Hæstiréttur íslands

Mál nr. 68/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta


Fimmtudaginn 10

 

Þriðjudaginn 8. mars 2005.

Nr. 68/2005.

Ungmennafélag Íslands

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen hrl.)

 

Kærumál. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta.

U leitaði eftir dómi þess efnis að felld yrði úr gildi sú ákvörðun sýslumanns að beina því til U að sækja um leyfi fyrir tilteknum dansleikjum og kvöldvökum um verslunarmannahelgi og krefja hann um 500.000 krónur í löggæslukostnað. Þá krafðist U þess einnig að Í yrði dæmt til að greiða sér 500.000 krónur. Talið var að U hefði lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um síðarnefndu kröfuna en ekki hafi verið þörf á að gera jafnframt fyrrnefnda viðurkenningarkröfu. Var því úrskurður héraðsdóms um frávísun málsins felldur úr gildi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. febrúar 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar 2005, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í A-lið kröfugerðar sinnar leitar sóknaraðili eftir dómi þess efnis að felld verði úr gildi sú ákvörðun sýslumannsins á Ísafirði 22. júlí 2003 að beina því til sóknaraðila að sækja um leyfi fyrir kvöldvöku og dansleik 1. ágúst 2003 og fyrir dansleikjum 2. og 3. sama mánaðar og krefja hann um 500.000 krónur í löggæslukostnað. Í B-lið krefst hann þess að varnaraðili verði dæmdur til að greiða sér 500.000 krónur með dráttarvöxtum eins og greinir í hinum kærða úrskurði. Sóknaraðili skýrir svo frá að hann hafi ekki talið sér skylt að sækja um áðurnefnt leyfi. Engu að síður hafi hann gert það að lokum þar eð hann hafi ekki átt annarra kosta völ til að koma í veg fyrir að ríkir hagsmunir hans myndu skaðast. Að kröfu sýslumannsins hafi sóknaraðili jafnframt greitt tiltekna fjárhæð í löggæslukostnað með fyrirvara um endurgreiðslu.

Sóknaraðili hefur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um þann hluta kröfugerðar sinnar, sem greinir í B-lið að framan. Var ekki þörf á að gera jafnframt þá viðurkenningarkröfu, sem höfð er uppi í A-lið. Verður hinn kærði úrskurður samkvæmt því felldur úr gildi að hluta og lagt fyrir héraðsdómara að taka til efnisúrlausnar kröfu sóknaraðila um endurgreiðslu löggæslukostnaðar að fjárhæð 500.00 krónur, sem honum var gert að greiða.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af þessum þætti málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi að því er varðar B- og C-liði kröfugerðar sóknaraðila, Ungmennafélags Íslands, og lagt fyrir héraðsdómara að taka þann hluta málsins til efnisúrlausnar. Úrskurður héraðsdóms er að öðru leyti staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar 2005.

             Mál þetta var höfðað 28. júní 2004.

             Stefnandi er Ungmennafélag Íslands, Fellsmúla 26, Reykjavík.

             Stefndi er íslenska ríkið og er fjármálaráðherra stefnt fyrir hönd þess.

             Dómkröfur stefnanda eru þessar:

A.       Að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á Ísafirði frá 22. júlí 2003 um að ;  1) beina því til stefnanda að sækja um leyfi fyrir kvöldvöku og dansleik samkvæmt auglýstri dagskrá Unglingalandsmóts UMFÍ föstu­daginn 1. ágúst 2003, dansleik með hljómsveit laugardaginn 2. ágúst 2003 sem og dansleik sunnudaginn 3. ágúst 2003 og 2) að krefja stefnanda um greiðslu löggæslukostnaðar að fjárhæð 500.000 krónur.

Fallist dómurinn á dómkröfu A er gerð sú krafa að:

B.        Stefnda (svo), íslenska ríkið, verði dæmt (svo) til að greiða stefnanda 500.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, frá 1. september 2003 til greiðsludags.

C.        Stefndu (svo) verði dæmd til að greiða stefnanda málskostnað.

Af hálfu stefnda er þess krafist aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til

vara að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda

             Frávísunarkrafa stefnda var tekin til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um hana 13. þ.m.  Stefndi krefst þess að málinu verði vísað frá dómi og að sér verði úrskurðaður málskostnaður.  Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hafnað og að sér verði ákvarðaður málskostnaður í þessum þætti málsins.

I

             Í stefnu segir að stefnandi hafi haldið 6. Unglingalandsmót sitt á Ísafirði dagana 1. – 3. ágúst 2003.  Mótið hafi verið mikil íþróttahátíð og ekki síður fjöl­skyldu­­hátíð og hafi Héraðssamband Vestfirðinga séð um framkvæmd mótsins það sinnið.

Sýslumaðurinn á Ísafirði sendi stefnanda svohljóðandi bréf 22. júlí 2003:

             “Í auglýstri dagskrá á fyrirhuguðu unglingalandsmóti UMFÍ á Ísafirði, dagana 1.-3. ágúst næstkomandi kemur m.a. fram, að á mótinu verði mikil áhersla lögð á að allir finni eitthvað við sitt hæfi. Fram kemur í auglýsingum að keppendur geti valið um fjöldann allan af afþreyingarmöguleikum eftir að keppni lýkur á daginn, hægt verði að prófa alls kyns íþróttagreinar, leiktæki og skemmtilegar þrautir, foreldrar geti tekið þátt í svokallaðri “foreldradagskrá.”, og yngri kynslóðin skemmt sér á sérstöku skemmti­svæði, þar sem meðal annars megi finna margskonar leiktæki. Jafnframt kemur fram að á kvöldin verði skemmtanir sem ættu að vera við allra hæfi, s.s. tónleikar, dansleikir, útivistardagskrá, kvöldvaka, brenna og flugeldasýning, leik­sýningar, GoKart og margt fleira.

             Ekki hefur verið sótt um leyfi til sýslumanns vegna þeirra dagskrárliða sem eru skemmtanaleyfisskyldir skv. 8. gr., sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 587/1987, um löggæslu á skemmtunum og um slit á skemmtunum og öðrum samkvæmum og VI. kafla lögreglusamþykktar fyrir Ísafjarðarbæ. Skemmtanaleyfisskyldir dagskrárliðir eru að mati sýslumanns, kvöldvaka og dansleikur skv. auglýstri dagskrá föstudaginn 1. ágúst, dansleikur með hljómsveit, laugardaginn 2. ágúst sem og dansleikur sunnudaginn 3. ágúst 2003.

             Því er beint til forráðamanna að sótt verði um leyfi hið fyrsta, til þess að unnt verði að framfylgja auglýstri dagskrá.

             Eins og auglýsingar bera með sér, er UMFÍ að boða til útisamkomu á Ísafirði umrædda daga. Má ætla að gestir skipti þúsundum, ef marka má áætlanir mótshaldara. Það er ljóst að þúsundir gesta hafa í för með sér þörf á aukinni löggæslu og er það lögreglustjóri sem tekur ákvörðun um hve margir lögreglumenn skuli vera á vakt og nánar um framkvæmd löggæslunnar. Í þessu tilliti kemur m.a. til skoðunar hvort meðferð og neysla áfengis sé bönnuð á mótssvæði og tjaldsvæðum.

             Það er ljóst að hagsmunir mótshaldara og lögreglustjóra fara saman um að fyrirhuguð ungmennahátíð fari fram með þeim hætti að öryggis sé gætt og að unnt verði að bregðast við aðstæðum hverju sinni.

             Að mati sýslumanns mun nauðsynleg viðbótarlöggæsla vegna hátíðar UMFÍ kosta að lágmarki kr. 1.500.000,- og er þá við það miðað að allt gangi samkvæmt áætlun og ekki þurfi að kalla út aukið lið. Þá eru og breyttar aðstæður hvað varðar aldur mótsgesta, sem nú er til 18 ára í stað 16 áður. Til þessa hefur kostnaði vegna landsmóta verið mætt með framlögum úr sérstökum sjóði er nú hefur verið lagður niður.

             Með hliðsjón af eðli og umfangi fyrirhugaðrar útisamkomu UMFÍ gerir lögreglustjóri þá kröfu, að embættinu verði greiddur löggæslukostnaður að fjárhæð kr. 500.000,-, en það er um þriðjungur áætlaðra útgjalda vegna hátíðarinnar miðað við þær forsendur sem nú liggja fyrir og mótshaldarar hafa kynnt lögreglu. Krafan styðst við 34. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og reglugerð nr. 587/1987, um löggæslu á skemmtunum og um slit á skemmtunum og öðrum samkvæmum. Höfð var hliðsjón af viðmiðunarreglum dómsmálaráðuneytisins frá 27. júní sl.

             Ákvörðun lögreglustjóra er kæranleg til dóms- og kirkjumálaráðuneytis, innan þriggja mánaðar frá því að hún var tilkynnt.”

 

             Eftir þetta gengu bréf á milli stefnanda og sýslumannsins á Ísafirði og einnig var haldinn fundur þar sem farið var yfir dagskrá Unglingalandsmótsins og grundvöll ákvörðunar sýslumanns.

             Með bréfi, dags. 25. júlí 2003, hafnaði stefnandi kröfu sýslumanns um að greiða löggæslukostnað til embættisins vegna Unglingalandsmótsins, einkum á þeirri forsendu að um íþróttamót sé að ræða en ekki útihátíð.

             Með bréfi sýslumanns, dags. 31. júlí 2003, til stefnanda er því hafnað að kvöld­vaka og tónleikar geti talist hluti af íþróttamóti og sé um skemmtanaleyfisskylda dagskrá að ræða þótt einungis hluti gesta greiði fyrir skemmtanir/afþreyingu.  Sett er fram sundurliðuð krafa um greiðslu löggæslukostnaðar að upphæð 497.367 krónur og skemmtanaleyfi að upphæð 5.000 krónur.  Þá er tekið fram að þar sem ákvörðun sýslumanns sé kæranleg til æðra stjórnvalds, þ.e. dóms- og kirkjumálaráðuneytis, verði að telja ásættanlega niðurstöðu að mótshaldarar setji tryggingu fyrir kröfðum lög­gæslu­kostnaði sem sýslumaður telji fullnægjandi.

             Forsvarsmenn stefnanda sendu sýslumanninum á Ísafirði umsókn, dags. 1. ágúst 2003, um “samkomuleyfi” vegna eftirtalinna viðburða sem væru leyfisskyldir samkvæmt ákvörðun sýslumanns:  1.  Kvöldvaka 1. ágúst frá kl. 22 til kl 23.30.  2.  Kvöldvaka 2. ágúst frá kl. 18.30 til kl. 23.30.  3.  Kvöldvaka 3. ágúst frá kl. 19.30 til kl. 23.30.  Tekið er fram að stefnandi telji ofangreinda viðburði ekki vera skemmtana­skyldar samkomur í skilningi laga og reglugerða og áskilji sér allan rétt til þess að kæra ákvörðun sýslumanns til dóms- og kirkjumálaráðuneytis, Umboðsmanns Alþingis og/eða dómstóla.  Þá áskilur stefnandi sér allan rétt til þess að krefja embætti sýslu­mannsins á Ísafirði um endurgreiðslu leyfisgjalda, löggæslukostnaðar og alls annars kostnaðar sem samtökin hafi og kunni að verða fyrir vegna ákvörðunar sýslu­manns.  Jafnframt setti stefnandi tryggingu fyrir löggæslukostnaði að upphæð 500.000 krónur.

             Sýslumaðurinn á Ísafirði leysti út trygginguna og gaf út kvittun til stefnanda fyrir greiðslu löggæslukostnaðar vegna Unglingalandsmóts 1. til 4. ágúst 2003, 169 tímar á 2.943 krónur, samtals að upphæð 497.367 krónur.

             Í bréfi sýslumannsins á Ísafirði til lögmanns stefnanda, dags. 20. október 2003, kemur fram að ekki liggi fyrir endanlegur raunverulegur kostnaður vegna Unglinga­landsmótsins en þegar hafi fallið til kostnaður að fjárhæð 1.367.832 krónur.

             Stefnandi kærði ofangreindar ákvarðanir sýslumannsins á Ísafirði til dóms­málaráherra með stjórnsýslukæru 22. október 2003.  Úrskurðarorð úrskurðar ráðu­neytisins 26. apríl 2004 er svohljóðandi:  “Ákvarðanir sýslumannsins á Ísafirði frá 22. júlí 2003, um að beina því til UMFÍ að sækja um skemmtanaleyfi fyrir kvöldvöku og dansleik föstudaginn 1. ágúst 2003, dansleik með hljómsveit laugardaginn 2. ágúst 2003, dansleik sunnudaginn 3. ágúst 2003, sem og að krefja kæranda um greiðslu löggæslukostnaðar að fjárhæð kr. 500.000, eru staðfestar.”

II

             Málsástæður stefnanda:

-          Ljóst sé að meginmarkmið sýslumannsins á Ísafirði hafi verið að ná til baka kostnaði vegna lögbundinnar löggæslu embættisins sem greiða eigi úr ríkissjóði.  Ákvörðun sýslumannsins frá 22. júlí 2003 og reglugerðartúlkun brjóti gegn félaga- og tjáningarfrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar sem tryggi rétt manna til að safnast saman og tjá sig með orðum og líkamlegum tilburði.

-          Sýslumaður hafi beitt ólögmætum sjónarmiðum til að komast að þeirri niðurstöðu sem ákvörðunin frá 22. júlí 2003 hafði að geyma.

-          Sýslumaður hafi farið gegn stjórnsýsluvenju við ákvarðanatöku sína.

-          Lagagrundvöllur hafi ekki verið til staðar fyrir sýslumann til að krefja stefnanda um löggæslukostnað.

-          Sýslumaður hafi ekki við meðferð máls stefnanda gætt að grunnreglum íslensks stjórnsýsluréttar um málefnalegan undirbúning ákvörðunar sinnar.

-          Sýslumaður hafi ekki gætt meðalhófs hvað varðar þann mannafla sem var við störf umrædda landsmótshelgi.

-          Umrædd ákvörðun sýslumannsins á Ísafirði sé háð slíkum annmörkum að ekki sé annað unnt en að fella hana úr gildi og leggja fyrir stefnda að endurgreiða stefnanda þá fjárhæð sem krafist er.

-          Stefnandi hafi ávallt gert fyrirvara við lögmæti, umfang og fjárhæð löggæslukostnaðarins sem sýslumaður hafi krafist og sé því krafist dráttarvaxta frá 4. september 2003 er sýslumanni hafi verið greiddur hinn umdeildi löggæslukostnaður.

III

                         Stefndi byggir kröfu sína um frávísun á því að stefndi hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, af því að fá leyst úr dómkröfu A, eins og hún sé orðuð í stefnu; lögvarðir hagsmunir séu liðnir undir lok því að stefnandi hafi sótt um skemmtanaleyfi og greitt löggæslukostnað þegar á árinu 2003.  Að mati stefnda hefði stefnandi getað leitað eftir viðurkenningardómi þar sem reyndi á lögmæti ákvarðana sýslumanns.  Þar sem skilyrði fyrir dómkröfu B og C sé að krafa A verði tekin til greina telji stefndi að vísa beri málinu frá í heild.

                         Þá er á því byggt að stefnandi hafi þurft að láta reyna á ákvörðun dómsmála­ráðuneytis, þ.e. í framangreindum úrskurði, fyrir dómi en ekki ákvörðun sýslumanns því að sú fyrri hafi leyst þá síðari af hólmi og hafi því stefnanda verið nauðsynlegt að stefna dómsmálaráðherra með vísan til 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991; ekki sé nægilegt að stefna fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.

IV

                         Það er skilyrði þess að dómstólar leysi úr sakarefni að máli skipti fyrir stöðu stefnanda að lögum að fá dóm um það. 

                         Eins og að framan greinir sótti stefnandi á árinu 2003 um það skemmtanaleyfi og greiddi jafnfram þann löggæslukostnað sem kröfugerð hans samkvæmt staflið A lýtur að.  Stefnandi hefur þannig ekki lögvarða hagsmuni, sbr. 1. mgr. og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, af úrlausn kröfunnar í dómsmáli.  Þar sem skilyrði fyrir dóm­kröfum undir stafliðum B og C eru að fallist verði á dómkröfu A ber að vísa málinu í heild frá dómi.

                         Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.

                         Úrskurðinn kveður upp Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

                         Máli þessu er vísað frá dómi.

                         Málskostnaður fellur niður.