Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-150

FO Projects ehf. (Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður)
gegn
PK Byggingum ehf. (Arnar Þór Stefánsson lögmaður) og Þingvangi ehf. (Jónas Fr. Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Nauðasamningur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 8. desember 2023 leitar FO Projects ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., til að kæra úrskurð Landsréttar 1. desember 2023 í máli nr. 683/2023: FO Projects ehf. gegn PK Byggingum ehf. og Þingvangi ehf. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort staðfesta beri nauðasamning leyfisbeiðanda á grundvelli samningsfrumvarps sem samþykkt var á fundi atkvæðismanna 28. júní 2023.

4. Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að hafna kröfu leyfisbeiðanda um staðfestingu nauðasamningsins. Í dómi Landsréttar kom fram að umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum hefði tilkynnt gagnaðilum að kröfur þeirra nytu ekki atkvæðisréttar um nauðasamninginn og þær yrðu þar af leiðandi ekki teknar upp í kröfuskrá, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 21/1991. Farið var með atkvæði þeirra sem ágreiningsatkvæði samkvæmt 3. mgr. 50. gr. sömu laga þar sem aðila greindi á um réttmæti krafna gagnaðila. Gagnaðilar greiddu atkvæði gegn frumvarpinu en eftir að atkvæði voru talin að nýju eftir fyrirmælum 4. mgr. 52. gr. laganna taldist frumvarpið samþykkt. Í dómi Landsréttar kom fram að gagnaðilar hefðu lagt fram ýmis gögn í því skyni að sýna fram á tilvist réttarsambands á milli sín og leyfisbeiðanda. Staðfest var sú niðurstaða héraðsdóms að þeir hefðu fært að því verulegar líkur að kröfur að baki atkvæðum þeirra við nauðasamningsumleitanir væru réttar og að þeim hefði átt að fylgja atkvæðisréttur um frumvarpið, sbr. 5. tölulið 1. mgr. 58. gr. laga nr. 21/1991. Ljóst væri að frumvarpið hefði ekki hlotið næg atkvæði til samþykkis ef ágreiningsatkvæði gagnaðila hefðu verið talin með.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi og almenna þýðingu með tilliti til nauðasamninga, einkum um hvaða kröfur skuli gerðar til kröfuhafa í skilningi 5. töluliðar 1. mgr. 58. gr. laga nr. 21/1991. Málið hafi þannig fordæmisgildi um hve rík sönnunarbyrði hvíli á handhöfum ágreiningsatkvæða og hver þröskuldurinn sé við mat á því hvort kröfur teljist réttar þannig að þeim fylgi atkvæði. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að kæruefnið hafi grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng. Þær forsendur Landsréttar að gagnaðilar hafi lagt fram ýmis gögn í því skyni að sýna fram á tilvist réttarsambands milli sín og leyfisbeiðanda séu á skjön við 5. tölulið 1. mgr. 58. gr. laga nr. 21/1991.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að kæruefnið hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu á grundvelli þess að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að efni til. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.