Hæstiréttur íslands
Mál nr. 668/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
- Sjálfræði
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. september 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 10. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. september 2016, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í tvö ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingunni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og er hún ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 148.800 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. september 2016.
Með beiðni, dagsettri 16. september 2016, sem barst Héraðsdómi Reykjaness sama dag, hefur Fjölskylduþjónusta Hafnarfjarðar, kt. [...], [...], [...], krafist þess að A, kt. [...], [...], [...], verði sviptur sjálfræði í tvö ár.
Varnaraðili mótmælir kröfunni og krefst þess aðallega að henni verði hafnað, en til vara að sjálfræðissviptingunni verði markaður skemmri tími en krafist sé af sóknaraðila.
Krafa sóknaraðila er byggð á a-lið 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 og kveðst sóknaraðili setja hana fram vegna tilmæla sérfræðilæknis, sbr. d-lið 2. tölulið 7. gr. sömu laga.
Í beiðni sóknaraðila kemur fram að varnaraðili hafi verið öryrki vegna geðsjúkdóms frá árinu 2014. Hann sé einhleypur og barnlaus, en nánasti aðstandandi hans sé [...] sem kunnugt sé um kröfuna. Varnaraðili hafi lagst inn á geðdeildir átta sinnum á undanförnum fimm árum vegna ýmiskonar geðrænna einkenna. Hann hafi fyrst lagst inn á geðdeild í mars árið 2011 í bráðu geðrofi og þá hafi hann gert tilraun til sjálfsvígs í aðdraganda innlagnar. Hann hafi aftur verið lagður inn á geðdeild í október 2011, en fyrir innlögn hafi varnaraðili hætt að taka geðrofslyf sem orðið hafi til þess að geðrofseinkenni tóku að þróast að nýju. Hann hafi verið mjög hræddur og æstur við innlögn og m.a. talið að hann væri [...] og að illir andar væru að grafa í höfði sínu. Hann hafi svarað vel meðferð með geðrofslyfjum, en ekki taka of mikið af þeim þar sem hann hafi viljað halda í ákveðin einkenni og ranghugmyndir. Varnaraðili hafi næst verið lagður inn á geðdeild í mars 2012 þar sem hann hafi enn hætt að taka lyf og veikst á ný. Hann hafi sótt endurhæfingu á dagdeild í Laugarási frá 26. mars 2012 til 31. ágúst 2012, en það sé endurhæfingardeild á vegum geðsviðs Landspítala, háskólasjúkrahúss. Snemma sumars það ár hafi hann hætt að taka lyf og þá veikst á ný og þurft að leggjast inn á geðdeild í kjölfarið. Þá hafi þurft að grípa til nauðungarvistunar í 21 dag, en varnaraðili hafi verið búinn að segja upp leiguíbúð sinni þar sem hann hafi búist við heimsendi og verið mjög hræddur og æstur á köflum. Eftir þetta hafi hann fengið meðferð í formi forðasprautna og svarað þeirri meðferð vel, en hætt meðferð að eigin ósk í júlí 2013. Hann hafi þá veikst fljótlega aftur og í nóvember 2013 hafi enn þurft að grípa til nauðungarvistunar í 21 dag og hafi hann legið á geðdeild til 27. desember það ár. Aftur hafi komið til innlagnar 17. janúar 2014 vegna sömu sjúkdómseinkenna og áður. Í ljós hafi komið að A hafði nánast aldrei tekið geðrofslyf í töfluformi í fyrri sjúkdómslegum, þ.e. hann hafði tekið við töflunum, en ekki kyngt þeim heldur spýtt í ruslið. Hafi hann talið að með þessu hefði hann sýnt fram á að hann þyrfti ekki á lyfjum að halda. Hann hafi aftur verið nauðungarvistaður í 21 dag og meðferð hafin með forðasprautum.
Í beiðni sóknaraðila segir að varnaraðili hafi verið í eftirfylgd hjá samfélagsgeðteyminu undanfarin tvö ár og mætt reglulega þangað í eftirlit. Haustið 2014 hafi verið skipt um lyf hjá honum vegna aukaverkana og hafi hann lagst sjálfviljugur inn á geðdeild í desember 2014 vegna svefnleysis, vanlíðunar, sjálfvígshugsana og vaxandi heyrnarofskynjana, og hafi þá aftur verið hafin meðferð í töfluformi.
Í maí 2016 hafi farið að bera á aðsóknarkennd hjá varnaraðila, þ.e. hann hafi orðið spenntari, talið sig vera að semja tónlist sem aðrir vildu komast yfir o.fl. Þá hafi hann talið að verið væri að ráðast inn í íbúð sína um nætur. Hann hafi þó sagst taka lyfin sín reglulega á kvöldin. Áhyggjur af varnaraðila hafi aukist um sumarið, en hann hafi farið að verða ógnandi í hegðun við íbúa í húsinu þar sem hann hafði herbergi á leigu og hafi hann að lokum misst herbergið af þessum sökum. Hann hafi komið 26. ágúst 2016 á bráðamóttöku geðdeildar í fylgd lögreglu eftir að hafa sýnt systur sinni ógnandi hegðun án þess að átta sig á veikindum sínum. Hann hafi verið metinn í bráðu geðrofi og verið lagður inn á geðdeild og nauðungarvistaður í 21 dag hinn 30. ágúst 2016. Hann hafi kært ákvörðun um nauðungarvistun, en hún hafi verið staðfest með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 2. september 2016.
Með beiðni sóknaraðila fylgdi vottorð B, yfirlæknis bráðageðdeildar 32C á Landspítala háskólasjúkrahúsi, dags. 14. september 2016. Þar segir að varnaraðili hafi verið mjög ósáttur við lyfjagjöf meðferðaraðila á geðdeild, en varnaraðili telji sig ekki vera veikan. Hann hafi áhyggjur af því að verið sé að gefa honum lyf sem hann þurfi ekki á að halda, og telji sig hafa sýnt fram á að hann sé ekki veikur. Hann hafi slitið samskiptum við fjölskyldu sína, [...], sem hafi verið hans helstu stuðningsaðilar.
Í vottorðinu segir einnig að sjúkdómseinkenni varnaraðila hafi m.a. verið heyrnarofskynjanir, en hann hafi álitið að verið væri að stela hugmyndum úr höfði hans og lesa hugsanir hans. Þá hafi hann ætlað að ráðast á djöfulinn og drepa hann, haldið sig vera [...] og að hann væri að semja tónlist eða bækur sem aðrir vildu komast yfir o.fl. Þá segir í vottorðinu að varnaraðili uppfylli greiningarskilmerki fyrir geðklofasjúkdóm og vegna veikindanna hafi hann nú bæði misst húsnæði sitt og slitið samskiptum við fjölskyldu sína. Hann hafi ekkert sjúkdómsinnsæi og beri ekkert skynbragð á það að hann þurfi að taka lyf. Varnaraðili hafi þó alltaf svarað lyfjameðferð vel og getað stundað vinnu þegar vel hefur gengið. Í vottorðinu segir að fullreynt sé að mati læknisins að fá varnaraðila til undirgangast meðferð sjálfviljugan og nauðsynlegt sé að svipta hann sjálfræði í tvö ár svo koma megi við nauðsynlegri lyfjameðferð. Varnaraðili þurfi lengri tíma til að ná sér af veikindunum nú, og meðferð með forðalyfjum í sprautuformi sé honum nauðsynleg til að tryggja bata hans
B yfirlæknir og C geðlæknir, sem annast hefur meðferð varnaraðila síðustu daga, gáfu bæði símaskýrslu fyrir dómi og staðfesti B áðurgreint vottorð sitt. Þá staðfestu þau bæði að varnaraðili væri ekki til samvinnu um áframhaldandi læknismeðferð. Þau töldu bæði að varnaraðili væri ófær um að ráða persónulegum högum sínum vegna alvarlegs geðsjúkdóms og því væri óhjákvæmilegt að krefjast þess að hann yrði sviptur sjálfræði.
Niðurstaða
Í ljósi þess sem að framan er rakið auk fyrirliggjandi gagna telur dómari að sýnt hafi verið fram á að uppfyllt séu skilyrði a-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 til að unnt sé að fallast á kröfu sóknaraðila í málinu eins og hún er fram sett.
Samkvæmt 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 150.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Varnaraðili, A, kt. [...], [...], [...], er sviptur sjálfræði í tvö ár frá deginum í dag að telja.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.