Hæstiréttur íslands
Mál nr. 487/2008
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 12. nóvember 2009. |
|
Nr. 487/2008. |
Ákæruvaldið(Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari) gegn X(Kristján Stefánsson hrl.) |
Líkamsárás. Skilorð.
X var sakfelldur fyrir fjórar líkamsárásir gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni og tveimur börnum hennar. Voru brotin heimfærð undir 217. gr. og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og refsing hans ákveðin með vísan til 77. gr. sömu laga. X neitaði sök í málinu. Hann hafði ekki áður hlotið refsingu, en að öðru leyti var ekki talið að hann ætti sér málsbætur. Ekki var talið að 3. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga ætti við í málinu en við ákvörðun refsingar var litið til 3. mgr. 70. gr. sömu laga. Var X dæmdur í 8 mánaða fangelsi, þar af 6 mánuði skilorðsbundið í fjögur ár, auk þess sem honum var gert að greiða fyrrverandi sambýliskonu sinni skaðabætur að fjárhæð 300.000 krónur, dóttur hennar 75.000 krónur og syni hennar 120.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 25. ágúst 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða, en að refsing verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms en til vara sýknu. Að því frágengnu krefst hann þess að refsing hans verði milduð og skilorðsbundin að fullu. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfum A, B og C verði vísað frá héraðsdómi en til vara að þær verði lækkaðar.
A skilaði greinargerð í málinu fyrir hönd brotaþola og krafðist þess aðallega að bætur til hennar og B og C yrðu hækkaðar, en til vara að niðurstaða héraðsdóms um bætur yrði staðfest. Þar sem ekki var mætt af hálfu brotaþola við meðferð málsins fyrir Hæstarétti, er litið svo á að þau krefjist staðfestingar héraðsdóms um bótaþátt málsins, líkt og varakrafa þeirra kveður á um.
Ákærði krefst ómerkingar héraðsdóms á þeirri forsendu að dómurinn hafi átt að vera fjölskipaður, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, nú 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákvæðið felur í sér heimild til að ákveða að þrír héraðsdómarar skipi dóm í máli ef sýnt þykir að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Eins og sönnunarfærslu er hér háttað er ekki tilefni til þess að hnekkja mati héraðsdómara um þetta atriði. Kröfunni er hafnað.
Í I. ákærulið er afleiðingum brots lýst þannig að brotaþoli hafi hlotið „fingurbrot“, en samkvæmt læknisvottorði var um að ræða spiral brot á miðhandarbeini vinstri handar. Læknir sem lýsti áverkanum fyrir dómi sagði að slíkur áverki gæti hlotist af því að tekið væri um hönd og snúið upp á. Hversu miklu afli þyrfti að beita til þess að brot hlytist af ylti á því hvernig álagið kæmi á hönd og fingur. Þykir greind ónákvæmni í orðalagi ákæru ekki vera slík að einhverju geti varðað um niðurstöðu málsins, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991, nú 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008.
Af málsatvikum í IV. ákærulið er ljóst að brotaþolinn B átti ekki upptök af þeim átökum sem þar er lýst, en var að koma móður sinni til varnar. Á 3. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 því ekki við í þessu tilviki. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms að öðru leyti er niðurstaða hans um sakfellingu og heimfærslu brota ákærða samkvæmt öllum fjórum ákæruliðunum staðfest.
Ákærði er fundinn sekur um líkamsárás í fjögur skipti. Varðar brot hans í tveimur tilvikum við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og tveimur við 217. gr. sömu laga. Verður refsing samkvæmt þessu ákveðin með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði neitaði sök í málinu. Hann hefur ekki áður hlotið refsingu, en að öðru leyti á hann sér ekki málsbætur. Aðilar voru í sambúð í nokkur ár og bjuggu brotaþolarnir C og B á heimilinu auk fleiri barna. Rökstyður héraðsdómari refsingu réttilega með vísan til 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, en ákvæðið tekur bæði til brota sem framin eru á meðan sambúð stendur og eftir að henni lýkur. Eins og að framan greinir á 3. mgr. 218. gr. b. laganna ekki við. Þrátt fyrir það þykir mega staðfesta héraðsdóm um ákvörðun refsingar, þó þannig að skilorðstími hennar verði lengdur eins og í dómsorði greinir.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og um skaðabætur til brotaþola verða staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í átta mánuði. Fresta skal fullnustu sex mánaða af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum fjórum árum frá uppsögu þessa dóms haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og skaðabætur skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 266.156 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 23. júlí 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni framhaldsaðalmeðferð 8. júlí 2008, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, dagsettri 7. febrúar 2008, gegn X, kt. og heimilisfang, [...],
„fyrir eftirtaldar líkamsárásir:
I. (M. 007-2007-22903)
Með því að hafa sunnudaginn 1. apríl 2007, veist að A, kt. [...], barnsmóður og þáverandi sambýliskonu hans, á heimili þeirra að [...] í [...], þar sem hún lá í rúmi með ungan son þeirra, og tekið þar um vinstri hönd hennar og snúið upp á hana, með þeim afleiðingum að hún hlaut fingurbrot.
Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981 og 111. gr. laga nr. 82, 1998.
Í málinu gerir áðurnefnd A þá kröfu að ákærði verði dæmdur til „endurgreiðslu útlagðs kostnaðar samkvæmt meðfylgjandi kvittun samtals 15.368“ og dæmdur til að greiða fyrir launamissi í einn mánuð en launatap hennar nam kr. 96.325, sem og kröfu um að hann verði dæmdur til að greiða henni miska- og þjáningabætur að fjárhæð kr. 750.000, auk greiðslu um „lögfræðiaðstoð, kr. 31.125 innifalið virðisaukaskattur“. Gerð er krafa um vexti samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
II. (M. 007-2007-71357)
Með því að hafa þriðjudaginn 6. febrúar 2007, ráðist á C, kt. [...], son A þáverandi sambýliskonu hans, á heimili þeirra að [...] í [...] og þrifið í vinstri hönd C og snúið upp á fingur hans, með þeim afleiðingum að vinstri baugfingur brotnaði.
Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981 og 111. gr. laga nr. 82, 1998.
Í málinu er gerð sú krafa að ákærði verði dæmdur til greiða C „endurgreiðslu útlagðs kostnaðar samkvæmt meðfylgjandi kvittun kr. 1025 og „miska- og þjáningabætur að fjárhæð kr. 125.000 og að lokum er gerð krafa um greiðslu fyrir lögfræðiaðstoð kr. 31.125 innifalið virðisaukaskattur“. Gerð er krafa um vexti samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
III. (M. 007-2007-39226)
Með því að hafa að kvöldi þriðjudagsins 29. maí 2007, ráðist á A, í bifreið hennar á bifreiðastæði við [...] í [...] og tekið hana þar hálstaki, hert að og svo hrist höfði hennar til.
Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981 og 110. gr. laga nr. 82, 1998.
IV. (M. 007-2007-56988)
Með því að hafa að kvöldi miðvikudagsins 25. júlí 2007, við [...] í [...] ráðist á A, rifið í hár hennar, slegið hana hnefahöggi í andlit og snúið hana niður í jörðina, með þeim afleiðingum að hún hlaut kúlu og mar á enni vinstra megin, og fyrir að hafa veist að B, kt. [...], dóttur A, og snúið hana niður þegar hún reyndi að koma móður sinni til hjálpar, kreist báða upphandleggi hennar og hrist hana til, með þeim afleiðingum að hún hlaut mar á hægri upphandlegg og marblett á hægri framhandlegg og roða í lófum.
Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981 og 110. gr. laga nr. 82, 1998.
Í málinu er gerð sú krafa að ákærði verði dæmdur til að greiða B „miska- og þjáningabætur að upphæð kr. 125.000“, einnig er gerð krafa um „greiðslu fyrir lögfræðiaðstoð kr. 31.125 innifalið virðisaukaskattur“. Gerð er krafa um vexti samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar“.
Ákærði krefst aðallega sýknu og þess að bótakröfum verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann þess að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa og að hann verði sýknaður af bótakröfum. Verjandi ákærða krefst hæfilegra málsvarnarlauna.
Ákæruliður I.
Samkvæmt kæruskýrslu dagsettri 20. apríl 2007 kom A á rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þann dag kl. 13:04 og kærði líkamsárás sem hún hefði orðið fyrir af hendi sambýlismanns síns, ákærða í máli þessu, 1. apríl sama ár. Lýsti kærandi málsatvikum þannig að hún hefði verið á sameiginlegu heimili þeirra ákærða og ungs sonar þeirra, D. Ákærði hefði viljað fara með drenginn með sér í vinnuna um morguninn en kærandi hefði sagst ekki vera sátt við það þar sem hún væri að gefa drengnum brjóst. Ákærði hefði orðið ósáttur við þetta og rifið barnið af kæranda. Kærandi kvaðst þá hafa stjakað við ákærða og beðið hann um að láta sig í friði með barnið. Ákærði hefði hins vegar sakað kæranda um að halda barninu frá honum og í kjölfarið ráðist á hana. Hann hefði tekið í vinstri hönd kæranda og snúið upp á hana af afli. Kærandi hefði reynt að berjast um og hefði hún fundið fyrir miklum sársauka og öskrað hástöfum. Dóttir kæranda, E, hefði komið inn og þá hefði ákærði sleppt kæranda. Ástandið hefði róast og hefði ákærði tekið son þeirra með sér í vinnuna. Kærandi hefði farið á slysadeild til skoðunar þar sem komið hefði í ljós að hún var handarbrotin.
Kærandi kvaðst hafa slitið sambandi sínu við ákærða eftir þetta og sofið næstu tvær nætur í stofunni á heimili þeirra. Hún hefði ítrekað beðið ákærða um að yfirgefa heimilið en án árangurs. Lýsti kærandi síðan ýmsu andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu ákærða á þriggja ára sambúðartíma þeirra og kvað hún ástæðu sambúðarslitanna hafa verið spennu hennar og hræðslu vegna háttsemi ákærða. Kærandi mætti öðru sinni til skýrslutöku hjá lögreglu 24. apríl 2007 og lýsti fleiri tilvikum þar sem ákærði hefði beitt hana ofbeldi.
Í málinu liggur frammi læknisvottorð Ólafs Ragnars Ingimarssonar, sérfræðings á slysa- og bráðasviði Landspítala-háskólasjúkrahúss, dagsett 13. maí 2007. Þar kemur fram að kærandi hafi komið á slysa- og bráðasvið Landspítala 1. apríl 2007 kl. 10:37 með verk í vinstri hendi. Fram hafi komið að hún hafi lent í ryskingum við eiginmann sinn en þau hefðu rifist um ungt barn sem þau ættu saman. Hún hafi sagt að það hafi verið rifið í sig og hún hafi fengið áverka milli III. og IV. fingurs á vinstri hendi. Þegar það gerðist, hefði hún fundið smell og verið aum á þessu svæði á eftir. Síðan segir: „Við þessa skoðun var hún aum og bólgin yfir MC-III og IV (miðhandarbein) og sérstaklega þegar þreifað var yfir MC-IV. Rtg. mynd sýni spiral-brot í MC-IV vi. megin en það var góð brotalega. Hún fékk gipsspelku og síðan endurkomu og fór heim svo búið með almenna ráðgjöf“.
Um endurkomu segir í vottorðinu að þann 10. apríl 2007 hafi komið fram að um væri að ræða sambýlismann kæranda sem hefði áður veitt henni áverka. Hún hefði sagst hafa fengið fleiri áverka en þann sem hún sýndi 1. apríl og hefði hún sýnt lækni fölnandi marblett á vinstri upphandlegg sem er 2x3cm að stærð og annan minni sem er nánast alveg horfinn á hægri framhandlegg.
Þá kemur fram í vottorðinu að kærandi sé örvhent og vinni við [...] og sé óvinnufær. Þegar umbúðir voru teknar af fingri, hefði kærandi verið marin og bólgin og aum á brotsstað en engin snúningsskekkja hefði verið í brotinu. Henni hafi síðan verið sleppt úr eftirliti með tveggja fingra fixation, þ.e. IV. og V. fingur til verkjastillingar í nokkra daga til viðbótar og ráðlagt að hlífa sér við átökum. Var talið að reikna yrði með að kærandi yrði óvinnufær í minnst 3 vikur til viðbótar frá 10. apríl að telja. Kærandi var ekki skráð í endurkomu en heimilað að hafa samband við deildina ef einhver vandræði yrðu. Hún hefði hins vegar ekki verið í sambandi við sjúkrahúsið eftir þetta.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vætti vitna fyrir dóminum.
Ákærði hefur neitað sök og kannaðist ekki við að hafa beitt kæranda og fjölskyldu hennar ofbeldi. Hann kvaðst hafa tekið upp samband við kæranda í janúarlok 2004 en það hefði verið að leysast upp frá því í janúar 2007 og fram í apríl sama ár. Sambandið hafi verið stormasamt og ákærði hafi verið í vörn alla tíð en aðalorsök sambúðarslitanna hefði verið ofbeldi kæranda gagnvart sínum eigin börnum. Ákærði kvaðst hafa reynt að taka börnum kæranda eins og sínum eigin en það hafi reynst erfitt vegna afskipta fyrri sambýlismanns kæranda.
Ákærði lýsti atvikum umrætt sinn þannig að þau kærandi hefðu legið hlið við hlið uppi í rúmi. Ákærði hefði legið upp við vegginn en kærandi hefði verið að gefa ungum syni þeirra brjóst og legið hægra megin við ákærða, á brún rúmsins, og snúið í hann baki. Ákærði kvaðst hafa spurt kæranda hvort hann mætti taka drenginn með sér í vinnuna en kærandi brugðist illa við og snúið sér að ákærða og velt sér yfir hann en ákærði hefði þá sett hendurnar fyrir sig. Kærandi hefði ráðist á ákærða og tekið um úlnliði ákærða og þannig skilið drenginn eftir á blábrúninni en ákærði kvaðst þá hafa rykkt sér upp til fóta í rúminu. Ákærði kvaðst ekki hafa tekið á móti árás kæranda. Í kjölfarið hefði kærandi kveinkað sér en ákærði kvaðst ekki vita hvað olli því. Stuttu síðar, þegar ákærði var að klæða drenginn, hefðu þær E og B, sem voru fyrir utan gluggann, komið inn í herbergið. Þar sem kærandi kenndi sér meins, hefði ákærði klætt drenginn og farið með hann í vinnuna en þær systur og kærandi farið á slysadeild og látið skoða kæranda.
Aðspurður kvað ákærði ranga þá lýsingu kæranda á atvikum, að hann hafi tekið um vinstri hönd hennar og snúið upp á hana af afli og hún þá reynt að berjast um. Hugsanlegt væri að kærandi hefði hlotið áverka við það að ákærði reisti sig upp þar sem hún hélt í hann eins og hann hefur lýst og kannaðist ákærði við að hún hefði haft umbúðir um fingur sína í stuttan tíma. Tók ákærði fram, að það hefði ekki verið ásetningur sinn að meiða kæranda.
Sérstaklega spurður um framburð sinn í lögregluskýrslu 11. júní 2007, kvað ákærði rétt eftir sér haft en kvaðst þó ekki muna eftir að hafa heyrt smell þegar hann reisti sig upp í rúminu umrætt sinn eins og hann lýsti í skýrslunni, en kvað það þó vel geta hafa verið.
A, kærandi í máli þessu, kvað samband þeirra ákærða hafa staðið frá byrjun árs 2004 fram til 1. apríl 2007 en umrætt atvik þann dag hafi orðið til þess að upp úr sambúðinni slitnaði. Vitnið kvað fjögur börn sín, sem hún átti með fyrri manni sínum, hafa búið á sameiginlegu heimili þeirra ákærða á sambúðartímanum.
Vitnið kvað sambúðina hafa gengið vel í upphafi og að samskipti ákærða og barna vitnisins hafi verið góð. Fljótlega hefði þó farið að bera á afbrýðisemi ákærða og hann hafi m.a. bannað vitninu að umgangast vini sína og fjölskyldu og hafi hann einangrað hana. Þá hafi samskipti ákærða og barnanna versnað og hann talið að vitnið og börnin töluðu illa um hann. Frá sambúðarslitum hafi samskipti þeirra ákærða gengið illa.
Vitnið lýsti atvikum umræddan morgun þannig að hún hefði legið á vinstri hliðinni í rúminu og gefið D brjóst og ákærði lagst upp í rúmið hjá þeim við hlið vitnisins. Hann hafi hafið máls á því að hann færi með drenginn með sér í vinnuna. Vitnið kvaðst hafa orðið ósátt við þessa hugmynd ákærða og hafi þau farið að rífast um þetta. Ákærði hefði reynt að rífa drenginn af brjósti vitnisins en þá hefði vitnið ýtt í ákærða og sagt honum að láta þau drenginn í friði. Þá hafi ákærði, sem stóð við fótagaflinn, ráðist á hana og snúið upp á vinstri hönd hennar af afli. Vitnið kvaðst hafa öskrað af sársauka og þá hefði ákærði sleppt henni. Dætur vitnisins, sem voru fyrir utan, hefðu heyrt til hennar og komið inn í herbergið en þá var ákærði að klæða drenginn í föt og hefði hann síðan farið með drenginn út. E hefði spurt hvað gengi á og vitnið kvaðst hafa sagt henni frá því sem gerðist og beðið hana um að leysa sig af í vinnunni því hún fann að hún gat ekki notað höndina. Skömmu síðar hefði hún farið á slysadeild og þar hefði hún verið sett í gips og metin óvinnufær. Kvaðst vitnið nú hafa náð sér af áverkunum.
Vitnið kvaðst hafa beðið ákærða um að fara af heimilinu sama kvöld, en ákærði hefði ekki orðið við því. Vitnið hefði sofið í stofunni um nóttina en kvaðst hafa verið hrædd við að ákærði væri í íbúðinni. Um nóttina hefði vitnið vaknað við það að ákærði stóð nakinn yfir henni og lét braka í fingrum sínum. Drengurinn hefði vaknað og þá hefði ákærði ekki gert neitt frekar. Næstu nótt hefði vitnið verið í Kvennaathvarfinu en síðan snúið aftur heim. Þá var ákærði ekki heima en hann hafði hreinsað allt út úr íbúðinni sem viðkom D og ákærða auk þess sem búið var að taka allan mat í burtu. Þá nótt hefði vitnið gist í íbúðinni en að lokum fór ákærði yfir í íbúðina, sem E dvaldi í en E kom yfir til kæranda. Frá þessum tíma hefði ákærði búið í íbúðinni við hliðina og stanslaust valdið vitninu ónæði.
Vitnið kvað þá lýsingu ákærða um að vitnið hefði ráðist á hann vera ranga, enda hefði hún verið að gefa drengnum brjóst umrætt sinn. Þá kannaðist vitnið ekki við það að iðulega hefði komið til átaka milli vitnisins og barna hennar.
Vitnið B, dóttir kæranda, kvaðst hafa verið að koma heim umrætt sinn með tveimur félögum sínum og E þegar hún heyrði óp í mömmu sinni. Þær E hefðu farið inn í svefnherbergi kæranda og ákærða og þá hefði kærandi haldið um hönd sína og talið að hún væri brotin. Kærandi hafi einnig sagt að ákærði hefði tekið um hönd hennar og gert þetta. Þau ákærði og kærandi hefðu verið æst og hefðu rifist um D. Ákærði hefði síðan farið út.
Vitnið E, dóttir kæranda, kvaðst hafa verið fyrir utan heimili sitt umrætt sinn ásamt B og tveimur vinum sínum þegar þau heyrðu sársaukaöskur frá kæranda. Vitnið kvaðst hafa hlaupið inn og þá séð ákærða standa með D í fanginu en kærandi hefði haldið um höndina á sér og sagt að hún héldi að hún væri brotin. Kærandi hefði lýst því sem gerðist á þann veg að kærandi hefði verið að gefa D brjóst en ákærði viljað fara með hann í vinnuna. Kærandi hefði lagst gegn því og sagt að drengurinn ætti að vera hjá henni. Þá hefði ákærði rifið í hönd kæranda og snúið upp á hana. Vitnið kvað kæranda síðan hafa farið upp á spítala en ákærði hefði farið með D í vinnuna.
Vitnið Ólafur Ragnar Ingimarsson læknir staðfesti að hafa ritað framlagt læknisvottorð, dagsett 13. maí 2007, en kvaðst ekki hafa tekið á móti konunni við fyrstu komu hennar á heilsugæslustöð en hann hefði hins vegar rætt við hana við endurkomu 10. apríl 2007.
Vitnið kvað kæranda hafa sagt sér við endurkomu, að hún hefði lent í ryskingum við eiginmann sinn. Við skoðun hefði kærandi verið með svonefnt spiralbrot á handarbaki. Aðspurður kvað vitnið algengast að slíkir áverkar ættu rót að rekja til falls af einhverju tagi en þau gætu þó líka komið til vegna átaka. Aðspurður kvað vitnið umrædda áverka geta samrýmst þeirri lýsingu sem fram kemur í 1. lið ákærunnar. Í tilefni spurningar um það hvort áverkarnir gætu samrýmst sögu ákærða um það að kærandi hafi haldið um úlnliði ákærða þegar hann rykkti sér upp úr rúminu og við það komið átak á höndina, kvað vitnið lýsinguna við fyrstu komu kæranda hafa verið þá að tekið hefði verið í höndina á henni og því gleikkað á milli fingra hennar.
Vitnið kvað kæranda hafa verið kvíðna við endurkomu og óvinnufæra en áverkarnir hefðu verið vinstra megin og hún sé örvhent. Taldi vitnið ólíklegt að áverkarnir myndu há kæranda til frambúðar.
Niðurstaða.
Bæði ákærði og kærandi hafa lýst atvikum í meginatriðum á sama veg hjá lögreglu og hér fyrir dóminum að því frátöldu að hér fyrir dóminum mundi ákærði ekki eftir að hafa heyrt smella í kæranda í átökum þeirra. Bæði hafa lýst því að kærandi hafi legið í rúminu og gefið ungum syni þeirra brjóst og að ákærði hafi legið við hlið hennar. Þá hafa þau lýst því að til deilna hafi komið milli þeirra um það hvort ákærði mætti fara með drenginn með sér í vinnuna. Þeim ber báðum saman um að ákærði hafi reist sig upp en að öðru leyti eru lýsingar þeirra á atvikum ólíkar.
Ákærði taldi hugsanlegt að kærandi hefði hlotið áverka sína vegna þess að hún hélt í ákærða þegar hann reisti sig upp í rúminu umrætt sinn. Kærandi hefur aftur á móti neitað því að hafa ráðist á ákærða með þeim hætti, sem hann hefur lýst, en kannast við að hafa stjakað eða ýtt við honum. Hún kvað ákærða hafa reynt að rífa barnið af sér og tekið í vinstri hönd hennar og snúið upp á hana af afli.
Frásögn kæranda af atvikum hefur frá upphafi verið á sama veg og fær stuðning í framlögðu læknisvottorði, vætti Ólafs Ragnars Ingimarssonar læknis og að nokkru leyti í vætti dætra kæranda. Í læknisvottorðinu kemur fram að kærandi hafi lýst því við endurkomu að hún hafi fengið áverkana í ryskingum við eiginmann sinn og að það hafi verið rifið í hana. Vitnið Ólafur Ragnar læknir kvað áverka þá, sem kærandi hlaut umrætt sinn, samrýmast þeirri lýsingu sem fram kemur í verknaðarlýsingu í 1. lið ákærunnar. Þá báru dætur kæranda á þann veg fyrir dóminum að kærandi hafi frá upphafi sagt að ákærði hefði veitt henni áverkana.
Eins og lýst er hér að framan hefur kærandi kannast við að hafa stjakað eða ýtt við ákærða. Óumdeilt er að kærandi lá við að gefa syni sínum brjóst þegar til deilna kom milli hennar og ákærða og í ljósi þess og alls framangreinds þykir ótrúverðug sú lýsing ákærða að kærandi hafi ráðist á hann og að hann hafi ekki tekið á móti heldur einungis haldið uppi höndum sínum til að verjast árásum hennar. Þá verður, með hliðsjón af áverkum kæranda og vættis Ólafs Ragnars læknis um að algengast sé að slíkir áverkar eigi rót sína að rekja til falls af einhverju tagi eða átaka, að telja ósennilegt að kærandi hafi hlotið áverkana með því einu að halda um úlnliði ákærða þegar hann rykkti sér upp án þess að ákærði tæki á móti. Að öllu framangreindu virtu er það því niðurstaða dómsins, að sannað sé að ákærði hafi með háttsemi sinni veitt kæranda þá áverka sem í þessum lið ákærunnar er lýst. Er háttsemin þar rétt færð til refsiákvæða. Verður ákærði því sakfelldur eins og krafist er.
Ákæruliður II.
Samkvæmt kæruskýrslu, dagsettri 24. apríl 2007, kom C í fylgd móður sinnar, A, á rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þann dag kl. 14:54 til að kæra ætlaða líkamsárás sem hann kvaðst hafa orðið fyrir af hendi fósturföður síns, ákærða í máli þessu, 6. febrúar sama ár.
Lýsti kærandi málsatvikum þannig að hann hefði verið heima hjá sér í tölvunni umrætt sinn en þar sem honum hefði verið það bannað, hefði hann farið fram að horfa á sjónvarpið. Ákærði og móðir kæranda voru að rífast og fóru að öskra en þá hefði F, 12 ára bróðir kæranda, komið fram og farið að skipta sér af þeim. Ákærði hefði þá hent F aftur inn í herbergi og rifrildið haldið áfram. F hefði komið fram á nýjan leik og þá hefði ákærði hent honum út á lóð. Þegar F hefði bankað á dyrnar og viljað komast inn, hefði móðir kæranda ætlað að opna fyrir honum en ákærði hefði þá ráðist á hana og hrint henni frá. Kærandi kvaðst þá hafa stokkið fram til að hjálpa móður sinni með því að ýta ákærða frá en ákærði hefði þá þrifið í vinstri hönd kæranda og snúið upp á fingurna. Kvaðst kærandi hafa fundið mikið til og öskrað af sársauka en síðan farið aftur inn í herbergið sitt. Kærandi kvaðst halda að ákærði hafi áttað sig á að eitthvað var að og hefði hann talað um að hann hefði gert þetta í sjálfsvörn. Systur kæranda hefðu hlúð að honum en síðan hefði komið til rifrildis milli þeirra og ákærða. Þegar E hefði síðan farið upp á efri hæðina til að sækja barnsföður sinn og bróður hans, hefði ákærði hlaupið á eftir henni og hrint henni þannig að hún datt og meiddi sig.
Kærandi kvaðst daginn eftir hafa farið á slysadeild í fylgd B, systur sinnar, og afa síns og ömmu. Hann hefði verið kvalinn í hendinni og hefði komið í ljós að hann var brotinn. Hefði hann verið settur í gips og verið með það í nokkrar vikur. Kvaðst kærandi enn eiga í vandræðum með að hreyfa baugfingur vinstri handar.
Kærandi kvaðst í fyrstu ekki hafa þorað að segja frá því sem gerðist, en að lokum hefði hann sagt lækninum sannleikann. Hann væri hræddur við ákærða enda hefði hann stundum hótað að drepa kæranda. Þá hefði ákærði margoft ráðist á kæranda og meitt hann. Hefðu árásirnar einkum falist í því að snúa upp á hendur kæranda og að taka hann hálstaki. Einu sinni hefði ákærði kýlt hann í andlitið og þá hefði F, bróðir kæranda, einnig þurft að þola ofbeldi af hálfu ákærða. Kærandi kvað alla fjölskylduna mjög hrædda við ákærða en þau móðir kæranda og ákærði rifust mikið og ákærði hefði verið mjög leiðinlegur við hana.
Í málinu liggur frammi áverkavottorð, dagsett 19. júlí 2007, útgefið af Gunnari Þór Jónssyni lækni á heilsugæslustöðinni á Sólvangi. Þar kemur fram að kærandi hafi leitað á heilsugæsluna 7. febrúar 2007 vegna verks í vinstri hendi sem hafi komið eftir högg deginum áður. Skoðun læknis hafi vakið grun um áverka á fingrum vinstri handar og röntgenmynd staðfest brot á vinstri baugfingri. Kærandi hafi fengið fingurspelku vegna þessa en ekki sé getið um frekari áverka og ekki hafi verið um endurkomu að ræða.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vætti vitna fyrir dóminum.
Ákærði hefur neitað sök. Þau kærandi og A, móðir hans, hafi rifist og slegist umrætt sinn fyrir framan sófann í stofunni þar sem ákærði sat með D, son sinn, í fanginu. Ákærði kvaðst hafa lagt D frá sér og staðið upp og beðið kæranda um að hætta. Þá hefði kærandi „ætlað í“ ákærða með steyttan hnefa og gert sig líklegan til að slá til ákærða án nokkurs tilefnis. Kvaðst ákærði hafa tekið um báða hnefa kæranda og lagt hendur hans niður með síðum hans og beðið hann um að fara inn í herbergi. Kvaðst ákærði ekki hafa tekið fast um hendur kæranda og taldi mögulegt að kærandi hafi fengið áverka þá, sem lýst er í ákæru, í viðskiptum við föður sinn. Hins vegar kvaðst ákærði hafa beðið kæranda afsökunar ef áverkarnir hefðu verið af hans völdum. Ef svo hefði verið, hefði ásetningur sinn ekki staðið til þess að meiða kæranda. Kannaðist ákærði við að kærandi hefði kvartað yfir verkjum og verið með spelku um höndina í nokkra daga á eftir. Mundi ákærði ekki hvort F og systur kæranda voru heima umrætt sinn.
Sérstaklega aðspurður um það hvort þeir áverkar, sem lýst er í áverkavottorði, væru af hans völdum, kvaðst ákærði ekki geta ábyrgst að áverkarnir hefðu ekki verið tilkomnir áður, enda hefði kærandi margoft komið illa leikinn frá föður sínum. Sagði ákærði rangar þær lýsingar kæranda í lögregluskýrslu um að ákærði hefði margoft ráðist á hann með því að snúa upp á hendur hans og taka hann hálstaki og að ákærði hefði einu sinni kýlt hann í andlitið.
Vitnið C, kærandi málsins, kvaðst hafa verið í tölvunni umrætt sinn en F, bróðir hans, hefði setið í sófanum að horfa á sjónvarpið. Ákærði og A, móðir vitnisins, hefðu rifist og F hefði farið að skipta sér af þeim. Þá hefði ákærði hent F út en þegar A hefði reynt að opna fyrir F, hefði ákærði ýtt við henni svo hún datt. Vitnið kvaðst þá hafa ýtt ákærða til að verja móður sína en ákærði þá tekið með annarri hendi sinni fast um litla fingur og baugfingur vinstri handar vitnisins og snúið upp á þá en haldið með hinni hendi sinni um hina hönd vitnisins. Hefði ákærði kreist fingurna tvo af afli svo annar þeirra brotnaði.
Vitnið kvaðst hafa öskrað af sársauka og þá hefði F náð í systur þeirra sem voru í íbúðinni við hliðina. Þær hefðu komið yfir og farið að rífast við ákærða. Þegar E hefði farið upp til þess að tala við kærasta sinn, hefði ákærði farið á eftir henni en skömmu síðar hefði hún komið aftur niður öll marin og grátandi og sagt að ákærði hefði ýtt henni á steinana. Daginn eftir kvaðst vitnið hafa fundið mjög mikið til og því hefði hann farið til læknis í fylgd ömmu sinnar. Vitnið kvaðst ekki finna lengur fyrir áverkunum.
Aðspurður kvað vitnið ákærða oft hafa beitt sig ofbeldi á heimilinu og kvaðst vitnið alltaf hafa verið hræddur við ákærða og liðið illa á heimilinu. Þá kvað hann ákærða oft hafa beitt móður hans ofbeldi. Sérstaklega aðspurður um lýsingu ákærða á því að vitnið hefði umrætt sinn ráðist á ákærða og að þá hefði ákærði tekið um hendur vitnisins og tekið þær niður, kvað vitnið lýsinguna ranga og kvaðst ekki hafa ýtt fast við ákærða umrætt sinn. Þá hefði faðir vitnisins einungis einu sinni hafa ýtt vitninu svo hann datt.
Vitnið A, móðir kæranda, kvaðst hafa orðið vitni að umræddu atviki. Þau ákærði hefðu setið við matarborðið og rifist um fyrirhugaðar breytingar ákærða á bílskúrnum. Vitnið kvaðst hafa sagt kæranda að koma fram að borða og slökkva á tölvunni en hann hefði orðið ósáttur við það og hefði komið til rifrildis milli þeirra. Að lokum hefði kærandi þó slökkt á tölvunni og sest við sjónvarpið. Þau vitnið og ákærði hefðu haldið áfram að rífast og þegar F bað þau um að hætta að rífast, hefði ákærði hent F út og læst hurðinni. Vitnið kvaðst hafa staðið upp til að hleypa F inn en þá hefði ákærði gengið að henni og hrint henni svo hún féll aftur fyrir sig. Kærandi hefði þá staðið upp og gengið að ákærða og sagt honum að láta vitnið í friði en ákærði hefði ráðist á kæranda og gripið um handleggi hans og hrint honum til baka. Hins vegar hefði kærandi ekki ráðist á ákærða. Ákærði hefði síðan snúið upp á aðra höndina á kæranda. Hefði ákærði tekið á kæranda af hörku og hefði kærandi öskrað upp og tekið um höndina. Dætur vitnisins, E og B, hefðu komið inn í stofuna og síðan hefði E hlaupið upp til að ná í kærasta sinn en ákærði farið á eftir henni og hrint henni. Hefði verið ákveðið í kjölfarið að þeir kærandi og F myndu gista hjá systrum sínum í íbúðinni við hliðina. Daginn eftir hefði kærandi farið á slysavarðstofuna í fylgd ömmu sinnar, afa og B.
Þegar umrætt atvik hefði komið til tals milli þeirra vitnisins og ákærða, hefði ákærði sagst hafa brugðist við í sjálfsvörn. Kannaðist vitnið ekki við lýsingar ákærða á atvikum umrætt sinn og kvað áverka kæranda ekki verða rakta til föður hans.
Vitnið B, systir kæranda, kvaðst halda að til rifrildis hefði komið umrætt sinn vegna tölvunotkunar kæranda en hún hefði ekki verið heima þegar þetta gerðist heldur hefði kærandi lýst atvikum fyrir henni. Hún kvaðst hins vegar hafa farið með kæranda og ömmu þeirra á heilsugæslustöð.
Vitnið E, systir kæranda, kvaðst hafa verið í íbúðinni við hliðina þegar hún heyrði læti úr íbúð móður sinnar og ákærða. Hún kvaðst hafa farið þangað og séð hvar ákærði og kærandi voru að rífast. Kærandi hefði haldið um höndina og sagt að ákærði hefði brotið á sér höndina og vissi vitnið til þess að kærandi hefði farið upp á spítala daginn eftir og hefði hann fengið gips á höndina. Vitnið kvað ákærða hafa hrint sér þegar hún reyndi að fá hjálp hjá barnsföður sínum á efri hæðinni.
Vitnið Gunnar Þór Jónsson heimilislæknir staðfesti framlagt áverkavottorð vegna kæranda sem hann kvaðst hafa unnið upp úr sjúkraskýrslum. Um væri að ræða ótilfært beinbrot. Sjálfur hefði hann hins vegar ekki verið á vakt umrætt sinn heldur Gísli Ólafsson læknir sem hefði sagt vitninu frá því að kærandi hefði lýst því munnlega að áverkinn væri til kominn vegna þess að stjúpfaðir hans lagði á hann hendur.
Aðspurður kvað vitnið erfitt að segja til um það hvort frásögn kæranda um að brot hans á vinstri baugfingri mætti rekja til þess að ákærði sneri upp á fingurinn gæti staðist. Áverkinn gæti verið til kominn við snúning eða högg. Sérstaklega aðspurður um það hvort áverkinn væri nýr, kvaðst vitnið ekki geta fullyrt neitt um það þar sem áverkanum væri ekki lýst í sjúkraskýrslu.
Vitnið Gísli Ólafsson, læknir á heilsugæslustöðinni á Sólvangi, kvað kæranda hafa komið á heilsugæsluna þann 7. febrúar 2007 í fylgd móður sinnar. Kærandi hafi kvartað yfir því að honum væri illt í hendinni. Kærandi hefði sagt vitninu að sambýlismaður móður hans hefði valdið honum áverkanum en vitnið gat ekkert fullyrt um það, hvort sambýlismaðurinn kastaði kæranda til eða sló til hans. Þá hefði komið fram hjá kæranda að móðir hans hefði ítrekað orðið fyrir árásum sambýlismanns síns en þennan dag hefði kæranda ofboðið og skorist í leikinn.
Við skoðun hefði komið í ljós að kærandi hlaut högg á vinstri höndina og var aumur í fingrum III til IV, sem eru litlifingur og langatöng. Kærandi hefði einnig verið hvellaumur í nærkjúku baugfingurs sem í ljós kom að var brotinn. Aðspurður kvað vitnið þessa áverka geta verið tilkomna vegna þess að snúið hefði verið upp á fingurna. Taldi vitnið að það þyrfti þó nokkurt átak til þess að bein brotnaði og taldi ólíklegt að bein brotnaði við það að tekið væri utan um hnúa og hendinni ýtt niður. Vitnið kvað hafa verið um að ræða nýjan áverka á baugfingrinum.
Vitnið G, föðuramma kæranda, kvaðst hafa farið með kæranda á heilsugæslustöð vegna þess að hann kvartaði um verki í hendinni en af heilsugæslunni hefði hann verið sendur í myndatöku á slysadeild og reynst brotinn og marinn. Hefði kærandi lýst atvikum þannig að hann hefði ætlað að hjálpa móður sinni þegar ákærði ætlaði að tugta hana til. Vitnið kvað kæranda hins vegar ekki tala mikið um ástandið á heimilinu en hefði sagt að ákæri væri leiðinlegur og vondur við móður hans.
Niðurstaða.
Ágreiningslaust er að kærandi kvartaði yfir verkjum umrætt sinn og leitaði á heilsugæslustöð daginn eftir og fékk spelkur um baugfingur vinstri handar, sem staðfest er með framlögðu læknisvottorði að var brotinn. Ákærði hefur neitað sök en kannast við að hafa tekið um báða hnefa kæranda og lagt handleggi hans niður með síðum þegar kærandi gerði sig líklegan til að slá til ákærða. Byggir ákærði á því að tak hans um hendur kæranda hafi ekki verið fast auk þess sem hann taldi mögulegt að áverkar kæranda umrætt sinn væru af völdum föður hans. Í ljósi vættis vitnisins Gísla Ólafssonar læknis, sem taldi ljóst að áverkinn á fingri kæranda væri nýr, verður að telja útilokað að um eldri áverka sé að ræða sem rekja megi til föður kæranda eða annarra.
Í ljósi lýsingar ákærða á því að hann hafi tekið um hnúa kæranda og fært handleggi hans niður, lýsingar ákærða og vitna á því að kærandi hafi í kjölfarið kvartað undan sársauka og lýsingar vitna á því að kærandi hafi sagt ákærða hafa meitt sig, vættis Gísla læknis um að þó nokkurt átak þyrfti til þess að bein brotnaði og að ólíklegt væri að það gerðist við það eitt að tekið væri utan um hnúa og hendinni ýtt niður og jafnframt vættis hans um að fingurbrotið gæti verið tilkomið við það að snúið hefði verið upp á fingurinn, þykir sannað að kærandi hafi hlotið fingurbrotið á þann hátt sem kærandi hefur lýst sem er í samræmi við lýsingu í ákæru. Þykja engin skynsamleg rök hníga að öðru, sbr. 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Verður því að leggja til grundvallar að ákærði hafi með vísvitandi árás valdið kæranda tjóni á líkama sem um ræðir í 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Gegn eindreginni neitun ákærða er varhugavert að telja sannað að hann hafi af ráðnum hug snúið upp á fingur kæranda og verður því að meta ákærða það til gáleysis að fingur kæranda brotnaði umrætt sinn. Verður ákærði sakfelldur eins og krafist er.
Ákærði hefur lýst því að kærandi hafi steytt hnefana að sér og gert sig líklegan til að slá ákærða umrætt sinn en kærandi kvaðst aftur á móti einungis hafa ýtt honum til þess að verja móður sína. Móðir kæranda kvað kæranda hins vegar ekki hafa ráðist á ákærða en annarra vitnisburða nýtur ekki við um þetta atriði. Þótt gengið sé út frá því að kærandi hafi ýtt ákærða og steytt að honum hnefunum, verður allt að einu ekki talið að framangreind háttsemi ákærða sé honum refsilaus vegna neyðarvarnarsjónarmiða. Er þá einkum litið til þess aldurs- og aflsmunar sem var með ákærða og kæranda en kærandi var einungis 14 ára umrætt sinn.
Ákæruliður III.
Samkvæmt kæruskýrslu, dagsettri 26. júní 2007, kom A á lögreglustöðina við Hverfisgötu þann dag kl. 10:09 til að leggja fram kæru á hendur ákærða vegna líkamsárásar og hótana á bifreiðastæði við [...] í [...] 29. maí 2007 og vegna langvarandi heimilisofbeldis. Lýsti hún málsatvikum þannig að hún hefði farið í Árbæjarsundlaug í maí sl. með tæplega ársgamlan son sinn, D. Ákærði hefði einnig verið á staðnum en hann hefði verið á eigin vegum en vitað af því að kærandi og drengurinn yrðu þarna. Ákærði hefði fengið að sinna drengnum í sundlauginni en hann hefði lagt hart að kæranda að draga til baka fyrri kæru á hendur honum vegna heimilisofbeldis. Kærandi kvaðst hafa tjáð ákærða að það myndi hún ekki gera og þá hefði ákærði reiðst og hreytt í hana ónotum. Þau hefðu verið í sundlauginni í töluverðan tíma og hefði ákærði allan þann tíma reynt að tala um fyrir henni.
Eftir sundferðina hefði ákærði beðið þeirra mæðgina fyrir utan og orðalaust fylgt þeim út á bifreiðastæði og haldið á drengnum. Þau kærandi og ákærði hefðu verið hvort á sinni bifreiðinni og hefði ákærði viljað fá drenginn yfir í sína bifreið. Kærandi hefði ekki tekið það í mál og gert sig líklega til að fara burt. Þegar hún hefði sest inn í bifreið sína hefði ákærði sest í hægra framsæti bifreiðarinnar og reynt enn á ný að fá kæranda til að falla frá fyrri kæru sinni. Hefði ákærði rætt um það hversu gott líf biði þeirra ef þau héldu áfram sambandi sínu, en kærandi kvaðst hafa svarað því til að hún myndi halda kærunni til streitu. Ákærði hefði þá sagt hana heimska og að hún vissi ekki hvað hún væri að gera með þessu. Hefði hann ekki útskýrt frekar hvað hann ætti við.
Kærandi kvaðst við svo búið hafa ekið á brott en ákærði hefði fylgt í humátt á eftir henni og látið ófriðlega undir stýri. Hann hefði ýmist ekið hratt eða snarbremsað og elt kæranda um hverfið, auk þess sem hann hefði hringt í farsíma hennar og beðið hana um að stöðva bifreið sína við Árbæjarkirkju en hún neitað því. Kærandi kvaðst hafa verið orðin hrædd og þess vegna tekið ranga beygju og endað inni í botngötu. Ákærði hefði ekið á eftir henni og lagt bifreið sinni þversum fyrir aftan bifreið hennar. Síðan hefði hann komið yfir að bifreið kæranda bílstjóramegin og verið mjög reiður. Hann hefði rifið upp hurðina og heimtað að hún kæmi út að ræða málin. Kærandi hefði neitað því en við það hefði ákærði reiðst enn frekar og hótað henni lífláti og líkamsmeiðingum og jafnframt hótað börnum hennar lífláti. Ákærði hefði síðan tekið kæranda hálstaki og hert að og látið mjög ófriðlega. Á meðan hefði sonur þeirra grátið mjög mikið.
Tvær ungar konur hefði borið að og hefðu þær greinilega undrast mjög það sem fram fór. Ákærði hefði losað tökin á kæranda og farið frá henni. Kærandi hefði kallað á konurnar og beðið þær um að fara ekki í burtu en ákærði hefði náð í myndavél í bifreið sína og tekið nokkrar myndir af kæranda og konunum. Loks hefði ákærði fært bifreið sína svo kærandi komst í burtu en ákærði hefði hins vegar elt hana nokkurn spöl yfir Höfðabakka og áleiðis niður Reykjanesbraut. Kærandi kvaðst hins vegar hafa ekið aftur inn í Árbæjarhverfi og leitað að stúlkunum tveimur en þá tekið eftir því að ákærði var á sömu slóðum. Kærandi kvaðst hafa rætt við lögreglu sem hún sá á vettvangi ásamt stúlkunum tveimur og hefði hún bent lögreglunni á ákærða sem hefði ekið á brott.
Loks lýsti kærandi því að undanfarin þrjú ár hefði hún og fjölskylda hennar mátt þola mikið andlegt og líkamlegt ofbeldi af völdum ákærða.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vætti vitna fyrir dóminum.
Ákærði kvað þau kæranda hafa mælt sér mót í Árbæjarlauginni umrætt sinn. Samskipti þeirra í sundlauginni hefðu verið tilfinningaþrungin og hefðu þau kærandi aðallega rætt um son sinn. Verið gæti að kærur kæranda á hendur ákærða hefði borið á góma en ákærði kannaðist ekki við að hafa reynt að þvinga hana til að draga þær til baka. Eftir um það bil klukkutíma veru í sundlauginni hefðu þau farið upp úr og þá kvaðst ákærði hafa beðið kæranda um að leyfa sér að hafa drenginn með sér í bifreið sinni. Því hefði kærandi neitað og drengurinn því farið með kæranda í bifreið hennar. Eftir að þau voru lögð af stað, kvaðst ákærði hafa hringt í kæranda og beðið hana um að stoppa og tala við sig og hefði hún þá beygt niður í Heiðarbæ og stöðvað þar og ákærði ekið til hennar.
Ákærði kvaðst hafa gengið að bifreið kæranda og kropið fyrir utan dyrnar bílstjóramegin en kærandi hefði setið áfram inni í bifreið sinni. Hann hefði hins vegar ekki sest inn í bifreið kæranda. Þau kærandi hefðu kysst og verið í öðrum ástaratlotum en síðan hefði kærandi æpt og öskrað og þá hefði borið þarna að tvær stúlkur. Aðspurður kvað ákærði ekkert hafa heyrst í syni þeirra kæranda á meðan á þessu stóð. Ákærði kvaðst hafa sagt stúlkunum að vera ekkert að hlusta á þetta bull og fara, en mundi ekki hvort þær sögðu eitthvað. Kannaðist ákærði við að hafa náð í myndavél og tekið af þeim myndir í þeim tilgangi að fá þær í burtu. Kærandi hefði hins vegar talað við stúlkurnar og „skitið hann út“ í þeirra eyru. Þau kærandi hefðu síðan ekið í burtu á sitt hvorri bifreiðinni. Ákærði kvaðst hafa ekið á eftir kæranda upp á Bæjarháls en þá hafi leiðir skilið. Hefði ákærði síðan ekið einn hring hjá Bæjarhálsi en þegar hann hefði ekið niður Hraunbæ á nýjan leik, hefði hann séð hvar kærandi hafði stöðvað bifreið sína hjá stúlkunum tveimur og lögreglu. Hann kvaðst hins vegar ekki hafa stöðvað heldur ekið leiðar sinnar.
Vitnið A, kærandi í málinu, kvað þau ákærða ekki hafa farið saman í sundlaugina umrætt sinn, heldur hefði ákærði vitað um ætlun kæranda að fara í sund. Ákærði hefði viljað að kærandi drægi kæru sína til baka og verið ágengur við vitnið auk þess sem hann hefði káfað á henni. Þegar hún hefði sagst ekki myndu draga kæruna til baka, hefði ákærði hreytt í hana ónotum. Eftir um það bil hálftíma til klukkutíma hefði vitnið farið upp úr lauginni en ákærði hefði verið fyrir utan þegar hún kom út. Ákærði hefði viljað fara með son þeirra í bifreið sinni en vitnið ekki tekið það í mál. Ákærði hefði síðan sest inn í bifreið kæranda á bifreiðastæðinu og haldið áfram að tala um kærur kæranda. Hann hefði einnig boðið henni til Kúbu og talað um að þau ættu að reyna að taka upp samband sitt aftur. Þegar kærandi hefði sagst ekki myndu draga kærurnar til baka, hefði ákærði orðið reiður og farið út úr bifreiðinni. Kærandi kvaðst síðan hafa ekið á brott en ákærði ekið á eftir henni og ýmist gefið í eða bremsað til skiptis til að ógna henni. Ákærði hefði síðan hringt í kæranda og beðið hana að stöðva við kirkjuna í Árbæ til að tala við sig. Það hefði kærandi ekki fallist á en síðan tekið vitlausa beygju og ákærði þá ekið á eftir henni og lagt bifreið sinni þversum fyrir hana.
Ákærði hefði gengið að bifreið kæranda bílstjóramegin, rifið upp hurðina og skipað henni að koma út úr bifreiðinni til að tala við hann en því hefði hún neitað og hefði komið til einhverra orðaskipta milli þeirra. Ákærði hefði orðið mjög reiður, komið inn í bifreiðina til hennar og verið kominn ofan á kæranda þar sem hann réðist á hana með því að taka utan um hálsinn á henni með báðum höndum og rykkja henni aftur. Hefði hann sagst ætla að drepa hana og að henni myndi hefnast fyrir þetta. Tak ákærða um háls hennar hefði verið mjög þétt og hefði hún fundið fyrir köfnunartilfinningu. Kvaðst kærandi hafa verið mjög hrædd við ákærða.
Kærandi kvaðst hafa reynt að gefa ungum stúlkum, sem þarna bar að, merki um að hún þyrfti hjálp og hefðu þær tekið eftir henni og stöðvað. Þegar ákærði varð var við stúlkurnar, hefði hann sleppt kæranda og sótt myndavél sem hann notaði til að taka myndir af kæranda og stúlkunum. Kærandi kvaðst hafa beðið stúlkurnar um að segja til nafns og bíða þar til hún væri komin í burtu en hún kvaðst ekki vita hvort ákærði talaði við stúlkurnar enda hefði hún verið í miklu uppnámi. Loks hefði ákærði bakkað bifreið sinni svo kærandi komst í burtu en hann hefði síðan ekið á eftir henni niður á Reykjanesbraut.
Varðandi frásögn ákærða af kossum og ástaratlotum þeirra, kvað kærandi ákærða hafa káfað á sér í sundlauginni og talað um að þau ættu að taka saman á ný en þau hefðu hins vegar ekki verið að kyssast umrætt sinn.
Kærandi kvaðst ekki hafa leitað sér læknisaðstoðar eftir umrætt atvik og kvaðst jafnframt hafa verið treg til þess að kæra ákærða þar sem hann væri barnsfaðir sinn.
Vitnið H lýsti atvikum með þeim hætti að hún hefði verið að skokka ásamt I, vinkonu sinni, þegar þær sáu bifreið í botnlangagötu og urðu varar við hreyfingu frammi í bifreiðinni. Þegar þær hefðu komið nær hefðu þær séð hvar maður sat klofvega ofan á konu í bílstjórasætinu, tók hana hálstaki með báðum höndum og barði höfði hennar aftur í sætið. Konan hefði séð vitnið og I og bankað í rúðuna til að gefa þeim merki um að stöðva.
Í kjölfarið hefði maðurinn farið út úr bifreiðinni bílstjóramegin en konan hefði beðið þær stúlkurnar um að bíða þangað til hann hefði fært bifreið sína, sem var lagt þversum fyrir bifreið konunnar. Maðurinn hefði farið að bifreið sinni og náð í myndavél. Þegar stúlkurnar hefðu gefið konunni upp nöfn sín sem vitna, hefði maðurinn orðið reiður og tekið myndir af þeim og sagt þeim að skipta sér ekki af þessu. Þegar maðurinn hefði hrópað og hlaupið að þeim, kvaðst vitnið hafa hlaupið af stað og hringt í neyðarlínuna. Vitnið kvaðst hafa heyrt þegar maðurinn gargaði á konuna að hann myndi taka af henni strákinn. Maðurinn hefði verið mjög reiður og hefði konan verið mjög hrædd við hann.
Aðspurð kvað vitnið þær vinkonurnar hafa séð vel það sem fram fór og kvað alls ekki mögulegt að maðurinn og konan hefðu verið að kyssast umrætt sinn.
Vitnið I kvaðst hafa verið að ganga stífluhringinn með H, vinkonu sinni, umrætt sinn. Hefðu þær séð hreyfingu inni í bifreið í [...] og gengið að henni. Þar hefðu þær séð mann taka konu hálstaki og lemja henni aftur í sætið. Mundi vitnið ekki hvort maðurinn notaði báðar hendur við hálstakið. Þegar þær hefðu komið nær, hefði maðurinn komið út úr bifreiðinni, farið að bifreið sinni, sem var lagt fyrir aftan bifreið konunnar, og ætlað að taka myndir af þeim vinkonum. Hefði maðurinn jafnframt sagt að þær ættu ekki að skipta sér af því sem þeim kæmi ekki við.
Vitnið kvað manninn hafa verið reiðan og hefði hann öskrað að þeim vinkonunum en konan hefði verið í uppnámi. Þegar lögregla kom á staðinn, hefðu þær vitnið og H rætt við hana auk þess sem þær hefðu rætt við konuna skömmu síðar og hefði hún þá beðið þær um að bera vitni.
Aðspurð um það hvort verið geti að það, sem fram fór inni í bifreiðinni, hefðu verið kossar eða atlot milli konunnar og mannsins, kvað vitnið svo ekki vera.
Niðurstaða.
Eins og að framan er rakið ber töluvert í milli í atvikalýsingum kæranda og ákærða umrætt sinn. Bæði hafa þó lýst því að kærur kæranda á hendur ákærða vegna heimilisofbeldis hafi komið til tals. Ákærði hefur lýst því að samskipti þeirra kæranda í sundlauginni hafi verið tilfinningaþrungin en kærandi lýsti því hins vegar að ákærði hefði káfað á henni og talað um að þau ættu að taka saman aftur.
Lýsingar ákærða og kæranda á atvikum eftir að þau höfðu stöðvað bifreiðar sínar í [...], hafa verið staðfastar bæði hjá lögreglu og hér fyrir dóminum en þær eru að flestu leyti ólíkar. Ákærði hefur borið á þann veg að hann hafi ekki farið inn í bifreið kæranda, heldur kropið fyrir utan hana bílstjóramegin og þannig rætt við kæranda. Hafi samtal þeirra verið tilfinningaþrungið auk þess sem þau hafi kysst og verið í öðrum ástaratlotum.
Kærandi hefur á hinn bóginn lýst því að ákærði hafi sest ofan á hana í bílstjórasætinu inni í bifreið hennar, tekið utan um háls hennar með báðum höndum og rykkt henni aftur. Fær þessi lýsing kæranda stoð í vætti vitnanna H og I sem komu þarna að. Var vætti vitnanna í öllum aðalatriðum á sama veg í skýrslum þeirra hjá lögreglu og hér fyrir dóminum. Bæði vitnin útilokuðu í skýrslum sínum fyrir dóminum að um kossa og ástaratlot hefði getað verið að ræða milli ákærða og kæranda umrætt sinn. Með vísan til framanritaðs, einkum vættis vitnanna H og I, verður að telja frásögn ákærða ólíkindalega og telst sannað að ákærði hafi veist að kæranda með þeim hætti sem lýst er í ákæru.
Ekki er í þessum ákærulið að finna lýsingu á áverkum kæranda og fram er komið að hún leitaði ekki til læknis í kjölfar árásarinnar. Sú árás ákærða á hendur kæranda, sem samkvæmt framangreindu telst sönnuð, varðar við ákvæði 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 enda er það ekki skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins að árásin hafi haft í för með sér áverka. Verður ákærði því sakfelldur eins og krafist er í ákæru.
Ákæruliður IV.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu dagsettri 27. júlí 2007 barst tilkynning frá fjarskiptamiðstöð lögreglu um heimilisofbeldi og átök fyrir utan [...] í [...] kl. 19:23 þann 25. júlí sama ár. Á vettvangi hefðu tekið á móti lögreglu þær A og dóttir hennar, B. Um frásögn þeirra segir í skýrslunni að A hefði lýst því að þegar hún kom heim með pizzu hefði hún séð ákærða koma öskrandi að henni og hefði hann rifið í hár hennar, snúið hana niður og hótað að drepa hana. Þegar B hefði séð hvað gerðist, hefði hún reynt að rífa ákærða af A en þá hefði ákærði einnig snúið hana niður. B hefði náð að losa sig og tekið tvo steina og reynt að grýta ákærða. Ákærði hefði tekið í hönd B en þá hefði hún bitið hann í höndina og ákærði í kjölfarið látið sig hverfa. Ekki hefðu verið sjáanlegir áverkar á A en B hefði verið hrufluð á báðum höndum.
Ákærði hefði lýst atvikum fyrir lögreglu með þeim hætti að þegar hann hefði komið heim til sín, hefði hann tekið eftir því að búið var að skipta um lás á hurðinni hjá sér. Hefði A gert það þrátt fyrir að hún ætti ekkert í húsinu. Hann hefði því reynt að tala við hana án árangurs. Aðspurður hvort hann hefði ráðist á A eða dóttur hennar, kvað ákærði ekki hægt að gera annað því það væri ekki hægt að ræða við hana og kvað ákærði A bæði vera ruglaða og geðveika.
Í kæruskýrslu A frá 27. júlí 2007 kærir hún ákærða fyrir ofangreinda líkamsárás. Hún kvaðst hafa verið að koma heim með pizzu umrætt sinn en heima hefðu verið B, dóttir hennar, og smábarnið D, sem hún ætti með ákærða. Kvaðst kærandi hafa reynt að leggja bifreið sinni sem næst inngöngudyrunum að íbúð hennar þar sem hún sá að ákærði var heimavið í annarri íbúð í sama húsi. Ákærði hefði orðið kæranda var og kallað til hennar að hún ætti engin 50% í húsinu en það deilumál væri til afgreiðslu hjá lögmönnum. Kærandi kvaðst hafa svarað honum á þá leið að þau skyldu sjá til með það. Þá hefði ákærði lagt frá sér verkfæri, sem hann var með í höndunum, og hlaupið til hennar en hún hefði hlaupið undan honum í átt að húsdyrunum. Hún hefði ekki náð að opna dyrnar með lykli en barið að dyrum og kallað á dóttur sína. Ákærði hefði náð til kæranda og rifið í hár hennar, slegið hana hnefahögg vinstra megin á ennið og dregið hana niður á jörðina. Ákærði hefði staðið yfir kæranda og hótað að drepa hana en B hefði opnað hurðina á því andartaki og kallað til hans að ráðast ekki á móður hennar og þá hefði hún veist að ákærða til þess að losa móður sína frá ákærða. Hefðu þau B og ákærði ást eitthvað við og hefði stúlkan m.a. reynt að kasta steinum í hann en kærandi kvaðst hafa skriðið í burtu og kallað til lögreglu.
Lögregla hefði komið á vettvang og hefðu mæðgurnar að hennar ráðum lokað sig inni. Kærandi hefði síðan leitað á heilsugæsluna á [...] og hefði komið í ljós að hún var marin vinstra megin á enni og aum og stíf í hálsi og er bókað í kæruskýrslu, að áverkarnir hafi verið sýnilegir við skýrslutökuna.
Þann 30. júlí 2007 kærði B líkamsárás, sem hún kvaðst hafa orðið fyrir 25. júlí sama ár kl. 19:23. Lýsti kærandi atvikum þannig, að hún hefði verið heimavið ásamt D, ungum bróður sínum, en A, móðir þeirra hefði skroppið út eftir pizzu. Kærandi kvaðst hafa læst hurðinni á eftir móður sinni þar sem hún óttaðist að ákærði kæmi inn. Hún hefði orðið vör við að eitthvað var að þegar móðir hennar kallaði á hjálp og barði á hurðina. Kærandi kvaðst hafa hlaupið til dyra og þegar hún opnaði hefði hún séð móður sína liggja á hnjánum en ákærði hefði haldið í hár hennar. Kærandi kvaðst hafa hlaupið að ákærða, ýtt við honum og sagt eitthvað á þá leið að hann lemdi ekki mömmu hennar. Þá hefði ákærði sleppt takinu á móður hennar en tilkynnt henni að hann mundi drepa hana.
Þegar kærandi hefði beðið ákærða að vera ekki með þetta kjaftæði, hefði hann ráðist á hana með þeim hætti að hann hefði reynt að grípa um hana og snúa hana niður en henni hefði tekist að ýta honum frá. Ákærði hefði slegið til hennar en högg hans hefði lent á lófa hægri handar hennar. Í annarri tilraun hefði honum síðan tekist að snúa kæranda niður og tekið um báða upphandleggi hennar, kreist þá og skekið hana til. Kæranda hefði hins vegar tekist að snúa sig úr takinu og komast á fætur og þá gripið stein sem hún kastaði í átt til ákærða án þess að hitta hann. Ákærði hefði þá stokkið á kæranda en hún náð að grípa tvo aðra steina í sitt hvora hönd sína, sem hún ætlaði að kasta að honum, en hann hefði náð til hennar áður, gripið um hana aftan frá, tekið um báðar hendur hennar með steinunum í og kreist þær þéttingsfast. Kvaðst kærandi hafa fundið mikinn sársauka í höndunum og til þess að losna úr tökum ákærða hefði hún þurft að bíta hann í báða framhandleggi. Hefði hún við þetta komist frá ákærða og hlaupið inn til móður sinnar. Skömmu síðar hefði lögregla komið á vettvang að beiðni móður kæranda.
Kærandi kvaðst hafa leitað aðstoðar á heilsugæslunni á [...] en hún hefði verið marin á báðum upphandleggjum og með hrufl- og marsár í báðum lófum.
Í málinu liggja frammi tvö læknisvottorð. Samkvæmt vottorði Ólafar Kristjönu Bjarnadóttur læknis, dagsettu 14. ágúst 2007, kom A ásamt dóttur sinni, B, á síðdegisvakt heilsugæslunnar á [...] 26. júlí sama ár í kjölfar líkamsárásar sem þær mæðgur urðu fyrir 25. júlí sama ár af hálfu fyrrum sambýlismanns A. Er rakið í vottorðinu að mæðgurnar hafi lýst málavöxtum á þann veg að A hefði verið að koma heim þann 25. júlí 2007 og hefði lagt bifreið sinni á bifreiðastæðinu. Fyrrum sambýlismaður hennar, sem búi í sama húsi og hún, hefði komið auga á hana þegar hún var að fara út úr bifreiðinni, hlaupið að henni og ráðist á hana. Hann hefði slegið til hennar og togað í hár hennar. Hefði A við þetta fengið högg á ennið vinstra megin. Þá hefði B komið móður sinni til aðstoðar og farið að slást við fyrrum sambýlismann móður. Hann hefði ýtt við B og kýlt í hægri hendi hennar en hún þá ætlað að kasta steinum í hann en hann hefði náð að kreista hendur hennar með steinunum í. Þá hefði maðurinn tekið í upphandlegg hennar og klipið fast.
Við læknisskoðun á A hefði sést kúla og mar, um það bil 3-4 cm, vinstra megin á enni sem gæti samrýmst áverka frá deginum áður. Aðrir áverkar hefðu ekki verið sýnilegar en A hefði kvartað yfir eymslum og spennu um allan líkamann.
Samkvæmt læknisvottorði dagsettu sama dag og útgefnu af sama lækni vegna B kom hún ásamt móður sinni á síðdegisvakt heilsugæslunnar á [...] þann 26. júlí 2007 í kjölfar líkamsárásar sem þær mæðgur urðu fyrir 25. júlí sama ár af hálfu fyrrum sambýlismanns A. Er málavaxtalýsingu mæðgnanna lýst í aðalatriðum á sama veg og í framangreindu vottorði læknisins vegna A. Þá kemur fram að við læknisskoðun á B hefði sést á hægri upphandlegg marblettur 2 cm í þvermál sem vel geti samrýmst áverka frá deginum áður. Síðan segir: „Distalt ulnart á framhandlegg hægra megin er annar marblettur 2,5cm í þvermál sem gæti einnig samrýmst áverka frá deginum áður. Roði í lófum bilateralt e. átök“.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vætti vitna fyrir dóminum.
Ákærði kvaðst ekki hafa komist inn til sín umrætt kvöld þar sem A hefði skipt um lás að íbúðinni sem hann bjó í. A hefði komið heim með pizzu á svipuðum tíma og kvaðst ákærði þá hafa gengið að henni og reynt að ræða við hana en hún hefði ráðist á hann með því að taka í hann og reyna að slá hann. Kvaðst ákærði ekki muna hvernig A tók í hann og mundi ekki hvort hún lagði pizzuna frá sér á meðan. B hefði komið út og ráðist á ákærða og reynt að kasta í hann grjóti og þegar hún hefði tekið upp steina öðru sinni, hefði ákærða tekist að taka um hendur hennar til að koma í veg fyrir frekara grjótkast. Kvaðst ákærði hins vegar ekki hafa tekið um upphandleggi hennar. B hefði snúið sér við og bitið ákærða í vinstri handlegginn. Ákærði kvaðst hafa sleppt henni um leið og hann hafði fengið hana til að sleppa steinunum. B hefði þá kastað steinum í átt að ákærða á nýjan leik en ekki hitt hann. Kvaðst ákærði síðan hafa haldið áfram vinnu sinni við glugga á íbúðinni sem hann dvaldi í.
Ákærði kvaðst ekki vita hver hringdi á lögreglu umrætt sinn og kvaðst lítið hafa rætt við lögreglumenn sem komu á vettvang. Kannaðist ákærði aðspurður ekki við að hafa sagt lögreglu að það væri ekki annað hægt að gera en að ráðast á A. Tók hann fram að komið hefði í ljós að lögregla væri ekki hlutlaus í þessu máli.
Aðspurður kvað ákærði áverka A samkvæmt framlögðu áverkavottorði ekki vera af sínum völdum en taldi líklegt að B hefði hlotið áverka sína þegar hann reyndi að losa steina úr höndum hennar.
Vitnið A, kærandi í málinu, kvaðst hafa verið að koma heim til sín með pizzu umrætt sinn og hefði hún lagt bifreið sinni eins nálægt útidyrahurðinni og hún gat til að forðast samskipti við ákærða sem oft biði eftir henni þegar hún kæmi heim. Börnin hennar, B og D, hefðu verið heima á meðan hún skrapp út. Ákærði hefði kallað til vitnisins og sagt að hún ætti ekki 50% í húsinu en hún kvaðst hafa svarað því til að þau skyldu sjá til með það. Þá hefði ákærði hlaupið að henni en hún hefði hlaupið að dyrunum og þar sem hún náði ekki að opna, hefði hún barið á hurðina og öskrað á B og beðið hana um að opna fyrir sér. Ákærði hefði hins vegar náð til vitnisins áður en hún komst inn og hefði hann rifið í hár hennar og snúið hana niður auk þess sem hann hefði sagst ætla að drepa hana. Hún kvaðst hafa fallið við og hefði ákærði ýtt höfði hennar niður í jörðina.
Þegar B opnaði dyrnar, hefði vitnið legið á hnjánum á grúfu en B „farið í“ ákærða og sagt við hann að hann ætti ekki að lemja vitnið. Síðan kvaðst vitnið hafa séð ákærða standa fyrir aftan stúlkuna og halda með báðum höndum um handleggi hennar. Sýndist vitninu sem B héldi á steinum en kvaðst ekki hafa fylgst frekar með því, enda hefði hún verið hrædd og því farið inn til að hringja á lögreglu. Vitnið kvað þær mæðgur báðar hafa farið á heilsugæslustöð eftir þetta.
Neitaði vitnið því aðspurð að hafa ráðist á ákærða, enda óhægt um vik þar sem hún hefði verið með pizzu í höndunum. Þá kannaðist vitnið ekki við að hafa skipt um lás á hurð að íbúð ákærða.
Vitnið B, kærandi í málinu, kvaðst ekki muna mjög vel eftir atvikum þar sem langt væri um liðið. Hún kvað móður sína hafa verið að koma heim með pizzu umrætt sinn og kvaðst vitnið hafa heyrt óp og bank fyrir utan. Hún kvaðst hafa hlaupið út og séð hvar ákærði tók móður vitnisins niður og sló til hennar. Vitnið kvaðst hafa sagt ákærða að láta móður hennar vera auk þess sem hún kvaðst hafa „hlaupið í hann“ til að verja móður sína og hefði komið til slagsmála milli vitnisins og ákærða. Vitnið kvaðst hafa ætlað að henda steinum í ákærða en hann hefði tekið í hendur hennar og kreist þær á steinana og snúið hana niður. Þá hefði ákærði slegið til hennar en höggið hefði lent á hendi vitnisins. Að endingu hefði móðir hennar farið inn og vitnið farið inn á eftir henni. Lögreglan hefði komið á staðinn en ekki mundi vitnið hvort hún talaði við hana. Hins vegar mundi hún eftir því að hafa farið á heilsugæsluna ásamt móður sinni og hefði hún þá verið með sár á höndunum. Aðspurð kvaðst vitnið hafa verið hrædd umrætt sinn og hefði hún einkum verið hrædd um móður sína.
Aðspurð kannaðist vitnið við að hafa varið sig gagnvart ákærða og bitið hann. Hún hefði brjálast við að sjá ákærða ráðast á móður sína og þegar hann hefði ekki hætt, kvaðst hún hafa ýtt við honum.
Vitnið Jóhannes Gauti Sigurðsson lögreglumaður kvaðst hafa verið sendur að umræddu húsi þrisvar til fjórum sinnum áður vegna deilna milli sambúðarfólks. Í þetta sinn hefði vitnið farið þangað vegna útkalls vegna heimilisófriðar og hefði verið rætt við báða aðila á vettvangi. Konan hefði greinilega verið í uppnámi og mjög hrædd og hefði fyrst verið rætt við hana en síðan við manninn. Félagi vitnisins hefði rætt við dóttur konunnar.
Vitnið kvaðst muna sérstaklega vel eftir því að ákærði sagði við vitnið að það væri ekki hægt að gera annað en að ráðast á konuna því það væri ekki hægt að tala við hana. Hefði félagi vitnisins verið vitni að þessum orðum ákærða.
Vitnið Lárus Már Andrésson lögreglumaður kvaðst hafa komið á vettvang umrætt sinn. Hann kvaðst hafa rætt við A en Jóhannes Gauti lögreglumaður hefði talað við ákærða. Hefði A sagt að ákærði hefði ráðist á hana og dóttur hennar eftir að búið var að skipta um lás á húsinu. Þá kvaðst vitnið hafa rætt við B og séð skrámur á höndum hennar. Hefði mæðgunum verið mjög brugðið.
Eftir að hafa talað við A kvaðst vitnið hafa farið yfir til þeirra Jóhannesar Gauta og ákærða og heyrt samræður þeirra. Kvaðst vitnið hafa heyrt að ákærði sagði að það hefði ekki verið um annað að ræða en að ráðast á konuna.
Niðurstaða.
Lýsing A fyrir dóminum um að ákærði hafi ráðist á hana, rifið í hár hennar og snúið hana niður auk þess sem hann hefði ýtt höfði hennar niður í jörðina og hótað að drepa hana, er í aðalatriðum á sama veg og haft er eftir henni í frumskýrslu lögreglu þar sem hún sagði ákærða hafa rifið í hár hennar, snúið hana niður og hótað að drepa hana. Í kæruskýrslu er lýsing A einnig á sama veg að því undanskildu að þá lýsti hún því til viðbótar að ákærði hefði slegið hana hnefahögg vinstra megin á ennið. Fær lýsing A samsvörun í lýsingu vitnisins B, sem kom að þeim ákærða umrætt sinn, en annarra vitna um átökin nýtur ekki við.
Eins og áður er lýst kemur fram í læknisvottorði að áverkar A hefðu verið kúla og um það bil 3-4 cm mar vinstra megin á enni. Þá kom þar jafnframt fram að A hefði lýst málavöxtum þannig fyrir lækninum að ákærði hefði slegið til hennar og togað í hár hennar og hefði A við þetta fengið högg á ennið vinstra megin.
Ákærði hefur hins vegar neitað sök og kvað áverka A ekki vera af sínum völdum. Þá kvað hann A hafa ráðist á sig en gat aðspurður ekki lýst þeirri árás frekar. Ekkert er fram komið í málinu, sem styður þennan framburð ákærða, og þá hefur ákærði hvorki borið því við né lagt fram gögn um að hann hafi orðið fyrir áverkum af völdum A. Er það því mat dómsins að framangreind atvikalýsing ákærða sé ótrúverðug og verður ekki við hana miðað við úrlausn málsins. Hins vegar, þegar litið er til vættis þeirra A og B, sem er í aðalatriðum á sama veg, og fær stoð í áverkalýsingu í framlögðu læknisvottorði og í því sem þar kemur fram um að niðurstaða skoðunar á áverkum A geti samrýmst því að um áverka frá deginum áður sé að ræða, verður að telja að þrátt fyrir neitun ákærða, sé komin fram sönnun fyrir því að hann hafi umrætt sinn ráðist á A með þeim hætti sem lýst er í ákæru og valdið henni þeim áverkum sem þar er lýst og verður sú sönnun ekki vefengd með skynsamlegum rökum. Þá verður ekki litið fram hjá lýsingu vitnisins Jóhannesar Gauta lögreglumanns um að ákærði hafi á vettvangi sagt að það væri ekki hægt að gera annað en að ráðast á konuna því það væri ekki hægt að tala við hana en þessi frásögn fær stoð í vætti vitnisins Lárusar Más lögreglumanns. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi gagnvart A sem honum er í þessum ákærulið gefin að sök og er þar rétt færð til refsiákvæða.
Ákærði hefur lýst því að B hafi umrætt sinn komið út fyrir og ráðist á sig, reynt að kasta í hann grjóti og bitið hann í vinstri handlegg. Þessi lýsing ákærða fær að nokkru leyti stoð í vætti og A sem hafa báðar borið um að B hafi með einhverjum hætti ráðist á ákærða í þeim tilgangi að verja A gegn árás ákærða. Samkvæmt vætti B „hljóp hún í“ ákærða þegar hún kom út og kom þá til slagsmála milli þeirra. Þá kannaðist vitnið við að hafa bitið ákærða og reynt að kasta grjóti í hann. Þykir því sannað að B hafi ráðist að ákærða umrætt sinn eins og hér hefur verið lýst, í því augnamiði að verja móður sína sem ákærði hafði þá snúið niður eins og áður er komið fram.
Bæði ákærði og B hafa borið um að ákærði hafi tekið um hendur B og kvaðst ákærði hafa gert það til þess að losa steina úr höndum hennar til að koma í veg fyrir frekara grjótkast. Í skýrslu B fyrir dóminum kom fram að ákærði hefði kreist hendur hennar utan um steinana sem hún var með. Samkvæmt framlögðu læknisvottorði var B með tvo marbletti, annars vegar á hægri upphandlegg og hins vegar á framhandlegg hægra megin, auk þess sem hún var með roða í lófum eftir átök. Kom jafnframt fram að B hefði getað fengið marblettina deginum áður þegar umrædd atvik urðu. Í ljósi framanritaðs og vættis vitna verður að telja sannað að til slagsmála hafi komið milli ákærða og B umrætt sinn og að ákærði hafi kreist handleggi stúlkunnar og þá telst sannað, gegn neitun ákærða, að ákærði hafi í slagsmálum við B veitt henni þá áverka sem lýst er í ákæru og eru í samræmi við framangreint læknisvottorð.
Í vætti B hér fyrir dóminum er ekki að finna lýsingu hennar á því að ákærði hafi snúið hana niður í átökum þeirra en í kæruskýrslu kvað hún ákærða hafa reynt að snúa sig niður en sér hefði tekist að ýta honum frá. Verður því að telja ósannað að ákærði hafi snúið stúlkuna niður. Að öðru leyti verður að telja sannaða þá háttsemi ákærða, sem lýst er í þessum lið ákærunnar, og er háttsemin þar rétt færð til refsiákvæða. Verður ákærði því sakfelldur eins og krafist er.
Refsiákvörðun o.fl.
Af hálfu ákæruvaldsins var þess krafist við aðalmeðferð málsins að ákærða yrði gerð aukin refsing með vísan til ákvæða 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, svo sem þeim var breytt með 1. gr. laga nr. 27/2006. Í lagaákvæðinu kemur fram að að jafnaði skuli taka til greina til þyngingar refsingu þegar verknaður beinist að karli, konu eða barni, sem eru nákomin geranda, og tengsl þeirra þykja hafa aukið á grófleika verknaðarins.
Í athugasemdum með framangreindum lögum nr. 27/2006 segir að það sé grundvallar hugtaksatriði þeirrar tegundar háttsemi, sem hér um ræðir, að hún eigi sér stað milli einstaklinga sem teljist nákomnir á verknaðarstundu enda hafi þeir á þeim tíma eða áður myndað náin samfélagsleg tengsl sem endurspeglast í sambandi foreldris og barns, systkina eða maka, eða eru að öðru leyti taldir að lögum nákomnir þar sem þeir hafa myndað á einhverjum tímapunkti tiltekna fjölskylduheild í rýmri merkingu þess orðs. Þá segir jafnframt að þessi nánu tengsl á milli einstaklinga séu þannig talin auka á grófleika tiltekins verknaðar vegna þess trúnaðarbrots sem hann endurspeglar. Þá er þess sérstaklega getið í framangreindum athugasemdum með lögum nr. 27/2006 að refsiþynging komi vel til greina ef einstaklingur tekur upp á því að ofsækja fyrrum maka sinn eða hóta honum, jafnvel þótt nokkuð langt sé um liðið frá samvistarslitum enda yrði háttsemi geranda talin í beinum tengslum við fyrri sambúð hans og brotaþola. Fram er komið að ákærði og A voru í sambúð um þriggja ára skeið og eiga saman ungan son. Þá liggur fyrir að kærendurnir B og C, börn A, bjuggu á heimili A og ákærða á meðan á sambúðinni stóð. Einnig er óumdeilt að ákærði og kærendur bjuggu í sama húsi þegar framangreind brot voru framin.
Ljóst er að um langvarandi ósætti ákærða og A hefur verið að ræða, bæði meðan á sambúð þeirra stóð og eftir að henni lauk, auk þess sem ágreiningur hefur verið með þeim um son þeirra og búskipti eftir að samvistaslit urðu. Verður að telja að háttsemi ákærða, sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir, sé í beinum tengslum við þennan ágreining þeirra og langvarandi ósætti. Þá er það mat dómsins að háttsemi ákærða gagnvart öllum kærendum og kringumstæður allar hafi verið til þess fallnar að niðurlægja kærendur og skerða sjálfsmat þeirra eða sjálfsvirðingu. Í skýrslu Ragnheiðar Indriðadóttur sálfræðings fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins kom fram, að A hefði leitað til hennar frá vori 2007 og þá verið kvíðin og döpur með skerta og lélega sjálfsmynd. Þá kvað sálfræðingurinn A hafa lýst ofbeldi ákærða gagnvart syni hennar úr fyrra hjónabandi. Með hliðsjón af því, sem að framan er rakið, ber að líta til ákvæða 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar ákærða og er fallist á sjónarmið ákæruvaldsins að því leyti.
Að því er varðar sakargiftir samkvæmt IV. kafla ákærunnar vegna árásar ákærða á B, verður höfð hliðsjón af ákvæðum 3. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga í ljósi þess sem fram er komið og óumdeilt að til átaka kom milli ákærða og B og að hún réðst að ákærða umrætt sinn, ýtti honum, beit hann í handlegg og reyndi að kasta í hann grjóti.
Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað. Að öllu framanrituðu virtu og með hliðsjón af ákvæðum 77. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði en rétt þykir að fresta framkvæmd 6 mánaða af refsingunni og ákveða að hún falli niður að liðnum 2 árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Skaðabótakröfur.
Kærandi A setti þann 29. nóvember 2007 fram endanlegar kröfur um skaðabætur vegna líkamsárása ákærða. Krefst hún þess að ákærða verði gert að greiða henni bætur samtals að fjárhæð 861.693 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá tjónsdegi en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Er bótakrafan sundurliðuð þannig að krafist er miska- og þjáningabóta að fjárhæð 750.000 krónur, endurgreiðslu útlagðs kostnaðar að fjárhæð 15.368 krónur og bóta vegna launamissis í einn mánuð að fjárhæð 96.325 krónur. Þá er krafist greiðslu lögfræðikostnaðar við að halda fram bótakröfu að fjárhæð 31.125 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Bótakröfu sína byggir kærandi á því að ákærði hafi gerst sekur um ofbeldisbrot gegn henni og valdið langvarandi ofbeldisástandi sem hún hafi mátt þola og búa við. Er tekið fram að kærandi hafi verið frá vinnu í [...] í einn mánuð vegna líkamsárásar af hendi ákærða.
Kærandi B setti þann 29. nóvember 2007 fram endanlega kröfu um skaðabætur vegna líkamsárásar ákærða. Krefst hún þess að ákærða verði gert að greiða henni bætur samtals að fjárhæð 156.125 krónur. Er bótakrafan sundurliðuð þannig að krafist er miska- og þjáningabóta að fjárhæð 125.000 krónur auk þess sem krafist er greiðslu lögfræðikostnaðar við að halda fram bótakröfu að fjárhæð 31.125 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Kærandi C setti þann 29. nóvember 2007 fram endanlega kröfu um skaðabætur vegna líkamsárásar ákærða. Krefst hann þess að ákærða verði gert að greiða honum bætur samtals að fjárhæð 157.150 krónur. Er bótakrafan sundurliðuð þannig að krafist er miska- og þjáningabóta að fjárhæð 125.000 krónur og endurgreiðslu útlagðs kostnaðar að fjárhæð 1.025 krónur. Þá er krafist greiðslu lögfræðikostnaðar við að halda fram bótakröfu að fjárhæð 31.125 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Með vísan til þess að ákærði hefur verið sakfelldur fyrir líkamsárásir gagnvart framangreindum þremur kærendum ber ákærða að greiða þeim skaðabætur samkvæmt a-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Hins vegar er krafa A vegna launamissis ekki studd gögnum og verður henni því vísað frá dómi vegna vanreifunar. Þá hafa kröfur kærenda um þjáningabætur ekki verið rökstuddar nægilega og verður þeim einnig vísað frá dómi vegna vanreifunar. Að þessu virtu þykja bætur hæfilega ákveðnar 300.000 krónur A til handa, 75.000 krónur B til handa og 120.000 krónur C til handa og bera fjárhæðirnar vexti eins og greinir í dómsorði. Við ákvörðun þóknunar réttargæslumanns er tekið tillit til kostnaðar við að halda fram bótakröfu.
Loks ber samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar sem nemur málsvarnarlaunum skipaðs verjanda ákærða, Auðar Bjargar Jónsdóttur hdl., sem þykja hæfilega ákveðin 614.127 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Valgeirs Kristinssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin samtals 312.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, sem til samræmis við kröfugerð réttargæslumanns skiptist þannig að 218.750 krónur eru vegna réttargæslustarfa fyrir A, 46.875 krónur vegna réttargæslustarfa fyrir B og 46.875 krónur vegna réttargæslustarfa fyrir C.
Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 8 mánuði. Frestað er framkvæmd 6 mánaða af refsingunni og fellur sá hluti hennar niður að liðnum 2 árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði A 300.000 krónur í skaðabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 1. apríl 2007 til 14. apríl 2008 en með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði B 75.000 krónur í skaðabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 25. júlí 2007 til 14. apríl 2008 en með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði C 120.000 krónur í skaðabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 6. febrúar 2007 til 14. apríl 2008 en með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, 926.627 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Auðar Bjargar Jónsdóttur hdl., 614.127 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Valgeirs Kristinssonar hrl., 312.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.