Hæstiréttur íslands
Mál nr. 263/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfugerð
- Gengistrygging
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Miðvikudaginn 8. maí 2013. |
|
Nr. 263/2013.
|
Lykil-Hótel ehf. (Friðbjörn Garðarsson hrl.) gegn Byggðastofnun (Garðar Garðarsson hrl.) |
Kærumál. Kröfugerð. Gengistrygging. Vanreifun. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli L ehf. á hendur B var vísað frá dómi með vísan til þess að kröfugerð og lýsing málsástæðna í stefnu uppfyllti ekki áskilnað d. og e. liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. L ehf. hafði krafist þess að viðurkennt yrði að skuldbinding félagsins samkvæmt verðskuldabréfum hefði verið ákveðin í íslenskum krónum en ekki í evrum. Einnig krafðist L ehf. viðurkenningar á því að eftirstöðvar bréfanna hefðu á tilteknum degi numið nánar tilgreindum fjárhæðum sem gefnar voru upp í krónum. Með vísan til kröfugerðarinnar og málatilbúnaðar L ehf. að öðru leyti þótti kröfugerðin nægilega skýrt afmörkuð og málsástæðum lýst með nægjanlega glöggum hætti þannig að efnisdómur yrði lagður á hvort lög leiddu til þess að dómkröfur L ehf. yrðu teknar til greina. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. apríl 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 27. mars 2013 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að málið verði tekið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Til vara er þess krafist að málskostnaður verði látinn falla niður.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar auk kærumálskostnaðar.
I
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði tók sóknaraðili tvö lán hjá varnaraðila á árinu 1998, annað að fjárhæð 20.000.000 krónur og hitt að fjárhæð 27.000.000 krónur. Lánin skyldu endurgreiðast með 39 jöfnum afborgunum og voru gjalddagar tveir á ári. Eftir ítrekuð vanskil sóknaraðila varð samkomulag með honum og varnaraðila 30. nóvember 2004 um að breyta skilmálum beggja lánanna með gerð viðauka við skuldabréf þau sem gefin voru út í tilefni lántökunnar. Samkvæmt viðaukunum var höfuðstól lánanna, vöxtum, vanskilavöxtum, dráttarvöxtum og ábyrgðar- og lántökugjöldum í íslenskum krónum breytt í nýjan höfuðstól sem tilgreindur var í evrum á gengi þess dags, sem var 87,75 krónur fyrir hverja evru.
Eftir að varnaraðili lagði fram með bréfi 7. mars 2012 beiðni um nauðungarsölu á fasteign sem sett hafði verið að veði til tryggingar endurgreiðslu lánanna tveggja ritaði sóknaraðili honum bréf 2. maí sama ár, þar sem fram kemur meðal annars það álit sóknaraðila að „með fyrrgreindum viðaukum hafi ekki annað verið gert en að gengistryggja lán sem veitt hafði verið og greitt út í íslenskum krónum ... Út frá þeim dómafordæmum sem að framan eru rakin hefur [sóknaraðili] látið reikna fyrir sig rétta og leiðrétta stöðu skuldabréfanna tveggja ... miðað við að um gengistryggð lán í íslenskum krónum hafi verið að ræða. Niðurstaðan er sú að skuld félagsins við [varnaraðila] á grundvelli hinna tveggja fyrrnefndu skuldabréfa hafi þann 30. mars s.l. verið samtals 107.549.403 ... [Sóknaraðili] býður [varnaraðila] greiðslu á fyrrgreindri fjárhæð gegn útgáfu fullnaðarkvittunar og aflýsingu skuldabréfanna af þeim veðum sem standa skuldinni til tryggingar.“ Þá er í bréfinu vísað til þess að varnaraðili hafi krafist nauðungarsölu á eignum sóknaraðila í samræmi við efni skuldabréfanna og „verði ekki gengið að tilboði [sóknaraðila] þá er [honum] nauðugur einn sá kostur að höfða mál gegn [varnaraðila] þar sem krafist verður viðurkenningar á því að skuldbinding [sóknaraðila] gagnvart [varnaraðila] hafi verið ákveðin í íslenskum krónum og gengistryggð ásamt viðurkenningar á stöðu lánanna.“
II
Í upphafi stefnu máls þessa er því lýst með almennum hætti að sóknaraðili höfði málið „til viðurkenningar á að skuldbinding samkvæmt tveimur skuldabréfum ásamt viðaukum hafi verið ákveðin í íslenskum krónum og til leiðréttingar á höfuðstól skuldabréfanna tveggja.“ Í framhaldinu er stefnukrafan afmörkuð þannig að þess sé „krafist að viðurkennt verði með dómi að skuldbinding [sóknaraðila] samkvæmt veðskuldabréfum útgefnum af [sóknaraðila] til [varnaraðila], þann 24. maí 1998, númer 701343, annars vegar og þann 26. júní 1998, númer 701357, hins vegar, eins og þeim var breytt með viðaukum þann 30. nóvember 2004, hafi verið ákveðin í íslenskum krónum en ekki í evrum. Þá er þess krafist, að viðurkennt verði með dómi að eftirstöðvar veðskuldabréfanna hafi verið ... miðað við stöðu þeirra 30. mars 2012: Aðallega ... samtals krónur 107.549.503 ... Til vara: ... samtals krónur 159.799.206.“ Þá segir í stefnunni að sóknaraðili „álítur að með viðaukunum hafi ekki annað verið gert en að gengistryggja lán sem veitt hafði verið og greitt út í íslenskum krónum. Slík gengistrygging hafi verið ólögmæt þegar frá öndverðu og því sé rétt og lögleg skuld [sóknaraðila] mun lægri en sú fjárhæð sem [varnaraðili] krefur hann um ...“. Þá segir í stefnunni að sóknaraðili álíti fulljóst „að gerð viðaukanna við skuldabréfin hafi falið í sér verðtryggingu skuldbindinga í íslenskum krónum, bundið við gengi evru og fari af þeim sökum í bága við ákvæði 14. gr. vaxtalaga um verðtryggingu ... Af dómi Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 má ráða, að við ákvörðun vaxta af skuldbindingum samkvæmt lánssamningnum beri að fara eftir 4. gr., sbr. 3. gr. vaxtalaga sem felur í sér, að vextir skuli vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. laganna.“
Í ljósi málatilbúnaðar sóknaraðila verður að skilja kröfugerð hans í málinu þannig að hann krefjist í fyrsta lagi viðurkenningar á því að framangreindir viðaukar við skuldabréfin tvö frá árinu 2004 feli í sér ólögmæta gengistryggingu fjárskuldbindinga, sem ákveðnar hafi verið í íslenskum krónum. Er sú kröfugerð studd vísun til nánar tilgreindra ákvæða í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og dómaframkvæmdar. Að því gefnu að fallist verði á þá dómkröfu hans að um sé að ræða ólögmæta gengistryggingu fjárskuldbindinga í íslenskum krónum, krefjist hann í öðru lagi viðurkenningar á því að eftirstöðvar skuldabréfanna tveggja séu með þeim nánar tilgreinda hætti sem áður er rakinn. Er sú dómkrafa einnig studd vísun til ákvæða í lögum nr. 38/2001 og dómaframkvæmdar. Kröfugerð sóknaraðila er samkvæmt því sem hér hefur verið rakið nægilega skýrt afmörkum þannig að fullnægt sé skilyrðum d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 til þess að dómur verði á hana lagður. Þá eru málsástæður þær sem sóknaraðili byggir málssókn sína á og önnur atvik greind með nægjanlega glöggum hætti þannig að samhengi málsástæðna hans megi ljóst vera, sbr. e. liður 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Af þessu leiðir að tilvitnuð ákvæði laga nr. 91/1991 standa því ekki í vegi að efnisdómur verði á það lagður hvort lög leiði til þess að dómkröfur sóknaraðila verði teknar til greina. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Í ljósi þessara málsúrslita verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem ákveðst í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, Byggðastofnun, greiði sóknaraðila, Lykil-Hótelum ehf., 650.000 krónur málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 27. mars 2013.
I
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 28. febrúar sl., um frávísunarkröfu stefnda, er höfðað með birtingu stefnu 18. maí 2012.
Stefnandi er Lykil-Hótel ehf., Seljugerði 12, Reykjavík.
Stefndi er Byggðastofnun, Ártorgi 1, Sauðárkróki.
Dómkröfur
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að skuldbinding stefnanda, samkvæmt veðskuldabréfum útgefnum af stefnanda til stefnda, hinn 24. maí 1998, númer 701343, annars vegar og hinn 26. júní 1998 númer 701357, hins vegar, eins og þeim var breytt með viðaukum hinn 30. nóvember 2004, hafi verið ákveðin í íslenskum krónum en ekki evrum. Stefnandi krefst þess jafnframt að viðurkennt verði með dómi að eftirstöðvar veðskuldabréfanna hafi, miðað við stöðu þeirra 30. mars 2012, verið eftirfarandi:
Aðallega
Skuldabréf nr. 701343 44.084.835 krónur
Skuldabréf nr. 701357 63.464.568 krónur
Samtals 107.549.503 krónur
Til vara
Skuldabréf nr. 701343 65.910.643 krónur
Skuldabréf nr. 701357 93.888.563 krónur
Samtals 159.799.206 krónur
Loks krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði í heild vísað frá dómi, til vara krefst hann þess að þeim kröfuliðum sem lúta að viðurkenningu á því að skuld stefnanda við stefnda, sé miðað við 30. mars 2012, nánar tilteknar fjárhæðir í íslenskum krónum, hvort sem um ræðir aðal- eða varakröfu stefnanda, sé vísað frá dómi en sýknu er krafist af öðrum kröfuliðum. Til þrautavara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda. Loks krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda og að við ákvörðun hans verði tekið tillit til þess að stefndi er ekki virðisaukaskattsskyldur.
Í þessum þætti málsins er til úrlausnar krafa stefnda um frávísun málsins. Stefnandi krefst þess að kröfu stefnda um frávísun verði hafnað.
II
Stefnandi, sem stundar hótelrekstur, leitaði til stefnda, sem er stofnun í eigu íslenska ríkisins, vorið 1998 og óskaði eftir láni. Samkomulag varð um að stefndi lánaði stefnanda fé og í samræmi við það gaf stefnandi, hinn 24. maí 1998, út veðskuldabréf nr. 701343 að fjárhæð 20.000.000 króna. Lánið var verðtryggt og tók verðtryggingin mið af vísitölu neysluverðs og bar bréfið á þeim tíma sem það var gefið út 7,7% vexti. Rúmum mánuði síðar, eða hinn 26. júní, gaf stefnandi út annað skuldabréf, nr. 701357, til stefnda með sömu kjörum að fjárhæð 27.000.000 króna. Skuldabréfin voru bæði upphaflega tryggð með veði í eign stefnanda, Skútustaðaskóla, en eigninni hefur verið afsalað til Hótels Mývatns ehf. og hvíla þau þar nú sem lánsveð. Fyrrgreinda lánið var einnig upphaflega tryggt með veði í fasteigninni nr. 7 við Glerárgötu á Akureyri.
Stefnandi stóð ekki í skilum við endurgreiðslu lánanna. Af þeim sökum gerðu aðilar með sér samkomulag sem fólst í því að gerðir voru viðaukar við bréfin í október 2009 þar sem gjaldfallnar afborganir, vextir og dráttarvextir voru endurlánaðir og bætt við höfuðstól skuldarinnar. Hinn 30. nóvember 2004 voru aftur gerðir viðaukar við bréfin sem fólu í sér annað og meira en fyrri viðaukar. Samkvæmt þessum viðaukum var höfuðstól, vöxtum, vanskilum, dráttarvöxtum, ábyrgðar- og lántökugjöldum í íslenskum krónum breytt í nýjan höfuðstól sem ákveðinn var í evrum á gengi þess dags, 87,75 krónur fyrir hverja evru. Fyrra lánið, sem upphaflega var að höfuðstól 20.000.000 króna, var reiknað upp á nýtt í samræmi við framanritað og nam upphæð þess 38.889.830 krónum og samkvæmt því var nýr höfuðstóll ákveðinn 443.188,95 evrur. Síðara lánið var umreiknað á sama hátt og nam höfuðstóll þess 54.568.170 krónum eða 621.859,50 evrum. Enn voru gerðir viðaukar við bréfin í nóvember 2007 og þá var öllum vanskilum og kostnaði, reiknað í evrum, sem til hafði fallið frá síðustu skilmálabreytingum bætt við höfuðstól lánanna sem nú var aftur tiltekinn í evrum.
III
Málsástæður og lagarök
Stefnandi byggir aðallega á því að skuldbinding hans samkvæmt nefndum skuldabréfum og viðaukum við þau varði lánsfé í íslenskum krónum, sbr. VI. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, bundið við gengi evru en ekki lánsfé í evrum. Í þessu sambandi vísar stefnandi til dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 92/2010 og 153/2010 sem hann telur eiga við hér. Þar hafi skýrlega verið kveðið á um almennt bann við gengistryggingu hér á láni og að allir lánasamningar sem tryggðir væru með slíkum hætti tækju sjálfkrafa breytingum hvað varðar réttindi og skyldur. Þá vísar stefnandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 þar sem ákveðið hafi verið að ákvæði um vexti í lánasamningi, sem þar var til umfjöllunar og varðaði ólögmætt gengistryggt lán, skyldu miðast við 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001. Eftir þann dóm hafi Alþingi sett lög nr. 151/2010 um breytingu á vaxtalögum. Loks hafi Hæstiréttur, með dómi í málin nr. 600/2011, endanlega kveðið á um það með hvaða hætti skyldi fara með greiddar afborganir láns sem lánastofnun hefur móttekið án fyrirvara.
Stefnandi segir að andvirði lána í máli þessu hafi verið greitt út í íslenskum krónum en ekki evrum. Allar afborganir lánanna hafi að sama skapi verið greiddar í íslenskum krónum. Hann hafi ekki fengið afhentar kaupnótur til staðfestingar því að erlendar myntir hafi verið keyptar í tengslum við lántöku hans. Þá hafi allar færslur varðandi lánin verið framkvæmdar í íslenskum krónum.
Stefnandi heldur því fram að við úrlausn máls þessa skipti orðalag viðaukanna ekki máli heldur beri að horfa til inntaks samninganna og annarra atvika. Í því efni vísar stefnandi til þess að lánin hafi verið tekin til að fjármagna rekstur hans sem sé í íslenskum krónum. Afborganir og greiðsla vaxta hafi farið fram í sömu mynt sem tók mið af gengi evru eftir gerð viðaukanna. Þetta sýni að skuldbinding hans hafi verið í íslenskum krónum. Þá heldur stefndi því fram að skýra beri óljós ákvæði viðaukanna til samræmis við sjónarmið hans, þar á meðal kröfugerð, enda hafi stefndi einhliða samið samningana.
Stefndi heldur því fram að viðaukar við skuldabréfin hafi falið í sér verðtryggingu skuldbindinga í íslenskum krónum sem bundin hafi verið við gengi evru og af þeim sökum farið í bága við ákvæði 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu, sbr. áðurnefnda dóma Hæstaréttar Íslands, enda uppfylli skuldabréfin og viðaukarnir við þau það meginskilyrði sem nefnt er í dómunum, þ.e. að vera lán tilgreint í íslenskum krónum bundið við gengi erlendrar myntar þar sem íslensk fjárhæð afborgunar er breytileg eftir gengi samningsmyntarinnar.
Stefnandi byggir einnig á því að af dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 471/2010 megi ráða að við ákvörðun vaxta af skuldbindingum samkvæmt lánasamningum beri að fara eftir 4. gr., sbr. 3. gr., laga um vexti og verðtryggingu sem feli í sér að vextir skuli vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum sem birtir eru skv. 10. gr. laganna. Þetta leiði til þess að lánveitanda er eftir uppsögu dómsins óheimilt að innheimta greiðslur af láni miðað við gengistryggingu auk þess sem lántaki geti haft uppi fjárkröfu á hendur lántaka sem nemur ofgreiðslu af láninu. Þessi niðurstaða hafi verið staðfest í dómi réttarins í máli nr. 600/2011, þar sem jafnframt var vísað til sjónarmiða um gildi fullnaðarkvittunar í kröfuréttarsambandi.
Stefnandi reisir málatilbúnað sinn á því að hver og ein afborgun af höfuðstól og vöxtum lánsins sem stefndi veitti viðtöku án athugasemda hafi falið í sé fullnaðargreiðslu hverrar afborgunar, með tilheyrandi lækkun á höfuðstól og stefnandi verði ekki krafinn um frekari greiðslur vegna þeirra síðar. Það hafi verið í verkahring stefnda að gæta að lögmæti verðtryggingar skuldabréfanna og viðauka við þau og að sama skapi hafi stefndi átt að gæta að því að innheimtuseðlar sem stefnandi gaf út væru réttir en fyrirvaralaus móttaka á greiðslum hafi falið í sér fullnaðaruppgjör hverrar afborgunar sem stefnandi hafi mátt treysta. Stefndi segir að þrátt fyrir að í forsendum áðurnefnds dóms í máli nr. 471/2010 komi fram að ákvæði lánasamninga um vexti og verðtryggingu séu svo nátengd, að sé verðtrygging ólögmæt beri að miða við vexti eins og ósamið hafi verið um þá, sbr. 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001 og reikna beri vexti af slíkum samningum frá upphafi lánstíma. Þá er það mat stefnanda að ekki verði litið framhjá því að afborganir lánanna að meðtöldum vöxtum hafi allt fram að uppgjöri verið greiddar af stefnanda og mótteknar af stefnda án athugasemda.
Stefnandi vísar til þeirra meginreglna sem gilda um afborganir af skuldabréfum, þ.e. hafi kröfuhafi gefið út fyrirvaralausa kvittun fyrir greiðslu eigi hann ekki rétt til frekari greiðslna þótt síðar komi í ljós að greiðslan hafi verið of lág. Slík endurgreiðsla komi eingöngu til greina að uppfylltum skilyrðum 32. gr. laga nr. 7/1936. Í máli þessu séu þessi skilyrði ekki uppfyllt. Stefnandi hafi ekki vitað eða mátt vita að efni kvittana sem stefndi gaf út vegna greiðslna af skuldabréfunum hafi verið byggt á röngum forsendum eða mistökum af hálfu stefnda. Þvert á móti verði að ætla að stefnandi hafi alla tíð talið að kvittanirnar væru réttar og fælu í sér fullnaðargreiðslu hvers gjalddaga, enda hafi stefndi innheimt afborganir lánsins á fyrirfram ákveðnum gjalddögum í samræmi við ólögmæta skilmála og þá hafi stefndi ekki gert neinar athugasemdir við greiðslur stefnanda.
Stefnandi heldur því jafnframt fram að þótt síðar komi í ljós að einstök samningsákvæði séu ólögmæt og að miða beri vexti af gengistryggðum lánum við nýjar forsendur, breyti það ekki því að þær greiðslur sem þegar hafa verið inntar af hendi á grundvelli ólögmætra samningsskilmála séu fullnaðargreiðslur sem skuldari verður ekki endurkrafinn um. Önnur niðurstaða sé í andstöðu við almennar reglur kröfuréttar um lok kröfuréttinda og efndir kröfu. Fullnaðarkvittun hafi almennt verið talin staðfesting á því að kröfuhafi eigi ekki frekari kröfur á hendur skuldara. Enginn munur sé á láni með ólögmætri verðtryggingu, sem greitt hafi verið upp að hluta í samræmi við efni samningsins, og sambærilegu láni sem greitt hefur verið að fullu.
Stefnandi vísar varðandi útreikning á aðalkröfu sinni til þess að þær afborganir sem hann greiddi inn á höfuðstól lánsins séu að fullu efndar og beri að draga frá upphaflegum höfuðstól lánsins. Samkvæmt umdeildum viðaukum hafi átt að greiða lánið með reglulegum afborgunum. Greiðsla hverrar afborgunar gegn útgáfu kvittunar hafi falið í sér endalok þeirrar kröfu. Stefnandi vísar til greiðsluyfirlits sem fyrir liggur í málinu varðandi greiðslur sem inntar hafa verið af hendi eftir að viðaukar voru gerðir við lánin. Samkvæmt yfirlitinu hafi hann frá viðauka við skuldabréf nr. 701343, höfuðstóll lánsins þá 38.899.830 krónur, greitt 2.043.177 krónur í afborganir af höfuðstól og 1. 511.734 krónur í verðbætur/gengismun. Af því leiði að höfuðstóll lánsins sé 38.899.830 2.043.177 = 35.334.919, sem auk vaxta skv. 4. gr., sbr. 3. gr., laga um vexti og verðtryggingu frá síðustu greiddu afborgun til viðmiðunardags, sé sú fjárhæð sem krafist er viðurkenningar á í aðalkröfu eða 44.084.835 krónur.
Nánar sundurliðar stefnandi kröfu sína þannig:
Upphaflegur höfuðstóll 20.000.000 kr.
Lántökudagur 24.05.1988
Lán gengistryggt við EUR 11.11.2004
Staða láns við gengistryggingu (1) 38.899.830 kr.
Síðasta afborgun (gjalddagi) 10.04.2009
Síðasta afborgun (greiðsludagur) 23.11.2010
Dagsetning útreiknings 30.03.2012
Afborganir síðan 11.11.2004 (2) 2.043.177 kr.
Verðbætur/ gengismunur síðan 11.11.2004 (3) 1.511.734 kr.
Staða láns eftir síðustu greiðslu (1-2-3) 35.334.919 kr.
Vextir til 30.03.2012 8.749.916 kr.
Samtals hinn 30.03.2012 44.084.835 kr.
Lán nr. 701357 er reiknað út með sama hætti. Höfuðstóll við gerð viðaukans var 54.568.170 krónur. Greiddar afborganir hafi verið 2.813.029 krónur og 2.351.475 krónur í verðbætur/gengismun. Því hafi höfuðstóll að frádregnum innborgunum numið 49.403.666 krónum, sem auk vaxta skv. 4., sbr. 3. gr., laga um vexti og verðtryggingu frá síðustu greiddu afborgun til viðmiðunardags geri 63.464.569 krónur. Krafan sundurliðist þannig:
Upphaflegur höfuðstóll 27.000.000 kr.
Lántökudagur 26.06.1988
Lán gengistryggt við EUR 11.11.2004
Staða láns við gengistryggingu (1) 54.568.170 kr.
Síðasta afborgun (gjalddagi) 10.02.2009
Síðasta afborgun (greiðsludagur) 08.11.2010
Dagsetning útreiknings 30.03.2012
Afborganir síðan 11.11.2004 (2) 2.813.029 kr.
Verðbætur/ gengismunur síðan 11.11.2004 (3) 2.351.475 kr.
Staða láns eftir síðustu greiðslu (1-2-3) 49.403.666 kr.
Vextir til 30.03.2012 14.060.902 kr.
Samtals hinn 30.03.2012 63.464.568 kr.
Varakröfu sína varðandi útreikning á stöðu lánanna styður stefnandi með vísan til 18. gr. laga um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010, enda hafi skuldabréfin og viðaukar við þau falið í sér ólögmæta gengistryggingu. Byggt er á þeirri reikningsaðferð sem fram er sett í lögunum, en stefnandi kveðst gera sér grein fyrir að lögin taki eingöngu til neytendalána. Stefnandi kveðst alls hafa greitt af bréfunum 48.212.986 krónur án kostnaðar. Byggir stefnandi í þessu tilfelli á því að vaxtareikna skuli upphaflegan höfuðstól lánanna skv. 18. gr. laga um vexti og verðtryggingu, sbr. einkum 5., sbr. 1., mgr. greinarinnar, en frá þeirri fjárhæð skuli draga greiðslur sem stefnandi hefur innt af hendi og vaxtareiknaðar eru með sama hætti. Með þessum hætti eru eftirstöðvar lánanna endurreiknaðar þannig að upphafleg lánsfjárhæð var 93.458.000 krónur. Í samræmi við 1. og 3. mgr. 18. gr. laga um vexti og verðtryggingu ber að reikna vexti skv. 4., sbr. 3., gr. laganna af höfuðstól lánsfjárhæðarinnar frá þeim degi er skuldin stofnaðist. Sé það gert bætast við vextir að fjárhæð 120.976.542 krónur reiknað til 30. mars 2012 eða samtals 214.434.542 krónur. Frá þeirri fjárhæð beri að draga innborganir að fjárhæð 48.212.986 krónur sem beri vexti með sama hætti og áður er getið og þeir nemi þá 11.422.350 krónum. Innborganir og vextir af þeim eru síðan dregnir frá uppreiknuðum höfuðstól skuldarinnar og þá nemi skuld stefnanda við stefnda 159.799.206 krónum. Annars vísar stefnandi til sömu sjónarmiða og rakin voru að framan varðandi aðalkröfu hans um fjárhæð skuldarinnar.
Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar, einkum sjónarmiða um efndir og lok kröfuréttinda. Þá vísar hann til lögfestra og ólögfestra reglna um viðskiptabréf, einkum skuldabréf, sbr. m.a. tilskipun um áritun afborgana á skuldabréf nr. 9/1798. Einnig vísar hann til laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, einkum II., IV. og VII. kafla laganna. Krafa um málskostnað úr hendi stefnda er reist á XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 129. og 130. gr. laganna.
Stefndi reisir kröfu sína um frávísun málsins á því að málatilbúnaður stefnanda sé ekki í samræmi við ákvæði 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Bendir hann í þessu sambandi á d-lið 1. mgr. greinarinnar sem mæli svo fyrir að dómkröfur stefnanda skuli vera svo glöggar sem vera má. Þá segi í e-lið sömu greinar að í stefnu skuli greina málsástæður stefnanda svo og önnur atvik þannig að samhengi málsástæðna sé ljóst. Tilgangur þessara reglna sé sá að stefndi geti kynnt sér málatilbúnað stefnanda og gripið til varna að því er alla þætti kröfugerðar stefnanda varðar.
Stefndi segir stefnanda setja dómkröfur sínar fram í einu lagi, þó þannig að gerð sé varakrafa um einn lið hennar sem varðar meintar eftirstöðvar skuldar stefnanda á tilteknum degi. Kröfurnar séu þó aðskildar. Í fyrri hluta kröfugerðarinnar sé gerð krafa um viðurkenningu á því að skuldbindingar samkvæmt nefndum skuldabréfum, eins og þeim var breytt með viðaukum 30. nóvember 2004, hafi verið ákveðnar í íslenskum krónum en ekki evrum. Stefnandi láti þó hjá líða að nefna hverju það varði ef dómurinn fallist á þessa kröfu því þess sé ekki krafist að jafnframt verði viðurkennt að skuldbindingin hafi verið með ólögmætri verðtryggingu með bindingu krónu við gengi erlendra gjaldmiðla. Hvað varðar seinni liði kröfugerðarinnar virðist stefnandi byggja á því að dómurinn komist að því, án kröfu, að lánin séu í íslenskum krónum með ólögmætri tengingu við erlenda mynt. Hér vísar stefndi til þess að dómari geti ekki farið út fyrir kröfur stefnanda, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga um meðferð einkamála. Stefndi heldur því fram að komist dómurinn að því að viðaukarnir feli í sér skuldbindingar í íslenskum krónum þá geti hann ekki tekið afstöðu til þeirra krafna sem gerðar eru, þ.e. að skuldir samkvæmt samningunum séu annaðhvort nálægt 107.000.000 króna eða rúmar 160.000.000 króna miðað við ákveðinn dag því slík niðurstaða yrði þá byggð á því að afstaða væri tekin til atriða sem ekki er gerð krafa um í málinu. Ástæða þessa sé sú að ekki er gerð krafa um að lánin hafi með viðaukunum verið bundin ólögmætri gengistryggingu. Hér sé þó hugsanlega sá kostur að sýkna stefnda af þessum liðum kröfunnar eða vísa þeim frá dómi en að teknu tilliti til þess hve kröfugerðin er samofin telur stefndi að rétt sé að vísa málinu frá í heild.
Stefndi heldur því fram að stefnandi geti ekki bætt úr þeim annmörkum sem eru á málatilbúnaði hans undir rekstri málsins, enda séu varnir miðaðar við málatilbúnað stefnanda eins og hann kemur fram í stefnu. Auk þess eigi stefndi rétt á því að málið sé ekki sett í annan farveg eftir að hann hefur skilað greinargerð sinni og þar með gert grein fyrir kröfum sínum og málsástæðum að baki þeim. Stefndi bendir á að í 2. málslið 2. mgr. 100. gr. laga um meðferð einkamála sé undantekningarregla sem heimili dómara að víkja frá aðalreglunni um að fjallað skuli um frávísunarkröfu áður en mál er tekið til efnismeðferðar. Sú regla byggist á því að málavextir geti verið með þeim hætti að nauðsynlegt sé að fjalla um efnishlið máls til að komast að niðurstöðu um það hvort vísa beri máli frá dómi í heild eða að hluta. Af þessum sökum hafi stefndi til vara krafist sýknu af kröfum stefnanda þess efnis að viðurkennt verði að viðaukar við lánasamningana feli í sér skuldbindingar í íslenskum krónum en krefst þess þá að þeim liðum kröfu stefnanda sem snúa að ákveðnum fjárhæðum verði vísað frá dómi.
Stefndi heldur því enn fremur fram að umfjöllun stefnanda um aðalkröfu sé samtíningur margvíslegra lagaraka sem ekki verði með góðu móti séð að eigi við í máli þessu. Þá verði ekki séð að stefnandi reyni að finna málsástæðum sínum stað í röksemdafærslu fyrir þeirri niðurstöðu sem hann krefst að viðurkennd verði. Þar fyrir utan séu staðreyndavillur varðandi málavexti. Loks geri stefnandi ekki grein fyrir útreikningum sem lagðir eru fram í málinu og hver sé þýðing þeirra, aðferðarfræði að baki þeim sé ekki lýst, t.d. ekki tilgreindur vaxtafótur o.fl. Af þessum sökum geti stefndi ekki lagt neitt mat á útreikningana. Þessi liður kröfu stefnanda sé því svo vanreifaður að þegar af þeirri ástæðu verði að vísa honum frá dómi.
Stefnandi krafðist þess við munnlegan málflutning um frávísunarkröfu stefnda að kröfu stefnda yrði hafnað og efnisdómur lagður á málið.
Stefnandi mótmælti þeim skilningi sem stefndi leggur í kröfugerð hans. Málið snúist einfaldlega um það að stefndi telji sig hafa lánað stefnda evrur en stefnandi telur að lánið hafi verið í íslenskum krónum. Lánunum hafi einfaldlega verið breytt í evrur miðað við gengi evru á ákveðnum degi og höfuðstól lánanna breytt í samræmi við það. Kröfugerð hans sé í samræmi við þennan ágreining og þess krafist að óheimilt hafi verið að tengja lánið við gengi evru.
Stefnandi vísar til laga nr. 151/2010 þar sem mælt er fyrir um hvernig reikna skuli ólögmæt gengislán. Þá vísar hann til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 464/2012 en í því máli hafi kröfugerð verið með sama hætti og í þessu máli en þar hafi bankinn sem veitti lánið viðurkennt að það hafi verið ólögmætt en deilt hafi verið um útreikninginn. Útreikningur á kröfu stefnanda í þessu máli sé byggður á sama grunni og við útreikninginn hafi verið lögð til grundvallar gögn sem stafa frá stefnda. Krafan í máli þessu sé einföld, ef lánin eru í íslenskum krónum þá er óheimilt að tengja þau við gengi erlendrar myntar. Þá sé óþarfi að reifa allt í dómkröfum. Í málinu sé einfaldlega tekist á um það hvort viðaukarnir séu ólögmætir eða ekki.
Stefnandi mótmælir því að ekki sé unnt að sundurgreina tölur í útreikningi hans. Ef fallist verður á að lánin séu ólögmæt komi tölulegur útreikningur til skoðunar. Vísar hann í þessu sambandi í nefndan dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 464/2012 en þar sé útreikningurinn í meginatriðum þannig að afborganir eru dregnar frá höfuðstól og vextir reiknaðir í samræmi við samning aðila. Stefnandi lýsti því jafnframt yfir að gangi málið til efnisdóms muni hann falla frá varakröfu því að fyrri krafa hans um útreikning lánanna sé byggð á sömu reikningsaðferð og notuð var í nefndum dómi Hæstaréttar Íslands.
Stefnandi heldur því einnig fram að stefndi reyni að misskilja kröfugerðina en þrátt fyrir það sé vörnum hans ekki áfátt. Stefndi vísi í d- og e-liði 80. gr. laga um meðferð einkamála. Stefnandi kveðst hins vegar ekki sjá hvað sé óljóst í kröfugerðinni og raunar skilji stefndi hana því fyrsta málsástæða hans varðandi efnishlið málsins sé sú að lánið sé í íslenskum krónum en ekki evrum. Stefndi haldi því jafnframt fram í málatilbúnaði sínum að hann hafi lánað stefnanda evrur þrátt fyrir að það sé ekki raunin. Stefnandi segir ljóst að lánunum hafi í raun verið breytt úr verðtryggðum lánum í gengistryggð lán. Að mati stefnanda var því nægilegt fyrir hann að krefjast þess að lánin væru ákveðin í íslenskum krónum en ekki evrum. Þessi krafa hans leiddi síðan til þess að endurreikna skuli lánin að teknu tilliti til þessa líkt og hann gerir kröfu um í málinu.
IV
Niðurstaða
Í þessum þætti málsins er eingöngu til úrlausnar krafa stefnda um frávísun. Að mati stefnda uppfyllir stefna málsins ekki skilyrði 80. gr. laga um meðferð einkamála og vísar hann einkum til d- og e-liða greinarinnar. Stefnandi telur hins vegar augljóst hvers krafist sé og því sé engin ástæða til að vísa málinu frá dómi.
Kröfugerð stefnanda er í tveimur liðum, annars vegar er þess krafist að viðaukar við lánin frá 2004 hafi verið í íslenskum krónum en ekki evrum og hins vegar er, í tveimur liðum aðallega og til vara, gerð krafa um ákveðna stöðu lánanna, miðað við 30. mars 2012, að því gefnu að þau séu í íslenskum krónum.
Fallast verður á með stefnda að kröfugerð stefnanda sé ekki eins skýr og greinargóð og krefjast má þegar til þess er horft hvers hann er að krefjast. Við skoðun á málatilbúnaði stefnanda verður ráðið að hann telji viðauka við lánin fela í sér ólögmæta verðtryggingu með tengingu við erlenda mynt. Hins vegar vantar alfarið í kröfugerð hans kröfu um að skuldbindingin sem til var stofnað með viðaukum við skuldabréfin á árinu 2004 sé verðtryggð með þeim hætti að fjárhæð skuldabréfanna sé bundin við gengi evru og í andstöðu við 13., sbr. 14., gr. laga nr. 38/2001 sem leiði til þess að verðtryggingin teljist ólögmæt. Ef krafa stefnanda er lesin ein og sér felur hún eingöngu í sér að lánin hafi verið ákveðið í íslenskum krónum en ekki evrum. Það eitt og sér leiðir hins vegar ekki til þeirrar niðurstöðu að endurreikna skuli lánin í þá veru sem stefnandi gerir kröfu um og miðast við að um ólögmæta tengingu við erlenda mynt sé að ræða. Í því sambandi kæmi hugsanlega rétt eins til greina að lánin, eftir breytingu skilmála þeirra með nefndum viðaukum, væru verðtryggð lán í íslenskum krónum með sama hætti og þau voru í upphafi, enda ekki gerð krafa um að þau væru, eftir skilmálabreytingu þeirra, ólögmæt. Þá verður ekki framhjá því litið að viðaukar voru gerðir við bæði bréfin í nóvember 2007 en engin krafa er höfð uppi í málinu í þá veru að þeir viðaukar feli í sér ólögmæta tengingu við erlenda mynt þrátt fyrir að þeir gildi nú um lánin.
Þrátt fyrir að ætla megi af málatilbúnaði stefnanda hvers hann er í raun að krefjast er kröfugerðin ekki í samræmi við annan málatilbúnað hans og því óskýr. Almennt hefur verið talið að kröfugerð í stefnu þurfi að vera þannig úr garði gerð að hægt sé að taka hana óbreytta sem ályktunarorð í dómsniðurstöðu. Í kröfugerð þarf því að koma fram nákvæmlega það sem stefnandi sjálfur vill að verði niðurstaða máls. Á þetta skortir verulega eins og áður er rakið. Að þessu virtu er kröfugerð stefnanda ekki í samræmi við d-lið 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 en úr þeim galla sem á kröfugerðinni er verður ekki bætt undir rekstri málsins án samþykkis stefnda. Verður krafa stefnda um frávísun málsins í heild tekin til greina, enda eru varakröfur stefnanda á því reistar að endurreikna beri lánin miðað við að þau hafi falið í sér ólögmæta tengingu við erlenda mynt.
Að fenginni þessari niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 376.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Af hálfu stefnanda flutti málið Friðbjörn Garðarsson hæstaréttarlögmaður en af hálfu stefnda Garðar Þ. Garðarsson hæstaréttarlögmaður.
Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Lykilhótel ehf., greiði stefnda, Byggðastofnun, 376.500 krónur í málskostnað.