Hæstiréttur íslands
Mál nr. 429/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Skaðabótakrafa
|
|
Mánudaginn 9. september 2013. |
|
Nr. 429/2013.
|
Dánarbú Kristínar Haraldsdóttur (Bergþóra Ingólfsdóttir hrl.) gegn Glitni hf. (Steinunn Hólm Guðbjartsdóttir hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Skaðabótakrafa.
Dánarbú K lýsti kröfu við slit G hf. vegna ætlaðs tjóns af völdum þess að starfsmaður G hf. hefði ekki farið að fyrirmælum dánarbúsins um kaup á tilteknu skuldabréfi í marsmánuði 2008. Dánarbú K hélt því fram að fjármagna hefði átt kaupin með sölu á hlutabréfaeign þess, en þegar á reyndi voru kaupin fjármögnuð með innlausn hlutdeildarskírteinis í tilgreindum sjóði fyrir milligöngu G hf. Í úrskurði héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna hans, var kröfu dánarbúsins við slit G hf. hafnað. Vísað var til þess að þótt G hf. væri sérfræðingur á sviði fjármálaþjónustu væri ekki unnt að líta framhjá því að dánarbúi K hefðu verið sendar tilkynningar um viðskiptin þar sem þeim var lýst. Ekki hefðu borist athugasemdir frá dánarbúinu og því hefði G hf. mátt treysta því að viðskiptin hefðu verið framkvæmd í samræmi við óskir þess. Þá var litið til þess að tjón dánarbús K varð ekki fyrr en við fall G hf. í október 2008 og að í aðgerðum G hf. í tengslum við viðskiptin hefði ekki falist ráðstöfun á verðmætum dánarbúsins umfram fyrirmæli þess.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Mattíasson, Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júní 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2013, þar sem kröfu sóknaraðila við slit varnaraðila var hafnað. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði að krafa hans, nr. CL20091125-3859 í kröfuskrá varnaraðila, að fjárhæð 38.949.873 krónur verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar en til vara að krafa sóknaraðila verði viðurkennd með lægri fjárhæð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Þar sem varnaraðili hefur ekki gagnkært úrskurð héraðsdóms af sinni hálfu kemur krafa hans um málskostnað í héraði ekki til umfjöllunar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Eftir atvikum er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af meðferð málsins fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2013.
Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, var beint til dómsins með bréfi slitastjórnar varnaraðila 24. febrúar 2012. Um lagagrundvöll vísaði slitastjórn til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var tekið til úrskurðar 17. apríl sl.
Sóknaraðili er Dánarbú Kristínar Haraldsdóttur, Bergstaðastræti 44, Reykjavík.
Varnaraðili er Glitnir hf., Sóltúni 26, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að krafa hans nr. CL20091125-3859 í kröfuskrá, að fjárhæð 38.949.873 krónur verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði hafnað en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar.
I
Eins og að framan greinir er mál þetta ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila en samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í varnaraðila, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd.
Varnaraðila var 24. nóvember 2008 veitt heimild til greiðslustöðvunar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Með lögum nr. 44/2009, sem breyttu nokkrum ákvæðum laga nr. 161/2002, var varnaraðili tekinn til slita og skyldi upphaf þeirra miðast við 22. apríl 2009 þegar lögin öðluðust gildi. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði 12. maí sama ár slitastjórn sem annast meðal annars meðferð krafna á hendur varnaraðila. Hún gaf út innköllun til skuldheimtumanna félagsins 26. maí 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 26. nóvember sama ár. Í samræmi við ákvæði 102. gr. laga nr. 161/2002 eins og greininni var breytt með lögum nr. 44/2009 fer um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki sem er til slitameðferðar eftir ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Sóknaraðili lýsti þeirri kröfu sem að ofan er rakin innan kröfulýsingarfrests en slitastjórn varnaraðila hafnaði henni. Mótmælti sóknaraðili þeirri afstöðu innan lögboðinna tímamarka. Voru mótmælin tekin fyrir á kröfuhafafundi 2. desember 2010, en einnig var haldinn sérstakur fundur um kröfuna 22. desember 2011. Er bókað í fundargerð að kröfunni sé hafnað vegna vanreifunar. Frekari gögn vanti til stuðnings henni auk þess sem hún sé ekki talin eiga rétt á sér. Einnig er bókað um að kröfunni sé ekki hafnað vegna tvílýsingar eins og tilgreint hafi verið í upphaflegu afstöðubréfi slitastjórnar. Málinu var í kjölfari vísað til úrlausnar dómsins í samræmi við ákvæði laga nr. 21/1991.
Kristín Haraldsdóttir, lést 2. september 2009, og er bú hennar undir einkaskiptum. Er dánarbú hennar sóknaraðili málsins. Til hagræðis verður ekki gerður greinarmunur á Kristínu og dánarbúi hennar í úrskurði þessum, nema sérstök ástæða sé til, og látið við það sitja að ræða um sóknaraðila.
II
Krafa sóknaraðila er skaðabótakrafa og byggir á því að starfsmaður varnaraðila hafi 28. mars 2008 innleyst 30.045.299 krónur heimildarlaust úr peningamarkaðssjóði 9 í eigu sóknaraðila. Varnaraðili hafnar því að um skaðabótaskyldu geti verið að ræða enda hafi umræddur starfsmaður ekki farið út fyrir fyrirmæli sem honum hafi verið gefin fyrir hönd sóknaraðila.
Sóknaraðili kveður fjárkröfu sína samanstanda af framangreindri höfuðstólsfjárhæð, auk dráttarvaxta frá tjónsdegi 28. mars 2008 til 22. apríl 2009 að fjárhæð 8.344.324 krónur og innheimtulaunum að fjárhæð 550.250 krónur. Samtala þessara fjárhæða sé 38.949.873 krónur.
Verða nú rakin málsatvik í stuttu máli eins og þau koma fram í greinargerðum aðila, öðrum skjölum málsins, sem og skýrslum sem gefnar voru fyrir dómi.
Faðir Haraldar Arnar og Bjarna lést 10. febrúar 2008 og sat sóknaraðili eftirlifandi eiginkona hans og móðir þeirra í óskiptu búi. Fól hún þeim tveimur umboð til að sýsla með eigur sínar og liggja þau umboð fyrir í málinu.
Þar sem eignir búsins voru umtalsverðar leituðu Haraldur Örn og Bjarni eftir þjónustu varnaraðila og gerðu einkabankasamninga við hann fyrir hönd sjálfra sín, sem og fyrir hönd sóknaraðila. Einnig gerðu þeir einkabankasamning fyrir hönd Túngötu 16 hf. sem var félag í þeirra eigu. Allir voru þessir samningar gerðir síðari hluta febrúarmánaðar 2008. Tengiliður þeirra við varnaraðila var Guðmundur Halldór Torfason.
Sóknaraðili lýsir því svo að krafa málsins sé tilkomin vegna heimildalausrar innlausnar Guðmundar Torfasonar 28. mars 2008, á hluta af peningamarkaðssjóði sóknaraðila, Sjóði 9, að fjárhæð 30.045.299 krónur. Þá fjárhæð hafi hann millifært inn á reikning sóknaraðila nr. 513-26-788121. Frá þeim reikningi hafi fjármunirnir hins vegar farið inn á reikning félagsins Túngata 16 hf. Þegar fjármunirnir hafi verið færðir inn á reikning Túngötu 16 hf. hafi Guðmundur keypt skuldabréf í varnaraðila f.h. þess félags fyrir peningana. Kveður sóknaraðili í greinargerð sinni að þessi viðskiptafærsla Guðmundar hafi í heild sinni verið án heimildar og hafi valdið sóknaraðila því tjóni sem lýst hafi verið í kröfulýsingu.
Kemur og fram hjá sóknaraðila að á vikunum fyrir 28. mars 2008 hafi umboðsmenn sóknaraðila, talsvert rætt við starfsmenn einkabankaþjónustu varnaraðila vegna eigna sóknaraðila og hafi þeir m.a. haft áhyggjur af því hversu hátt hlutfall eigna hennar hafi verið í hlutabréfum í Glitni Banka hf. Samtals hafi hún átt rúmlega 7.780.000 hluti í bankanum. Hafi þeir haft áhuga á að minnka þann hlut hennar. Hafi verið haldnir fundir til að ræða þetta. Í marsmánuði 2008 hafi Guðmundur, starfsmaður varnaraðila, kynnt fyrir umboðsmönnum sóknaraðila tillögu að lausn, fjárfestingarkost sem falist hafi í því hægt væri að selja hluta af hlutabréfum sóknaraðila í Glitni Banka hf. og kaupa í staðinn skuldabréf til fimm ára af þrotamanni með 8% ávöxtun. Hafi m.a. verið tekið fram að þetta væri álitlegur kostur þar sem skuldabréfin væru breytanleg og því hægt að breyta þeim aftur í hluti í bankanum að ákveðnum tíma liðnum ef verðmæti bréfa myndi hækka.
Á sama tíma hafi verið rætt að framselja Túngötu 16 hf. þau hlutabréf sem sóknaraðili hafi átt í heild sinni. Hafi ætlunin verið að gera það um svipað leyti. Selja hafi átt hluta af bréfum í Glitni Banka og kaupa skuldabréf fyrir söluandvirðið. Skuldabréfin hafi verið seld í 10.000.000 króna einingum og tekin hafi verið ákvörðun um að kaupa þrjár einingar, samtals fyrir 30.000.000 króna. Meðfylgjandi þeim pósti hafi verið framsalsdrög þar sem gengið hafi verið út frá að sóknaraðili framseldi Túngötu 16 hf. hlutabréf sín. Þau drög hafi verið röng enda hafi þar einnig verið að finna inneign sóknaraðila í peningamarkaðssjóðum. Aldrei á nokkru stigi viðræðna vegna þessara viðskipta hafi það komið til tals að nýta fjármuni sóknaraðila í Sjóði 9 á nokkurn hátt, hvorki til þessara kaupa né hafi þeir átt að vera hluti af framsali til Túngötu 16 hf. og aldrei hafi Guðmundi, starfsmanni varnaraðila, verið gefin fyrirmæli um slíkt.
Í raun hafi áhersla verið lögð á það af umboðsmönnum varnaraðila að þessi skuldabréf yrðu eingöngu keypt fyrir söluandvirði hlutabréfa í Glitni, hvort sem framsal á þeim bréfum til Túngötu 16 hf. yrði framkvæmt fyrir eða eftir kaupin.
Innlausn úr Sjóði 9 til að fjármagna kaupin á skuldabréfunum hefði beinlínis gengið gegn tilgangi viðskiptanna, sem hafi verið að minnka stöðu í hlutabréfum í Glitni Banka og dreifa áhættu. Þess vegna hafi Bjarni Jónsson, umboðsmaður sóknaraðila, átt samtöl við Guðmund, starfsmann varnaraðila, og hafi gert honum grein fyrir villunni í framsali. Hafi varnaraðili þá sent honum uppfærð drög með pósti 1. apríl 2008 þar sem búið hafi verið að fjarlægja inneign sóknaraðila í Sjóði 9 og eingöngu hlutabréfaeign hafi verið framseld.
Við yfirferð á áramótauppgjöri Túngötu 16 hf. og varnaraðila hafi svo komið í ljós að starfsmaður varnaraðila hafi ekki selt hlutabréf í Glitni Banka hf. til að fjármagna kaup á skuldabréfunum, eins og honum hafi verið uppálagt, heldur hafi hann innleyst fjármuni úr inneign sóknaraðila í Sjóði 9, eins og lýst sé hér að ofan.
Varnaraðili gerir ekki athugasemdir við lýsingu þess hvernig umrædd viðskipti voru framkvæmd eða hvernig fjármunir voru millifærðir. Af hans hálfu er á hinn bóginn mótmælt að við umrædda framkvæmd hafi starfsmenn hans farið út fyrir fyrirmæli sem umboðsmenn sóknaraðila hafi gefið. Hafi starfsmaður varnaraðila aðstoðað við flutning fjármuna frá sóknaraðila yfir í Túngötu 16 hf. þar sem ætlunin hafi verið að stunda áhættufjárfestingar. Hafi verið rætt um sölu á bréfum í varnaraðila en menn talið verðið of lágt og ákveðið að bíða. Kaup á skuldabréfi útgefnu af varnaraðila hafi verið framkvæmt að fyrirmælum umboðsmanna sóknaraðila eins og gögn málsins sýni. Á fundum í bankanum hafi umboðsmenn sóknaraðila notið aðstoðar Ástráðs Haraldssonar hæstaréttarlögmanns. Í kjölfar kaupanna hafi verið sendar kvittanir vegna þeirra. Þá hafi umboðsmenn verið í umtalsverðum samskiptum við starfsmann varnaraðila en engar athugasemdir hafi borist vegna viðskiptanna fyrr en með kröfulýsingu til slitastjórnar.
III
Sóknaraðili kveðst byggja kröfu sína á hinni almennu sakareglu skaðabótaréttar, reglu skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð, sem og samningsskilmálum varnaraðila.
Starfsmaður varnaraðila hafi selt eign sóknaraðila í Sjóði 9 án heimildar. Söluandvirðið hafi hann lagt inn á reikning sóknaraðila. Þaðan hafi hann millifært söluandvirðið yfir á reikning félagsins Túngata 16 hf. Það hafi einnig verið án heimildar. Þegar fjármunirnir hafi verið komnir þangað hafi hann keypti skuldabréf útgefin af Íslandsbanka hf. fyrir fjármunina í nafni Túngötu 16 hf. Allt hafi þetta verið gert án heimildar eða fyrirmæla.
Með framangreindri saknæmu háttsemi hafi starfsmaður varnaraðila valdið sóknaraðila því tjóni sem sé dómkrafa máls þessa. Ofangreindar færslur verði ekki framkvæmdar nema af ásetningi eða í öllu falli gáleysi. Varnaraðili beri ábyrgð á umræddri háttsemi starfsmanns síns á grundvelli reglna skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð. Þá sé jafnframt á því byggt að varnaraðili hafi verið sérfræðingur á þessu sviði og fagaðili og gildi því reglur skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð við sakarmat á gjörðum starfsmanna varnaraðila í málinu. Sakarmatið sé því strangt í garð varnaraðila. Á því sé byggt að framkvæmd viðskiptanna af hálfu varnaraðila sé það sértæk og langt út fyrir það sem geti talist almenn eignastýring samkvæmt samningi aðila um einkabankaþjónustu að starfsmaður varnaraðila hefði átt að tryggja sér óvefengjanleg fyrirmæli um hana. Teldi starfsmaður varnaraðila að einhver óvissa væri til staðar eða óskýrleiki um þau fyrirmæli sem hann hefði fengið hafi honum borið að ganga úr skugga um vilja viðskiptavinarins.
Á því sé byggt að leggja verði alla sönnunarbyrði á varnaraðila fyrir því að starfsmanni varnaraðila hafi borist einhver fyrirmæli frá umboðsmönnum sóknaraðila sem túlka mætti sem heimild fyrir framkvæmd viðskiptanna með þessum hætti.
Þá sé á því byggt að staða varnaraðila sem fagaðila á sviði einkabankaþjónustu og fjármálafyrirtækis skv. lögum nr. 161/2002 og staða sóknaraðila sem almenns fjárfestis leiði til sömu niðurstöðu varðandi sönnunarbyrði. Sérstaklega í ljósi þess hversu langsótt sé að vilji sóknaraðila eða umboðsmanna hennar hafi staðið til þessa. Þessi færsla, eins og hún hafi verið framkvæmd, hafi gengið gegn hagsmunum bæði sóknaraðila og Túngötu 16 hf. Hún hafi einnig gengið gegn því sem umboðsmenn sóknaraðila hafi sérstaklega rætt um við varnaraðila á fundum og í símtölum. Það sé varnaraðila að tryggja sér sönnun fyrir því að honum hafi verið uppálagt að útfæra viðskiptin með þessum hætti.
Sóknaraðili byggi á því að þessi gerningur, að selja hluta af eign sóknaraðila í Sjóði 9 til þess að færa fjármunina inn á bankareikning Túngötu 16 hf., falli ekki innan þess sem lýst sé sem eignastýringu skv. samningi um einkabankaþjónustu. Því sé það varnaraðila að sýna fram á að hann hafi fengið fyrirmæli um að framkvæma þessi viðskipti á þennan hátt. Engin slík fyrirmæli liggi fyrir og feli þetta í sér frekari rökstuðning fyrir því að alla sönnunarbyrði verði að leggja á varnaraðila um það að fyrirmæli hafi verið gefin af sóknaraðila eða umboðsaðilum hennar um þann gerning sem framkvæmdur hafi verið af starfsmanni sóknaraðila.
Í raun sé það svo að umboðsmenn sóknaraðila, Bjarni og Haraldur Jónssynir hafi átt fjölda funda og samtala við starfsmenn einkabankaþjónustu varnaraðila vegna eignastýringar á eignum Túngötu 16 hf. og sóknaraðila. Hafi það verið gert af þeirri ástæðu að þeir hafi haft áhyggjur af því hversu stór hluti eigna sóknaraðila hafi verið í hlutabréfum í Glitni banka. Hafi þeir viljað minnka þá stöðu og minnka áhættu af hlutabréfum. Af þeim sökum hafi starfsmaður varnaraðila boðið þeim uppá þann möguleika að taka þátt í skuldabréfaútboði Glitnis banka í mars 2008 á tilteknum kjörum og á tilteknum forsendum. Hafi það boð eingöngu staðið í eina viku og þung áhersla hafi verið lögð á það af hálfu varnaraðila að taka yrði ákvörðun strax.
Mögulegt væri að selja bréf í Glitni banka til að fjármagna kaup á skuldabréfum. Þetta hafi þeim þótt álitlegur kostur enda hafi tvö vandamál verið leyst með þessu. Staða í hlutabréfum hefði verið minnkuð og fjármunum komið í „öruggari“ fjárfestingu. Ákveðið hafi verið að gera þetta samhliða því að hlutafjáreign sóknaraðila væri framseld til Túngötu 16 hf. Aldrei hafi komið til tals að fjármagna kaup Túngötu 16 hf. á skuldabréfunum með inneign sóknaraðila í Sjóði 9. Engin rök hafi staðið til þess. Þvert á móti. Hafi meðal annars verið ákveðið að fara þá leið að fjármagna skuldabréfin með því að selja hlutabréf í Glitni vegna þess að skilmálar skuldabréfaútboðsins hafi gert það mögulegt að eignast aftur hluti í bankanum ef gengið hækkaði á tilteknu tímabili.
Á því sé byggt að starfsmaður varnaraðila hafi sjálfur, af einhverjum ástæðum, tekið ákvörðun um að fjármagna skuldabréfakaupin með því að innleysa hluta af eign varnaraðila í Sjóði 9. Einu megi gilda hver ástæða þeirrar ákvörðunar hafi verið, hvort það hafi verið af ásetningi eða fyrir mistök. Ábyrgð varnaraðila á þessum gerningi sé sú sama. Varnaraðili beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem þessi gerningur hafi valdið sóknaraðila.
Orsakatengsl liggi fyrir milli hinnar saknæmu háttsemi og tjóns sóknaraðila. Fjármunir sóknaraðila hafi verið millifærðir yfir á reikning annars ótengds félags. Um leið og það hafi verið gert 28. mars 2008 hafi þeir ekki lengur verið í vörslum sóknaraðila. Það eitt nægi. Til viðbótar hafi svo verið keypt skuldabréf í Glitni banka sem síðar hafi komið í ljós að hafi verið víkjandi við gjaldþrot bankans. Ekkert muni koma upp í kröfu skv. þeim bréfum og almennri kröfulýsingu Túngötu 16 hf. Það gildi þó einu, enda nægi millifærslan yfir á reikning þess félags til að sýna fram á orsakatengsl. Þegar umboðsmenn sóknaraðila hafi áttað sig á þessu hafi það verið of seint og fjármunirnir þegar glataðir í gjaldþroti varnaraðila.
Um sennilega afleiðingu sé óþarft að fjölyrða enda ljóst að það að fjármunirnir séu ekki lengur á bankareikningi sóknaraðila sé sennileg afleiðing þess að starfsmaður varnaraðila hafi millifært þá yfir á reikning annars félags og hafi samstundis keypt fyrir þá annan fjármálagerning í nafni þess félags.
Auk þess að byggja á sakarreglu skaðabótaréttar, reglunni um vinnuveitendaábyrgð og reglu skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð, byggi sóknaraðili til viðbótar á 14. gr. samnings aðila um einkabankaþjónustu. Þar komi fram að Glitnir banki ábyrgist tjón sem rekja megi til saknæmrar háttsemi starfsmanna hans. Sé þetta til frekari áréttingar. Séu svo í löngu máli talin upp atvik sem bankinn beri ekki ábyrgð á. Atvik þessa máls falli ekki þar undir. Þá verði einnig að telja að draga megi óhlutdrægni varnaraðila í viðskiptunum í efa. Nú hafi komið í ljós að þegar í mars 2008 hafi verið farið að halla verulega undan fæti hjá varnaraðila. Varnaraðili hafi róið að því öllum árum að tryggja stöðu og ímynd bankans. Hagsmunir bankans hafi verið þeir að koma í veg fyrir að aðilar seldu bréf í bankanum. Slíkt veikti stöðu hans. Óhlutdrægni í ráðgjöf starfsmanna bankans hafi því ekki verið tryggð og því brotið gegn 18. gr. samnings um einkabankaþjónustu, sem og þágildandi starfsreglum bankans sem vísað sé til í sömu grein. Slíkt sé einnig í andstöðu við reglur laga nr. 161/2002 um góða viðskiptahætti og venjur. Sé þetta enn frekari ástæða fyrir því að túlka beri allan vafa í málinu, bæði varðandi sakarmat og sönnunarfærslu, sóknaraðila í hag. Auk þess megi gera ráð fyrir að laun og þóknun til þess starfsmanns sem um ræði hafi verið beintengd við þau viðskipti sem um ræðir.
Um stöðu kröfu sóknaraðila kveðst sóknaraðili vísa til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sem og almennrar sakarreglu skaðabótaréttar. Þá vísar hann til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Um málskostnað kveðst hann vísa til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sem og laga nr. 50/1993 um virðisaukaskatt, en sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili.
IV
Varnaraðili kveðst hafna og mótmæla öllum málsástæðum sóknaraðila. Þá kveðst hann hafna vaxta- og dráttarvaxtakröfum sóknaraðila eins og þær séu fram settar.
Varnaraðili vísar til þess að umboðsmenn sóknaraðila hafi skrifað undir spurningalista fyrir hönd félags síns, Túngötu 16 hf., þann 13 mars. 2008 en þar komi fram að heildarvelta félagsins sé 100 til 500 milljón krónur á ári og því nánar lýst hvernig félagið fjárfesti. Hámarkstap sem félagið væri tilbúnið að sætta sig við á slöku ári væri 20%. Túngata 16 hf., sem verið hafi í eigu umboðsmanna sóknaraðila, hafi verið flokkað sem fagfjárfestir gagnvart varnaraðila. Varnaraðili kveður og að horfa verði til þess að sóknaraðili hafi haft lögmannsaðstoð við allar sínar ákvarðanir vegna samskipta við varnaraðila. Hafi umboðsmenn sóknaraðila mætt á fundi hjá varnaraðila með lögmann sér við hlið, Ástráð Haraldsson hrl., en hann hafi jafnframt verið tiltekinn sem umboðsmaður Túngötu 16 hf. gagnvart varnaraðila.
Varnaraðili kveðst byggja á því að hvorki séu uppfyllt skilyrði skaðabótaábyrgðar samkvæmt almennu sakarreglunni né reglunni um vinnuveitendaábyrgð eða öðrum reglum skaðabótaréttar.
Varnaraðili kveðst hafna því að hann hafi selt eign sóknaraðila í sjóði 9 án heimildar. Starfsmaður varnaraðila hafi fengið bein og skýr fyrirmæli frá umboðsmanni sóknaraðila um að viðhafa viðskiptin með þeim hætti sem gert hafi verið. Viðskiptin hafi því verið lögmæt og þurfi því ekki að fara sérstaklega út í önnur skilyrði bótaábyrgðar. Þá vilji varnaraðili árétta að sóknaraðili hafi notið aðstoðar lögmanns vegna samskipta sinna við varnaraðila.
Samkvæmt 12. gr. samnings aðila um einkabankaþjónustu hafi viðskiptavinur getað gefið fyrirmæli sín um viðskipti skv. samningnum, munnlega eða skriflega, þ.e. með símbréfi, tölvupósti eða með símtali. Sóknaraðili hafi gefið fyrirmæli um kaupin skriflega, þ.e. með tölvupósti, en það hvernig þau skyldu fjármögnuð hafi verið ákveðið munnlega. Fyrirmælin hafi verið framkvæmd í samræmi við framangreint og engar athugasemdir hafi borist vegna þessa. Umboðsmenn sóknaraðila, Bjarni Jónsson og Haraldur Jónsson hafi haft fullt umboð til að gefa umrædd fyrirmæli fyrir hönd sóknaraðila. Þá hafi þeir einnig haft umboð til að gera fyrir hönd sóknaraðila einkabankasamning þann sem gerður hafi verið milli aðila. Með því að rita undir þann samning hafi umboðsmenn sóknaraðila þó ekki bundið hendur sínar til að ráðstafa eignum hennar að öðru leyti og skipti inntak þess samnings ekki máli að því er þau viðskipti varði sem hér sé fjallað um. Varnaraðili telji að umboðsmönnum Kristínar hafi verið heimilt að láta starfsmann varnaraðila framkvæma umrædd viðskipti hvort sem litið yrði til samnings um einkabankaþjónustu eður ei. Þar fyrir utan þá verði að líta til þess að á sama tíma hafi sóknaraðili og synir hennar, sem hafi jafnframt verið umboðsmenn hennar, verið að ganga frá fyrirframgreiðslu arfs til sín sem hafi átt að hluta til að fara til hlutafélags þeirra bræðra, Túngötu 16 hf.
Varnaraðili kveðst telja skýringar sóknaraðila hæpnar, um að hann hafi ekki tekið eftir því að viðskiptin hafi verið framkvæmd með öðrum hætti en átti að vera fyrr en við yfirferð á áramótauppgjörum. Sóknaraðili hafi fengið sendar viðskiptanótur vegna viðskiptanna þar sem skýrt hafi komið fram að tekið hafi verið af sjóði 9 til að fjármagna kaupin á skuldabréfunum. Umboðsmenn sóknaraðila hafi jafnframt fengið senda viðskiptanótu til félags síns Túngötu 16 hf. þar sem slíkt hið sama komi fram. Í viðskiptanótu til Túngötu 16 hf. segi að selt hafi verið í sjóði 9 en fyrir aftan þá setningu sé í sviga talan 8121 sem sé reikningsnúmer sóknaraðila. Túngata 16 hf. hafi á þessum tíma enga hlutdeild átt í sjóði 9 og því telji varnaraðili það útilokað að umboðsmönnum sóknaraðila hafi getað dulist að greiðslan hafi komið frá sóknaraðila. Sóknaraðili staðhæfi að kaup Túngötu 16 á skuldabréfunum hafi aldrei átt að vera fjármögnuð með inneign sóknaraðila í sjóði 9 og vísi til kvittunar sem hann sjálfur leggi fram. Varnaraðili telji að sóknaraðila hafi með þessari kvittun átt að verða þá þegar ljóst hvernig viðskiptin hafi farið fram og hafi átt að gera strax athugasemdir ef hann hafi talið að þau hafi ekki farið fram eins og fyrir hafi verið mælt. Sóknaraðili eða umboðsmenn hans hafi þó engar athugasemdir gert fyrr en með kröfulýsingu eða eftir að þeim hafi orðið ljóst að ef viðskiptin hefðu verið framkvæmd með öðrum hætti en gert hafi verið þá hefði tap þeirra, sem orðið hafi vegna bankahrunsins, verið minna. Eftir fall bankakerfisins hafi hlutabréf orðið nánast verðlaus en hlutdeildarskírteinishafar í sjóði 9 hafi fengið greitt sína hlutdeild þann 30. október 2008 miðað við 85,12% útgreiðsluhlutfall úr sjóðnum. Því væri það sóknaraðila og erfingjum hans án efa í hag ef viðskiptin hefðu farið fram með þeim hætti sem þeir nú lýsi og byggi á. Hins vegar séu þær lýsingar ekki einungis rangar heldur jafnframt alltof seint fram komnar. Varnaraðili telji að sóknaraðili hafi sýnt af sér mikið tómlæti með því að gera ekki athugasemdir fyrr, sér í lagi í ljósi þess að hann hafi vitað eða mátti vita að viðskiptin hafi farið fram með öðrum hætti en hann nú haldi fram.
Þá liggi fyrir að sóknaraðili eða umboðsmenn hans hafi reglulega skoðað yfirlit yfir verðbréfasafn sóknaraðila í heimabanka á árinu 2008, bæði fyrir og eftir að hin umþrættu viðskipti hafi átt sér stað. Þar hafi sóknaraðili mátt sjá að hlutabréf hans í varnaraðila hafi ekki verið seld eins og hann haldi fram að hafi átt að gerast. Þá hafi umboðsmenn sóknaraðila einnig skoðað reglulega yfirlit Túngötu 16 hf. í heimabanka sínum. Hafi sóknaraðila eða umboðsmönnum hans því ekki getað dulist hvernig viðskiptin hafi farið fram. Telji varnaraðili að þó talið yrði að starfsmaður hans hefði framkvæmt viðskipti þau sem hér sé um deilt með öðrum hætti en honum hafi verið uppálagt af sóknaraðila, þá hafi sóknaraðili glatað rétti sínum til bóta með því að gera ekki nægilega snemma athugasemd við viðskiptin. Þyki ljóst að á grundvelli reglna um tómlæti sé réttur sóknaraðila til skaðabóta fallinn niður vegna aðgerðarleysis enda eigi tjónþoli að hafa uppi kröfu um skaðabætur, ef hann telji sig hafa orðið fyrir tjóni, svo fljótt sem verða megi. Sóknaraðili hafi verið í þó nokkrum samskiptum við starfsmann varnaraðila eftir kaupin. Á þeim tíma hafi aldrei komið fram athugasemdir sem bent hafi til þess að hann væri ósáttur við störf eða ráðgjöf varnaraðila eða hvernig viðskiptin hafi verið framkvæmd. Sóknaraðili hafi haft fullt tækifæri til þess að gera slíkar athugasemdir þegar honum hafi borist viðskiptanótur, yfirlit eða hann hafi skoðað verðbréfaeign og fjármuni sóknaraðila og Túngötu 16 hf. í heimabanka sínum. Engar slíkar athugasemdir hafi komið fram fyrr en með kröfulýsingu sóknaraðila dags. 26. nóvember 2009. Varnaraðili kveðst einnig vísa hér til dóms Hæstaréttar í máli nr. 16/2001, þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að þar sem viðskiptamaður hefði fengið sent yfirlit yfir samninga, og ekki gert athugasemdir við viðskipti fyrr en rúmum tveimur árum eftir að til þeirra hafi verið stofnað, yrði hann allt að einu bundinn af viðskiptunum vegna athafnaleysis síns.
Varnaraðili vísar og til þess í greinargerð sinni að misræmis gæti í lýsingu atvika málsins af hálfu sóknaraðila í kröfulýsingu og greinargerð. Vísar varnaraðili til þess að þó tiltekið sé í 177. gr. laga nr. 21/1991 að í greinargerð sóknaraðili skuli koma fram til fullnaðar hverjar kröfur hann hafi uppi og á hverju þær séu byggðar, sé ekki unnt að fallast á að sóknaraðili geti þar komið að nýjum kröfum eða málsástæðum, án þess að slitastjórn varnaraðila hefði nokkur tök á því að sannreyna kröfurnar og þau atvik sem þar búa að baki, taka afstöðu til þeirra og eftir atvikum reyna að jafna ágreining um þær. Einnig væri slíkt til þess fallið að svipta aðra kröfuhafa rétti sínum til að mótmæla. Þeim málatilbúnaði sem sóknaraðili hafi haft uppi í greinargerð sinni hafi hvorki verið hreyft í kröfulýsingu né á fundi sem haldinn hafi verið samkvæmt 2. mgr. 120. gr. 21/1991 til þess að jafna ágreining málsaðila.
Varnaraðili kveðst byggja á, ef talið verði að skilyrði skaðabótaábyrgðar séu uppfyllt, að horfa verði til þess hvert sé tjón sóknaraðila. Við slíkt mat verði að taka mið af því hvernig farið hefði ef fjármunirnir hefðu enn verið í sjóði 9 en fyrir liggi að hlutdeildarskírteinishafar í sjóði 9 hafi ekki fengið fulla greiðslu heldur hafi fengið greitt sína hlutdeild þann 30. október 2008 miðað við 85,12% útgreiðsluhlutfall úr sjóðnum.
Varnaraðili kveðst hafna því að skaðabótaskylda hans verði reist á 14. gr. einkabankasamnings aðila eins og sóknaraðili byggi á. Vísar varnaraðili auk framangreindra sjónarmiða einnig til þess að það efnahagshrun sem hér varð feli í sér óviðráðanlegt tilvik í skilningi samningsins en á slíkum atvikum beri varnaraðili ekki skaðabótaábyrgð. Þá beri varnaraðili ekki ábyrgð á gengislækkun verðbréfa eða tapi á verðbréfum sem keypt hafi verið fyrir hönd viðskiptavinar.
Varnaraðili kveðst hafna því að sýnt sé að starfsmaður hans hafi sýnt af sér hlutdrægni í ráðgjöf sinni þannig að varðað geti við samning aðila um einkabankaþjónustu eða reglur laga nr. 161/2002. Hafnar varnaraðili því að sala á hlutabréfum að fjárhæð 30.000.000 krónur hefði getað haft nokkur þau áhrif á varnaraðila að máli geti skipt. Þá vísar varnaraðili og til að í 18. gr. samnings aðila um einkabankaþjónustu sé bent á að varnaraðili og/eða dótturfélög hans kunni í einstaka tilvikum að eiga beinna eða óbeinna, verulegra eða óverulegra hagsmuna að gæta í einstaka félögum og sjóðum sem fjárfest sé í hverju sinni fyrir viðskiptamann samkvæmt samningi um einkabankaþjónustu. Til þess að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra, tryggja óhlutdrægni og til tryggingar því að viðskiptavinir njóti jafnræðis um upplýsingar, verð og önnur viðskiptakjör hafi varnaraðili sett sér verklagsreglur. Hafnar varnaraðili því að sóknaraðili hafi sýnt fram á að umræddar verklagsreglur hafi verið brotnar í umræddum viðskiptum. Varnaraðili bendir og á að á þeim tíma sem um ræðir hafi verið virk viðskipti með bréf bankans og því hefði það verið leikur einn að selja þau ef það hefði verið ætlunin. Starfsmaður varnaraðila hefði í engum tilfellum staðið á móti slíkri ákvörðun sóknaraðila.
Varnaraðili kveður starfsmann sinn hafa ráðlagt sóknaraðila eftir bestu getu í þeim viðskiptum sem hér séu til skoðunar. Sóknaraðili reifi sjónarmið í greinargerð sinni um sérfræðiábyrgð varnaraðila en sleppi því alfarið að geta þess að hann hafi verið flokkaður sem fagfjárfestir og hafi haft lögmann sér til halds og trausts.
Starfsmenn varnaraðila hafi tekið á sig skyldur samkvæmt einkabankasamningnum um að veita ráðgjöf. Í slíkum tilvikum sé ekki hægt að gera aðrar kröfur en þær, að vinnan sé vel og fagmannlega af hendi leyst. Í þeim tilgangi hafi starfsmaður varnaraðila tekið við fyrirmælum frá umboðsmanni sóknaraðila um að framkvæma hin umþrættu viðskipti.
Þótt varnaraðili hafi reynt að veita ráðgjöf í þeim viðskiptum sem hér séu til skoðunar þá verði að athuga að hans hlutverk hafi ekki aðeins verið að veita ráðgjöf samkvæmt einkabankasamningi heldur einnig að verða við fyrirmælum viðskiptavinar, sbr. 12. gr. samnings aðila dags. 25. febrúar 2008. Einnig verði að halda því til haga að í 3. gr. samningsins komi fram að viðskiptavinur beri einn ábyrgð á fjárfestingarákvörðunum sínum.
Varnaraðili hafni því að hann hafi sýnt af sér saknæma háttsemi. Meginorsökin fyrir því að umræddar fjárfestingar sóknaraðila, sem hafi aðeins verið lítið brot af heildarfjárfestingum hans, hafi glatast hafi ekki verið varnaraðila að kenna. Varnaraðili hafi virt lög og reglur og vilja sóknaraðila. Orsök taps sóknaraðila sé ekki að rekja til ætlaðrar háttsemi varnaraðila.
Varnaraðili vísar loks til þess að sönnunarbyrðin um tilvist kröfunnar hvíli á sóknaraðila, sbr. meginreglu 117. gr. laga nr. 21/1991 varðandi form og efni kröfulýsingar og sönnunargagna sem kröfur eru studdar við. Þau gögn sem sóknaraðili hafi lagt fram kröfu sinni til stuðnings sýni að mati varnaraðila ekki fram á að krafan eigi rétt á sér.
Varnaraðili kveðst vísa til ákvæða laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum, meginreglna samninga- og kröfuréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga, skuldbindingargildi samninga og samningsfrelsi og almennra reglna skaðabótaréttar um skilyrði skaðabótaábyrgðar. Varnaraðili kveðst jafnframt vísa til þeirra laga og reglna sem nefnd séu í umfjöllun varnaraðila um málsástæður hér að ofan. Kröfu um málskostnað byggi varnaraðili á 130. gr., sbr. 129. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að auki sé vísað til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt á málskostnað.
V
Eins og sjá má nánar á því sem fyrr greinir komu tveir synir sóknaraðila, Haraldur Örn Jónsson og Bjarni Jónsson, fram fyrir hennar hönd í þeim viðskiptum sem hér skipta máli, en í málinu liggja fyrir allsherjarumboð frá sóknaraðila til þeirra beggja. Einnig sótti Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður fundi með þeim. Var stofnað til viðskiptanna við varnaraðila í því skyni að ávaxta fjármuni sóknaraðila en hún sat í óskiptu búi eftir eiginmann sinn sem látist hafði skömmu áður. Liggur fyrir að stór hluti eigna sóknaraðila voru hlutabréf í varnaraðila, en einnig átti hún umtalsverða inneign í peningamarkaðssjóðum.
Fyrir liggur að það var vilji umboðsmanna sóknaraðila að hluta af eignum sóknaraðila yrði ráðstafað til Túngötu 16 hf. þar sem nýta átti fjármunina til fjárfestinga, en umrætt félag mun vera í eigu þeirra bræðra. Tengdist þetta fyrirætlunum um fyrirframgreiðslu arfs, sem ekki þykir ástæða til að tíunda nánar hér. Þetta höfðu umboðsmenn sóknaraðila rætt við Guðmund Halldór Torfason starfsmann varnaraðila, en hann var aðaltengiliður sóknaraðila og Túngötu 16 hf. við varnaraðila. Eins og fyrr hefur komið fram voru gerðir samningar á þessum tíma um einkabankaþjónustu milli varnaraðila og sóknaraðila en einnig á milli varnaraðila og Túngötu 16 hf. Þá munu Haraldur Örn og Bjarni hafa hvor um sig gert slíka samninga á sama tíma. Var Guðmundur tengiliður varnaraðila í öllum tilvikum.
Liggur og fyrir að Guðmundur kynnti þeim Haraldi Erni og Bjarna þann fjárfestingarkost að kaupa skuldabréf útgefin af varnaraðila. Á þeim fundi var einnig staddur með þeim bræðrum Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður. Er og óumdeilt að í kjölfar fundarins voru kaupin samþykkt og staðfest að kaupa skyldi fyrir 30 milljónir króna. Þá liggur fyrir að til stóð að verja fjármunum sóknaraðila til kaupanna en umrædd skuldabréf skyldu keypt fyrir hönd Túngötu 16 hf. Ekki er heldur ágreiningur um að þetta gerði Guðmundur.
Ágreiningur aðila lýtur á hinn bóginn að því að til að fjármagna kaupin innleysti Guðmundur hluta af eign sóknaraðila í sjóði 9. Bar hann það fyrir dómi afdráttarlaust að þetta hefði hann gert á grundvelli ákvarðana sem teknar hefðu verið á fundi með Haraldi Erni, Bjarna og Ástráði Haraldssyni og hefðu síðar verið staðfestar með tölvuskeyti. Hafnaði hann því að hafa kynnt umræddan fjárfestingarkost sem tækifæri til að losa um hlutabréf í varnaraðila, enda hefðu kaupendur þessara bréfa greitt fyrir þau með ýmsum hætti. Guðmundur staðfesti að í aðdraganda þessa fundar hafi verið rætt um að selja bréf í varnaraðila en kvað menn hafa viljað halda að sér höndum þar sem verðið hefði verið lágt. Hann hafnaði því að hafa fengið bein fyrirmæli um að fjármagna kaup á umræddum skuldabréfum með söl á hlutabréfum í varnaraðila.
Haraldur Örn, Bjarni og Ástráður báru allir með sama hætti um að rætt hefði verið um að selja hlutabréf í varnaraðila einkum vegna þess hvað þau hlutabréf hefðu verið hátt hlutfall af heildareignum sóknaraðila. Hafi hugmyndin verið að dreifa áhættu með því að kaupa hlutabréf í öðrum félögum. Starfsmaður varnaraðila hafi á hinn bóginn komið með þá hugmynd að kaupa fyrrnefnd skuldabréf. Hafi hann kynnt það svo fyrir þeim að um væri að ræða tilboð til hluthafa varnaraðila sem gæti gefið þeim færi á að selja hlutabréf í varnaraðila til kaupa á umræddum skuldabréfum, en bréfin hafi verið m.a. með ákvæði um breytirétt yfir í hlutabréf að fimm árum liðnum. Hafi þetta því litið út sem tækifæri til að minnka hlutabréfaeign í varnaraðila en halda samt möguleika á að eignast hlutdeild í hugsanlegri verðhækkun slíkra hlutabréfa. Allir báru þeir um að það hafi verið forsenda umræddra hugmyndar að hlutabréf í varnaraðila yrðu seld til að fjármagna kaup skuldabréfanna.
Til stuðnings því að ekki hafa verið hugmyndin að innleysa fjármuni úr sjóði 9 til að fjármagna umrædd kaup hefur sóknaraðili vísað til þess að umrædd viðskipti hafi átt sér stað í samhengi við fyrirhugað framsal eigna sóknaraðila til Túngötu 16 hf. Sjá megi af skjölum málsins að þar hafi einungis átt að framselja hlutabréf í eigu sóknaraðila til Túngötu 16 hf. en ekki hafi átt að framselja eignir sóknaraðila í peningamarkaðssjóðum. Megi sjá það að fyrsta uppkast af framsali innihaldi ákvæði um peningamarkaðssjóði en athugasemdir hafi verið gerðar við það sem leitt hafi til þess að það hafi verið leiðrétt og umræddir sjóðir teknir út. Þetta styðji að aldrei hafi verið ætlunin að framselja eignir sóknaraðila í sjóði 9 og því verið óheimilt að ráðstafa þeirri eign yfir til Túngötu 16 hf.
Með tölvuskeyti Guðmundar Torfasonar 14. mars 2008 fylgdi kynning á fyrrnefndu skuldabréfi ásamt fyrirspurn hans um hvort kaupa ætti bréf. Einnig fylgdi framsal þar sem tíundað var að sóknaraðili framseldi Túngötu 16 hf. nánar greind verðbréf. Eru í framsalinu talin upp hlutabréf m.a. í varnaraðila og þau þar sögð að markaðsvirði 133.823.895 krónur. Einnig er tiltekin eign í sjóði 5 og sjóði 9 samtals að fjárhæð 175.812.728 krónur. Þessum tölvupósti svarar Bjarni Jónsson samdægurs og samþykkir að keypt verði bréf fyrir 30 milljónir króna. Ekki koma fram í tölvuskeyti hans fyrirmæli um hvar taka skuli þessa peninga. Í málinu liggja fyrir tvær viðskiptanótur dagsettar báðar 28. mars 2008. Eru þær báðar sendar á Bergstaðastræti 44 í Reykjavík. Önnur er tilkynning til Túngötu 16 hf. um að félagið hafi keypt skuldabréf af varnaraðila og hafi greitt samtals fyrir það 30.044.143 krónur. Þar er einnig áletrunin „GLB CONV 04 13 keypt og sj 9 selt (8121)“. Hin viðskiptanótan er stíluð á sóknaraðila og þar tilgreint að hún hafi innleyst sjóðsbréf í sjóði 9 og samtals fengið greiddar 30.044.999 krónur. Þar er einnig áletrunin „glb conv keypt og sj 9 selt“. Þann 1. apríl 2008 eiga Bjarni og Guðmundur í tölvuskeytasambandi. Kallar Bjarni þar eftir nýju framsali eignarréttar sóknaraðila í samræmi við fyrra samtal. Framsalið mun hafa verið sent sem viðhengi sama dag. Liggur afrit þess fyrir í málinu. Má þar m.a. sjá að eignir í sjóðum 5 og 9 hafa verið fjarlægðar. Þá er og tilgreint markaðsverð hlutabréfa í varnaraðila og er það sama tala og í fyrra framsali.
Eins og að framan er rakið gáfu umboðsmenn sóknaraðila varnaraðila fyrirmæli um að kaupa fyrir hönd Túngötu 16 hf. skuldabréf fyrir því sem næst 30 milljónir króna af varnaraðila og greiða fyrir skuldabréfið með eignum sóknaraðila. Töldu umboðsmenn sóknaraðila að vafalaust hefði verið að fjármagna hefði átt kaupin með því að selja hlutabréf í varnaraðila sem sóknaraðili átti. Starfsmaður varnaraðila sem tók við fyrirmælunum kveður þau hafa verið framkvæmd í samræmi við óskir umboðsmanna sóknaraðila.
Hin ætlaða saknæma háttsemi felst að mati sóknaraðila í því að starfsmaður varnaraðila nýtti ekki þá fjármuni sem honum var boðið að gera til að eiga í umræddum viðskiptum og telur hann þetta hafa valdið tjóni hans. Fyrir liggur að það var ætlun umboðsmanna sóknaraðila að ráðstafa umtalsverðum verðmætum í eigu sóknaraðila til Túngötu 16 hf. Verður ekki séð að sú ráðstöfun sem starfsmaður varnaraðila viðhafði 28. mars 2008 hafi í þessu samhengi leitt til nokkurs tjóns fyrir sóknaraðila þegar hún var framkvæmd. Verður og að fallast á með varnaraðila að þegar litið er til þeirrar viðskiptanótu sem send var á heimilisfang sóknaraðila, sem jafnframt var heimilisfang Túngötu 16 hf., geti sóknaraðila, eða umboðsmönnum hennar, ekki hafa dulist að umrædd viðskipti hafi verið framkvæmd með innlausn hlutdeildarskýrteina í sjóði 9. Þetta hefði einnig átt að verða þeim ljóst þegar hið síðara framsalsblað var sent en þar kom fram að verðmæti hlutabréfa í varnaraðila hafði ekki lækkað frá hinu fyrra framsali, sem hefði verið raunin ef kaupin hefðu átt sér stað með sölu umræddra bréfa. Er það mat dómsins að þrátt fyrir að fallist sé á með sóknaraðila að varnaraðili sé sérfræðingur á sviði fjármálaþjónustu og sæti af þeim sökum ströngu sakarmati, sé ekki unnt að líta fram hjá þýðingu þess að af hans hálfu voru sendar tilkynningar til sóknaraðila þar sem umræddum viðskiptum var lýst. Getur sóknaraðili ekki með réttu talið sér ókunnugt um efni slíkra tilkynninga. Mátti varnaraðili því treysta því að þar sem ekki bárust athugasemdir vegna viðskiptanna að þau hefðu verið framkvæmd í samræmi við óskir sóknaraðila. Er hér og rétt að hafa í huga að tjón sóknaraðila varð ekki fyrr en við fall varnaraðila í októbermánuði 2008, enda fólst ekki í aðgerðum starfsmanns varnaraðila ráðstöfun á verðmætum í eigu sóknaraðila umfram það sem hann hafði fengið fyrirmæli um frá umboðsmönnum sóknaraðila að nota í þágu Túngötu 16 hf.
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður ekki talið að sóknaraðili hafi sýnt fram á að varnaraðili beri skaðabótaábyrgð á tjóni hans. Ber því þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfu sóknaraðila.
Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan, að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 en uppsaga úrskurðarins hefur dregist nokkuð vegna embættisanna dómara.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kröfu sóknaraðila, dánarbús Kristínar Haraldsdóttur, sem við slitameðferð varnaraðila, Glitnis hf., hefur númerið CL20091125-3859, er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.