Hæstiréttur íslands
Mál nr. 267/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Þriðjudaginn 26. maí 2009. |
|
Nr. 267/2009: |
Ákæruvaldið(Karl Vilbergsson, aðstoðarsaksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. maí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, þó ekki lengur en til föstudagsins 19. júní 2009 kl. 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2009.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess, að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði ákærða, X, kt. [...], til að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. júní nk. kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram, að með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2009 nr. R-113/2009 hafi ákærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til 24. apríl á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Gæsluvarðhaldinu var framlengt með úrskurði 24. apríl sl. til dagsins í dag kl. 16.
Ákærði sæti nú ákærumeðferð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem honum sé gefin að sök, samkvæmt fjórum ákæruskjölum, fjölmörg afbrot. Einkum sé um að ræða auðgunarbrot, s.s. rán, þjófnaði, fjársvik, hylmingu, og ólögmæta meðferð fundins fjár, auk umferðarlaga- og fíkniefnalagabrota.
Aðalmeðferð málsins hafi hafist 22. apríl sl., en þar sem ekki hafi reynst unnt að yfirheyra öll vitni málsins, var aðalmeðferðinni framhaldið þriðjudaginn 12. maí nk. Til stóð að ljúka meðferð málsins nú fyrr í dag, með því að taka skýrslu af vitni sem vistað sé á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Samkvæmt upplýsingum læknis hafi vitnið verið alls ófært um að gefa skýrslu í dag og hafi málinu því verið frestað til 3. júní nk. og megi þá vænta dóms fljótlega í kjölfarið.
Ákærði eigi að baki langan sakarferil sem nái allt til ársins 1990 og á þeim tíma hafi hann hlotið 10 fangelsisdóma fyrir auðgunarbrot. Ljóst sé að verði hann fundinn sekur um þau brot sem að ofan greinir muni hann fá óskilorðsbundna fangelsisrefsingu. Ákærði sé vanaafbrotamaður í skilningi 72. gr. almennra hegningarlaga, en brotaferill hans hafi verið samfelldur frá því í mars í fyrra uns hann hafi verið hnepptur í varðhald.
Við rannsókn mála ákærða hafi komið í ljós að hann sé án heimilis og atvinnu og hafi verið í mikilli neyslu fíkniefna. Ætla megi að hann framfleyti sér og fjármagni fíkn sína með afbrotum.
Það sé mat lögreglustjóra að kærði muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus. Nauðsynlegt sé því að kærði sæti gæsluvarðhaldi svo unnt verði að ljúka málum hans bæði fyrir dómi og hjá lögreglu.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Samkvæmt framangreindu og gögnum málsins er fullnægt skilyrðum þess að beitt verði gæsluvarðhaldi samkvæmt c-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og fallist er á að til þess sé rökstudd ástæða. Samkvæmt þessu er fallist á framkomna kröfu eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Ákærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. júní nk. kl. 16.00.