Hæstiréttur íslands

Mál nr. 16/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Logi Egilsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Símahlerun

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var kröfu L um heimild til að hlusta og hljóðrita símtöl og önnur fjarskipti við nánar tilgreint símanúmer X og eftir atvikum önnur símanúmer sem X kynni að hafa umráð yfir.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. janúar 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. janúar 2017, þar sem fallist var kröfu sóknaraðila um að honum væri heimilt að „hlusta og hljóðrita símtöl úr og í símanúmerið [...] og þau símanúmer sem X ... hefur í eigu sinni eða umráðum frá og með 6. janúar 2017 til og með 3. febrúar 2017“ og að „nema sms sendingar, þar með taldar sms sendingar á lesanlegu formi, sem sendar eru eða mótteknar með símanúmerunum á sama tíma og hlusta og hljóðrita samtöl við talhólf greindra númera og símtækja á sama tíma.“ Þá var fallist á kröfu sóknaraðila um að 365 miðlum ehf., Símanum hf., Hringdu ehf., Og fjarskiptum hf., Nova ehf., IP fjarskiptum ehf., IMC Ísland ehf., Símfélaginu ehf. og Alterna Tel ehf. yrði gert að „veita ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu upplýsingar um úr og í hvaða símanúmer hringt var úr og í símanúmerið [...], sem X ... hefur í eigu sinni eða umráðum frá og með 5. janúar 2017 til og með 3. febrúar 2017 og IMEI númer sem símanúmerið notar á sama tímabili, jafnframt sendar og mótteknar sms sendingar, sem og samtöl við talhólf greinds númers“ og gert að upplýsa hverjir væru „rétthafar allra þeirra númera sem þannig tengjast greindu númeri á sama tíma.“ Loks var fallist á kröfu sóknaraðila um að fjarskiptafyrirtækjunum yrði gert að veita honum upplýsingar „um netnotkun símans sem og tengingar símans við símsenda, hvort sem er vegna símtala eða netnotkunar og upplýsinga um gagnanotkun og gagnamagn símanúmersins ... á sama tímabili“ og upplýsingar um þau símanúmer „sem tengst hafa IMEI/IMSEI númeri símtækisins sem ofangreint númer var notað í á sama tímabili.“ Kæruheimild er í i. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

 

Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. janúar 2017.

                Með beiðni, sem dagsett er í dag, var þess krafist af Lögreglustjórnum á höfuðborgarsvæðinu að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að heimilt verði að hlusta og hljóðrita símtöl úr og í símanúmerið 789-7974 og þau símanúmer sem X, kt. [...], hefur í eigu sinni eða umráðum frá og með 6. janúar 2017 til og með 3. febrúar 2017, og jafnframt sé heimilt að nema sms sendingar, þar með taldar sms sendingar á lesanlegu formi, sem sendar eru eða mótteknar með símanúmerunum á sama tíma og hlusta og hljóðrita samtöl við talhólf greindra númera og símtækja á sama tíma.

                Þá er þess krafist að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að 365 miðlar ehf., Símanum hf., Hringdu ehf., Og fjarskiptum hf., Nova ehf., IP fjarskiptum ehf., IMC Ísland ehf., Símfélaginu ehf. og Alterna Tel ehf., verði áfram gert skylt að veita ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu upplýsingar um úr og í hvaða símanúmer hringt var úr og í símanúmerið [...], sem X, kt. [...], hefur í eigu sinni eða umráðum frá og með 5. janúar 2017 til og með 3. febrúar 2017 og IMEI númer sem símanúmerið notar á sama tímabili, jafnframt sendar og mótteknar sms sendingar, sem og samtöl við talhólf greinds númers, en jafnframt verði upplýst hverjir eru rétthafar allra þeirra númera sem þannig tengjast greindu númeri á sama tíma. Þá er krafist upplýsinga um netnotkun símans sem og tengingar símans við símsenda, hvort sem er vegna símtala eða netnotkunar og upplýsinga um gagnanotkun og gagnamagn símanúmersins sem krafa þessi beinist að á sama tímabili. Jafnframt er krafist upplýsinga um þau símanúmer sem tengst hafa IMEI/IMSEI númeri símtækisins sem ofangreint númer var notað í á sama tímabili.

                Í greinargerð lögreglustjórans segir að Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi hafið rannsókn á máli er varði stórfelldan innflutning fíkniefna og peningaþvætti hér á landi. Lögreglu hafi ítrekað borist upplýsingar þess efnis að hér á landi sé starfræktur hópur einstaklinga sem standi skipulega að innflutningi, framleiðslu og sölu fíkniefni sem og peningaþvætti. Lögregla hafi að undanförnu unnið að því að skoða þær upplýsingar sem borist hafa úr ýmsum áttum og setji upp mynd af grunuðum brotahóp.

                Um sé að ræða einstaklinga sem tengjast fyrirtækjunum [...] og [...] sem sé [...]. Þessi fyrirtæki séu í eigu A, kt. [...] og X, kt. [...]. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins [...] sé B, kt. [...]. Þessum einstaklingum tengist svo þeir C, kt. [...], D, kt. [...] og E, kt. [...].

                Samkvæmt þeim upplýsingum sem lögreglu hafi borist séu A og X höfuðpaurar hópsins. A sé búsettur í [...] en hann mun vera sá aðili sem útvegi hluta fíkniefnanna. X mun vera sá sem stjórnar hópnum hér á landi. Upplýsingar liggi fyrir um að fyrirtækin [...] [...] séu notuð til að þvætta ávinning af brotastarfsemi þessara einstaklinga. Hópurinn muni standa að innflutningi á kókaíni og MDMA töflum, ásamt því að framleiða kannabisefni og flytja inn og selja amfetamín í miklu mæli hér á landi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem hafi borist séu fíkniefni falin með matvörum sem séu fluttar inn til landsins í tengslum við verslunina [...], en hópurinn mun einnig hafa útvegað burðardýr til að flytja efnin inn með flugi. Nýlega bárust lögreglu svo upplýsingar þess efnis að þessi sami hópur hefði flutt inn til landsins tugi kílóa af amfetamíni með skipi, og að sú leið væri notuð reglubundið.

                Í október sl. hafi borist greiningardeild Ríkislögreglustjóra upplýsingar um að ákveðið skip væri að koma hingað til lands með miklu magni af amfetamínbasa, sem notað sé til að vinna amfetamín úr og voru ofangreindir aðilar nafngreindir í tengslum við þann innflutning. Við skoðun lögreglu á komu þessa skips hafi komið í ljós að það hafi tvisvar sinnum komið hingað til lands á þessu ári. Þessar upplýsingar komi heim og saman við þær upplýsingar sem lögreglu hafi áður borist.

                Við skoðun lögreglu á fjármálum meintu höfuðpaura hópsins, þeirra A og X og fyrirtækjanna tveggja, megi sjá að árið 2013 hafi A verið með rúmar tvær milljónir í tekjur, en það sama ár hafi hann staðgreitt hann íbúð að fjárhæð 26 milljónir króna. Á tímabilinu frá júlí 2014 til janúar 2015 megi sjá að lagðar hafi verið inn samtals 23 milljónir af reikningi [...], yfir á reikning í eigu fyrirtækisins [...]. Þá hafi 16 milljónir verið teknar út í reiðufé af þeim reikning í þremur færslum, en A hafi tekið út a.m.k. 12 milljónir af þessum 16 milljónum. Í lok september á síðasta ári hafi verið  millifærðar af reikningi [...] samtals sex milljónir inn á reikninga A og X.

                Nú síðast  hafi  lögreglu borist upplýsingar þann 14. desember um að þessi sami hópur stæði í stórfelldri sölu og dreifingu á MDMA töflum, amfetamíni og kannabisefnum. Með heimild héraðsdóms Reykjaness hafi lögreglan aflað gagna að því er varði ofangreinda einstaklinga, símagagna og bankagagna. Við skoðun á símagögnum kærða megi sjá að hann sé í samskiptum við stóran hluta af ofangreindum hópi, en ekki alla. Lögreglan telji að með hlustun á síma kærða fái hún betri vitneskju um samskipti innan hópsins, sem og hverjir það séu sem starfa í hóp kærða. Við rannsókn málsins hafi komið í ljós að kærði skipti um númer reglulega til að forðast afskipti lögreglu.

Í ljósi framangreinds telji lögreglan kærða vera undir rökstuddum grun um stórfellt fíkniefnalagabrot og peningaþvætti og telur mikilvægt að fá heimild til að koma fyrir og nota eftirfararbúnað undir bifreið kærða í þeim tilgangi að fylgjast með ferðum hans.

                Þess sé krafist að krafan verði tekin fyrir á dómþingi án þess að kærði eða annar sá sem hún beinist að verði kvaddur á dómþingið með vísan til rannsóknarhagsmuna í málinu. Vísað sé til 1. mgr. 103. gr., sbr. 1. mgr. 104. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

                Vísað sé til framangreinds, framlagðra gagna og 80. og 81. gr., sbr. 1. mgr. 83. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

                Dómari fellst á að krafan hljóti meðferð fyrir dómi án þess að kærði verði kvaddur á dómþing, enda gæti vitneskja hans um kröfuna spillt fyrir rannsókn. Kærða hefur hins vegar verið skipaður talsmaður, sbr. 2. mgr. 84. gr. laga nr. 88/2008.

                Með vísan til framangreinds og rannsóknargagna þykir einsýnt að þær upplýsingar sem lögreglustjórinn óskar eftir kunni að geta skipt miklu fyrir yfirstandandi rannsókn. Þá þykja ríkir almannahagsmunir krefjast þess að gripið verði til umbeðinnar rannsóknaraðgerðar. Er því fallist á að fyrir hendi séu skilyrði 80. og 81. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 83. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 til að taka kröfu lögreglustjóra til greina eins og hún er fram sett.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

                ÚRSKURÐARORÐ

                Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu er heimilt að hlusta og hljóðrita símtöl úr og í símanúmerið [...] og þau símanúmer sem X, kt. [...], hefur í eigu sinni eða umráðum frá og með 6. janúar 2017 til og með 3. febrúar 2017, og jafnframt er heimilt að nema sms sendingar, þar með taldar sms sendingar á lesanlegu formi, sem sendar eru eða mótteknar með símanúmerunum á sama tíma og hlusta og hljóðrita samtöl við talhólf greindra númera og símtækja á sama tíma.

                365 miðlum ehf., Símanum hf., Hringdu ehf., Og fjarskiptum hf., Nova ehf., IP fjarskiptum ehf., IMC Ísland ehf., Símfélaginu ehf. og Alterna Tel ehf., er áfram heimilt  að veita ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu upplýsingar um úr og í hvaða símanúmer hringt var úr og í símanúmerið [...], sem X, kt. [...], hefur í eigu sinni eða umráðum frá og með 5. janúar 2017 til og með 3. febrúar 2017 og IMEI númer sem símanúmerið notar á sama tímabili, jafnframt sendar og mótteknar sms sendingar, sem og samtöl við talhólf greinds númers, en jafnframt skal upplýsa hverjir eru rétthafar allra þeirra númera sem þannig tengjast greindu númeri á sama tíma. Þá skal veita upplýsingar um netnotkun símans sem og tengingar símans við símsenda, hvort sem er vegna símtala eða netnotkunar og upplýsingar um gagnanotkun og gagnamagn símanúmersins sem krafa þessi beinist að á sama tímabili. Jafnframt skal upplýsa um þau símanúmer sem tengst hafa IMEI/IMSEI númeri símtækisins sem ofangreint númer var notað í á sama tímabili.