Hæstiréttur íslands
Mál nr. 328/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. apríl 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 24. apríl 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 29. apríl 2016 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími, en að því frágengnu að honum verði gert að sæta farbanni. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fullnægt er skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 24. apríl 2016.
I
Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra krafðist þess í dag að X, kt. [...], [...], yrði gert að sæta gæzluvarðhaldi til föstudagsins 29. apríl og einangrun á meðan á vistinni stæði. Vísaði lögreglustjóri til a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og b. liðar 1. mgr. 99. gr. laganna.
Sakborningur krefst þess að kröfunni verði hafnað en til vara þess að varðhaldi verði markaður skemmri tíma og án einangrunar.
II
Lögreglustjóri segir í kröfu sinni að rétt fyrir hádegi í gær hafi verið tilkynnt um mann sem lægi um kílómetra ofan við hesthúsahverfi Akureyrar. Hafi komið í ljós að maðurinn væri A, sem lögregla sé kunnug. Hafi hann verið með áverka sem greinilega hafi verið af mannavöldum, meðal annars með skófar á andliti. Bráðalæknir á sjúkrahúsinu á Akureyri hafi við rannsókn málsins tjáð lögreglu að brotaþoli hafi hlotið sprungu á úlnlið, auk þeirra áverka sem lýst sé í gögnum málsins.
Lögreglustjóri segir að brotaþoli muni lítið eftir atvikum en hafi sagt sakborning hafa ráðizt á sig, þar sem hann hafi verið staddur í [...] á [...], slegið sig í höfuðið með hafnaboltakylfu og stungið sig í fót og hönd. Að öðru leyti hafi brotaþoli ekki getað eða ekki viljað tjá sig um málið. Lögreglustjóri segir að samkvæmt gögnum málsins hafi sakborningur og tveir aðrir aðilar ráðizt aftur á brotaþola í [...], hent honum upp á bifreiðarpall og ekið honum upp fyrir bæinn og virðist sem þar hafi þeir gengið mjög illa í skrokk á honum unz þeir hafi skilið hann eftir meðvitundar- og bjargarlausan um morguninn, fjarri mannabyggð.
Lögreglustjóri segir að rannsókn málsins sé á frumstigi. Ekki sé búið að yfirheyra þá sem taldir séu hafa verið með kærða í brotunum. Telji lögregla sig vita hver annar sé en viti ekki um hinn. Verið sé að rannsaka mjög alvarlegt brot sem framið hafi verið í félagi og sé nauðsynlegt að koma í veg fyrir að þeir sem þar hafi verið að verki hafi áhrif á frásögn félaga sinna og samræmi sögu sína. Þá eigi eftir að rannsaka bifreið þá sem komið hafi við sögu og finna og rannsaka brotavettvang. Allt þetta sé nauðsynlegt að gera áður en sakborningur verði frjáls ferða sinna svo hann hafi ekki færi til að afmá ummerki eða fjarlægja eða fela sönnunargögn.
Lögreglustjóri segir að til rannsóknar séu brot gegn 1. mgr. 226., 2. mgr. 218. og 1. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga.
Fyrir dómi vildi sakborningur ekki tjá sig um þá háttsemi hann er grunaður um. Af hans hálfu voru ekki talin efni til að verða við kröfunni eins og málinu væri háttað.
III
Af gögnum málsins er ljóst að sakborningur er undir rökstuddum grun um að hafa gerzt sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Þá verður ráðið af gögnunum að rökstuddur grunur er uppi um að fleiri menn hafi komið við sögu sem gerendur. Rannsókn málsins mun fremur skammt á veg komin. Verður að fallast á með lögreglustjóra að ætla megi að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins, sem með því að afmá merki eftir brot eða hafa áhrif á hugsanlega samseka menn, verði hann frjáls ferða sinna á þessu stigi rannsóknarinnar. Verður því að fallast á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti gæzluvarðhaldi og einangrun meðan á því stendur. Eru ekki efni til að marka varðhaldi skemmri tíma en krafizt er.
Af hálfu lögreglustjóra fór Eyþór Þorbergsson fulltrúi með málið.
Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Sakborningur, X, sæti gæzluvarðhaldi til föstudagsins 29. apríl kl. 16:00 og einangrun á varðhaldstíma.