Hæstiréttur íslands

Mál nr. 271/2012


Lykilorð

  • Vitni
  • Kærumál


                                                         

Mánudaginn 23. apríl 2012.

Nr. 271/2012.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

Y

(Oddgeir Einarsson hdl.)

Z og

(Björgvin Halldór Björnsson hdl.)

Þ

(Arnar Þór Stefánsson hrl.)

 

Kærumál. Vitni.

Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms þar sem ákæruvaldinu var heimilað að leiða fyrir dóminn sem vitni tvo menn sem komið höfðu að vinnu rannsóknarhóps um starfsemi tiltekinna samtaka á Íslandi og gerð skýrslu um sama efni, á grundvelli 2. málsliðar 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

                                                             

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 20. apríl 2012 sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. apríl 2012, þar sem sóknaraðila var heimilað að leiða B og C sem vitni fyrir dóminn. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og hafnað kröfu sóknaraðila um að leiða áðurgreind vitni.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt fyrri málslið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 er hverjum manni skylt að koma fyrir dóm og svara spurningum sem beint er til hans um málsatvik. Vitnaskyldan er því bundin við það að maður geti borið um málsatvik sem hann hefur skynjað af eigin raun. Frá þessari meginreglu er í síðari málslið 1. mgr. 116. gr. gerð undantekning þegar um er að ræða þann sem veitt hefur ákæruvaldi eða lögreglu sérfræðilega aðstoð eða ráðgjöf annað hvort við rannsókn máls eða ákvörðun um málsókn áður en mál er höfðað.

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði er meðal gagna málsins skýrsla rannsóknarhóps „í [...]“ á vegum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórans á Suðurnesjum sem ber yfirskriftina: „Starfsemi A á Íslandi“. Í hinum kærða úrskurði er rakið með hvað hætti sóknaraðili telur þá B og C tengjast gerð skýrslunnar. Skýrslan er dagsett í apríl 2012, en í aðfararorðum hennar kemur fram að rannsóknarhópnum hafi verið komið á fót fyrir um ári síðan í kjölfar sérstakrar fjárveitingar ríkisstjórnarinnar. Efni skýrslunnar er almenn umfjöllum um starfsemi samtaka A á Íslandi og var hún hvorki samin í tilefni af atvikum þessa máls né eru atvik þess sérstakt umfjöllunarefni skýrslunnar, þótt þeirra sé þar getið. Höfundar skýrslunnar geta því ekki talist hafa veitt ákæruvaldi eða lögreglu sérfræðilega aðstoð eða ráðgjöf í skilningi síðari málsliðar 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 29. ágúst 1997 í máli nr. 282/1997, sem birtur er á bls. 2174 í dómasafni það ár. Verður því hafnað kröfu sóknaraðila um að leiða framangreinda menn sem vitni í málinu fyrir héraðsdóminn.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila um að B og C gefi sem vitni skýrslu fyrir héraðsdómi.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. apríl 2012.

Mál þetta var tekið til úrskurðar fyrr í dag.

Í bréfi ríkissaksóknara á dskj. nr. 1 og í vitnalista, sem sækjandi hefur sent dómnum, kemur fram að sækjandi hyggst leiða C lögreglufulltrúa hjá Europol og B aðstoðaryfirlögregluþjón hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu sem vitni fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins.

Í framlögðum greinargerðum ákærðu X, Y og Þ er því mótmælt að þessi vitni verði leidd fyrir dóminn. Við fyrirtöku málsins fyrr í dag var þessu einnig mótmælt af hálfu ákærða Z.

Sækjanda og verjendum framangreindra ákærðu var gefinn kostur á að tjá sig stuttlega um ágreiningsefnið og að svo búnu var málið tekið til úrskurðar.

Af hálfu verjenda var á það bent að framangreind vitni gætu hvorki borið um málsatvik né bæru gögn málsins með sér að þau hefðu veitt ákæruvaldi sérfræðilega aðstoð eða ráðgjöf áður en málið var höfðað. Þá hefðu vitnin ekki verið dómkvödd sem matsmenn í málinu. Einnig var á það að bent að um væri að ræða lagaatriði, þ.e. hvort skilgreina bæri A sem skipulögð brotasamtök í skilningi 175. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem aðeins væri á valdi dómsins að taka afstöðu til en ekki vitna. Með hliðsjón af framangreindu væru ekki skilyrði til að leiða framangreinda menn fyrir dóminn sem vitni með hliðsjón af 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Á meðal gagna málsins er skýrsla lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórans á Suðurnesjum, þ.e. sameiginlegs rannsóknarhóps þeirra í [...], dags. í apríl 2012, sem ber yfirskriftina: Starfsemi A á Íslandi, sbr. dskj. nr. 29. Einnig hefur verið lögð fram í málinu skýrsla Europol, dags. 17. febrúar 2012, um starfsemi A og ber hún yfirskriftina: [...], sbr. dskj. nr. 16, fylgiskjal 7. Fram kom hjá sækjanda að það væri stefna Europol að gefa ekki upp nöfn þeirra sem unnið hefðu að skýrslunni, en hún væri aðeins gefin út í nafni stofnunarinnar. Benti sækjandi á að alþjóðalögregla hefði skilgreint A sem skipulögð glæpasamtök.

Fram kom hjá sækjanda að B yfirlögregluþjónn hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu hefði farið fyrir áðurgreindum rannsóknarhópi í vélhjólagengjum, en rannsóknarhópurinn hefði rannsakað starfsemi A á Íslandi og skilað af sér áðurgreindri skýrslu á dskj. nr. 29. Í skýrslunni sé talið að A á Íslandi tengist skipulagðri glæpastarfsemi erlendis. Þá kom fram hjá sækjanda að C lögreglufulltrúi hjá Europol hefði komið að þessari vinnu íslenska rannsóknarhópsins með því að miðla upplýsingum til hans og hefði hann því átt beina aðkomu að gerð skýrslunnar á dskj. nr. 29. Nauðsynlegt sé því að leiða þessi vitni fyrir dóminn til að gefa skýrslu um áðurgreinda rannsókn og niðurstöðu skýrslunnar.

Niðurstaða:

Í ákæru málsins eru brot ákærðu talin liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka en þar eru ákærðu öll sögð meðlimir í eða hafa tengsl við samtök sem lögregla hér á landi og erlendis er sögð hafa skilgreint sem alþjóðleg glæpasamtök, en samtökin séu A auk stuðningssamtakanna [...] og [...]. Í ákærunni er háttsemi ákærðu m.a. heimfærð til 175. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í 2. mgr. þess ákvæðis segir að með skipulögðum brotasamtökum sé átt við félagsskap þriggja eða fleiri manna sem hafi það að meginmarkmiði, beint eða óbeint í ávinningsskyni, að fremja með skipulegum hætti refsiverðan verknað sem varði að minnsta kosti 4 ára fangelsi, eða þegar verulegur þáttur í starfseminni felist í því að fremja slíkan verknað.

Fram hefur komið að C og B hafa báðir með einum eða öðrum hætti unnið að rannsókn lögregluyfirvalda á starfsemi A á Íslandi. Í málinu hefur verið lögð fram skýrsla, sem er afrakstur þeirrar rannsóknar og varðar með beinum hætti áðurgreind ákæruatriði, þ.e. hvort brot ákærðu verði talin liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka, sbr. 175. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fram kemur í skýrslunni að rannsóknarhópurinn hefur starfað í um eitt ár og sérhæft sig í málefnum vélhjólagengja. Telja verður að áðurgreind rannsókn lögregluyfirvalda hafi verið nauðsynlegur undanfari þess að unnt væri að heimfæra brot ákærðu undir ákvæði 175. gr. a almennra hegningarlaga í ákæru. Fallist er á með sækjanda að nauðsynlegt sé að kveðja þá sem komið hafi að rannsókninni sem vitni fyrir dóminn til að skýra þau gögn, sem lögð hafa verið fram í málinu og tengjast vinnu rannsóknarhópsins og verður að telja slíka vitnaleiðslu heimila með hliðsjón af síðari málslið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með vísan til framangreinds verður fallist á kröfu sækjanda um að leiða framangreind vitni fyrir dóminn.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Ákæruvaldi er heimilt að leiða B og C sem vitni fyrir dóminn.