Hæstiréttur íslands

Mál nr. 723/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


 

Miðvikudaginn 12. nóvember 2014

Nr. 723/2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Karl Ingi Vilbergsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stæði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. nóvember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. nóvember 2014, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. nóvember 2014 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að gæsluvarðahaldinu verði markaður skemmri tími, en að því frágengnu að sér verði ekki gert að sæta einangrun.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili er undir rökstuddum grun um brot, sem getur varðað fangelsisrefsingu samkvæmt 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með þessari athugasemd verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. nóvember 2014.

         Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. nóvember nk. kl. 16.  Þá er þess krafist að honum verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

         Kröfu sína byggir lögreglustjóri á a lið 1. mgr. 95. gr., 2. mgr. 98. gr.  og b lið 1. mgr. 99. gr.  laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

                Krafan er reist á því að kærði sé undir grun um brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum.

Kærði hafnar kröfunni og krefst þess til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

               Í greinargerð lögreglustjórans segir m.a. að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi haft um nokkurt skeið til rannsóknar fyrirhugaðan innflutning fíkniefna frá Brasilíu til Íslands og hafi m.a. í því skyni hlustað síma meðkærðu Y og Z, ásamt því að fylgjast með peningasendingum þeirra til útlanda. Í gær hafi meðkærða Þ komið hingað til lands með 447,43 gr. af kókaíni.  Hún kveðst hafa flutt efnin frá Brasilíu með viðkomu í París. Lögregla hafi fylgst með ferðum hennar í gær frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar að hótelinu [...] í [...].  Þar hafi lögregla fylgst með því þegar kærði X hafi í gærkvöld komið á hótelherbergi kærðu og sótt þar og móttekið fíkniefnin og hafi hann verið handtekinn við er hann kom út úr herbergi hennar með fíkniefnin innanklæða. Hafi lögregla hljóðritað samtal þeirra inni í herberginu. Í nótt hafi meðkærðu Y og Z verið handteknir grunaðir um skipulagningu og fjármögnun fíkniefnainnflutningsins.

Kærði X sé nú undir rökstuddum grun um aðild að stórfelldum innflutningi sterkra fíkniefna hingað til lands, þannig að varði við 173. gr. a. almennra hegningarlaga. Rannsókn málsins sé á frumstigi og því afar brýnt að honum verði gert að sæta varðhaldi m.t.t. rannsóknarhagsmuna málsins.  Gangi kærði frjáls ferða sinna kunni hann að torvelda rannsókn málsins, s.s. með því að hafa áhrif á aðra sakborninga og eða koma undan munum sem sönnunargildi kunna að hafa fyrir rannsóknina. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a liðar 1. mgr. 95. gr., 2. mgr. 98. gr. og b liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

                                Þegar litið er til gagna málsins er fallist á með lögreglu að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 eða gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Rannsókn málsins er á frumstigi og haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins, m.a. með því að hafa áhrif á framburð vitorðsmanna eða vitna. Með vísan til a liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 er því fallist á að kærði sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 21. nóvember nk. eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Með vísan til 2. mgr. 98. gr., sbr. a lið 95. gr. sömu laga, er tekin til greina krafa um að kærði sæti einangrun.

                Úrskurð þennan kveður upp Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

                Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. nóvember nk. kl. 16.00.

         Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvist hans stendur.