Hæstiréttur íslands
Mál nr. 497/2015
Lykilorð
- Börn
- Forsjársvipting
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 26. nóvember 2015. |
|
Nr. 497/2015.
|
A (Margrét Gunnlaugsdóttir hrl.) gegn Félagsmálanefnd B (Ívar Pálsson hrl.) |
Börn. forsjársvipting. Gjafsókn.
Félagsmálanefnd B krafðist þess að A yrði svipt forsjá tveggja sona sinna. Taldi héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, að fullnægt væri skilyrðum a. og d. liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 til að A yrði svipt forsjá drengjanna. Var sú niðurstaða meðal annars reist á forsjárhæfnimati og undirmatsgerð sálfræðings um að A væri óhæf til að fara með forsjá þeirra og sinna forsjárskyldum sínum gagnvart þeim. Þá hefðu önnur og vægari úrræði verið reynd án þess að þau hefðu skilað viðunandi árangri, sbr. 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Í dómi Hæstaréttar kom fram að niðurstaða yfirmatsgerðar tveggja sálfræðinga, sem A hafði aflað eftir að dómur héraðsdóms var kveðinn upp, hefði samrýmst fyrrgreindu forsjárhæfnimati og undirmatsgerð. Að því virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms var hann staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Greta Baldursdóttir hæstaréttardómari, Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari og Garðar Gíslason fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. júlí 2015. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda um að hún verði svipt forsjá sonar síns C. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms.
Eftir að hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp aflaði áfrýjandi yfirmatsgerðar tveggja sálfræðinga. Niðurstöður hennar samrýmdust forsjárhæfnimati 15. júlí 2014 og undirmatsgerð sálfræðings 7. apríl 2015 um að áfrýjandi væri ófær um að fara með forsjá sonar síns C. Að þessu virtu og öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti verður ekki dæmdur, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar 1.000.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 9. júlí 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var 22. júní sl., höfðaði stefnandi, Félagsmálanefnd B, [...], [...], hinn 18. nóvember 2014, gegn stefndu, A, nú til heimilis að [...], [...].
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði svipt forsjá sona sinna, C, kt. [...], og D, kt. [...], sbr. a- og d-liði 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Endanlegar dómkröfur stefndu eru þær að hún verði sýknuð af kröfu stefnanda um að hún verði svipt forsjá sonar síns, C. Stefnda samþykkir hins vegar þá kröfu stefnanda að hún verði svipt forsjá drengsins D, sbr. yfirlýsingu lögmanns hennar þar um við upphaf munnlegs málflutnings. Þá krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.
I
A
Stefnda er fædd í [...]. Hún á tvo syni, C, fæddan [...] 2010, og D, fæddan [...] 2013.
Barnaverndaryfirvöld hafa haft afskipti af stefndu frá því skömmu fyrir fæðingu eldri sonar hennar. Stefnda segir ástæðu þess að afskiptin hófust hafa verið ítrekaðar tilkynningar systur hennar þess efnis að hún neytti fíkniefna á meðgöngunni. Þær ásakanir hafi hins vegar ekki átt við rök að styðjast.
Í sálfræðilegri matsgerð, dagsettri 4. nóvember 2010, komst álitsgjafi að þeirri niðurstöðu að ekki væri óhætt að stefnda færi með forsjá C. Þannig fór að stuttu eftir að stefnda fæddi drenginn, sjö vikum fyrir tímann, kyrrsettu barnaverndaryfirvöld hann í tvígang á fæðingardeild. Hinn 1. desember 2010 var drengurinn tekinn af vökudeild Landspítalans og hann fluttur á fósturheimili í [...] og þaðan í [...].
Í sálfræðilegri greinargerð E, sem dagsett er 11. febrúar 2011, var niðurstaðan sú að stefnda væri hæf til að fara með forsjá C. Í matsgerð F geðlæknis, dagsettri þann sama dag, var komist að þeirri niðurstöðu að allt stefndi í þá átt að stefnda gæti annast son sinn með miklum stuðningi, en að nauðsynlegt væri að barnaverndaryfirvöld fylgdust vel með málinu. Dvaldi drengurinn ásamt stefndu á vistheimili frá byrjun janúar 2011 til loka febrúar sama ár frá kl. 8:00 til 17:00, fimm daga vikunnar, og mun stefnda hafa fengið heimild til þess að dvelja næturlangt þar tvisvar í viku. Fékk stefnda leiðsögn meðan á dvölinni stóð. Dvölin reyndist mæðginunum árangursrík og lauk henni með því að þau fluttu saman heim til móður stefndu. Tilsjón var með heimilinu til að byrja með en henni lauk í apríl 2011. Rann áætlun um meðferð máls út í ágúst 2011 og var barnaverndarmálinu sem slíku lokað í kjölfarið.
Þrátt fyrir það voru málefni stefndu og C til umfjöllunar hjá félagsmála- og barnaverndaryfirvöldum fram á árið 2013 er stefnda flutti til [...]. Barst stefnanda tilkynning 2. september 2013 um flutning máls C frá Velferðarþjónustu [...] og tók stefnandi við vinnslu málsins frá þeim tíma. Samdægurs barst stefnanda tilkynning símleiðis frá ljósmóður á Heilbrigðisstofnun [...] vegna drengsins og nýfædds bróður hans, D, en hann hafði stefnda fætt á heimili föður síns þremur dögum áður. Í tilkynningu ljósmóður komu fram verulegar áhyggjur af geðheilsu stefndu og hæfni hennar til að annast syni sína, ekki síst þann nýfædda. Kom fram í tilkynningunni að hreinlæti og húsnæði væri ábótavant og að grunur léki á um skort á eðlilegri tengslamyndun foreldris og barns. Stefnda hefur til þess vísað í málinu að eftir fæðingu D hafi hún þjáðst af fæðingarþunglyndi, auk þess sem kvíði sem hún hafi lengi glímt við hafi ágerst verulega eftir fæðinguna.
Greinargerð ljósmóður vegna tilkynningarinnar barst stefnanda 9. september 2013. Samdægurs fóru tveir starfsmenn stefnanda á heimili stefndu og tóku út aðstæður þar, ásamt því að ræða við stefndu um framkomnar tilkynningar. Eftir að hafa lagt mat á gögn málsins í heild sinni var það niðurstaða starfsmanna stefnanda að fullt tilefni væri til að hafa verulegar áhyggjur af aðstæðum drengjanna og að nauðsynlegt væri að grípa til víðtækra stuðningsúrræða.
Í kjölfar heimsóknar starfsmanna stefnanda var unnin áætlun í máli C með gildistíma frá 18. september til 2. október 2013. Markmið áætlunarinnar var sagt að tryggja öryggi drengsins og tryggja stefndu nauðsynlega geðheilbrigðisþjónustu. Hlutverk stefndu samkvæmt áætluninni var að þiggja geðheilbrigðisþjónustu samkvæmt ráðleggingum geðteymis Heilbrigðisstofnunar [...] og samþykkja daglegt eftirlit sérfræðings á vegum stefnanda. Hlutverk stefnanda var að afla gagna frá starfsfólki heilbrigðisþjónustu eftir því sem þau féllu til, afla gagna að öðru leyti eftir því sem stefnandi teldi máli skipta og leggja mat á það hvaða úrræða væri þörf við lok áætlunarinnar. Á tímabili áætlunarinnar sinnti hjúkrunarfræðingur í ungbarnaeftirliti meðal annars daglegu innliti til stefndu á tímabilinu í þágu beggja sona hennar. Einnig vitjaði starfsfólk geðteymis Heilbrigðisstofnunar [...] stefndu í þrjú skipti á tímabili áætlunarinnar í þágu beggja drengjanna.
Ný áætlun var gerð með gildistíma frá 7. október til 21. október 2013. Markmið áætlunarinnar var sagt að tryggja C nauðsynlega örvun og tryggja stefndu nauðsynlega geðheilbrigðisþjónustu. Hlutverk stefndu samkvæmt áætluninni var að koma C á leikskóla daglega frá kl. 9:00 til kl. 16:00, samþykkja daglegt innlit starfsmanns á vegum stefnanda, þiggja geðheilbrigðisþjónustu samkvæmt ráðleggingum geðteymis og sækja foreldranámskeið á leikskólanum [...]. Hlutverk stefnanda var að afla gagna frá heilbrigðisþjónustu eftir því sem þau féllu til sem og annarra gagna er stefnandi teldi máli skipta, auk þess að greiða kostnað vegna foreldranámskeiðs. Þá var það hlutverk stefnanda að leggja mat á það hvaða úrræða væri þörf við lok áætlunarinnar.
Samkvæmt upplýsingum frá leikskóla mætti C í tvo daga í leikskólann á tímabili áætlunarinnar. Stefnda hefur gefið þær skýringar á bágum mætingum drengsins, fyrir utan stöku veikindi hans, að hún hafi þjáðst af miklum kvíða eftir fæðingu yngri sonar síns, enda þá verið undir gríðarlegu álagi. Í þau skipti er drengurinn mætti í leikskólann mun amma hans hafa komið með hann og sótt hann í lok skóladags. Þá mun stefnda ekki hafa mætt á foreldranámskeið eins og kveðið var á um í áætlun um meðferð málsins. Í greinargerð G læknis og H geðhjúkrunarfræðings, dagsettri 21. október 2013, komu fram verulegar áhyggjur þeirra af tengslavanda stefndu, sem og áhyggjur þeirra af tengslaröskun sona hennar.
Þriðja áætlunin um meðferð máls stefndu vegna C var unnin og gilti hún frá 1. nóvember til 31. desember 2013. Markmið áætlunarinnar var sagt að tryggja drengnum nauðsynlega örvun og tryggja stefndu nauðsynlega geðheilbrigðisþjónustu. Hlutverk stefndu samkvæmt áætluninni var að tryggja að drengurinn færi í leikskóla daglega frá kl. 9:00 til kl. 16:00, þiggja geðheilbrigðisþjónustu og samþykkja þjónustu tilsjónarmanneskju til að efla hana í uppeldishlutverki sínu. Hlutverk stefnanda var að afla gagna frá heilbrigðisþjónustu eftir því sem þau féllu til, sem og annarra gagna er nefndin teldi máli skipti, leggja til þjónustu tilsjónarmanneskju með það fyrir augum að efla stefndu í uppeldishlutverki sínu, greiða kostnað vegna geðheilbrigðisþjónustu og greiða kostnað við leikskóladvalar drengsins. Þá var það hlutverk nefndarinnar að leggja mat á það hvaða úrræða væri þörf við lok áætlunarinnar.
Samkvæmt upplýsingum frá leikskóla mætti C í leikskólann í níu daga á tímabilinu frá og með 1. nóvember til og með 26. sama mánaðar. Þegar ljóst varð að stefnanda tækist ekki að finna starfsmann til að sinna hlutverki tilsjónarmanns inni á heimilinu var áætlunin felld úr gildi.
Fjórða áætlunin var sett fram af hálfu stefnanda með gildistíma frá 26. nóvember 2013 til 31. janúar 2014. Markmið áætlunarinnar var sagt að C fengi nauðsynlega örvun. Hlutverk stefndu samkvæmt áætluninni var að tryggja að drengurinn færi í leikskólann daglega frá kl. 9:00 til kl. 16:00. Hlutverk stefnanda var að greiða fyrir leikskóladvöl drengsins. Þá var það hlutverk nefndarinnar að leggja mat á það hvaða úrræða væri þörf við lok áætlunarinnar. Samkvæmt upplýsingum frá leikskóla mætti drengurinn í fimm daga á tímabilinu frá og með 27. nóvember 2013 til og með 24. janúar 2014.
Hinn 22. janúar 2014 barst stefnanda tilkynning frá aðila sem óskaði nafnleyndar um aðbúnað C. Vörðuðu áhyggjur tilkynnanda að stefnda væri ekki að sinna drengnum í samræmi við aldur hans, meðal annars með tilliti til aðgæslu. Undir lok febrúarmánaðar 2014 barst stefnanda tilkynning frá stefndu vegna drengsins í gegnum Neyðarlínuna, 112. Í tilkynningunni kom fram grunur um að stjúpfaðir drengsins hefði beitt hann kynferðislegu ofbeldi. Efni tilkynningarinnar var kannað og um þá könnun unnin greinargerð. Í kjölfarið var máli drengsins vísað til meðferðar í Barnahúsi með samþykki stefndu. Stefnda mun hafa átt að mæta með C í sérhæfða læknisskoðun í Barnahúsi 5. mars 2014 og í kjölfarið í könnunarviðtal á sama stað. Stefnda mætti hins vegar ekki. Ekki var unnt að fá læknisskoðun á ný fyrr en að tveimur vikum liðnum. Þá var það amma drengsins sem mætti með hann en ekki stefnda. Í samráði við starfsfólk Barnahúss og lögregluyfirvöld lagði starfsmaður stefnanda fram kæru vegna málsins til lögreglustjórans á [...]. 19. mars 2014. Ekki er upplýst um afdrif kærunnar í gögnum málsins.
Eftir að áætlun um meðferð máls með gildistíma frá 26. nóvember 2013 til 31. janúar 2014 rann út lagði stefnandi áherslu á að aflað yrði mats á forsjárhæfni stefndu. Hinn 3. mars 2014 hafnaði stefnda að taka þátt í forsjárhæfnismati.
Hinn 20. mars 2014 var lögmanni stefndu send ný áætlun í máli C sem ætlað var að gilda frá 20. mars 2014 til 31. maí sama ár. Hafði stefnanda þá tekist að tryggja starf tilsjónarmanns inni á heimili stefndu, samþykkti hún áætlunina. Markmið áætlunarinnar var sagt að drengurinn fengi nauðsynlega örvun og byggi við viðunandi heimilisaðstæður. Hlutverk stefndu samkvæmt áætluninni var að samþykkja þjónustu tilsjónarmanneskju sem hefði það hlutverk að fara með drenginn í leikskóla á hverjum virkum morgni. Það yrði jafnframt hlutverk tilsjónarmanneskju að leggja mat á það hvort C hefði heilsu til að fara í leikskólann hverju sinni í ljósi ítrekaðra tilkynninga stefndu um veikindi drengsins. Þá átti það að vera hlutverk tilsjónarmanneskju að leiðbeina stefndu um heimilishald. Hlutverk stefndu samkvæmt áætluninni var að sækja drenginn í lok dags á leikskóla og samþykkja óboðað eftirlit af hálfu starfsfólks stefnanda á tímabili áætlunar. Hlutverk stefnanda samkvæmt áætluninni var að leggja til tilsjónarmanneskju samkvæmt framangreindu, greiða kostnað við leikskóladvöl drengsins og leggja mat á það hvaða úrræða væri þörf við lok áætlunarinnar. Stefnda mun hafa hafnaði þessari áætlun.
Lögmanni stefndu var 26. apríl 2014 send tillaga að nýrri áætlun um meðferð máls sem gilda átti frá 25. apríl 2014 til 31. ágúst sama ár. Stefnda ritaði ekki undir þá áætlun vegna C. Þegar hér var komið sögu hafði stefnda fallist á að gangast undir mat á forsjárhæfni, að því tilskildu að hún yrði höfð með í ráðum við val á matsaðila. Svo fór að lögmaður stefndu lagði til, að höfðu samráði við hana, að F geðlæknir yrði fenginn til að framkvæma matið. Féllst stefnandi á þá tillögu.
F skilaði matsgerð um forsjárhæfni stefndu 15. júlí 2014. Í niðurstöðu matsgerðarinnar segir meðal annars svo:
Að mati undirritaðs sýnir A algera vangetu að sjá um syni sína og veita þeim það aðhald, stuðning og hvatningu sem nauðsynlegt er.
A hefur á síðustu árum flutt mikið á milli sveitarfélaga, sem hefur gert barnaverndaryfirvöldum erfiðara að fylgjast með hennar málum. A býr við mjög takmarkaðan stuðning frá sínum nánustu. Svo virðist sem móðir hennar I sé sú eina sem veitir henni stuðning og aðstoð.
A er í þörf fyrir mjög mikla meðferð og stuðning, en hún hefur ekki nýtt sér þau stuðnings- og meðferðarúrræði sem henni hafa staðið til boða. Það hefur tvívegis staðið til að leggja hana inn á geðdeild Landspítalands til frekari mats, en hún hefur neitað því í bæði skiptin. Eini stuðningurinn sem A fær frá heilbrigðiskerfinu er frá G lækni í [...]. Mikilvægt er að sá stuðningur haldi áfram.
Að loknum endurteknum viðtölum, heimsóknum heim til A, viðtölum við hennar nánustu og rækilega könnun á gögnum málsins, er það álit undirritaðs að A sé ekki fær um að annast forsjá sona sinna, þeirra C og D.
A hefur ekki viljað þiggja þann stuðning og hjálp sem nauðsynleg er til þess að hún eigi möguleika á að sinna því mikilvæga hlutverki sem felst í uppeldi og forsjá sona hennar og er það mat undirritaðs að geta hennar til þess hlutverks aukist ekki í fyrirsjáanlegri framtíð.
Um miðjan júní 2014 kveðst stefnda hafa óskað eftir því við föður C að drengurinn yrði hjá honum í nokkrar vikur í sumarleyfi. Lögmanni hennar var síðan 20. ágúst 2014 send ný áætlun um meðferð máls, ásamt yfirlýsingu um vistun C utan heimilis. Markmið þeirrar áætlunar segir stefnandi hafa verið að búa drengnum öruggar heimilisaðstæður þangað til varanleg búseta hans lægi fyrir, en stefnanda þótti ljóst að fenginni niðurstöðu matsmanns að drengurinn gæti ekki búið áfram hjá stefndu. Hlutverk stefndu samkvæmt áætluninni var að samþykkja vistun C á heimili föðurömmu hans á tímabili áætlunarinnar. Hlutverk nefndarinnar var að vista drenginn utan heimilis hjá föðurömmu á tímabili áætlunarinnar og afla tilskilinna leyfa fyrir vistuninni frá Barnaverndarstofu. Með tölvuskeyti 22. ágúst 2014 var áætluninni hafnað af hálfu stefndu. Vísaði stefnda til þess að tillagan gengi gegn markmiðum barnaverndarlaga og hagsmunum drengsins.
Mál beggja sona stefndu voru tekin fyrir á fundi stefnanda 27. ágúst 2014. Á fundinum var tekin fyrir tillaga starfsmanna stefnanda um að þeim yrði yrði falið að leggja málið fyrir nefndina eins fljótt og kostur væri á grundvelli 27. gr. barnaverndarlaga, sem fæli í sér að úrskurða um hvort vista ætti C utan heimilis þar sem stefnda hafði hafnað áætlun um meðferð máls frá 20. ágúst 2014. Í greinargerð stefndu, sem lögð var fram á fundinum, var tillögunum mótmælt. Frestaði stefnandi afgreiðslu málsins og fól starfsmönnum nefndarinnar að taka saman greinargerð um málið fyrir næsta fund hennar. Einhliða áætlun um beitingu þvingunarúrræða lá fyrir 22. september 2014 og var hún kynnt lögmanni stefndu degi síðar. Samhliða var boðað til nýs fundar í nefndinni 24. september 2014. Lagði stefnandi upp með það að féllist stefnda ekki á áætlun um vistun C utan heimilis í tvo mánuði myndi nefndin úrskurða um töku drengsins af heimili og vistun hans á heimili á vegum nefndarinnar í tvo mánuði á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Jafnframt að ákveðið yrði að höfða mál á hendur stefndu til sviptingar forsjár yfir drengnum með vísan til a- og d-liða 1. mgr. 29. gr. sömu laga.
Á fundinum 24. september 2014 gerði lögmaður stefndu grein fyrir sjónarmiðum hennar og upplýsti jafnframt að hún samþykkti ekki vistun C í tvo mánuði utan heimilis. Í kjölfarið kvað stefnandi upp úrskurð um að drengurinn yrði tekinn af heimili sínu og vistaður á heimili á vegum nefndarinnar í tvo mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar. Stefnandi fól starfsmönnum sínum jafnframt að höfða mál á hendur stefndu til forsjársviptingar á grundvelli a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga.
Haustið 2014 flutti stefnda frá [...] og að [...] í [...]. Hún er nú búsett á heimili móður sinnar að [...] í [...]. C hefur verið í reglulegri umgengni við stefndu frá því í nóvember 2014.
B
Undir rekstri málsins var E sálfræðingur dómkvödd til þess að meta hvort stefnda væri fær um að sinna daglegri umönnun og uppeldi sona sinna. Einnig var þess farið á leit við matsmanninn að hann mæti forsjárhæfni stefndu og mögulega þörf hennar fyrir stuðning, sem og möguleika og hæfni hennar til að nýta sér stuðning.
Matsmaður skilaði sálfræðilegri matsgerð 7. apríl 2015. Telur matsmaður skýrt hafa komið fram í viðtölum hans við stefndu að innsæi hennar og skilningur á ástand sitt sé mjög takmarkaður og þar af leiðandi einnig hæfni hennar til að nýta sér meðferð og stuðning. Matsmaður tekur fram að stefnda upplifi mikinn kvíða og spennu. Fælnihegðun hennar séu líkleg viðbrögð við kvíða. Hvort sem um sé að ræða kvíða eða fælni þá hafi stefnda ekki getað sinnt eðlilegum verkum eins og að eiga í samstarfi við leikskólakennara eldri drengsins eða taka þátt í atvinnulífinu. Telur matsmaður líklegt að stefnda þjáist af félagsfælni. Þá sé henni fyrirmunað að sjá vanda sinn og þörf fyrir aðstoð. Metur matsmaður það svo að forsjárhæfni stefndu sé stórlega skert vegna persónulegra eiginleika hennar og tilfinningaástands.
Matsmaður telur andlegt ástand stefndu, innsæisskort hennar á eigið tilfinningalíf og á líðan og hegðun annarra gera það að verkum að hún geti ekki sinnt daglegri umönnun og uppeldi sona sinna á þann hátt sem öll börn eigi rétt á. Kveðst matsmaður ekki fá séð hvernig stefnda eigi að geta veitt drengjunum líkamlega umönnun þegar horft sé til þess hversu illa hún sinni sjálfri sér að því leyti, sem og heimilishaldi. Þá telur matsmaður að stefnda muni ekki geta mætt nauðsynlegum þörfum C. Hún hafi sýnt menntunarlega vanrækslu gagnvart drengnum og hvorki geta farið með drenginn sjálf í leiksskóla né séð um aðlögun hans þar. Þá hafi stefnda ekki getað átt í neinu samstarfi við leikskólakennara drengsins. Ólíklegt sé að stefnda geti verið virkur þátttakandi í skólastarfi drengsins í framtíðinni.
Matsmaður bendir á að stefndu hafi gengið illa að fóta sig í skólakerfinu og þá hafi hún nánast enga reynslu af vinnumarkaðnum. Stefnda hafi verið háð félagslega kerfinu um framfærslu og þurfi hún mikinn og þéttan stuðning, eigi hún að geta lifað sjálfstæðu lífi og átt möguleika á að annast börn sín. Hins vegar geri persónugerð stefndu það að verkum að hún sjái ekki nauðsyn þess að fá aðstoð og úrræði til að geta axlað þá ábyrgð sem því fylgi að annast og ala upp börn. Niðurstaða persónuleikaprófs leiði í ljós að stefnda sjái ekki ástæðu eða tilgang í að leita sér meðferðar eða aðstoðar til að auka sjálfstyrk. Þá mælist meðferðarheldni lítil hjá stefndu.
C
Stefnandi kvað upp úrskurð 28. janúar 2014 um að yngri sonur stefndu, D, yrði kyrrsettur á heimili á vegum nefndarinnar í tvo mánuði frá uppkvaðningu úrskurðarins. Í kjölfarið krafðist stefnandi þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að drengurinn yrði vistaður utan heimilis í sex mánuði. Með úrskurði dómsins 14. maí 2014 var fallist á þá kröfu stefnanda. Stefnda kærði úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar Íslands sem staðfesti hann með dómi uppkveðnum 11. júní 2014.
Stefnandi fundaði um mál D 24. september 2014. Í kjölfarið tók stefnandi ákvörðun um að fela starfsmönnum sínum að höfða mál þetta á hendur stefndu til forsjársviptingar á grundvelli a- og d-liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í ljósi þess að stefnda hefur nú samþykkt þá kröfu stefnanda að hún verði svipt forsjá drengsins D þykja ekki vera efni til þess að rekja frekar málsatvik er varða þann dreng sérstaklega.
II
Stefnandi bendir á að samkvæmt 1. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 eigi börn rétt á vernd og umönnun. Þá skuli við uppeldi barna sýna þeim virðingu og umhyggju og óheimilt sé að beita börn hvers konar ofbeldi. Samkvæmt 2. gr. sömu laga sé markmið þeirra að tryggja að börn sem búi við óviðunandi aðstæður, eða börn sem stofni heilsu sinni og þroska í hættu, fái nauðsynlega aðstoð. Þá skuli í barnaverndarstarfi leitast við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki þeirra en beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það eigi við.
Í 4. gr. laga nr. 80/2002 segir stefnandi tilgreindar ákveðnar meginreglur sem hafa skuli í heiðri í barnaverndarstarfi. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. skuli í barnaverndarstarfi beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að barni séu fyrir bestu. Hagsmunir barna skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda og þá skuli barnaverndarstarf stuðla að stöðugleika í uppvexti barna, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. skuli barnaverndaryfirvöld í starfi sínu leitast við að eiga góða samvinnu við börn og foreldra sem þau hafa afskipti af og ávallt sýna þeim fyllstu nærgætni og virðingu. Þá skuli barnaverndaryfirvöld eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða, sbr. 7. mgr. 4. gr. Enn fremur skuli ávallt miða við að beita vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Því aðeins skuli gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti.
Stefnandi vísar til þess að í 12. gr. laga nr. 80/2002 sé fjallað um hlutverk barnaverndarnefnda. Í 2. tölulið 1. mgr. 12 gr. komi fram að barnaverndarnefndir skuli til verndar börnum beita þeim úrræðum laganna sem best eigi við hverju sinni og heppilegust þyki til að tryggja hagsmuni og velferð barnanna.
Stefnandi segir strax hafa vaknað efasemdir hjá barnaverndaryfirvöldum um hæfni stefndu til að annast barn við fæðingu eldri sonar hennar, C, og hafi drengurinn meðal annars verið kyrrsettur á fæðingardeild strax eftir fæðingu. Niðurstaðan hafi þó orðið sú, eftir stuðning og þjálfun, að allt stefndi í þá átt að stefnda gæti annast son sinn með stuðningi. Nauðsynlegt hafi þó verið talið að barnaverndaryfirvöld fylgdust áfram vel með málinu og hafi stefnda og eldri sonur hennar ávallt verið undir eftirliti félagsmálayfirvalda á þeim stað sem hún hafi búið hverju sinni. Við því hlutverki hafi stefnandi tekið [...] 2013 þegar tilkynning hafi borist um flutning máls eldri sonar stefndu frá Velferðarþjónustu [...]. Sama dag hafi nefndinni borist tilkynning símleiðis frá ljósmóður á Heilbrigðisstofnun [...] vegna eldri drengsins og nýfædds bróður hans, D, sem þá hafi verið þriggja daga gamall. Í tilkynningunni hafi komið fram verulegar áhyggjur af geðheilsu stefndu og hæfni hennar til að annast um syni sína, ekki síst soninn nýfædda
Stefnandi segir gögn málsins sýna að þrátt fyrir umfangsmikinn stuðning fagfólks frá heilbrigðisþjónustu og stefnanda, á grundvelli áætlana nefndarinnar, hafi stefnda ekki getað veitt drengjunum þá umönnun, öryggi og örvun sem nauðsynleg sé. Leitast hafi verið við að ná samstarfi við stefndu um sérhæfða þjónustu af hálfu heilbrigðisyfirvalda til að styrkja hana í að takast á við móðurhlutverk sitt og efla tengsl hennar við drengina. Um hafi verið að ræða meðferð á vegum geðdeildar Landspítala Háskólasjúkrahúss. Stefnda hafi hins vegar ekki nýtt sér það úrræði sem staðið hafi henni til boða í tvígang fyrir 1. nóvember 2013.
Í bréfi Heilbrigðisstofnunar [...] frá 21. október 2013 komi fram að stefnda búi við takmarkanir sem rýri innsæi hennar og foreldrahæfni, hæfni til að nema og skilja og bregðast við þörfum sona sinna og láta velferð þeirra njóta forgangs. Í bréfi stofnunarinnar, mótteknu 23. desember 2013, komi fram að tengsl stefndu við syni hennar séu slök. Til að ná betri tengslum þurfi meðferðarvinnu til langs tíma. Stefnda telji sig tilbúna að vinna með tengsl en geta hennar til þess sé takmörkuð. Bendir stefnandi í þessu sambandi á að C hafi frá 12. júní 2014 dvalið hjá föðurömmu sinni. Við uppkvaðningu úrskurðar stefnanda 24. september 2014 hafi staðan verið sú að stefnda hafði ekki hitt C, en hins vegar hringt þrisvar til að fá af honum fréttir.
Hvað athugasemdir lögmanns stefndu um andmælarétt og málsmeðferð varði taki stefnandi fram að hann telji að bætt hafi verið úr málsmeðferð með frestun á afgreiðslu málanna 27. ágúst 2014, framlagningu greinargerða og andmælum lögmanns stefndu á fundi stefnanda 24. september 2014. Málin hafi því verið fullrannsökuð áður en ákvörðun var tekin um höfðun máls þessa.
Athugasemdir stefndu um að meðalhófs hafi ekki verið gætt og að beita beri vægari úrræðum sem miði að því að sameina fjölskylduna telji stefnandi ekki eiga við. Fyrir liggi að stefnda hafi hvorki viljað né getað þegið þau úrræði sem staðið hafi henni til boða. Þrátt fyrir yfirlýsingar stefndu um að hún sé tilbúin til að þiggja frekari hjálp og aðstoð hafi hún ítrekað skorast undan þegar á hólminn var komið. Þá hafi þau fjölmörgu stuðningsúrræði sem reynd voru ekki skilað tilætluðum árangri. Það sé því mat stefnanda að engar líkur séu á að stefnda geti nýtt sér stuðningsúrræði samkvæmt 24. og 26. gr. laga nr. 80/2002 með vísan til fenginnar reynslu í málum beggja sona hennar.
Stefnandi segir niðurstöðu F geðlæknis í mati á forsjárhæfni stefndu, dagsettu 15. júlí 2014, vera ótvíræða. Hann telji stefndu hafa sýnt algera vangetu til að sjá um syni sína og veita þeim það aðhald, stuðning og hvatningu sem nauðsynlegt sé. Stefnda sé í þörf fyrir mjög mikla meðferð og stuðning en hún hafi ekki nýtt sér þau stuðnings- og meðferðarúrræði sem henni hafi staðið til boða. Sé það álit geðlæknisins að stefnda sé ekki fær um að annast forsjá sona sinna. Stefnda hafi ekki viljað þiggja þann stuðning og þá hjálp sem nauðsynleg sé til þess að hún eigi möguleika á að sinna því mikilvæga hlutverki sem í uppeldi og forsjá sona hennar felist. Það sé mat geðlæknisins að geta stefndu til þess hlutverks aukist ekki í fyrirsjáanlegri framtíð. Samkvæmt þessu sé ljós sú ótvíræða niðurstaða hins sérfróða aðila að stefnda sé ekki fær um að fara með forsjá sona sinna. Niðurstaða dómkvadds matsmanns, I sálfræðings, sbr. skýrslu hennar frá 7. apríl 2015, sé mjög á sömu á sömu lund.
Stefnda hafi haldið því fram að forsjárhæfnimat F sé villandi og rangt, án þess að samhliða hafi verið settar fram efnislegar athugasemdir við matið. Í því sambandi tekur stefnandi fram að hann telji að lýsingar á aðstæðum á heimili stefndu í matinu byggi ekki eingöngu á lýsingum annarra heldur einnig á athugun hans sjálfs. Einnig fái lýsingin stoð í gögnum málsins, svo sem dagálum starfsmanna stefnanda.
Varðandi andmæli stefndu þess efnis að vafi leiki á því að skilyrði samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2002 séu fyrir hendi tekur stefnandi fram að hann telji, með tilliti niðurstaðna F og hins dómkvadda matsmanns, sem og með hliðsjón af öðrum gögnum málsins, að daglegri umönnun og uppeldi sona stefndu hafi verið alvarlega ábótavant hjá henni. Auk þess telji stefnandi fullvíst að heilsu og þroska drengjanna sé hætta búin í umsjá stefndu þar sem hún sé vanhæf til að fara með forsjána.
Með vísan til þeirra forsjárhæfnimata sem liggi fyrir, auk annarra gagna, telji stefnandi að stefnda sé ekki fær um að fara með forsjá drengjanna og verði það ekki í fyrirsjáanlegri framtíð. Frekari stuðningsúrræði séu þýðingalaus. Vægara úrræði en varanleg forsjársvipting sé því ekki tækt til að tryggja drengjunum viðunandi umönnun, uppeldi, heilsu og þroska, sbr. 2. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2002.
III
Svo sem áður var rakið samþykkti stefnda við upphaf aðalmeðferðar málsins þá kröfu stefnanda að hún verði svipt forsjá drengsins D. Eftirfarandi umfjöllun um málsástæður stefndu og lagarök eiga því eingöngu við þann hluta kröfugerðar stefnanda er varðar eldri son stefndu, C.
Stefnda kveðst í fyrsta lagi byggja kröfu sína um sýknu á því að lagaskilyrði skorti til að svipta hana forsjá sonar hennar, C. Skilyrði a- og d-liða 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu ekki uppfyllt í málinu, auk þess sem ákvæði 2. mgr. 29. gr. laganna komi í veg fyrir að unnt sé að fallast á kröfuna.
Það sé mat stefndu að ekki hafi verið sýnt fram á að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum hennar við C hafi verið alvarlega ábótavant, með hliðsjón af aldri drengsins og þroska. Stefnda hafi farið með forsjá drengsins frá fæðingu hans. Til að byrja með hafi stefnda átt í vandræðum með umönnun sonar síns, en drengurinn hafi verið fyrirburi og stefnda verið einungis 17 ára þegar hann kom í heiminn. Eftir veru á vistheimili hafi stefnda náð ágætum tökum á umönnun drengsins og hafi hann þroskast fallega og eðlilega í umsjá hennar. Tengsl þeirra mæðgina séu eðlileg. Upp á síðkastið hafi þau farið minnkandi þar sem drengurinn hafi um hríð verið vistaður utan heimilis. Hafi stefnda einungis notið umgengni við son sinn einu sinni í viku. Bendir stefnda á að við vinnslu málsins hafi ekki verið rætt við drenginn sjálfan um tengsl hans við móður sína.
Stefnda kveðst samkvæmt áðursögðu telja að 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga girði fyrir að unnt sé að taka kröfu stefnanda um forsjársviptingu til greina. Stefndu hafi ekki verið boðið að fara með drengnum á vistheimili, auk þess sem úrræði samkvæmt 25. og 26. gr. laganna hafi ekki verið fullreynd. Telji stefnda að strax í lok október 2013 hafi stefnandi tekið ákvörðun um að vinna að því að koma drengnum úr hennar forsjá. Sjáist það best á því hversu takmarkaða umgengni stefnandi hafi ákveðið að stefnda skyldi hafa við drenginn þrátt fyrir að drengnum stafaði engin hætta af henni.
Stefnda hafni því alfarið að C sé hætta búin í hennar umsjá. Stefnda hafi annast drenginn undanfarin ár án þess að hann hlyti nokkurn skaða af. Stefnda njóti tryggs stuðnings frá móður sinni og sé drengurinn henni náinn. Samkvæmt þessu og öðru framangreindu beri að sýkna stefndu af kröfum stefnanda þar sem skilyrði 29. gr. laga nr. 80/2002 séu ekki uppfyllt í málinu.
Í öðru lagi kveður stefnda sýknukröfuna á því reista að krafa stefnanda um forsjársviptingu sé í andstöðu við þau markmið sem tilgreind séu í lögum nr. 80/2002. Í 2. gr. laganna séu markmið þeirra tilgreind. Þar segi meðal annars að markmið laganna sé að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu. Ómögulegt sé að sjá hvernig umrædd svipting geti verið til þess fallin að styrkja stefndu í uppeldishlutverki sínu. Að mati stefndu hafi stefnandi frá upphafi unnið í andstöðu við umrætt markmið, enda virðist svo vera sem ætlunin hafi alltaf verið sú að aðskilja hana og C. Umgengni stefndu við drenginn hafi alla tíð verið afar lítil og óljóst hvernig stefnda hafi átt að efla tengsl sín við barnið með tveggja klukkustunda samveru, þrisvar í viku, á ókunnugu heimili. Þá verði að gera athugasemd við það að stefnda hafi ekki fengið að hafa umgengni við drenginn yfir nótt frá því fyrir 1. nóvember 2013. Stefnda hafi ítrekað óskað eftir aukinni umgengni, án þess að við því hafi verið orðið. Ákvörðun starfsmanns stefnanda þess efnis að drengurinn fengi ekki að hitta stefndu yfir jólahátíðina 2014 sýni best þá hörku sem stefnandi hafi sýnt þeim mæðginum. Í málinu hafi ekkert fram komið sem bent hafi til þess að C stafaði hætta af því að hitta stefndu þá, en drengurinn hafi öll sín fyrri ár dvalið hjá stefndu um hátíðir. Þar sem stefnandi hafi ekki fylgt markmiðum laga nr. 80/2002 í málinu beri að sýkna stefndu af kröfu stefnanda varðandi forsjá C.
Stefnda kveður sýknukröfu sína enn fremur byggjast á því að forsjársviptingarkrafan brjóti í bága við þá grundvallarreglu laga nr. 80/2002, sem lögfest sé í 7. mgr. 4. gr. laganna, að beita beri vægasta úrræði sem unnt sé til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Krafan fari jafnframt gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins sem lögfest sé í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Reglan komi einnig fram í fyrrgreindri 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Stefnda sé 21 árs gömul. Hún hafi um árabil glímt við kvíða og ýmiss konar fælni sem hái henni í daglegu lífi. Eldri sonur stefndu hafi fæðst sjö vikum fyrir tímann og hafi hann glímt við margs konar kvilla fyrstu vikur ævi sinnar. Á þessum tíma hafi stefnda einungis verið 17 ára gömul. Hún hafi glímt við mikinn kvíða og fælni, sem hindrað hafi hana frá því að geta heimsótt drenginn og annast hann á vökudeild Barnaspítala Hringsins. Með góðri hjálp og aðstoð á vistheimili hafi stefndu hins vegar tekist að taka við umönnun sonar síns. Eftir fæðingu yngri sonarins hafi fyrrgreind kvíða- og fælnieinkenni blossað upp á ný.
Miðað við stöðu mála í dag segist stefnda telja að engan veginn sé tímabært að svipta hana forsjá C. Stefnda hafi annast drenginn með ágætum. Hann sé vel þroskaður og glaður í hennar umsjá. Helstu aðfinnslur stefnanda snúi að því að stefnda hafi ekki sinnt því nægilega vel að fara með drenginn á leikskóla haustið 2013, auk þess sem sóðaskapur hafi verið á heimili stefndu. Ekki verði hins vegar fram hjá því litið að haustið 2013 hafi verið stefndu afar þungbært. Nýfæddur sonur hennar hafi þrifist illa og ítrekað verið lagður inn á spítala vegna þess. Í kjölfarið hafi hann verið vistaður utan heimilis. Stefndu hafi liðið verulega illa yfir þessu og hafi kvíðaeinkenni hjá henni verið alvarlegri á þessu tímabili en þau hafa nokkru sinni verið. Það hafi vissulega komið niður á leikskólagöngu drengsins en stefnda telji fráleitt að líta svo á að heilsu hans eða velferð hafi verið ógnað vegna þessa.
Þá hafi starfsmenn stefnanda sýnt stefndu óvirðingu í samskiptum tengdum umgengni. Þannig hafi starfsmaður stefnanda sent lögmanni stefndu tölvupóst á fimmtudegi og tilkynnt að umgengni stefndu við drenginn næstkomandi laugardag félli niður. Starfsmaðurinn hafi hvorki reynt að hafa samband við stefndu til að tilkynna henni þetta né hafi hann tilgreint ástæður þess að umgengni félli niður. Áður hafi verið fjallað um ákvarðanatöku starfsmanna stefnanda í tengslum við umgengni yfir jól og áramót. Umræddar ákvarðanir báðar hafi verið í andstöðu við meðalhófsreglu.
Stefnda segir líðan sína hafa tekið miklum breytingum. Stefnda hafi unnið stóra sigra nýverið þegar komi að kvíðanum en hún fari nú mun meira út en áður og finni mikinn mun á sér. Enn fremur hafi stefnda nýlega hafið störf sem afgreiðslumaður í verslun, en um hlutastarf sé að ræða. Telji stefnda að stefnanda beri skylda til að veita henni tækifæri til að sýna fram á forsjárhæfni sína áður gripið verði til þess alvarlegasta úrræðis sem barnaverndarlög heimili.
Að lokum kveðst stefnda byggja sýknukröfu sína á því að forsjársviptingarkrafan brjóti í bága við meginreglur barnaverndarlaga, sem lögfestar séu í 4. gr. þeirra. Reglur þær sem tilgreindar séu í ákvæðinu hafi ekki verið hafðar að leiðarljósi í málinu. Krafa stefnanda um stefnda verði svipt forsjá C sé drengnum ekki fyrir bestu. Stefnda hafi annast drenginn nánast allt hans líf. Hann sé afar háður móður sinni og séu tengsl þeirra mæðgina sterk. Þá bendi gögn málsins ekki til þess að drengurinn hafi hlotið nokkurn skaða af því að búa hjá stefndu, en drengurinn sé bæði vel þroskaður og glaðlyndur.
Hvað kröfu um málskostnað varðar bendir stefnda sérstaklega á að hún sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili, sbr. ákvæði laga nr. 50/1988.
IV
Svo sem rakið er í kafla I hér að framan komu málefni stefndu fyrst til kasta barnaverndaryfirvalda í október 2010. Upplýst er að stefnandi hefur ítrekað frá því í september 2013 gripið til úrræða á grundvelli barnaverndarlaga vegna eldri sonar stefndu, C. Þá liggur fyrir að drengurinn hefur ekki búið hjá stefndu síðan í júní 2014.
Áður hefur verið getið forsjárhæfnimats sem F geðlæknir vann og dagsett er 15. júlí 2014. Í stuttu máli komst hann að þeirri eindregnu niðurstöðu að stefnda sýndi algera vangetu að sjá um syni sína og veita þeim það aðhald, stuðning og hvatningu sem nauðsynlegt væri. Taldi matsaðilinn stefndu hafa þörf fyrir mjög mikla meðferð og stuðning. Hún hefði hins vegar ekki nýtt sér þau stuðnings- og meðferðarúrræði sem henni hefðu staðið til boða. Að loknum endurteknum viðtölum, heimsóknum til stefndu, viðtölum við hennar nánustu og rækilegri könnun á gögnum málsins, væri það álit matsaðilans að stefnda væri ekki fær um að annast forsjá sona sinna. Stefnda hafi ekki viljað þiggja þann stuðning og hjálp sem nauðsynleg sé til þess að hún eigi möguleika á að sinna því mikilvæga hlutverki sem felist í uppeldi og forsjá sona hennar. Var það niðurstaða matsaðilans að geta stefndu til þess hlutverks ykist ekki í fyrirsjáanlegri framtíð.
Undir rekstri málsins var dómkvaddur sérfróður matsmaður, E sálfræðingur, til þess að meta hvort stefnda væri fær um að sinna daglegri umönnun og uppeldi sona sinna. Einnig var þess farið á leit við matsmanninn að hann mæti forsjárhæfni stefndu og mögulega þörf hennar fyrir stuðning, sem og möguleika og hæfni hennar til að nýta sér stuðning.
Sálfræðileg matsgerð hins dómkvadda matsmanns liggur frammi í málinu, dagsett 7. apríl 2015. Að mati dómsins eru niðurstöður matsmanns eindregið til stuðnings áðurröktum niðurstöðum F geðlæknis. Þannig telur matsmaður skýrt hafa komið fram í viðtölum hans við stefndu að innsæi hennar og skilningur á ástandi sínu sé mjög takmarkaður og þar af leiðandi einnig hæfni hennar til að nýta sér meðferð og stuðning. Vegna kvíða eða fælni hafi stefnda ekki getað sinnt eðlilegum verkum eins og að eiga í samstarfi við leikskólakennara eldri drengsins eða taka þátt í atvinnulífinu. Þá sé henni fyrirmunað að sjá vanda sinn og þörf fyrir aðstoð. Telur hinn dómkvaddi matsmaður að forsjárhæfni stefndu sé stórlega skert vegna persónulegra eiginleika hennar og tilfinningaástands.
Það er jafnframt niðurstaða matsmanns að andlegt ástand stefndu, innsæisskortur hennar á eigið tilfinningalíf og á líðan og hegðun annarra geri það að verkum að hún geti ekki sinnt daglegri umönnun og uppeldi sona sinna á þann hátt sem öll börn eigi rétt á. Fær matsmaður ekki séð hvernig stefnda eigi að geta veitt drengjunum líkamlega umönnun þegar hún virðist hvorki geta sinnt eigin umhirðu né heimilishaldi. Þá telur matsmaður að stefnda muni ekki geta mætt nauðsynlegum þörfum C en hún hafi sýnt mikla vanrækslu varðandi þarfir drengins, meðal annars í tengslum við leikskólagöngu hans. Ólíklegt sé að stefnda geti verið virkur þátttakandi í skólastarfi drengsins í framtíðinni.
Matsmaður bendir enn fremur á að stefndu hafi gengið illa að fóta sig í skólakerfinu og þá hafi hún nánast enga reynslu af vinnumarkaðnum. Stefnda hafi verið háð félagslega kerfinu um framfærslu og þurfi hún mikinn og þéttan stuðning eigi hún að geta lifað sjálfstæðu lífi og átt möguleika á að annast börn sín. Hins vegar geri persónugerð stefndu það að verkum að hún sjái ekki nauðsyn þess að fá aðstoð og úrræði til að geta axlað þá ábyrgð sem því fylgi að annast og ala upp börn.
F og E komu bæði fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins. Staðfestu þau matsskýrslur sínar og áréttuðu sínar niðurstöður. Fyrir liggur að þau höfðu áður metið forsjárhæfni stefndu, þ.e. í upphafi árs 2011, og þá talið að með miklum stuðningi gæti hún sinnt uppeldishlutverki sínu. Augljóst er af skýrslum þeirra nú að ástand og færni stefndu hafi versnað og að stuðningsaðgerðir við hana hafi ekki borið tilætlaðan árangur. Það síðastnefnda kom einnig glöggt fram hjá vitninu J, starfsmanni stefnanda, en vitnið lýsti því að stefndu hefði verið boðinn mikill stuðningur sem hún hefði ekki verið móttækileg fyrir. Orðaði vitnið það svo að í raun hefði verið um sýndarsamstarf að ræða af hálfu stefndu.
Að mati dómsins eru skýrslur F og E í góðu samræmi við önnur framlögð gögn í málinu. Hefur stefnda ekki hnekkt niðurstöðum hinna sérfróðu aðila. Verða skýrslur þeirra því lagðar til grundvallar við úrslausn málsins.
Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir einsýnt að stefnda sé ekki hæf til að fara með forsjá sona sinna og sinna forsjárskyldum sínum gagnvart þeim. Brýna nauðsyn þykir því bera til þess að skapa drengjunum til frambúðar það öryggi og þá umönnun sem þeir þurfa á að halda og eiga rétt á lögum samkvæmt, sbr. 1. og 2. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga skal því aðeins gera kröfu um sviptingu forsjár að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs. Af gögnum málsins er ljóst að önnur og vægari úrræði samkvæmt 23.-26. gr. barnaverndarlaga hafa lengi verið reynd vegna drengsins C, einkum og sér í lagi frá því í september 2013, án þess að þau hafi skilað viðunandi árangri. Samkvæmt því verður ekki fallist á það með stefndu að meðferð málsins hjá stefnanda sé haldin annmörkum og að málið hafi ekki verið nægilega upplýst áður en ákvörðun hafi verið tekin, þannig að farið hafi verið á svig við meðalhófsreglu eða gengið gegn meginreglum barnaverndarstarfs samkvæmt 4. gr. barnaverndarlaga. Þá verður heldur ekki annað séð en að andmælaréttar stefndu hafi verið gætt við meðferð málsins fyrir nefndinni.
Samkvæmt öllu því sem að framan er rakið og með hagsmuni drengjanna C og D að leiðarljósi verður að fallast á það með stefnanda að uppfyllt séu skilyrði a- og d-liða 29. gr. barnaverndarlaga til að svipta stefndu forsjá drengjanna, en stefnda hefur samkvæmt áðursögðu samþykkt kröfu um sviptingu forsjár hvað yngri drenginn varðar. Kröfur stefnanda í málinu verða því teknar til greina.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Samkvæmt 1. mgr. 60. gr. barnaverndarlaga nýtur stefnda gjafsóknar í málinu. Greiðist allur gjafsóknarkostnaður stefndu því úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Guðríðar Láru Þrastardóttur hdl., sem hæfilega þykir ákveðin svo sem í dómsorði greinir að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari, sem dómsformaður, ásamt meðdómsmönnunum Guðfinnu Eydal og Guðrúnu Oddsdóttur sálfræðingum.
D Ó M S O R Ð:
Stefnda, A, er svipt forsjá sona sinna, C, kt. [...], og D, kt. [...].
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Guðríðar Láru Þrastardóttur hdl., 762.600 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.