílandi veðskuldir á bifreiðinni en fyrir yfirtökuna var Ágúst Ragnar Gestsson skuldari samkvæmt áhvílandi skuldabréfi.  Í útprentun af símtali Gunnars Kristjánssonar og Ágústs Ragnars Gestssonar frá 17. febrúar 2004 segir Ágúst Gunnari að Tommi, sem sé nú með bifreiðina á sínu nafni, ætli að eyðileggja hana þannig að hún fáist greidd úr tryggingunum.  Í útprentunum af símtölum Ágústs Ragnars Gestssonar og stefnanda frá 3. mars til 31. mars 2004 má sjá að Ágúst er að ýta á eftir stefnanda að framkvæma eitthvað það sem hann hafi lofað að gera og tengist bifreið.  Samkvæmt framlagðri yfirlýsingu yfirtók stefnandi frá og með 9. febrúar 2004 allar skuldbindingar fyrri lántaka og sjálfsskuldarábyrgðartaka gagnvart SP-Fjármögnun hf. samkvæmt skulda­bréfi sem hvíldi á 1. veðrétti bifreiðarinnar YU-807.

Við yfirheyrslur hjá lögreglu 31. janúar og 12. desember 2006 neitaði stefnandi að tjá sig um það sakarefni að vaknað hafi grunsemdir um að umferðar­óhappið, sem um ræðir í málinu, hafi verið sviðsett í þeim tilgangi að fá bifreiðina YU-807 greidda út úr tryggingum.

4

Stefndi byggir kröfur sínar á því að stefnandi hafi valdið vátryggingar­atburðinum af ásetningi og að hann beri því ekki ábyrgð á greiðslu bóta vegna atburðarins, sbr. 1. mgr. 18. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, 5. gr. skilmála slysa­tryggingar ökumanns og eiganda, 4. gr. almennra skilmála stefnda og 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga.  Um þetta vísar stefndi til þess sem greinir í 3. kafla dómsins.

Verði ekki fallist á það að stefnandi hafi valdið vátryggingaratburðinum af ásetningi telur stefndi sýnt að hann hafi verið meðvaldur að tjóninu af stórkostlegu gáleysi, sbr. 2. mgr. 18. gr. og 20. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, 5. gr. skilmála slysa­tryggingar ökumanns og eiganda, 4. gr. almennra skilmála stefnda og 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga og að því beri að fella bætur fyrir líkamstjón stefnanda niður.  Í þessu efni er annars vegar byggt á því að stefnandi hafi ekið bifreiðinni YU-807 sjálfviljugur undir áhrifum sterks, örvandi lyfs þegar vátryggingaratburðurinn átti sér stað, þ.e.  ritalin, sem innhaldi metylfenidat, sem sé náskylt amfetamini og sé örvandi lyf.  Í annan stað er vísað til þess að stefnandi hafi ekið bifreiðinni á 45-50 km. hraða niður í bifreiðageymslu í gegnum göng þar sem veggur á báða kanta aðgreinir einbreiða innkeyrsluna og útsýni er takmarkað, sérstaklega um miðnætti í apríl þar sem er myrkur, lítil lýsing, skýjað, regn og yfirborð vegar slétt og blautt.  Aksturshraði stefnanda hafi ekki verið í samræmi við skyldu hans til að haga aksturshraða í samræmi við aðstæður, sbr. 36. gr. umferðarlaga, og hafi gáleysi hans verið stór­kostlegt.

Stefndi byggir enn fremur á því að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni sem sé afleiðing af umræddu atviki.  Af læknisvottorði Gauta Laxdal megi sjá að stefnandi hafi lent í umferðarslysi upp úr aldamótum og að rekja megi nú­verandi líkamstjón hans að mestu eða öllu til þess slyss.  Ekki sé minnst á þetta slys né afleiðingar þess í læknisvottorði Stefáns Dalberg.  Þá hafi stefnandi  ekki látið þess getið við Gauta Laxdal að hann hafi einnig lent í umferðarslysi í febrúar 2006 sem hafi leitt til meiðsla í baki og hálsi.  Utan þessara ófullkomnu vottorða séu engin gögn í málinu sem geti rennt stoðum undir þá fullyrðingu stefnanda að hann hafi orðið fyrir líkamstjóni sem sé afleiðing atburðar sem leiði til greiðsluskyldu stefnda.

5

Aksturshraði stefnanda í umrætt sinn var allt of mikill miðað við aðstæður, sbr. 36. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, samkvæmt frásögn hans og þeim afleiðingum ákeyrsl­unnar að bifreið hans eyðilagðist.  Akstursmáti stefnanda var raunar með ólík­indum þegar mið er tekið af aðstæðum sem samkvæmt gögnum málsins er réttilega þannig lýst af hálfu stefnda að stefnandi ók bifreiðinni á 45-50 km. hraða niður í bifreiðageymslu í gegnum göng þar sem veggur á báða kanta aðgreinir einbreiða inn­keyrsluna og útsýni er takmarkað, sérstaklega um miðnætti í apríl þar sem er myrkur, lítil lýsing, skýjað, regn og yfirborð vegar slétt og blautt. 

Samkvæmt framangreindu olli stefnandi vátryggingaratburðinum með stór­felldu gáleysi og er niðurstaða dómsins sú að þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda, sbr. 20. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, nú 2. mgr. 27. gr. laga nr. 30/2004 um sama efni, 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, 5. gr. vátryggingarskilmála slysatryggingar ökumanns og eiganda og 4. gr. almennra-sameiginlegra- skilmála stefnda.  Dæma ber stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 300.000 krónur.

Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Tómasar Arnarsonar.

Stefnandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað.