Hæstiréttur íslands

Mál nr. 139/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Aðild
  • Ómerking úrskurðar héraðsdóms
  • Heimvísun


Þriðjudaginn 29

 

Þriðjudaginn 29. maí 2001

Nr. 139/2001.

 

Kaldasel ehf.

(Árni Grétar Finnsson hrl.)

gegn

Desember ehf.

(enginn)

 

Kærumál. Dómkvaddir matsmenn. Aðild. Ómerking úrskurðar héraðsdómara. Heimvísun.

 

Undir rekstri máls sem D ehf. hafði höfðað gegn K ehf. var aflað matsgerðar og síðar yfirmats. Af hálfu K ehf. var mótmælt kröfum undirmatsmanna um greiðslu fyrir matsgerð þeirra og viðbótarmat. Ákveðið var að taka þetta atriði fyrir við aðalmeðferð málsins, þar sem undirmatsmennirnir komu meðal annarra fyrir dóm til skýrslugjafar. Með úrskurði héraðsdóms var kröfu K ehf. ,,um lækkun á reikningi undirmatsmanna“ hafnað. Hæstiréttur ómerkti þann úrskurð og vísaði málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar með þeim rökum að undirmatsmenn hefðu ekki átt aðild að ágreiningi um fyrrgreinda kröfu K ehf., svo sem nauðsyn bar til, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í dómasafni 1998 bls. 2281, auk þess sem ljóst þótti að viðhlítandi málflutningur um þetta efni gæti ekki hafa komið fram af hendi matsmannanna við munnlega skýrslugjöf þeirra fyrir dómi.        

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir. 

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. apríl 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. mars 2001, þar sem leyst var úr ágreiningi um þóknun handa matsmönnum, sem dómkvaddir voru að beiðni sóknaraðila undir rekstri máls milli hans og varnaraðila. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til nýrrar meðferðar, en til vara að þóknun matsmanna verði lækkuð verulega. 

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

I.

Málið á rætur að rekja til þess að sóknaraðili keypti með samningum við varnaraðila 22. apríl og 4. júní 1998 tvo nánar tilgreinda eignarhluta í fasteigninni Dalvegi 16b í Kópavogi. Nokkrar tafir urðu á afhendingu húsnæðisins frá því, sem ráðgert var í kaupsamningum, auk þess sem ágreiningur reis um hvort það hafi verið afhent í umsömdu ástandi. Sóknaraðili hélt að sér höndum um greiðslu kaupverðs, þar sem hann taldi sig hafa orðið fyrir tjóni af báðum þessum ástæðum. Með bréfi 10. apríl 1999 krafðist varnaraðili greiðslu þess, sem gjaldfallið var, að viðlagðri riftun kaupanna. Þessu svaraði sóknaraðili 19. sama mánaðar með boði um að inna af hendi þá fjárhæð, sem standa mundi eftir af gjaldföllnum greiðslum þegar skaðabætur handa honum hefðu verið dregnar frá. Kröfu um skaðabætur kynnti hann síðan varnaraðila með bréfi 26. apríl 1999. Sama dag lýsti varnaraðili yfir riftun kaupanna um annan eignarhlutann vegna vanefnda sóknaraðila, en á því stigi virðast greiðslur samkvæmt kaupsamningi um hinn eignarhlutann ekki hafa verið í vanskilum. Sóknaraðili lagði 28. sama mánaðar inn á geymslureikning þá fjárhæð, sem gjaldfallin var samkvæmt kaupsamningi aðilanna, að frádregnum áðurnefndum skaðabótum. Mótmælti hann jafnframt riftun kaupanna. Í framhaldi af þessu urðu nokkur bréfaskipti milli aðilanna, en ekki tókst að jafna ágreining þeirra.

Varnaraðili höfðaði mál gegn sóknaraðila 19. október 1999, þar sem aðallega var krafist viðurkenningar á riftun kaupanna um annan eignarhlutann og að sóknaraðila yrði gert að viðlögðum dagsektum að rýma þann eignarhluta og að fá afmáðan úr þinglýsingabók kaupsamning um hann, svo og að hann yrði dæmdur til að greiða nánar tiltekna fjárhæð í húsaleigu. Til vara krafðist varnaraðili greiðslu alls þess, sem í vanskilum var samkvæmt kaupsamningi. Þegar málið var tekið fyrir 1. desember 1999 lagði sóknaraðili fram beiðni um að dómkvaddir yrðu menn til að meta til verðs nánar tiltekna annmarka á báðum eignarhlutunum ásamt rekstrartjóni hans vegna afhendingardráttar og missi leigutekna af hluta húsnæðisins. Á dómþingi 1. febrúar 2000 voru dómkvaddir í þessu skyni Hjalti Sigmundsson byggingartæknifræðingur og húsasmíðameistari og Einar S. Hálfdánarson hæstaréttarlögmaður og löggiltur endurskoðandi. Ódagsett matsgerð þeirra var lögð fram í þinghaldi 13. október 2000. Við sama tækifæri krafðist sóknaraðili þess að lagt yrði fyrir matsmennina að rökstyðja frekar tiltekin atriði í niðurstöðum sínum, svo og að meta til viðbótar rekstrartjón, sem ekki var leitað mats á í upphafi. Var sömu matsmönnum falið þetta verk. Sóknaraðili lagði fram í málinu 30. október 2000 nýja matsgerð, sem í flestum atriðum var samhljóða þeirri fyrri, en fékk síðan dómkvadda 19. desember 2000 þrjá menn til yfirmats um nánar tiltekin atriði. Matsgerð þeirra var lögð fram í þinghaldi 20. febrúar 2001. Þar kom fram af hálfu sóknaraðila að hann mótmælti kröfum undirmatsmanna um greiðslu fyrir matsgerð þeirra og viðbótarmat, en samkvæmt reikningum, sem hann lagði þá fram, áskildi matsmaðurinn Hjalti Sigmundsson sér greiðslu á 529.125 krónum og Einar S. Hálfdánarson á 493.668 krónum. Ákveðið var að taka þetta atriði fyrir við aðalmeðferð málsins 22. febrúar 2001, þar sem undirmatsmennirnir komu meðal annarra fyrir dóm til skýrslugjafar. Var hinn kærði úrskurður kveðinn upp samhliða dómi í málinu 29. mars 2001, en gætt var þá ákvæðis síðari málsliðar 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Með úrskurðinum var hafnað kröfu sóknaraðila „um lækkun á reikningi undirmatsmanna“.

II.

Hinn kærði úrskurður gekk sem liður í rekstri áðurnefnds máls milli sóknaraðila og varnaraðila. Eins og farið var fyrir héraðsdómi með kröfu sóknaraðila um að dómurinn tæki ákvörðun um þóknun undirmatsmanna áttu þeir ekki aðild að ágreiningi um hana, svo sem nauðsyn bar til, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í dómasafni 1998 bls. 2281. Þess í stað var aðild gegnt sóknaraðila sem áður greinir á hendi varnaraðila, sem virðist ekkert hafa látið ágreininginn til sín taka. Hvorki voru ritaðar greinargerðir um ágreiningsefnið né lögð fram annars konar skrifleg gögn um það, að frátöldum reikningum matsmanna og skriflegri tímaskýrslu annars þeirra með nokkrum skýringum, heldur virðast þeir eingöngu hafa gefið munnlegar skýringar á reikningum sínum þegar þeir komu fyrir dóm við aðalmeðferð málsins, svo sem getið er um í hinum kærða úrskurði. Þótt endurrit af þeim skýrslum hafi ekki verið lagðar fyrir Hæstarétt má ljóst vera að viðhlítandi málflutningur um þetta efni getur ekki hafa komið fram af hendi matsmannanna við munnlega skýrslugjöf þeirra fyrir dómi.

Af þeim ástæðum, sem að framan greinir, verður að ómerkja hinn kærða úrskurð og leggja fyrir formann fjölskipaða héraðsdómsins, sbr. síðari málslið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 91/1991, að taka á ný til úrlausnar í sérstöku máli milli sóknaraðila og fyrrnefndra matsmanna ágreining um þóknun þeirra síðarnefndu fyrir störf sín.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. mars 2001.

Mál þetta sem þingfest var 27. október 1999, var tekið til dóms 22. febrúar 2001.  Stefnandi er Desember ehf., kt. 470296-2329, Smiðjuvegi 11, Kópavogi, en stefndi er Kaldasel ehf., kt. 681287-1249, Undralandi 4, Reykjavík.

                Dómkröfur aðalstefnanda.

                1.                Að viðurkennd verði með dómi riftun stefnanda á kaupsamningi dagsettum 22. apríl 1998 á milli stefnanda sem seljanda og stefnda sem kaupanda á eignarhluta merktum 0101 í húseigninni nr. 16b við Dalveg í Kópavogi, en stefnandi rifti kaupunum með bréfi dagsettu 26. apríl 1999.

                2.                Að stefnda verði gert að rýma húsnæðið að viðlögðum 20.000 króna dagsektum innan 15 daga frá uppkvaðningu dóms.

                3.                Að stefnda verði gert að láta afmá kaupsamninginn úr veðmálabókum að viðlögðum 5.000 króna dagsektum innan 15 daga frá uppkvaðningu dóms.

                4.                Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 4.434.939 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá þingfestingar­degi til greiðsludags og að vaxtavextir samkvæmt 12. gr. sömu laga leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 27. október 2000.

                Til vara krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða 23.645.289 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 1. október 1998 til greiðsludags og að vaxtavextir samkvæmt 12. gr. sömu laga leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. október 1999.

                Stefnandi krefst málskostnaðar bæði í aðal- og varakröfu að mati dómsins ásamt virðisaukaskatt á dæmdan málskostnað.

                Dómkröfur aðalstefnda.

                Aðalstefndi gerir þær kröfur aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum aðalstefnanda fyrir utan varakröfu að hluta.  Til vara krefst aðalstefndi lækkunar á fjárkröfum aðalstefnanda vegna aukaverka, húsaleigu, dagsekta, lækkunar á varakröfu aðalstefnanda um greiðslu eftirstöðva kaupverðs og lækkunar á dráttarvaxtakröfu aðalstefnanda vegna eftir­stöðva kaupverðs.  Loks krefst aðalstefndi málskostnaðar úr hendi aðalstefnanda.

                Dómkröfur í gagnsök.

                Gagnstefnandi, Kaldasel ehf., krefst þess aðallega að gagnstefnda, Desember ehf., verði gert að gefa út afsal fyrir eignarhluta 0101, Dalvegi 16b, Kópavogi, að viðlögðum dagsektum að mati dómsin gegn greiðslu 13.289.519 krónum.

                Fari svo að dómurinn fallist á aðalkröfu aðalstefnanda um riftun, krefst gagn­stefnandi þess að gagnstefndi verði dæmdur til að greiða 3.341.949 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af 1.210.000 frá 1. nóvember 1998, af 1.923.400 krónum frá 13. júlí 1999 og af 2.762.786 krónum frá 23. nóvember 1999 til greiðsludags og að krafa um húsaleigu verði lækkuð og dagsektir verði lækkaðar.

                Gagnstefndi, Desember ehf., gerir þá kröfu að hann verði sýknaður af öllum kröfum gagnstefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi gagn­stefnanda.

                Undir rekstri málsins mótmælti gagnstefnandi matskostnaði undirmats­mannanna Einars S. Hálfdánarsonar hæstaréttarlögmanns og löggilts endurskoðanda og Hjalta Sigmundssonar byggingatæknifræðings og húsasmiðs og krafðist úrskurðar dómsins um það atriði, sbr. 1.mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991.  Telur gagnstefnandi matskostnað of háan.

                Við aðalmeðferð málsins komu matsmenn fyrir dóm og svöruðu spurningum gagnstefnanda, m.a. um matskostnað.  Gáfu matsmenn upp tímafjölda og tímagjald varðandi verkið og skýrðu reiknisgerð sína að öðru leyti.

                Í matsbeiðni er óskað mats á frágangi og skilum tveggja samliggjandi iðnaðar­húsa.  Matið er víðfem t og í mörgum liðum varðandi byggingarþáttinn.  Ljóst er að mat á rekstrartjóni krefst könnunar á bókhaldi sem getur verið tímafrekt.  Þegar allt þetta er virt telja dómendur að gagnstefnandi hafi ekki nægilega sýnt fram á að reikingur matsmanna sé ósanngjarn.

                Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan ásamt meðdómsmönnunum Guðmundi Óskarssyni löggiltum endurskoðanda og Vífli Oddssyni verkfræðingi.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Kröfu gagnstefnanda, Kaldasels ehf., um lækkun á reikningi undirmatsmanna er ekki tekin til greina.