Hæstiréttur íslands

Mál nr. 72/2016

Óskar Karl Guðmundsson (sjálfur)
gegn
íslenska ríkinu (Soffía Jónsdóttir hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæra
  • Frávísun frá Hæstarétti

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli Ó á hendur Í var vísað frá dómi. Í kæru Ó var getið hins kærða úrskurðar en á hinn bóginn var hvorki gerð krafa um breytingu á honum né gerð grein fyrir þeim ástæðum sem kæran var reist á. Var hún því ekki í samræmi við 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Voru slíkir brestir á kærunni að málinu var sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst héraðsdómi 22. janúar 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 5. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. janúar 2016 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í kæru sóknaraðila er ekki að finna dómkröfur sem lúta að endurskoðun hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 skal í kæru til Hæstaréttar gera grein fyrir þeirri dómsathöfn, sem er kærð, kröfu um breytingu á henni og ástæður, sem kæran er reist á. Í fyrrgreindri kæru sóknaraðila er getið hins kærða úrskurðar. Þar er á hinn bóginn hvorki gerð krafa um breytingu á honum né gerð grein fyrir þeim ástæðum sem kæran er reist á. Eru því slíkir brestir á kærunni að málinu verður sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili, Óskar Karl Guðmundsson, greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. janúar 2016.

                Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 11. desember 2015, er höfðað 18. maí 2015 af Óskari Karli Guðmundssyni, Hofgörðum 2, Seltjarnarnesi á hendur íslenska ríkinu.

                Dómkröfur stefnanda eru:

                „Krafist er ógildingar á úrskurði dags. 9. júní 2009 frá skattstjóranum í Reykjanesumdæmi nú RSK um endurákvörðun opinberra gjalda stefnanda, gjaldárin 2004, 2005, 2006, 2007 og 2008 skv. dómskjölum nr. 11 og 2, bls. 4-10 vegna ágreinings um rekstrarárin 2003, 2004, 2005, 2006 og 2007, þar er allt löglegt endurmat fellt niður, eftir leiðréttingu mína í bréfi 8. apríl 2009, sjá dómskjöl nr. 3 bls. 14-16 og 4 bls. 32-65, einnig er þess krafist að verðmæti af aflahlutdeildum sem féllu niður fiskveiðiárið 2004 til 2005 færist á rekstrarkostnað en ekki er tekið tillit til þess af RSK sjá dómskjal nr. 5 bls. 69-74. Krafist er ógildingar vegna ágreinings á úrskurðum skattstjórans í Reykjanesumdæmi 25. maí 2004 á söluhagnaði og yfirskattanefndar 4. maí 2005, sjá dómskjöl nr. 8, 9, 10 og dómskjal  nr. 6 bls. 77-86. Þetta eru dómkröfur: samkv. köflum I til IX.

                Krafist er endurgreiðslu af stefnda vegna ofgreiddra skatta kr. 10.937.004 lög nr. 29/1995

I. Árið 2003 var rekstrarkostnaður lækkaður + álag + vsk og vextir, kr. 354.689

II. Árið 2003 löglegt endurmat fellt niður + 25% álag, kr. 881.416

III. Árið 2004 löglegt endurmat fellt niður + 25% álag, kr. 1.987.796

IV. Árið 2005 löglegt endurmat fellt niður + 25% álag, kr. 2.125.238

V. Árið 2006 löglegt endurmat fellt niður + 25% álag, kr. 2.895.227

VI. Árið 2007 löglegt endurmat fellt niður +25% álag, kr. 2.072.931

VII. Vegna tvísköttunar 2007 á úrskurðum: 2004 og 2005 + 25% álag, kr. 553.394

VIII. Verðbætur á 10% keypta kröfu, kr. 66.313

I-VII samtals, kr. 10.937.004

IX. Þá er þess krafist að aflahlutdeildir sem felldar voru niður fiskveiðiárið 2004 til 2005, á rekstrarárinu 2005, færist á rekstrarkostnað hjá stefnanda skv. 31. gr. sérreglu skattalaganna og með lagastoð í lögum nr. 74/2004 að verðmæti kr. 5.656.967.“

                Stefnandi krefst þess einnig:  „…að fá greiddan málskostnað úr hendi stefnda og krefst dráttarvaxta Seðlabankans á málskostnað 16 daga eftir hverja greiðslu.

                Krafist er dráttarvaxta á peningalega kröfu úr hendi stefnda frá 1. ágúst 2009 til 23. maí 2014 og frá 24. sep 2014, sbr. 2. gr. lög nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta.

                Varakrafa er að málskostnaður falli niður.“

                Í þessum þætt krefst stefndi frávísunar málsins og málskostnaðar, auk álags á málskostnað.

                Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað sem og kröfum  hans um málskostnað og álag á málskostnað.

I

                Með úrskurði skattstjóra Reykjanesumdæmis, dags. 9. júní 2009, voru opinber gjöld stefnanda og eiginkonu hans endurákvörðuð vegna gjaldáranna 2004, 2005, 2006, 2007 og 2008. Með úrskurðinum voru gerðar ýmsar breytingar á rekstrarframtölum stefnanda, m.a. voru fyrningar lækkaðar, hækkanir á bókfærðu verði eigna felldar niður og rekstrarkostnaður lækkaður. Þá var virðisaukaskattur endurákvarðaður. Þann 16. júlí 2009 greiddi stefnandi hin endurákvörðuðu gjöld í samræmi við úrskurðinn. Samkvæmt gögnum málsins virðist stefnandi ekki hafa kært úrskurð skattstjóra til yfirskattanefndar.

                Með úrskurði, dags. 25. maí 2004, endurákvarðaði skattstjórinn í Reykjanesumdæmi opinber gjöld stefnanda gjaldárið 2003. Með úrskurðinum var stefnanda færður til tekna söluhagnaður vegna sölu aflahlutdeildar, sem myndaðist á árinu 2000 og frestað hafði verið að skattleggja samkvæmt þágildandi heimild í 6. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignaskatt. Yfirskattanefnd staðfesti þann úrskurð 4. maí 2005 með þeim rökum að skilyrðum 6. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981, sbr. nú 6. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003 um endurfjárfestingu hefði ekki verið fullnægt varðandi grásleppuleyfi sem stefnandi keypti á árinu 1996.

                Mál þetta er fram sett með sambærilegum hætti og 10 mál sem stefnandi hefur áður höfðað gegn stefnda og varða sama sakarefni. Hafa sex þessara mála sætt frávísun en önnur hafa verið felld niður og í nokkrum tilvikum í kjölfar þess að lagt var fyrir stefnanda að leita aðstoðar lögmanns, sbr. heimild í 6. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991.

II

                Stefnandi virðist reisa efnislegar kröfur sínar m.a. á því að skattstjóri hafi án heimilda í lögum lækkað rekstrarkostnað hans rekstrarárið 2003. Skattstjóri hafi fellt niður lögmætt endurmat á Sigrúnu RE rekstrarárin 2003-2007 með vísan í frumlög 50. og 51. gr. laga nr. 133/2001, 23. og 25. gr. laga nr. 144/1994, staðal IAS16 og reglur RSK. Þá hafi skattstjóri tvískattlagt tekjur rekstrarárið 2007 með því að taka til umfjöllunar að nýju mál frá 25. maí 2004 með endurákvörðun gjalda á söluhagnaði rekstrarárið 2002 og úrskurði yfirskattanefndar 4. maí 2005. Þá telur stefnandi að skattstjóri hafi með því að fella niður gjaldfærða aflahlutdeild í þorski, ýsu og ufsa fiskveiðiárið 2004-2005, að verðmæti 5.656.967 krónur, „brotið gegn sérreglu 3. hluta 3. mgr. 38. gr. laga nr. 90/2003 sem rétthærri en almenn lög nr. 2003 og með lagastoð í lögum nr. 74/2004 (skýringar í dómskjal nr. 5 bls. 68 og 74)“.

                Stefndi telur kröfugerð stefnanda svo óljósa og málatilbúnað hans svo vanreifaðan að varði frávísun málsins frá dómi, sbr. d-, e-, f- og g-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Telur stefndi að málavaxtalýsingu skorti í stefnu og erfitt sé að henda reiður á málsástæðum og lagarökum sem stefnandi byggi dómkröfur sínar á og samhengi þeirra. Vísað sé á rangan og ófullnægjandi hátt til lagaákvæða án rökstuðnings. Því sé erfitt að átta sig á málatilbúnaði stefnanda og taka með viðhlítandi hætti til varna.              

                Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hrundið. Hann telur dómkröfur sínar skýrar og hafnar öllum málsástæðum stefnda. Dómkröfur séu útskýrðar í dómskjölum sem stefnandi hafi lagt fram og að þar komi fram allar nánari skýringar á kröfugerð hans.

III

                Í d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála segir að í stefnu skuli greina svo glöggt sem verða má dómkröfur stefnanda, svo sem fjárhæð kröfu í krónum, vexti ef því er að skipta, viðurkenningu á tilteknum réttindum, ákvörðun á eða lausn undan tiltekinni skyldu, málskostnað o.fl. Samkvæmt e-lið 1. mgr. 80. gr. sömu laga skal í stefnu greina glöggt málsástæður sem stefnandi byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst og í f-lið ákvæðisins er áskilið að stefnandi geri grein fyrir helstu lagasjónarmiðum sem liggja til grundvallar kröfu hans.

                Í stefnu í máli þessu er að óverulegu leyti gerð grein fyrir því hvaða atvik valdi því að fella beri úr gildi breytingar þær sem skattstjóri Reykjanesumdæmis gerði á skattframtölum stefnanda, með úrskurði upp kveðnum þann 9. júní 2009. Hið sama er að segja um úrskurð skattstjóra, dags. 25. maí 2004, sem staðfestur var með úrskurði yfirskattanefndar frá 4. maí 2005. Enn fremur er óljóst og jafnvel útilokað að greina á hvaða lagarökum stefnandi byggir málsókn sína. Þess í stað er í stefnunni vísað vítt og breitt til hinna ýmsu lagaákvæða án nánari rökstuðnings. Kröfur stefnanda um endurgreiðslu oftekinna skatta eru sama marki brenndar þannig að torsótt er að gera sér grein fyrir á hvaða atvikum, málsástæðum eða lagarökum þær eru í raun reistar. Málatilbúnaður stefnanda er því í brýnni andstöðu við framangreind ákvæði laga um meðferð einkamála og telst málið því vanreifað.

                Eins og fyrr er rakið hefur stefnandi margsinnis áður freistað þess að bera sakarefni málsins undir dómstóla. Virðist hann iðulega hafa lagt málið upp sjálfur en stundum hefur hann eftir áskoranir þar um leitað aðstoðar lögmanna en í kjölfarið hafa málin verið felld  niður. Ekkert þessara mála hefur hlotið brautargengi eða talist tækt til efnismeðferðar og hafa mál hans einnig verið felld niður eftir að dómari hefur gefið honum fyrirmæli um að leita sér lögmannsaðstoðar með vísan til 6. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 og hann ekki orðið við því.

                Eftir að hafa farið yfir málatilbúnað stefnanda í máli þessu og hafa hlustað á málflutning hans varðandi frávísunarkröfu er það mat dómsins að stefnanda geti ekki talist hæfur til að flytja mál sitt sjálfur. Það er þó mat dómara að ekki þjóni tilgangi að gefa stefnanda færi á því nú að ráða sér lögmann enda er málatilbúnaður hans í því horfi að ekki verður talið að úr verði bætt undir rekstri þess.

                Með vísan til þess sem að framan er rakið er það mat dómsins að því fari fjarri að stefna í máli þessu sé þannig úr garði gerð að málið geti fengið efnismeðferð og er málatilbúnaður allur í brýnni andstöðu við reglur 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamál sem og meginreglur einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað. Eru því ekki efni til annars en að fallast á kröfu stefnda um frávísun málsins.

                Krafa stefnda um að honum verði úrskurðað álag á málskostnað með vísan til 131. gr. laga nr. 91/1991 var ekki gerð í greinargerð og kemur þegar af þeirri ástæðu ekki til athugunar.

                Stefnanda verður gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn sú fjárhæð sem greinir í úrskurðarorði.

                Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Máli þessu er vísað frá dómi.

                Stefnandi, Óskar Karl Guðmundsson, greiði stefnda, íslenska ríkinu 300.000 krónur í málskostnað.