Hæstiréttur íslands
Mál nr. 271/1998
Lykilorð
- Vinnuslys
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Vátrygging
|
|
Fimmtudaginn 18. febrúar 1999. |
|
Nr. 271/1998. |
Íslenska ríkið (Guðrún M. Árnadóttir hrl.) gegn Hannesi Bjarnasyni (Sigurður Sigurjónsson hrl.) |
Vinnuslys. Líkamstjón. Skaðabætur. Vátrygging.
H, kafari hjá L, fékk á sig högg er gúmbátur með skipverjum af skipi L féll í sjóinn, þegar verið var að slaka bátnum niður af skipinu sem lá við akkeri. Leitaði H ekki til læknis vegna slyssins fyrr en fimm árum seinna. H krafði L um bætur fyrir varanlega örorku, töpuð lífeyrisréttindi og miska. Í málinu var hvorki deilt um skaðabótaskyldu né varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyssins. L hélt því fram að H yrði að bera sjálfur tjón sem hlotist hefði af skeytingarleysi hans um að gangast undir viðeigandi læknismeðferð, en þeim kröfum var hafnað vegna skorts á viðhlítandi gögnum. Ekki var heldur fallist á þá málsástæðu að bótakröfu bæri að lækka á þeim grundvelli að H hefði með vanrækslu fyrirgert rétti sínum til bóta frá Tryggingastofnun ríkisins vegna slyssins. Niðurstaða héraðsdóms um greiðslu skaðabóta var staðfest með vísan til forsendna hans. Var ekki talið að slysatryggingarbætur úr vátryggingu, sem keypt var hjá T vegna skyldu sem hvíldi á L vegna samkomulags við kafara, skyldi virða til lækkunar á skaðabótum til H. Þá var ekki fallist á að slysatryggingarfé og vextir úr tryggingu frá V skyldu dregnir frá skaðabótum miðað við slysdag. Var niðurstaða héraðsdóms um að greiðslan skyldi dregin frá uppreiknaðri kröfu eins og hún stóð 22. nóvember 1996, mánuði eftir að H sendi L kröfubréf ásamt örorkumati og útreikningum, staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Arnljótur Björnsson og Garðar Gíslason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. júní 1998 og krefst þess að fjárhæðir, sem dæmdar voru í héraði verði lækkaðar. Einnig krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi stefnda.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms, en við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti sundurliðaði hann kröfu sína um ársvexti af 5.790.600 krónum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 þannig: 7% frá 25. janúar 1990 til 1. mars 1990, 5% frá þeim degi til 1. apríl 1990, 3% frá þeim degi til 1. október 1990, 2,5% frá þeim degi til 1. janúar 1991, 3,5% frá þeim degi til 21. janúar 1991, 5% frá þeim degi til 1. júní 1991, 6% frá þeim degi til 1. ágúst 1991, 7% frá þeim degi til 11. október 1991, 4% frá þeim degi til 1. nóvember 1991, 3,75% frá þeim degi til 21. nóvember 1991, 3,5% frá þeim degi til 1. desember 1991, 3% frá þeim degi til 1. febrúar 1992, 2,5% frá þeim degi til 11. febrúar 1992, 2% frá þeim degi til 21. mars 1992, 1,25% frá þeim degi til 1. maí 1992, 1% frá þeim degi til 11. ágúst 1993, 1,25% frá þeim degi til 11. nóvember 1993, 0,5% frá þeim degi til 1. júní 1995, 0,65% frá þeim degi til 22. nóvember 1996. Að öðru leyti eru kröfur hans í samræmi við dómsorð héraðsdóms. Ennfremur krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Svo sem greinir í héraðsdómi er mál þetta risið vegna vinnuslyss 25. janúar 1990. Atvik voru þau, að gúmbátur með skipverjum af varðskipinu Tý féll í sjóinn, þegar verið var að slaka bátnum niður af skipinu, sem lá við akkeri undan Sellátrum í Reyðarfirði. Einn mannanna í gúmbátnum var stefndi, sem var háseti á varðskipinu og gegndi starfi kafara, er slysið varð. Því er lýst í héraðsdómi, að í fyrstu hafi ekki verið talin ástæða til að stefndi leitaði læknis, þar sem talið var að hann hefði ekki meiðst. Í héraðsdómi er einnig frásögn stefnda af líðan hans næstu árin eftir slysið og hvenær hann leitaði sér lækninga við einkennum, sem hann rakti til slyssins.
II.
Stefndi krefst bóta fyrir varanlega örorku, töpuð lífeyrisréttindi og miska. Ekki er ágreiningur um skaðabótaskyldu eða um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyssins 25. janúar 1990.
Áfrýjandi heldur fram að stefndi verði sjálfur að bera fjárhagslegt og ófjárhagslegt tjón, sem hlotist hafi af skeytingarleysi hans um að gangast undir viðeigandi læknismeðferð. Bendir áfrýjandi á að vegna vanrækslu stefnda um þetta hafi afleiðingar slyssins orðið verri og langvinnari en ella.
Læknaráð taldi í ályktun 8. janúar 1998 að stefndi hafi hlotið örorku af slysinu, 5% vegna hálshnykks og 15% vegna „andlegra einkenna“ eða alls 20% varanlega örorku. Hins vegar liggja ekki fyrir læknisfræðileg gögn um hvort afleiðingar slyssins hafi orðið meiri en ella vegna dráttar, sem varð á að stefndi leitaði sér lækninga. Vegna skorts á viðhlítandi gögnum verður að hafna kröfum áfrýjanda um bótalækkun á grundvelli framangreindra röksemda hans.
Í annan stað ber áfrýjandi fyrir sig, að stefndi hafi með vanrækslu fyrirgert rétti, sem hann hefði átt vegna slyssins til bóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Vísar hann um það til bréfs stofnunarinnar 29. apríl 1998. Í bréfinu hafnaði slysatryggingadeild hennar umsókn stefnda um bætur frá slysatryggingu almannatrygginga með vísun til þess að ekki væri unnt að meta orsakasamband slyssins og núverandi einkenna stefnda. Varanleg örorka stefnda var 16. september 1996 metin 20% af Sigurjóni Sigurðssyni sérfræðingi í bæklunarskurðlækningum og eins og áður greinir var niðurstaða Læknaráðs 8. janúar 1998 um örorkuna sú sama. Stefndi hefur hins vegar ekki gengist undir örorkumat á vegum Tryggingastofnunar ríkisins og liggur hvorki fyrir hver niðurstaða lækna stofnunarinnar hefði verið um örorku stefnda né hverjar bætur hann kynni að hafa átt rétt á að fá frá almannatryggingum, ef hann hefði í tæka tíð leitað réttar síns á þeim vettvangi. Verður bótakrafa stefnda á hendur áfrýjanda því ekki lækkuð á grundvelli hirðuleysis stefnda í þessu efni.
III.
Krafa stefnda um bætur vegna varanlegrar örorku er studd við útreikning tryggingafræðings, sem reiknar með tekjutapi frá slysdegi. Af gögnum málsins verður hins vegar ráðið að metin örorka hafi ekki haft áhrif á tekjur stefnda fyrstu árin eftir slysið. Þegar litið er til þess og að öðru leyti með vísun til forsendna héraðsdóms þykir mega staðfesta það mat hans að hæfilegar skaðabætur til stefnda fyrir varanlega örorku, töpuð lífeyrisréttindi og miska séu samtals 5.790.600 krónur.
Í héraðsdómi er því lýst að 25. janúar 1990 þegar stefndi slasaðist, við starf sitt hjá Landhelgisgæslunni, hafi verið í gildi tvær atvinnuslysatryggingar, sem báðar tóku til slyssins. Önnur þeirra var slysatrygging, sem Landhelgisgæslan keypti hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. samkvæmt ákvæðum kjarasamnings við Sjómannafélag Reykjavíkur frá 31. október 1989, sbr. 2. mgr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Grein 8.1.6 í kjarasamningnum er svohljóðandi: „Tryggingafé samkvæmt þessum lið skal koma til frádráttar slysa- eða dánarbótakröfu á hendur útgerðinni.“ Er ekki ágreiningur um að greiðsla að fjárhæð 598.144 krónur, sem Vátryggingafélag Íslands hf. innti af hendi til stefnda skuli dregin frá skaðabótum til hans, en málsaðila greinir á um hvernig háttað skuli frádrætti vátryggingarbótanna, svo sem síðar verður vikið að.
Hin atvinnuslysatryggingin var keypt hjá Tryggingu hf. með heimild í 13. gr. laga nr. 25/1967 um Landhelgisgæslu Íslands, en þar segir að forstjóra hennar skuli heimilt að vátryggja sérstaklega þá starfsmenn, sem vinna mjög áhættusöm verk. Í vátryggingarskírteini útgefnu af Tryggingu hf. 9. janúar 1990 er stefndi tilgreindur sem vátryggður. Ágreiningslaust er að atvinnuslysatrygging þessi var keypt vegna skyldu, sem hvíldi á Landhelgisgæslunni samkvæmt samkomulagi við kafara 28. apríl 1980. Eru ákvæði C-liðar 1. gr. samkomulagsins rakin orðrétt í héraðsdómi. Í hliðstæðu samkomulagi um laun og kjör kafara hjá Landhelgisgæslu Íslands frá 13. apríl 1988, sem í gildi var þegar stefndi slasaðist, er ákvæði um vátryggingarfjárhæðir, en annars er ekkert vikið að atvinnuslysatryggingu.
Í 2. mgr. þágildandi 25. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga fólst sú almenna regla, að greiðsla slysatryggingarbóta, sem vátryggingafélag greiddi slysatryggðum, hafði engin áhrif á rétt hans gegn þeim, sem skaðabótaábyrgð bar á slysi. Frá þessari almennu reglu var undantekning í 3. málsl. 2. mgr. 25. gr., en því er ekki haldið fram að hún geti átt við í máli þessu. Hvorki var í samkomulagi um kjör kafara 28. apríl 1980 né samkomulagi 13. apríl 1988 kveðið á um að slysatryggingarbætur til kafara skyldu skerða skaðabótarétt á hendur vinnuveitanda. Hefði Landhelgisgæslunni þó, þegar samið var við kafara, verið unnt að áskilja sér rétt til frádráttar vátryggingarfjár með sérstöku ákvæði eða vísa til almenns kjarasamnings um slíkan frádrátt. Verður því fallist á niðurstöðu héraðsdómara um að ekki skuli virða slysatryggingarbætur frá Tryggingu hf. að fjárhæð 2.276.066 krónur til lækkunar skaðabótum til stefnda.
IV.
Áfrýjandi krefst þess að slysatryggingarfé og vextir, sem Vátryggingafélag Íslands hf. greiddi stefnda 26. febrúar 1998, alls að fjárhæð 598.144 krónur, verði dregið frá skaðabótum miðað við slysdag 25. janúar 1990. Rökstyður áfrýjandi þá kröfu sína með því að stefndi hafi ekki sótt um bætur hjá vátryggingafélaginu fyrr en eftir að hann krafðist skaðabóta úr hendi áfrýjanda.
Af hálfu stefnda var Landhelgisgæslunni kynnt í bréfi 3. júlí 1996 að skaðabótakrafa yrði væntanlega gerð vegna slyssins. Ekki verður séð að bréfinu hafi verið svarað. Örorkumat lá fyrst fyrir 16. september 1996 og útreikningur tryggingafræðings á höfuðstólsverðmæti ætlaðs tekjutaps 16. október 1996. Hinn 22. sama mánaðar var kröfubréf sent Landhelgisgæslunni ásamt örorkumatinu og útreikningnum. Viku síðar ritaði Landhelgisgæslan ríkislögmanni bréf og beindi málinu „til umfjöllunar og úrvinnslu embættis ríkislögmanns.“ Áfrýjandi vefengdi niðurstöðu örorkumatsins frá 16. september 1996 og taldi ekki tímabært að ljúka málinu með samningi vegna skorts á viðhlítandi læknisfræðilegum upplýsingum. Samkomulag tókst því ekki um bótakröfur stefnda og höfðaði hann mál þetta, sem þingfest var í héraði 25. mars 1997. Ekki virðist stefnda hafa verið kynnt fyrr en eftir að málið var höfðað, að hann kynni að eiga rétt til bóta frá samningsbundnum slysatryggingum, en í greinargerð áfrýjanda í héraði 26. maí 1997 er bent á að bætur úr slysatryggingu sjómanna hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. skuli dregnar frá skaðabótakröfu. Með greinargerðinni var lagður fram áðurnefndur kjarasamningur við Sjómannafélag Reykjavíkur 31. október 1989. Þegar þetta er virt þykja ekki vera rök til að verða við kröfu áfrýjanda um að umræddar 598.144 krónur verði dregnar frá skaðabótum miðað við slysdag.
Samkvæmt áðursögðu verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda 5.790.600 krónur ásamt ársvöxtum frá 25. janúar 1990 eins og nánar greinir í dómsorði, svo og dráttarvöxtum frá 22. nóvember 1996, en þá var liðinn einn mánuður frá því að lögmaður stefnda sendi Landhelgisgæslunni kröfubréf ásamt gögnum um tjón stefnda, sbr. 15. gr. vaxtalaga.
Stefndi hefur ekki gagnáfrýjað héraðsdómi og verður greiðsla frá Vátryggingafélagi Íslands hf., 598.144 krónur, dregin frá uppreiknaðri kröfu stefnda, eins og hún stóð 22. nóvember 1996 og dæmt er í héraðsdómi.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi í héraði og fyrir Hæstarétti, svo sem segir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, Hannesi Bjarnasyni, 5.790.600 krónur með ársvöxtum af þeirri fjárhæð, sem hér segir: 7 % frá 25. janúar 1990 til 1. febrúar 1990, 5,9% frá þeim degi til 1. mars 1990, 4,1% frá þeim degi til 1. apríl 1990, 3% frá þeim degi til 1. október 1990, 2,3% frá þeim degi til 1. nóvember 1990, 2,5% frá þeim degi til 1. janúar 1991, 3,2% frá þeim degi til 21. janúar 1991, 4% frá þeim degi til 1. febrúar 1991, 4,7% frá þeim degi til 1. júní 1991, 5,8% frá þeim degi til 1. ágúst 1991, 6,3% frá þeim degi til 1. október 1991, 5,6% frá þeim degi til 11. október 1991, 3,9% frá þeim degi til 1. nóvember 1991, 3,75% frá þeim degi til 11. nóvember 1991, 3,7% frá þeim degi til 21. nóvember 1991, 3,4% frá þeim degi til 1. desember 1991, 2,8% frá þeim degi til 21. desember 1991, 2,6% frá þeim degi til 1. febrúar 1992, 2,1% frá þeim degi til 11. febrúar 1992, 1,8% frá þeim degi til 21. febrúar 1992, 1,6% frá þeim degi til 1. mars 1992, 1,5% frá þeim degi til 21. mars 1992, 1,1% frá þeim degi til 1. maí 1992, 1% frá þeim degi til 1. ágúst 1992, 0,9% frá þeim degi til 1. janúar 1993, 1% frá þeim degi til 21. mars 1993, 0,9% frá þeim degi til 1. apríl 1993, 0,8% frá þeim degi til 11. ágúst 1993, 0,9% frá þeim degi til 1. nóvember 1993, 0,8% frá þeim degi til 11. nóvember 1993, 0,5% frá þeim degi til 21. maí 1995, 0,6% þeim degi til 1. febrúar 1996, 0,9% frá þeim degi til 11. febrúar 1996, 1% frá þeim degi til 21. febrúar 1996, 0,9% frá þeim degi til 1. mars 1996, 0,8% frá þeim degi til 11. maí 1996, 0,65% frá þeim degi til 1. október 1996, 0,75% frá þeim degi til 22. nóvember 1996. Frá 22. nóvember 1996 greiði áfrýjandi dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til greiðsludags. Frá framangreindu dragist 598.144 krónur, eins og krafa stefnda stóð hinn 22. nóvember 1996.
Áfrýjandi greiði stefnda samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Héraðsdómur Reykjavíkur 8. maí 1998.
Ár 1998, föstudaginn 8. maí er í Héraðsdómi Reykjavíkur kveðinn upp í Héraðsdómsmálinu nr. E-1600/1997 Hannes Bjarnason gegn fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og dómsmálaráðherra
f.h. Landhelgisgæslu Íslands svohljóðandi dómur:
Mál þetta var þingfest hér fyrir dómi hinn 25. mars 1997 á grundvelli stefnu, sem árituð er af ríkislögmanni f.h. stefndu hinn 17. mars 1997. Það var dómtekið að afloknum munnlegum málflutningi, sem fram fór hinn 7. apríl sl.
Stefnandi málsins er Hannes Bjarnason, kt. 130363-5049, til heimilis að Veghúsum 31, Reykjavík, en stefndu eru fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og dómsmálaráðherra f.h. Landhelgisgæslu Íslands.
Dómkröfur:
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda kr. 9.452.256, auk dráttarvaxta samkvæmt III.kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 10.051.400 frá 25. janúar 1990 til 26. febrúar 1998 en af kr. 9.452.256 frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi. Af hálfu stefndu er krafist stórfelldrar lækkunar á dómkröfum stefnanda og að stefndu verði tildæmdur málskostnaður úr hans hendi.
Málavextir, málsástæður og lagarök:
Mál þetta varðar slys, sem átti sér stað við sjósetningu gúmbáts 25. janúar 1990 um borð í varðskipinu Tý. Í skýrslu sinni til forstjóra Landhelgisgæslunnar lýsir skipherra atvikum svo: „Nánari atvik voru sem hér segir: Fimmtudaginn 25. janúar var varðskipið við akkeri undan Sellátrum í Reyðarfirði og var þá ákveðið að kafarar varðskipsins endurnýjuðu sink í bógskrúfugati skipsins. Kl. 1300 hófu kafarar ásamt aðstoðarmönnum undirbúning að þessu verkefni. Kl. 1325 var zodiak gúmbátur varðskipsins hífður fyrir borð með krana skipsins, um borð í bátnum voru Halldór B. Nellett 1 stm. Steinar Clausen bátsm. Hannes Bjarnason háseti og Andrés Magnússon, blaðamaður MBL, en skipskrananum stjórnaði Sigurður Bergmann háseti. Er lokið var við að slá út krananum og rétt nýbyrjað að slaka bátnum niður í kranavírnum slitnaði vírinn og báturinn féll í sjóinn og lengi þar á réttum kili. Við fallið handleggsbrotnaði bátsmaður á hægri upphandlegg en hann mun hafa lent á afturgafli gúmbátsins, einnig kvartaði hann um eymsli í fótum og víðar. 1. stýrimaður hlaut mikið högg á hægri lærvöðva ofanverðan en hann mun einnig hafa lent á afturgafli bátsins ásamt skurði ofan við hægri augabrún en hinir tveir bátsverjar sluppu ómeiddir.”
Í rannsókn, sem lögreglan í Suður-Múlasýslu stóð að daginn eftir slysið, kemur m.a. fram, að samkvæmt mælingu hafi gúmbáturinn fallið 4.8 metra. Báturinn hafi verið hífður upp af þyrlupalli og út fyrir síðuna bakborðsmegin. Þar hafi þurft að snúa bátnum til þess að stefni hans sneri fram við sjósetningu hans. Vírinn hafi slitnað rétt ofan við krókinn áður en tekist hafði að snúa bátnum til hálfs. Við það hafi stefni hans rekist í rekkverk með þeim afleiðingum að hann hafi stungist í sjóinn með skutinn á undan.
Við rannsókn á tildrögum slyssins á vegum Rannsóknarnefndar sjóslysa og Iðntæknistofnunar kom í ljós, að vírinn var tærður og hafði togþol hans rýrnað að mun og var slysið rakið til þessa vanbúnaðar.
Stefnandi lýsir atvikum svo að hann hafi verið með köfunarbúnað með súrefniskút á baki og hlotið við fallið slink á höfuðið og meiðsli á baki undan súrefniskútnum.
Ekki hafi verið talin ástæða til að hann leitaði læknis. Hann hafi haldið áfram starfi sínu um borð og talið, að meiðsli sín myndu lagast af sjálfu sér. Þetta hafi að nokkru gengið eftir, en aldrei hafi hann verið alveg laus við eymsli og óþægindi. Því hafi hann ákveðið haustið 1991 hætta sjómennsku og hefja nám við vélstjórn í þeirri von að honum myndi batna. Sú hafi hins vegar ekki orðið raunin og hafi hann gefist upp á náminu eftir eitt og hálft ár, einkum vegna minnis- og einbeitingarleysi, sem hafi ágerst stöðugt, auk þess hafi hann alltaf haft þrautir og óþægindi í höfði og baki. Hann hafi síðan reynt að fara til sjós að nýju, en gefist upp eftir tvo túra og horfið að nýju til starfa í landi. Hafi hann neyðst til að stunda þau störf sem gáfust, en lítið starfsval hafi verið á Akureyri, þar sem hann var búsettur. Hann hafi fengið starf á dekkjaverkstæði og smurstöð, þar sem hann hafi gengið til starfa eftir því sem heilsa hans leyfði, en oft hafi hann þurft að láta af starfi um hádegisbil eða á miðjum degi vegna verkja og óþæginda.
Stefnandi kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir því, að verkur og óþægindi í baki en þó sérstaklega höfði, stöfuðu frá umræddu vinnuslysi. Hann hafi á árinu 1995 leitað sér sérfræðiaðstoðar hjá Aroni Björnssyni fyrir milligöngu Péturs Péturssonar, heimilislæknis hans. Hjá honum hafi hann verið í læknismeðferð á árunum 1995 og 1996.
Vottorð þessara beggja lækna liggja fyrir í málinu. Einnig liggur fyrir örorkumat Sigurjóns Sigurðssonar læknis dagsett 16. september 1996. Í niðurlagi örorkumats hans segir svo: „Hér er um að ræða ungan mann sem lendir í slysi við vinnu sína úti á sjó í byrjun árs 1990 þannig að hann fellur með bát sem verið var að sjósetja frá skipshlið á varðskipinu Tý er vír í kranabómu slitnaði og báturinn féll eina fimm metra niður á við. Við þetta fékk hann slink á hálsinn hann fann ekki svo mikið til í byrjun en verkir hafa síðan hægt og rólega verið vaxandi þannig að hann gafst upp á vinnu sl. áramót. Skv. vottorðum Arons Björnssonar og Péturs Péturssonar telja þeir að einkenni þau sem hann lýsir í dag komi vel heim og saman við þann áverka sem hann fékk við umrætt slys. Slys þetta hefur haft víðtæk áhrif á hann og mjög sennilegt er að hann hafi fengi post-traumatiskan áverka á heila, svokallaðan lokaðan heilaáverka. Með tilliti til þessa þykir því rétt að meta nú þá tímabundnu og varanlegu örorku sem hinn slasaði telst hafa hlotið af völdum þessa slyss og þykir hún hæfilega metin sem hér segir: Tímabundin örorka 0% (engin) Varanleg örorka 20% (tuttugu af hundraði).”
Jón Erlingur Þorláksson tryggingafræðingur var fenginn til að reikna út höfuðstólsverðmæti örorkutjóns stefnanda á grundvelli örorkumats Sigurjóns Sigurðssonar læknis. Niðurstaða hans var sú, að örorkutjón stefnanda var talið nema kr. 9.010.800, en verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda miðað við 6% af höfuðstólsverðmæti nam kr. 540.600. Útreikningurinn byggðist á umreiknuðum vinnutekjum stefnanda á árunum 1988 til og með 1990. Gengið var út frá tekjum fyrir sjómennsku í 20 ár frá slysdegi en síðan reiknað með meðaltekjum iðnaðarmanna. Frá slysdegi var miðað við vexti og vaxtavexti af almennum sparisjóðsbókum í Landsbanka Íslands til útreikningsdags 16. október 1996 (alls 12.75%), en síðan var reiknað með 4.5% frambúðarávöxtun með árlegri vaxtauppfærslu. Útreikningurinn studdist við hefðbundnar reikniforsendur um dánarlíkur og missi starfsorku í lifanda lífi.
Undir rekstri málsins hér fyrir dómi krafðist lögmaður stefnda þess að málið yrði sent Læknaráði til umfjöllunar. Úrskurður þar að lútandi var kveðinn upp í málinu 20. júní 1997 og leitað álits Læknaráðs um eftirfarandi:
„1. Telur Læknaráð að slysið hafi valdið hálshnykk og varanlegri örorku af þeim ástæðum? Ef svo, hver er varanleg örorka?
2. Telur Læknaráð, að andleg einkenni Hannesar Bjarnasonar stafi af slysinu? Ef svo, að hluta eða öllu leyti?
3. Ef andleg einkenni stafa af slysinu, hver er vananleg örorka vegna þeirra?”
Niðurstaða Læknaráðs er dagsett 8. janúar 1998 og er svohljóðandi:
„3. Héraðsdómsmál Reykjavíkur nr. E-1600/1997: Hannes Bjarnason gegn fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og dómsmálaráðherra f.h. Landhelgisgæslu Íslands.
1. Já. Læknaráð telur að varanleg örorka af völdum hálshnykksins sé 5%.
2. Já. Læknaráð telur rök fyrir því að andleg einkenni Hannesar Bjarnasonar stafi að langmestu leyti af slysinu og liggur ekki fyrir að þau verði rakin til neins annars.
3. Læknaráð telur að varanleg örorka Hannesar Bjarnasonar vegna andlegra einkenna sé 15% þannig að Læknaráð fellst á niðurstöðu Sigurjóns Sigurðssonar um að varanleg örorka sé samtals 20%”.
Undir þessa niðurstöðu rita átta læknar, en einn þeirra, Þorkell Jóhannesson, gerði svofellda athugasemd. „Ég tel að varanleg örorka af völdum hálshnykksins ætti fremur að vera 10% en 5%”.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi byggir á því, að hann hafi orðið fyrir slysi við vinnu hjá Landhelgisgæslu Íslands í janúar 1990. Enginn ágreiningur sé um tildrög slyssins né um skaðabótaskyldu stefndu. Stefndu hafi upphaflega mótmælt greiðsluskyldu á þeirri forsendu, að eigi hafi verið tímabært að meta varanlega örorku stefnanda, þar sem ekki hafi legið ljóst fyrir hverjar væru batahorfur hans.
Fyrir liggi, örorkumat Sigurjóns Sigurðssonar, dags. 16. september 1996 og örorkutjónsútreikningur Jóns Erlings Þorlákssonar frá 16. október s.á. Þá hafi Læknaráð staðfest örorkumat Sigurjóns Sigurðssonar og jafnframt ályktað, að tímabært hafi verið að meta varanlega örorku stefnanda.
Stefnandi sundurliðar tjón sitt svo og byggir á útreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar frá 16. október 1996.
Tímabundin örorka engin, en vegna varanlegrar örorku kr. 9.010.800.-
Verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda kr. 540.600.-
Miskabótakrafa kr. 500.000.-
Samtals kr. 10.051.400.-
Frá dragast bætur frá Vátryggingafélagi Íslands skv. launþegatryggingu samkvæmt kjarasamningi kr. 598.144.-
Kröfufjárhæð kr. 9.453.256.-
Stefnandi kveðst reisa kröfur sínar á því, að forsendur örorkumatsins og útreikningsins eigi sér stoð í dómvenju og vísar til nýlegra dóma Hæstaréttar því til stuðnings, m.a. Hæstaréttardóm nr. 429 frá 1992. Hann hafi engar bætur fengið frá Tryggingastofnun ríkisins, en hafi hins vegar haldið launum þann tíma, sem hann starfaði hjá Landhelgisgæslunni og því sé eigi gerð krafa um bætur vegna tímabundinnar örorku.
Miskabótakrafan, kr. 500.000.-, sé hæfileg miðað við þá röskun og óþægindi sem hann hafi orðið fyrir af völdum slyssins.
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttarins, reglna um húsbóndaábyrgð, einkum 49. gr., 50. gr. og 2. mgr. 37. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985.
Miskabótakröfu sína styður stefnandi með vísan til þágildandi 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og dómvenju um það, að við ákvörðun miskabóta beri að taka tillit til þess, hvort líkamstjón hafi í för með sér mikil og langvinn óþægindi og langvarandi læknismeðferð, en sú sé raunin í hans tilviki.
Dráttarvaxtakröfu sína styður stefnandi með vísan til III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með áorðnum breytingum.
Málskostnaðarkröfu sína styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, en kröfuna um vexti á tildæmdan málskostnað við 129. gr. sömu laga en styður kröfu sína um virðisaukaskatt á tildæmda lögmannsþóknun við lög nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert skylt að greiða virðisaukaskatt af útseldri þjónustu sinni, en stefnandi sé eigi virðisaukaskattskyldur.
Málsástæður og lagarök stefndu:
Stefndu mótmæla ekki ábyrgð sinni á tjóni stefnanda, en mótmæla kröfum hans sem alltof háum og krefjast stórkostlegrar lækkunar á þeim.
Stefndu byggja á því, að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu tekjutjóni sem með réttu verði rakið til slyssins. Varanleg læknisfræðileg örorka stefnanda sé ekki líkleg til að valda honum tekjutjóni í samræmi við metna örorku. Vanræksla hans um að leita sér læknismeðferðar hafi valdið því, að afleiðingar slyssins hafi orðið stórfelldari en ella. Stefnandi verði einn að bera ábyrgð á þeirri vanrækslu sinni og geti ekki krafið stefndu um bætur vegna fjártjóns eða miska sem af henni kunni að stafa. Í ljósi þessa og hagræðis af eingreiðslu og skattfrelsis bóta verði að telja, að beri að beita mjög háum frádrætti, við ákvörðun á bótum til handa stefnanda vegna varanlegrar örorku. Þá mótmæla stefndu miskabótakröfu stefnanda sem alltof hárri og í andstöðu við ríkjandi dómvenju.
Stefnandi hafi nú lækkað kröfu sína um þá fjárhæð, sem hann hafi fengið greidda úr lögboðinni slysatryggingu sjómanna, sem stefndu hafi keypt hjá Vátryggingafélagi Íslands, skv. sjómannalögum og kjarasamningi, eins og stefndu hafi áður gert kröfu til. Því sé aftur á móti mótmælt, að stefnandi láti þessa fjárhæð fyrst koma til frádráttar kröfum sínum, þegar hann veitti þeim viðtöku 26. febrúar sl. Rétt sé að draga fjárhæðina frá tildæmdum skaðabótum miðað við slysdag. Dráttur stefnanda á því að láta meta örorku sína og leita eftir tryggingabótunum geti aldrei orðið á kostnað stefndu. Þessu til viðbótar hafi Landhelgisgæsla Íslands keypt sérstaka slysatryggingu fyrir kafara, samkvæmt ákvæðum sérstaks samkomulags um laun og kjör kafara, sem starfi hjá Landhelgisgæslunni. Fyrir liggi í málinu, að Landhelgisgæslan hafi keypt slíka tryggingu hjá Tryggingu hf. vegna stefnanda fyrir árið 1990. Tryggingarfjárhæðin hafi numið kr. 9.548.310 miðað við dánarbætur, eða algjöra varanlega örorku. Framlögð gögn sýni, að stefnandi hafi fengið greiddar kr. 2.276.066 hinn 5. mars sl. strax og hann hafi leitað eftir bótum. Þessi fjárhæð eigi öll að koma til frádráttar við ákvörðun skaðabóta til handa stefnanda og skuli þeim frádrætti einnig beitt miðað við slysdag.
Loks mótmæla stefndu dráttarvaxtakröfu stefnanda og vísa til 15. gr. vaxtalaga í því sambandi. Samkvæmt þessu ákvæði geti stefnandi aðeins átt rétt til dráttarvaxta frá dómsuppsögu í málinu.
Forsendur og niðurstaða:
Stefnandi mætti til skýrslugjafar við aðalmeðferð málsins. Hann gaf þá skýringu á því, hversu seint hann leitaði eftir bótum hjá stefndu, að honum hafi fyrst á árinu 1995 orðið ljóst, að heilsutjón hans stafaði af slysinu 25. janúar 1990. Hann hafi þá verið orðinn óvinnufær og leitað sér lækninga af því tilefni. Að öðru leyti skýrði stefnandi frá atvikum, eins og rakið hefur verið hér að framan.
Lögmenn málsaðila lýstu yfir því við aðalmeðferð málsins, að ekki væri lengur ágreiningur með málsaðilum um bótaskyldu stefndu. Eingöngu væri nú deilt um upphæð miskabóta, frádrátt vegna hagræðis af eingreiðslu og skattfrelsis örorkubóta og frádrátt vegna sérstakrar slysatryggingar, sem Landhelgisgæslan hafi keypt hjá Tryggingu hf. í þágu kafara sem hjá henni starfi.
Við aðalmeðferð málsins var upplýst, að stefnandi sótti um slysabætur til Tryggingastofnunar ríkisins. Lagt var fram bréf dags. 25. febrúar sl. því til sönnunar. Lögmaðurinn stefnanda óskaði bókað af því tilefni, að komi til þess, að stefnandi fái bætur frá Tryggingastofnun ríkisins gangi þær óskiptar til stefndu, enda verði ekki tekið tillit til þeirrar greiðslu við ákvörðun bóta til handa stefnanda. Að tilhlutan dómara málsins var dómsuppsögu frestað þar til niðurstaða fengist hjá Tryggingastofnun um umsókn stefnanda. Afgreiðsla Tryggingastofnunar liggur nú fyrir og var á þá leið, að umsókn stefnanda var hafnað á þeirri forsendu, að málið væri þannig vaxið að ekki sé unnt að meta orsakasamband umrædds slyss og núverandi einkenna stefnanda.
Niðurstaða dómsins:
Stefnandi byggir skaðabótakröfu sína á hendur stefndu á örorkuútreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar frá 16. október 1996, eins og áður er lýst, (sjá bls. 4 að framan).
Krafan lýtur annars vegar að bótum fyrir varanlega örorku að viðbættum bótum v/ tapaðra lífeyrisréttinda en hins vegar að miskabótum að fjárhæð kr. 500.000.
Stefndu hafa krafist lækkunar á umkröfðum fébótum stefnanda með hliðsjón af þeirri dómvenju að skerða örorkubætur vegna skattfrelsis örorkubóta og þess hagræðis að fá þær greiddar í einu lagi.
Stefndu gera og kröfu til þess að litið verði til þess við ákvörðun fébóta stefnanda til handa, að hann hafi ekki leitað sér lækninga við heilsutjóni því, sem hann hlaut af völdum slyssins 25. janúar 1990, fyrr en á árinu 1995. Það kunni að hafa orðið þess valdandi, að heilsutjón hans varð stórfelldara en ella hefði orðið.
Þá krefjast stefndu þess, að slysatrygging sú, sem Trygging hf. greiddi stefnanda hinn 5. mars sl. komi að fullu til frádráttar bótakröfum hans.
Verður fyrst tekin afstaða til síðastgreindrar lækkunarkröfu stefndu.
Í skaðabótarétti er sú grundvallarregla viðurkennd, að tjónþoli skuli fá tjón sitt að fullu bætt, en ekkert umfram það. Í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 20/1954 er að finna undantekningu frá þessari meginreglu. Þar segir: „Þegar um þessar tryggingar er að ræða (líftryggingu, slysa- eða sjúkratryggingu, innskot dómara), hefur það og engin áhrif á kröfur vátryggðs, hvort heldur er gegn félaginu eða þeim, sem tjóninu hefur valdið, þótt hann hafi þegar fengið greiddar bætur hjá hinum”. Af orðalagi ákvæðisins má ráða, að slysatryggingabætur, skulu engin áhrif hafa á rétt hins slasaða til að heimta fullar bætur úr hendi þess, sem ber skaðabótaábyrgð á tjóni (tjónvaldi).
Slysatrygging stefnanda fellur undir tilvitnað lagaákvæði.
Tíðkast hefur, að vinnuveitendur hafi í kjarasamningi skuldbundið sig til að kaupa sérstaka slysatryggingu til hagsbóta fyrir starfsmenn sína, en jafnframt hefur þar verið tilgreint að slysabætur, sem greiddar kunni að verða á grundvelli slíkrar tryggingar skuli koma til frádráttar skaðabótakröfu, er starfsmaður kann að öðlast á hendur vinnuveitanda sínum. Talið hefur verið, að þetta fyrirkomulag færi ekki í bága við ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 20/1954.
Slysatrygging sú, sem Landhelgisgæsla Íslands (LGH) keypti til hagsbóta fyrir stefnanda byggir á samkomulagi um laun og kjör kafara hjá Landhelgisgæslunni frá 28. apríl 1980.
Í 1. gr. samkomulagsins undir lið merktum C segir svo: „Þeir starfsmenn Landhelgisgæslunnar sem kafa, skulu hafa auk hinnar lögbundnu slysatryggingar, skírteinistryggingu sem tekur til stöðu þeirra hjá Landhelgisgæslunni, að upphæð kr. 15.000.000,-, fimmtán milljónir og greiðir Landhelgisgæslan iðgjald tryggingarinnar. Trygging þessi skal í engu skerða rétt starfsmanna til annarra lögbundinna eða umsamdra trygginga né dagpeninga. Endurskoðun tryggingarupphæðar skal fylgja almennri endurskoðun tryggingaskilmála”. Í samkomulaginu er ekki að finna ákvæði, sem veita heimild til frádráttar skaðabótakröfu starfsmanns á hendur LHG.
Í 8. gr. kjarasamnings frá 31. október 1989, milli stefnda, fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Sjómannafélags Reykjavíkur um kaup og kjör félagsmanna þess á skipum Landhelgisgæslunnar, sem í gildi var, þegar stefnandi slasaðist, eru ákvæði, er lúta að slysatryggingu starfsmanna hennar. Þar er LHG gert skylt að tryggja starfsmenn sína í samræmi við ákvæði 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985.
Í 8. gr. 1. 6 er sérstaklega tekið fram, að tryggingafé samkvæmt þessum lið skuli koma til frádráttar slysa- eða dánarbótakröfu á hendur útgerðinni.
Stefndu byggja á því, að síðastnefnt ákvæði eigi við um allar tryggingar, sem LGH kaupi í þágu starfsmanna sinna og taki því til þeirra sérstöku slysatryggingar, sem keypt var á grundvelli samkomulagsins frá 28. apríl 1980. Við ákvörðun skaðabóta til handa stefnanda beri því að taka fullt tillit til þeirrar greiðslu, sem stefnandi fékk frá Tryggingu hf. hinn 5. mars sl.
Dómurinn lítur svo á, að kjarasamningur sá, sem stefndu vísa til, varði eingöngu þær slysatryggingar, sem um er fjallað í 172. gr. siglingalaga og tilvitnað ákvæði hans hafi ekki almennt gildi. Í 172. gr. kemur ekki fram, að skaðabætur samkvæmt hinni lögboðnu slysatryggingu skuli koma til frádráttar skaðabótakröfu starfsmanns á hendur viðkomandi útgerð. Því var nauðsynlegt að taka af öll tvímæli þar um í umræddum kjarasamningi.
Trygging sú, sem LHG skuldbatt sig til að kaupa til hagsbóta fyrir þá starfsmenn sína, sem stunda köfun í hennar þágu samhliða öðrum störfum, er sérstaks eðlis og stafar af þeirri sérstöku hættu, sem köfurum er búin og stendur ekki í beinu sambandi við almenn launakjör starfsmanna LHG.
Tilvitnuð 2. mgr. 25. gr. vátryggingasamningalaga nr. 20/1954 er undanþæg, eins og að framan er rakið. Stefndu gerðu hins vegar engan fyrirvara um frádrátt slysabóta frá hugsanlegum skaðabótakröfum í samkomulaginu frá 28. apríl 1980 eða síðar, svo vitað sé. Verða þeir að bera hallann af því. Lækkunarkröfu stefndu vegna greiðslunnar til stefnanda hinn 5. mars sl. er því hafnað.
Liggur næst fyrir að ákveða stefnanda skaðabætur.
Ekki er lengur ágreiningur með málsaðilum um varanlega örorku stefnanda né heldur hafa stefndu mótmælt útreikningi Jóns Erlings Þorákssonar, tryggingafræðings. Verða gögn þessi því lögð til grundvallar.
Þegar litið er til allra atvika m.a. til tekna stefnanda og núgildandi tekjuskattshlutfalls, þykir rétt að ákvarða stefnanda skaðabætur fyrir varanlega örorku sem skulu nema kr. 5.000.000. Fallist er á kröfu stefnanda um bætur vegna tapaðra lífreyrisréttinda að fjárhæð kr. 540.600.
Tildæmdar örorkubætur að viðbættum bótum vegna tapaðra lífeyrisréttinda nema þannig samtals kr. 5.540.600.
Þá gerir stefnandi kröfu til miskabóta að fjárhæð kr. 500.000.
Ljóst er, að slysið 25. janúar 1990 hefur haft í för með sér verulega röskun á stöðu og högum stefnanda. Síðan þá hefur hann þurft að vera meira og minna undir læknishendi og sækja reglulega sjúkraþjálfun með takmörkuðum árangri. Þegar til þessa er litið, svo og til þess, hversu víðtæka röskun líkamstjón stefnanda hefur haft í för með sér, þykja hæfilegar miskabætur honum til handa nema kr. 250.000.
Slysabætur stefnanda nema þannig alls kr. 5.790.600.
Frá þeirri fjárhæð ber að draga kr. 598.144, sem eru bætur þær, sem Vátryggingafélag Íslands hf. greiddi stefnanda hinn 26. febrúar 1998 á grundvelli 172. gr. siglingalaga, eins og síðar verður tilgreint.
Stefnandi gerir þá kröfu, að síðastgreind fjárhæð komi til frádráttar ákvörðuðum skaðabótum, þegar hann veitti fénu viðtöku hinn 26. febrúar sl. Stefndu krefjast þess aftur á móti, að frádrátturinn miðist við slysdag.
Ljóst þykir að ekki var unnt að staðreyna upphæð þessara bóta, fyrr en mat á örorku stefnanda lá fyrir. Vegna sérstakra aðstæðna stefnanda, sem áður er lýst, dróst að meta örorku hans fram til 16. október 1996. Því þykir rétt að slysabætur þessar komi til frádráttar tildæmdum skaðabótum stefnanda 22. nóvember 1996, eins og nánar segir í dómsorði.
Tildæmdar heildarbætur stefnanda skulu bera vexti samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá slysdegi, hinn 25. janúar 1990, til 22. nóvember 1996, en dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim tíma til greiðsludags. Upphaf dráttarvaxta tekur mið af kröfubréfi lögmanns stefnanda til Landhelgisgæslunnar, sem dagsett er 22. október 1996, sbr. 15. gr. vaxtalaga.
Frá samtölu tildæmdra heildarbóta og áfallinna vaxta hinn 22. nóvember 1996 skal draga kr. 598.144.
Með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefndu að greiða stefnanda málskostnað, sem ákveðst kr. 622.500 að meðtöldum virðisaukaskatti.
Skúli J. Pálmason héraðsdómari kvað upp þennan dóm.
Dómsorð:
Stefndu, fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og dómsmálaráðherra vegna Landhelgisgæslunnar greiði óskipt stefnanda, Hannesi Bjarnasyni kr. 5.790.600 með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 25. janúar 1990 til 22. nóvember 1996, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Hinn 22. nóvember 1996 skal draga kr. 598.144 frá samtölu tildæmdra skaðabóta og áfallinna vaxta og skal mismunurinn bera dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndu greiði stefnanda óskipt kr. 622.500 í málskostnað.